Blogghistorik: 2018 N/A Blog|Month_11

30.11.2018 12:52

M. b. Draupnir ÍS 322.

Mótorbáturinn Draupnir ÍS 322 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1931 fyrir Axel Jóhannsson skipstjóra og fl. á Siglufirði, hét fyrst Draupnir SI 62. Eik og fura. 16 brl. 50 ha. Tuxham vél. Báturinn var seldur 15 nóvember 1940, Andvara hf í Súðavík, hét þá Draupnir ÍS 322. Báturinn fórst um 20 sjómílur út af Deild 13 febrúar árið 1943 með allri áhöfn, 5 mönnum. Var hann að draga línu sína þegar síðast sást til hans.


Mótorbáturinn Draupnir ÍS 322 á siglingu í Djúpinu.                         Ljósmyndari óþekktur.

                Draupnir SI 62

Axel Jóhannsson hefir fengið nýjan vjelbát frá Danmörku, 17 smálestir með 50 hk. Tuxham vjel. Hann kostaði um 30 þús. kr.

Siglfirðingur. 13 maí 1931.

       M.b. Draupnir Í.S. 322 ferst

Föstudagskvöldið 12. febrúar fór v/b Draupnir frá Súðavík í fiskiróður og fórst með allri áhöfn. Lagði hann lóðir sínar 18-20 sjómílur undan Deild. Laugardaginn 13. febrúar gerði ofsaveður og urðu flestir bátar fyrir miklu veiðarfæratjóni og sumir svo þungum áföllum, að lán má heita að eigi hlauzt stórfelldara manntjón að. v/b Hjördís frá Ísafirði átti lóðir sínar nærri v/b Draupnir og var Draupnir að draga, er Hjördís hélt til lands. Eftir það hefir ekkert spurst til bátsins. Skipshöfn bátsins voru eftirtaldir menn, sem drukknað hafa allir á bezta aldursskeiði:
Guðmundur Hjálmarsson, skipstjóri, 28 ára, átti heimili í Súðavík. Eftirlifandi ekkja hans er Elísabet Sigurðardóttir, Péturssonar, Níelssonar frá Hnífsdal, og eitt barn þriggja ára. Foreldrar Guðmundar eru: Hjálmar Hjálmarsson fyrr bóndi í Hlíð í Álftafirði og kona hans María Rósinkransdóttir, bæði nú búsett á Ísafirði.
Einar Kristjánsson, vélstjóri, átti heimili í Árnesi í Súðavík, 36 ára. Eftirlifandi ekkja hans er Kristín Þórðardóttir og 3 börn á aldrinum 1-5 ára.
Janus Valdimarsson, 31 árs, átti heimili í Tröð í Álftafirði, var ógiftur og barnlaus en fyrirvinna aldraðrar móður sinnar, Sigríðar Albertsdóttur í Tröð.
Rögnvaldur Sveinbjörnsson frá Uppsölum í Seyðisfirði, 22 ára, ógiftur, sonur hjónanna Sveinbjarnar Rögnvaldssonar bónda og Kristínar Hálfdánardóttur á Uppsölum.
Sigurbjörn Guðmundsson frá Hrafnabjörgum í Laugardal í Ögurhreppi, 31 árs, ógiftur. Foreldrar hans látnir, en 5 systkini hans lifa hann.
Þrátt fyrir hið versta veður gerðu eftirlitsskipið Richard og allir stærstu fiskibátarnir frá Ísafirði, tveir bátar h/f Hugins og 4 bátar Samvinnufélagsins, mikla leit að m/b Draupnir. Hófst leitin jafn skjótt og unnt var og lauk ekki fyrr en á mánudaginn 15. febr. Að tilhlutun Slysavarnafélagsins tók einnig flugvél þátt í leitinni. En öll leitin varð þó árangurslaus um nokkra vitneskju um afdrif m/b Draupnis, sem líklegast er að farist hafi af þungum áföllum á heimleið sinni. Álftfirðingar hafa á seinustu 20 árum ekki farið varhluta af slíkum raunum. Á því tímabili hafa þeir misst 4 fiskibáta sína með samtals 17 mönnum. 1922 Tjald með 3 mönnum, 1930 Sæbjörn með 5 mönnum, 1938 Högna með fjórum mönnum og nú síðast Draupni með 5 mönnum. Er það mikið manntjón og eigna svo fámennu byggðarlagi að eiga á eigi lengri tíma á bak að sjá jafn stórum hóp úrvalsmanna sinna, flestra á bezta aldurskeiði, og fjórum skipum. Þrátt fyrir þessi þungu áföll hefir þó sjávarútgerð Áftfirðinga á þessu tímabii sízt orðið eftirbátur annara nágrannabyggðarlaga að framförum og góðum vexti.
M/b Draupnir var eign h/f Andvara í Súðavík, keyptur frá Siglufirði haustið 1940, traustur og góður vélbátur, 16 smál. að stærð, eikarbyggður í Danmörku haustið 1931.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1943.



28.11.2018 09:54

B. v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 á málverki og í lit.

Botnvörpungurinn Þorsteinn Ingólfsson RE 206 var smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 681 brl. 1. 000 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét Hrefna á smíðatíma. Smíðanúmer 824. Þorsteinn var einn af hinum svokölluðu "Stefaníutogurum". Togarinn var seldur til Grikklands og tekinn af skrá 6 júlí árið 1965. Ég rakst á þetta málverk af togaranum fyrir nokkru síðan, en því miður er það ekki í lit, en gott eigi að síður. Svo eru nokkrar litmyndir af honum, þrjár eru úr safni Atla Michelsen. Ég er með mikið myndasafn frá Atla, tekið um borð í togaranum Úranusi RE 343. Það eru myndir af skipverjum við vinnu sína og af skipinu, ómetanlegar heimildir frá tíma Nýsköpunartogaranna. Mun birta þær myndir hér á síðunni á næstu mánuðum.


B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206. Málverk.                                       Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206.            Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 á leið í veiðiferð.                                                (C) Atli Michelsen.


B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 við Faxagarð.                                                 (C) Atli Michelsen.

B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 á leið út úr Reykjavíkurhöfn.                       (C) Atli Michelsen.


B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206 við komuna til landsins 9 mars árið 1951.   Ljósmyndari óþekktur.

      "Þorsteinn Ingólfsson" kom til                           Reykjavíkur í gær

Í hinu fegursta veðri, um kl. eitt í gærdag, sigldi hinn nýi togari Bæjarútgerðarinnar, Þorsteinn Ingólfsson, fánum skreyttur stafna í milli, hjer inn í Reykjavíkurhöfn. Borgarstjóri, Gunnar Thoroddsen, hafði ásamt bæjarráðsmönnum, farið með hafnsögubátnum út á ytri höfn. Borgarstjóri bauð þar skipstjóra, Hannes Pálsson, og skipshöfn hans, velkomna, og árnaði henni heilla í starfi sínu á þessu glæsilega skipi.
Þorsteinn Ingólfsson er jafnstór systurskipunum Marz og Neptúnusi. Allar hinar ytri línur í skipiru mjög svipaðar og í þeim Marz og Neptúnusi. Borðstokkurinn, milli hvalbaks og aftur að yfirbyggingunni, er rúmlega mannhæðar hár. Þetta fyrirkomulag hefur verið á Neptúnusi og Marz og gefist mjög vel. Hinir háu borðstokkar skapa aukið öryggi og skjól við vinnu á þilfarinu. Bátadekkið er með nokkru öðru sniði en á hinum nýsköpunartogurunum. Heimferðin gekk að óskum. Ekki vannst tími til að setja reykháfsmerkið á, og ekki er fyllilega búið að ganga frá fiskmjölsverksmiðjunni, en hvoru tveggja verður gert erlendis. Þorsteinn Ingólfsson fer í slipp í dag, en í ráði er að togarinn fari á veiðar á mánudaginn.

Morgunblaðið. 10 mars 1951.



25.11.2018 08:58

M. b. Jenný SU 327.

Mótorbáturinn Jenný SU 327 var smíðaður í Danmörku (Frederikssund ?) árið 1908. Eik og fura. 7,97 brl. 8 ha. Dan vél. Fyrsti eigandi var Friðgeir Hallgrímsson kaupmaður á Eskifirði, sennilega frá sama ári. Seldur vorið 1919, Valdóri Bóassyni á Hrúteyri við Reyðarfjörð. Seldur 4 júní 1925, Landsbankanum á Eskifirði. Báturinn var endurbyggður á Eskifirði árið 1925 og mældist þá 10 brl. Einnig var sett ný 15 ha. Rapp vél í hann. Seldur sama ár, Guðjóni Símonarsyni útgerðarmanni á Nesi í Norðfirði. Frá árinu 1930 heitir báturinn Jenný NK 20. Seldur 1931, Þórði Jónssyni í Neskaupstað og Jóni Ólafssyni á Vopnafirði. Árið 1933 eignast Landsbankinn á Eskifirði bátinn á uppboði. Í skipaskrá Neskaupstaðar er báturinn sagður standa uppi ósjófær og ónýtur árið 1934.

Það má geta þess að þegar breski togarinn Clyne Castle GY frá Grimsby strandaði á Bakkafjöru í Öræfum 17 apríl árið 1919 og ljóst varð að honum yrði ekki bjargað, að Valdór Bóasson, eigandi Jennýar og Jóhann Hansson vélsmíðameistari á Seyðisfirði, kaupa flakið. Hér voru tveir miklir dugnaðarmenn á ferð. Jóhann með sína miklu sérþekkingu í vélsmíði og starfi dráttarbrauta og Valdór, áræðinn og bjartsýnn með nýkeyptan bát sinn, Jennýju. Hér var til mikils að vinna, miklir fjármunir í húfi. Það lýsir fádæma áræði að ráðast í þetta björgunarævintýri og hafa til umráða aðeins 8 tonna bátsskel. En víst hefur hann verið freistandi breski togarinn þar sem hann stóð heill og óskemmdur suður á Bakkafjörum. En í tengslum við þetta strand gerast örlagaríkir atburðir, sem enduðu betur en á horfðist.
Einn í hópi björgunarmanna var Gissur Filippusson vélsmiður í Reykjavík. Fær hann Jennýju lánaða með 3 mönnum. Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en komið er á áfangastað. Brimsúgur var mikill við ströndina og því kom landtaka ekki til greina. Aftan í Jennýju var lítill árabátur. Var nú það ráð tekið að lána Gissuri hann svo að eigi þyrfti að vera töf á ferðum hans. Náði hann landi og komst leiðar sinnar. En eftirleikurinn hjá þeim sem voru um borð í Jennýju, var ekki eins auðveldur. Fór nú veður mjög versnandi og útlit ekki gott.. Þegar báturinn skilaði sér ekki á réttum tíma, var hafin leit að honum. Fannst hann nokkrum dögum síðar rekinn á Fossfjöru. Var hann lítið skemmdur, en ekkert spurðist til mannanna þriggja, og engin vísbending á strandstað um afdrif þeirra. Löngu síðar kom í ljós að mennirnir urðu að yfirgefa bátinn vegna vonskuveðurs, en voru svo lánsamir að komast um borð í breskan togara sem var í námunda við þá. Fóru þeir svo með honum til Englands. Skipstjóri á Jennýju þá var Jón Árnason frá Eyri í Fáskrúðsfirði. Jón Jónsson fiskifræðingur og fyrrum forstjóri Hafrannsóknarstofnunar var sonur hans.
Það er af flaki Clyne Castle að segja að þeir félagar, Valdór og Jóhann náðu Jennýju á flot, en togarinn sat sem fastast. Náðu þeir töluverðum verðmætum úr skipinu á þeim 3 árum sem þeir unnu við það. Enn má sjá flak togarans í sandinum á Bakkafjörum.

Heimild: 
Guðmundur Magnússon fyrrv. fræðslustjóri.
Skjala og myndasafn Norðfjarðar.


Mótorbáturinn Jenný SU 327 á siglingu á Norðfirði.                                        Ljósmyndari óþekktur. 


Botnvörpungurinn Clyne Castle GY á strandstað á Bakkafjörum árið 1922. Togarinn var smíðaður hjá Smith's Dock Co Ltd í North Shields á Englandi árið 1907 fyrir Castle Steam Trawlers Ltd í Swansea. 252 brl. Togarinn var í eigu Consolidated Steam Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby þegar hann strandaði á Bakkafjörum.  Ljósmyndari óþekktur.

            Strand og hrakningar

Snemma á síðastliðnu vori strandaði á Breiðamerkursandi í Skaftafellssýslu enskur botnvörpungur "Clyne Castle" og komust allir menn af. Voru þeir eftir ráðstöfun sýslumanns fluttir austur á Hornafjörð og þaðan sjóleiðis til Seyðisfjarðar. Tilraun var gerð, af björgunarskipinu "Geir", til þess að ná hinu strandaða skipi út, en hepnaðist eigi. Það var síðan keypt af nokkrum Austfirðingum og fl., er hafa verið við strandið í sumar við tilraunir að koma því á flot, sem einnig hefir mistekist. Síðan hafa þeir unnið úr því og flutt burt það, er fémætt var. Þar með var einnig vélasmiður Gissur Filippusson héðan úr Reykjavík. Fékk hann fyrir stuttu lítinn mótorbát af Austfjörðum, er var við strandstaðinn, til þess að flytja sig þaðan og út á Síðufjörur. Er þangað kom vildu bátsmenn, sem voru aðeins þrír, eigi setja hann á land, þar sem þeir óttuðust að þeir ef til vill kæmnst ekki út aftur. Fékk hann þá hjá þeim bátshorn, er þeir höfðu aftaní, til þess að fara einn í upp í fjörurnar og skolaði honum upp. Komst hann til bygða og er nú kominn hingað. En það er af mótorbátnum að segja, að hann lenti í mestu hrakningum, því að á skall stormur, er hann hélt austur, og kom hann eigi fram. Um sama leyti var hingað símað austan úr Skaftafellssýslu, til sýslumanns Gísla Sveinssonar alþingismanns, að mannlaus mótorbátur væri rekinn upp á Fossfjöru þar í sýslunni, tómur en lítið skemdur. Þótti þegar líklegt, að þetta væri austanbáturinn, og skömmu seinna fékk eigandi hans, Valdór Bóasson á Reyðarfirði, fregn um það símleiðis, að mennirnir væru komnir heilir á húfi til Englands, höfðu komist af í brezkan botnvörpung.

Ísafold. 15 september 1919.


24.11.2018 09:23

V. b. Eggert GK 521.

Vélbáturinn Eggert GK 521 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1930. Eik og fura. 22 brl. 64 ha. Tuxham vél. Eigendur voru Gísli Eggertsson í Garði, Haraldur Kristjánsson, Húsum í Fróðárhreppi, Huxley Ólafsson Þjórsártúni og hf. Sandgerði í Sandgerði frá febrúarmánuði sama ár. Báturinn fórst út af Garðskaga 24 nóvember árið 1940 með allri áhöfn, 7 mönnum.
Vélbáturinn Eggert GK 521.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

           V.b. Eggert GK 521

Vjelbáturinn "Eggert" kom í gær frá Frederikssund í Danmörku. Báturinn er ca. 20 tonn að stærð og er byggður við Frederikssund Skibsværft. Eigandi bátsins er Gísli Eggertsson frá Kothúsum í Garði o. fl., og verður hann skipstjóri bátsins, sem ætlaður er til fiskiveiða hjer við flóann. Skipstjóri á bátnum frá Danmörku var Kristján Kristjánsson, sem var skipstjóri á m.k. Gotta í Grænlandsförinni síðastliðið sumar. Báturinn virðist vera mjög vandaður og reyndist góður í sjó að leggja, og fjekk þó talsvert slæmt veður, einkum þegar dró að Vestmannaeyjum. Báturinn var 11 daga frá Frededikssund, þar af lá hann einn sólarhring í Noregi, tvo í Færeyjum og eina nótt í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið. 27 febrúar 1930.

 Óttast um vjelbát með 7 mönnum

Mjög er óttast um afdrif vjelbátsins "Eggerts" frá Keflavík, sem fór í róður með reknet s.l. föstudag, en er ókominn að enn. Bátar og flugvjel hafa leitað bátsins, en árangurslaust. Sjö menn voru á "Eggert". "Eggert" réri frá Keflavík, s.l. föstudag í besta veðri. Lagði hann net sín um 16-18 sjómílur SSV af Garðskaga. Klukkan 10 á föstudagskvöld töluðu skipverjar á "Eggert" við menn af öðrum .bátum, er voru þarna á líkum slóðum, og var þá allt í lagi, enda veður ágætt. Klukkan 3 um nóttina hvessti skyndilega af suðri. Á sunnudagsmorgun var hafin leit að bátnum. Tóku þátt í þeirri leit varðskipið "Ægir" og 9 vjelbátar frá Keflavík. Einnig tók þátt í leitinni bresk flugvjel, en leitin bar engan árangur. Ýmislegt ofandekks úr bátnum hefir fundist í Garðssjó, svo sem hlerar og belgir, en báturinn gæti verið ofansjávar fyrir því.

Morgunblaðið. 26 nóvember 1940.

  Sjö menn fórust með vjelbátnum             "Eggert" frá Keflavík

Vjelbáturinn "Eggert" frá Keflavík. sem fór í róður s.l. föstudag, er nú talinn af og hafa farist með bátnum 7 ungir menn. "Eggert" var 22 smálestir að stærð, byggður í Frederikssund árið 1930 úr eik og furu og var talinn traust skip. Báturinn var með 64 ha. Tuxham vjel. Eigandi bátsins var Loftur Loftsson útgerðamaður. Á "Eggert" voru þessir menn:
Þorsteinn Eggertsson, formaður, 35 ára, kvæntur og átti tvö börn.
Gunnar Haraldsson, vjelstjóri, Skeggjastöðum, Garði, 23 ára, ókvæntur.
Jón Guðbrandsson, Reykjavík, 42 ára, ókvæntur.
Arnar Árnason, Lambakoti, Miðnesi, 22 ára, ókvæntur.
Eiríkur Guðmundsson, Keflavík, 32 ára, kvæntur og átti 1 barn.
Karl Celin, Keflavík, 27 ára, kvæntur, átti 2 börn.
Ragnar Einarsson, Haga, Miðnesi, 23 ára, ókvæntur.
Ekki er vitað með hvaða hætti báturnin hefir farist, en rekald úr honum hefir fundist í Garðssjó, á þeim slóðum, sem síðast varð vart við bátinn.

Morgunblaðið. 29 nóvember 1940.


19.11.2018 18:03

527. Hafnfirðingur GK 330. TFKR.

Vélskipið Hafnfirðingur GK 330 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947 fyrir Stefni hf í Hafnarfirði. Eik. 65 brl. 240 ha. Tuxham vél. Ný vél (1954) 265 ha. Alpha díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 16 september árið 1970. Báturinn mun hafa verið notaður til flutninga á síldarúrgangi frá Mjóafirði til síldarbræðslu SVN í Neskaupstað, sennilega seint á 7 áratugnum. Sökk síðan í Mjóafirði, veit ekki hvenær það var, eða hvers vegna.


Hafnfirðingur GK nýsmíðaður í Frederikssundi.                                      (C) Gunnar Egill Sævarsson.

        Nýr bátur til Hafnarfjarðar 

Nýr bátur kom til Hafnarfjarðar í gær frá Danmörku. Nefnist hann Hafnfirðingur, er 66 smálestir að stærð og eign hlutafélagsins "Stefnir" í Hafnarfirði. Guðjón Illugason var skipstjóri á bátnum hingað upp, en Eggert Kristjánsson mun taka við stjórn hans hér. Þetta er þriðji báturinn sem "Stefnir" h. f. kaupir í Danmörku, hinir heita Fram og Stefnir og eru báðir 66 smálestir.

Þjóðviljinn. 8 febrúar 1947.


Um borð í Hafnfirðingi GK 330.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Hafnfirðingur GK 330 til hægri ásamt Fiskaskaga AK 47.                  Ljósmyndari óþekktur.

Dekkið á bátnum var þakið skothylkjum

  Tveir aldraðir sjómenn rifjuðu upp daginn þegar
 Hafnfirðingur GK 330 breyttist í léttvopnað herskip.

Þeir voru rúmlega tvítugir og hásetar á Hafnfirðingi GK 330 sem var einn af mörgum bátum á síldveiðum á Faxaflóanum. Notuð voru reknet og eins og oft áður voru háhyrningavöður til vandræða. Dýrin eru yfirleitt nokkur saman í vöðu eða hóp, þau elta síldina og tæta í sundur reknetin. Þórir Sigurjónsson og Gunnar Hallgrímsson í Vogum á Vatnsleysuströnd eru báðir komnir í land enda búnir að skila sínu á sjónum. En um miðjan sjötta áratuginn, þá minnir að þetta hafi verið árið 1954, voru þeir ungir menn og muna vel eftir tveim óvenjulegum gestum frá varnarliðinu. "Við vorum á Hafnfirðingi fram undir 1960, hann var smíðaður í Danmörku og listasjóskip. En maður var alveg skíthræddur, þetta var hálfgerð sjóorrusta og það var svo stutt á milli bátanna á miðunum þegar þeir voru að skjóta. Þeir skutu sumir rétt yfir næsta bát," segir Gunnar. Hann segir það hafa verið lán að enginn skyldi verða fyrir slysaskoti. "Ég vissi ekki alltaf hvort þetta voru Íslendingar eða Kanar að skjóta en kúlurnar voru fljúgandi út um allt." Skipin voru frá öllum helstu höfnum á svæðinu, úr Keflavík, Sandgerði, Hafnarfirði, Reykjavík og af Akranesi. "Við vorum aðallega á Miðnessjónum en líka á Jökuldjúpinu. Ég held að það hafi verið sendir tveir hermenn með hverjum bát og í flotanum hafa sennilega verið 70 til 80 skip. Þetta hafa því verið vel á annað hundrað hermenn," segir Þórir. Þeir segja að mikið hafi verið af háhyrningi um þetta leyti en nokkur áraskipti eru á því. "Við vorum átta manns á skipinu, einn í kapli og sjö að hrista úr netunum. Það voru 60 net í dræsunni.
Í sólskini vorum við glansandi fínir, eins og pallíettur í framan af síldarhreistrinu!" segir Þórir. Þegar lagt var upp í háhyrningaleiðangurinn var klukkan líklega fimm eða sex um morguninn. Einn skipverjanna gat bjargað sér vel í ensku svo að samskiptin voru í þokkalegu lagi en ekki vita þeir Þórir og Gunnar hvaðan úr Bandaríkjunum hermennirnir tveir voru. Hermennirnir virtust báðir algerlega óvanir sjónum, greinilega úr landhernum. Þeir voru í fullum herklæðum, klyfjaðir töskum og með hermannanesti, "súkkulaði og annað dót". Báðir voru með riffla og mikið af skotfærum. Annar riffillinn var öflugur og sjálfvirkur, búinn sjónauka, hinn nokkru minni. - En hvernig stóðu þeir sig? "Annar var nokkuð seigur," segja þeir. "Hann var allan tímann uppi og virtist vera spenntur fyrir þessu, hafa gaman af. Hinn varð strax sjóveikur, alveg fárveikur. Hann fór að vísu upp á dekk, fram á stefnið og lagðist þar niður með byssuna. En hann var fljótur niður aftur og líklega náði hann ekki að skjóta nokkru skoti. Þá fékk einn hásetanna byssuna hans lánaða og skaut eitthvað og líklega skaut einn háseti í viðbót. Þeir kunnu þó að standa ölduna, það var alveg á hreinu. Hinn var allan tímann uppi í brú með sinn riffil og skaut í allar áttir. Hann var harður af sér og skaut meira að segja í sundur einn eða tvo vanta hjá okkur! Dekkið við brúna var alveg þakið tómum skothylkjum, þau runnu til í veltingnum. Og þeir voru með nóg af skotfærum." - Fór á milli mála að ætlunin var að reyna að skjóta dýrin, menn ætluðu ekki bara að hræða þau? "Nei, það var alveg ljóst, menn ætluðu að drepa þau og við sáum blóð í sjónum eftir skothríðina. Þessi dýr ollu miklu tjóni, tættu í sundur netin og stundum var allt í henglum, það var nóg að gera á netaverkstæðunum. Einn skipstjórinn reyndi að hífa dauðan háhyrning upp úr sjónum með bómunni en hún brotnaði, þoldi alls ekki svona mikinn þunga. Þetta var eini dauði háhyrningurinn sem við sáum þennan dag."
Ekki vita þeir til þess að hermenn hafi verið sendir út með síldarbátum annars staðar en á Faxaflóa en muna eftir frásögnum af sprengjuárásunum sem síðar voru gerðar úr lofti á hvalina. - Hvert var upphafið að þessum aðgerðum? Rædduð þið skipverjarnir um þær og hvað fannst ykkur? "Við tókum þátt í þessu alveg af lífi og sál!" segir Gunnar og hlær. "Þetta voru skaðræðisskepnur hérna á miðunum. Þeim fór fjölgandi ár frá ári." Hann telur að skýringin geti verið að meira hafi verið af síld en áður og hvalir elti hana gjarnan, syndi í kringum torfurnar til að þétta þær áður en lagt er til atlögu. En hann efast um að drápin hafi haft umtalsverð áhrif, þau hafi ef til vill fækkað eitthvað dýrunum og fælt þau burt í svolítinn tíma en síðan hafi þau komið aftur. "Ég man að menn voru eitthvað að ræða um þetta á sínum tíma í talstöðvunum, að eitthvað þyrfti að gera í málinu," segir Þórir. "En það þurfti náttúrulega að fara í gegnum ríkisstjórnina þegar varnarliðið var beðið um aðstoð, annað var útilokað. Það voru engir hvalavinir um borð og ekkert spáð í það hvort það væri í lagi að fara svona með dýrin. Það var bara ákveðið að reyna að koma þessum skepnum burt, með öllum ráðum og ekkert reynt að fela það. Ég held að enginn hafi verið á móti þessu þá. En þetta var alvörumál á þessum tíma. Menn vildu losna við skepnurnar til þess að hægt væri að veiða síldina í friði fyrir þeim," segir Þórir að lokum.

Morgunblaðið. 21 september 2003.



18.11.2018 07:17

361. Bryndís EA.

Það varð nú aldrei svo að þessi fallegi bátur sigldi um Eyjafjörðinn og nágrenni með innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn, heldur stendur hann, eða það sem eftir er af honum, ofan byggðar á Akureyri og virðist vera að grotna niður hægt og rólega. Bryndís var ein af hinum svokölluðu "Dísum", smíðuðum af Bárði G Tómassyni á Ísafirði á árunum 1938-39. Hún er nú búin að skila sínu blessunin á þeim tæplega 80 árum síðan hún var sjósett á Torfunesinu forðum. Myndirnar hér að neðan sendi Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík mér sem hann tók af Bryndísi í gær. 


Skemmtiskipið Bryndís EA ofan byggðar við Hlíðarenda á Akureyri í gær.










                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson. 17 nóvember 2018.


Þessi mynd var tekin á síðasta ári.                                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

17.11.2018 06:13

B. v. Egill Skallagrímsson RE 165. LCGP / TFJC.

Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1916 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 308 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,31 x 3,33 m. Smíðanúmer 663. Eftir að smíði hans lauk, var togarinn tekin í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari og bar nafnið Iceland þar. Skipið kom ekki til landsins fyrr en á árinu 1919. Egill Skallagrímsson var fyrstur íslenskra togara að fá loftskeytatæki og var það árið 1920. Egill var einn af þeim togurum sem lentu í Halaveðrinu mikla og varð einna harðast úti af þeim, og litlu mátti muna að enginn hefði orðið til frásagnar þar um borð. Snæbjörn Stefánsson var þá skipstjóri. Seldur 26 maí 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Drangey í Reykjavík, hét Drangey RE 166. Seldur 28 febrúar 1945, Engey hf í Reykjavík. Togarinn var seldur til Svíþjóðar og tekinn af íslenskri skipaskrá 20 maí árið 1948.


Kveldúlfstogarinn Egill Skallagrímsson RE 165.                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

      Egill Skallagrímsson RE 165

Hinn nýji botnvörpungur Kveldúlfsfélagsins hér í bænum, kom hingað 6. þ. m. frá Grimsby á Englandi. Hann var smíðaður í Englandi árið 1916, en vegna ófriðarins fékk félagið hann ekki afhentan fyrr en nú. Er sagt að Englendingar hafi notað skipið til þess að slæða tundurdufl. En ekki hefir það sakað og nú er það hingað komið og á að taka til óspiltra málanna við fiskveiðarnar. Skipstjóri verður Guðmundur Jónsson, sá er áður stýrði Skallagrími. Skip þetta er stærst af botnvörpuskipum þeim er íslendingar enn hafa eignast, 312,84 registertonn brúttó og 160.20 nettó.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1919.


Um borð í Agli Skallagrímssyni. Trollið tekið og pokinn flýtur við síðuna.

                60 ár frá Halaveðrinu
     "Hafði ekki vit á að vera hræddur"
  Viðtal við Hilmar Norðfjörð loftskeytamann
                   á Agli Skallagrímssyni

Hilmar Norðfjörð var loftskeytamaðurá togaranum Agli Skallagrímssyni í Halaveðrinu mikla í febrúar 1925 og segir hér frá þeirri reynslu sinni, en allt brotnaði sem brotnað gat á togaranum og hann rak stjórnlaust á hliðinni í meira en sólarhring.
Ég hafði ekki vit á að vera hræddur, var bara átján ára. Það var eins og með sveitamennina sem fóru á vertíð og voru spurðir að því hvort þeir væru að fara til sjós. Nei, ég er að fara á togara, sögðu þeir. Það er Hilmar Norðfjörð loftskeytamaður sem hefur orðið, en hann er einn af fáum núlifandi Íslendingum sem lentu í Halaveðrinu mikla fyrir réttum 60 árum en þá fórust tveir stórir togarar með manni og mús og fleiri voru mjög hætt komnir. Sá togari, sem varð einna verst úti en komst þó af, var Egill Skallagrímsson. Á honum brotnaði allt sem brotnað gat og skipið rak stjórnlaust í meira en sólarhring, hálffullt af sjó og eiginlega á hliðinni. Hilmar Norðfjörð var loftskeytamaður á því. Við gefum honum nú orðið;
Ég er fæddur á Sauðárkróki 1906 en er þó af reykvískum ættum. Faðir minn var Jóhannes Norðfjörð úrsmiður og árið 1912 fluttist hann suður og opnaði aftur úrsmíðavinnustofu á ættarlendu sinni í Bankastræti 11.


Um borð í Agli Skallagrímssyni RE 165.

Ég fór á námskeið í Loftskeytaskólanum veturinn 1923-1924, annað sem haldið var, síðan beint á bát norður á Raufarhöfn. Þegar ég kom suður aftur bauðst mér pláss á togaranum Agli Skallagrímssyni hjá Snæbirni Steánssyni skipstjóra og var þá nýorðinn 18 ára. Það var í september 1924. Þegar ég kom um borð tók Guðmundur Halldórsson á móti mér og það fyrsta sem hann gerði var að afhenda mér lyklana að apótekinu og sagði: "Þú átt að lækna og gefa lyf". -Og þú hefur náttúrulega aldrei komið nálogt því áður? - Nei, en það var feiknamikill doðrantur um borð sem ég fór að lesa mér til í, og svo kom þetta smám saman. Togaramennirnir fengu mjög oft ígerð og svo voru þeir alltaf að drepast í maganum og þá var það sódapúlverið. Þeir voru alltaf að fá sódapúlver hjá mér. Það hefur verið kjötátið sem gerði þá svona magaveika. - Þeir hafa ekki litið við öðru en kjöti? - Það var alltaf kjöt í hádeginu en fiskur í kvöldmat. Ef það kom fyrir að væri fiskur í hádeginu hentu þeir honum frá sér og sögðu: "Eigum við ekki að fá mat?" Svo tóku þeir til við klukkan 12 á miðnætti og fengu sér afgangana af kjötinu fá því í hádeginu. - Var ekki tiltölulega nýbúið að uppgötva Halann sem fiskislóð um þetta leyti? - Það var svona tveimur árum áður.


Um borð í Agli Skallagrímssyni RE 165.
  
Það var alveg hroðalegt með karfann. Það kom kannski fullt troll af karfa, en þá var bara leyst frá pokanum og stímt út. Ekki var litið við öðru en þorskinum. Kveldúlfur átti verksmiðju á Hesteyri og einhvern tíma að haustlagi var byrjað að vinna karfa þar, ég man ekki hvaða ár. Það var byrjunin. - Hvernig skall Halaveðrið á? - Ég var uppi í brú hjá Snæbirni sem oftar og þetta skall óhemjusnöggt á. Við stímdum, fram hjá Leifi heppna og þá voru þeir í hörkuaðgerð, en þá var minn maður að hífa upp. Leifur var örstutt frá okkur og ég hafði samband við hann. - Það mun hafa verið í síðasta sinn sem sást til Leifs heppna. - Já, það var í síðasta sinn sem sást til hans.

 
Loftskeytaklefinn á Agli, fyrsti sinnar tegundar á íslensku fiskiskipi.
 
- Þið lentuð svo í brotsjóum? - Veðrið skall á um fjögurleytið laugardaginn 7. febrúar og fljótlega fór að verða illt í sjóinn. Við vorum um 50 mílur úti og eftir að búið var að hífa upp reyndum við að stíma í átt til lands. Þegar við vorum komnir eitthvað 5 mílur skall á okkur stórsjór og þá var ekki um annað að gera en að lensa eða stíma upp í. - Urðu strax skemmdir á togaranum? - Ekki svo mikið til að byrja með en svo fóru að brotna rúður og allt meira eða minna í brúnni. Loftskeytaklefinn var úr timbri og ekki þótti hættandi á að ég væri í honum lengur, svo að ég pillaði mér aftur í. Um svipað leyti fóru loftskeytastangirnar svo að maður varð sambandslaus. - Urðu engin slys á mönnum? - Seint um kvöldið var einn hásetinn, Vilhjálmur Þórarinsson, sendur út til að hleypa gufunni af spilunum því að hætta var á frostsprungum.


Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE 165 á siglingu. 

Þá kom brotsjór yfir skipið og hann tók út. Bátsmaðurinn var þá að koma upp á vaktina og náði taki á Vilhjálmi og skellti honum inn fyrir. Hinir sem voru að koma á vaktina drógu hann svo upp í brú eftir keisnum því að öðru vísi var ekki fært. Það kom svo í ljós að Vilhjálmur var handleggsbrotinn og fann ákaflega mikið til. Við tókum hann tveir og komum honum í koju aftur í káetu og bundum hann eins vel og við gátum og bjuggum um hann. Vilhjálmur reyndist vera tvíbrotinn og hafði miklar kvalir. Skömmu síðar fengum við svo stórsjó sem lagði togarann á hliðina og káetan fylltist af sjó. Vilhjálmur var þá alveg að drukkna í kojunni. Loftventill í káetunni kubbaðist sundur en við gátum troðið upp í hann einhverju teppadrasli og settum svo Vilhjálm í aðra koju sem var sæmilega þurr. Við reyndum að hagræða honum og hjálpa eftir bestu getu og gefa honum ópíum til að linna kvalirnar. Það var nóg af því í þá daga og gott að maður varð ekki ópíumisti.


Brú og brúarvængur Egils. Skipverji stendur á brúarvængnum.
  
Svo kom hver stórsjórinn af öðrum og ekkert gekk. - Var ekki mikil ísing? - Alveg feiknarleg. - Og svo fylltist vélarrúmið af sjó? - Já, fírplássið fylltist og kyndararnir stóðu í sjó upp á miðja bringu. Nú þurfti að senda menn fram í lest til að færa til fiskinn því að hann hafði allur kastast út í aðra hliðina. Það ætlaði ekki að ganga vel að komast þangað fram en það tókst. Skipið rak stjórnlaust í 30 tíma, mestallan tímann á hliðinni og það tókst ekki að kveikja á ný upp í fírnum fyrr en seint og um síðir. Allar tiltækar fötur voru notaðar til að ausa og stóð maður við mann í því verki. Sá neðsti" stóð hlekkjaður þar sem sjórinn var og síðan voru föturnar réttar frá manni til manns. Þegar skipið fór að rétta við rann sjórinn svo úr lúkarnum þannig að það lækkaði í honum. - Var þetta ekki mikil þrekraun? - Jú, en flestir stóðu sig andsk... vel.


Pokinn kominn inn og mikill fiskur ennþá í belgnum.

Ég man aðeins eftir einum manni sem var dálítið aumur. Maður var svo ungur að maður hafði ekki beint vit á að vera hræddur. - Var nokkur hiti á skipinu? - Nei, það var ískalt nema frammí seinna meir. Þá tókst að kveikja upp og sjóða ýsu í einhverri dós en matarkistan hafði farið fyrir borð eins og annað. Við vorum orðnir mjög hungraðir. - Var engin hotta á að ykkur roki í land? - Nei, það var engin hætta á því, við vorum það langt úti. Þegar fór að lægja vorum við komnir suður fyrir Látrabjarg á rekinu. Seinna var svo gerð mikil leit að þeim togurum, sem ekki komu fram, undir stjórn Magnúsar Magnússonar skipstjóra, sem kallaður var lipri, og þá var leitinni mjög hagað eftir því hvernig okkur hafði rekið. Það voru ekki nema 6-7 tímar til Reykjavíkur, okkur hafði rekið það mikið. - Er Halaveðrið vesta veður sem þú hefur lent í? - Það er alversta veðrið. Jólaveðrið 1924 var ansi slæmt en ekkert þó í líkingu við þetta. Þá misstum við þó lifrartunnurnar líka fyrir borð.


Fullt dekk af vænum þorski.

 - Hvað heldurðu að veðurhæðin hafi verið mikil, kannski 13 vindstig? - Miklu meiri. Það voru himinháir sjóar. Ég var mikið á Halanum eftir þetta en það var aldrei stímað upp ef veðurútlit var ekki gott eftir þetta fárviðri. Oftast nær var þá farið til Flateyrar og stundum til Patreksfjarðar. - Fenguð þið enga aðvörun frá Veðurstofunni? - Nei, ég man ekki eftir að neitt sérstakt hafi verið í veðurskeytunum, kannski að það hvessti eitthvað. En þetta var svo frumstætt til að byrja með, t.d. engin veðurskeyti frá Grænlandi. - Voru ekki fagnaðarfundir þegar þið siglduð inn á Reykjavíkurhöfn? - Jú, það var óttast um mörg skipin og eiginlega sorglegt að ganga niður á höfn fyrst á eftir. Flest skipin voru meira eða minna skemmd, bátarnir farnir og möstrin af sumum. Þó var Egill Skallagrímsson verst farinn af öllum. Þar var allt brotið, ekkert heilt. - Hafði þessi þrekraun engin sálræn áhrif á menn eftir á? - Ég man ekki eftir því.


Fullur poki á síðunni.                                (C) Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.

Þau voru miklu meiri þegar við vorum að sigla í stríðinu. Eg var á Agli í 8-9 ár, síðan á Skallagrími í 5-6 ár og loks á Gylli í 6 ár. Eg sigldi nær allt stríðið en í september 1944 fór ég í land og vann síðan á Veðurstofunni í 33 ár, og var seinni árin deildarstjóri þar. - Var ekki Egill Skallagrímsson fyrsti togarinn sem fékk loftskeytatæki? - Jú, það var árið 1914 sem Kveldúlfur lét smíða þetta skip og þá voru loftskeytin ekki farin neitt að ráði af stað. Englendingar tóku togarann strax eignarnámi og var hann notaður sem tundurduflaslæðari í fyrri heimsstyrjöldinni og hét þá Iceland. Kveldúlfur fékk því skipið ekki afhent fyrr en 1919. Það hlýtur að hafa verið sterkbyggt skip. - Hvernig voru þessi fyrstu loftskeytatæki? - Þau voru mjög frumstæð. Þetta var hjól sem snerist og gerði neista og á gólfinu var heljarkassi með einhverjum tækjum í. Maður mátti passa sig á því að stíga ekki á hann því að þá fékk maður rafmagn. Ég þurfti að vakna kl. 3 á nóttunni til að gefa upp kódann því að þá voru kódafélögin starfandi. Sjálfur gerði ég mikið af því að búa til þessa kóda, bæði til Iands og sjávar.


Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE inn á einum Vestfjarðanna.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Einu sinni fór ég fram úr á sokkaleistunum og var syfjaður og þá steig ég óvart ofan á þennan kassa og fékk rokna högg. Togarinn Skallagrímur kom svo til lands árið 1920 og þá eru komnir lampasendar í stað neistahjólsins og allt annað kerfi. - Komu loftskeyti að einhverju gagni í þessu mikla fárviðri? - Þó nokkuð af skipunum gat haft samband og Þórólfur stóð sig t.d. vel í því. - Þú segir að loftskeytaklefinn á Agli hafi verið úr timbri? - Já, og í þessu veðri skekktist hann heilmikið og fylltist af sjó. Hann var síðan tekinn í land og ég fluttur niður. Ég man að klefinn stóð lengi á Kveldúlfslóðinni. Þeir eru nú orðnir býsna fáir á lífi sem lentu í Halaveðrínu mikla og Hilmar man í svipinn eftir tveimur af Agli sem enn kunna að vera á lífi. Við kveðjum hann með virktum og hann undrast um leið og við göngum út að það séu virkilega orðin 60 ár síðan þetta gerðist.

Þjóðviljinn. 10 febrúar 1985.

 

 
 

15.11.2018 17:27

361. Bryndís ÍS 69.

Vélbáturinn Bryndís ÍS 69 var smíðaður af Bárði G Tómassyni skipasmið á Ísafirði árið 1939 fyrir Hlutafélagið Njörð á Ísafirði. Eik og fura. 14 brl. 40 ha. June Munktell vél. Bryndís var ein af "Dísunum" svokölluðu sem Bárður smíðaði á árunum 1938-39. Seldur 4 júní 1956, Árna Magnússyni á Ísafirði. Ný vél (1960) 148 ha. Scania díesel vél. Seldur 18 september 1967, Jóni Kr Jónssyni á Ísafirði. Seldur 19 maí 1971, Grími hf á Ísafirði. Ný vél (1975) 163 ha. Scania díesel vél, 120 Kw. Seldur 26 september 1979, Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Seldur 19 desember 1980, Magnúsi Jónassyni og fl. á Bolungarvík. Seldur árið 2000, Drifi ehf á Ísafirði. Seldur sama ár, A.Ó.A. útgerð á Ísafirði. Seldur 2002, Herði Gunnsteini Jóhannssyni á Akureyri. Báturinn var skráður sem skemmtiskip það ár og heitir Bryndís EA. Það varð aldrei svo að þessi fallegi bátur yrði gerður út á túrista, heldur stendur hann, eða það sem eftir er af honum, víð bátasmiðjuna Hlíðarenda á Akureyri og grotnar niður.


Vélbáturinn Bryndís ÍS 69.                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

              Nýir bátar á sjó

Síðari hluta vetrar árið 1938 var stofnað hér á Ísafirði hlutafélagið Njörður. Hlutverk þess skyldi vera að láta smíða vélbáta til fiskveiða og gera þá út héðan frá Ísafirði. Hluthafar í félaginu er margt þeirra manna hér í bænum, sem hafa föst laun hjá bænum eða fyrirtækjum hans, eða hjá Kaupfélagi Ísfirðinga. Þá eru hluthafar skipstjórar og vélstjórar á bátum félagsins og loksins nokkrir menn aðrir en þeir, sem þegar hefir verið um getið. Loks er Kaupfélagið hluthafi og ennfremur hafnarsjóður og bæjarsjóður. Stjórn félagsins skipa Guðmundur Gíslason Hagalín, Ketill Gruðmundsson, Grímur Kristgeirsson, Ólafur Magnússon og Eiríkur Einarsson. Ketill Guðmundsson er framkvæmdastjóri félagsins. Félagið samdi vorið 1938 við Bárð Tómasson skipaverkfræðing um smíði á fimm vélbátum. Skyldu þeir allir vera um 15 smálestir og allir eins að lagi og búnaði öllum. Í desember 1938 voru tveir af bátunum fullbúnir og byrjuðu róðra, en nú s.l. laugardagskvöld fóru hinir þrír á sjó í fyrsta skipti. Í öllum bátunum eru 40-45 hestafla June Munktel vélar. Bátar þeir, sem fullbúnir voru 1938, heita Ásdís og Sædís. Hinir, Bryndís, Hjördis og Valdís. Bátarnir eru allir eins, og þykja hin beztu og fríðustu skip. Skipstjórar á þeim eru:
Sigmundur Jóhannesson á Ásdisi,
Guðmundur Guðmundsson á Bryndísi,
Sigurvin Júlíusson á Hjördísi,
Pálmi Sveinsson á Sædísi og
Björgvin Pálsson á Valdísi.
Allt eru þetta ungir menn, sumir aðeins liðlega tvítugir. Engir höfðu þeir áður haft á hendi skipstjórn, en voru þaulvanir sjómenn og kunnir að dugnaði. Þeir tveir, sem nú þegar hafa stjórnað skipi í rúmlega eitt ár, hafa reynzt hinir farsælustu til forystu. Á bátunum eru samtals 45 menn, hið vaskasta lið. Þá er byrjað verður að salta afla bátanna, mun margt manna fá atvinnu við aðgerð, og auk þess verður svo allmikil vinna við verkun fiskjarins. Er þess að vænta, og Nirði og bátum hans vegni sem bezt.

Skutull. 1 tbl. 13 janúar 1940.

Hér eru 3 af 5 "dísunum" svonefndu í smíðum í Skipabraut Ísafjarðar, skipasmíðastöð Bárðar G. Tómassonar skipaverkfræðings á Torfunesi. Þetta voru nýsmíði stöðvarinnar nr. 12, 13 og 14. Frá vinstri eru skipin Hjördís, Bryndís og Valdís. Þeim var hleypt af stokkunum 27., 28. og 29. desember 1939. Árinu áður var Sædísi hleypt af stokkunum 9. nóvember, og Ásdísi 10. nóvember 1938. Á plankana, sem tengja saman skut skipanna, var letrað: "Íslensk skip fyrir íslenska sjómenn", og á plankann milli stefnanna: "Hollt es heima hvat"   (C) H.R.B.


Skipasmíðastöð Bárðar G Tómassonar á Torfunesi.                                                         (C) H.R.B.


                        "Dísirnar"

"Dísirnar" voru smíðaðar á Torfunesi á árunum 1938 og 1939 teiknaði og smíðaði Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur 5 fiskiskip um 15 brl. að stærð í skipasmíðastöð sinni á Torfunesi á Ísafirði fyrir útgerðarfélagið Njörð hf. á Ísafirði. Eitt þessara skipa var Hjördís. Fyrsti skipstjóri á Hjördísi, og á meðan hún var í eigu Njarðar hf., var Sigurvin Júlíusson, bróðir Ólafs Júlíussonar, sem var skipstjóri á ms. Sæbirni.
Hjördís hefur oft skipt um eigendur, en haldið nafni sínu alla tíð og verið mikið happaskip í þau rúm 50 ár sem hún hefur verið í notkun, en eins og kunnugt er sökk Hjördís KE 133 við Stafnes 23. mars síðastliðinn.
Þessi skip og önnur sem Bárður G. Tómasson smíðaði í stöð sinni á Ísafirði teiknaði hann á grundvelli þeirra staðla, sem hann samdi um smíði plankabyggðra tréskipa. Þessa staðla keypti atvinnumálaráðuneytið síðan af Bárði, og fól honum að semja íslenskar reglur um smíði tréskipa á grundvelli þeirrar reynslu, sem þegar hafði fengist af gerð og styrkleika þessara skipa við íslenskar aðstæður. Að grunni til eru þessar reglur ennþá í gildi. Vegna þessa verkefnis og annarra fyrir ráðuneytið, flutti Bárður G. Tómasson til Reykjavíkur á stríðsárunum, og seldi þá skipasmíðastöð sína Marsellíusi Bernharðssyni, en Eggert B. Lárusson, sem var yfirverkstjóri í skipasmíðastöð Bárðar á Torfunesi, hélt því starfi áfram eftir að Marsellíus hafði tekið við stöð Bárðar.
Árið 1943 lét Njörður hf. svo smíða sjöttu dísina, Jódísi ÍS 73, í skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar, að mestu eftir sömu teikningum og fyrstu 5 "dísirnar", sem smíðaðar voru í stöð Bárðar, árin 1938 og 1939.

Morgunblaðið. 31 mars 1990.
Hjálmar R. Bárðarson.





13.11.2018 09:52

447. Garðar ÍS 124.

Þilskipið Garðar ÍS 124 var smíðaður í Farsund í Noregi árið 1894. Eik og fura. 13,67 brl. Eigandi var Ásgeir Ásgeirsson útgerðar og kaupmaður á Ísafirði og Kaupmannahöfn (Ásgeirsverslunin á Ísafirði. Garðar var einn af hinum svokölluðu "Árnapungum", en sú nafngift er dregin af Árna Jónssyni verslunarstjóra Ásgeirsverslunarinnar. Árið 1918 kemst Garðar í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana á Ísafirði. Báturinn var seldur 1927, Ásgeiri Guðnasyni útgerðar og kaupmanni og fl. á Flateyri. Árið 1928 var sett 6 ha. Dan vél í bátinn. Ný vél (1933) 32 ha. June Munktell vél. Báturinn var endurbyggður og lengdur á Ísafirði 1935, m.a. sett á hann hekk og stýrishús. Mældist báturinn þá 15 brl. Seldur 1 september 1947, Guðmundi V Jóhannessyni og fl. á Flateyri. Ný vél (1947) 50 ha. June Munktell vél. Seldur 9 apríl 1957, Einari Gíslasyni í Keflavík og Þorsteini Gíslasyni, Kotvogi í Höfnum, hét Garðar KE 59. Ný vél (1961) 100 ha. Penta díesel vél. Seldur 6 júlí 1961, Ebenezer Þ Ásgeirssyni og fl. í Reykjavík, hét þá Garðar RE 124. Seldur 5 september 1963, Birni Kristjónssyni og Einari Kristjónssyni í Ólafsvík, hét Garðar SH 164. Seldur 20 september 1970, Kára Einarssyni á Bíldudal, hét Garðar BA 74. Báturinn var endurbyggður sama ár (1970). Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 desember árið 1974.

Mótorbáturinn Garðar ÍS 124.                                                                        (C) Kristján Einarsson.

       Ásgeirsverslunin á Ísafirði

Vorið 1852 fékk Ásgeir Ásgeirsson skipherra frá Rauðamýri í Inn-Djúpi útmælda lóð til verslunar í Miðkaupstaðnum á Ísafirði. Þar reisti hann sér íbúðarhús, sölubúð og vörugeymslur og hafði að auki fiskreita um eyrina þvera. Ásgeiri farnaðist höndlunin vel og verslunin óx jafnt og þétt. Hann átti fjögur þilskip sem hann hélt til veiða og aflann flutti hann sjálfur á markaði erlendis og seldi. Þegar á leið varð útflutningurinn svo mikill að Ásgeir ákvað að ráðast í smíði á skonnortu til flutninga milli landa. Hún hlaut nafnið S. Louise og var afhent árið 1872. Skonnorta þessi sigldi síðan með saltfisk til Miðjarðarhafslanda á hverju hausti, allt þar til hún týndist í hafi árið 1900. Ásgeir skipherra var ákafur stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar og þjóðfrelsisbaráttunnar. Veitti hann Jóni ríflegan fjárstuðning og mun tíðum hafa sent honum matföng.
Ekki voru þeir þó alltaf sammála og gátu orðið snarpar sennur þegar þeir ræddu landshagi og sambandið við Dani. Ásgeir hikaði ekki við að segja Jóni til synda ef hann taldi ástæðu til en aldrei veiktist vinátta þeirra af þeim völdum. Ásgeir brást jafnan drengilega við þegar stjórnmálastarfi Jóns varð fjár vant þó að sjálfur kysi hann að halda sig til hlés. Þegar Ásgeir lést haustið 1877 var hann sagður langauðugastur íslenskra kaupmanna. Engu að síður varð Ásgeirsverslun ekki ýkja stór um hans daga, að minnsta kosti ekki í samanburði við það sem hún varð undir stjórn sonar hans, Ásgeirs Guðmundar Ásgeirssonar. 


Hæstikaupstaður um árið 1920.                                                             (C) Byggðasafn Vestfjarða.

Ásgeir yngri hafði verið hægri hönd föður síns við reksturinn um nokkurt skeið og tók við stjórninni 21 árs að aldri. Um líkt leyti kom til starfa við verslunina annar maður sem átti ekki síður eftir að hafa áhrif á vöxt hennar og viðgang. Það var Árni Jónsson faktor (verslunarstjóri), mágur Ásgeirs yngra, kvæntur Lovísu systur hans. Ásgeir G. Ásgeirsson var aðalforstjóri verslunarinnar og hafði aðsetur í Kaupmannahöfn en dvaldist á Ísafirði á sumrum. Árni stýrði hins vegar versluninni á Ísafirði, stjórnaði útgerð og fiskverkun og hafði yfirumsjón með útibúum eftir að þau voru sett á stofn. Fyrstu árin undir stjórn Ásgeirs yngra var verslunin rekin með sama sniði og áður eða fram til 1883. Þá andaðist Bendix Wilhelm Sass, kaupmaður í Neðstakaupstað, og Ásgeirsverslun keypti aðstöðuna þar. Við þessi kaup gerbreyttist staða fyrirtækisins til hins betra, ekki síst vegna reitaplássins sem fylgdi í kaupunum. Mjög var þá farið að sneyðast um pláss til saltfiskþurrkunar í Miðkaupstað.
Nú var hægt að auka útgerð og fiskverkun til muna. Neðstikaupstaður var gerður að miðstöð fiskverkunar og útgerðar Ásgeirsverslunar auk þess að vera afgreiðslustaður fyrir þungavöru á borð við kol, salt og timbur.


Fiskþurrkun í Neðstakaupstað árið 1910. Til hægri á myndinni eru Ásgeir G Ásgeirsson og J.M. Riis að fylgjast með vinnu fólksins.    (C) Byggðasafn Vestfjarða.

Hin eiginlega sölubúð var í Miðkaupstað og þar hjá var vínbúð verslunarinnar, kölluð Brennivínshornið. Hún var ein af örfáum sérverslunum landsins á þessum tíma. Þess má geta, að núna er vínbúð ÁTVR nánast á sama stað. Tímabilið frá 1885 og fram yfir aldamót var mesta blómaskeiðið í sögu Ásgeirsverslunar. Þá óx útgerð fyrirtækisins hraðast, útibú voru sett á stofn og fiskverkun og fiskútflutningur færðust mjög í aukana. Þilskipaflotinn hafði verið þrjú til fimm skip en upp úr 1885 lét Ásgeir smíða mörg 10-20 lesta skip sem hentuðu vel til handfæraveiða.
Þau voru frábrugðin venjulegum þilskipum að byggingarlagi og voru í daglegu tali kölluð Árnapungar í höfuðið á Árna faktor. Floti Ásgeirsverslunar var orðinn 16 þilskip árið 1893 en árið 1915 voru 12 þilskip eftir auk þess sem verslunin hafði eignast 5 vélbáta. Árið 1902 voru um 500 manns í vinnu hjá fyrirtækinu. Eftir að útibúum Ásgeirsverslunar fjölgaði jókst þörfin fyrir örugga flutninga um Ísafjarðardjúp. Árabátar og seglskip sem notuð höfðu verið til að flytja fisk útvegsbænda til verslunarinnar önnuðu því vart lengur.


Eyrin á Ísafirði um aldamótin 1900.                                              (C) Byggðasafn Vestfjarða.

Árið 1889 keypti Ásgeir þess vegna 36 lesta gufuskip, sem nefnt var Ásgeir litli í höfuðið á systursyni Ásgeirs. Þetta var fyrsta gufuskipið sem Íslendingar eignuðust. Ásgeiri litla var ætlað að sigla með varning um Djúp á vegum verslunarinnar. Með samningi við sýslunefnd var ákveðið að nota hann jafnframt til áætlunarferða um Djúpið auk ferða til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar og norður í Grunnavík. Ásgeir litli var í þessum áætlunarferðum á hverju sumri til 1904 þegar annar bátur leysti hann af hólmi. Árið 1893 réðst Ásgeir í kaup á 849 lesta gufuskipi fyrir eiginn reikning. Skipið kom til Ísafjarðar næsta ár og var nefnt Á. Ásgeirsson eftir föður Ásgeirs yngra en var jafnan kallað Ásgeir stóri. Þetta var fyrsta gufuknúna millilandaskipið í eigu Íslendinga og flutti vörur til og frá versluninni og sigldi með saltfisk til Miðjarðarhafslanda á haustin. Sífellt vaxandi umsvif Ásgeirsverslunar urðu til þess að stofnuð voru útibú á Flateyri, Hesteyri og Arngerðareyri, í Höfn í Hornvík, í Bolungarvík og á Suðureyri. Að auki hafði verslunin fiskmóttöku víða um Djúp og Hornstrandir. Líkur hafa verið leiddar að því, að Ásgeirsverslun hafi á mektarárum sínum átt 10-15% alls saltfisks sem fluttur var frá Íslandi, miðað við verðmæti, og stundum mun meira. Saltfiskur var langmikilvægasta útflutningsafurð Íslendinga á þessum tíma og vafasamt að nokkurt annað fyrirtæki hafi í annan tíma átt eins mikla hlutdeild í heildarútflutningi þjóðarinnar.


Saltfiskur á reitunum í Miðkaupstað. Íbúðarhús Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra til hægri og sölubúð Ásgeirsverslunar vinstra megin.   (C) Byggðasafn Vestfjarða.
  
Ásgeir kom einnig á fót hvalveiðistöð á Uppsalaeyri í Seyðisfirði í Djúpi í félagi við Norðmanninn Stixrud og gerðu þeir út tvo hvalveiðibáta. Þeir voru einnig sagðir eiga marmaranámu í Noregi en það er óstaðfest. Ásgeir G. Ásgeirsson varð bráðkvaddur í Danmörku árið 1912 og gekk dánarbúið þá óskipt til móður hans, frú Sigríðar Ásgeirsson. Verslunin var rekin áfram til ársins 1918 undir stjórn J. M. Riis, mágs Ásgeirs. Sigríður Ásgeirsson lést 1915 og ákváðu erfingjar hennar að selja fyrirtækið. Nokkur útibúanna voru seld kaupmönnum á svæðinu en Hinar sameinuðu íslensku verslanir keyptu meginhlutann. 30. nóvember 1918 var síðasti dagurinn í 66 ára sögu Ásgeirsverslunar. Fyrirtækið sem í upphafi tengdist Jóni Sigurðssyni og þjóðfrelsisbaráttunni sterkum böndum hætti þannig starfsemi daginn áður en Íslendingar fengu fullveldi.

Byggðasafn Vestfjarða.





10.11.2018 08:50

605. Ísleifur VE 63.

Vélbáturinn Ísleifur VE 63 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni í Skipasmíðastöð Reykjavíkur árið 1916 fyrir Magnús Thorberg og Guðmund Guðmundsson skipstjóra á Ísafirði. Hét fyrst Ísleifur ÍS 390. Eik. 30 brl. 56 ha. Tuxham vél (1916). Seldur 1928, Ársæli Sveinssyni í Vestmannaeyjum, hét Ísleifur VE 63. Afsal fyrir kaupunum var gefið út 2 október 1930. Ný vél (1934) 110 ha. June Munktell vél. Ný vél (1951) 120 ha. Hundested díesel vél. Ný vél (1958) 170 ha. Buda díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 22 maí árið 1967. Báturinn stóð lengi eftir það í slipp í Vestmannaeyjum, en var að lokum brenndur stuttu fyrir 1980.


Vélbáturinn Ísleifur VE 63.                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

             Nýr bátur á Ísafjörð

Ísleifur heitir nýr vélbátur, sem kom hingað sunnan úr Reykjavík í gærdag, smíðaður þar af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið, fyrir þá Magnús Thorberg símstjóra og Guðmund P. Guðmundsson formann. Bátur þessi er einn af stærstu bátum, sem smíðaður hefir verið hér á landi og gefur hinum útlendu bátum síst eftir að útliti og frágangi, og er sagður einkar traustur og vandaður að smíði. Báturinn er um 30 lestir að stærð og kvað kosta um 35 þús, krónur.

Vestri. 23 tbl. 20 júní 1916.


Ísleifur VE 63.                                                                                               (C) Tryggvi Sigurðsson.


Flakið af Ísleifi VE 63. Buda vélin, árgerð 1958 sést vel.             (C) Friðrik Ingvar Alfreðsson 1976.


08.11.2018 19:12

V. b. Ársæll GK 527.

Vélbáturinn Ársæll GK 527 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1938 fyrir Magnús Ólafsson, Þorvald Jóhannesson, Bjarnveigu Vigfúsdóttur og Björn Þorleifsson (Sameignarfélagið Ársæll) í Njarðvík. Báturinn kom til landsins hinn 1 júní það ár. Báturinn fórst út af Garðskaga eftir að hafa fengið á sig brotsjó. 4 menn fórust en 1 skipverja var bjargað um borð í vélbátinn Ásbjörgu GK 300 frá Hafnarfirði.


Vélbáturinn Ársæll GK 527.                                                                  Mynd úr Virkinu í Norðri.

                 Nýjir vélbátar

Til landsins hafa verið keyptir 3 nýjir vélbátar og eru 2 þeirra smíðaðir nú í ár, en einn þeirra 1936. Vélbáturinn "Vísir" T. H. 59 kom til landsins 13. maí og er hann 21 smál. að stærð brúttó og hefir 65 hestafla vél. Eigandi hans er Þórhallur Karlsson o. fl. á Húsavik.
Vélbáturinn "Ársæll" kom til landsins 1. júni. Er hann 22 smál. brúttó. Eigandi hans er Magnús Ólafsson, Höskuldarkoti. Báðir þessir bátar eru byggðir í Frederikssund. Þriðji báturinn er frá Grimsby, en byggður í Svíþjóð 1936. Þessi bátur heitir "Keilir" G. K. 92. Er hann 60 smál. brúttó og hefir 120 h.a. Bolindirvél. Eigendur hans eru Haraldur Böðvarsson & Go., Sandgerði.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1938.


Ársæll GK 527. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

      Vélbáturinn Ársæll GK ferst

Síðari hluta dags í fyrradag vildi það slys til, að einn vélbátanna frá Suðurnesjaverstöðvunum, sem var þá á heimleið, fékk á sig brotsjó, og hvolfdi honum þegar. Fimm menn voru á bátnum og fórust fjórir þeirra, en nærstöddum bát tókst að bjarga einum mannanna.
Bátur þessi var v.b. "Ársæll" frá Ytri-Njarðvík. Var hann staddur um 4-5 mílur út af Skaga, á heimleið, þegar hann fékk á sig brotsjó, og hvolfdi honum þegar. Vélbáturinn "Ásbjörg" frá Hafnarfirði var nærstaddur og tókst honum að bjarga einum manni af "Ársæli", Símoni Gíslasyni vélstjóra, sem var staddur í stýrishúsinu, ásamt skipstjóranum, Þorvaldi Jóhannssyni, þegar brotsjórinn skall yfir bátinn. Vélbáturinn "Ásbjörg" beið all lengi á slysstaðnum, en varð einskis var. Þeir, sem fórust með "Ársæli" voru þessir:
Þorvaldur Jóhannsson, skipstjóri frá Njarðvík, 42 ára, kvæntur og átti 2 börn.
Pétur Sumarliðason frá Ólafsvík, en nýfluttur til Njarðvíkur. Hann var 26 ára, kvæntur og átti 2 börn. Guðmundur Sigurjónsson frá Lundi í Njarðvík. Hann var 24 ára, ókvæntur.
Trausti Einarsson frá Ólafsvík.
Vélbáturinn "Ársæll" var 22 smálestir, smíðaður í Frederikssund í Danmörku 1938. Eigendur var sameignarfélagið "Ársæll" í Njarðvík.

Þjóðviljinn. 6 mars 1943.


05.11.2018 19:07

E. s. Fjallfoss l / TFCB.

Eimskipið Fjallfoss l var smíðaður hjá N.V. Haarlemsche Scheepsbouw Maatschappij í Haarlem í Hollandi árið 1919 sem Merwede fyrir Hollandsche Stoomboot Mij. í Amsterdam. Fékk svo stuttu síðar nafnið Amstelstroom. 1.451 brl. 1.400 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í apríl 1934, Eimskipafélaginu Ísafold hf í Reykjavík, hét Edda. Skipið var í flutningum milli Íslands og Evrópulanda með viðkomu víða á innlendum höfnum og flutti bæði stykkjavörur og þungavörur í heilum förmum. Skipið var selt í október 1941, hf. Eimskipafélagi Íslands, hét þar Fjallfoss, sá fyrsti með þessu nafni. Fjallfoss var í Ameríkusiglingum til loka seinni heimstyrjaldar og hóf þá Evrópusiglingar. Skipið var selt í maí 1951, Sargena Societa Armamento Gestione Navi S.p.A. á Ítalíu, hét þar Sidera. Skipið var selt 1957, M.A. Bakhashab í Saudi-Arabíu, hét Ommalgora. Selt 1968, Orri Navigation Lines í Saudi-Arabíu, hét þá Star of Taif. Talið ónýtt og því var sökkt í Rauðahafi við borgina Jeddah í Saudi-Arabíu í ágústmánuði árið 1978.


E.s. Fjallfoss l í Reykjavíkurhöfn.                                                           (C) Vigfús Sigurgeirsson.

     
     Edda, stærsta skip íslenska flotans       
      
         kom í fyrsta sinn til landsins í gær


Í gær kom til Hafnarfjarðar hið nýja skip Eimskipafjjelagsins Ísafold, Edda nefnt, sem hið fyrra skip með því nafni, er strandaði nálægt Hornafirði í vetur. Skip þetta keypti fjelagið í Hollandi, og önnuðust þeir kaupin, Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og Gísli Jónsson. Edda hin nýja hefir rúmlega 2.000 smálesta burðarmagn og er því heldur stærri en Dettifoss, sem hingað til hefir verið stærsta skip íslenska flotans. Er Edda 271 fet á lengd.
Skipið er byggt árið 1919, var áður í förum milli Hollands og Afríku með farþega og flutning, en farþegarúmi þess hefir verið breytt í Kolahólf. Ganghraði er 12 ½ míla. Skipstjóri er hinn sami og á hinu fyrra skipi fjelagsins, Jón Kristófersson, og er skipshöfnin að mestu leyti hin sama. Skipið kom að þessu sinni með kolafarm til Hafnarfjarðar, en kemur hingað um helgina.

Morgunblaðið. 3 maí 1934.


E.s. Edda á tímum seinni heimstyrjaldar með fánann málaðan á síður skipsins. Ljósmyndari óþekktur.


Star of Taif stuttu áður en skipinu var sökkt í Rauðahafinu.                        (C) Wreck side.

                    "Fjallfoss"

Eimskipafélag Íslands hefir skírt flutningaskipið "Eddu", sem það keypti af Eimskipafélaginu ísafold, "Fjallfoss". Er þetta nafn á fossi í ánni Dynjandi í Arnarfirði. Mynd af þessum fossi er á 10 aura frímerkjum, sem verið hafa í notkun undanfarið og nefndur þar Dynjandi. En þetta er rangnefni. Það er áin, sem heitir þessu nafni, en fossinn, sem er efsti fossinn í ánni, heitir Fjallfoss. Framkvæmdastjóri Eimskipafélags Íslands, tjáði blaðinu að þetta nafn hefði meðal annars verið valið á skipið vegna þess að Vestfirðir hafa til þessa verið afskiptir hvað snertir nöfnin á hinum eldri skipum Eimskipafélagsins. Edda mun þó sigla undir sínu gamla nafni næstu ferð sína til útlanda, vegna þess að ennþá hefir ekki unnizt tími til þess að ganga formlega frá nafngiftinni.

Tíminn. 25 október 1941.

04.11.2018 13:55

Eyfirðingur EA 480. TFBP.

Eyfirðingur EA 480 var smíðaður í Fécamp í Frakklandi árið 1908. 174 brl. 120 ha. Skandia vél. Hét áður Normanner TN 330 og var í eigu Z. Heinesen í Þórshöfn í Færeyjum. Skipið var upphaflega frönsk skonnorta og smíðuð fyrir hinn fræga vísindamann, dr. Jean Baptiste Charcot, sem fórst með skipi sínu, Porquoi Pas ? við Mýrar, 16 september 1936. Magnús Andrésson í Reykjavík hafði skipið á leigu frá Færeyjum frá árinu 1940, uns það strandaði við Raufarhöfn 10 nóvember 1945. Skipið náðist út og var gert upp í Slippnum í Reykjavík. Selt Hirti Lárussyni skipstjóra á Akureyri, hét þá Eyfirðingur EA 480. Selt 6 september 1950, Njáli Gunnlaugssyni í Reykjavík. Skipið fórst við Orkneyjar 11 febrúar árið 1952 með allri áhöfn, sjö mönnum.


Eyfirðingur EA 480 í Vestmannaeyjahöfn.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

     Skip strandar við Raufarhöfn

Færeyska vélskipið "Normanner" strandaði í nótti við innsiglingu á Raufarhöfn. Skipið er óbrotið. "Normanner" átti að taka síldarmjöl til Reykjavíkur. Hætta er á að skipð brotni, ef veður spillist. Skip þetta mun hafa verið á vegum Magnúsar Andréssonar í Reykjavík síðustu 5 ár, en nú á förum fyrir Ríkisskip.

Morgunblaðið. 10 nóvember 1945.


Normanner TN 330.                                                                    www.vagaskip.dk

"Eyfirðingur" fórst við Hjaltlandseyjar            á miðvikudag með allri áhöfn,                                   sjö mönnum 
Þau hörmulegu tíðindi bárust hingað til lands í gærdag , að vélskipið Eyfirðingur frá Akureyri hafi farizt með allri áhöfn, sjö mönnum , á aldrinum 21 til 48 ára, á Hjaltlandseyjum á miðvikudaginn var. Skipið strandaði og sökk. Eyfirðingur, sem var 174 rúmlestir, var á leið til Belgíu, er slysið bar að höndum . Eyfirðingur er þriðja skipið í flotanum, sem ferst með allri áhöfn síðan um áramót . Eftir því, sem Mbl. tókst að afla sér upplýsinga um í gær er einn hinna látnu sjómanna fjölskyldumaður. Um annan var ekki vitað. Hinir mennirnir voru einhleypir. Sjömenningarnir áttu allir heima hér í bænum, að einum undanskyldum. Skipshöfnin var þessi:
Benedikt Kristjánsson, skipstjóri, 46 ára, Skipasundi 19. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn, tveggja ára, og tvö stjúpbörn, 11 og 14 ára. Hann var fæddur í A-Skaftafellssýslu.
Marvin Ágústsson, stýrimaður, hefði orðið þrítugur á sunnudaginn kemur, til heimilis að Nesvegi 58. Fæddur í N-Ísafjarðarsýslu.
Erlendur Pálsson, vélstjóri, 47 ára, Laugarneskampi 10. Hann var Seyðfirðingur.
Vernharður Eggertsson, matsveinn, 42 ára, Suðurlandsbraut 9. Vernharður gekk undir nafninu "Dagur Austan". Hann var Akureyringur.
Guðmundur Kr. Gestsson, háseti, 25 ára. Hann átti annað hvort heima á Laugaveg 5B, eða að Bragagötu 29A. Hann var Reykvíkingur.
Sigurður G. Gunnlaugsson, háseti, 21 árs, Brávallagötu 12. Hann var Eyfirðingur.
Guðmundur Sigurðsson, háseti. Hann var elzti maðurinn á Eyfirðingi, 48 ára að aldri. Hann átti heima að Leiti í Dýrafirði og var Dýrfirðingur.
Eyfirðingur fór héðan frá Reykjavík laust fyrir miðnætti miðvikudaginn 6. febrúar. Hér hafði skipið lestað brotajárn og átti að flytja það til Belgíu. Ekki er kunnugt um hvar á Hjaltlandseyjum skipið fórst og ekki er kunnugt um aðdraganda þessa sviplega sjóslyss.

Morgunblaðið. 15 febrúar 1952.

   Björgunarbátur gat ekki hjálpað              "Eyfirðingi" vegna veðurs

Fregnir hafa borizt um að þrjú lík skipverja af "Eyfirðingi" hafi rekið, ásamt allmiklu af braki. Nokkru nánari fregnir hafa borizt Utanríkisráðuneytinu um hið sviplega slys. Eyfirðingur strandaði á svonefndri Edey í Orkneyja-klasa, er hún í innanverðum eyjaklasanum. Það var á mánudagsmorgun um klukkan 7 að skipið fórst. Var þá á stórviðri og þungur sjór. Þegar kunnugt varð um hættu þá er Eyfirðingur var í, var björgunarbátur sendur á vettvang til að reyna að koma skipinu til hjálpar. En hann gat ekkert aðhafst vegna veðurs. Við Edey er straumkast mikið og rak skipið upp og fórst án þess að nokkrum af skipshöfninni yrði bjargað. Eftir síðustu fregnum hefur þrjú lík rekið. Eigandi Eyfirðings er Njáll Gunnlaugsson, Öldugötu 9 hér í bæ.
Eyfirðingur var upphaflega franskt skip, smíðað fyrir hinn fræga vísindamann, dr. Charcot, er drukknaði upp við Mýrar. Hér var því bjargað af strandi, en þá var það færeyskt. Var það endurbyggt í slippnum og hlaut nafnið "Eyfirðingur".

Morgunblaðið. 16 febrúar 1952.



02.11.2018 09:48

B. v. Skallagrímur RE 145. LCHK / TFRC. Fiskað á Halanum haustið 1921.

Botnvörpungurinn Skallagrímur RE 145 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 639. Kveldúlfsskipin Þórólfur RE 134 og Skallagrímur RE 145 munu hafa verið fyrstu skipin sem hófu togveiðar á Halanum, hinum gjöfulu fiskimiðum út af Ísafjarðardjúpi, með góðum árangri, haustið 1921. Þó nokkrir höfðu reynt sig þar áður, jafnvel frá árinu 1911, en með misjöfnum árangri. Mörg ár voru í það að dýptarmælirinn kæmi til sögunnar sem auðveldaði mönnum að kortleggja fiskimiðin. Þeir gátu einungis reitt sig á handlóð og setja út dufl til staðsetningar. Greinin hér að neðan birtist í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1945, og er höfundur hennar, Guðmundur Guðmundsson skipstjóri frá Móum á Kjalarnesi. Hann var þá skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfi. Lýsir hann þeim örðugleikum sem skipstjórarnir áttu við að etja að ná tökum á þessari nýju og gjöfulu togslóð. Halamið eru ein bestu fiskimiðin við Ísland þó víðar væri leitað. Að sama skapi eru þau ein hættulegustu mið við landið hvað veðrabrygði varðar, og mörg skip farist þar með manni og mús, eins og sagan sýnir, þar sem enginn hefur orðið til frásagnar.


Kveldúlfstogarinn Skallagrímur RE 145 á siglingu.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Tvær fyrstu togveiðiferðir á Halann                    og tildrög þeirra

Ekki verður um það deilt, að Halinn sé mesta og bezta togfiskimið í heimi, því að ekkert fiskimið þekkist, hvorki hér við land né annars staðar, þar sem asfiski getur verið á öllum tímum árs, nema á Halanum, enda hafa íslenzkir togarar undanfarin styrjaldarár fengið þar fullfermi túr eftir túr. Og er víst ekki of djúpt tekið í árina, þótt sagt sé, að tveir þriðju hlutar togaraaflans séu fengnir á Halanum. Á þessu geta allir séð, hve mikil gullnáma þetta veiðisvæði er. Það verða nú bráðlega þrjátíu ár síðan fyrst var reynt með botnvörpu á þessu miði, og hefir mér því komið til hugar að segja tildrög þess, að þar var reynt með botnvörpu. Árið 1911 hafði orðið allmikil fjölgun í íslenzka togarflotanum. H. f. Ísland hafði keypt "Lord Nelson", stórt og mikið skip, Thor Jensen o. fl. höfðu keypt Snorra Goða, eldra, Th. Thorsteinsson o. fl. leigt tvo togara frá Aberdeen og Eggert Ólafsson var keyptur til Patreksfjarðar. Þetta ár tók ég við skipstjórn á Snorra Sturlusyni; hann var byggður í Hull árið 1900, 75 smálestir nettó. Heldur þótti Snorri lítið sjóskip og togskip varla í meðallagi. Undanfarin vor hafði verið fiskað í Faxaflóa, en nú hafði hann síðustu tvær til þrjár vorvertíðir fyllzt af frönskum togurum, svo að íslenzku skipstjórarnir höfðu ekki mikla trú á, að þar aflaðist, innan um alla Fransmennina. Hugðu því flestir til að reyna við Austurland, því að heyrzt hafði, að enskir togarar fiskuðu þar vel um þennan tíma árs, en fiskur var þar frekar smár. Ég hafði verið þar árið 1908 á saltfiskveiðum með enskum togara, "Lysander", skipstjóri var Árni Eyjólfsson Byron. Afli var heldur rýr og að mestu smáfiskur, og veðráttan þokusöm.


Kveldúlfstogarinn Þórólfur RE 134 á veiðum.                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Um 20. maí fórum við austur á Snorra Sturlusyni, vorum þar 5-6 daga og fengum sæmilegan afla af smáfiski, höfðum á þessum tíma fengið sem svarar hálfum túr, en þá bilaði vélin svo að ekki var hægt að toga svo að gagni væri. Var því haldið til Reykjavíkur og leitað viðgerðar á vélinni. Fátt var þá um leikna vélaviðgerðarmenn og lítið um verkfæri. Eftir um viku dvöl í Reykjavík var viðgerðinni lokið, vélin reynd og reyndist sæmilega. Var svo undirbúinn annar túr og haldið á veiðar. Ekki leizt mér á að fara austur aftur, var það aðallega af því að togvinda okkar tók ekki nema 300 faðma af togvír hvorumegin, en dýpi er víðast hvar mikið fyrir austan. Var því haldið vestur, reynt báðum megin við Ísafjarðardjúp, djúpt og grunnt, en afli var tregur; sömuleiðis reyndum við undir Kögri, bæði djúpt og grunnt, en fengum lítinn afla. Háseti var með mér þetta úthald, Þórður Sigurðsson, þá um fimmtugt; hafði hann lengi verið stýrimaður á skútum frá Reykjavík, bæði á færafiski og reknetum. Þórður var ágætur sjómaður og eftirtektarsamur mjög. Vorum við að kippa austur og Þórður við stýrið. Við vorum að tala saman um aflatregðu, og sagðist þá Þórður vel geta trúað að fiskur væri á 85-90 föðmum N.-A. af Horni. Kvaðst hann hafa verið með Bandaríkjamönnum á flyðruveiðum á þessum slóðum um þetta leyti árs og oft fiskað mikið af þorski á lóðirnar. Botn hélt hann dágóðan, og töluðum við um þetta fram og aftur. Fórum við svo niður í kortaklefa og athuguðum kortið, því að Þórður kunni góð skil á notkun sjókorta. Var svo haldið út N.-A. af Horni á 85-90 faðma dýpi og byrjað að toga. Þar var ágætis afli, en nokkuð var það til tafar, að mikið var af allstóru, lausu grjóti í botninum og vildi því oft verða gat á pokanum.


Skallagrímur RE 145 (til hægri) mætir hér Garðari GK 25 á toginu.        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Settum við þar niður dufl og tók þá von bráðar fyrir að við fengjum steina í pokann. Vorum við þarna í vikutíma og fylltum skipið af vænum þorski. Ekkert skip sáum við þarna, nema Súluna, sem var þá á lóðaveiðum og var gerð út frá Norðfirði. Hún var langt fyrir austan okkur, svo að við sáum hana ekki nema í kíki. Á heimleið átti ég langt tal við Þórð um hvort hann héldi ekki að til væri fleiri góð togmið, sem ekki hefðu verið reynd áður, þar sem hann hefði fiskað með Bandaríkjamönnum. Sagði hann þá, að eitthvert bezta mið þeirra hefði verið að vestanverðu við Djúpið, alveg úti í kanti. Þar gengi all-langur tungulagaður tangi í A.N.A út í Ísafjarðardjúp. Þar hefðu þeir fengið á 100-150 faðma dýpi mjög góðan afla, en botn hélt hann að væri þar frekar slæmur, þar væri líka mikill straumur og illviðrasamt. Að lönduninni lokinni var farið aftur á sömu slóðir og fékkst þar annar sæmilegur túr. Síðan hafa íslenzkir togarar stundað veiðar á Hornbanka og oft fengið góðan afla, einkanlega síðara hluta maí og í júnímánuði og sömuleiðis vetrarmánuðina desember og janúar. Haustið 1915 að síldveiðum loknum, sendi h.f. Kveldúlfur togara sína, Skallagrím, Snorra Goða og Snorra Sturluson til viðgerðar til Kaupmannahafnar. Komum við úr þeirri ferð snemma í desember og var þá búizt á veiðar 10.-12. desember. Veðrátta var mjög slæm, sífelld austan stórviðri og hvergi fisk að fá, enda ekki hægt að fiska nema á grunnmiðum. Eftir viku tíma vorum við að toga, í mjög slæmu veðri, grunnt undan Skálavík og var lítill afli. Síðustu fjóra dagana höfðum við verið á líkum slóðum og Skallagrímur; skipstjóri á honum var þá Guðmundur Jónsson á Reykjum. Um hádegisbilið talaði hann við okkur, hafði hann verið úti nokkuð lengur en við, sagði hann, að hér fyrir vestan væri ekkert að fá, nema illviðrið. Sagðist hann ætla suður í Faxaflóa og hélt að fiskur myndi vera í Garðsjó, sem algengt var um þetta leyti árs, nokkru fyrir jól.


Veitt í salt á Garðari GK 25 á Grænlandsmiðum.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Nokkru síðar héldum við inn á Hesteyri og lögðumst þar. Heldur þótti mér horfa óvænlega með túrinn og var nú farið að athuga, hvernig vænlegast væri að bjarga honum. Kolin voru slæm, tekin í Höfn, og vorum við búnir að nota mikið af þeim. Datt mér þá í hug mið það, sem Þórður hafði talað um 1911, út með Djúpinu og var nú ákveðið að reyna þar þegar lygndi. Um kl. 3 um morguninn var vindur  nokkru hægari, og hafði mig dreymt fiskilega um nóttina. Var þá akkerum létt og haldið út. Þótti það æði langt að halda fimm tíma beint til hafs. Austan stormur var, en fór heldur lygnandi. Klukkan 10 f.h. var kastað á 85 faðma dýpi, mjög nálægt þeim slóðum, sem Þórður hafði lýst. Var þar ágætur afli, en ekki þó mok. Komumst við á um eða yfir 100 faðma og var þar mikið af karfa. Héldum við okkur á 85-90 föðmum og rifum ekki mjög mikið. Aflinn var vænn þorskur og mjög mikið af smá- og stofnlúðu. Á aðfangadag vorum við orðnir íslausir og mikill fiskur á þiljum; var þá haidið til Patreksfjarðar eftir ís. Austan strekkings storumr var alla dagana, en sjólítið. Ekkert skip sáum við þessa daga, enda var skyggni slæmt. Þegar við höfðum siglt rúman klukkutíma á leið til Patreksfjarðar, fórum við framhjá botnvörpungnum Apríl, dálítið á stjórnborða, skipstjóri á honum var Þorsteinn Þorsteinsson; fyllti Apríl sig í þessari ferð á mjög skömmum tíma. Hjalti Jónsson fór svo með skipið til Fleetwood kortalaus eða kortalítill, eins og getið er um í bókinni Eldeyjar-Hjalti. Við fengum ísinn mjög fljótt á Patreksfirði og lágum þar til kl. 2 f. h. á jóladag.


Pokinn hífður inn fyrir lunninguna og tæmdur.                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 
 
Aðfangadagskvöld var ég í boði hjá Ólafi sál. Jóhannessyni konsúl og konu hans, og verður þetta kvöld mér lengi minnisstætt fyrir þær ágætu móttökur, sem ég hlaut þar, og er það ágætasta aðfangadagskvöld, sem ég hef notið utan heimilis míns. Var það í fyrsta, en ekki í síðasta sinni, sem ég naut hinnar landskunnu gestrisni, sem á því heimili ríkti. Við fórum út eins og áður er getið kl. 2 f. h. á jóladag í sama austan stormi. Héldum við suður á Röst, fiskuðum þar um það bil í sólarhring, og var góður reitingur af kola. Við komum inn á þriðja í jólum og héldum svo til Fleetwood og fengum ágætan markað. Ekki fórum við þarna út aftur í næsta túr, enda var sífellt illviðri. Þennan vetur var tíð ákaflega slæm, en um mánaðamótin janúar og febrúar gerði mjög góða tíð, og var vertíðin 1916 vanalega nefnd vertíðin góða. Mátti heita að ekki tæki úr dag.
Árið 1921 sendi h.f. Kveldúlfur þrjú af skipum sínum á saltfiskveiðar í miðjum nóvember sem var algengt í þann tíma. Voru það Skallagrímur yngri, Þórólfur og Snorri Sturluson yngri; var ég þá skipstjóri á Þórólfi, afburða góðu skipi, og var það álitið bezta skip togaraflotans og er það líklega enn. Reynt var á þessum vanalegu stöðum, báðum megin við Ísafjarðardjúp, á Hornbanka og víðar.


Snæbjörn Stefánsson skipstjóri á Ver GK 3 teygjir sig yfir lanternljósið á brúarvængnum til að sjá hve mikill fiskur sé í þessu holi.                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Fiskur var mjög tregur, en tíð frekar góð. Öll skipin höfðu farið út um líkt leyti, því að verkfall hafði verið um haustið og öll skip voru á ísfiskveiðum nema þessi þrjú frá Kveldúlfi. Eftir að hafa reynt til og frá, datt mér í hug að reyna á sömu slóðum og um jólaleytið 1915. Hélt ég suður fyrir Djúp og út með því. Veður var gott og sást vel til lands. Kastaði ég þar á 95-100 föðmum og hitti strax á mokafla, hreinan þorsk. Setti ég niður dufl á 95 föðmum, en rétt fyrir utan það voru 150 faðmar. Allmiklar tafir urðu að því, að netin báðum megin reyndust fúin. Höfðum við farið til veiða, að loknum síldveiðum þetta ár, á Nýfundnalandsbankana mánuðina september og október. Botn var þar víðast góður og netin sýndust lítið slitin, en voru orðin fúin. Við urðum því að slá undir nýjum netum og eftir það fengum við ágætis afla, 6-7 poka eftir 30 mínútur. Klukkan mun hafa verið 12 á hádegi þegar byrjar var, en um miðnætti var komið austan hvassviðri, var þá hætt með mikinn fisk á þilfari. Héldum við okkur svo við duflið á meðan gert var að, en töpuðum því nokkru síðar. Nokkru eftir að aðgerð var lokið, var haldið upp í eina klukkustund og síðan austur að vesturkanti Ísafjarðardjúps og haldið sér við Djúpið. Um kvöldið var haldið út aftur, var þá nokkuð lygnara, og byrjað að toga á líkum slóðum og daginn áður. Fengum við um nóttina tvo til þrjá dágóða drætti, en megnið var ufsi, annars rifrildi og festur hvað eftir annað.


Það hefur verið mikill afli í þessu holi, því alls eru um 20 menn í aðgerð.    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Um morguninn, nokkru eftir birtingu, var haldið austur yfir Djúpið og ætlaði ég að reyna í austurhalla þess þegar lokið væri viðgerðum netanna. Þegar komið var austur á kantinn mættum við þar Skallagrími; skipstjóri á honum var Guðmundur Jónsson frá Reykjum. Töluðum við saman, og sagðist hann hvergi hafa fengið fisk, en ég sagði honum frá afla þeim,sem við höfðum fengið þar úti. Ákváðum við að halda þangað út aftur og var svo snúið við og byrjað á nýjan leik. Var þá komið bezta veður og hélzt í næstu 4-5 daga, og bætti það mjög aðstæður allar. Aldrei áður hafði ég þá komizt í annað eins netarifrildi og festur, og aldrei í annað eins mok af fiski, þegar vel gekk, tvo til þrjá drætti rifrildi og festur, næstu tvo til þrjá máske 7-8 pokar eftir 20-30 mínútur. Komum við svo þarna niður á kantinum sínu duflinu hvor, og fór þá heldur að minnka rifrildi, en var þó alltaf mjög mikið. Afli virtist beztur á 115-120 föðmum, oft hreinn þorskur. Ekki var asfiski nema á þessu dýpi. Vöruðum við okkur ekki á hve kanturinn sveigði mikið til norðurs; héldum fyrst að hann mundi vera A.N.A., en hann reyndist liggja mikið meira til norðurs. Hefði þá komið sér vel að hafa dýptarmæli. Héldum við, svo áfram veiðum þar til við vorum alveg orðnir í vandræðum með lifur og salt næstum því búið. Fórum við þá til Dýrafjarðar og létum í land 40-50 tunnur af lifur og tókum dálítið salt.

Hér er verið að taka inn pokan á Víði GK 450.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Var svo haldið út aftur og byrjað á líkum stað. Nokkru síðar fór Skallagrímur heim, hann losaði ekki lifur fyrir vestan. Afii var líkur, þó meiri ufsi. Eftir þrjá daga var haldið heim, var þá saltið búið og lifrarföt öll full, enda var túrinn orðinn alllangur. Fáliðaðir vorum við frekar þennan túr, tuttugu og þrír á, en einvalalið. Höfðum við eitthvað yfir 200 föt lifrar og þótti þetta mjög mikill afli á þessum tíma árs. Meira en helmingur aflans reyndist þorskur. Þegar við höfðum verið þarna í tvo til þrjá daga kom botnvörpungurinn Baldur, skipstjóri Þorgrímur Sigurðsson, og var það fyrsti túr Baldurs. Hann var á ísfiskveiðum og fyllti sig á mjög skömmum tíma. Snorri Sturluson, skipstjóri Sigurður Guðbrandsson, kom sömuleiðis og var á heimleið, hafði verið á Hornbanka allan túrinn, en fiskaði þarna úti í einn dag. Ekki hef ég heyrt, hver hefir gefið þessu fiskimiði nafn, en þennan vetur komst það á og hefir gengið undir Halanafninu síðan. Eins og sagt var í byrjun þessarar greinar, er Halinn tvímælalaust bezta togveiðimið, sem enn hefir fundizt, hvort sem um innlend eða erlend fiskimið er að ræða.


Togari Einars Þorgilssonar & Co, Garðar GK 25. Flestar af myndunum hér að ofan eru teknar af Guðbjarti Ásgeirssyni um borð í honum.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Í Sjómannablaðinu Víkingur II. árg. 1940 í grein, sem Guðmundur Jónsson skipstjóri, Reykjum skrifar og lýsir Halanum, stendur: "Guðmundur Guðmundsson, nú bóndi á Móum á Kjalarnesi, sem stýrði Þórólfi, varð til þess að reyna á Halanum fyrstur þennan vetur". Og í bókinni "Um láð og lög" eftir dr. Bjarna Sæmundsson stendur á bls. 274: "íslenzkir fiskimenn höfðu að vísu komið fyrr á þetta svæði og fiskað þar, en með litlum árangri, þangað til haustið 1921, er Kveldúlfsskipin, fyrst Þórólfur einn og svo Skallagrímur byrjuðu að fiska þar".  

Sjómannablaðið Víkingur. 11-12 tbl. 1 desember 1945.
Guðmundur Guðmundsson frá Móum.

01.11.2018 16:08

Þilskipið Olivette SH 3. LBHM / TFUJ.

Þilskipið Olivette var smíðað með kútterslagi í Yarmouth á Englandi árið 1883. Eik. 37 brl. Var með hjálparvél, stærð og gerð ókunn. Eigendur voru Guðmundur S Th Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson skipstjóri og fl. á Siglufirði upp úr aldamótunum 1900 (27 ágúst 1904 ?). Þeir keyptu skipið af Norðmönnum. Hét þá Olivette EA 27. Selt 1913-14, Ólafi Jóhannessyni útgerðar og kaupmanni á Vatneyri í Patreksfirði. Var skipið þá hluti af eignum Vatneyrarverslunarinnar sem var í eigu Milljónafélagsins (P.J. Thorsteinsson & Co) sem Ólafur keypti það ár. Hét þá Olivette BA 126. Þar var Ólafur Ólafsson (Ólafur í Krók) skipstjóri í áratugi. Skipið var endurbyggt árið 1921 og sett í það 12 ha. Sólo vél. Selt 17 október 1931, Samvinnufélagi Flateyjar í Flatey á Breiðafirði, sama nafn og númer. Ný vél (1933) 12 ha. Skandia vél. Selt 26 október 1936, Bergsveini Jónssyni skipstjóra og Sigurði Ágústssyni útgerðarmanni í Stykkishólmi, hét þá Olivette SH 3. Ný vél (1937) 80 ha. Alpha vél. Skipið var lengt og endurbyggt árið 1944 og mældist þá 41 brl. Ný vél (1944) 170 ha. Buda díesel vél. Skipið var selt 15 desember 1952, Útgerðarfélagi Höfðakaupstaðar (Skagaströnd), hét þá Auðbjörg HU 7. Skipið var endurbyggt í þriðja sinn árið 1958 og ný vél (1958) 240 ha. GM díesel vél var sett í það. Selt 14 október 1961, Vísi hf í Kópavogi, hét þá Gullbjörg KÓ 60. Talið ónýtt og tekið af skrá í október árið 1964.

Olivette SH 3 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                           Ljósmyndari óþekktur.

      "Framfaraspor" Siglfirðinga

Til framfara má telja það, að keypt voru tvö allstór fiskiskip, sem halda á út til þorskveiða í vor og sumar, og jafnvel til reknetaveiða, sem menn hér hafa numið til fullnustu af frændum sínum, Norðmönnum; þeim (Norðmönnum) til verðugs heiðurs má geta þess, að þeir skutu saman allt að 300 kr. til styrktar fátækum, og var því fé varið til að kaupa korn fyrir handa kúm og mönnum; yfirleitt féll öllum vel við Norðmenn, og höfðu bændur o. fl. gott af þeim.

Norðurland. 22 tbl. 27 febrúar 1904. 


Áhöfnin á síldveiðiskipinu Olivette SH 3.                                                        Ljósmyndari óþekktur.

               Vatneyrarverslun

Verslanir Miljónafjelagsins á Vesturlandi eru seldar. Verslunina á Þingeyri hafa Proppé-bræðurnir keypt með skipum og vörubirgðum á 50 þús. kr. Einnig verslanirnar í Ólafsvík og á Sandi á 45 þús. kr. að sögn. En Bíldudalsverslun hafa þeir keypt Þórður Bjarnason verslunarstjóri og Hannes Stephensen bróðir hans á 75 þús. kr. Vatneyrarverslunina hefur Ólafur Jóhannesson konsúll keypt.

Vísir. 20 ágúst 1914.

                  Skip til sölu

Kútter "Olivette", byggð upp að nýju úr eik 1921, 37 tons, og kútter "Diddó", byggður upp að nýju 1919, stefni og bönd úr eik, kjölur úr brenni, með furuklæðning. Bæði eru skipin með 12 hesta nýjum Solovélum og í ágætu standi. Diddó er 27 tons. Skipin seljast með öllu tilheyrandi í ríkisskoðunar ástandi.
Frekari upplýsingar gefur Ólafur Jóhannesson á Vatneyri.

Hænir. 45 tbl. 5 desember 1929.


Olivette SH 3 við bryggju á Siglufirði.                                             Ljósmyndari óþekktur.


Þilskipið (kútter) Olivette BA 126.                                                           Ljósmyndari óþekktur.

        Ólafur Ólafsson skipstjóri

Árið 1913 keypti Ólafur Jóhannesson, kútterinn Olivette norður á Siglufirði, en þangað sótti nafni hans, Ólafur Ólafsson (Ólafur í Krók ) skipstjóri, hið nýja skip, sem átti eftir að verða hans annað heimili um nær tvo tugi ára, eða allt fram til ársins 1930, og var hann óslitið skipstjóri á Olivette allan þann tíma, en skipið var ávallt gert út frá Patreksfirði á vegum Ólafs Jóhannessonar. Var þá liðinn nær aldarþriðjungur síðan hann tók við skipstjórn, og átti hann því láni að fagna, að hafa aldrei hlekkzt á á sinni löngu sjómannsævi. Fullan fjórðung aldar var hann skipstjóri á útvegi síns gamla vinar og sameignarmanns að Ísafoldinni, Ólafs Jóhannessonar. Var Ólafur í senn einkar farsæll skipstjóri og aflasæll mjög, kappsfullur, og þó í hófi og aðgætinn.
Varð honum vel til manna og hélt sömu mönnum oft lengi í skiprúmi, enda þekktur orðinn að aflasæld og góðum útbúnaði skips síns, eftir því sem þá tíðkaðist.
Skip hans, Olivette, var um 38 tonn að stærð, og eins og aðrar fiskiskútur þess tíma búið seglum einum til gangs. Þægindum var litlum fvrir að fara. Ekkert skýli ofandekks, ekkert stýrishús, enginn kortaklefi, aðeins kappinn einn og svo, stýrisásinn að standa við, hvernig sem veður létu. Öryggistækin voru og færri, aðeins kompásinn, loggið og lóðið, og vegvísarnir á ströndinni engir fyrstu árin. Á seinni árum fékk Ólafur hjálparvél í skip sitt, og voru menn þá mun betur settir en áður, meðan ládeyðan gat heft för þeirra svo mörgum klukkustundum skipti.
Á slíkum skipum var jafnaðarlegast 14-17 manna áhöfn, en fækkaði er kom fram um sólstöður. Þurftu þá ýmsir að fara heim og sinna búum sínum, rúning sauðfjár, öðrum vorverkum og síðar slætti, því að margir háseta voru bændur úr nærliggjandi sveitum. Var oft ærið kapp, eða fiskirígur, milli skipstjóra hinna ýmsu kúttera, en vel mátti Ólafur jafnan una sínum hlut, enda skipið hið bezta af skipum slíkrar tegundar, vel við haldið og hið fríðasta á sjó að sjá og gott í sjó að leggja.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 apríl 1952.
Úr grein Einars Sturlaugssonar.


  • 1
Antal sidvisningar idag: 378
Antal unika besökare idag: 26
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075758
Antal unika besökare totalt: 77627
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:57:47