30.08.2020 16:58

L.v. Alden RE 264. LBSF / TFBE.

Línuveiðarinn Alden RE 264 var smíðaður í Moss í Noregi árið 1907. Stál 111 brl. 175 ha. 2 þennslu gufuvél. Anton Jacobsen útgerðarmaður í Reykjavík keypti skipið frá Noregi í janúar árið 1925, hét áður Svalen. Selt 20 janúar árið 1927, Fiskveiðahlutafélaginu Hrólfi í Reykjavík, sama nafn og númer. Skipið var selt 27 febrúar 1931, Samvinnuútgerðinni í Stykkishólmi, skipið hét Alden SH 1. Selt 27 mars 1940, Hlutafélaginu Fossi í Hafnarfirði, skipið hét Alden GK 247. Selt 3 febrúar 1945, Hlutafélaginu Búa á Dalvík, hét Alden EA 755. Skipið var selt í brotajárn til Hollands í júní árið 1956.


Alden RE 264 að landa síld á Siglufirði.                              (C) Jón & Vigfús.  Minjasafnið á Akureyri.

    Línuveiðarinn "Alden" RE 264

Alden heitir gufuskip sem hingað hefir verið keypt frá Noregi. Er eigandi þess Anton Jacobssen. Skipið er að stærð 111 tonn. Það mun eiga að fara til Vestmannaeyja og stunda þar netaveiðar, fyrst um sinn að minsta kosti.

Morgunblaðið. 28 janúar 1925.


Alden SH 1 í höfninni í Stykkishólmi. Súgandisey í baksýn. Ljósmyndin er tekin úr Stykkinu sem Stykkishólmur dregur nafn sitt af.   (C) William Th. Möller.

               Frá Stykkishólmi

Eins og kunnugt er var stofnað í vetur í Stykkishólmi félag til útgerðar á samvinnugrundvelli. Voru hér á ferð eftir nýjár tveir menn úr Stykkishólmi til að leita fyrir sér um kaup á togara fyrir félagið. Úr togarakaupunum varð ekki, en félagið keypti síðar línuveiðarann "Alden". Kom hann úr fyrstu veiðiförinni um miðjan f. m. með ágætan afla, 140 skpd. eftir 9 daga útivist. Stjóm samvinnufélagsins skipa 5 menn, 2 kosnir af félagsmönnum 2 af hreppsnefnd Stykkishólms og 1 sem fulltrúi þeirra, er vinna hjá félaginu, og var hann kosinn af Verkamannafélagi Stykkishólms.

Alþýðublaðið. 10 apríl 1931.


Línuveiðarinn Alden GK 247.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

    Hafnfirðingar kaupa línuveiðara

Hlutafjelagið "Foss " í Hafnarfirði hefir keypt línuveiðarann "Alden" frá Stykkishólmi og verður skipið gert út frá Hafnarfirði. Alden kom til Hafnarfjarðar í gær.  Aðaleigendur línuveiðarans eru, Jón Björn skipstjóri, Ólafur Tr Einarsson, Guðmundur Einarsson og Guðmundur Erlendsson.

Morgunblaðið. 21 apríl 1940.


Alden EA 755 með fullfermi af síld á leið til Siglufjarðar.                                        (C) Jón & Vigfús.

              Línuveiðari seldur

Línuveiðarinn Alden frá Hafnarfirði hefir verið seldur til Dalvíkur. Kaupendur eru hlutafélag þar.

Vísir. 19 janúar 1945.

            Brotajárnaskip lestar
        og línuveiðarar til niðurrifs

Tvö skip er verið að lesta hér í höfninni með brotajárn. Er annað þeirra gríska flutningaskipið Titika, sem strandaði í Keflavík í fyrravetur og nú hefur verið gert sjófært, svo að hægt sé að draga það til niðurrifs erlendis. Hitt skipið er Ulla Danielsen. Þá liggja vestur við Ægisgarð þrír gamlir línuveiðarar, járnskip, sem seldir hafa verið til niðurrifs, en það eru Alden, Ármann og Rafn. Innan fárra daga er von á dráttarbátum frá útlöndum til þess að sækja þessa gömlu kláfa og gríska skipið.

Morgunblaðið. 23 júní 1956.

Flettingar í dag: 602
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720499
Samtals gestir: 53512
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:29:53