26.12.2017 07:56

B. v. Goðanes NK 105 kemur til heimahafnar á annan dag jóla árið 1947.

70 ár eru í dag síðan annar Nýsköpunartogari Norðfirðinga, Goðanes NK 105 kom til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar í fyrsta sinn. Goðanes var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,20 x 5,55 m. Smíðanúmer 786. Eigandi skipsins var samnefnt hlutafélag í Neskaupstað sem 8 einstaklingar stóðu að. Þeir voru;, Vigfús Guttormsson, Sigurður Hinriksson, Stefán Höskuldsson, Anton Lundberg, Þorsteinn Júlíusson, Ársæll Júlíusson, Jónas Valdórsson og Óskar Lárusson.
Strax í upphafi tókst góð samvinna með Bæjarútgerð Neskaupstaðar og Goðanesi h/f. Í febrúar 1947  samþykkti stjórn Goðaness að ráða framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar, Steindór Árnason til að annast einnig framkvæmdastjórn Goðaness h/f. Rekstrarstjórn útgerðarfélaganna var ávallt sameiginleg eftir þetta. Goðanes h/f þurfti á bæjarábyrgð að halda vegna kaupa á togaranum og var sú ábyrgð veitt með áhveðnum skilyrðum, sem voru m.a. að skipið væri skráð í Neskaupstað og gert þaðan út.
Skipverjar skulu vera búsettir í Neskaupstað, að svo miklu leyti sem tök eru á.
Bæjarsjóður Neskaupstaðar skildi hafa forkaupsrétt að skipinu. Verði það selt innan fimm ára frá hingaðkomu þess skyldi Bæjarsjóður hafi rétt til að kaupa það á upphaflegu verði að viðbættum endurbótum eða breytingum, en að frádreginni fyrningu. B.v Goðanes NK 105 var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Beverley.

Heimild að hluta úr Norðfjörður saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson 1983.

 
B.v. Goðanes NK 105 að koma til heimahafnar úr siglingartúr.                     (C) Björn Björnsson.

B.v. Goðanes NK 105 í smíðum í Beverley.                                                        Mynd úr safni mínu.
 

    B.v. Goðanes reyndur á mánudaginn

Nýsköpunartogarinn "Goðanes", sem verður gerður út frá Neskaupstað í Norðfirði, er væntanlegur hingað til lands fyrir jólin. Skipshöfnin, sem á að taka við "Goðanesi", fór utan með togaranum "Agli Skallagrímssyni" fyrir nokkurum dögum. Skipstjóri verður Árni Ingólfsson. Það er hlutafélagið Goðanes í Neskaupstað, sem gerir togarann út, með tilstyrk bæjarstjórnar staðarins. "Goðanes" er um 640 smálestir að stærð, af sömu gerð og nýsköpunartogararnir "Hvalfell" og "Geir" og smíðaður í sömu skipasmiðastöð, Beverley. Skipið fer í reynsluför á mánudaginn.

Vísir. 13 desember 1947.


B.v. Goðanes NK 105 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.                          (C) Björn Björnsson.


B.v. Goðanes NK 105 á toginu.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.
 

  Neskaupstaður eignast tvo nýja togara í ár
        Síðari nýsköpunartogarinn kominn
        Geri aðrir 1.300 manna bæir betur

Goðanes, annar nýsköpunartogari Norðfirðinga kom til Neskaupstaðar kl. 11 á annan dag jóla. Var bærinn fánum skreyttur og mikill fögnuður við komu togarans, en Neskaupstaður, sem er 1300 manna bær, hefur eignazt tvo nýja togara á þessu ári. Fyrri nýsköpunartogari Norðfirðinga, Egill rauði hefur selt fyrir á aðra milljón og er nú í sinni 6. veiðiför.
Goðanes er eign samnefnds hlutafélags í Neskaupstað og eru hluthafar þessir; Vigfús Guttormsson, formaður félagsins, Sigurður Hinriksson, Jónas Valdórsson, Óskar Lárusson, Ársæll Júlíusson, Þorsteinn Júlíusson og Anton Lundberg. Goðanes er smíðaður hjá Beverley skipasmíðastöðvunum og er frágangur allur með ágætum. Skipstjóri er Árni Ingólfsson, 1. stýrimaður Guðmundur Ólafsson, (báðir úr Reykjavík), 1. vélstjóri er Jens Hinrkisson (frá Norðfirði). II. vélstjóri Bjarni Nikulásson, Loftskeytamaður er Pétur Goldstein. Hásetar eru frá Norðfirði. Framkvæmdastjóri er sami og Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, Steindór Árnason. Konur eigenda togarans buðu áhöfn skipsins, bæjarstjórn stjórn sparisjóðsins o. fl. til hófs um kvöldið, og sátu það nálægt 100 manns. Var þar flutt kvæði eftir Guðmund Magnússon.
Ræður fluttu: Krístín Helgadóttir, Vigfús Guttormsson, Lúðvík Jósepsson, Bjarni Þórðarson, sr. Guðmundur Helgason, Jóhannes Stefánsson og Anton Lundberg. Goðanes fór í gærkvöld áleiðis til Reykjavíkur en þar á að setja bræðslutæki í skipið en síðan fer það á veiðar. Norðfirðingar eru mjög ánægðir með að hafa eignazt tvo nýja togara á þessu ári og þakka það góðri aðstoð fyrrverandi ríkisstjórnar, nýbyggingarráði, en einkum þó Lúðvík Jósepssyni alþingismanni.
Óvenju harður vetur hefur verið fyrir austan, er þar nú hörkufrost og snjór yfir allt. Bátar eru að búa sig til vertíðar á Hornafjörð og Suðurnes.

Þjóðviljinn. 28 desember 1947.



Flettingar í dag: 625
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720522
Samtals gestir: 53512
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:51:35