02.11.2018 09:48

B. v. Skallagrímur RE 145. LCHK / TFRC. Fiskað á Halanum haustið 1921.

Botnvörpungurinn Skallagrímur RE 145 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 639. Kveldúlfsskipin Þórólfur RE 134 og Skallagrímur RE 145 munu hafa verið fyrstu skipin sem hófu togveiðar á Halanum, hinum gjöfulu fiskimiðum út af Ísafjarðardjúpi, með góðum árangri, haustið 1921. Þó nokkrir höfðu reynt sig þar áður, jafnvel frá árinu 1911, en með misjöfnum árangri. Mörg ár voru í það að dýptarmælirinn kæmi til sögunnar sem auðveldaði mönnum að kortleggja fiskimiðin. Þeir gátu einungis reitt sig á handlóð og setja út dufl til staðsetningar. Greinin hér að neðan birtist í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1945, og er höfundur hennar, Guðmundur Guðmundsson skipstjóri frá Móum á Kjalarnesi. Hann var þá skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfi. Lýsir hann þeim örðugleikum sem skipstjórarnir áttu við að etja að ná tökum á þessari nýju og gjöfulu togslóð. Halamið eru ein bestu fiskimiðin við Ísland þó víðar væri leitað. Að sama skapi eru þau ein hættulegustu mið við landið hvað veðrabrygði varðar, og mörg skip farist þar með manni og mús, eins og sagan sýnir, þar sem enginn hefur orðið til frásagnar.


Kveldúlfstogarinn Skallagrímur RE 145 á siglingu.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Tvær fyrstu togveiðiferðir á Halann                    og tildrög þeirra

Ekki verður um það deilt, að Halinn sé mesta og bezta togfiskimið í heimi, því að ekkert fiskimið þekkist, hvorki hér við land né annars staðar, þar sem asfiski getur verið á öllum tímum árs, nema á Halanum, enda hafa íslenzkir togarar undanfarin styrjaldarár fengið þar fullfermi túr eftir túr. Og er víst ekki of djúpt tekið í árina, þótt sagt sé, að tveir þriðju hlutar togaraaflans séu fengnir á Halanum. Á þessu geta allir séð, hve mikil gullnáma þetta veiðisvæði er. Það verða nú bráðlega þrjátíu ár síðan fyrst var reynt með botnvörpu á þessu miði, og hefir mér því komið til hugar að segja tildrög þess, að þar var reynt með botnvörpu. Árið 1911 hafði orðið allmikil fjölgun í íslenzka togarflotanum. H. f. Ísland hafði keypt "Lord Nelson", stórt og mikið skip, Thor Jensen o. fl. höfðu keypt Snorra Goða, eldra, Th. Thorsteinsson o. fl. leigt tvo togara frá Aberdeen og Eggert Ólafsson var keyptur til Patreksfjarðar. Þetta ár tók ég við skipstjórn á Snorra Sturlusyni; hann var byggður í Hull árið 1900, 75 smálestir nettó. Heldur þótti Snorri lítið sjóskip og togskip varla í meðallagi. Undanfarin vor hafði verið fiskað í Faxaflóa, en nú hafði hann síðustu tvær til þrjár vorvertíðir fyllzt af frönskum togurum, svo að íslenzku skipstjórarnir höfðu ekki mikla trú á, að þar aflaðist, innan um alla Fransmennina. Hugðu því flestir til að reyna við Austurland, því að heyrzt hafði, að enskir togarar fiskuðu þar vel um þennan tíma árs, en fiskur var þar frekar smár. Ég hafði verið þar árið 1908 á saltfiskveiðum með enskum togara, "Lysander", skipstjóri var Árni Eyjólfsson Byron. Afli var heldur rýr og að mestu smáfiskur, og veðráttan þokusöm.


Kveldúlfstogarinn Þórólfur RE 134 á veiðum.                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Um 20. maí fórum við austur á Snorra Sturlusyni, vorum þar 5-6 daga og fengum sæmilegan afla af smáfiski, höfðum á þessum tíma fengið sem svarar hálfum túr, en þá bilaði vélin svo að ekki var hægt að toga svo að gagni væri. Var því haldið til Reykjavíkur og leitað viðgerðar á vélinni. Fátt var þá um leikna vélaviðgerðarmenn og lítið um verkfæri. Eftir um viku dvöl í Reykjavík var viðgerðinni lokið, vélin reynd og reyndist sæmilega. Var svo undirbúinn annar túr og haldið á veiðar. Ekki leizt mér á að fara austur aftur, var það aðallega af því að togvinda okkar tók ekki nema 300 faðma af togvír hvorumegin, en dýpi er víðast hvar mikið fyrir austan. Var því haldið vestur, reynt báðum megin við Ísafjarðardjúp, djúpt og grunnt, en afli var tregur; sömuleiðis reyndum við undir Kögri, bæði djúpt og grunnt, en fengum lítinn afla. Háseti var með mér þetta úthald, Þórður Sigurðsson, þá um fimmtugt; hafði hann lengi verið stýrimaður á skútum frá Reykjavík, bæði á færafiski og reknetum. Þórður var ágætur sjómaður og eftirtektarsamur mjög. Vorum við að kippa austur og Þórður við stýrið. Við vorum að tala saman um aflatregðu, og sagðist þá Þórður vel geta trúað að fiskur væri á 85-90 föðmum N.-A. af Horni. Kvaðst hann hafa verið með Bandaríkjamönnum á flyðruveiðum á þessum slóðum um þetta leyti árs og oft fiskað mikið af þorski á lóðirnar. Botn hélt hann dágóðan, og töluðum við um þetta fram og aftur. Fórum við svo niður í kortaklefa og athuguðum kortið, því að Þórður kunni góð skil á notkun sjókorta. Var svo haldið út N.-A. af Horni á 85-90 faðma dýpi og byrjað að toga. Þar var ágætis afli, en nokkuð var það til tafar, að mikið var af allstóru, lausu grjóti í botninum og vildi því oft verða gat á pokanum.


Skallagrímur RE 145 (til hægri) mætir hér Garðari GK 25 á toginu.        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Settum við þar niður dufl og tók þá von bráðar fyrir að við fengjum steina í pokann. Vorum við þarna í vikutíma og fylltum skipið af vænum þorski. Ekkert skip sáum við þarna, nema Súluna, sem var þá á lóðaveiðum og var gerð út frá Norðfirði. Hún var langt fyrir austan okkur, svo að við sáum hana ekki nema í kíki. Á heimleið átti ég langt tal við Þórð um hvort hann héldi ekki að til væri fleiri góð togmið, sem ekki hefðu verið reynd áður, þar sem hann hefði fiskað með Bandaríkjamönnum. Sagði hann þá, að eitthvert bezta mið þeirra hefði verið að vestanverðu við Djúpið, alveg úti í kanti. Þar gengi all-langur tungulagaður tangi í A.N.A út í Ísafjarðardjúp. Þar hefðu þeir fengið á 100-150 faðma dýpi mjög góðan afla, en botn hélt hann að væri þar frekar slæmur, þar væri líka mikill straumur og illviðrasamt. Að lönduninni lokinni var farið aftur á sömu slóðir og fékkst þar annar sæmilegur túr. Síðan hafa íslenzkir togarar stundað veiðar á Hornbanka og oft fengið góðan afla, einkanlega síðara hluta maí og í júnímánuði og sömuleiðis vetrarmánuðina desember og janúar. Haustið 1915 að síldveiðum loknum, sendi h.f. Kveldúlfur togara sína, Skallagrím, Snorra Goða og Snorra Sturluson til viðgerðar til Kaupmannahafnar. Komum við úr þeirri ferð snemma í desember og var þá búizt á veiðar 10.-12. desember. Veðrátta var mjög slæm, sífelld austan stórviðri og hvergi fisk að fá, enda ekki hægt að fiska nema á grunnmiðum. Eftir viku tíma vorum við að toga, í mjög slæmu veðri, grunnt undan Skálavík og var lítill afli. Síðustu fjóra dagana höfðum við verið á líkum slóðum og Skallagrímur; skipstjóri á honum var þá Guðmundur Jónsson á Reykjum. Um hádegisbilið talaði hann við okkur, hafði hann verið úti nokkuð lengur en við, sagði hann, að hér fyrir vestan væri ekkert að fá, nema illviðrið. Sagðist hann ætla suður í Faxaflóa og hélt að fiskur myndi vera í Garðsjó, sem algengt var um þetta leyti árs, nokkru fyrir jól.


Veitt í salt á Garðari GK 25 á Grænlandsmiðum.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Nokkru síðar héldum við inn á Hesteyri og lögðumst þar. Heldur þótti mér horfa óvænlega með túrinn og var nú farið að athuga, hvernig vænlegast væri að bjarga honum. Kolin voru slæm, tekin í Höfn, og vorum við búnir að nota mikið af þeim. Datt mér þá í hug mið það, sem Þórður hafði talað um 1911, út með Djúpinu og var nú ákveðið að reyna þar þegar lygndi. Um kl. 3 um morguninn var vindur  nokkru hægari, og hafði mig dreymt fiskilega um nóttina. Var þá akkerum létt og haldið út. Þótti það æði langt að halda fimm tíma beint til hafs. Austan stormur var, en fór heldur lygnandi. Klukkan 10 f.h. var kastað á 85 faðma dýpi, mjög nálægt þeim slóðum, sem Þórður hafði lýst. Var þar ágætur afli, en ekki þó mok. Komumst við á um eða yfir 100 faðma og var þar mikið af karfa. Héldum við okkur á 85-90 föðmum og rifum ekki mjög mikið. Aflinn var vænn þorskur og mjög mikið af smá- og stofnlúðu. Á aðfangadag vorum við orðnir íslausir og mikill fiskur á þiljum; var þá haidið til Patreksfjarðar eftir ís. Austan strekkings storumr var alla dagana, en sjólítið. Ekkert skip sáum við þessa daga, enda var skyggni slæmt. Þegar við höfðum siglt rúman klukkutíma á leið til Patreksfjarðar, fórum við framhjá botnvörpungnum Apríl, dálítið á stjórnborða, skipstjóri á honum var Þorsteinn Þorsteinsson; fyllti Apríl sig í þessari ferð á mjög skömmum tíma. Hjalti Jónsson fór svo með skipið til Fleetwood kortalaus eða kortalítill, eins og getið er um í bókinni Eldeyjar-Hjalti. Við fengum ísinn mjög fljótt á Patreksfirði og lágum þar til kl. 2 f. h. á jóladag.


Pokinn hífður inn fyrir lunninguna og tæmdur.                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 
 
Aðfangadagskvöld var ég í boði hjá Ólafi sál. Jóhannessyni konsúl og konu hans, og verður þetta kvöld mér lengi minnisstætt fyrir þær ágætu móttökur, sem ég hlaut þar, og er það ágætasta aðfangadagskvöld, sem ég hef notið utan heimilis míns. Var það í fyrsta, en ekki í síðasta sinni, sem ég naut hinnar landskunnu gestrisni, sem á því heimili ríkti. Við fórum út eins og áður er getið kl. 2 f. h. á jóladag í sama austan stormi. Héldum við suður á Röst, fiskuðum þar um það bil í sólarhring, og var góður reitingur af kola. Við komum inn á þriðja í jólum og héldum svo til Fleetwood og fengum ágætan markað. Ekki fórum við þarna út aftur í næsta túr, enda var sífellt illviðri. Þennan vetur var tíð ákaflega slæm, en um mánaðamótin janúar og febrúar gerði mjög góða tíð, og var vertíðin 1916 vanalega nefnd vertíðin góða. Mátti heita að ekki tæki úr dag.
Árið 1921 sendi h.f. Kveldúlfur þrjú af skipum sínum á saltfiskveiðar í miðjum nóvember sem var algengt í þann tíma. Voru það Skallagrímur yngri, Þórólfur og Snorri Sturluson yngri; var ég þá skipstjóri á Þórólfi, afburða góðu skipi, og var það álitið bezta skip togaraflotans og er það líklega enn. Reynt var á þessum vanalegu stöðum, báðum megin við Ísafjarðardjúp, á Hornbanka og víðar.


Snæbjörn Stefánsson skipstjóri á Ver GK 3 teygjir sig yfir lanternljósið á brúarvængnum til að sjá hve mikill fiskur sé í þessu holi.                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Fiskur var mjög tregur, en tíð frekar góð. Öll skipin höfðu farið út um líkt leyti, því að verkfall hafði verið um haustið og öll skip voru á ísfiskveiðum nema þessi þrjú frá Kveldúlfi. Eftir að hafa reynt til og frá, datt mér í hug að reyna á sömu slóðum og um jólaleytið 1915. Hélt ég suður fyrir Djúp og út með því. Veður var gott og sást vel til lands. Kastaði ég þar á 95-100 föðmum og hitti strax á mokafla, hreinan þorsk. Setti ég niður dufl á 95 föðmum, en rétt fyrir utan það voru 150 faðmar. Allmiklar tafir urðu að því, að netin báðum megin reyndust fúin. Höfðum við farið til veiða, að loknum síldveiðum þetta ár, á Nýfundnalandsbankana mánuðina september og október. Botn var þar víðast góður og netin sýndust lítið slitin, en voru orðin fúin. Við urðum því að slá undir nýjum netum og eftir það fengum við ágætis afla, 6-7 poka eftir 30 mínútur. Klukkan mun hafa verið 12 á hádegi þegar byrjar var, en um miðnætti var komið austan hvassviðri, var þá hætt með mikinn fisk á þilfari. Héldum við okkur svo við duflið á meðan gert var að, en töpuðum því nokkru síðar. Nokkru eftir að aðgerð var lokið, var haldið upp í eina klukkustund og síðan austur að vesturkanti Ísafjarðardjúps og haldið sér við Djúpið. Um kvöldið var haldið út aftur, var þá nokkuð lygnara, og byrjað að toga á líkum slóðum og daginn áður. Fengum við um nóttina tvo til þrjá dágóða drætti, en megnið var ufsi, annars rifrildi og festur hvað eftir annað.


Það hefur verið mikill afli í þessu holi, því alls eru um 20 menn í aðgerð.    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Um morguninn, nokkru eftir birtingu, var haldið austur yfir Djúpið og ætlaði ég að reyna í austurhalla þess þegar lokið væri viðgerðum netanna. Þegar komið var austur á kantinn mættum við þar Skallagrími; skipstjóri á honum var Guðmundur Jónsson frá Reykjum. Töluðum við saman, og sagðist hann hvergi hafa fengið fisk, en ég sagði honum frá afla þeim,sem við höfðum fengið þar úti. Ákváðum við að halda þangað út aftur og var svo snúið við og byrjað á nýjan leik. Var þá komið bezta veður og hélzt í næstu 4-5 daga, og bætti það mjög aðstæður allar. Aldrei áður hafði ég þá komizt í annað eins netarifrildi og festur, og aldrei í annað eins mok af fiski, þegar vel gekk, tvo til þrjá drætti rifrildi og festur, næstu tvo til þrjá máske 7-8 pokar eftir 20-30 mínútur. Komum við svo þarna niður á kantinum sínu duflinu hvor, og fór þá heldur að minnka rifrildi, en var þó alltaf mjög mikið. Afli virtist beztur á 115-120 föðmum, oft hreinn þorskur. Ekki var asfiski nema á þessu dýpi. Vöruðum við okkur ekki á hve kanturinn sveigði mikið til norðurs; héldum fyrst að hann mundi vera A.N.A., en hann reyndist liggja mikið meira til norðurs. Hefði þá komið sér vel að hafa dýptarmæli. Héldum við, svo áfram veiðum þar til við vorum alveg orðnir í vandræðum með lifur og salt næstum því búið. Fórum við þá til Dýrafjarðar og létum í land 40-50 tunnur af lifur og tókum dálítið salt.

Hér er verið að taka inn pokan á Víði GK 450.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Var svo haldið út aftur og byrjað á líkum stað. Nokkru síðar fór Skallagrímur heim, hann losaði ekki lifur fyrir vestan. Afii var líkur, þó meiri ufsi. Eftir þrjá daga var haldið heim, var þá saltið búið og lifrarföt öll full, enda var túrinn orðinn alllangur. Fáliðaðir vorum við frekar þennan túr, tuttugu og þrír á, en einvalalið. Höfðum við eitthvað yfir 200 föt lifrar og þótti þetta mjög mikill afli á þessum tíma árs. Meira en helmingur aflans reyndist þorskur. Þegar við höfðum verið þarna í tvo til þrjá daga kom botnvörpungurinn Baldur, skipstjóri Þorgrímur Sigurðsson, og var það fyrsti túr Baldurs. Hann var á ísfiskveiðum og fyllti sig á mjög skömmum tíma. Snorri Sturluson, skipstjóri Sigurður Guðbrandsson, kom sömuleiðis og var á heimleið, hafði verið á Hornbanka allan túrinn, en fiskaði þarna úti í einn dag. Ekki hef ég heyrt, hver hefir gefið þessu fiskimiði nafn, en þennan vetur komst það á og hefir gengið undir Halanafninu síðan. Eins og sagt var í byrjun þessarar greinar, er Halinn tvímælalaust bezta togveiðimið, sem enn hefir fundizt, hvort sem um innlend eða erlend fiskimið er að ræða.


Togari Einars Þorgilssonar & Co, Garðar GK 25. Flestar af myndunum hér að ofan eru teknar af Guðbjarti Ásgeirssyni um borð í honum.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Í Sjómannablaðinu Víkingur II. árg. 1940 í grein, sem Guðmundur Jónsson skipstjóri, Reykjum skrifar og lýsir Halanum, stendur: "Guðmundur Guðmundsson, nú bóndi á Móum á Kjalarnesi, sem stýrði Þórólfi, varð til þess að reyna á Halanum fyrstur þennan vetur". Og í bókinni "Um láð og lög" eftir dr. Bjarna Sæmundsson stendur á bls. 274: "íslenzkir fiskimenn höfðu að vísu komið fyrr á þetta svæði og fiskað þar, en með litlum árangri, þangað til haustið 1921, er Kveldúlfsskipin, fyrst Þórólfur einn og svo Skallagrímur byrjuðu að fiska þar".  

Sjómannablaðið Víkingur. 11-12 tbl. 1 desember 1945.
Guðmundur Guðmundsson frá Móum.

Flettingar í dag: 328
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 718149
Samtals gestir: 53377
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 07:01:52