Færslur: 2017 Desember

07.12.2017 08:49

Birkir SU 519. TFDK.

Birkir SU 519 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1934, Eik og fura. 48 brl. 130 ha. June Munktell vél. Eigandi var Útgerðarsamvinnufélagið Kakali á Eskifirði frá febrúarmánuði árið 1934. Seldur í febrúar 1936, Þorláki Guðmundssyni, Björgvin Guðmundssyni og Ara Hallgrímssyni á Eskifirði. Báturinn var lengdur árið 1941 og mældist þá 64 brl. Seldur í janúar 1945, Hólmaborgu h/f á Eskifirði. Ný vél var sett í bátinn árið 1946, 180 ha. June Munktell vél. Seldur í maí 1951, Höskuldi Jóhannessyni í Reykjavík, báturinn hét Birkir RE 74. Báturinn eyðilagðist af eldi á Húnaflóa, 21 október árið 1951. Breski togarinn Reighton Wyke H 425 frá Hull bjargaði áhöfninni, 7 mönnum til lands. 


Vélskipið Birkir SU 519.                                                                           (C) Sveinn Guðnason.


Breski togarinn Reighton Wyke H 425 sem bjargaði áhöfninni á Birki. Hann var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1937. 465 brl. Var þá í eigu West Dock Steam Fishing Co Ltd í Hull.
Mynd úr safni mínu.

 Dóttur skipstjórans bjargað á síðustu stundu
            þegar vélbáturinn Birkir brann

Laust fyrir klukkan átta í fyrramorgun var vélbáturinn Birkir frá Reykjavík, eign Höskulds Jóhannessonar, Drápuhlíð 48, staddur 40 sjómílur norðvestur af Siglufirði á Ieið vestur og suður um af síldveiðum nyrðra. Skipstjórinn, Guðmundur B. Pétursson, Seljavegi 3A, brá sér fram í lúkarinn, en er hann hafði verið þar svo sem fimm mínútur, kallaði piltur, sem var á vakt, Eggert Kristjánsson, að eldur væri kominn upp miðskips.
Við vorum ellefu skipsmenn, sagði Guðmundur við tíðindamann Tímans í gær, en auk þess var með í förinni konan mín, Lydia Guðmundsdóttir og tvö börn okkar, tíu ára telpa, Hilda að nafni, og þriggja ára sonur. Svaf telpan í herbergi mínu í brúnni. Er ég heyrði köll Eggerts, hljóp ég þegar aftur á, og hafði eldurinn þá magnast svo á svipstundu, að engin leið var að komast í brúna um stiga og dyr. Eggert hafði  hins vegar tekizt á siðustu stundu að bjarga sofandi telpunni út. Skipið varð á svipstundu alelda, og við áttum ekki annars úrkostar en fara í bátinn, og komumst allir það, án þess að nokkur meiddist. Rerum við spölkorn frá bátnum og biðum þar átekta.
Fjórar til fimm sjómílur frá okkur var enskur togari að veiðum, og sá áhöfnin á honum strax eldinn og reykinn. Kom togarnn til okkar eftir 2-3 stundarfjórðunga og tók okkur um borð. Við fórum nú aftur yfir að Birki, og tókst okkur að koma í hann taug. Varð það að ráði, að enski togarinn drægi bátinn undir Skaga, en Ægir, sem kom á vettvang frá Siglufirði, skyldi koma þangað á vettvang og freista þess að slökkva eldinn.
Ægir náði okkur klukkan hálf-tvö, tólf sjómílur undan Skaga. Var þá reynt að slökkva eldinn, og tókst að læga hann. Þó var mikill reykur og eldur niðri í skipinu, en ekki hægt að dæla í það meiri sjó. Var haldið áfram með það vestur um. Eftir tveggja tíma stím var komið undir Kálfshamarsvík, og var þá aftur tekið að loga upp úr. Hófst þá slökkvistarf að nýju. Birkir var nú orðinn afarmikið skemmdur af eldinum en á hinn bóginn sýnt, að ekki var hægt að slökkva eldinn, án þess að sökkva skipinu. Varð því að ráði að halda áfram til Höfðakaupstaðar og  draga það þar upp í fjöru. Við komum þangað á níunda tímanum í fyrrakvöld. Var Birkir dreginn upp í fjöru við Hólanes, og þar brann hann í alla fyrrinótt, og er gerónýtur.
Við misstum með skipinu allt, sem við skipverjarnir áttum á því, svo að við fórum ekki í land með annað en fötin, sem við stóðum í, sagði skipstjórinn að lokum. En auk þess brann mikill farmur. Við vorum með 500 tunnur á skipinu, sykursaltað í 230 tunnum, en saltsíld í 140 tunnum, en hinar voru tómar.
Áhöfnin á Birki fór til Reykjavíkur landleiðis í gær, en skipstjórinn ,kona hans og börn eru væntanleg hingað í dag.

Tíminn. 23 ágúst 1951.

03.12.2017 08:58

509. Gylfi EA 628. TFVK.

Gylfi EA 628 var smíðaður af Kristjáni Nóa Kristjánssyni bátasmið á Akureyri árið 1939 fyrir Valtýr Þorsteinsson útgerðarmann í Rauðuvík í Eyjafirði. Eik og beyki. 35 brl. 100 ha. Alpha díesel vél. Ný vél (1944) 240 ha. GM díesel vél. Ný vél (1957) 250 ha. GM díesel vél. Seldur 20 desember 1965, Guðmundi Ragnarssyni í Reykjavík, hét Fróði RE 44. Seldur 10 júní 1971, Svavari Gunnþórssyni og Guðlaugi Gunnþórssyni á Grenivík, hét Eyfirðingur ÞH 39. Seldur 22 janúar 1974, Sigurjóni Jónssyni á Seltjarnarnesi, hét Fróði RE 111. Seldur 8 mars 1975, Steinþóri Þorleifssyni í Grindavík, hét Sigurþór GK 43. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 október árið 1983.


Gylfi EA 628 að háfa síld.                                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Gylfi EA 628 á landleið eftir góða síldveiði.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Mikilsverðar framkvæmdir á Oddeyrartanga

                   Smíði á mótorbátum

byrjun febrúarmánaðar s. l. var hafin hér á Oddeyrartanga smíði á 2 mótorbátum 24/25 smálesta og 1 bát 35 smálesta. Litlu síðar var svo hafin smíði á 12 smálesta mótorbát á sama stað. Ef til vill er bæjarbúum ekki kunnugt um þessar framkvæmdir, þar sem smíði bátanna fer fram á þeim stað í bænum, er almenningur leggur tiltölulega sjaldan leið sína um. En þar sem hér er um að ræða mjög ánægjulegar framkvæmdir, er skapa bæjarbúum mikla atvinnu, skal farið nokkrum orðum um þennan iðnað. Fiskimálanefnd tilkynnti um s. l. áramót, að veittur yrði styrkur til smíða á mótorbátum, og eru líkur til, að það hafi ýtt undir það að hafizt var handa. Eins og að ofan getur eru smíðaðir 2 bátar 24/25 smálesta. Annan bátinn eiga Garðar og Björn Ólasynir, Hrísey, en Þorleifur Þorleifsson og Björgvin Jónsson á Dalvík hinn. Tólf smálesta bátinn á Guðjón Ágústsson, Gróf, Grenivík. Alla þessa báta smíðar Gunnar Jónsson skipasmiður, í ákvæðisvinnu, stærri bátana fyrir kr. 26.400.00 og þann minni fyrir kr. 13.200.00 eða sem næst 1100 krónur smálestin, og er þar í innifalið allt efni og vinna; þar með talið járnsmíði og seglasaumur. Undanskilið ákvæðisverðinu er þó vél og línuspil, en vélarnar kosta um 18.000 krónur. Stærsti báturinn, 35 smál., er smíðaður fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík. Er hann smíðaður í tímavinnu, og annast Kristján Nói Kristjánsson um smíðina. Allir stærri bátarnir verða með 90/100 hestafla Alfa-Diesel vélum, en 12 smálesta báturinn með 42 hestafla Tuxham mótor. Tveir af bátunum eru með nýtízku lagi, en 35 smálesta og 12 smálesta bátarnir með eldra lagi. Bátarnir eru byggðir úr eik og allt efni og vinna er vandað svo sem tök eru á, og gert er ráð fyrir að bátarnir verði tilbúnir um n. k. mánaðamót. Styrkur sá, er Fiskimálanefnd veitir til bátasmíðanna, nemur ca. 23% af andvirði þeirra, miðað við að smálestin kosti um kr. 1.500.00 (með vél). Þau hlutföll breytast og einnig, verði bátarnir allmiklu dýrari en ætlað var í fyrstu, vegna gengisbreytingar íslenzku krónunnar, sem stafar af því, að talsvert af efni og vélarnar voru ókomnar hingað, er gengið breyttist.
Allt efni, áhöld og vélar til bátanna útvegaði Kaupfélag Eyfirðinga.

Dagur. 22 júní 1939.

                      Nýir bátar

Meðal nýrra báta í síldveiðiflotanum eru þrír eyfirzkir bátar, smiðaðir hér á Akureyri í vetur. Bátar þessir eru:
Gylfi (35 tonn) eign Valtýs Þorsteinssonar í Rauöuvík, smíðaður af Nóa Kristjínssyni.
Björn Jörundsson (25 tonn) eign Garðars og Björns Ólasona í Hrísey og
Leifur Eiríksson (25 tonn) eign Þorleifs Þorleifssonar frá Hóli á Upsaströnd og Björgvins Jónssonar á Dalvík, báðir bátarnir smíðaðir af Gunnari Jónssyni.

Íslendingur. 4 ágúst 1939.

                Fyrsta bræðslusíldin

M.b. Gylfi E.A. 628 landaði í Rauðku í gærmorgun fyrstu bræðslusíld sumarsins 170 málum, sem hann fékk í tveimur köstum á Skagafirði á sunnudagskvöld. Síldin var smá og horuð. Nokkur skip eru nú þegar komin út á veiðar, en litlar fréttir berast enn af síld, nema þá helzt af stökksíld, sem ekki er kastandi á.

Siglfirðingur. 29 júní 1948.

          Þorrablótið dró dilk á eftir sér

     Ævintýraferð Gylfa endaði í strandi

Þorrablót var haldið á Flateyri á laugardagskvöld og dró dilk á eftir sér. Vélbáturinn Gylfi úr Eyjafirði, sem leigður hefur verið til Suðureyrar í vetur og er gerður þaðan út fór til Flateyrar á laugardagskvöldið með eitthvað af fólki frá Suðureyri, sem ætlaði á blótið. Þeirra á meðal var skipstjórinn á bátnum. Gekk sú ferð að óskum og héldu menn til fagnaðarins, allir nema einn skipverja. Hann tók bátinn traustataki um kvöldið, og sigldi honum einn til Suðureyrar. Á meðan báturinn var á leiðinni til Suðureyrar var hringt frá Flateyri og sagt frá bátshvarfinu. Óttuðust menn að skipverjinn hefði farið sér að voða einn á bátnum, en þegar hann kom klakklaust í höfn á Suðureyri önduðu menn léttar.
Engum kom til hugar að skipverjinn myndi endurtaka þetta ævintýri, en um nóttina fékk hann tvo eða þrjá menn til liðs við sig og héldu þeir af stað frá Suðureyri um nóttina til þess að sækja skipstjórann og aðra gesti, sem farið höfðu á þorrablótið. Þá tókst ekki betur til en svo að eftir stutta siglingu strönduðu þeir félagar bátnum í árósum hjá prestssetrinu í Staðardal, en þetta er sunnanmegin Súgandafjarðar, um miðja Ieið út fjörðinn frá Suðureyri, Skipbrotsmenn fóru gangandi um 20 mín. leið til Suðureyrar og sögðu farir sínar ekki sléttar. Á sunnudagsmorguninn var hafizt handa um að bjarga bátnum og var varðskipið Albert fengið til að draga bátinn á flot og tókst það giftusamlega á flóðinu. Gylfi virðist ekki mikið skemmdur. Kafari frá Albert athugaði skemmdir á bátnum á strandstaðnum og segir að skemmdir hafi orðið á strákjöl og botninn eitthvað meira nuddaður. Gylfi er kominn til ísafjarðar og á að fara í slipp hjá Marselíusi Bernharðssyni, en í dag var ekki hægt að taka bátinn upp, því annar er fyrir í slippnum. Verður ekki hægt að ganga til fulls frá fyrr en báturinn kemst á flot. Gylfi er 35 tonna bátur.

Morgunblaðið. 5 febrúar 1963.

02.12.2017 08:49

Ísafold GK 481. LBFT.

Ísafold GK 481 var smíðuð í Stavanger í Noregi árið 1885 sem seglskip. Eik og fura. 35 brl. Eigandi var Halldór Andrésson á Flateyri við Önundarfjörð frá árinu 1886-87. Frá árinu 1891 er Torfi Halldórsson verslunar og útgerðarmaður á Flateyri, eigandi skipsins. Árið 1906 er Ólafur Jóhannesson & Co á Patreksfirði eigandi skipsins, hét þá Ísafold BA 102. 1909-10 er skipið komið í eigu P.J. Thorsteinssonar & Co á Bíldudal. Árið 1917 er skipið gert upp í Hafnarfirði og breytt í vélskip. Þá var  sett í skipið 44 ha. Avance vél. Skipið var þá komið í eigu Verslunar Böðvarssona í Hafnarfirði, fékk þá nafnið Ísafold GK 481. Skipið var talið ónýtt og rifið í Hafnarfirði árið 1933.


Ísafold GK 481 við bryggju í Hafnarfirði.                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723197
Samtals gestir: 53663
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 17:07:13