01.04.2024 08:32

B.v. Reykjaborg RE 64. TFUD.

Botnvörpuskipið Reykjaborg RE 64 var byggt hjá Ateliers et Chantiers Maritimes du Sud-Ouest í Bordeaux í Frakklandi árið 1927 fyrir Útgerðarfélagið Canu, Obellianne, Wimille & Cie í Boulogne í Frakklandi. Skipið hét áður Cap á l'Aigle. 685 brl. 800 ha. 3 þenslu gufuvél. 55,89 x 9,61 x 4,18 m. Skipið var selt í janúar 1936, h/f Mjölni (Guðmundur Jónsson skipstjóri og fl.) í Reykjavík, fékk nafnið Reykjaborg RE 64. Bræðslutæki voru sett um borð í togarann snemma árs 1937 í Þýskalandi. Samkvæmt heimildum í Ægi frá þessum tíma má nefna sem dæmi að Reykjaborgin bræddi 3188 mál af síld árið 1937 og 575 tonn af karfa árið 1939.  Var Reykjaborgin fyrsta íslenska skipið sem fékk bræðslutæki til mjölvinnslu. Togaranum var sökkt af þýska kafbátnum U-552 (Erich Topp kafbátsforingi), hinn 10 mars árið 1941, vestur af Barra Head við Skotlandsstrendur þegar hann var á leið í söluferð til Fleetwood. 12 skipverjar og 1 farþegi fórust en 2 skipverjar björguðust á fleka og var síðan bjargað um borð í breskt herskip.

Togarinn Vörður BA 142 frá Patreksfirði fann annan af björgunarflekum Reykjaborgarinnar þegar hann var á heimleið frá Fleetwood eftir söluferð þangað. Var togarinn þá staddur um 170 sjómílur norður af St. Kilda í Skotlandi, þegar skipverjar komu auga á björgunarfleka. Hafði Guðmundur Jóhannsson skipstjóri á Verði þá tilfinningu að flekinn gæti verið af íslensku skipi, sem reyndist rétt því þarna var kominn fram fleki af Reykjaborginni, og auðséð að togaranum hafi verið sökkt. Tóku þeir flekann um borð, sem reyndist mannlaus, en augljóst að menn hafi verið þar um borð í einhvern tíma. Nokkrum dögum síðar urðu örlög Reykjaborgar kunn, þýskur kafbátur hafði sökkt togaranum, eins og sagt er frá hér að ofan. Hafði breskt herskip fundið hinn björgunarflekann og í honum voru tveir af áhöfn togarans sem báðir særðust töluvert í árásinni. Fór herskipið með þá til Greenlock í Skotlandi þar sem þeir voru færðir á sjúkrahús.

B.v. Reykjaborg RE 64 á Siglufirði. Togarinn er þarna á síldveiðum. Ljósmyndari óþekktur. 



                                    Reykjaborg RE 64

Hinn 24. febrúar síðdegis, lagðist nýkeypt botnvörpuskip að hafnarbakka í Reykjavík og er hið stærsta sem Íslendingar hafa eignast. Þetta er Reykjaborg, eign hf. »Mjölnir'«, sem hér var stofnað í sl. janúar; skipa þar stjórn, Björn Ólafs, Mýrarhúsum, Geir Sigurðsson, skipstjóri og Jón Björnsson, kaupmaður. Hluthafar eru um 20. Franskt útgerðarfélag lét smíða skipið árið 1927 og hefur haldið því á veiðum við Newfoundland og hefur það reynst bezta skip. Það er 689 brúttolestir að stærð, 275 lestir netto og hefur 250 hestaflagufuvél. Það er búið öllum nýtízku siglingatækjum. Auk þess er þar beinamjölsvél, sem malað getur 10 tonn af hráefni á dag og skilar úr því 2 tonnum af mjöli. Vélin er keypt í Englandi, til reynslu, og er vélasmiður, Kendall að nafni, með skipinu og kennir hann þeim, sem síðan taka við, hvernig nota skuli hana og gera við það, sem aflaga kynni að fara. Guðmundur Jónsson skipstjóri, Geir Sigurðsson og Jón Oddsson, útgerðarmaður í Hull, völdu og keyptu skipið í Boulogne sur Mer í Frakklandi, sigldu því síðan til Hull og fluttu heim kol. Hinn 3. marz lagði Reykjaborg í sína fyrstu veiðiför; er þar Guðmundur Jónsson skipstjóri, er áður var á bv. Skallagrími og stýrimaður er, Kristján Schram. Alls er skipshöfnin 42 menn. Ægir flytur eigendum Reykjaborgar, bestu óskir um góða framtíð og arðsemi þessa fyrirtækis, sem þeir með fjárframlögum og erfiði hafa unnið að og aukið með því, útgerð landsins og veitt vinnu, sem um munar.

Ægir. 1 mars 1936.
 

B.v. Reykjaborg RE 64 á toginu.                                              Ljósmyndari óþekktur.
Málverk af togaranum Reykjaborg RE 64.                               Listamaður óþekktur.

            Björgunarfleki af b.v. „Reykjaborg"
                    finnst mannlaus í hafi
 
Togarinn hefur ekki komið fram á ákvörðunarstað

Togarinn „Vörður" frá Patreksfirði kom hingað um hádegisbilið í gær. Höfðu skipverjar fundið björgunarfleka frá togaranum „Reykjaborg", í hafi, um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum. Flekinn var mannlaus, en á honum var ullarteppi og björgunarbelti. Áður en „Vörður" kom, og vitað var, að hann hafði fundið flekann, hafði útgerðarstjórn Reykjaborgar borist, skeyti frá umboðsmanni skipsins í Englandi, þar sem hann segir, að skipið hafi ekki komið á ákvörðunarstað og ekkert til þess spurst. Búist var við Reykjaborg til Fleetwood fimtudaginn 13. þ. m., því hjeðan fór skipið laugardaginn 8. þ. m. kl. 6 e. h. Þó talið sje nokkurnveginn víst að Reykjaborg hafi verið sökkt, eða að skipið hafi farist, þá er ekki vitað með neinni vissu um afdrif skipshafnarinnar. Vona menn í lengstu lög, að henni hafi verið bjargaf af flekanum eða ef til vill björgunarbátum skipsins á hafi, en að einhverra hluta vegna hafi ekki fregnast um það ennþá. Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi, Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar.
Blaðamaður frá Morgunblaðinu átti í gær tal af Guðmundi Jóhannssyni skipstjóra á togaranum „Verði", sem fann flekann frá Reykjaborg. Hann sagði svo frá,: Það var klukkan 7.30 f. h. laugardaginn 15. þ. m., að við sáum björgunarfleka á sjónum. Við vorum þá staddir á 59°, 25' norðlægrar breiddar og 10°, 22' vestlægrar lengdar, eða um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum við Skotland. Á flekan fundum við ullarteppi, björgunarbelti og vatnskút, en í sjónum umhverfisflekann voru á floti lestarborð og borð úr dekkstíum. Við tókum flekann með okkur og svipuðumst um eftir mönnum, en sáum ekkert, sem gefið gat til kynna að annað væri að finna frá skipinu á þessum slóðum, Héldum við svo áfram leið okkar til Íslands og urðum ekki varið við neitt óvenjulegt á leið okkar eftir þetta.
Björgunarflekinn frá Reykjaborg er sömu tegundar og björgunarflekar þeir, sem Íslensk skip hafa haft síðan ófriðurinn hófst. Flekanum er haldið uppi á 6 blikktunnum, en sjálfur er flekinn eins og kassi í laginu, rúmlega 2 metrar á annan veginn og 1,5 meter á hinn veginn. Niðri í miðjum flekanum er ferhyrnt  opið hólf, sennilega gert til að geta skorðað sig í slæmum sjó.
Í þessu hólfi voru teppið og björgunarbeltið. Í flekanum voru matvæli og vatn í þar til gerðum kassa og vatnskúturinn, sem að framan greinir, en hann hafið losnað úr skorðum sínum, en af hverju er þó ekki ljóst. Björgunarflekinn ber þess merki, að á hann hefir verið skotið úr hríðskotabyssu. Hefir verið skotið að öðrum enda flekans og eru allt að 18 göt á einni tunnunni eftir byssukúlur. Aðeins tvær tunnur eru í flekanum, sem ekki hafa orðið fyrir skotum. Teppið á flekanum var einnig sundurskotið, en ekki þótti fullvíst í gær hvort það er tætt sundur af kúlum úr hríðskotabyssu eða sprengjubroti. Á björgunarbeltinu sást hinsvegar ekki neitt, og reimarnar á, því voru óslitnar. Benda líkur helst til þess að það hafi aldrei verið notað. Þegar flekinn fannst flaut hann vel upp úr sjó, en þó hærri í annan endann, þeim megin, sem heilu tunnurnar voru. Þegar flekinn var hafinn um borð í „Vörð" fór tappinn úr vatnskútnum og verður því ekki sagt um hvort búið var að drekka af vatninu, sem í honum var. Skot hafði lent í matvælakassanum og sjór komist að matvælunum. Það var heldur ekki upplýst í gærkvöldi hvort nokkuð hafði verið snert við matvælunum Þegar Vörður kom í gærdag fór Kristján Skagfjörð stórkaupmaður, sem er í stjórn útgerðarstjórnar Reykjaborgar, um borð í Vörð og fjekk því framgengt, að togarinn kæmi ekki strax upp að, þar sem þá hefði ekki verið hægt að fyrirbyggja að sagan um flekann hefði breiðst út um bæinn. Var aðstandendum mannanna á Reykjaborg tilkynnt um flekann, áður en Vörður lagðist upp að. Að tilhlutun ríkisstjórnarinnar var Sveinn Sæmundsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni fenginn til að rannsaka flekann og hluti þá, sem á honum fundust. Fjekk hann í lið með sjer við rannsóknina þá Friðrik Ólafsson, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Pjetur Sigurðsson fyrv. sjóliðsforingja. Rannsökuðu þeir flekann gaumgæflega og tóku úr honum kúlnabrot. Síðan var flekinn fluttur í lokað port, sem útgerðarstjóri Reykjaborgar ræður yfir. Ullarteppið og björgunarbeltið eru í vörslu rannsóknarlögreglunnar.
Með Reykjaborg fóru í þessa ferð 14 manna áhöfn og sá fimmtándi var Runólfur Sigurðsson, sem var farþegi. Skipshöfnina skipuðu þessir menn:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðirnel 53. Ásmundur Sveinsson, 1. stýrimaður, Sveinsstöðum við Kaplaskjólsveg. Óskar Þorsteinsson, 1. vjelstjóri, Víðimel 53. Gunnlaugur Ketilsson, 2. vjelstjóri, Shellveg 2. Daníel Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhúsum við Vesturgötu. Guðjón Jónsson, 2. stýrimaður, Barónsstíg 33. Jón Lárusson, matsveinn, Grandaveg 37. Óskar Ingimundarson, kyndari, Nýlendugötu 11. Eyjólfur Jónsson, háseti, Hverfisgötu 90. Hávarður Jónsson, háseti, Flókagötu 12. Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10. Árelíus Guðmundsson, háseti. Rauðarárstíg 42. Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100. Sigurður Hansson, kyndari. Framnesveg 16.
Reykjaborg var stærsti togari Íslenska flotans og hið traustasta skip. Var nýlega búið að gera skipið upp (klassa það). Reykjaborg var keypt frá Frakklandi og kom hingað 24. febrúar 1936. Skipið var búið ýmsum tækjum, svo sem fiskimjölsvjelum til að vinna úr fiskúrgangi og aðrar nýjungar til hagnýtingar aflans voru í skipinu.

Morgunblaðið. 18 mars 1941.

Björgunarflekinn sem Vörður fann í hafi.                              Ljósmyndari óþekktur.
Erich Topp t.h. um borð í U-552 í St. Nazaire í Frakklandi í október 1941.
 

       Þeir tóku allir morðárásinni með stillingu og kjarki
     Harmsaga togarans Reykjaborgar verður kunn

Þegar togarinn „Vörður" kom hingað á dögunum með sundurskotinn björgunarfleka „Reykjaborgarinnar", gat enginn verið í vafa um, að þetta stærsta skip togaraflotans var ekki lengur ofan sjávar. En þar sem svo virtist, sem menn hefðu hafst við á björgunarflekanum, vöknuðu vonir manna um það, að fleiri eða færri af skipverjum hefðu komist lífs af. Síðar barst fregnin um það, að breskt herskip hefði bjargað í hafi tveim mönnum af áhöfn Reykjaborgarinnar. Var óhugsandi, að hinum hefði einnig verið bjargað? spurðu menn og vonuðu, að enn gætu borist góð tíðindi. En nú er öll von úti. Nú er hinn blákaldi veruleiki kominn í ljós. í gær barst ríkisstjórninni eftirfarandi tilkynning frá sendifulltrúa Íslands í London:
Ríkisstjórninni barst í morgun símskeyti frá sendifulltrúa Íslands í London, er segir frá því, að Sigursteinn Magnússon, ræðismaður Íslands í Edinborg, hafi átt tal við þá tvo menn, sem vitað var, að hefðu bjargast af b.v. „Reykjaborginni" . Ræðismaðurinn segir, að þeir hafi skýrt svo frá, að kl. 9,25 síðdegis mánudaginn 10. mars, 140 mílur út frá Barrahöfða, í myrkri en lygnum sjó, hafi „Reykjaborgin" orðið fyrir ákafri skothríð frá kafbát, og hafi hún sokkið innan klukkustundar. Stöðug skothríð hafi dunið á brúna og þilfarið og eyðilagt alla yfirbyggingu skipsins. Skipbrotsmennirnir telja, að aðrir skipsmenn hafi verið dánir af skotsárum, þegar skipið sökk. Sigurður Hansson, Eyjólfur Jónsson og annar kyndari komust undan, þegar skipið sökk, en annari kyndari dó af sárum og þreytu innan 36 stunda. Hinum tveimur var bjargað á fimmtudagskvöld 13. mars. Þeir segja, að allir á skipinu hafi tekið morðárásinni með stillingu og kjarki. Líðan skipbrotsmanna er sæmileg, og máttu þeir fara á fætur í gær. Sigurður Hansson er særður á handlegg og lítið eitt á fæti, en Eyjólfur Jónsson á handlegg, og auk þess í baki og á fæti.
Þessir menn fórust með Reykjaborginni:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðimel 53, f. 21. júní 1901; kvæntur Karólínu Karlsdóttur, barnlaus.
Ásmundur Sveinsson, I. stýrimaður, Sveinsstöðum, f. 24. febr. 1905; ókvæntur.
Guðjón Jónsson, II. stýrimaður, Barónsstíg 33, f. 29. jan. 1894; kvæntur Hólmfríði Oddsdóttur, 1 fósturson.
Óskar Þorsteinsson, I. vjelstjóri, Víðimel 53, f. 24. mars 1902; kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur, barnlaus.
Gunnlaugur Ketilsson, II. vjelstjóri, Shellveg 2, f. 3. maí 1912; kvæntur Elsu Breiðfjörð, 1 barn 4 ára.
Daníel Kr. Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhús B, f. 21. júlí 1890; kvæntur Jóhönnu Friðriksdóttur, 8 börn, 4 innan 16 ára.
Jón Lárusson, matsveinn, Grandavegí 37, f. 25. sept. 1915; kvæntur Guðbjörgu Hjartardóttur, 1 barn á 1. ári.
Hávarður Jónsson," háseti, Flókagötu 12, f. 19. apríl 1901; kvæntur Aldísi Magnúsdóttur, barnlaus.
Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10, f. 26. sept. 1917; ókvæntur.
Árelíus Guðmundsson, háseti, Eauðarárstíg 42, f. 4. maí 1913; kvæntur Vigdísi Ólafsdóttur, 1 barn.
Óskar Ingimundarson, kyndari, frá Djúpavogi, f. 5. nóv. 1909; ókvæntur, átti 1 barn 5 ára.
Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100, f. 12. okt. 1907: kvæntur Þórlaugu M. Sigurðardóttur, 3 börn, 9, 5 og 2 ára.
Auk þess var einn farþegi með skipinu:
Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar, kvæntur, og átti 3 börn.

Morgunblaðið. 25 mars 1941.


 

Flettingar í dag: 1205
Gestir í dag: 237
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 735738
Samtals gestir: 54633
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 23:00:39