Blogghistorik: 2024 Nästa sida

20.04.2024 14:46

2197. Blængur NK 117. TFNE.

Frystitogarinn Blængur NK 117 var byggður í Skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni árið 1993 fyrir Síldarvinnsluna h.f. í Neskaupstað. 1.199 bt. 736 brl. 433 netto. 3.020 ha.. Wärtsilä Vasa 6R32D vél, 2.221 Kw. 52,20 x 11,09 x 7,23 m. Smíðanúmer 639. Skipaskrárnúmer 2197. Mun hafa heitið Hekktind á hluta smíðatíma. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í Álesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö.  Blængur var gerður út að mestu sem rækjufrystitogari, mest á Flæmingjagrunni (Flemish Cap) við Nýfundnaland og einnig hér við land og þá einnig á karfa og grálúðu. Einnig var Blængur ásamt 1536. Barða NK 120 við loðnufrystingu í Norðfjarðarhöfn í marsmánuði árin 1994-95, sælla minninga. Blængur var seldur í desember 1998, Skagstrendingi h.f. á Skagaströnd, fékk þá nafnið Örvar HU 2 og var gerður út sem rækjufrystitogari eins og áður. Örvar var svo fljótlega leigður aðilum í Eistlandi sem voru í samstarfi við Skagstrending og tekinn af Íslenskri skipaskrá 3 mars 1999, fékk þá nafnið Örvar EK 9904. Skipið var endurskráð árið 2003 á Íslenska skipaskrá sem Örvar HU 2.Talsverðar breytingar voru gerðar á togaranum í Gdynia í Póllandi í janúar og febrúar 2005, skut skipsins var breytt, fiskmóttaka stækkuð og klæðning á millidekki endurnýjuð. Frá árinu 2005 er skipið komið í eigu Fisk-Seafood h.f. á Sauðárkróki. Árið 2011 fær Örvar skráningarnúmerið SK 2.Togarinn var seldur til Murmansk í Rússlandi 13 febrúar árið 2014 og heitir þar Orvar MK 0474 og er sjálfsagt gerður þaðan út í dag.

Blængur NK átti að bera nafnið Hekktind en Síldarvinnslan kaupir skipið á smíðatímanum. Systurskip Blængs sem var í smíðum á sama tíma fær nafnið Hekktind en það skip átti að bera nafnið Fortuna Polar.
Heimildarmaður þessara upplýsinga frá smíðatíma Blængs / Hekktind eru frá Óskari Franz Óskarssyni.
 

Blængur NK 117 í hópsiglingu á Norðfirði.                                               (C) S.V.N.


              Nýtt og glæsilegt frystiskip
                     Blængur NK 117

Það var hátíð í Neskaupstað sl. Þriðjudag þegar BlængurNK 117 kom fánum prýddur til heimahafnar, eftir um fimm sólarhringa siglingu frá Vigo á Spáni. Síðdegis sama dag var hátíðleg athöfn í Norðfjarðarhöfn að viðstöddu fjölmenni. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri flutti ávarp og bauð skipið velkomið og lýsti um leið að ný bryggja væri hér með tekin í notkun. Guðmundur sagði í ræðu sinni að á sama tíma og alið væri á bölmóð og svartsýni í þjóðfélaginu, sérstaklega í sjávarútvegi, brettu forsvarsmenn Síldarvinnslunnar upp ermar og keyptu nýtt skip. Þá bað bæjarstjóri viðstadda að hrópa ferfalt húrra fyrir skipi og skipshöfn og var það gert. Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar flutti stutt ávarp og sagði þar meðal annars að það hefði verið sérstaklega ánægjulegt að sjá móttökur barnanna því þau væru framtíðin. Finnbogi bauð þá til nýrrar veislu þegar skipið kæmi heim aftur fullbúið frá Akureyri. Síðan var skipinu gefið nafn við hátíðlega athöfn og var það Anna Þóra Árnadóttir, kona Jóns Más Jónssonar yfirvélstjóra sem það gerði. Séra Þorgrímur Daníelsson sóknarprestur flutti blessunarorð. Það vakti kátínu meðal viðstaddra þegar Lúðrasveit Tónskólans lék lagið „Krummi krunkar úti" en nafnið Blængur merkir m. a. hrafn. Síðan var viðstöddum boðið að skoða skipið og þiggja veitingar. Áætla má að um 500 manns hafi verið á hafnarsvæðinu.
Á þessu ári eru 20 ár liðin síðan Síldarvinnslan fékk nýsmíði síðast en það var Bjartur sem kom í mars 1973 frá Japan. Á þeim árum sem síðan eru liðin hafa vissulega ný skip bæst í flota Norðfirðinga en þau skip hafa verið keypt notuð. Blængur er skuttogari með tveimur þilförum milli stafna, perustefni, skutrennu upp á efra þilfar, hvalbak á tveimur hæðum á fremri hluta efra þilfars og brú á reisn aftantil á efra hvalbaksþilfari. Íbúðir eru á þremur hæðum framskips, þ. e. á millidekki, togþilfari og bakkaþilfari. Samtals eru íbúðir fyrir 22 menn í tólf eins manns klefum og 5 tveggja manna klefum, auk sjúkraklefa. Svefnklefarnir hafa allir aðgang að snyrtingu. Allar vistarverur eru hinar glæsilegustu. Framan við skutrennu eru tvær vökvaknúnar fiskilúgur sem veita aðgang að tvískiptri fiskmóttöku. Í efri brún skutrennu er vökvaknúin skutrennuloka. Fiskimóttakan er klædd ryðfríu stáli. Lestarrými undir aðalþilfari er um 600 m3 og er lestin gerð fyrir geymslu á frystum afurðum. Blængur hélt í gær áleiðis til Akureyrar þar sem sett verður rækjuverksmiðja í skipið. Það verk á að taka um 4 vikur og verður skipið tilbúið til veiða fljótlega eftir það. Norðfirðingar hafa ástæðu til að fagna komu Blængs. Skipið mun ekki aðeins veita allt að hálfum þriðja tugi sjómanna vinnu heldur og skapast mikil vinna í landi við viðhald og þjónustu. Austurland óskar Síldarvinnslunni hf. og Norðfirðingum öllum til hamingju með þetta glæsilega skip og óskar skipi og skipshöfn velfarnaðar.

Austurland. 30 september 1993.

Blængur NK 117 í Vigo á Spáni rétt áður en lagt var af stað heim á leið. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
Fyrirkomulagsteikning af Blængi NK 117.               Mynd úr Ægi.

               Blængur NK 117

28. september sl. kom skuttogarinn Blængur NK 117 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar. Skuttogari þessi er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni, smíðanúmer 639 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í Álesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö. Skipið er búið til rækjuvinnslu og heilfrystingar á karfa og grálúðu. Eftir að skipið kom til landsins var settur í það vinnslubúnaður og annaðist það verk Slippstöðin Oddi hf. á Akureyri og lauk þeirri vinnu í byrjun nóvember. Á móti hinu nýja skipi úreldir útgerðin Hilmi NK 171 (1551), 642 rúmlesta nótaveiðiskip, smíðað árið 1980 á Akureyri. Hinn nýi Blængur er smíðaður eftir sömu teikningu og Otto Wathne NS sem keyptur var til landsins á sl. ári, en er smíðaður í mun hærri ísklassa, eða Ice 1B. Blængur NK er í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Skipstjóri á skipinu er Helgi Geir Valdimarsson og yfirvélstjóri Jón Már Jónsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Jóhann K. Sigurðsson.
Mesta lengd 51.45 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 46.90 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) 45.10 m.
Breidd (mótuð) 11.90 m.
Dýpt að efra þilfari 7.23 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.83 m.
Eigin þyngd 1.346 tonn.
Særými (djúprista 4.83 m) 1.741 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.83 m) 395 tonn.
Lestarými 625 m3
Brennsluolíugeymar 313.6 m3
Ferskvatnsgeymir 19.7 m3
Sjókjölfestugeymir 31.7 m3
Andveltigeymir (brennsluolía/sjór) 37.3 m3
Brúttótonnatala 1199 BT.
Rúmlestatala 736 Brl.
Skipaskrárnúmer 2197.

Ægir. 1 nóvember 1993.

Blængur NK 117 í norðfjarðarhöfn.             (C) Kristján J. Kristjánsson á Sjónarhól.
Örvar HU 2.                                                                           (C) Sævar Sæmundsson.
Örvar SK 2 við bryggju á Sauðárkróki.                                (C) Jón Ölver Magnússon.

 

                                  Skagstrendingur kaupir
               Blæng NK 117 af SVN

Skagstrendingur hf. á Skagaströnd hefur fest kaup á Blæng NK-117, rækjuskipi Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað og verður skipið afhent nýjum eigendum hinn 22. desember nk. Skipið sem mun bera nafnið Örvar HU 21 verður leigt fyrirtæki í Eistlandi. Jafnframt er unnið að því að selja eldra rækjuveiðiskip Skagstrendings hf., Helgu Björgu HU-7, til fyrirtækis í eigu Skagstrendings og Nasco hf. ásamt hinum eistneska samstarfsaðila. Bæði skipin verða gerð út til rækjuveiða á Flæmingjagrunni. Öll iðnaðarrækja sem skipin munu afla fer til vinnslu á Skagaströnd. Vonast er til að hægt verði að tryggja viðunandi afkomu skipanna auk þess sem rækjuvinnslu Skagstrendings hf. verði tryggð um 2.500 tonn af hráefni á ári til viðbótar rækju af heimamiðum. Blængur NK-117 er 1.200 brúttótonn að stærð, tæpir 52 metrar að lengd, með 3.000 hestafla aðalvél. Síldarvinnslan hf. keypti skipið nýtt frá Spáni árið 1993. Helga Björg HU-7 er minna skip, 935 brúttótonn að stærð, 49,5 metrar að lengd, með 1.700 hestafla aðalvél. Skpið var smíðað í Noregi árið 1977 og endurbyggt árið 1986. Rækjuveiðar innan íslensku lögsögunnar hafa gengið illa undanfarin misseri og ekkert bendir til þess að úr rætist á næstunni. „Vegna þessa ástands á miðunum hefur rekstur Helgu Bjargar ekki gengið sem skyldi og ég býst við að sömu sögu sé að segja af öðrum íslenskum rækjuveiðiskipum. Skagstrendingur hf. hefur um nokkurt skeið haft hug á því að endurnýja Helgu Björgu fyrir öflugra skip. Með kaupunum á Blæng hefur þessu markmiði verið náð. Við teljum Blæng henta mjög vel sem framtíðarskip fyrir rækjuvinnsluna okkar. Hins vegar teljum við ekki ráðlegt að gera skipið út til veiða innan íslensku lögsögunnar fyrst í stað, a.m.k. ekki á meðan rækjuveiðin þar er jafn treg og raun ber vitni," segir Jóel Kristjánsson, framkvæmdastjóri Skagstrendings hf.
Allri áhöfn Helgu Bjargar verður boðið áframhaldandi starf á skipinu. Ennfremur mun fyrirtækið sem tekur Blæng á leigu bjóða yfirmönnum þess skips áframhaldandi starf, tímabundið. Jóel segir að með þessum ráðstöfunum styrkist hráefnisstaða rækjuvinnslu fyrirtækisins á Skagaströnd verulega. „Þeir samningar sem við höfum gert tryggja okkur 2.500 tonn af iðnaðarrækju á ári. Þessar ráðstafanir munu skipta sköpum fyrir rekstraröryggi rækjuvinnslunnar á næsta ári og treysta rekstur Skagstrendings hf. í heild sinni," segir Jóel. Að sögn hans hafa veiðar á Flæmingjagrunni gengið vel síðasta ár og þar hafa öflugustu skipin skarað fram úr. Því hefur verið ákveðið að í lok janúar verði settur niður spilbúnaður í Blæng, sem gerir skipinu kleift að veiða með tveimur trollum samtímis, jafnframt því sem vélarafl skipsins verður aukið í 3.300 hestöfl. Gert er ráð fyrir að skipið verði komið til veiða á Flæmingjagrunni upp úr miðjum febrúar nk.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að eins og ástand rækjustofnsins sé, sé ekki grundvöllur fyrir útgerð Blængs hér við land. Því hafi verið ákveðið að selja hann og hætta rækjuveiðum. „Við eigum eftir sem áður okkar rækjukvóta upp á 2.000 tonn og munum meðal annars nýta hann í samvinnu við Skagstrending. Þetta hefur ekki áhrif á vinnsluna hjá okkur, því öll iðnaðarrækja af Blæng fór til vinnslu á Skagaströnd. Við sjáum svo hvað setur. Það hefur ekkert enn verið rætt um kaup á skipi í stað Blængs, en verði af einhverjum skipakaupum væri ekki ólíklegt að þar yrði um fjölveiðiskip að ræða og það gæti þá einnig veitt rækju," segir Finnbogi Jónsson.

Morgunblaðið. 4 desember 1998.

Rússneski togarinn Orvar MK 0474 frá Murmansk.  (C) Dozy Pangolin.



      Örvar SK-2 seldur og 30 missa skiprúmið

Sjávarútvegsfyrirtækið FISK-Seafood á Sauðárkróki hefur selt frystitogarann Örvar SK-2 úr landi. Vegna sölu skipsins verður 30 manns sagt upp störfum. Ástæða sölunnar er áherslubreyting í starfsemi fyrirtækisins með eflingu landvinnslu á kostnað frystingar og vinnslu á sjó. Fyrirtækið sendi frá sér fréttatilkynningu þessa efnis um hádegisbil í gær, en hvorki Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK-Seafood, né Gylfi Guðjónsson, útgerðarstjóri félagsins, vildu gefa frekari upplýsingar en gefnar eru í annars ítarlegri tilkynningu. Þar segir að viðunandi kauptilboð hafi borist í skipið og frágangur samninga standi yfir, en Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að skipið verði selt til Rússlands. Stefnt er að því að það verði afhent nýjum eigendum í febrúar, en uppsagnarfrestur áhafnar Örvars er frá einum og upp í sex mánuði. Þar segir jafnframt að þó að starfsmönnum fyrirtækisins geti fækkað tímabundið sé ljóst að til lengdar muni þeim fjölga. Ástæðan er sú áherslubreyting í starfsemi fyrirtækisins sem er ástæðan fyrir sölu skipsins. Sverrir Kjartansson, skipstjóri á Örvari, gat ekki veitt Fréttablaðinu upplýsingar um framtíð áhafnar skipsins hjá fyrirtækinu. Fréttir af sölu skipsins bárust honum fyrst í gærmorgun. „Við vitum ekki neitt. Það var bara hringt í okkur í morgun og við látnir vita af þessu.“ Þórarinn Sverrisson, formaðurstéttarfélagsins Öldunnar, hafði aðeins nýlega frétt af sölu skipsins þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Hann sagði að væntanlega hefði áhöfnin misst sitt skiprúm og hann hefði ekki heyrt í neinum þeirra um framhaldið, né heldur forsvarsmönnum fyrirtækisins. Stefna FISK er að draga úr vægi frystingar og vinnslu á sjó, en efla í staðinn landvinnslu sem býður upp á fjölbreyttari framleiðslu og betri nýtingu alls hráefnis, segir í tilkynningu félagsins. Undirbúningur að þessari breytingu er þegar hafinn, til dæmis með byggingu þurrkverksmiðju á Sauðárkróki. Jafnframt á FISK dótturfyrirtæki, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun er snúa að eftirliti og eflingu gæða lokaafurða fyrirtækisins.
FISK- Seafood er fjórða stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins ef tekið er tillit til kvótastöðu. Fyrirtækið hefur yfir að ráða tæpum 18.000 þorskígildistonnum, eða 4,59% af heild. Landvinnslur FISK Seafood eru á þremur stöðum á landinu: á Grundarfirði, á Skagaströnd og á Sauðárkróki. Skipafloti fyrirtækisins samanstendur af þremur frystitogurum, einum ísfisktogara og einum togbát. Þau eru Arnar HU-1, Farsæll SH-30, Klakkur SK-5, Málmey SK-1 og Örvar SK-2.

Fréttablaðið. 28 desember 2013.

15.04.2024 17:06

728. Rán ÍS 51. TFKW.

Vélbáturinn Rán ÍS 51 var byggður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar h.f. á Ísafirði árið 1958 fyrir Rán h.f. (Helgi Björnsson og fl.) í Hnífsdal. Eik. 58,25 brl. 22 nettó. 280 ha. Mannheim vél. 21,41 x 5,40 x 2,21 m. Smíðanúmer 30. Skipaskrárnúmer 728. Frá 22 október 1965 var báturinn í eigu Hafbjargar h.f. (Helgi Ibsen og Vilhjálmur Guðjónsson) á Akranesi, hét þá Rán AK 304. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar vél. Var í eigu Ármanns Stefánssonar á Akranesi frá 25 apríl 1975, hét þá Rán AK 34. Endurmældur í september 1975, mældist þá 58 brl. Frá 3 júní 1983 voru eigendur bátsins Ármann Stefánsson og Símonía Ellen Þórarinsdóttir á Akranesi, sama nafn og númer. Frá 7 nóvember 1986 í eigu Útvegsmiðstöðvarinnar h.f. í Keflavík, hét þá Rán KE 37. Helgi Grétar Helgason í Reykjavík er eigandi frá 18 maí 1988, fékk þá nafnið Rán BA 57 með heimahöfn á Patreksfirði. Báturinn var tekinn af skrá 27 október árið 1988 og endaði síðar á áramótabrennu í Njarðvík árið 1990.

Vélbáturinn Rán ÍS 51 í prufusiglingu á Ísafjarðardjúpi.     Ljósmyndari óþekktur.
Rán ÍS 51 sjósett á Ísafirði vorið 1958.                         Ljósmyndari óþekktur.


                Nýr Hnífsdalsbátur

Um miðjan maí var lokið í Skipasmíðastöð M. Bernharðsson h.f. á Ísafirði, smíði á nýjum vélbát, sem heitir Rán Í.S. 51, og eru eigendur hans samnefnt hlutafélag í Hnífsdal, en framkvæmdastjóri þess er Helgi Björnsson. Rán er um 60 br. smálestir, byggður úr eik, með 300 ha. Mannheimvél. Báturinn er búinn öllum fullkomnustu siglingartækjum, þar á meðal radar. Rán er 30. báturinn sem er byggður í skipasmíðastöð M. Bemharðssonar, hið glæsilegasta skip. Skipstjóri er Jóakim Hjartarson. Rán er leigður yfir síldarvertíðina til síldarleitar.

Vesturland. 27 júní 1958.

Rán AK 34.                                                                                      (C) Snorri Snorrason.
Rán BA 57 í Reykjavíkurhöfn. Þarna er stutt í endalokin.     (C) Bjarni Veturliðason.
Rán AK 304. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra í Byggðasafninu að Görðum á Akranesi.

      Rausnarleg gjöf á Byggðasafnið að Görðum

Þann 3. janúar 2015 afhentu ættingjar Helga Ibsen Byggðasafninu líkan af bátnum Rán 304 til minningar um Helga Ibsen.  Helgi Ingólfur Ibsen fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 8. september 1928, hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 28. ágúst 2004.
Árið 1965 stofnuðu Helgi og Vilhjálmur Guðjónsson útgerðarfyrirtækið Hafbjörgu hf. á Akranesi. Eitt fyrsta verk þeirra félaga var að fara vestur til Hnífsdals og festa kaup á skipi sem hét Rán ÍS 51. Báturinn var smíðaður í skipasmíðastöð Marselíusar á Ísafirði 1958.
Helgi og Vilhjálmur ráku útgerð og fiskvinnslu með myndarbrag, þeir áttu Rán AK 304 í 10 ár og reyndist hún þeim vel. Árið 1975 seldu þeir Ármanni Stefánssyni bátinn, síðari eigendur voru Útvegsmiðstöðin í Keflavík (1986) og Helgi Grétar Helgason (1988). Ránin var úrelduð haustið 1988 fyrir Fanney SH. Það var sérstakt við þennan bát að hann hét aldrei annað en Rán þrátt fyrir eigendaskipti, en nafnið Rán merkir alda.
Endalok Ránarinnar urðu þau að báturinn var brenndur á áramótabrennu í Njarðvík árið 1990, þá var rafkerfi og stýrishús orðið lélegt en skrokkurinn var í góðu lagi. Ránin var alla tíð mikið happafley.

Grímur Karlsson módelsmiður í Reykjanesbæ smíðaði líkanið af Ráninni í tilefni af 70 ára afmæli Helga Ibsen.

Af vefsíðu Safnasvæðisins á Akranesi.

 

14.04.2024 06:53

722. Pálmi EA 21.

Vélbáturinn Pálmi EA 21 var byggður í Slippstöðinni h.f. á Akureyri árið 1963 eftir teikningu Þorsteins Þorsteinssonar skipasmíðameistara fyrir Gunnlaug Sigurðsson Árskógshreppi, Georg Vigfússon Litla Árskógi, Valves Kárason og Stefán Snælaugsson á Árskógssandi. Eik. 17,26 brl. 5 nettó. 100 ha. Volvo Penta vél. 13,19 x 3,95 x 1,56 m. Skipaskrárnúmer 722. Eigendur frá 26 ágúst 1968 voru Ólafur Tryggvason og Jónatan Sveinsson í Reykjavík og Sigurður Hreiðarsson í Kópavogi, hét þá Stapi RE 69. Frá 31 október 1969 eru eigendur bátsins Jónatan Sveinsson í Reykjavík, Haraldur Kjartansson, Bragi Eyjólfsson og Adolf L Sveinsson á Ólafsfirði, sama nafn og númer. Frá 9 september 1970 er Matvælaiðjan h.f. á Bíldudal eigandi, hét þá Stapi BA 17. Frá 1 mars er Niðursuðuverksmiðjan h.f. á Ísafirði eigandi, fékk þá nafnið Eiríkur Finnsson ÍS 26, Frá 25 janúar 1980 mun hann hafa borið skráningarnúmerið ÍS 260. Báturinn fórst í Ísafjarðardjúpi og með honum áhöfnin, tveir menn, í miklu suðvestan fárviðri er gekk yfir Vestfirði 25 febrúar árið 1980. Tveir aðrir bátar fórust í veðri þessu, Gullfaxi ÍS 594, með tveimur mönnum á Ísafjarðardjúpi og Vísir BA 44 með tveimur mönnum inn á Arnarfirði. Voru bátarnir þá á rækjuveiðum.

Flakið af Eiríki Finnssyni fannst skammt norður af Vigur og liggur á um 36 faðma dýpi. Gullfaxi liggur þar einnig skammt frá á 50 faðma dýpi.

Pálmi EA 21 á siglingu við Hrísey á Eyjafirði um 1966.           Ljósmyndari óþekktur.


                             Nýi báturinn Pálmi

Þegar vélbáturinn Pálmi frá Litla-Árskógssandi sökk við ásiglingu Heklu fyrir ári síðan, en það var 9 tonna bátur, tóku eigendur hans að hugsa fyrir nýjum báti. Og nú er hann í þann veginn að taka við hlutverki nafna síns. Hann er byggður í Slippstöðinni hf. á Akureyri og er nú 18 tonn, vandaður og fullkomnari en sá fyrri. Eigendur hins nýja Pálma eru Georg Vigfússon, Gunnlaugur Sigurðsson, Valves Kárason og Stefán Snælaugsson, sem verður formaður á bátnum.

Íslendingur. 9 apríl 1963.

Pálmi EA 21 upp í fjöru til botnhreinsunar á Borgarfirði eystra 1967-68. (C) Sverrir Aðalsteinsson.

          
        Þriggja rækjubáta með sex mönnum saknað

Óttast er um afdrif þriggja rækjubáta, tveggja frá Ísafirði og eins frá Bíldudal. Tveir skipverjar eru á hverjum báti. Í gærkvöldi fannst gúmbátur af einum bátanna við Skarð á Snæfjallaströnd og stíuborð fundust við Auðkúlu í Arnarfirði, sem talið er að séu af Bíldudalsbátnum. Bátarnir, sem saknað er eru Vísir BA 44,16 tonna eikarbátur frá Bíldudal. Gullfaxi ÍS 594, 19 tonna eikarbátur frá Ísafirði, og Eirikur Finnsson ÍS 26. 17 tonna eikarbátur frá Ísafirði.
Rækjubátar réru frá Ísafirði í sæmilegu veðri í gærmorgun og fóru bátarnir, sem saknað er frá Ísafirði, til veiða í innanverðu Djúpi. Upp úr hádegi var skollið á aftakaveður af suðvestri.  Um klukkan 15 voru bátarnir 'beðnir um að tilkynna sig og þá kom í ljós, að tveggja báta, Gullfaxa og Eiríks Finnssonar, var saknað. Síðast er vitað um Gullfaxa út af Arnarnesi á leið til Ísafjarðar, og um Eirík Finnsson þar sem hann var að hífa innan við Ögurhólma skömmu eftir hádegi, en hafði ekki leitað vars. Þrír línubátar frá Ísafirði fóru til aðstoðar og leitar fyrir klukkan 3 í gærdag og björgunarsveitarmenn frá Súðavík, Ísafirði, Hnífsdal og Bolungavík voru tilbúnir.
 Línubáturinn Guðný fór með átta björgunarsveitarmenn og kom þeim í land á Sandeyri á Snæfjallaströnd við erfiðar aðstæður. Þeir munu ganga ströndina í dag og bændur á Snæfjallaströnd byrjuðu leit á landi þegar síðdegis í gær og menn frá Unaðsdal fundu í gærkvöldi gúmbát, sem talinn er vera úr Eiríki Finnssyni, við Skarð á Snæfjallaströnd. í dag verður leitað á sjó, landi og úr lofti ef veður leyfir. Fyrrnefndar björgunarsveitir munu hafa aðstöðu í húsi SVFÍ í Bolungarvík, en í gær tóku auk fyrrnefndra aðila þátt í leitinni starfsmenn Slysavarnafélagsins í Reykjavík, Landhelgisgæzlu og ísafjarðarradíós. Upp úr hádegi var farið að óttast um rækjubátinn Vísi frá Bíldudal, Frigg BA var þá inni á Bíldudal og var strax beðinn um að fara og svipast um eftir bátnum.
 Þá var varðskipi, sem var miðsvæðis út af Vestfjörðum, snúið við og stefnt í Arnarfjörð. Það hafði áður verið beðið um aðstoð vegna Ísafjarðarbátanna, en snúið við þar sem færri skip voru til leitar í Arnarfirði. Vísir hafði verið að hífa fyrir innan Gíslasker þegar síðast fréttist, en bátarnir Vísir og Pílot BA 6 höfðu haft samband sín á milli. Varðskipið fór inn fyrir Gíslasker, inn á Dynjandisvog og Borgarfjörð, en sá ekki neinn bát. Hins vegar fannst ómerktur rækjukassi og lestarborð út af bænum Auðkúlu. Bændur á Auðkúlu fundu síðan í gærkvöldi grámáluð stíuborð með rauðum röndum, sem talið var að væru frá Vísi. Björgunarsveitarmenn fara með varðskipi í dag og taka land á Rafnseyri til þess að leita fjörur við norðanverðan Arnarfjörð. 

Morgunblaðið. 26 febrúar 1980.
 

Sjómennirnir sex sem fórust með rækjubátunum þremur. Ljósmyndir úr Morgunblaðinu.
 
Vélbáturinn Eiríkur Finnsson ÍS 26 við bryggju á Ísafirði.     Ljósmyndari óþekktur.

                              
                                Vestfjarðafárviðrið
            Sjómennirnir taldir af

Sjómennirnir sex af vestfirsku rækjubátunum þremur sem saknað var á mánudag eru nú taldir af og er formlegri leit hætt í ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Flugvél frá flugfélaginu Örnum flaug leitarflug í gær án árangurs, en næstu daga verður gengið á fjörur eftir því sem astæður leyfa. Vitað er um flökin af Gullfaxa og  Eiríki Finnssyni á 50 og 36 faðma dýpi skammt norður af Vigur og brak hefur fundist úr Vísi.
 Með Gullfaxa fórust bræðurnir Ólafur S. Össurarson og Valdimar Þ. Össurarson Ísafirði. Ólafur var 48 ára gamall, kvæntur og þriggja barna faðir. Valdimar var 40 ára, kvæntur og átti 4 syni.
Með Vísi fórust Pétur Valgarð Jóhannsson og Hjálmar Einarsson frá Bíldudal. Pétur var 44 ára, kvæntur og fimm barna faðir.
Hjálmar var 30 ára, kvæntur og fjögurra barna faðir, en hann átti einnig stjúpbarn.
Með Eiríki Finnssyni fórust Haukur Böðvarsson og Daníel Jóhannsson frá Ísafirði. Haukur var 31 árs og ókvæntur, en Daníel var 35 ára, kvæntur og tveggja barna faðir.
19 börn urðu föðurlaus þegar þessir þrír bátar fórust.

Morgunblaðið. 28 febrúar 1980.


 

01.04.2024 08:32

B.v. Reykjaborg RE 64. TFUD.

Botnvörpuskipið Reykjaborg RE 64 var byggt hjá Ateliers et Chantiers Maritimes du Sud-Ouest í Bordeaux í Frakklandi árið 1927 fyrir Útgerðarfélagið Canu, Obellianne, Wimille & Cie í Boulogne í Frakklandi. Skipið hét áður Cap á l'Aigle. 685 brl. 800 ha. 3 þenslu gufuvél. 55,89 x 9,61 x 4,18 m. Skipið var selt í janúar 1936, h/f Mjölni (Guðmundur Jónsson skipstjóri og fl.) í Reykjavík, fékk nafnið Reykjaborg RE 64. Bræðslutæki voru sett um borð í togarann snemma árs 1937 í Þýskalandi. Samkvæmt heimildum í Ægi frá þessum tíma má nefna sem dæmi að Reykjaborgin bræddi 3188 mál af síld árið 1937 og 575 tonn af karfa árið 1939.  Var Reykjaborgin fyrsta íslenska skipið sem fékk bræðslutæki til mjölvinnslu. Togaranum var sökkt af þýska kafbátnum U-552 (Erich Topp kafbátsforingi), hinn 10 mars árið 1941, vestur af Barra Head við Skotlandsstrendur þegar hann var á leið í söluferð til Fleetwood. 12 skipverjar og 1 farþegi fórust en 2 skipverjar björguðust á fleka og var síðan bjargað um borð í breskt herskip.

Togarinn Vörður BA 142 frá Patreksfirði fann annan af björgunarflekum Reykjaborgarinnar þegar hann var á heimleið frá Fleetwood eftir söluferð þangað. Var togarinn þá staddur um 170 sjómílur norður af St. Kilda í Skotlandi, þegar skipverjar komu auga á björgunarfleka. Hafði Guðmundur Jóhannsson skipstjóri á Verði þá tilfinningu að flekinn gæti verið af íslensku skipi, sem reyndist rétt því þarna var kominn fram fleki af Reykjaborginni, og auðséð að togaranum hafi verið sökkt. Tóku þeir flekann um borð, sem reyndist mannlaus, en augljóst að menn hafi verið þar um borð í einhvern tíma. Nokkrum dögum síðar urðu örlög Reykjaborgar kunn, þýskur kafbátur hafði sökkt togaranum, eins og sagt er frá hér að ofan. Hafði breskt herskip fundið hinn björgunarflekann og í honum voru tveir af áhöfn togarans sem báðir særðust töluvert í árásinni. Fór herskipið með þá til Greenlock í Skotlandi þar sem þeir voru færðir á sjúkrahús.

B.v. Reykjaborg RE 64 á Siglufirði. Togarinn er þarna á síldveiðum. Ljósmyndari óþekktur. 



                                    Reykjaborg RE 64

Hinn 24. febrúar síðdegis, lagðist nýkeypt botnvörpuskip að hafnarbakka í Reykjavík og er hið stærsta sem Íslendingar hafa eignast. Þetta er Reykjaborg, eign hf. »Mjölnir'«, sem hér var stofnað í sl. janúar; skipa þar stjórn, Björn Ólafs, Mýrarhúsum, Geir Sigurðsson, skipstjóri og Jón Björnsson, kaupmaður. Hluthafar eru um 20. Franskt útgerðarfélag lét smíða skipið árið 1927 og hefur haldið því á veiðum við Newfoundland og hefur það reynst bezta skip. Það er 689 brúttolestir að stærð, 275 lestir netto og hefur 250 hestaflagufuvél. Það er búið öllum nýtízku siglingatækjum. Auk þess er þar beinamjölsvél, sem malað getur 10 tonn af hráefni á dag og skilar úr því 2 tonnum af mjöli. Vélin er keypt í Englandi, til reynslu, og er vélasmiður, Kendall að nafni, með skipinu og kennir hann þeim, sem síðan taka við, hvernig nota skuli hana og gera við það, sem aflaga kynni að fara. Guðmundur Jónsson skipstjóri, Geir Sigurðsson og Jón Oddsson, útgerðarmaður í Hull, völdu og keyptu skipið í Boulogne sur Mer í Frakklandi, sigldu því síðan til Hull og fluttu heim kol. Hinn 3. marz lagði Reykjaborg í sína fyrstu veiðiför; er þar Guðmundur Jónsson skipstjóri, er áður var á bv. Skallagrími og stýrimaður er, Kristján Schram. Alls er skipshöfnin 42 menn. Ægir flytur eigendum Reykjaborgar, bestu óskir um góða framtíð og arðsemi þessa fyrirtækis, sem þeir með fjárframlögum og erfiði hafa unnið að og aukið með því, útgerð landsins og veitt vinnu, sem um munar.

Ægir. 1 mars 1936.
 

B.v. Reykjaborg RE 64 á toginu.                                              Ljósmyndari óþekktur.
Málverk af togaranum Reykjaborg RE 64.                               Listamaður óþekktur.

            Björgunarfleki af b.v. „Reykjaborg"
                    finnst mannlaus í hafi
 
Togarinn hefur ekki komið fram á ákvörðunarstað

Togarinn „Vörður" frá Patreksfirði kom hingað um hádegisbilið í gær. Höfðu skipverjar fundið björgunarfleka frá togaranum „Reykjaborg", í hafi, um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum. Flekinn var mannlaus, en á honum var ullarteppi og björgunarbelti. Áður en „Vörður" kom, og vitað var, að hann hafði fundið flekann, hafði útgerðarstjórn Reykjaborgar borist, skeyti frá umboðsmanni skipsins í Englandi, þar sem hann segir, að skipið hafi ekki komið á ákvörðunarstað og ekkert til þess spurst. Búist var við Reykjaborg til Fleetwood fimtudaginn 13. þ. m., því hjeðan fór skipið laugardaginn 8. þ. m. kl. 6 e. h. Þó talið sje nokkurnveginn víst að Reykjaborg hafi verið sökkt, eða að skipið hafi farist, þá er ekki vitað með neinni vissu um afdrif skipshafnarinnar. Vona menn í lengstu lög, að henni hafi verið bjargaf af flekanum eða ef til vill björgunarbátum skipsins á hafi, en að einhverra hluta vegna hafi ekki fregnast um það ennþá. Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi, Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar.
Blaðamaður frá Morgunblaðinu átti í gær tal af Guðmundi Jóhannssyni skipstjóra á togaranum „Verði", sem fann flekann frá Reykjaborg. Hann sagði svo frá,: Það var klukkan 7.30 f. h. laugardaginn 15. þ. m., að við sáum björgunarfleka á sjónum. Við vorum þá staddir á 59°, 25' norðlægrar breiddar og 10°, 22' vestlægrar lengdar, eða um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum við Skotland. Á flekan fundum við ullarteppi, björgunarbelti og vatnskút, en í sjónum umhverfisflekann voru á floti lestarborð og borð úr dekkstíum. Við tókum flekann með okkur og svipuðumst um eftir mönnum, en sáum ekkert, sem gefið gat til kynna að annað væri að finna frá skipinu á þessum slóðum, Héldum við svo áfram leið okkar til Íslands og urðum ekki varið við neitt óvenjulegt á leið okkar eftir þetta.
Björgunarflekinn frá Reykjaborg er sömu tegundar og björgunarflekar þeir, sem Íslensk skip hafa haft síðan ófriðurinn hófst. Flekanum er haldið uppi á 6 blikktunnum, en sjálfur er flekinn eins og kassi í laginu, rúmlega 2 metrar á annan veginn og 1,5 meter á hinn veginn. Niðri í miðjum flekanum er ferhyrnt  opið hólf, sennilega gert til að geta skorðað sig í slæmum sjó.
Í þessu hólfi voru teppið og björgunarbeltið. Í flekanum voru matvæli og vatn í þar til gerðum kassa og vatnskúturinn, sem að framan greinir, en hann hafið losnað úr skorðum sínum, en af hverju er þó ekki ljóst. Björgunarflekinn ber þess merki, að á hann hefir verið skotið úr hríðskotabyssu. Hefir verið skotið að öðrum enda flekans og eru allt að 18 göt á einni tunnunni eftir byssukúlur. Aðeins tvær tunnur eru í flekanum, sem ekki hafa orðið fyrir skotum. Teppið á flekanum var einnig sundurskotið, en ekki þótti fullvíst í gær hvort það er tætt sundur af kúlum úr hríðskotabyssu eða sprengjubroti. Á björgunarbeltinu sást hinsvegar ekki neitt, og reimarnar á, því voru óslitnar. Benda líkur helst til þess að það hafi aldrei verið notað. Þegar flekinn fannst flaut hann vel upp úr sjó, en þó hærri í annan endann, þeim megin, sem heilu tunnurnar voru. Þegar flekinn var hafinn um borð í „Vörð" fór tappinn úr vatnskútnum og verður því ekki sagt um hvort búið var að drekka af vatninu, sem í honum var. Skot hafði lent í matvælakassanum og sjór komist að matvælunum. Það var heldur ekki upplýst í gærkvöldi hvort nokkuð hafði verið snert við matvælunum Þegar Vörður kom í gærdag fór Kristján Skagfjörð stórkaupmaður, sem er í stjórn útgerðarstjórnar Reykjaborgar, um borð í Vörð og fjekk því framgengt, að togarinn kæmi ekki strax upp að, þar sem þá hefði ekki verið hægt að fyrirbyggja að sagan um flekann hefði breiðst út um bæinn. Var aðstandendum mannanna á Reykjaborg tilkynnt um flekann, áður en Vörður lagðist upp að. Að tilhlutun ríkisstjórnarinnar var Sveinn Sæmundsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni fenginn til að rannsaka flekann og hluti þá, sem á honum fundust. Fjekk hann í lið með sjer við rannsóknina þá Friðrik Ólafsson, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Pjetur Sigurðsson fyrv. sjóliðsforingja. Rannsökuðu þeir flekann gaumgæflega og tóku úr honum kúlnabrot. Síðan var flekinn fluttur í lokað port, sem útgerðarstjóri Reykjaborgar ræður yfir. Ullarteppið og björgunarbeltið eru í vörslu rannsóknarlögreglunnar.
Með Reykjaborg fóru í þessa ferð 14 manna áhöfn og sá fimmtándi var Runólfur Sigurðsson, sem var farþegi. Skipshöfnina skipuðu þessir menn:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðirnel 53. Ásmundur Sveinsson, 1. stýrimaður, Sveinsstöðum við Kaplaskjólsveg. Óskar Þorsteinsson, 1. vjelstjóri, Víðimel 53. Gunnlaugur Ketilsson, 2. vjelstjóri, Shellveg 2. Daníel Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhúsum við Vesturgötu. Guðjón Jónsson, 2. stýrimaður, Barónsstíg 33. Jón Lárusson, matsveinn, Grandaveg 37. Óskar Ingimundarson, kyndari, Nýlendugötu 11. Eyjólfur Jónsson, háseti, Hverfisgötu 90. Hávarður Jónsson, háseti, Flókagötu 12. Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10. Árelíus Guðmundsson, háseti. Rauðarárstíg 42. Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100. Sigurður Hansson, kyndari. Framnesveg 16.
Reykjaborg var stærsti togari Íslenska flotans og hið traustasta skip. Var nýlega búið að gera skipið upp (klassa það). Reykjaborg var keypt frá Frakklandi og kom hingað 24. febrúar 1936. Skipið var búið ýmsum tækjum, svo sem fiskimjölsvjelum til að vinna úr fiskúrgangi og aðrar nýjungar til hagnýtingar aflans voru í skipinu.

Morgunblaðið. 18 mars 1941.

Björgunarflekinn sem Vörður fann í hafi.                              Ljósmyndari óþekktur.
Erich Topp t.h. um borð í U-552 í St. Nazaire í Frakklandi í október 1941.
 

       Þeir tóku allir morðárásinni með stillingu og kjarki
     Harmsaga togarans Reykjaborgar verður kunn

Þegar togarinn „Vörður" kom hingað á dögunum með sundurskotinn björgunarfleka „Reykjaborgarinnar", gat enginn verið í vafa um, að þetta stærsta skip togaraflotans var ekki lengur ofan sjávar. En þar sem svo virtist, sem menn hefðu hafst við á björgunarflekanum, vöknuðu vonir manna um það, að fleiri eða færri af skipverjum hefðu komist lífs af. Síðar barst fregnin um það, að breskt herskip hefði bjargað í hafi tveim mönnum af áhöfn Reykjaborgarinnar. Var óhugsandi, að hinum hefði einnig verið bjargað? spurðu menn og vonuðu, að enn gætu borist góð tíðindi. En nú er öll von úti. Nú er hinn blákaldi veruleiki kominn í ljós. í gær barst ríkisstjórninni eftirfarandi tilkynning frá sendifulltrúa Íslands í London:
Ríkisstjórninni barst í morgun símskeyti frá sendifulltrúa Íslands í London, er segir frá því, að Sigursteinn Magnússon, ræðismaður Íslands í Edinborg, hafi átt tal við þá tvo menn, sem vitað var, að hefðu bjargast af b.v. „Reykjaborginni" . Ræðismaðurinn segir, að þeir hafi skýrt svo frá, að kl. 9,25 síðdegis mánudaginn 10. mars, 140 mílur út frá Barrahöfða, í myrkri en lygnum sjó, hafi „Reykjaborgin" orðið fyrir ákafri skothríð frá kafbát, og hafi hún sokkið innan klukkustundar. Stöðug skothríð hafi dunið á brúna og þilfarið og eyðilagt alla yfirbyggingu skipsins. Skipbrotsmennirnir telja, að aðrir skipsmenn hafi verið dánir af skotsárum, þegar skipið sökk. Sigurður Hansson, Eyjólfur Jónsson og annar kyndari komust undan, þegar skipið sökk, en annari kyndari dó af sárum og þreytu innan 36 stunda. Hinum tveimur var bjargað á fimmtudagskvöld 13. mars. Þeir segja, að allir á skipinu hafi tekið morðárásinni með stillingu og kjarki. Líðan skipbrotsmanna er sæmileg, og máttu þeir fara á fætur í gær. Sigurður Hansson er særður á handlegg og lítið eitt á fæti, en Eyjólfur Jónsson á handlegg, og auk þess í baki og á fæti.
Þessir menn fórust með Reykjaborginni:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðimel 53, f. 21. júní 1901; kvæntur Karólínu Karlsdóttur, barnlaus.
Ásmundur Sveinsson, I. stýrimaður, Sveinsstöðum, f. 24. febr. 1905; ókvæntur.
Guðjón Jónsson, II. stýrimaður, Barónsstíg 33, f. 29. jan. 1894; kvæntur Hólmfríði Oddsdóttur, 1 fósturson.
Óskar Þorsteinsson, I. vjelstjóri, Víðimel 53, f. 24. mars 1902; kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur, barnlaus.
Gunnlaugur Ketilsson, II. vjelstjóri, Shellveg 2, f. 3. maí 1912; kvæntur Elsu Breiðfjörð, 1 barn 4 ára.
Daníel Kr. Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhús B, f. 21. júlí 1890; kvæntur Jóhönnu Friðriksdóttur, 8 börn, 4 innan 16 ára.
Jón Lárusson, matsveinn, Grandavegí 37, f. 25. sept. 1915; kvæntur Guðbjörgu Hjartardóttur, 1 barn á 1. ári.
Hávarður Jónsson," háseti, Flókagötu 12, f. 19. apríl 1901; kvæntur Aldísi Magnúsdóttur, barnlaus.
Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10, f. 26. sept. 1917; ókvæntur.
Árelíus Guðmundsson, háseti, Eauðarárstíg 42, f. 4. maí 1913; kvæntur Vigdísi Ólafsdóttur, 1 barn.
Óskar Ingimundarson, kyndari, frá Djúpavogi, f. 5. nóv. 1909; ókvæntur, átti 1 barn 5 ára.
Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100, f. 12. okt. 1907: kvæntur Þórlaugu M. Sigurðardóttur, 3 börn, 9, 5 og 2 ára.
Auk þess var einn farþegi með skipinu:
Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar, kvæntur, og átti 3 börn.

Morgunblaðið. 25 mars 1941.


 

  • 1
Antal sidvisningar idag: 281
Antal unika besökare idag: 20
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075661
Antal unika besökare totalt: 77621
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:36:39