10.12.2017 10:17

1158. Helgi Bjarnason NK 6.

Helgi Bjarnason NK 6 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1971. Eik. 15 brl. 153 ha. Scania díesel vél. Eigendur voru bræðurnir Guðmundur og Helgi Jóhannssynir og Jón Hlífar Aðalsteinsson í Neskaupstað frá 12 apríl sama ár. Seldur 26 janúar 1973, Kjartani Ívarssyni í Reykjavík og Hinrik Lárussyni í Kópavogi, hét Helgi Bjarnason RE 82. Árið 1975 flytur Kjartan með bátinn til Vestmannaeyja. Seldur 28 nóvember 1976, Baldri Karlssyni og Jóni Baldurssyni í Þorlákshöfn, hét Bjarnavík ÁR 76. Seldur 9 janúar 1978, Grétari Má Jónssyni, Jóni Eðvaldssyni og Guðlaugi V Sigursveinssyni í Sandgerði, hét Bjarnavík GK 49. Seldur 6 janúar 1980, Kristjáni Óskarssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Þorlákshöfn, hét Bjarnavík ÁR 13. Seldur 28 október 1980, Þórði Markússyni á Eyrarbakka, báturinn hét Bakkavík ÁR 100. Ný vél (1982) 200 ha. Scania díesel vél. Báturinn fórst í innsiglingunni að Eyrarbakka 7 september árið 1983. Þrír menn voru á bátnum, allir bræður. tveir fórust en einn bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát við illan leik og var bjargað þaðan á land eftir um klukkustundar hrakningar.
Bræðurnir sem fórust hétu Þórður Markússon skipstjóri, eigandi bátsins, 29 ára og Sigfús Markússon 25 ára. Yngri bróðir þeirra, Vigfús 22 ára, bjargaðist.


Helgi Bjarnason NK 6 sjósettur á skírdag 1971.                                         (C) Sigurður Arnfinnsson.

           Helgi Bjarnason NK 6

Á skírdag var hleypt af stokkunum nýjum fiskibáti hjá Dráttarbrautinni hf. Eigendur eru Jón Hlífar  Aðalsteinsson og Guðmundur og Helgi Jóhannssynir. Báturinn hlaut nafnið Helgi Bjarnason og einkennisstafina NK 6. Heitir hann í höfuðið á Helga Bjarnasyni, sem var kunnur formaður og útgerðarmaður hér í bæ á þeim árum, sem vélbátaútgerðin var að taka út þroska sinn, en hann var móðurfaðir allra eigendanna. Soffía, dóttir Helga og móðir tveggja eigendanna gaf bátnum nafn. Helgi Bjarnason er 16 tonn að stærð með 163 ha Scania-vél og búinn, þeim siglingar og fiskileitartækjum, sem nú tíðkast í bátum af þessari stærð. Hann er smíðaður úr eik eftir teikningu Egils Þorfinnssonar í Keflavík. Smíði bátsins strjórnaði Samúel Andrésson, skipasmíðameistari. Þetta er tíundi báturinn, sem Dráttarbrautin smíðar. Bátasmíðar á vegum fyrirtækisins hafa legið niðri um nokkurt árabil, en eru nú hafnar aftur og eru nú í smíðum tveir bátar, annar úr stáli og er það fyrsti stálbáturinn, sem hér er smíðaður.

Austurland. 16 apríl 1971.


Föðurbróðir minn, Alexander Gjöveraa, skipasmiður að smíða stýrishúsið á Helga Bjarnason NK 6, í Dráttarbrautinni haustið 1970.     (C) Lindberg Þorsteinsson.


Bakkavík ÁR 100.                                                                          (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

Bakkavík ÁR 100 fórst við innsiglinguna                       til Eyrarbakka í gær
    Tveggja ungra sjómanna saknað

 sá þriðji, bróðir þeirra, komst af við illan leik

Tveggja ungra sjómanna er saknað eftir að vélbáturinn Bakkavík ÁR-100 fékk á sig brotsjó og sökk utan við innsiglinguna til Eyrarbakka laust eftir hádegið í gær. Þrír bræður voru á bátnum og áttu hann. Komst sá yngsti þeirra af við illan leik eftir að hafa hrakist hangandi utan í gúmmíbjörgunarbát vestur eftir brimgarðinum í hartnær klukkustund. Talsvert brim var þegar slysið varð, en veður að öðru leyti ekki afgerandi. Bræðurnir, sem saknað er, heita Þórður Markússon, 29 ára, fæddur 29. nóvember 1953, og Sigfús Markússon, 25 ára, fæddur 2. ágúst 1958. Sá sem bjargað var af gúmmí- björgunarbátnum heitir Vigfús Markússon, nýlega orðinn 22 ára. Þeir eru allir ókvæntir og barnlausir, til heimilis í Ásgarði á Eyrarbakka hjá foreldrum sínum. Bræðurnir höfðu í sumar gert tilraunir með veiðar á snurvoð á Bakkavíkinni, sem var 15 lesta eikarbátur, smíðaður í Neskaupstað 1971.
Það var um kl. 13:15 í gær að sjónarvottar sáu hvar báturinn fékk á sig stórt brot af skerinu Brynka skammt utan við sundið í innsiglingunni til Eyrarbakka. Fór báturinn við það á hliðina en skömmu síðar reið yfir hann annað brot og fór hann þá á hvolf. Innan nokkurra mínútna fór hann að sökkva að aftan og hvarf svo um 15 mínútum eftir slysið. Þremenningarnir komust allir i gúmmíbjörgunarbát, skv. upplýsingum Morgunblaðsins, en báturinn rifnaði í sjóganginum og köstuðust þeir þá allir út úr bátnum aftur. Aðeins Vigfús náði taki á bátnum aftur. Áður hafði þeim tekist að skjóta upp neyðarblysi, sem sást á Eyrarbakka. Björgunarsveitarmenn frá Eyrarbakka og Stokkseyri komu fljótlega á vettvang og sömuleiðis hjálparsveitarmenn frá Selfossi og Vestmannaeyjum, sem voru af tilviljun skammt frá. Björgunarsveitarmenn frá Stokkseyri náðu Vigfúsi af gúmmíbátnum austur undir ósum Ölfusár. Var hann þá orðinn mjög þrekaður og þykir hafa sýnt fádæma harðfylgi og kraft. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi og leið í gærkvöldi eftir atvikum. Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði einnig á svæðinu fram í myrkur og björgunarmenn gengu fjörur. Sterkur straumur var vestur með landinu á flóðinu síðdegis í gær og rak brak úr bátnum vestur með ströndinni og upp í árósinn. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í nótt var enn verið að leita eldri bræðranna tveggja.

Morgunblaðið. 8 september 1983.

 Einn eftir í bátnum er ólagið var farið hjá

  Frásögn Vigfúsar Markússonar, sem komst                  lífs af er Bakkavík ÁR 100 fórst

Vigfús Markússon frá Ásgarði á Eyrarbakka, sem missti tvo bræður sína með vélbátnum Bakkavík ÁR-100 við innsiglinguna þar í fyrradag, þykir hafa sýnt fádæma þrek í þeirri raun, sem hann varð fyrir eftir að báturinn sökk. Vigfús hraktist í brimgarðinum utan við höfnina í a.m.k. klukkustund áður en honum var bjargað. Vigfúsi segist svo frá, að skömmu áður en Bakkavíkin hafi lagt á bússu, en svo heitir innsiglingarleiðin, sem farin er til Eyrarbakka, hafi annar bátur af svipaðri stærð komið að landi. Lágsjávað hafi verið og gott í sjó og brimlaust að kalla. En þegar Bakkavíkin hafi verið rétt komin inn á leiðina hafi risið mikill brotsjór, sem hafi lagt bátinn flatan er hann skall yfir. Áður en nokkuð yrði að gert sáu þeir bræður annað brot koma æðandi. Elsti bróðirinn, Þórður, sem var skipstjóri, skipaði þá að báturinn skyldi yfirgefinn og þess freistað að komast í gúmmíbjörgunarbátana, sem voru tveir  annar skyldubátur, hinn aukabátur sem geymdur var við horn stýrishússins. Skipti svo engum togum að brotið féll yfir flatan bátinn og hvolfdi honum.
Vigfús kveðst hafa komið fyrstur upp á yfirborðið aftur og hafi þá aukalífbáturinn verið upplásinn á floti, fastur við Bakkavíkina. Honum hafi tekist að hjálpa báðum bræðrum sínum upp í gúmmíbátinn, sem hafi fljótlega slitnað frá flakinu. Tókst þeim að skjóta tveimur neyðarblysum frá bátnum, sem velktist um í brimgarðinum. Þá hafi skyndilega riðið yfir hann brotsjór, sem hafi rifið yfirgerð bátsins að mestu af. Þegar ólagið var farið hjá hafi hann verið einn eftir í bátnum, sem engin leið hafi verið að stjórna á nokkurn hátt. Vigfúsi tókst að halda sér í bátinn og hraktist hann í brimgarðinum í minnst klukkustund áður en tókst að bjarga honum. Hann telur sig hafa séð móta fyrir öðrum bróður sínum eftir að ólagið reið yfir gúmmíbátinn en enga möguleika átt til að koma honum til hjálpar, enda dundu brotin á gúmmíbátnum í ólgandi briminu. Þetta var frásögn Vigfúsar Markússonar. Bræður hans tveir, Þórður og Sigfús, eru nú taldir af. Fjörur voru gengnar í gær og fram á kvöld en hvorugur þeirra hefur enn fundist. Brak úr Bakkavíkinni hefur fundist vestur með fjörum og langt upp með Ölfusá að vestanverðu.

Morgunblaðið. 9 september 1983.

Flettingar í dag: 572
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 698111
Samtals gestir: 52756
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 17:08:45