Blogghistorik: 2020 Denna post är låst. Klicka för att öppna.

30.08.2020 16:58

L.v. Alden RE 264. LBSF / TFBE.

Línuveiðarinn Alden RE 264 var smíðaður í Moss í Noregi árið 1907. Stál 111 brl. 175 ha. 2 þennslu gufuvél. Anton Jacobsen útgerðarmaður í Reykjavík keypti skipið frá Noregi í janúar árið 1925, hét áður Svalen. Selt 20 janúar árið 1927, Fiskveiðahlutafélaginu Hrólfi í Reykjavík, sama nafn og númer. Skipið var selt 27 febrúar 1931, Samvinnuútgerðinni í Stykkishólmi, skipið hét Alden SH 1. Selt 27 mars 1940, Hlutafélaginu Fossi í Hafnarfirði, skipið hét Alden GK 247. Selt 3 febrúar 1945, Hlutafélaginu Búa á Dalvík, hét Alden EA 755. Skipið var selt í brotajárn til Hollands í júní árið 1956.


Alden RE 264 að landa síld á Siglufirði.                              (C) Jón & Vigfús.  Minjasafnið á Akureyri.

    Línuveiðarinn "Alden" RE 264

Alden heitir gufuskip sem hingað hefir verið keypt frá Noregi. Er eigandi þess Anton Jacobssen. Skipið er að stærð 111 tonn. Það mun eiga að fara til Vestmannaeyja og stunda þar netaveiðar, fyrst um sinn að minsta kosti.

Morgunblaðið. 28 janúar 1925.


Alden SH 1 í höfninni í Stykkishólmi. Súgandisey í baksýn. Ljósmyndin er tekin úr Stykkinu sem Stykkishólmur dregur nafn sitt af.   (C) William Th. Möller.

               Frá Stykkishólmi

Eins og kunnugt er var stofnað í vetur í Stykkishólmi félag til útgerðar á samvinnugrundvelli. Voru hér á ferð eftir nýjár tveir menn úr Stykkishólmi til að leita fyrir sér um kaup á togara fyrir félagið. Úr togarakaupunum varð ekki, en félagið keypti síðar línuveiðarann "Alden". Kom hann úr fyrstu veiðiförinni um miðjan f. m. með ágætan afla, 140 skpd. eftir 9 daga útivist. Stjóm samvinnufélagsins skipa 5 menn, 2 kosnir af félagsmönnum 2 af hreppsnefnd Stykkishólms og 1 sem fulltrúi þeirra, er vinna hjá félaginu, og var hann kosinn af Verkamannafélagi Stykkishólms.

Alþýðublaðið. 10 apríl 1931.


Línuveiðarinn Alden GK 247.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

    Hafnfirðingar kaupa línuveiðara

Hlutafjelagið "Foss " í Hafnarfirði hefir keypt línuveiðarann "Alden" frá Stykkishólmi og verður skipið gert út frá Hafnarfirði. Alden kom til Hafnarfjarðar í gær.  Aðaleigendur línuveiðarans eru, Jón Björn skipstjóri, Ólafur Tr Einarsson, Guðmundur Einarsson og Guðmundur Erlendsson.

Morgunblaðið. 21 apríl 1940.


Alden EA 755 með fullfermi af síld á leið til Siglufjarðar.                                        (C) Jón & Vigfús.

              Línuveiðari seldur

Línuveiðarinn Alden frá Hafnarfirði hefir verið seldur til Dalvíkur. Kaupendur eru hlutafélag þar.

Vísir. 19 janúar 1945.

            Brotajárnaskip lestar
        og línuveiðarar til niðurrifs

Tvö skip er verið að lesta hér í höfninni með brotajárn. Er annað þeirra gríska flutningaskipið Titika, sem strandaði í Keflavík í fyrravetur og nú hefur verið gert sjófært, svo að hægt sé að draga það til niðurrifs erlendis. Hitt skipið er Ulla Danielsen. Þá liggja vestur við Ægisgarð þrír gamlir línuveiðarar, járnskip, sem seldir hafa verið til niðurrifs, en það eru Alden, Ármann og Rafn. Innan fárra daga er von á dráttarbátum frá útlöndum til þess að sækja þessa gömlu kláfa og gríska skipið.

Morgunblaðið. 23 júní 1956.

29.08.2020 19:32

Siglufjörður á millistríðsárunum.

Þegar Siglufjörður var nefndur á nafn hér á landi um miðja síðustu öld kom flestum saman um að þar væri vagga síldveiðanna hér við land og einnig Eyjafjörður, sem auðvitað er rétt. Segja má að Siglufjörður hafi verið stærsti síldarbær í heimi miðað við höfðatölu, en á þessum krepputímum streymdi fólk hvaðanæva af landinu til að vinna í síldinni. Fólk úr sveitum landsins sá þar tækifæri til að losna úr hinum alræmdu"vistaböndum". Þar fékk fólk borgað í peningum sem var ekki títt á þessum tíma. Á Siglufirði voru margir síldargrósserar. Í hugan kemur nafn Óskars Halldórssonar sem má segja að sé "holdgerfingur" síldarævintýrisins hér á landi nánast frá upphafi fram yfir árið 1950. Alveg magnaður karakter. Marga aðra má nefna, danann Sören Goos, Ásgeir Pétursson, Anton Jónsson, Ingvar Guðjónsson og margir fleiri. En það var ekki bara við Eyjafjörðinn sem síldarplönin og síldarbræðslurnar voru reistar, þær voru það einnig víða á landsbyggðinni. Síldin átti sinn þátt ásamt mörgu öðru við sjávarsíðuna að koma þjóðinni endanlega úr moldarkofunum inn í þá tækniveröld sem á þessum árum var að byggjast upp hér á landi, hægt og rólega.


Siglufjörður um árið 1930. Síldarævintýrið í algleymingi.                                (C) Jón & Vigfús.

 Síldarolíu og fiskimjölsverksmiðjur
             á Íslandi fyrr og nú

Evangers verksmiðjan á Siglufirði, var reist árið 1912, en eyðilagðist í snjóflóði 1919. Verksmiðjan »Ægir« í Krossanesi við Eyjafjörð, er einnig reist árið 1912 og sama ár byggir Goos verksmiðju sína á Siglufirði. Árið 1913 var verksmiðja reist á Dagverðareyri við Eyjafjörð, en hún brann árið 1916; var hún byggð upp aftur en hætti eftir fá ár og var flutt til Raufarhafnar 1926. 1918 reistu hinar sameinuðu íslenzku verzlanir, verksmiðju á Siglufirði, en hana keypti síðar Goos.
1913 byrjuðu Þjóðverjar síldarbræðslu á Sólbakka við Önundarfjörð, sem lagðist niður um tíma. Síðar byrjaði h. f. Andvari, sem stofnað var 1925. H. f. »Kveldúlfur« í Reykjavík á verksmiðju á Hesteyri við Ísafjarðardjúp, sem byrjað var að starfrækja árið 1923. Var þar áður hvalveiðastöðin »Hekla«, 1926 var verksmiðjan á Dagverðareyri flutt til Raufarhafnar og er starfrækt þar. 1929 er byrjað að reisa síldarbræðslustöð ríkisins á Siglufirði.
Árið 1915 reisti ræðismaður Gísli Johnsen verksmiðju í Vestmannaeyjum, sem starfrækt er enn og aðra verksmiðju reisti Thomsen o. fl. á sama stað, árið 1924. Það ár var verksmiðja á Norðfirði sett á fót af Dr. Paul. 1926 var verksmiðja reist á Ísafirði, sem nú er eign »Fiskimjöl h. f.« á Ísafirði, og sama ár byrjaði Dr. Paul að reka verksmiðju á Siglufirði og er hún einnig síldarolíuverksmiðja. 1927 reisti ræðismaður Gísli Johnsen fiskimjölsverksmiðju á Vatnsnesi við Keflavík, en hún brann skömmu síðar, var endurreist 1929 og er nú eign h. f. Lýsi og mjöl. 1928 var verksmiðja reist í grennd við Reykjavík og rekur h.f. »Fiskimjöl hana. H. f. »Bein« reisti verksmiðju á Siglufirði árið 1929, sem tók til starfa hið sama ár.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1930.


23.08.2020 09:44

Um borð í togaranum Úranusi RE 343.

Þessar ljósmyndir hér að neðan eru teknar um borð í togaranum Úranusi RE 343 og eru þær úr safni Atla Michelsen stýrimanns sem var skipverji á togaranum um miðjan 7 áratuginn. Myndirnar eru einstakar heimildir um þessa liðnu tíma í útgerðarsögu okkar íslendinga, um skipin og sjómennina. Og meira er, að Atli hefur haldið vel til haga nöfnum skipsfélaga sinna og viðurnefni þeirra sumra að mestu leiti.  Margar fleiri myndir er ég með úr safni Atla og mun ég setja þeir hér inn á næstunni.
Togarinn Úranus RE 343 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 725. Eigandi var Júpíter h/f í Reykjavík frá 2 apríl sama ár. Úranus kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 5 apríl árið 1949. Úranus RE 343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz árið 1974 og fór til Spánar hinn 17. apríl sama ár með Marz RE 261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn og var tekinn af skrá 20 maí árið 1974.
Ýmsar breytingar voru gerðar á teikningu togarans, s.s. settur á skipið pólkompás sem staðsettur var framan á brúnni, pokabómur festar upp undir salningu. Þær vísuðu þá lárétt út þegar pokinn var hífður út og náði lengra en venjulegar bómur sem vísuðu skáhallt upp og voru festar neðarlega á mastrið. Úranus var jafnframt fyrsti togarinn sem smíðaður var með hærri lunningar sem náðu aftur að svelgnum. Áður höfðu togarar Tryggva, Neptúnus og Marz fengið hækkaðar lunningar en þær náðu aðeins aftur fyrir vantinn.


Árni Múli og Guðni jobbari um borð í Úranusi RE 343.

 
Sverrir Erlendsson skipstjóri í glugganum.


Viggó Gíslason vélstjóri.

     Úranusi hleypt af stokkunum

Í gær var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen, nýsköpunartogaranum Úranus RE 343. "Úranus" er af minstu gerð nýsköpunartogaranna, 175 fet á lengd. Eigandi hans er h.f. Júpíter hjer í Reykjavík, en framkvæmdastjóri fjelagsins er Tryggvi Ófeigsson. Var hann viðstaddur athöfnina, ásamt dóttur sinni, Herdísi, er Skýrði skipið.

Morgunblaðið. 6 október 1948.


Daði bræðslumaður.


Johan Karl Færeyingur.


Jón Júlíusson á trollvaktinni.                                                 (C) Atli Michelsen.


B.v. Úranus RE 343 á toginu. Takið eftir hvað bómurnar eru hátt í fremri vantinum.
(C) Sigurgeir B Halldórsson.

            Úranus kemur í dag

Í dag kemur nýsköpunartogarinn Úranus hingað til lands. Er þetta næst síðasti togarinn, sem samið var um smíði á. Úranus er eign h.f. Júpíters hér í Reykjavík. Skipstjóri er hinn kunni aflamaður Bjarni Ingimarsson. Einn togari, utan tveggja dieseltogara, er enn í smíðum í Englandi og er það Svalbakur, sem bojarútgerð Akureyrar á.

Vísir. 5 apríl 1949.




18.08.2020 18:00

B. v. Njörður RE 36. LCJD / TFEC.

Botnvörpungurinn Njörður RE 36 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Njörð í Reykjavík. 341 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,66 x 3,54 m. Smíðanúmer 424.Togarinn var seldur Samvinnufélaginu Haukanesi í Hafnarfirði í september árið 1932, hét þá Haukanes GK 347. 23 júní 1939 var Útvegsbanki Íslands h/f skráður eigandi. Seldur Vífli h/f í Hafnarfirði í október 1940. Togarinn var seldur í brotajárn til Antverpen í Belgíu í febrúar árið 1952.


B.v. Njörður RE 36 með trollið á síðunni.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

             Nýr botnvörpungur

Í nótt kom enn einn nýr íslenskur botnvörpungur. Það er Njörður, eign hins nýja Njarðarfélags, stórt skip, svipað þeim, sem hingað hafa komið í vetur og vor. Skipstjóri er Guðmundur Guðnason.

Vísir. 9 júlí 1920.


B.v. Njörður RE 36.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Haukanes GK 347 á siglingu sennilega á sjómannadag.           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

   Þegar tveir þeirra gömlu kvöddu 

Þess var getið í síðasta blaði að togararnir Haukanes og Baldur hefðu verið seldir til niðurrifs til Belgíu. Áður en þeir fóru héðan voru þeir fylltir af brotajárni, en þýzkur dráttarbátur var sendur til að draga þá utan. Þeir lögðu úr höfn mánudaginn 2. marz, en þegar komið var suður í Grindavíkursjó varð þess skjótlega vart, að kominn var talsverður sjór í Haukanes. Leit svo út um tíma, að það mundi sökkva og voru gerðar ráðstafanir til að koma viðgerðarmönnum um borð í skipið, en öll var þrenningin skammt undan landi. En þeir komust ekki um borð vegna veðurs. Dráttarbátnum tókst hins vegar að dæla sjónum úr Haukanesi og kom hann aftur með bæði skipin til Reykjavíkur. Við athugun kom í ljós, að leki hafði ekki komizt að Haukanesi, heldur hafði farið sjór inn um akkeriskeðjugatið. Nú eru skipin öll komin heil á húfi til Belgiu.

Ægir. 1 mars 1952.









17.08.2020 23:15

2895. Viðey RE 50 á sjómannadaginn 2020.

Tók þessar myndir af togaranum Viðey RE 50 á sjómannadaginn þar sem hann lá við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Körin voru tilbúinn á bryggjunni og einungis eftir að hífa þau um borð. Viðey RE 50 var smíðuð hjá Celiktrans Shipyard í Istanbúl í Tyrklandi árið 2017 fyrir H.B. Granda h/f í Reykjavík. 1.827 bt. 2.445 ha. MAN B&W 6L27/38, 1.799 Kw. Smíðanúmer CS 50. Skipið er hannað af Nautic, Skipahönnun og ráðgjöf í Reykjavík. Viðey kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur á vetrarsólstöðum, hinn 21 desember árið 2017. Móttökuathöfn var haldin daginn eftir út í Örfirisey, og við það tækifæri var skipinu formlega gefið nafn. Viðey er glæsilegt skip eins og systurskip hennar sem þegar eru komnar til landsins, Engey RE 1, ( selt til Rússlands á síðasta ári) og Akurey AK 10.
Skipstjóri á Viðey er Jóhannes Ellert Eiríksson, sem áður var skipstjóri á Ottó N Þorlákssyni RE 203.


2895. Viðey RE 50 í Reykjavíkurhöfn.


2895. Viðey RE 50 við Grófarbryggjuna.


Körin tilbúin á kæjanum.


Góður og fallegur fiskur úr Viðey RE 50. Ég flakaði um 80 kör af afla Viðeyjar um síðustu mánaðarmót hjá Erik the Red Seafood ehf í Keflavík. Stærð fisksins var að meðaltali 4 til 8 kíló sem er mjög vænn fiskur sem gott er að vélflaka.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

17.08.2020 21:11

2184. Vigri RE 71 að landa afla sínum í Örfirisey.

Frystitogarinn Vigri RE 71 var að landa afla sínum í Örfirisey í gær. Glæsilegt skip Vigri og hann mætti alveg við smá málningu, enda orðinn svolítið verklegur að sjá. En það þarf ekki að hvíla stálið og sennilega stutt í næstu veiðiferð hjá honum. Tók þessa mynd af honum í gær og enn og aftur, glæsilegt og mikið skip hann Vigri.


2184. Vigri RE 71 við bryggjuna í Örfirisey.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

17.08.2020 09:55

E. s. Christian lX. LBDN.

Eimskipið Christian lX (9) var smíðað hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1875 fyrir Sameinaða gufuskipafélagið (DFDS) í Kaupmannahöfn. 1.236 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 230,8 ft. á lengd, 30,1 ft. á breidd og djúprista var 23,2 ft. Smíðanúmer 84. Selt 28 febrúar 1916, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri, sama nafn. Skipið var selt í júní sama ár til Stokkhólms í Svíþjóð. Er svo í Malmö árið 1918. Er svo síðast skráð í Hammarby í Svíþjóð. Skipið strandaði og sökk í sænska skerjagarðinum hinn 25 október árið 1925.

Það kom frétt í blaðið Norðurland hinn 8 júní 1916, að Ásgeir hafi selt skipið stóru skipafélagi í Noregi. Mínar heimildir eru danskar og mun áræðanlegri að ég higg og nota ég þær frekar.


Gufuskipið "Christian lX" á siglingu.                                      Ljósmynd í minni eigu.

                 "Christian lX"

Skip sem Ásgeir Pétursson kaupmaður hefir keypt af sameinaða gufuskipafélaginu í Kaupmannahöfn kom hingað í gær, hlaðið steinolíu o. fl. vörum. Ásgeir Pétursson kom sjálfur á skipinu. Meðal farþega voru kaupmennirnir Sigtryggur Jónsson á Akureyri og Sigtryggur Jóhannesson í Reykjavík. Á þetta mikla og þjóðþarfa fyrirtæki Ásgeirs Péturssonar (kaup skipsins) verður nánar minst í næsta blaði.

Norðurland. 22 apríl 1916.


17.08.2020 07:51

V.b. Auður djúpúðga DA 1.

Vélbáturinn Auður djúpúðga DA 1 var smíðaður í Bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Hafnarfirði árið 1955 fyrir þá útvegsbændur Lárus Magnússon á Heiðnabergi og Guðmund Lárusson á Fremribrekku í Dalasýslu. 10 brl. 44 ha. Kelvin vél. Heimahöfn bátsins var í Salthólmavík. Auður var fyrsti báturinn sem skráður var í Dalasýslu (DA). Báturinn var seldur 29 maí 1958, Sigurði Árnasyni, Jóni Stefánssyni, Stefáni Stefánssyni og Jósep Stefánssyni á Skagaströnd, sama nafn en HU 12. Báturinn er talinn hafa farist utarlega á Húnaflóa í ofsaveðri hinn 24 mars árið 1961. Áhöfnin, 2 menn, fórust með honum. Auður hafði verið seld til Akraness og voru hinir nýju eigendur á heimleið með bátinn frá Skagaströnd.

Löngu síðar eða 10 maí fannst báturinn. Vélbáturinn Sædís ÍS frá Bolungarvík fór þá á Hornstrandir og var ætlunun að huga að reka. Í svokölluðum Smiðjuvíkurvogi um 2 klukkustunda frá vitanum á Látrum fannst flakið af Auði djúpúðgu rekið. Var botninn úr bátnum og vélin var farin, en gúmmíbjörgunarbáturinn var óhreyfður á sínum stað. Líklegt þótti að báturinn hafi strandað á þessum slóðum en úti fyrir Smiðjuvík eru miklar grynningar. Þótti ekki ólíklegt að báturinn hefði sokkið, en skolað síðan upp á land í næsta stórbrimi.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund. XlV bindi.


Vélbáturinn Auður djúpúðga DA 1.                                Ljósmyndari óþekktur.

      Fyrsti báturinn skrásettur í                Dalasýslu er nú á förum vestur

Nýlega var sjósettur hjá bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Hafnarfirði 9,6 smálesta fiskibátur, er hlaut nafnið Auður Djúpúðga DA-1. Heimahöfn bátsins verður Salthólmavík og er þetta fyrsti báturinn, sem er skrásettur í Dalasýslu. Í bátnum, sem er aldekkaður, er 45 hestafla Kelvin disel vél, sjálfritandi dýptarmælir og talstöð. Báturinn er með þeim vönduðustu, sem hér hafa verið smíðaðir. Í reynsluför gekk hann 9 sjómílur. 
Eigendur bátsins eru þeir Lárus Magnússon á Heiðnabergi og Guðmundur Lárusson á Fremri-Brekku. Þeir munu ætla að sækja sjó á bátnum mest á Breiðafirði og aðallega að sumrinu. Í lúkar eru hvílur fyrir þrjá menn. Einnig er þar eldavél og handlaug, einnig fataskápur.

Tíminn. 19 apríl 1955.


Bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Flatahrauni í Hafnarfirði 1948. Fyrstu 3 bátarnir sem smíðaðir voru þar. Húsnæðið var hermannabraggi. (C) Þorbergur Ólafsson.
         
              Vélbáturinn "Auður djúpúðga"                          er talinn af
    Með honum fórust tveir menn 

Vélbáturinn Auður djúpúðga er nú talinn af. Leit hefur verið haldið uppi svo sem fært hefur verið frá því að tilkynnt var síðastliðið föstudagskvöld að um bátinn væri óttazt. Í gær voru leitarskilyrði góð og tóku þá tvær flugvélar þátt í henni, bæði landhelgisvélin Rán og björgunarflugvél Björns Pálssonar. Skip tóku einnig þátt í leitinni. Leitarsvæðið var Straumnes og strandlengjan með Húnaflóa allt vestur að Hornbjargi. Einnig var leitað djúpt á haf út. 
Henry Hálfdánarson forstjóri Slysavarnafélags Íslands skýrði blaðinu frá því í gærkvöldi að svo vel hefði nú verið leitað að óhugsandi væri að nokkur stærri hlutur úr bátnum hefði farið fram hjá leitarmönnum, sem flugu mjög lágt og hefðu því auðveldlega séð hvort heldur væri um að ræða brak eða gúmmbát við eða á ströndinni. Einnig hefðu þeir séð spor í snjónum ef einhver hefðu verið. Margt bendir til þess að báturinn hafi aldrei komizt fyrir Horn og því var öll áherzla lögð á að leita á Húnaflóa. Ísing lagðist á skip í óveðrinu um helgina en þótt það hefði ekki orðið til að granda bátnum gat margt hent hann, þar sem mjög skerjótt er með Hornströndum. Sem fyrr hefir verið skýrt frá í fréttum voru tveir menn á bátnum Auði djúpúðgu, þeir Karl Sigurðsson, Skagabraut 44, Akranesi og Bernódus Guðjónsson einnig frá Akranesi. Karl var 47 ára, kvæntur og átti eina dóttur og fósturson. Bernódus var ókvæntur, hálfsextugur að aldri og átti 7 systur.
Vélbáturinn Auður djúpúðga var trébátur, 10 lestir að stærð og mun ekki hafa verið búinn ratsjá. Hann var smíðaður í Hafnarfirði 1955.

Morgunblaðið. 29 mars 1961.


15.08.2020 21:22

Togaraverkfallið 1950.

Hásetar á togurunum fóru í verkfall í byrjun júlímánaðar árið 1950 og stóð það til byrjun nóvember. Voru þar miklar og hatrammar deilur og hvorugur deiluaðili gaf eftir. Sjómenn fóru fram á 12 stunda hvíldartíma á sólarhring. Ég er ekki viss hvort þeir fengu hvíldartímann í gegn þá eða í verkfallinu 2 árum síðar. Held að kjarabætur hafi verið heldur rýrari en sjómenn sóttust eftir, enda fáar vinnandi stéttir í samfélaginu sem grætt eitthvað á því að fara í verkfall. Þessi kjarabarátta sjómanna stóð í eina 4 mánuði og ávinningurinn var ekki mikill í þetta skiptið.


Frá togaraverkfallinu árið 1950. Togararnir liggju bundnir við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Við Ingólfsgarðinn liggja 7 togarar. Fremstur er Bjarni Ólafsson AK 67. Svo koma Júlí GK 21, Egill rauði NK 104 og þar innan við er Helgafell RE 280. Svo koma þar innan við 3 bakkaskip og þau eru að ég held, Skúli Magnússon RE 202, Hvalfell RE 282 og 3 skipið gæti verið Röðull GK 518 að ég held. Til hægri er "sáputogarinn" Kári RE 195. (C) Sigurður Guðmundsson.

               Togaraverkfallið 

Togaraverkfallið hefur nú staðið í 118 daga. Á því tímabili hafa þrjár miðlunartillögur til lausnar deilunni komið fram. Þá fyrstu þeirra flutti sáttanefndin í deilunni, þegar verkfallið hafði staðið 79 daga. Í henni var að engu leyti gengið til móts við sjómenn um raunverulegar kjarabætur, krafa þeirra um 12 stunda hvíldartíma, jafnt á ísfisk- og saltfiskveiðum, að engu höfð, ísfiskkjörin engu betri en eftir gömlu samningunum, en saltfiskkjörin ofurlítið skárri, en hins vegar engin kjarabót frá því, sem greitt mun hafa verið síðast á saltfiskveiðum. Tillaga þessi var kolfelld, bæði af sjómönnum og togaraeigendum. Þess má geta í sambandi við þessa fyrstu miðlunartillögu, að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur lýsti yfir hlutleysi gagnvart henni. Næsta tilraun er gerð um mánuði síðar, þá kemur fram ný miðlunartillaga, sem er í engu betri en sú fyrri. Sú tillaga er þó ekki borin undir togarasjómenn við allsherjaratkvæðagreiðslu, heldur bregður nú svo kynlega við að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur boðar til fundar í félaginu, en til þess hafði hún ekki fengist áður, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Á þeim fundi er sjómönnum sagt undan og ofan af um tillöguna, en farið fram á að stjórn sjómannafélagsins fái fullt umboð til að semja á grundvelli hennar. Fram á sama er farið í Hafnarfirði, Keflavík og á Akranesi. Í Reykjavik, Hafnarfirði og Keflavík neita sjómenn með yfirgnæfandi meirihluta að veita þetta umboð, en á Akranesi tekst að fá það samþykkt með þeim afleiðingum, að þar er samið upp á smánarkjör miðlunartillögunnar og þannig vegið aftan að heildarsamtökum sjómanna. Talið er fullsannað að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur hafi staðið þar á bak við.
Hér á Ísafirði var talsvert annar háttur hafður á um afgreiðslu annarrar miðlunartillögunnar. Hásetar á Ísborg voru boðaðir á fund. Formaður Sjómannafélagsins, Jón H. Guðmundsson, skýrði fyrir þeim í hverju þessi miðlunartillaga væri frábrugðin hinni fyrri. Urðu síðan allmiklar umræður um málið. Sjómenn stóðu einhuga gegn tillögunni, enda höfðu þeir enga aðstöðu til að kynna sér hana, þar sem formaður hafði ekki aðrar upplýsingar í höndum en það, sem hann hafði skrifað niður eftir símtali við Torfa Hjartarson, sáttasemjara ríkisins. Formaður lagði aftur á móti kapp á að tillagan yrði samþykkt, hótaði sjómönnum gerðardómi að öðrum kosti og að hún skyldi samþykkt þótt síðar yrði. Þessi hamagangur og hótun formanns hafði þó engin áhrif á sjómenn, þeir feldu tillöguna með 17 samhljóða atkvæðum, en 6 sátu hjá. Þriðja og síðasta miðlunartillagan var lögð fram 23. þ.m. bak við hana standa þeir Ólafur Thors og Emil Jónsson. Sú tillaga er í engu, sem máli skiptir, frábrugðin hinum fyrri. T.d. er þar ekki gengið að aðalkröfu sjómanna um 12 stunda hvíld á öllum veiðum, ekki einu sinni á saltfiskveiðum, nema fyrirhugað sé að leggja aflan upp í íslenzkri höfn, fari t.d. togari í lengri veiðiför og sigli með afla sinn til erlendrar hafnar, helst 16 stunda þrældómurinn áfram. Hvað kaupkjör snertir er miðlunartillaga þessi heldur ekkert betri en hin fyrri nema síður sé.
S.l. þriðjudag fá hásetar á Ísborg enn eitt fundarboð. Ekki vissu þeir þó með vissu hver fundinn boðaði, héldu sumir að það væri formaður, en aðrir stjórn Ísfirðings h.f., þar sem fundurinn var boðaður á skrifstofu félagsins. Þegar á fundinn kom reyndist hvorugur þessi aðili fundarboðandi, heldur einn háseti á Ísborg, eftir því sem næst varð komist. Tilefni fundarins var tillaga, sem hann flutti um að samið væri við Ísfirðing h.f. upp á væntanleg kjör. Er hann hafði talað fyrir tillögunni gáfu félagar hans á Ísborg honum rækilega hirtingu og gengu síðan í einum hóp af fundi. Á þessum fundi voru einnig mættir formaður sjómannafélagsins og nokkrir menn úr trúnaðarráði félagsins. Sótti formaður fast að miðlunartillaga Emils og Ólafs Thors yrði samþykkt við væntanlega allsherj -aratkvæðagreiðslu, sem fer fram í dag, og ítrekaði fyrri hótanir. Þessi hótun formanns mun engin áhrif hafa. Hásetar á Ísborg standa einhuga gegn smánartilboðinu og félagar þeirra í sjómannafélaginu munu áreiðanlega ekki láta hafa sig til að samþykkja það.

Baldur. 26 október 1950.


02.08.2020 11:02

2962. Vörður ÞH 44. TFID.

Skuttogarinn Vörður ÞH 44 var smíðaður hjá Vard Shipbuilding í Aukra í Noregi árið 2019 fyrir Útgerðarfélagið Gjögur hf í Grenivík. Skrokkur skipsins mun hafa verið smíðaður í Vard skipasmíðastöðinni í Víetnam. 611 bt. 2 x 803 ha. Yanmar 6EY17W, 591 Kw. Skipið er 28,93 m. á lengd, 12 m. á breidd og djúprista er 6,6 m. Vörður er gerður út frá Grindavík en heimahöfn hans er á Grenivík.


2962. Vörður ÞH 44 í höfninni í Keflavík.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2962. Vörður ÞH 44 við komuna til Grindavíkur hinn 25 september 2019. (C) Sigurður Bogi Sævarsson.

   Vörður ÞH 44 kominn til Grindavíkur

Til Grinda­vík­ur kom í dag nýr tog­ari, Vörður ÞH 44, sem út­gerðarfyr­ir­tækið Gjög­ur hf. ger­ir út.  Fjöl­menni tók á móti skip­inu og var hátíðarbrag­ur yfir at­höfn­inni.
Gjög­ur hf. er með heim­il­is­festi í Greni­vík en ís­fisk­tog­ar­ar fyr­ir­tæk­is­ins hafa lengi verið gerðir út frá Grinda­vík. Auk Varðar ÞH er nú verið að smíða annað skip fyr­ir Gjög­ur, Áskel ÞH, sem er vænt­an­legt til lands­ins á næstu vik­um.  Eru þau í hópi sjö syst­ur­skipa sem norsk skipa­smíðastöð smíðar fyr­ir ís­lensk­ar út­gerðir. Tvö eru þegar kom­in til lands­ins.

Skip­stjóri á Verði ÞH er Þor­geir Guðmunds­son.

Mbl.is / 200 mílur. 25 september 2019.






02.08.2020 08:01

M. b. Hersir RE 162.

Mótorbáturinn Hersir RE 162 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið í Skipasmíðastöð Reykjavíkur árið 1915 fyrir Jón Halldórsson útgerðarmann í Reykjavík. 12 brl. 22 ha. Tuxham vél. Báturinn fórst í róðri á Faxaflóa 21 janúar árið 1919 með allri áhöfn, 5 mönnum. Var hann þá í eigu Jóns Guðjónssonar og fl. á Kjalarnesi og gerðu þeir bátinn út frá Sandgerði.


M.b. Hersir RE 162 sennilega nýsmíðaður árið 1915.                        Ljósmyndari óþekktur.


M.b. Hersir RE 162 í Reykjavíkurhöfn.                (C) Magnús Ólafsson.

              "Hersir" talinn af

Það er nú talið víst, að vélbáturinn »Hersir« frá Sandgerði muni hafa farist í rokinu 21. janúar. »Geir« og fleiri skip hafa leitað hans um flóann, en hvergi hefir hans orðið vart. Á bátnum voru 5 menn. Formaðurinn hét Snæbjörn Bjarnason og átti hann heima á Hverfisgötu hér í Reykjavík. Lætur hann eftir sig ekkju og 4 börn.
Ólafur Sigurður Ólafsson, nýlega kvæntur maður, og bróðir hans Sigurbjörn Ólafsson, ókvæntur. Áttu þeir bræður heima á Hólabrekku á Grímstaðaholti, og er þar móðir þeirra hrum af elli. Fjórði maðurinn hét Ólafur Gíslason, ókvæntur, og átti heima á Grettisgötu 37. Fimmti maðurinn hét Sveinbjörn Guðmundsson frá Tjarnarkoti (Miðnesi). Allt voru þetta dugandi menn á bezta aldri. Það er ætlun manna, að bátinn hafi fyllt undir þeim, sjór gengið yfir hann meðan þiljugáttin var opin. Klukkan fjögur um daginn hafði annar bátur tal af »Hersi«, og var hann þá að draga lóðina og átti eftir fjögur bjóð ódregin. En þá var komið versta veður og skafrok. Bátinn áttu þeir Jón Guðjónsson, Daniel Magnússon í Lykkju á Kjalarnesi og Snæbjörn Bjarnason, formaðurinn.

Ægir. 1-2 tbl. 1919.


  • 1
Antal sidvisningar idag: 281
Antal unika besökare idag: 20
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075661
Antal unika besökare totalt: 77621
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:36:39