Blogghistorik: 2017 N/A Blog|Month_12
31.12.2017 10:24
Áramót 2017 / 2018.
Óska ykkur öllum gleðilegs
nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi
árið 2018 færa okkur öllum gæfu. Hafið það ávallt sem allra best.Kærar kveðjur
til ykkar allra.
31.12.2017 06:45
1903. Helga ll RE 373. TFSR.
Helga II RE 373 komin til heimahafnar
Nýtum loðnukvóta tveggja skipa og þorskkvóta þriggja
segir Ármann Ármannsson, framkvæmdastjóri
Hið nýja nóta og togskip Helga II RE 373 kom til landsins í
vikunni. Skipið er í eigu Ingimundar hf og kemur í stað eldra skips með sama
nafni. Skipið er búið til loðnuveiða og rokju- og bolfiskveiða og vinnslu.
Frystigeta er um 30 tonn á sólarhring. Skipið er 793 tonn að stærð, ber um
1.000 tonn af loðnu og um 150 tonn af frystum afurðum. Helga II er byggð af
Ulsteinskipasmíðastöðinni í Noregi og hönnuð af Skipsteknisk a/s í Álasundi.
Hún er 51,70 metrar að lengd og mesta breidd er 12,50 metrar. Á vinnsludekki
eru flökunarlínur, pökkun og vigtun fyrir þorsk, karfa og grálúðu og
rækjuvinnslulína og frystitæki. íbúðir eru í skipinu fyrir 23 manns, þarf af 5
í eins manns klefum. Helga II er búin öllum nýjustu og fullkomnustu
fiskileitar- og siglingatækjum. Helga II fer um helgina til loðnuveiða, en hún
heldur loðnuveiðileyfi eldra skipsins og mun jafnframt veiða í vetur kvóta
Helgu III RE, sem er í eigu Ingimundar hf.
Miðað við sömu úthlutun og á síðasta
ári gæti því heildarkvóti skipsins orðið um 36.000 til 38.000 tonn. Auk þess
hefur skipið leyfi til rækju- og bolfiskveiða. Ármann Ármannsson er
framkvæmdastjóri Ingimundar hf: "Mér líst mjög vel á skipið," segir hann.
"Það kostar nettó 330 til 340 milljónir og á að geta fiskað nóg til að standa undir
sér. Það gerir tvöfaldur loðnukvóti meðal annars og þorskvóti allra skipanna,
það er Helgu, Helgu II og Helgu lll, sem er um 1.300 tonn. Um leið verður
saltfisksvinnslu hætt í landi og hin tvö skipin verða eingöngu á rækju. Síðan
er möguleiki að fara með nýja skipið á Dorhn-bankann, þar sem rækjuveiði er
fyrir utan kvóta. Skipstjóri er Geir Garðarsson, en hann sagði í samtali við
Morgunblaðið, að skipið hefði reynst vel á heimleiðinni og væri hið bezta í
alla staði og mikill munur frá gömlu Helgunni. Yfirvélstjóri er Kristján
Bergsson. Bjarni Hilmir Sigurðsson, fyrsti vélstjóri, hafði umsjón og eftirlit
með byggingu skipsins í Noregi. Gamla Helgan, sem víkur fyrir þeirri nýju fór
utan sem greiðsla upp í nýja skipið. Hún var upphaflega byggð í Noregi 1967 og hafði
því náð tvítugsaldrinum. Hún var lengd 1974 og yfirbyggð 1977 og var 281
brúttótonn að stærð. Hún bar um 550 tonn af loðnu.
Morgunblaðið. 21 október 1988.
1903. Þorsteinn EA 810 á loðnuveiðum. (C) Þórarinn Guðni Sveinsson.
1903. Þorsteinn ÞH 360. Ljósmyndari óþekktur.
Grænlenskt
fiskiskip í Akraneshöfn
Stórt og fallegt fiskiskip liggur nú í Akraneshöfn og vekur
athygli margra, ekki síst vegna þess að það er skráð í Nuuk, höfuðstað
Grænlands. Það heitir Tuneq. Glöggir skipaáhugamenn þekkja þó að hér er komið
aflaskip sem hefur þjónað ákaflega vel og dyggilega í íslenska
fiskiskipaflotanum um áratugaskeið. Það hét fyrst Helga II RE þegar það kom
nýtt til landsins árið 1988, síðan Þorsteinn EA og loks Þorsteinn ÞH. Ísfélag
Vestmannaeyja átti skipið þar til í ár að fyrirtækið flaggaði því út til Grænlands.
Þar stendur til að gera það út hjá grænlenskri útgerð sem Ísfélagið á hlutdeild
í. Undanfarið hefur skipið verið í slipp í Reykjavík þar sem viðhaldi hefur
verið sinnt og skipið málað. Ætlunin er að það stundi markrílveiðar í
grænlenskri lögsögu nú í sumar.
Ástæðan fyrir því að Tuneq hið grænlenska er
komið til Akraness er að þar munu fyrirtækin Þorgeir & Ellert og Skaginn
vinna að lagfæringum og niðursetningu á nýjum vinnslubúnaði fyrir makríl. "Það
er verið að yfirfara og gangsetja að nýju frystibúnað skipsins. Skaginn setti
vinnslulínu fyrir uppsjávarfisk um borð í það fyrir mörgum árum. Það var þá
hugsað fyrir frystingu á síld og loðnu. Þessi lína og frystitækin hafa ekkert
verið notuð í ein sex eða sjö ár. Nú ætlum við að fá þetta til að snúast og virka
eins það á að gera," segir Einar Brandsson tæknistjóri Skagans í samtali við
Skessuhorn. Auk þessa verður bætt við nýjum búnaði á milliþilfari skipsins
fyrir makrílvinnslu. Einar segir að settir verði niður tveir hausarar fyrir
makríl. "Skaginn smíðar búnað við þá. Svo verður komið fyrir nýjum
stærðarflokkara fyrir uppsjávarfisk um borð í skipinu. Hann er íslensk
framleiðsla af svokallaðri Stylegerð. Með þessu öllu ætti Tuneq að verða vel
útbúið til að stunda veiðar á makríl og frysta aflann um borð. Við reiknum með
að skipið verði á Akranesi í um mánuð á meðan unnið er í því."
Skessuhorn. 19 tbl. 7 maí 2014.
Tuneq GR 6-40 á leið í slippinn í Reykjavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2016.
Tuneq GR 6-40 í slippnum í Reykjavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 maí 2016.
Tuneq GR 6-40 nýmálaður við Ægisgarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 júlí 2016.
Fyrirkomulagsteikning af Helgu ll RE 373. Mynd úr Ægi frá nóvember 1988.
Helga ll RE
373.
Nýtt nóta og togveiðiskip, m/s Helga II RE 373, bættist við
fiskiskipastólinn 18. október s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til
heimahafnar sinnar, Reykjavíkur. Skipið er smíðað hjá Ulstein Hatlö A/S í
Ulsteinvik, Noregi, en er hannað hjá Skipsteknisk A/S, Noregi. Helga II RE er
þriðja nóta og togveiðiskipið, sem umrædd stöð afhendir íslenskum
útgerðaraðilum á rúmu ári, hin fyrri eru Pétur Jónsson RE 69 og Hákon ÞH 250.
Fyrrnefnd tvö skip voru smíðuð eftir sömu skrokkteikningu, en Helga II er stytt
útgáfa af umræddum skipum, mesta lengd er um 6 metrum minni, sem einkum stafar
af breyttri lögun á skut og stefni, auk um þriggja bandabila styttingu í
smíðalengd.
Auk þess er Helga II smíðuð með perustefni. Megin fyrirkomulag er
hliðstætt í skipum þessum, svo og véla- og vindubúnaður. Helga II er búin
vinnslu- og frystibúnaði með aðaláherslu á bolfiskflakavinnslu og heilfrystingu
á karfa og grálúðu, en fyrrnefnd skip eru sérstaklega búin til rækjuvinnslu.
Hið nýja skip kemur í stað eldra skips með sama nafni, sem selt hefur verið úr
landi. Helga II RE er í eigu Ingimundar hf. í Reykjavík. Skipstjóri á skipinu
er Geir Garðarsson og yfirvélstjóri Kristján Bergsson. Framkvæmdastjóri
útgerðar er Ármann Ármannsson.
Ægir. 11 tbl. 1 nóvember 1988.
27.12.2017 20:03
B. v. Neptúnus GK 361 kemur til Hafnarfjarðar.
B.v. Neptúnus RE 361 á veiðislóð. (C) Ásgrímur Ágústsson. Birt með hans leyfi.
Neptúnus GK
361 er 183 fet á lengd
Klukkan 8 á sunnudagsmorgun kom stærsti togari sem
íslendingar hafa eignast til þessa, til Hafnarfjarðar. Þetta er
nýsköpunartogarinn Neptúnus, eign h.f. Júpiter í Hafnarfirði. Eins og skýrt
hefir verið frá hjer í blaðinu er Neptúnus talsvert mikið frábrugðinn hinum
fyrri nýsköpunartogurum, hvað innrjettingu og stærð viðvíkur. Hann er 183 1/2
fet á lengd á móti 175 fetum, sem lengd hinna nýsköpunartogaranna er, breiddin
hin sama og á öðrum nýsköpunartogurum. Brúttólestir er hann 717. Til Hafnarfjarðar
var Neptúnus siglt á 3 1/2 sólarhring. Hreppti skipið vont veður mestan hluta
leiðarinnar. Skipverjar láta vel yfir skipinu sem góðu sjóskipi. Þeir Þórarinn
Olgeirsson og Tryggvi Ófeigsson sáu um smíði skipsins og ákváðu allar
breytingar sem gerðar hafa verið. Neptúnus fór á veiðar í nótt er leið.
Morgunblaðið. 30 desember 1947.
B.v. Neptúnus RE 361 heldur til hafs. Úr safni Tryggva Sigurðssonar.
Nýsköpunartogarinn
Neptúnus seldi afla sinn í gær fyrir hálfa milljón kr
"Skýjaborgirnar" selja vel þessa dagana en
"skýjaborgir" nefndu andstæðingar nýsköpunar atvinnulífsins
nýsköpunartogarana þegar sósíalistar fluttu það mál í fyrstu. Skýjaborgin
Neptúnus, annar stærsti nýsköpunartogari landsmanna setti nýtt met í gær þegar
hann seldi afla sinn í Englandi fyrir hálfa milljón króna. Aflinn sem togarinn
seldi var 5709 kits; þar af voru 4293 kits þorskur, 898 kits ýsa, 358 kits ufsi
og lítilsháttar af öðrum fisktegundum, samtals 5709 kits fyrir 19.069
steriingspund eða hálfa miljón króna. Þetta var
fimmta söluferð togarans en í tveimur öðrum ferðum hafði hann einnig sett
afla og sölumet. Í fyrradag setti nýsköpunartogarinn Akurey nýtt sölumet fyrir
minni gerð nýsköpunartogaranna, seldi hann fyrir 14 903 sterlingspund.
Þjóðviljinn. 8 maí 1948.
Neptúnus RE 361 kemur til hafnar með fullfermi. Ljósmyndari óþekktur.
Neptúnus
tefst í Englandi vegna brunaskemda
Togarinn Neptúnus hefir orðið fyrir töfum í Englandi vegna
bruna í kyndistöð skipsins. Menn sakaði ekki. Rjett áður en skipið átti að
sigla frá Grimsby til Reykjavíkur var það að ljúka við að taka olíuforða.
Kviknaði þá eins og áður segir, í kyndistöð skipsins. Um tíma leit svo út, að
eldurinn mundi ná útbreiðslu og ef til vill komast í olíugeyma skipsins. Gat þá
orðið um sprengingu að ræða, sem hefði ónýtt skipið.
Slökkviliðinu í Grímsby, sem var komið á vettvang innan fárra mínútna, tókst að
ráða niðurlögum eldsins. Skemmdir urðu nokkrar í kyndistöð, einangrun á
eimkatli og loftskeytaklofa. Viðgerð á skipinu mun taka nokkurn tíma. Neptúnus
er tæplega ársgamall og er eigandi hans hlutafjelagið Júpíter í Reykjavík. Hann
hefur farið 13 söluferðir á árinu og er söluhæstur allra togara á árinu 1948.
Hefur selt fyrir 172 þúsund
sterlingspund, og setti heimsmet í sölu í maí s. I. Hann er systurskip
við togarann Mars, en samkvæmt teikningu af þeim í öllum aðalatriðum hefur
ríkisstjórnin samið um byggingu 10 nýrra togara í Bretlandi.
Skipstjóri á Neptúnus er hinn þjóðkunni aflamaður Bjarni Ingimarsson, en hann
sigldi ekki með skipið til Englands þessa söluferð.
Morgunblaðið. 17 desember 1948.
Neptúnus RE 361 leggst að bryggju í Hull. Ljósmyndari óþekktur.
Eldur í
Neptúnusi út af Garðskaga
Mannbjörg varð
Um kl. 18.30 í gærkvöldi kom upp eldur í togaranum
Neptúnusi, er hann var staddur 21 sjómílu norðvestur af Garðskaga. Skipshöfnin,
32 menn , snerist þegar gegn eldinum, sem kom upp undir katli skipsins, en fékk
ekki við neitt ráðið. Á tíunda tímanum gaf skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson ,
skipshöfninni fyrirmæli um að yfirgefa skipið, en þá var varðskipið Albert
komið á staðinn til hjálpar. Áhöfn togarans fór á tveimur bátum yfir í
varðskipið, og sakaði engan . K l. 23.15 í gærkvöldi höfðu sjö menn af áhöfn
b.v. Neptúnusar farið aftur um borð í skipið, þeirra á meðal skipstjórinn. B.v.
Júpíter var þá kominn á staðinn, og kl. 0.50 hafði taug og dráttarvírar verið
festir milli skipanna . Lagði bv Júpiter þá af stað til Reykjavíkur með bv.
Neptúnus í drætti. 25 menn af áhöfn Neptúnusar voru þá um borð í Albert og
væntanlegir til Reykjavíkur milli kl. 3 og 4 í morgun . Hinir sjö voru í b.v.
Júpiter, en hann var væntanlegur til Reykjavíkur ásamt Neptúnusi kl. 6-7 í
morgun .
Búizt var við í nótt, að hafnsögubáturinn Magni kæmi á móti skipunum
með aflmiklar slökkvidælur. Sem fyrr segir, bar slökkvistarf áhafnarinnar á
Neptúnusi ekki árangur. Eldurinn náði fljótlega útbreiðslu í vélarúminu. Þar
niðri voru gas- og súrefnistæki, sem juku á sprengingarhættu í skipinu. Sagði
Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður, í stuttu símtali við Morgunblaðið í
gærkvöldi, að það hafi fyrst og fremst verið með tilliti til þessarar hættu, að
skipið var yfirgefið. Útgerðarfélögin Júpíter og Marz gera tvo fyrrnefnda
togara út Tryggvi sagði og, að áður en skipið var yfirgefið, hafi öllum hurðum
og gluggum verið lokað í þeirrr von að á þann hátt mætti kæfa eldinn. Þegar
Mbl. vissi síðast til í nótt, var of snemmt að fullyrða nokkuð um hugsanlega
björgun skipsins, en mikill eldur var í því, þegar það var yfirgefið. Skipið er
vátryggt hjá Vátryggingamiðstöðinni hf.
Liklegt var talið, að kviknað hefði í
út frá einangrun á katli. Togarinn Neptúnus, sem er eign h.f." Júpíters
hér í Reykjavík, fór á veiðar héðan aðfaranótt föstudags. Togarinn hefur undanfarið
verið í 16 ára flokkunarviðgerð í Reykjavik. Slík flokkunarviðgerð mun kosta um
2,5 millj. kr. Bjarni Ingimarsson, hinn þjóðkunni skipstjóri, fór með sínu
gamla skipi í þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, en hann hefur
undanfarið verið með bv. Júpíter. Botnvörpungurinn Neptúnus er smíðaður í
Aberdeen árið 1947, 684 brúttólestir að stærð. Þegar hann var fimmtán mánaða
gamall, kom upp eldur í honum, er hann var staddur í Grimsby. Urðu þá svo
miklar skemmdir á skipinu, að það kostaði um 3/4 af kaupverði skipsins að
endurbæta hann.
Alla tíð hefur Neptúnus verið meðal aflahæstu togara íslenzka
fiskiskipaflotans. Árið 1948 setti hann sölumet (í sölu ísvarins fisks) í
Bretlandi. Var það heimsmet, sem stóð óhnekkt í þrettán ár.
Morgunblaðið. 29 ágúst 1964.
B.v. Neptúnus á toginu. (C) Sigurgeir B Halldórsson.
Neptúnus
kveður
B.v. Neptúnus RE 361, einn frægasti togari íslendinga fyrr
og síðar, sigldi í gær áleiðis til Spánar í brotajárn. Hann hefur legið á þrjú
ár við Ægisgarð. Eigandi Neptúnus var h/f Júpiter. Togarinn var smíðaður 1947 í
skipasmiðju John Lewis & Sons í Aberdeen. Smíði Neptúnusar var að öllu
leyti lokið á aðfangadagskvöld jóla 1947, er skipið hélt áleiðis til Íslands.
Skipstjóri var Bjarni Ingimarsson. Neptúnus kom til Hafnarfjarðar á 3. í jólum
og fór á veiðar tafarlaust, eftir að Páll Halldórsson, skólastjóri
Stýrimannaskólans, hafði lokið mælingu skipsins. Neptúnusi gekk afburða vel
strax. Setti heimsmet í sölu í Grimsby þann 7. mai 1948, landaði 5.709 kits,
sem jafngildir 363 tonnum. Sala í sterlingspundum var 19.069.
Neptúnus átti heimsmetið í alls þrettán ár, lengst allra togara fyrr og síðar.
Á karfaárunum eftir 1950 kom Neptúnus til Reykjavíkur með einn mesta karfaafla,
sem nokkur togari hefur fengið. Neptúnus var systurskip Marz, en þau voru
smíðuð samtímis. Tryggvi Ófeigsson sá um smíði beggja togaranna, kom með þeim
heim og tók við þeim báðum. Marz kom til Reykjavíkur á sumarmálum 1948.
Skipstjóri á honum var Þorsteinn Eyjólfsson. Meðan á smíði skipanna stóð
dvaldist Tryggvi Ófeigsson að mestu í Aberdeen og fékk eftirfarandi breytingum
framgengt á smíðasamningi nýsköpunarstjórnarinnar: 1) Skipin voru lengd um 8,5
fet. 2) Skjólborð hækkað, sem var talin hin ágætasta breyting, þegar skipverjar
unnu á framdekki. 3) Lestarhlerar gerðir úr stáli, svo aldrei þurfti eftirlits
á dekki í ofviðrum. 4) "Mónó"-lifrardælur settar í bæði skipin, þannig að
lifrarburður var úr sögunni, sem var afleit vinna og hættuleg í vondum veðrum.
Neptúnus og Marz voru fyrstu skipin með þessum breytingum.
Stækkun skipanna jók burðarþol mjög og skipin urðu gangmeiri, svo um munaði í
mótvindi. Margar fleiri breytingar voru gerðar, þótt ekki séu þær taldar hér.
Miklir aflamenn hafa verið skipstjórar á Neptúnusi. Lengst var Bjarni
Ingimarsson, alls þrettán ár, og Jóhann Sveinsson, sem var í átta ár. Neptúnus
hefur borið að landi geysilegan afla fyrir íslenzku þjóðina, verið mikið
happaskip og greitt alla tíð hæstu opinber gjöld allra íslenzkra togara.
Neptúnus kveður Ísland skuldlaus.
Morgunblaðið. 7 október 1976.
26.12.2017 16:47
2895. Viðey RE 50. TFJI.
Skipstjóri á Viðey er Jóhannes Ellert Eiríksson, sem áður var skipstjóri á Ottó N Þorlákssyni RE 203, en hann verður væntanlega seldur á næstunni. Áhöfnin á Ottó mun fylgja skipstjóra sínum á hið nýja og glæsilega skip.
2895. Viðey RE 50 við bryggju í Örfirisey í dag.
Móttökuathöfn
Viðeyjar RE 50 í dag
Í dag var haldin móttökuathöfn vegna komu ísfisktogarans
Viðeyjar RE 50 til landsins, en Viðey leysir Ottó N. Þorláksson af hólmi eftir
tæplega 40 ára dygga þjónustu. Athöfnin fór fram í heimahöfn skipsins við
Reykjavíkurhöfn kl.14:00. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, bauð
gesti velkomna og fjallaði um mikilvægi endurnýjunar flotans fyrir félagið
ásamt því að hann þakkaði því góða fólki sem einna helst hefur unnið að smíði
skipsins.
Krisján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði einnig
gesti móttökunnar og fjallaði meðal annars um það að íslenskur sjávarútvegur
hafi snúið vörn í sókn. Hann lagði áherslu á það hversu mikill ávinningur það
er að fá ný skip með framúrskarandi tækni og tækjabúnað á millidekkjum og í
lestarkerfum sem byggir á íslensku hugviti og ekki hvað síst á reynslu
sjómanna. Meðferð aflans verði mun betri og aðbúnaður áhafnar eins og
best verður á kosið. Síðast en ekki síst sé Viðey, ásamt systurskipum hennar,
Engey og Akurey, mun umhverfisvænni en þau eldri og að breytingunni megi líkja
við byltingu. Hann óskaði HB Granda til hamingju með Viðey og sagði skipið vera
góðan vitnisburð um þann kraft og sóknarhug sem einnkennir HB Granda og um leið
íslenskan sjávarúteg um þessar mundir.
Karlakór Reykjavíkur söng síðan lag fyrir gesti og Líf Magneudóttir, forseti
borgarstjórnar Reykjavíkurborgar óskaði félaginu til hamingju og nefndi í
ávarpi sínu hversu vel við hæfi það væri að fá þrjú ný skip í Reykjavíkurhöfn á
100 ára afmæli gömlu hafnarinnar. Hún nefndi einnig mikilvægi sjávarútvegs í
áranna rás og að sjávarútvegurinn muni áfram vera ein mikilvægasta atvinnugrein
Íslendinga. Að lokum afhenti hún Ella skipstjóra og áhöfn skipsins gjöf í
tilefni komu skipsins.
Rannveig Rist, varaformaður stjórnar HB Granda, gaf skipinu síðan formlega nafn
og Sr. Hjálmar Jónsson blessaði skipið. Eftir blessunina söng karlakórinn að
nýju. Í lok athafnarinnar gafst gestum kostur á að skoða skipið og þiggja
veitingar um borð undir ljúfum harmonikkuleik Margrétar Arnardóttur.
Vefsíða H.B. Granda hf. 22 desember 2017.
Þriðja systirin komin heim
Vel var tekið á móti nýjum ísfisktogara HB Granda, Viðey
RE, við hátíðlega athöfn við Reykjavíkurhöfn í gær. Kristján Þór Júlíusson,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði Viðey, ásamt systurskipum
hennar, Engey og Akurey, mun umhverfisvænni en þau skip sem þau leysa
af hólmi. Tilkomu systranna þriggja megi líkja við byltingu.
Viðey leysir af hólmi Ottó N. Þorláksson sem þjónað hefur útgerðinni í tæp
40 ár, en Engey og Akurey komu hingað til lands fyrr á árinu
frá Céliktrans-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi.
Ísfisktogararnir þrír kosta samtals um sjö milljarða króna, samkvæmt upplýsingum
Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, að því er fram kemur í
Morgunblaðinu í dag.
Vilhjálmur fjallaði í gær um mikilvægi endurnýjunar flotans fyrir félagið
auk þess sem hann þakkaði því góða fólki sem einna helst hefði unnið að smíði
skipsins.
Ráðherrann óskaði enn fremur HB Granda til hamingju með Viðey og sagði
skipið vera góðan vitnisburð um þann kraft og sóknarhug sem einnkennir
HB Granda og um leið íslenskan sjávarúteg um þessar mundir.
Mbl.is 23 desember 2017.
26.12.2017 07:56
B. v. Goðanes NK 105 kemur til heimahafnar á annan dag jóla árið 1947.
70 ár eru í dag síðan annar Nýsköpunartogari Norðfirðinga, Goðanes NK 105 kom til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar í fyrsta sinn. Goðanes var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,20 x 5,55 m. Smíðanúmer 786. Eigandi skipsins var samnefnt hlutafélag í Neskaupstað sem 8 einstaklingar stóðu að. Þeir voru;, Vigfús Guttormsson, Sigurður Hinriksson, Stefán Höskuldsson, Anton Lundberg, Þorsteinn Júlíusson, Ársæll Júlíusson, Jónas Valdórsson og Óskar Lárusson.
Strax í upphafi tókst góð samvinna með Bæjarútgerð Neskaupstaðar og Goðanesi h/f. Í febrúar 1947 samþykkti stjórn Goðaness að ráða framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar, Steindór Árnason til að annast einnig framkvæmdastjórn Goðaness h/f. Rekstrarstjórn útgerðarfélaganna var ávallt sameiginleg eftir þetta. Goðanes h/f þurfti á bæjarábyrgð að halda vegna kaupa á togaranum og var sú ábyrgð veitt með áhveðnum skilyrðum, sem voru m.a. að skipið væri skráð í Neskaupstað og gert þaðan út.
Skipverjar skulu vera búsettir í Neskaupstað, að svo miklu leyti sem tök eru á.
Bæjarsjóður Neskaupstaðar skildi hafa forkaupsrétt að skipinu. Verði það selt innan fimm ára frá hingaðkomu þess skyldi Bæjarsjóður hafi rétt til að kaupa það á upphaflegu verði að viðbættum endurbótum eða breytingum, en að frádreginni fyrningu. B.v Goðanes NK 105 var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Beverley.
Heimild að hluta úr Norðfjörður saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson 1983.
B.v. Goðanes reyndur á mánudaginn
Nýsköpunartogarinn "Goðanes", sem verður gerður út frá Neskaupstað í Norðfirði, er væntanlegur hingað til lands fyrir jólin. Skipshöfnin, sem á að taka við "Goðanesi", fór utan með togaranum "Agli Skallagrímssyni" fyrir nokkurum dögum. Skipstjóri verður Árni Ingólfsson. Það er hlutafélagið Goðanes í Neskaupstað, sem gerir togarann út, með tilstyrk bæjarstjórnar staðarins. "Goðanes" er um 640 smálestir að stærð, af sömu gerð og nýsköpunartogararnir "Hvalfell" og "Geir" og smíðaður í sömu skipasmiðastöð, Beverley. Skipið fer í reynsluför á mánudaginn.
Vísir. 13 desember 1947.
B.v. Goðanes NK 105 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað. (C) Björn Björnsson.
B.v. Goðanes NK 105 á toginu. Ljósmyndari óþekktur.
Neskaupstaður eignast tvo nýja togara í ár
Síðari nýsköpunartogarinn kominn
Geri aðrir 1.300 manna bæir betur
Goðanes, annar nýsköpunartogari Norðfirðinga kom til Neskaupstaðar kl. 11 á annan dag jóla. Var bærinn fánum skreyttur og mikill fögnuður við komu togarans, en Neskaupstaður, sem er 1300 manna bær, hefur eignazt tvo nýja togara á þessu ári. Fyrri nýsköpunartogari Norðfirðinga, Egill rauði hefur selt fyrir á aðra milljón og er nú í sinni 6. veiðiför.
Goðanes er eign samnefnds hlutafélags í Neskaupstað og eru hluthafar þessir; Vigfús Guttormsson, formaður félagsins, Sigurður Hinriksson, Jónas Valdórsson, Óskar Lárusson, Ársæll Júlíusson, Þorsteinn Júlíusson og Anton Lundberg. Goðanes er smíðaður hjá Beverley skipasmíðastöðvunum og er frágangur allur með ágætum. Skipstjóri er Árni Ingólfsson, 1. stýrimaður Guðmundur Ólafsson, (báðir úr Reykjavík), 1. vélstjóri er Jens Hinrkisson (frá Norðfirði). II. vélstjóri Bjarni Nikulásson, Loftskeytamaður er Pétur Goldstein. Hásetar eru frá Norðfirði. Framkvæmdastjóri er sami og Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, Steindór Árnason. Konur eigenda togarans buðu áhöfn skipsins, bæjarstjórn stjórn sparisjóðsins o. fl. til hófs um kvöldið, og sátu það nálægt 100 manns. Var þar flutt kvæði eftir Guðmund Magnússon.
Ræður fluttu: Krístín Helgadóttir, Vigfús Guttormsson, Lúðvík Jósepsson, Bjarni Þórðarson, sr. Guðmundur Helgason, Jóhannes Stefánsson og Anton Lundberg. Goðanes fór í gærkvöld áleiðis til Reykjavíkur en þar á að setja bræðslutæki í skipið en síðan fer það á veiðar. Norðfirðingar eru mjög ánægðir með að hafa eignazt tvo nýja togara á þessu ári og þakka það góðri aðstoð fyrrverandi ríkisstjórnar, nýbyggingarráði, en einkum þó Lúðvík Jósepssyni alþingismanni.
Óvenju harður vetur hefur verið fyrir austan, er þar nú hörkufrost og snjór yfir allt. Bátar eru að búa sig til vertíðar á Hornafjörð og Suðurnes.
Þjóðviljinn. 28 desember 1947.
25.12.2017 15:26
1435. Haraldur Böðvarsson AK 12. TFBF.
Nýr
skuttogari Haraldur Böðvarsson AK
Skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK 12 kom í sína heimahöfn
"Krossvík" kl. 6 í gær, eftir rúmlega þriggja sólarhringa siglingu frá
Bódö í Noregi. Þaðan keypti Haraldur Böðvarsson & Co. h.f. skipið sem hét
áður "Bátsfjord" og er systurskip togarans "Skinney" sem keypt var
til Hornafjarðar nýlega. Lengd skipsins er 46,45 m, breidd 9 m og dýpt 6,50 m.
Aðalvélin er 1500 ha. MAK, 8 strokka. Togarinn er búinn öllum þeim fullkomnu
tækjum, sem áður um getur í sambandi við innflutning slíkra skipa. Það var
talað um það að þorskurinn og ýsan mættu nú fara að vara sig, ef stofnarnir
ættu að halda lífi að óbreyttum aðgerðum í friðunar- og ræktunarmálum.
Við móttöku togarans flutti Jón M. Guðjónsson f.v. sóknarprestur ávarp, þar sem
hann bauð skip og skipshöfn velkomna til hafnar og óskaði þeim öryggis og
velfarnaðar í bráð og lengd. Hann minntist einnig Haralds Böðvarssonar og
óskaði fyrirtækinu hagsældar og Akranesi atvinnuöryggis. Skipið fer á veiðar
eftir tvo til þrjá daga.
Skipstjóri er Kristján Pétursson og vélstjóri er Jón Kristjánsson.
Morgunblaðið. 2 ágúst 1975.
Haraldur Böðvarsson AK 12 við bryggju á Akranesi. (C) Sveinn Ingi Thorarensen.
Haraldur
Böðvarsson AK 12
30. júlí s. l. kom skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK 12
til Akraness í fyrsta sinn. Þetta er 3. skuttogarinn, sem Akurnesingar eignast
en fyrir eru á staðnum Krossvík AK og Ver AK. Skuttogari þessi, sem áður bar
nafnið Batsfjord, var keyptur frá Noregi og var afhentur fyrri eigendum í apríl
á þessu ári. Skipið er byggt hjá Storviks Mek. Verksted A/S Kristiansund,
nýbygging nr. 67 hjá stöðinni, og er svonefnd R-155 A gerð frá Storviks. Þetta
er fimmti skuttogarinn í flota landsmanna sem umrædd stöð hefur byggt og sá
fjórði af þessari gerð, hinir þrír eru: Dagstjarnan KE 9, Framtíðin KE 4 og
Skinney SF 20. Stálvík h.f. hefur byggt tvo skuttogaara af þessari gerð, en það
eru Stálvík SI 1 og Runólfur SH 135. Haraldur Böðvarsson AK er í eigu samnefnds
hlutafélags á Akranesi. Haraldur Böðvarsson AK mælist 299 rúmlestir, mesta
lengd 46.45 m, breidd 9.00 m, dýpt að efra þilfari 6.50 m og dýpt að neðra
þilfari 4.35 m. Lestarrými er um 280 m3 , brennsluolíugeymar 124 m3 og
ferskvatnsgeymar 47 m3 .
Aðalvél er frá MAK, 1.500 hö, með Hjelset skiptiskrúfubúnaði og skrúfuhring.
Hjálparvélar eru tvær Mercedes Benz, 160 ha, með 124 KVA Stamford rafölum.
Stýrisvél er frá Tenfjord. Í skipinu eru tvær DIA8U togvindur (splitvindur),
sambyggð akkeris- og grandaravinda og tveir kapstan frá Brattvaag svo og
flotvörpuvinda frá Norwinch. Kapalvinda fyrir netsjártæki er frá Elac,
rafdrifin. Af öðrum búnaði má nefna ferskvatnsframleiðslutæki,
lifrarbræðslutæki svo og blóðgunarkör, þvottakar og færibönd á vinnuþilfari.
íbúðir eru samtals fyrir 17 menn. Undir neðra þilfari (framskips) eru fjórir
2ja manna klefar og einn eins manns klefi. Á neðra þilfari eru tveir 2ja manna
klefar og einn eins manns klefi. í þilfarshúsi (á efra þilfari) eru tveir eins
manns klefar fyrir yfirmenn og íbúð skipstjóra. Helztu tæki í stýrishúsi eru:
Ratsjá: Decca, gerð RM924, 48 sml. Ratsjá: Decca, gerð RM926, 64 sml.
Miðunarstöð: Taiyo, gerð TD-A130. Loran: Decca DL 91, sjálfvirkur Loran C.
Gyroáttaviti: Anschiitz. Sjálfstýring: Anschutz. Vegmælir: Bergen Nautik, gerð
FDU.
Dvptarmælir: Simrad EQ 38. Dýptarmælir: Elac LAZ 71 m/botnstækkun. Fisksjá:
Elac LAZ 61. Netsjá: Elac. Talstöð: Sailor T122/R106, 400 W SSB Örbylgjustöð:
Simrad VHFon, gerð PC 3, 25 W.
Að öðru leyti er vísað í lýsingu á Skinney SF (14. tbl. '75), en þessir tveir
skuttogarar eru byggðir eftir sömu teikningu, fyrirkomulag það sama og véla- og
tækjabúnaður, þó með vissum undantekningum. Í Haraldi Böðvarssyni AK er
flotvörpuvinda og einn kapstan umfram, en aftur á móti er ekki losunarkrani.
Tæki í brú eru af sömu gerð, nema fiskileitartæki. Hvílur eru fyrir 17 í
umræddu skipi á móti 19 í Skinney SF, en íbúðarrými er þó hið sama.
Skipstjóri á Haraldi Böðvarssyni AK er Kristján Pétursson og 1. vélstjóri Jón
Skafti Kristjánsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Sturlaugur Böðvarsson.
Ægir. 21 tbl. 1 desember 1975.
Stapaey SU 20 við bryggju á Reyðarfirði. (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.
Stapaey SU 120. Sér í Nökkva ÞH 27 lengst til hægri. (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.
Stapaey SU 120. (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.
Stapaey SU 120. (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.
Fiskeldi
Austfjarða hf.
Fiskeldi Austfjarða hóf starfsemi árið 2012 og hefur síðan
þá unnið markvisst að uppbyggingu á laxog regnbogasilungseldi á Austfjörðum.
Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir umtalsverðri framleiðsluaukningu á
eldisfiski. Það er liður í að styrkja núverandi starfsemi á Austfjörðum og gera
rekstur fyrirtækisins arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma. Áform
fyrirtækisins byggja á því að framleiðsla og afurðir fyrirtækisins verði
umhverfisvænar og framleiddar í sem mestri sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.
Félagið er með umhverfisvottunina AquaGap á framleiðslu og vinnslu félagsins.
Slík vottun gerir miklar kröfur um sjálfbærni og er notkun allra ónáttúrulegra
vinnsluefna bönnuð. Sveitarfélagið Djúpivogur hefur fengið vottun um
umhverfisvænan rekstur frá Cittaslow og er hafin vinna við að Fiskeldi Austfjarða
fái slíka vottun á sína starfsemi. Fiskeldi Austfjarða hefur nú þegar starfsemi
í tveimur fjörðum, þ.e. Berufirði og Fáskrúðsfirði.
Í Berufirði hefur fyrirtækið leyfi til að framleiða 6.000 tonn af laxi og 2.000
tonn af regnbogasilungi á tveimur svæðum, Glímueyri og Svarthamarsvík. Í
Fáskrúðsfirði hefur fyrirtækið leyfi til að framleiða 3.000 tonn af
regnbogasilungi á þremur svæðum, Eyri, Fögrueyri og Höfðahúsabót. Samtals gerir
þetta 11.000 tonn af laxi og regnbogasilungi. Áætlanir gera nú ráð fyrir að
eingöngu verði alinn lax og að árleg í slátrun úr fiskeldinu aukist úr 11.000
tonnum í 21.000 tonn. Í ljósi burðarþolsmata fyrir Berufjörð og Fáskrúðsfjörð
hafa áætlanir verið uppfærðar. Í Berufirði er því áætlað að ala 10.000 tonn af
laxi í stað 6.000 tonna og 2.000 tonna af regnbogasilungi og í Fáksrúðsfirði er
áætlað að ala 11.000 tonn af laxi í stað 3.000 tonna af regnbogasilungi.
Útsetningaráætlun Fiskeldis Austfjarða, mun bjóði lög svo, taka mið af nýju
áhættumati Hafrannsóknarstofnunar. Samkvæmt matinu munu 10.000 tonn sem áætlað
er að ala í Berufirði, verða 6.000 tonn frjór lax og 4.000 tonn verða geldlax.
Í Fáskrúðsfirði munu 6.000 tonn verða frjór lax og 5.000 tonn verða geldlax.
Heildarmagn framleiðslunar verður eins og áður sagði í samræmi við nýtt
áhættumat vegna hættu á erfðablöndun milli eldisfiska og náttúrulegra
laxastofna.
Ice Fish Farm 2017.
25.12.2017 09:41
Víkingur NK 41.
Víkingur NK 41 á Norðfirði. (C) Ólafur Óskarsson.
Lófótungar
Bátar af gömlu Lofotgerðinni, grunnir, flatbotna með há og
bein stefni og niðurskorna stafna. Lófótungar voru þeir kallaðir á Austurlandi.
Þeir voru kunnir þar sumstaðar um og eftir síðustu aldamótin, ýmist fjórrónir eða
sexrónir. Áður fyrr voru þessir bátar algengustu fiskifleyturnar í Lofoten.
Þeir voru þar kallaðir áttæringar, þó að þeir væru með 5 ræði á borð. Þeir
höfðu rásegl eins og gömlu víkingaskipin.
Þorsteinn J. Víglundsson. 1953.
24.12.2017 07:58
Togarar í höfn um jólahátíðina.
Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og
farsældar á komandi ári
Hafið það ávallt sem allra best yfir
hátíðirnar
Bestu jólakveðjur til ykkar.
23.12.2017 10:02
318. Bára SU 526.
Björgun úr
sjávarháska.
Hornafjarðarós er ekki árennilegur í slæmu og oft alveg ófær. Þverbrýtur fyrir hann, þegar verst gegnir. Miklar grynningar eru þar úti fyrir, straumþungt, bæði vegna sjávarfalla og Hornafjarðarfljóts, sem fellur um ósinn með enn meiri þunga á útfalli en annars. Yfirmenn á Báru voru lengi vel óráðnir, hvort fara skyldi í róðurinn, en þó var lagt upp, þegar komið var fram undir birtingu. Tveir aðrir bátar höfðu róíð, Svala frá Eskifirði og Sporður frá Húsavík. Allt gekk vel á leiðinni út á miðin, þrátt fyrir veðrið, en á var suðvestan vindur allhvass með skörpum éljahryðjum, og sjóþungt. Ákvörðunarstaðurinn var út af Hornafjarðarskerjum um klukkustundar sigling S.S.V. frá Hlein. Ekki fannst þeiim félögum ráðlegt að leggja alla línuna, og eitthvað mun yfirlegan hafa verið í styttra lagi.
Hornafjarðarós á góðviðrisdegi. Ljósmyndari óþekktur.
Línudrátturinn geftk vel, en afli var tregur. Siglingin heim á leið gekk
áfallalaust í fyrstu, þó hægt væri, á vél einu sinni eða svo.Eitthvað var rætt
um það um borð að ganga vel frá öllu lauslegu. Við öllu mátti búast, er nálgast
tæki ósinn, en ekki virtist nein sérstöft ástæða til að vera með frekari
varúðarráðstsfanir en vant var. Hásetarnir þrír voru í hásetaklefa, en
vélstjóri og formaður í stýrishúsi. Þegar Bára er stödd á siglingaleiðinni S.V.
frá Þinganesskerjum og nokkrar bátslengdir ófarnar af þeirri leið, sem
varasömust er talin, sjá þeir, sem í stýrishúsi eru, að mjög stór brotsjór
tekur sig upp vestan við bátinn og stefna holskeflunnar er beint á hann.
Formaður snýr í skyndi stefni Báru í sjó, þó ekki beint, heldur beitir hann
bakborðskinnung í sjóinn, af ótta við að stýrishús og allt ofan þilja geti
sópast brott með sjónum. Sýnt þótti, að ekki varð undankomu auðið. Þessi feikna
holskefla, á hæð við siglutoppa Báru og íhvolf eins og þær verstar geta orðið,
ógnaði með sínum ægikrafti, og hamingjan ein mátti vita hvernig fara mundi.
Báran mætir örlögum sínum sterkbyggð, en lítil á nútíma mælikviarða, eins og
smáhnoðri í hafrótinu.
Hún lyftist fyrst upp á brotið, en svo er eins og kippt sé undan henni skorðuni
og hún hafi engan flöt að standa á. Hún snýst undan sjónum í stjórnborða en
síðan með miklu afli á hliðina, svo siglutré nema við sjó. Holskeflan æðir yfir
og allt hverfur sjónum manna.
Rétt áður en brotið skellur yfir bátinn heyra
þeir sem í hásetaklefanum halda sig undarlega háværan gný og finna að eitthvað
er öðruvísi en á að vera. Þeir verða varir við að bátnum er snúið og slegið af
vél og einn hásetanna stekkur upp í lúkarskappann til, að athuga, hvað um er að
vera. Þegar hann lítur út, er sjórinn í þann veginn að skella á bátnum. Hann
sér, hvað að fer og finnst hyggilegast að forða sér sem fyrst niður aftur. Um
leið og hann fer niður, sér hann að lóðabalar úr bakborðsgangi hefjast á loft
og eins og svífi í boga upp og yfir stýrishús bátsins. Síðan verður allt óljóst,
hvað gerist. Allt lauslegt í hásetaklefa fer á fleygiferð. það heyrist braka og
bresta í tré. Nokkrir menn hafa fylgzt með ferðum Báru frá því hún fór að
nálgast landið. Menn eru staddir í Hvanneyjarvita í u.þ.m. 500 m. fjarlægð frá
þeim stað, er sjórinn reið yfir bátinn. Nokkrir menn eru staddir uppi á
Miklueyjarþúfu, svonefndri, einum bezta útsýnisstaðnum yfir ósinn, í nágrenni
Hafnarkauptúns. Þar á meðal tveir bræður formanns og vélstjóra á Báru og faðir
þeirra. Einnig urðu vitni að þessu skipsmenn á v.b. Sporði, sem var í tæpra 100
m. fjarlægð frá staðnum. Allir stara þessir menn, lostnir skelfingu, á sjóinn
kaffæra bátinn, sjá bann hverfa og þeir standa á öndinni drykklanga stund, að
þeim finnst, augu þeirra hvarfla Ieitandi um úfinn sjóinn. Báru er ekki að sjá
á yfirborðinu. Allt í einu sjá mennirnir í Hvanneyjarvita eitthvað rautt í
vatnsskorpunni, botninn á Báru kemur í ljós, kvikan brotnar yfir rekaldið, sem
smáhækkar í sjónum og loksins brýtur báturinn af sér ok sjávarþungans og kemst
á réttan kjöl.
Um borð í Báru var ömurlegt um að litast, línur og bólfæri
vöfðust um bátinn frá siglutoppi að sjávarfleti. Sjö línubelgir voru fastir við
"salningu" á aftursiglu. ÖIIu lauslegu hafði skolað fyrir borð og
lunningin stjórnborðsmegin horfin. Framsiglan brotin sundur, en á sínum stað.
Bómurnar dingluðu lausar - kaðlar sem héldu þeim höfðu slitnað. Í hásetaklefa
var allt á tjá og tundri. Hringir af eldavél og kola glóð höfðu markað
brunabletti í loft hásetaklefa og lágu nú m.a. í kojum skipverja. Stýrishúsið
hafði staðizt sjóinn að mestu, en allar rúður þar voru brotnar. Í vélarrúminu
hafði allt gengið úr skorðum, ekkert lauslegt á sínum stað. Sjór hafði komizt í
bátinn, en minna en búast mátti við. Þegar formaður og vélstjóri verða þess
varir, að báturinn er að komast á réttan kjöl, gripa þeir báðir til þess að
gefa vélinni fullan kraft áfram. Hún hafði gengið allan tímann síðan báturinn
fékk á sig sjóinn. Báturinn rífur sig upp, og þeir þykjast úr helju heimtir. En
sjaldan er ein báran stök. Er þeir leggjast á stýrið og hyggjast sveigja bátnum
inn á ósinn, fór vélin að þyngja ganginn, og að lokum stöðvast hún alveg. Þeir
gera sér grein fyrir því, hvað að er. Línur og bátfæri, sem voru allt í kringum
bátinn hafa lent í skrúfunni og nú virðast allar bjargir bannaðar. Stormur og
straumur bera nú bát og menn í áttina til hinna ógnvekjandi Þinganesskerja
austan við ósinn og hér má engan tíma missa. Bátverjar stökkva að akkerinu,
losa um það og koma því út. Keðjan rennur á eftir og vír, sem tengdur var
keðjunni. Til allrar hamingju nær akkerið festu í botni, og það strengist á
vírnum, en sífellt nálgast þeir skerin. Nú er fátt góðra ráða. Skipverjar, sem
sáu slysið, snúa á brott frá staðnum. Bát og vél er ekki treyst í þær aðstæður,
sem þarna eru. Að hleypa upp í sand var ekki fýsilegt og varla hægt. Veður fór
versnandi. Bátverjar hugsa til lands og hvort þaðan væri hugsanleg björgun, en
þeim kemur saman um, að enginn mundi fara um ósinn nú. Allar bjargir virtust
bannaðar og brotin á Þinganesskerjum varð meira en bátslengd aftan við Báru.
Hér varð eitthvað óvænt að koma til og svo lengi er von sem lifir.
Hvanney SU 442 var smíðuð í Noregi árið 1913. Var fyrst í eigu P. Stangeland á Fáskrúðsfirði og hét þá Hövding SU 442. 20 brl. Mynd úr Íslensk skip.
Af
Miklueyjarþúfu hafði verið fylgzt með því, sem gerðist, og þegar sást að báturinn
var kominn upp og rak undan straum og vindi, var brugðið hart við til að leita
eimhverra ráða til björgunar. Sennilega mun flestum hafa komið eitthvað svipað
í hug. Hvanney ! Hún var með nýju aflmiklu vélina og auk þess þar um borð voru
menn í þess orðs fyllstu merkingu. Gætu þeir ekki bjargað Báru, var lítil von.
Þangað var farið, tíðindin sögð og það var engin fýluför. Þeir skipverjar af
Hvanney, sem ekki voru að horfa á hrakfarir Báru, voru um borð og sem einn
maður rísa þeir upp, vélin sett í gang með einu handtaki og leystar landfestar
og haldið út að slysstaðnum. Á leiðinni út Ósinn voru lestarhlerar skorðaðir og
allt lauslegt fest. Það voru geiglausir menn, sem þarna fóru og aðeins eitt í
hug þeirra allra, "Við björgum Báru,
hvað sem það kostar." Eftir skamma stund eru þeir komnir á staðinn.
Möguleikar til björgunaraðgerða eru athugaðir og flest, sem í hugann kemur í
fyrstu, reyndist ógerlegt. Tvær tilraunir eru gerðar, til að láta lóðabelg með
áfastri línu reka að Báru, en í bæði skiptin ber straumurinn hann frá. Aðstæður
eru verri en orð fá Iýst. Formaður hugsar sitt ráð í skyndi:
Að koma sunnan að
bátnum er ekki gerlegt, en þaðan var björgunarvonin mest. Straumur, stórsjór og
vindátt stóð þaðan, og mestar líkur fyrir því að ekkert yrði ráðið við Hvanney
ef afturhlutinn sneri í sjó. Formaðurinn kemur auga á eina leið, en ekki
álitlega en hún er reynd. Farið er austur fyrir Báru, svo fast með brotunum af
Þinganesskerjum, sem fært er, og rennt fram með bátnum, svo nærri, að línu
verður komið um borð. Kannski mátti kalla þetta fífldirfsku, allavega áræði og
þetta tókst. Grastóg var síðan dregið yfir í Báru, það fest og Hvanney með sín
110 hestöfl fór að mjaka Báru frá voðanum. Meðan á björgun hafði staðið, lá
Hvanney undir áföllum. Tók hún á sig tvo sjóa, annan að framan en hinn helltist
yfir bátinn að aftan, færði í kaf allt, sem þar var og braut sig fram í
stýrishús um eldhús, sem staðsett var aftan stýrishússins og gegnum hurð þar á
milli. Einn bátverja af Hvanney komst ekki í skjól, áður en sjórinn skall yfir
en hafði tíma til að skorða sig af og ná góðum tökum í rekkann.
Ósinn var nú
alveg ófær, svo mikið hafði sjórinn gengið upp meðan á björgun stóð, þó
frábærlega stuttan tíma tæki. Haldið var áleiðis austur með landi í ólátasjó og
hvössum vindi. Skipshöfnin á Hvanney, sem sýnt hafði bæði samheldni, öryggi og árvekni,
hélt því áfram og ferðin til Berufjarðar gekk áfallalaust að kalla, en þangað
komast bátarnir kl. 2 um nóttina. Ekki verður feigum forðað, né ófeigum á hel
komið, segir máltækið, og hér átti það síðara vel við. Háskinn, sem Bára og
"skipshöfn hennar var í, er öllum auðsær, og Hvanney og hennar skipshöfn
lagði sig óhikað í sama háskann. En þegar giftan og áræðið, hreystin og
manngæzkan haldast í hendur, fer vel. Fréttirnar bárust út um morguninn, Báru
hafði verið bjargað úr sjávarháska. Skipshöfnin, sem vann að björguninni lagði
út í algjöra tvísýnu, allir voru heimtir úr helju, heilir á húfi. Hvílíkur
léttir hefur það ekki verið mönnunum, sem horfðu á allan tímann, aðstandendum
og vinum. Öllum sem vit hafa á, ber saman um það, að skipshöfnin á Hvanney hafi
hér unnið mikið afreksverk. Gamall og reyndur sjómaður, sem horfði á
björgunina, kemst svo að orði, að þetta væri einungis á færi félaganna á
Hvanney. Öllum kemur saman um, að þeir eigi heiður skilið, og svo mikið er
víst, að skipverjar á Báru líta á þá sem Lífgjafa sína.
Heimildarmenn eru skipverjar af Báru og Hvanney. Einnig sjónarvottar af
Miklueyjarþúfu og Hvanneyjarvita.
Tíminn sunnudagsblað. 17 júlí 1966.
Þórólfur Friðgeirsson.
18.12.2017 06:41
Brúarfoss l. LCKM / TFUA.
Brúarfoss á siglingu. Málverk eftir R. Matthias 1956.
Brúarfoss við komuna til landsins 20 mars árið 1927. Ljósmyndari óþekktur.
Brúarfoss í Skipasmíðakvínni 1 desember 1926. (C) Eimskipafélag Íslands.
Brúarfoss. Glæsilegt skip. (C) Eimskipafélag Íslands.
"Brúarfoss" hið nýja skip Eimskipafélagsins.
Klukkan 11 árdegis 21. mars kom "Brúarfoss" upp að
Hafnarbakka. Múgur og margmenni hafði þyrpst niður að höfn og beið þar komu
skipsins. Veður var kyrrt. Var skipið mjög fánum skreytt. Atvinnumálaráðherra
og stjórn Eimskipafélags Íslans fóru út í skipið um morguninn, á meðan það lá
úti á ytri höfn. Er bundnar voru landfestar tók atvinnumálaráðherra til máls.
Hann stóð uppi á stjórnpalli. Heyrðist ræða hans allvel út yfir mannssöfnuðinn.
Í upphafi óskaði hann hinn nýja "Foss" Eimskipafélagsins velkominn að
landi, og árnaði félaginu allra heilla með þetta skip. Mintist hann síðan á
framtak og framsýni þeirra manna, er gengust fyrir stofnun Eimskipafélagsins
fyrir 14 árum, og breyttu með því gersamlega afstöðu vorri til nágrannaþjóðanna
á meginlandinu. Um margra alda skeið urðum við að biðja aðrar þjóðir um farkost
fyrir okkur og afurðir okkar til útlanda og eins láta okkur nægja það sem þeim
þóknaðist að flytja hingað. Hann gat þess ennfremur, að ríkissjóður hafi látið
350 þúsund krónur til skips þessa, með því skilyrði að það yrði fullkomið
kæliskip. Nauðsyn þess, að koma afurðum okkar til útlanda, kjöti og fiski, án
þess að salta þær, er með ári hverju að verða augljósari. Nú t. d. liggur
nokkur hluti saltkjötsins frá í haust óseldur í Noregi og lítt seljanlegur.
Þetta skip sem komið er hér á að verða til þess að slíkt komi síður fyrir
aftur. Að lokum endurtók hann árnaðaróskir sínar, þakkaði stjórn og
framkvæmdastjórn Eimskipafélagsins og bað áheyrendur að taka undir með sjer í
húrrahrópi. Ferfalt húrra gall við frá mannsöfnuðinum og því næst var ræða
atvinnumálaráðherra þökkuð með dynjandi lófaklappi.
Tvær frystivélar eru í skipinu er geta kælt lestirnar, þó tómar séu, niður í
-7%° frosts. En hægt er að kæla hvert lestarrúm fyrir sig, ef skipið hefir
aðrar vörur en kælivörur, ellegar ef eigi er þörf á kælingu nema í sumum
lestarrúmunum. Lítið kælirúm er eitt í einni lestinni, ef menn vilja senda
smásendingar af kælivörum með skipinu. Alls tekur skipið 1577 smálestir; er það
nokkru meira en Gullfoss; en þess er að gæta, að tróðið utan um lestarrúmin
tekur allmikið rúm. Annars myndi flutningsrúm skipsins vera mun meira, þar eð
öll herbergi eru ofan þilja. Vél skipsins er ákaflega vönduð. í vélarrúmi eru
kælivélarnar. Þar er hægt að lesa á mæla hvaða hitastig sé í hverju lestarrúmi
skipsins. Þar eru tvær rafmagnsvélar fyrir kastljós skipsins, loftskeytatæki o.
fl. Farþegarúm skipsins eru mjög vönduð. Er rúm fyrir 26 farþega á 1. farrými
og fyrir 20 á 2. farrými. Þægindi á 2. farrými eru meiri en þekst hafa, er
sérstakt pláss á þilfari fyrir farþega þar. Vélbátur er á þilfari, til að nota
við uppskipun, draga báta á höfnum, þar sem á því þarf að halda. Hefir það eigi
þekst hér áður að hafa slíka uppskipunarbáta á skipum. Á 1. farrými eru klefar
eigi sérlega stórir, en þægilegir og tilhugun öll hin hagkvæmasta. Nýungar á
skipinu eru margar, m. a. eru áhöld til að geta notað loftskeytavita og
rafmagnsáhöld til að nota við mælingar á dýpi. Sérstök lyftitæki eru á fremri
þiljum til að lyfta þungum hlutum, ef á þarf að halda við uppskipun. Lyfta þau
12 smálestum að þyngd. Brúarfoss er hraðskreiðasta skip flotans, fer 13 mílur á
vöku. Eftir þeirri reynslu sem fengin er, fer skipið með afbrigðum vel í sjó.
Skipstjóri á "Brúarfossi" er hr. Júlíus Júliniusson. Var hann síðast á
"Lagarfossi", en við skipstjórn á honum hefir nú tekið hr. Pétur
Björnsson.
Ægir. 1 apríl 1927.
17.12.2017 10:19
B. v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206. TFHG.
Þorsteinn
Ingólfsson er á heimleið
Fyrsti nýsköpunartogarinn af þeim 10, sem verið hafa í
smíðum í Bretlandi síðastliðið ár, og gerður verður út hjeðan frá Reykjavík, er
væntanlegur í kvöld eða nótt. Þetta er Bæjarútgerðartogarinn Þorsteinn Ingólfsson,
skipstjóri Hannes Pálsson sem áður var með Ingólf Arnarson, fyrsta
nýsköpunartogarann sem kom til landsins. Þorsteinn Ingólfsson sem ber
einkennisstafina RE 206, fór frá hafnarbænum South Shields á mánudagskvöld. Þar
tók togarinn olíu til heimferðarinnar, en hann er byggður í Aberdeen. Áhöfnin á
Þorsteini Ingólfssyni, er því sem næst öll hin sama og var með Hannesi Pálssyni
skipstjóra er hann var með Ingólf Arnarson. Togarinn Þorkell Máni, sem verður
eign Bæjarútgerðarinnar, er dieseltogari, mun hann koma til landsins í maí n.
k.
Morgunblaðið. 8 mars 1951.
B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 á veiðislóð. (C) Sigurgeir B Halldórsson.
"Þorsteinn
Ingólfsson" kom til Reykjavíkur í gær
Í hinu fegursta veðri, um kl. eitt í gærdag, sigldi hinn nýi
togari Bæjarútgerðarinnar, Þorsteinn Ingólfsson, fánum skreyttur stafna í
milli, hjer inn í Reykjavíkurhöfn. Borgarstjóri, Gunnar Thoroddsen, hafði ásamt
bæjarráðsmönnum, farið með hafnsögubátnum út á ytri höfn. Borgarstjóri bauð þar
skipstjóra, Hannes Pálsson, og skipshöfn hans, velkomna, og árnaði henni heilla
í starfi sínu á þessu glæsilega skipi.
Þorsteinn Ingólfsson er jafnstór systurskipunum Marz og Neptúnusi. Allar hinar
ytri línur í skipiru mjög svipaðar og í þeim Marz og Neptúnusi. Borðstokkurinn,
milli hvalbaks og aftur að yfirbyggingunni, er rúmlega mannhæðar hár. Þetta
fyrirkomulag hefur verið á Neptúnusi og Marz og gefist mjög vel. Hinir háu
borðstokkar skapa aukið öryggi og skjól við vinnu á þilfarinu. Bátadekkið er
með nokkru öðru sniði en á hinum nýsköpunartogurunum. Heimferðin gekk að óskum.
Ekki vannst tími til að setja reykháfsmerkið á, og ekki er fyllilega búið að
ganga frá fiskmjölsverksmiðjunni, en hvoru tveggja verður gert erlendis.
Þorsteinn Ingólfsson fer í slipp í dag, en í ráði er að togarinn fari á veiðar
á mánudaginn.
Morgunblaðið. 10 mars 1951.
B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 á Grænlandsmiðum. Ljósmyndari óþekktur.
Fyrirkomulagsteikning af Þorsteini Ingólfssyni RE 206 frá Hall Russell & Co Ltd. Úr safni mínu.
"Þorsteinn
lngólfsson til Grikklands?
Grískur útgerðamaður hefur hug á að kaupa togarann Þorstein
Ingólfsson af Bæjarútgerðinni og standa yfir samningar um það. Hefur
útgerðarráð mælt með því að togarinn verði seldur fyrir 20 þús. sterlingspund,
ef um semst. En borgarstjórn hafði áður heimilað forstjórum útgerðarinnar að
leita eftir sölu á togaranum Þorsteini Ingólfssyni og Skúla Magnússyni, þar eð
þeir togarar hafa borið sig ver að undanförnu en aðrir Bæjarútgerðatogararnir.
Togarinn Þorsteinn Ingólfsson RE 206 er byggður í Aberdeen 1951 og er 680 tonn
að stærð. Hinn gríski útgerðarmaður hefur áður keypt hér togara. Ekki hefur enn
verið gengið frá sölu á Þorsteini Ingólfssyni.
Morgunblaðið. 15 maí 1965.
15.12.2017 21:40
Björgunarafrekið við Látrabjarg.
Upptaka þessi var síðar felld inn í heimildarmyndina, en engar myndir höfðu verið teknar við björgun áhafnarinnar af Dhoon. Ég læt hér orð Arthurs Spenser skipverja af Dhoon fylgja með þegar hann sá til björgunarmanna undir bjarginu;" Ég gat ekki látið mér detta það í hug hvernig þeir hefðu komist á staðinn. Þegar ég svo sá það, hugsaði ég sem svo, að þessum mönnum væri ekki fisjað saman. Í mínum augum voru þessir menn eins og englaflokkur. Stórir og sterkir en þögulir menn, sem vissu hvað þeir voru að gera og hikuðu aldrei eitt andartak."
Þessi orð hins aðframkomna skipbrotsmanns segja allt sem segja þarf um kraft og áræði þeirra björgunarmanna frá Hvallátrum, Bræðrabandinu í Rauðasandshreppi og Patreksfirði sem lögðu líf sitt að veði til bjargar þeim sem ennþá voru á lífi um borð í Dhoon.
Þeir sem fórust um borð í Dhoon hétu:
Fred Kirby skipstjóri, Harry Ellison 1 stýrimaður og Fred Wolfenden háseti.
Björgun skipverja af Dhoon.
Dhoon FD 54. Mynd úr safni mínu.
Skipbrotsmenn
og björgunarsveit komin til bæja
Björgun skipverjanna af breska togaranum Dhoon lauk
seinnihluta dags í gær. Voru þá síðustu mennirnir komnir heim til bæja að
Hvallátrum. Björgunarstarfið hefur því staðið síðan á laugardagsmorgun, þar til
í gær. Hafa fæstir björgunarsveitamanna tekið á sig náðir í þær rúmar 50
klukkustundir, sem unnið var að björgun skipbrotsmanna.
Skipbrotsmenn einn af öðrum dregnir í land. Póstkort í minni eigu.
Eins og skýrt var frá hjer í Morgunblaðinu á sunnudag, var búið að ná 7
skipsbrotsmönnum upp á Flaugarnef. Þar voru hjá þeim 7 menn úr
björgunarsveitinni. Þar á sillunni gátu menn ekki lagst niður og sofnað, svo
lítil var hún. Gátu þeir, sem þar voru hvílt sig með því að halla sjer upp að
hamraveggnum. Veður var þá vont, rigning og rok. Upp á silluna voru þeir dregnir
í nokkurskonar björgunarstól. Þangað upp eru um 80 metrar. Þessum mönnum var
svo hjálpað upp á brúnina, en þangað eru um 150 metrar. Er bratti þarna svo
mikill, að vart er hægt að fóta sig, en hægð var höfð á svo skipbrotsmenn myndu
ekki lemjast utan í bjargið og hljóta meiðsl.
Björgunarmenn bera einn skipverjann í skjól upp við bjargið. Úr þrautgóðum á raunastund.
Þegar upp kom voru allir
skipbrotsmenn meira og minna skrámaðir, svo og hinir íslensku björgunarmenn. Á
sunnudag voru þessir sjö er verið höfðu á sillunni fluttir heim til bæja, að Hvallátrum
og að Breiðuvík. Þar var vel um þá búið. Nú víkur sögunni aftur til þeirra er
voru á laugardagskvöld niðri í fjörunni. Þar voru fimm skipbrotsmenn og þrír úr
björgunarsveitinni. Fór vel um þá þar um nóttina.
Á sunnudag tókst að ná öllum upp á brúnina, en ekki vannst tími til að komast
heim til bæja. Var því gist í upphituðu tjaldi á bjargbrúninni, en í gær var
svo lagt af stað til bæja á hestum og komið þangað seinnipart dags. Eins og
skýrt frá frá í blaðinu á sunnudag, voru skipstjóri og stýrimaður, sem voru í
brúnni og tók þá út, er alda reið yfir skipið, skömmu eftir strandið. Með þeim
var og einn hásetanna og tók hann út um leið.
Þeir Látramenn, Þórður Jónsson, Hafliði Halldórsson og Daníel Eggertsson ráða ráðum sínum á brún Látrabjargs. Mynd úr þrautgóðum á raunastund.
Aðrir skipverjar kusu heldur að
vera á hvalbak. Þann sólarhring er mennirnir voru á hvalbak eða undir honum
höfðu þeir það eitt að nærast á, nokkra súkkulaðimola og tvær flöskur af rommi,
til að halda á sjer hita. Björgun skipverja úr skipinu gekk mjög greiðlega,
eins og þegar hefur verið frá skýrt. Skipið lá um það bil tvær skipslangdir
undan landi. Línan af línubyssunni hæfði þegar í fyrsta skoti. Björgunarsveitin
lætur mjög vel yfir dugnaði hinna bresku sjómanna og þreki þeirra.
Síðan 1912 hafa strandað á þessum stað 4 skip, "Dhoon" er fjórða skipið. Þetta
er í fyrsta skipti, sem tekist hefur að bjarga mönnum lifandi á þessum stað.
Með hinum þrem skipunum fórust allir, sem á þeim voru.
Morgunblaðið. 16 desember 1947.
Hlúð að skipbrotsmönnum upp á Flaugarnefi. Mynd úr þrautgóðir á raunastund.
Grimsbytogarinn Sargon GY 858 strandaðu undir Hafnarmúla í Patreksfirði 1 desember 1948. Þá var Óskar Gíslason kvikmyndatökumaður staddur í Kollsvík ásamt björgunarmönnum skipverjanna af Dhoon við tökum á heimildarmyndinni, Björgunarafrekið við Látrabjarg. Hann slóst í för með þeim á strandstaðinn og tók þessar einstæðu myndir sem síðan voru felldar inn í heimildarmyndina.
Dagskrá eða "prógram" sem fylgt hefur heimildarmyndinni. Í minni eigu.
Albert Head bátsmaður á Dhoon.
Páll Heiðar Jónsson blaðamaður ræðir við Albert Head á heimili hans í Fleetwood.
Þórður Jónsson tekur við silfurbikar úr hendi Guðbjarts Ólafssonar forseta Slysavarnafélags Íslands. Bikar þessi var gefinn af félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Mynd úr þrautgóðum á raunastund.
Slysavarnarfjelagið
þakkar frækilegt björgunarafrek
Stjórn Slysavarnafjelagsins samþykti á fundi sínum í dag
eftirfarandi ávarp til björgunarmannanna á Látrabiargi:
"Slysavarnafjelag íslands vottar björgunarsveit Slysavarnadeildar
Bræðrabandsins í Rauðasandshreppi og öðrum, sem unnu að björgun
skipshafnarinnar af breska togaranum "Dhoon", hjartanlegt þakk - læti og
aðdáun fyrir þetta frábæra afrek, sem vafalaust er hið frækilegasta, sem unnið
hefir verið hjer á landi. Jafnframt því að leggja líf ykkar í mikla hættu,
hafið þið sýnt slíka hreysti og fórnfýsi, að þið hafið með því aflað ykkur
sjálfum virðingar alþjóðar og íslensku þjóðinni allri heiðurs og velvildar út á
við.
Stjórn Slvsavarnafjelags íslands. "
Morgunblaðið. 16 desember 1947.
12.12.2017 04:38
S. t. Dhoon FD 54 strandar við Látrabjarg.
Dhoon FD 54 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby
á Englandi árið 1915 sem Armageddon H 319 fyrir Cargill Steam Trawling Co Ltd í
Hull. 323 brl. 500 ha 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 636. Seldur 30 september
1921, Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood. Fær nafnið Dhoon FD 348. Árið
1927-28 var togarinn gerður út af Hudson Bros Ltd í Hull, hét Dhoon H 396. Árið
1929 er togarinn aftur kominn í eigu Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood,
hét Dhoon FD 54. 18 október 1935 verður togarinn fyrir miklu áfalli vestur af
St. Kilda í Skotlandi þegar brotsjór hreif með sér stjórnpall skipsins og olli
miklu tjóni á honum. Dhoon var þá á heimleið af Íslandsmiðum. Ekkert manntjón
varð. Togarinn strandaði við Látrabjarg 12 desember árið 1947. Í hönd fór eitt
mesta björgunarafrek sem unnið hefur verið í Íslandssögunni fyrr og síðar.
Breski togarinn Dhoon FD 54 á siglingu. Mynd úr safni mínu.
Dhoon eftir áfallið sem hann fékk við St. Kilda í október 1935. Mynd úr safni mínu.
Breskur
togari strandar undir 200 m. háum hamravegg við Látrabjarg Ekki
tókst að bjarga skipbrotsmönnum í gær
Tólf eða fjórtán breskir sjómenn börðust í allan gærdag og í
nótt er leið, harðri baráttu fyrir lífi sínu, undir 200 metra háum hamravegg,
Keflavíkurbjargs við Látrabjarg. Skip þeirra Dhoon frá Fleetwood, rúml. 170
smál. strandaði undir bjarginu í gærmorgun í myrkri og hríð. Gerðar voru
tilraunir úr skipum til þess að bjarga skipbrotsmönnum, en þeim varð ekki við
komið. Björgun úr landi var ekki möguleg í gær. Sögðu menn í gærkvöldi, litlar
líkur til þess að þeim yrði bjargað, en björgunarsveit fer á vettvang í
birtingu í dag.
Fyrstu frjettir er Slysavarnarfjelaginu bárust um strandið komu um kl. 10. Var
það skeyti frá breskum togara, er sá hvar Dhoon var strandað undir bjarginu.
Staðarákvörðun var mjög villandi.
Varðbáturinn Finnbjörn var staddur um það bil 3 klukkustunda siglingu
frá strandstað og brá hann þegar við. Var varðbáturinn kominn á vettvang og
búinn að finna skipið um kl. 2 í gær. Slysavarnarfjelagið hafði og gert aðvart
að Hvallátrum. Fóru menn þaðan að leita hins strandaða skips. Var klukkan orðin
um 3 er Hvallátramenn fundu skipið. Staður sá, er hinn breski togari hafði
strandað á, heitir Geldingaskorardalur í Keflavíkurbjargi og er á milli
Látrabjargs og Bæjarbjargs. Þar er fjöruborðið mjög Iítið, en af hamrabrúninni
og þangað niður eru um 200 metrar. Er Hvallátramenn komu var að flæða að, og
myrkur að skella á. Var því ekkert hægt að hafast að um björgun
skipsbrotsmanna. Togarinn stóð kjölrjettur um 30 metra frá landi og töldu menn
hann vera skorðaðan í stórgrýtisurð, sem þarna er. Tvo skipsmenn sáu þeir á
hvalbak. Þegar varðbáturinn Finnbjörn kom, voru þar fyrir tveir breskir
togarar. Skipsverjum á Finnbirni var það þegar ljóst, að útilokað var fyrir þá,
að geta bjargað mönnunum af hinu strandaða skipi. Mikill sjógangur var og allt í
kringum skipið braut himinháar öldur á grunnbrotum og sjálft lá skipið undir
stöðugum áföllum. Var nú Finnbirni siglt eins nálægt og forsvaranlegt þótti, ef
vera kynni, að takast mætti að skjóta af línubyssu að hinu strandaða skipi. En
því miður var það ekki hægt. Skipverjar á Finnbirni tóku eftir því, er þeir
komu á vettvang, að engan lífbát var að sjá á skipinu. Hefur hann sennilega
tekið út skömmu eftir strandið.
Eins og skýrt hefur verið frá hjer að framan, var að flæða að. Um klukkan sex í
gærkvöld var komið háflæði og var þá nokkuð af yfirbyggingu þess í kafi, einkum
að aftan. Skipverjar voru þá ýmist frammi á hvalbak eða uppi í stjórnpalli. Því
nær látlaust gengu sjóar yfir mennina á hvalbaknum, en þeir sem voru í
stjórnpalli munu hafa haft þar eitthvert afdrep. Með einhverjum hætti tókst
skipbrotsmönnum að kveikja bál á hvalbaknum. Sáu skipverjar á Finnbirni hina
bresku sjómenn bera við að eldinum, eftir því sem þeir gátu. Í allan gærdag
reyndu skipin þrjú, sem voru fyrir utan strandstaðinn, að hafa samband við
skipið. Fyrst í stað voru talstöðvar skipanna notaðar en án árangurs. Þá var
sent til þeirra á morse, en ekki var því heldur svarað. Sennilegt er að
loftnetið hafi bilað skömmu eftir strandið. Í gærkvöldi náðu skipverjar á
breska togaranum Brithis frá Grimsby, sem er annar hinna bresku togara, sem
voru þarna, sambandi við skipbrotsmenn. Var það gert með ljósmerkjum.
Skipbrotsmenn sögðu þá að einu staðirnir í skipinu, sem menn gætu haldið sig,
væri frammi á hvalbak og í stjórnpalli. Ekki gátu þeir þess að neinn þeirra
hefði farist í strandinu. Menn þeir er fóru á strandstaðinn í gær, sögðu að
lítil von væri um að takast mætti að bjarga mönnunum, þó veður myndi ekki
versna til muna. En þegar þetta er
skrifað fór veður versnandi þar um slóðir og versnaði í sjóinn. Menn voru
einnig hræddir um að skipið myndi ekki þola hin látlausu og þungu áföll.
Allt björgunarstarf úr landi hefur verið skipulagt og að Hvallátrum voru í
gærkvöldi komnir 15 menn er voru að undirbúa björgun skipbrotsmanna. Mun
björgunarsveitin fara á vettvang í bíti í dag. Aðstæður allar til
björgunarstarfsins eru erfiðar. Fyrst verður björgunarsveitin að klyfa 50 metra
háa svellbungu, en er yfir hana er komið þurfa þeir að koma fyrir
bjargsigsköðlum, til þess að komast niður í fjöruborðið, en bjargið sem síga
þarf er um 150 metra hátt.
Á þessum sama stað strandaði breski togarinn Jeria árið 1936. Fórst togarinn
með allri áhöfn og aðeins eitt líkanna rak á land. Þetta er einn allra versti
strandstaður við strendur landsins.
Morgunblaðið. 13 desember 1947.
Strandstaður togarans Dhoon undir Látrabjargi. Mynd úr þrautgóðum á raunastund lll bindi.
Síðustu
fréttir
Um klukkan 11 í gærkvöldi átti Morgunblaðið tal við Harald
Björnsson skipherra á varðbátnum "Finnbirni", sem heldur sig í námunda við
strandstaðinn. Skipherrann sagði, að sjer væri ekki kunnugt um, að neinn
skipbrotsmanna hefði farist. Sagði hann þá vera á stjórnpalli og nokkra undir
hvalbak skipsins, en þar logaði enn eldur í báli því, sem þeir höfðu kveikt.
Sjóar voru miklir og gengu enn nokkuð yfir skipið, en fjara var. Sagði
skipherra skipið standa kjölrjett. Strekkingur var af SA og hafði hann aukist
nokkuð með kvöldinu. Hann sagði það álit sitt, að björgun úr landi myndi
reynast mjög erfið. Ekki vildi hann spá neinu um örlög skips eða skipshafnar.
Morgunblaðið. 13 desember 1947.
10.12.2017 10:17
1158. Helgi Bjarnason NK 6.
Helgi
Bjarnason NK 6
Á skírdag var hleypt af stokkunum nýjum fiskibáti hjá
Dráttarbrautinni hf. Eigendur eru Jón Hlífar
Aðalsteinsson og Guðmundur og Helgi Jóhannssynir. Báturinn hlaut nafnið
Helgi Bjarnason og einkennisstafina NK 6. Heitir hann í höfuðið á Helga Bjarnasyni,
sem var kunnur formaður og útgerðarmaður hér í bæ á þeim árum, sem
vélbátaútgerðin var að taka út þroska sinn, en hann var móðurfaðir allra
eigendanna. Soffía, dóttir Helga og móðir tveggja eigendanna gaf bátnum nafn.
Helgi Bjarnason er 16 tonn að stærð með 163 ha Scania-vél og búinn, þeim
siglingar og fiskileitartækjum, sem nú tíðkast í bátum af þessari stærð. Hann
er smíðaður úr eik eftir teikningu Egils Þorfinnssonar í Keflavík. Smíði
bátsins strjórnaði Samúel Andrésson, skipasmíðameistari. Þetta er tíundi
báturinn, sem Dráttarbrautin smíðar. Bátasmíðar á vegum fyrirtækisins hafa
legið niðri um nokkurt árabil, en eru nú hafnar aftur og eru nú í smíðum tveir
bátar, annar úr stáli og er það fyrsti stálbáturinn, sem hér er smíðaður.
Austurland. 16 apríl 1971.
Föðurbróðir minn, Alexander Gjöveraa, skipasmiður að smíða stýrishúsið á Helga Bjarnason NK 6, í Dráttarbrautinni haustið 1970. (C) Lindberg Þorsteinsson.
Bakkavík ÁR 100. (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
Bakkavík ÁR
100 fórst við innsiglinguna til Eyrarbakka í gær
Tveggja ungra sjómanna saknað
sá þriðji,
bróðir þeirra, komst af við illan leik
Tveggja ungra sjómanna er saknað eftir að vélbáturinn
Bakkavík ÁR-100 fékk á sig brotsjó og sökk utan við innsiglinguna til
Eyrarbakka laust eftir hádegið í gær. Þrír bræður voru á bátnum og áttu hann.
Komst sá yngsti þeirra af við illan leik eftir að hafa hrakist hangandi utan í
gúmmíbjörgunarbát vestur eftir brimgarðinum í hartnær klukkustund. Talsvert
brim var þegar slysið varð, en veður að öðru leyti ekki afgerandi. Bræðurnir,
sem saknað er, heita Þórður Markússon, 29 ára, fæddur 29. nóvember 1953, og
Sigfús Markússon, 25 ára, fæddur 2. ágúst 1958. Sá sem bjargað var af gúmmí-
björgunarbátnum heitir Vigfús Markússon, nýlega orðinn 22 ára. Þeir eru allir
ókvæntir og barnlausir, til heimilis í Ásgarði á Eyrarbakka hjá foreldrum
sínum. Bræðurnir höfðu í sumar gert tilraunir með veiðar á snurvoð á
Bakkavíkinni, sem var 15 lesta eikarbátur, smíðaður í Neskaupstað 1971.
Það var
um kl. 13:15 í gær að sjónarvottar sáu hvar báturinn fékk á sig stórt brot af
skerinu Brynka skammt utan við sundið í innsiglingunni til Eyrarbakka. Fór
báturinn við það á hliðina en skömmu síðar reið yfir hann annað brot og fór
hann þá á hvolf. Innan nokkurra mínútna fór hann að sökkva að aftan og hvarf
svo um 15 mínútum eftir slysið. Þremenningarnir komust allir i gúmmíbjörgunarbát,
skv. upplýsingum Morgunblaðsins, en báturinn rifnaði í sjóganginum og köstuðust
þeir þá allir út úr bátnum aftur. Aðeins Vigfús náði taki á bátnum aftur. Áður
hafði þeim tekist að skjóta upp neyðarblysi, sem sást á Eyrarbakka.
Björgunarsveitarmenn frá Eyrarbakka og Stokkseyri komu fljótlega á vettvang og
sömuleiðis hjálparsveitarmenn frá Selfossi og Vestmannaeyjum, sem voru af
tilviljun skammt frá. Björgunarsveitarmenn frá Stokkseyri náðu Vigfúsi af
gúmmíbátnum austur undir ósum Ölfusár. Var hann þá orðinn mjög þrekaður og
þykir hafa sýnt fádæma harðfylgi og kraft. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á
Selfossi og leið í gærkvöldi eftir atvikum. Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði
einnig á svæðinu fram í myrkur og björgunarmenn gengu fjörur. Sterkur straumur
var vestur með landinu á flóðinu síðdegis í gær og rak brak úr bátnum vestur
með ströndinni og upp í árósinn. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í nótt var
enn verið að leita eldri bræðranna tveggja.
Morgunblaðið. 8 september 1983.
Einn eftir í
bátnum er ólagið var farið hjá
Frásögn
Vigfúsar Markússonar, sem komst lífs af er Bakkavík ÁR 100 fórst
Vigfús Markússon frá Ásgarði á Eyrarbakka, sem missti tvo
bræður sína með vélbátnum Bakkavík ÁR-100 við innsiglinguna þar í fyrradag,
þykir hafa sýnt fádæma þrek í þeirri raun, sem hann varð fyrir eftir að
báturinn sökk. Vigfús hraktist í brimgarðinum utan við höfnina í a.m.k.
klukkustund áður en honum var bjargað. Vigfúsi segist svo frá, að skömmu áður
en Bakkavíkin hafi lagt á bússu, en svo heitir innsiglingarleiðin, sem farin er
til Eyrarbakka, hafi annar bátur af svipaðri stærð komið að landi. Lágsjávað
hafi verið og gott í sjó og brimlaust að kalla. En þegar Bakkavíkin hafi verið
rétt komin inn á leiðina hafi risið mikill brotsjór, sem hafi lagt bátinn
flatan er hann skall yfir. Áður en nokkuð yrði að gert sáu þeir bræður annað
brot koma æðandi. Elsti bróðirinn, Þórður, sem var skipstjóri, skipaði þá að
báturinn skyldi yfirgefinn og þess freistað að komast í gúmmíbjörgunarbátana,
sem voru tveir annar skyldubátur, hinn
aukabátur sem geymdur var við horn stýrishússins. Skipti svo engum togum að
brotið féll yfir flatan bátinn og hvolfdi honum.
Vigfús kveðst hafa komið
fyrstur upp á yfirborðið aftur og hafi þá aukalífbáturinn verið upplásinn á
floti, fastur við Bakkavíkina. Honum hafi tekist að hjálpa báðum bræðrum sínum
upp í gúmmíbátinn, sem hafi fljótlega slitnað frá flakinu. Tókst þeim að skjóta
tveimur neyðarblysum frá bátnum, sem velktist um í brimgarðinum. Þá hafi
skyndilega riðið yfir hann brotsjór, sem hafi rifið yfirgerð bátsins að mestu
af. Þegar ólagið var farið hjá hafi hann verið einn eftir í bátnum, sem engin
leið hafi verið að stjórna á nokkurn hátt. Vigfúsi tókst að halda sér í bátinn
og hraktist hann í brimgarðinum í minnst klukkustund áður en tókst að bjarga
honum. Hann telur sig hafa séð móta fyrir öðrum bróður sínum eftir að ólagið reið
yfir gúmmíbátinn en enga möguleika átt til að koma honum til hjálpar, enda
dundu brotin á gúmmíbátnum í ólgandi briminu. Þetta var frásögn Vigfúsar
Markússonar. Bræður hans tveir, Þórður og Sigfús, eru nú taldir af. Fjörur voru
gengnar í gær og fram á kvöld en hvorugur þeirra hefur enn fundist. Brak úr
Bakkavíkinni hefur fundist vestur með fjörum og langt upp með Ölfusá að
vestanverðu.
Morgunblaðið. 9 september 1983.
09.12.2017 07:59
503. Gunnhildur ÍS 246. TFDW.
Gunnhildur ÍS 246 á siglingu. Ljósmyndari óþekktur.
Nýr
glæsilegur bátur
Nýlega er lokið í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar
smíði nýs báts, sem hlotið hefur nafnið Gunnhildur ÍS 246. Bátur þessi er allur
hinn vandaðasti og búinn öllum nýtízku tækjum. Hann er 60 smálestir með 280 ha.
M.W.M. vél. Eigandi bátsins er Magni h.f. nýtt útgerðarfélag, sem stofnað var
s.l. ár. Skipstjóri er Hörður Guðbjartsson, 1. vélstjóri Ólafur Gunnarsson og
stýrimaður Ólafur Guðjónsson. Skutull óskar eigendum og skipshöfn til hamingju
með þessa glæsilegu viðbót við ísfirzka vélbátaflotann.
Skutull. 7 desember 1957.
Bergþór KE 5. (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
Bergþór
KE 5 sökk 8 sjómílur NV af Garðsskaga
Þrír menn
björguðust en tveggja er saknað
Þrír menn björguðust en tveggja er saknað eftir að
fiskibáturinn Bergþór KE 5 sökk um 8 sjómílur NV af Garðsskaga á Reykjanesi.
Bergþór, sem er 56 tonna trébátur smíðaður 1957, fékk á sig brotsjó þegar hann
var við línuveiðar laust eftir kl. 16.30 í gær. Lagðist báturinn á
stjórnborðshlið og sökk nær samstundis. Þrír úr áhöfninni komust í björgunarbát
og var bjargað um borð í Akurey KE 121 um kl. 18. Leit að hinum tveimur úr
áhöfn bátsins bar engan árangur í gærkvöldi en leitinni var hætt kl. 22.00.
Akurey tilkynnti kl. 17.22 í gær á neyðarbylgju skipa, að sést hefði til
neyðarblyss suðvestur frá skipinu séð. Slysavarnafélag íslands lét
Landhelgisgæsluna strax vita. Vont veður var á þessu svæði, vestsuðvestan 7 til
8 vindstig og éljagangur. Fimm skip höfðu gefið Tilkynningaskyldu íslenskra
skipa upp staðarákvörðun þarna nálægt. Slysavarnaféiagið kallaði skipin upp og
héldu þau strax í þá átt sem blysið sást úr. Kl. 17.55 tilkynnti Akurey að sést
hefði annað neyðarblys og kl. 18.00 kom hún að gúmbjörgunarbáti með þremur
mönnum innanborðs. Búið var að ná mönnunum um borð í Akurey kl. 18.09 og töldu
þeir þá að þeir hefðu verið í björgunarbátnum í um eina og hálfa klukkustund.
Árni Vikarsson skipstjóri á Akurey sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi
að mjög vont hefði verið í sjóinn en samt hefði gengið mjög vel að ná mönnunum
úr björgunarbátnum. Þeir hefðu verið sæmilega á sig komnir. Tveir þeirra hefðu
að vísu verið nokkuð kaldir en náð sér fijótt. Árni hafði það eftir mönnunum að
Bergþór hefði sokkið 2-3 mínútum eftir að hann fékk á sig brotið. Tveir þeirra
sem björguðust voru á þilfari og náðu að losa björgunarbátinn með
handleysibúnaði. Sá þriðji var niðri í káetu en honum tókst að brjótast upp
gegnum glugga á brúnni áður en báturinn sökk og komast í björgunarbátinn. Annar
mannanna sem saknað er var í brú skipsins en hinn var niðri í lúkarnum. Akurey
hóf strax leit á svæðinu auk fleiri skipa sem komu þarna að.
Landhelgisgæslan kallaði út áhafnir þyrlunnar TF-Sif og flugvélarinnar TF-Syn,
og fór þyrlan af stað til leitar kl. 18.14 en hún er búin innrauðum
hitaleitartækjum. Þyrlan var komin á slysstaðinn kl. 18.27 og heyrði þá í
neyðarsendi bátsins en til hans hafði ekki heyrst úr skipum á svæðinu. Leit var
haldið áfram fram eftir kvöldi og tóku þátt í henni, auk TF-Sif, Skógarfoss,
Stafnes KE 130, Happasæll KE 94, Hafberg GK 377, Vonin KE 2, Víðir II GK. 275,
Sigurjón Arnlaugsson HF 210 og Viðey RE 6. Einnig var danska varðskipið
Hvidebjörn komið á svæðið um kl. 20.30. TF-Sif snéri aftur til lands og lenti um
kl. 21.30 en TF-Syn lagði af stað á leitarsvæðið kl. 21.25. Talsvert af hlutum
hafði þá fundist úr skipinu, þar á meðal þrír bjarghringir, en leit að mönnunum
tveimur bar engan árangur. Leit verður hafin aftur í birtingu í dag og mun
TF-Syn fara á leitarsvæðið auk báta. Akurey kom til Keflavíkur um kl. 22 í
gærkvöldi með skipverjana þrjá af Bergþóri. Þrír menn eru í áhöfn Akureyjar auk
skipstjóra og vildi Árni Vikarsson þakka áhöfn sinni það hve vel tókst til með
björgunina.
Morgunblaðið. 9 janúar 1988.
Brot lagði
bátinn á hliðina
Sjópróf vegna Bergþórs KE 5 sem sökk 8 sjómílur NV af
Garðskaga á föstudaginn fóru fram hjá Bæjarfógetaembættinu í Keflavík í gær.
Skipverjarnir þrír af Bergþóri sem björguðust komu fyrir dóminn ásamt
skipstjóranum á Akurey KE 121 sem ásamt áhöfn sinni bjargaði mönnunum.
Dómformaður sjódómsins var Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómslögmaður og
meðdómendur voru Ingólfur Falsson og Jóhann Pétursson fyrrverandi skipstjórar.
Við sjóprófin kom fram að verið var að draga síðustu bjóðin þegar brot kom á
bátinn aftanverðan og lagði hann á hliðina. Sjór flæddi niður í lestina sem var
að mestu opin, skipstjórinn reyndi að keyra bátinn upp, en það tókst ekki og
sökk hann á hliðina á nokkrum mínútum. Skipstjóra og stýrimanni tókst að skjóta
gúmbát úr gálga með handfangi úr brú, en líflínan sem var fest með lás í gálgan
slitnaði. Skipverjarnir sögðust hafa lent í erfiðleikum við að blása bátinn upp
og töldu þeir að ýmislegt hefði mátt fara betur í búnaði hans. Þeir nefndu að á
gúmbátnum hefði aðeins verið eitt op og það snúið áveðurs vegna þess að
rekankeri var fest þeim megin. Þeim hefði gengið erfiðlega að ausa af þessum
sökum. Töldu þeir að opin hefðu átt að vera tvö. Ennfremur kom fram að
rekankerið slitnaði frá bátnum og töldu skipverjar að línan hefði mátt vera traustari.
Fram kom að álpokar sem voru í gúmbátnum rifnuðu þegar skipverjar ætluðu í þá,
en þeir töldu samt að þeir hefðu komið að gagni. Tveir neyðarflugeldar voru í
gúmbátnum og töldu þremenningarnir að þeir hefðu mátt vera fleiri. Einnig kom
fram að gerðar höfðu verið breytingar á Bergþóri fyrir nokkrum árum og þá meðal
annars skipt um brú á bátnum. Ein hurð var á nýju brúnni, var hún
stjórnborðsmegin, en neyðarútgangur var bakborðsmegin. Þá hafði hvalbakur sem
var opinn verið lengdur. Ennfremur kom fram að Bergþór KE 5 hafði fyrir tveimur
árum lagst á hliðina og á möstur eftir að brot kom á hann á siglingu frá
Sandgerði til Keflavfkur, en þá tókst að keyra bátinn upp.
Morgunblaðið. 13 janúar 1988.
- 1
- 2