20.04.2024 14:46

2197. Blængur NK 117. TFNE.

Frystitogarinn Blængur NK 117 var byggður í Skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni árið 1993 fyrir Síldarvinnsluna h.f. í Neskaupstað. 1.199 bt. 736 brl. 433 netto. 3.020 ha.. Wärtsilä Vasa 6R32D vél, 2.221 Kw. 52,20 x 11,09 x 7,23 m. Smíðanúmer 639. Skipaskrárnúmer 2197. Mun hafa heitið Hekktind á hluta smíðatíma. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í Álesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö.  Blængur var gerður út að mestu sem rækjufrystitogari, mest á Flæmingjagrunni (Flemish Cap) við Nýfundnaland og einnig hér við land og þá einnig á karfa og grálúðu. Einnig var Blængur ásamt 1536. Barða NK 120 við loðnufrystingu í Norðfjarðarhöfn í marsmánuði árin 1994-95, sælla minninga. Blængur var seldur í desember 1998, Skagstrendingi h.f. á Skagaströnd, fékk þá nafnið Örvar HU 2 og var gerður út sem rækjufrystitogari eins og áður. Örvar var svo fljótlega leigður aðilum í Eistlandi sem voru í samstarfi við Skagstrending og tekinn af Íslenskri skipaskrá 3 mars 1999, fékk þá nafnið Örvar EK 9904. Skipið var endurskráð árið 2003 á Íslenska skipaskrá sem Örvar HU 2.Talsverðar breytingar voru gerðar á togaranum í Gdynia í Póllandi í janúar og febrúar 2005, skut skipsins var breytt, fiskmóttaka stækkuð og klæðning á millidekki endurnýjuð. Frá árinu 2005 er skipið komið í eigu Fisk-Seafood h.f. á Sauðárkróki. Árið 2011 fær Örvar skráningarnúmerið SK 2.Togarinn var seldur til Murmansk í Rússlandi 13 febrúar árið 2014 og heitir þar Orvar MK 0474 og er sjálfsagt gerður þaðan út í dag.

Blængur NK átti að bera nafnið Hekktind en Síldarvinnslan kaupir skipið á smíðatímanum. Systurskip Blængs sem var í smíðum á sama tíma fær nafnið Hekktind en það skip átti að bera nafnið Fortuna Polar.
Heimildarmaður þessara upplýsinga frá smíðatíma Blængs / Hekktind eru frá Óskari Franz Óskarssyni.
 

Blængur NK 117 í hópsiglingu á Norðfirði.                                               (C) S.V.N.


              Nýtt og glæsilegt frystiskip
                     Blængur NK 117

Það var hátíð í Neskaupstað sl. Þriðjudag þegar BlængurNK 117 kom fánum prýddur til heimahafnar, eftir um fimm sólarhringa siglingu frá Vigo á Spáni. Síðdegis sama dag var hátíðleg athöfn í Norðfjarðarhöfn að viðstöddu fjölmenni. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri flutti ávarp og bauð skipið velkomið og lýsti um leið að ný bryggja væri hér með tekin í notkun. Guðmundur sagði í ræðu sinni að á sama tíma og alið væri á bölmóð og svartsýni í þjóðfélaginu, sérstaklega í sjávarútvegi, brettu forsvarsmenn Síldarvinnslunnar upp ermar og keyptu nýtt skip. Þá bað bæjarstjóri viðstadda að hrópa ferfalt húrra fyrir skipi og skipshöfn og var það gert. Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar flutti stutt ávarp og sagði þar meðal annars að það hefði verið sérstaklega ánægjulegt að sjá móttökur barnanna því þau væru framtíðin. Finnbogi bauð þá til nýrrar veislu þegar skipið kæmi heim aftur fullbúið frá Akureyri. Síðan var skipinu gefið nafn við hátíðlega athöfn og var það Anna Þóra Árnadóttir, kona Jóns Más Jónssonar yfirvélstjóra sem það gerði. Séra Þorgrímur Daníelsson sóknarprestur flutti blessunarorð. Það vakti kátínu meðal viðstaddra þegar Lúðrasveit Tónskólans lék lagið „Krummi krunkar úti" en nafnið Blængur merkir m. a. hrafn. Síðan var viðstöddum boðið að skoða skipið og þiggja veitingar. Áætla má að um 500 manns hafi verið á hafnarsvæðinu.
Á þessu ári eru 20 ár liðin síðan Síldarvinnslan fékk nýsmíði síðast en það var Bjartur sem kom í mars 1973 frá Japan. Á þeim árum sem síðan eru liðin hafa vissulega ný skip bæst í flota Norðfirðinga en þau skip hafa verið keypt notuð. Blængur er skuttogari með tveimur þilförum milli stafna, perustefni, skutrennu upp á efra þilfar, hvalbak á tveimur hæðum á fremri hluta efra þilfars og brú á reisn aftantil á efra hvalbaksþilfari. Íbúðir eru á þremur hæðum framskips, þ. e. á millidekki, togþilfari og bakkaþilfari. Samtals eru íbúðir fyrir 22 menn í tólf eins manns klefum og 5 tveggja manna klefum, auk sjúkraklefa. Svefnklefarnir hafa allir aðgang að snyrtingu. Allar vistarverur eru hinar glæsilegustu. Framan við skutrennu eru tvær vökvaknúnar fiskilúgur sem veita aðgang að tvískiptri fiskmóttöku. Í efri brún skutrennu er vökvaknúin skutrennuloka. Fiskimóttakan er klædd ryðfríu stáli. Lestarrými undir aðalþilfari er um 600 m3 og er lestin gerð fyrir geymslu á frystum afurðum. Blængur hélt í gær áleiðis til Akureyrar þar sem sett verður rækjuverksmiðja í skipið. Það verk á að taka um 4 vikur og verður skipið tilbúið til veiða fljótlega eftir það. Norðfirðingar hafa ástæðu til að fagna komu Blængs. Skipið mun ekki aðeins veita allt að hálfum þriðja tugi sjómanna vinnu heldur og skapast mikil vinna í landi við viðhald og þjónustu. Austurland óskar Síldarvinnslunni hf. og Norðfirðingum öllum til hamingju með þetta glæsilega skip og óskar skipi og skipshöfn velfarnaðar.

Austurland. 30 september 1993.

Blængur NK 117 í Vigo á Spáni rétt áður en lagt var af stað heim á leið. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
Fyrirkomulagsteikning af Blængi NK 117.               Mynd úr Ægi.

               Blængur NK 117

28. september sl. kom skuttogarinn Blængur NK 117 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar. Skuttogari þessi er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni, smíðanúmer 639 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í Álesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö. Skipið er búið til rækjuvinnslu og heilfrystingar á karfa og grálúðu. Eftir að skipið kom til landsins var settur í það vinnslubúnaður og annaðist það verk Slippstöðin Oddi hf. á Akureyri og lauk þeirri vinnu í byrjun nóvember. Á móti hinu nýja skipi úreldir útgerðin Hilmi NK 171 (1551), 642 rúmlesta nótaveiðiskip, smíðað árið 1980 á Akureyri. Hinn nýi Blængur er smíðaður eftir sömu teikningu og Otto Wathne NS sem keyptur var til landsins á sl. ári, en er smíðaður í mun hærri ísklassa, eða Ice 1B. Blængur NK er í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Skipstjóri á skipinu er Helgi Geir Valdimarsson og yfirvélstjóri Jón Már Jónsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Jóhann K. Sigurðsson.
Mesta lengd 51.45 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 46.90 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) 45.10 m.
Breidd (mótuð) 11.90 m.
Dýpt að efra þilfari 7.23 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.83 m.
Eigin þyngd 1.346 tonn.
Særými (djúprista 4.83 m) 1.741 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.83 m) 395 tonn.
Lestarými 625 m3
Brennsluolíugeymar 313.6 m3
Ferskvatnsgeymir 19.7 m3
Sjókjölfestugeymir 31.7 m3
Andveltigeymir (brennsluolía/sjór) 37.3 m3
Brúttótonnatala 1199 BT.
Rúmlestatala 736 Brl.
Skipaskrárnúmer 2197.

Ægir. 1 nóvember 1993.

Blængur NK 117 í norðfjarðarhöfn.             (C) Kristján J. Kristjánsson á Sjónarhól.
Örvar HU 2.                                                                           (C) Sævar Sæmundsson.
Örvar SK 2 við bryggju á Sauðárkróki.                                (C) Jón Ölver Magnússon.

 

                                  Skagstrendingur kaupir
               Blæng NK 117 af SVN

Skagstrendingur hf. á Skagaströnd hefur fest kaup á Blæng NK-117, rækjuskipi Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað og verður skipið afhent nýjum eigendum hinn 22. desember nk. Skipið sem mun bera nafnið Örvar HU 21 verður leigt fyrirtæki í Eistlandi. Jafnframt er unnið að því að selja eldra rækjuveiðiskip Skagstrendings hf., Helgu Björgu HU-7, til fyrirtækis í eigu Skagstrendings og Nasco hf. ásamt hinum eistneska samstarfsaðila. Bæði skipin verða gerð út til rækjuveiða á Flæmingjagrunni. Öll iðnaðarrækja sem skipin munu afla fer til vinnslu á Skagaströnd. Vonast er til að hægt verði að tryggja viðunandi afkomu skipanna auk þess sem rækjuvinnslu Skagstrendings hf. verði tryggð um 2.500 tonn af hráefni á ári til viðbótar rækju af heimamiðum. Blængur NK-117 er 1.200 brúttótonn að stærð, tæpir 52 metrar að lengd, með 3.000 hestafla aðalvél. Síldarvinnslan hf. keypti skipið nýtt frá Spáni árið 1993. Helga Björg HU-7 er minna skip, 935 brúttótonn að stærð, 49,5 metrar að lengd, með 1.700 hestafla aðalvél. Skpið var smíðað í Noregi árið 1977 og endurbyggt árið 1986. Rækjuveiðar innan íslensku lögsögunnar hafa gengið illa undanfarin misseri og ekkert bendir til þess að úr rætist á næstunni. „Vegna þessa ástands á miðunum hefur rekstur Helgu Bjargar ekki gengið sem skyldi og ég býst við að sömu sögu sé að segja af öðrum íslenskum rækjuveiðiskipum. Skagstrendingur hf. hefur um nokkurt skeið haft hug á því að endurnýja Helgu Björgu fyrir öflugra skip. Með kaupunum á Blæng hefur þessu markmiði verið náð. Við teljum Blæng henta mjög vel sem framtíðarskip fyrir rækjuvinnsluna okkar. Hins vegar teljum við ekki ráðlegt að gera skipið út til veiða innan íslensku lögsögunnar fyrst í stað, a.m.k. ekki á meðan rækjuveiðin þar er jafn treg og raun ber vitni," segir Jóel Kristjánsson, framkvæmdastjóri Skagstrendings hf.
Allri áhöfn Helgu Bjargar verður boðið áframhaldandi starf á skipinu. Ennfremur mun fyrirtækið sem tekur Blæng á leigu bjóða yfirmönnum þess skips áframhaldandi starf, tímabundið. Jóel segir að með þessum ráðstöfunum styrkist hráefnisstaða rækjuvinnslu fyrirtækisins á Skagaströnd verulega. „Þeir samningar sem við höfum gert tryggja okkur 2.500 tonn af iðnaðarrækju á ári. Þessar ráðstafanir munu skipta sköpum fyrir rekstraröryggi rækjuvinnslunnar á næsta ári og treysta rekstur Skagstrendings hf. í heild sinni," segir Jóel. Að sögn hans hafa veiðar á Flæmingjagrunni gengið vel síðasta ár og þar hafa öflugustu skipin skarað fram úr. Því hefur verið ákveðið að í lok janúar verði settur niður spilbúnaður í Blæng, sem gerir skipinu kleift að veiða með tveimur trollum samtímis, jafnframt því sem vélarafl skipsins verður aukið í 3.300 hestöfl. Gert er ráð fyrir að skipið verði komið til veiða á Flæmingjagrunni upp úr miðjum febrúar nk.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að eins og ástand rækjustofnsins sé, sé ekki grundvöllur fyrir útgerð Blængs hér við land. Því hafi verið ákveðið að selja hann og hætta rækjuveiðum. „Við eigum eftir sem áður okkar rækjukvóta upp á 2.000 tonn og munum meðal annars nýta hann í samvinnu við Skagstrending. Þetta hefur ekki áhrif á vinnsluna hjá okkur, því öll iðnaðarrækja af Blæng fór til vinnslu á Skagaströnd. Við sjáum svo hvað setur. Það hefur ekkert enn verið rætt um kaup á skipi í stað Blængs, en verði af einhverjum skipakaupum væri ekki ólíklegt að þar yrði um fjölveiðiskip að ræða og það gæti þá einnig veitt rækju," segir Finnbogi Jónsson.

Morgunblaðið. 4 desember 1998.

Rússneski togarinn Orvar MK 0474 frá Murmansk.  (C) Dozy Pangolin.



      Örvar SK-2 seldur og 30 missa skiprúmið

Sjávarútvegsfyrirtækið FISK-Seafood á Sauðárkróki hefur selt frystitogarann Örvar SK-2 úr landi. Vegna sölu skipsins verður 30 manns sagt upp störfum. Ástæða sölunnar er áherslubreyting í starfsemi fyrirtækisins með eflingu landvinnslu á kostnað frystingar og vinnslu á sjó. Fyrirtækið sendi frá sér fréttatilkynningu þessa efnis um hádegisbil í gær, en hvorki Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK-Seafood, né Gylfi Guðjónsson, útgerðarstjóri félagsins, vildu gefa frekari upplýsingar en gefnar eru í annars ítarlegri tilkynningu. Þar segir að viðunandi kauptilboð hafi borist í skipið og frágangur samninga standi yfir, en Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að skipið verði selt til Rússlands. Stefnt er að því að það verði afhent nýjum eigendum í febrúar, en uppsagnarfrestur áhafnar Örvars er frá einum og upp í sex mánuði. Þar segir jafnframt að þó að starfsmönnum fyrirtækisins geti fækkað tímabundið sé ljóst að til lengdar muni þeim fjölga. Ástæðan er sú áherslubreyting í starfsemi fyrirtækisins sem er ástæðan fyrir sölu skipsins. Sverrir Kjartansson, skipstjóri á Örvari, gat ekki veitt Fréttablaðinu upplýsingar um framtíð áhafnar skipsins hjá fyrirtækinu. Fréttir af sölu skipsins bárust honum fyrst í gærmorgun. „Við vitum ekki neitt. Það var bara hringt í okkur í morgun og við látnir vita af þessu.“ Þórarinn Sverrisson, formaðurstéttarfélagsins Öldunnar, hafði aðeins nýlega frétt af sölu skipsins þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Hann sagði að væntanlega hefði áhöfnin misst sitt skiprúm og hann hefði ekki heyrt í neinum þeirra um framhaldið, né heldur forsvarsmönnum fyrirtækisins. Stefna FISK er að draga úr vægi frystingar og vinnslu á sjó, en efla í staðinn landvinnslu sem býður upp á fjölbreyttari framleiðslu og betri nýtingu alls hráefnis, segir í tilkynningu félagsins. Undirbúningur að þessari breytingu er þegar hafinn, til dæmis með byggingu þurrkverksmiðju á Sauðárkróki. Jafnframt á FISK dótturfyrirtæki, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun er snúa að eftirliti og eflingu gæða lokaafurða fyrirtækisins.
FISK- Seafood er fjórða stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins ef tekið er tillit til kvótastöðu. Fyrirtækið hefur yfir að ráða tæpum 18.000 þorskígildistonnum, eða 4,59% af heild. Landvinnslur FISK Seafood eru á þremur stöðum á landinu: á Grundarfirði, á Skagaströnd og á Sauðárkróki. Skipafloti fyrirtækisins samanstendur af þremur frystitogurum, einum ísfisktogara og einum togbát. Þau eru Arnar HU-1, Farsæll SH-30, Klakkur SK-5, Málmey SK-1 og Örvar SK-2.

Fréttablaðið. 28 desember 2013.

Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062992
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 16:37:59