12.12.2021 12:15

S.k. Hans SH 40. NVQG / LBKH.

Skonnortan Hans var smíðuð hjá Skibsbygmester Jörgen Ring Andersens Træskibsværft í Svendborg í Danmörku árið 1885 fyrir Carl Peter Christensen skipstjóra í Svendborg. Eik. 39,41 brl, 30 nettó. Smíðanúmer 41. 21,44 x 5,09 x 2,23 m. Dýpt miðskips 7,3 ft. (dönsk). Seld 1889, Frederick Krull Hansen í Marstal í Danmörku. Seld 1899, R.P. Hansen í (Mullerup), Korsör í Danmörku. Seld um aldamótin 1900 (1902-03 ?) Leonhard Tang & Sön í Kaupmannahöfn og á Ísafirði. Hans var að mestu  notaður til flutninga fyrir verslun hans hér við land. Leonhard Tang reisti verslunarhús í Stykkishólmi árið 1890 og mun skipið trúlega hafa verið mest notað við verslunina í Stykkishólmi, enda fékk Hans skráningarnúmerið SH 40 snemma á öldinni. Árið 1905 var sett 8 ha. hjálparvél í Hans og eftir það var hann oftast nefndur "mótor" Hans. Árið 1918 varð Árni Riis, (fæddur á Ísafirði), sameignarmaður Tangs að versluninni og hét hún eftir það Tang & Riis en varð gjaldþrota í kreppunni upp úr 1930. Ný vél (1920) 22 ha. Alpha vél. Sigurður Ágústsson þingmaður og síðar útgerðarmaður í Stykkishólmi kaupir verslun Tang & Riis hinn 18 febrúar 1933 og eignast þar með skonnortuna Hans. Mun þetta vera stofndagur útgerðar og fiskvinnslu Sigurðar Ágústssonar hf í Stykkishólmi. Skonnortan Hans var talin ónýt og rifin árið 1935.


Skonnortan Hans við legufæri í höfninni í Stykkishólmi snemma á síðustu öld. Stykkið sem Stykkishólmur er kenndur við er hægramegin á myndinni og Súgandisey í baksýn. Erlent kaupskip austan við eyna. Lituð ljósmynd á gömlu póstkorti.


Skonnortan Hans í höfninni í Stykkishólmi. Stykkið nær og Súgandisey í baksýn. Gamalt póstkort.

     Verslunarveldi Leonhard Tang                 og gosdrykkjaframleiðsla

Merkilegur fundur varð á Ísafirði í byrjun síðustu viku er gamlar flöskur og lóðir fundust í gömlu húsi. Lóðirnar eru talin vera frá því um miðja síðustu öld en flöskurnar teljast enn eldri og merkilegri. Önnur þeirra er merkt sem hindberja límonaði frá Tangsverslun á Ísafirði en hin er gömul bjórflaska frá Carlsberg og er hakakrossinn á miðjum miða. "Leonhard Tang var með verslun á Ísafirði á seinni hluta 19. aldar og henni tilheyrði gosdrykkjaverksmiðja. Svo fundum við einnig bjórflösku sem er athyglisverð fyrir það að á miðjum miðanum er stór hakakross. Við héldum fyrst að hún væri frá seinni heimstyrjöldinni en við ræddum við sögufróðari menn sem telja að hún sé enn eldri, en hakakrossinn var notaður mikið af Dönum áður fyrr, enda merkilegt tákn hjá Ásatrúarmönnum", segir Úlfar Ágústsson einn fundarmannanna. Auk þess fundust nokkrir lóðarstokkar bæði fyrir minni og stærri báta. Einn stokkurinn er merktur Andvara sem var skip smíðað af Marzellíusi Bernharðssyni fyrir Suðureyri.
Húsið sem munirnir fundust í er að Aðalstræti 37 og var nýlega keypt af Hamraborg. Það var byggt um 1835 og stækkað árið 1880. Bæjarins besta hafði samband við Jón Pál Halldórsson fyrrum formann Sögufélags Ísfirðinga vegna flöskufundarins. Jón Páll segir það engum vafa undirorpið að flöskufundurinn sé stórmerkilegur. Við ræddum síðan aðeins verslunarveldið sem Leonhard Tang rak hér í Hæstakaupstað. "Þetta var gríðarlega stórt verslunarfyrirbæri með mikil umsvif en þar var til að mynda fiskverkun, verslun, vélsmiðja og fjölþætt starfsemi", segir Jón Páll. Við vildum að sjálfsögðu fara aðeins betur ofan í saumana á því hverslags framleiðsla hafi átt sér þar stað þar sem að flöskufundurinn vekur marga til umhugsunar um það og einnig vita aðeins meira um starfsemina. "Það er talið líklegast að verksmiðjan hafi tekið til starfa 1901 eftir að vatnsveita var lögð niður á eyrina og Ísfirðingar áttu kost á heilnæmu og góðu vatni. "Þess má til gamans geta að límonaðið sem hér var framleitt var talið það besta sem finna mátti hér við land og voru gæðin rakin til vatnsins úr þessari fyrstu vatnsveitu landsins sem þótti með eindæmum gott. Flaskan sem fannst innhélt forðum Hindberjalímonaði og hlýtur það að teljast til drykkja sem voru af hinni vanalegu framleiðslu því Jón Páll gat frætt okkur um það að hann vissi til þess að á tímabili var Leonhard Tang að bæta við framleiðslu sína og bættust þá við eftirfarandi tegundir: Kampavínslímonaði, Keisaralímonaði og Búalímonaði.
Ekki var bara framleitt límonaði í ýmsum útfærslum í Hæstakaupstað en þar var einnig framleiddur brjóstsykur og hétu tegundirnar Bismark og Kongen af Danmark. Á sama tíma og Tang rak veldi sitt hér á Ísafirði var hann með rekstur í Stykkishólmi í samstarfi með J.M Riis, keyptu þeir þangað bæði gos og bolsíur frá Ísafirði í beinum siglingum. Meðal þeirra sem störfuðu þarna við framleiðslu á gosi og sælgæti var fyrstu tvo áratugi síðustu aldar var Guðjóna Ágústa Magnúsdóttir fósturmóðir Ingvars Jónssonar sem var faðir Sigurðar Th. Ingvarsson og Stellu Ingvarsdóttur sem eru Ísfirðingum vel kunn. Það er ljóst að flaskan sem áður innihélt Hindberjalímonaði og var framleidd í Hæstakaupstað á Ísafirði er mikill fengur fyrir bæjarbúa að hafa hér áþreifanlega hluti úr sögu staðarins sem auðveldar það til muna að halda henni lifandi. 

Bæjarins besta. 28 september 2006.

Flettingar í dag: 217
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 697756
Samtals gestir: 52748
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 09:16:49