07.12.2017 08:49

Birkir SU 519. TFDK.

Birkir SU 519 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1934, Eik og fura. 48 brl. 130 ha. June Munktell vél. Eigandi var Útgerðarsamvinnufélagið Kakali á Eskifirði frá febrúarmánuði árið 1934. Seldur í febrúar 1936, Þorláki Guðmundssyni, Björgvin Guðmundssyni og Ara Hallgrímssyni á Eskifirði. Báturinn var lengdur árið 1941 og mældist þá 64 brl. Seldur í janúar 1945, Hólmaborgu h/f á Eskifirði. Ný vél var sett í bátinn árið 1946, 180 ha. June Munktell vél. Seldur í maí 1951, Höskuldi Jóhannessyni í Reykjavík, báturinn hét Birkir RE 74. Báturinn eyðilagðist af eldi á Húnaflóa, 21 október árið 1951. Breski togarinn Reighton Wyke H 425 frá Hull bjargaði áhöfninni, 7 mönnum til lands. 


Vélskipið Birkir SU 519.                                                                           (C) Sveinn Guðnason.


Breski togarinn Reighton Wyke H 425 sem bjargaði áhöfninni á Birki. Hann var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1937. 465 brl. Var þá í eigu West Dock Steam Fishing Co Ltd í Hull.
Mynd úr safni mínu.

 Dóttur skipstjórans bjargað á síðustu stundu
            þegar vélbáturinn Birkir brann

Laust fyrir klukkan átta í fyrramorgun var vélbáturinn Birkir frá Reykjavík, eign Höskulds Jóhannessonar, Drápuhlíð 48, staddur 40 sjómílur norðvestur af Siglufirði á Ieið vestur og suður um af síldveiðum nyrðra. Skipstjórinn, Guðmundur B. Pétursson, Seljavegi 3A, brá sér fram í lúkarinn, en er hann hafði verið þar svo sem fimm mínútur, kallaði piltur, sem var á vakt, Eggert Kristjánsson, að eldur væri kominn upp miðskips.
Við vorum ellefu skipsmenn, sagði Guðmundur við tíðindamann Tímans í gær, en auk þess var með í förinni konan mín, Lydia Guðmundsdóttir og tvö börn okkar, tíu ára telpa, Hilda að nafni, og þriggja ára sonur. Svaf telpan í herbergi mínu í brúnni. Er ég heyrði köll Eggerts, hljóp ég þegar aftur á, og hafði eldurinn þá magnast svo á svipstundu, að engin leið var að komast í brúna um stiga og dyr. Eggert hafði  hins vegar tekizt á siðustu stundu að bjarga sofandi telpunni út. Skipið varð á svipstundu alelda, og við áttum ekki annars úrkostar en fara í bátinn, og komumst allir það, án þess að nokkur meiddist. Rerum við spölkorn frá bátnum og biðum þar átekta.
Fjórar til fimm sjómílur frá okkur var enskur togari að veiðum, og sá áhöfnin á honum strax eldinn og reykinn. Kom togarnn til okkar eftir 2-3 stundarfjórðunga og tók okkur um borð. Við fórum nú aftur yfir að Birki, og tókst okkur að koma í hann taug. Varð það að ráði, að enski togarinn drægi bátinn undir Skaga, en Ægir, sem kom á vettvang frá Siglufirði, skyldi koma þangað á vettvang og freista þess að slökkva eldinn.
Ægir náði okkur klukkan hálf-tvö, tólf sjómílur undan Skaga. Var þá reynt að slökkva eldinn, og tókst að læga hann. Þó var mikill reykur og eldur niðri í skipinu, en ekki hægt að dæla í það meiri sjó. Var haldið áfram með það vestur um. Eftir tveggja tíma stím var komið undir Kálfshamarsvík, og var þá aftur tekið að loga upp úr. Hófst þá slökkvistarf að nýju. Birkir var nú orðinn afarmikið skemmdur af eldinum en á hinn bóginn sýnt, að ekki var hægt að slökkva eldinn, án þess að sökkva skipinu. Varð því að ráði að halda áfram til Höfðakaupstaðar og  draga það þar upp í fjöru. Við komum þangað á níunda tímanum í fyrrakvöld. Var Birkir dreginn upp í fjöru við Hólanes, og þar brann hann í alla fyrrinótt, og er gerónýtur.
Við misstum með skipinu allt, sem við skipverjarnir áttum á því, svo að við fórum ekki í land með annað en fötin, sem við stóðum í, sagði skipstjórinn að lokum. En auk þess brann mikill farmur. Við vorum með 500 tunnur á skipinu, sykursaltað í 230 tunnum, en saltsíld í 140 tunnum, en hinar voru tómar.
Áhöfnin á Birki fór til Reykjavíkur landleiðis í gær, en skipstjórinn ,kona hans og börn eru væntanleg hingað í dag.

Tíminn. 23 ágúst 1951.

Flettingar í dag: 646
Gestir í dag: 239
Flettingar í gær: 1233
Gestir í gær: 237
Samtals flettingar: 736412
Samtals gestir: 54872
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 23:10:36