30.11.2018 12:52

M. b. Draupnir ÍS 322.

Mótorbáturinn Draupnir ÍS 322 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1931 fyrir Axel Jóhannsson skipstjóra og fl. á Siglufirði, hét fyrst Draupnir SI 62. Eik og fura. 16 brl. 50 ha. Tuxham vél. Báturinn var seldur 15 nóvember 1940, Andvara hf í Súðavík, hét þá Draupnir ÍS 322. Báturinn fórst um 20 sjómílur út af Deild 13 febrúar árið 1943 með allri áhöfn, 5 mönnum. Var hann að draga línu sína þegar síðast sást til hans.


Mótorbáturinn Draupnir ÍS 322 á siglingu í Djúpinu.                         Ljósmyndari óþekktur.

                Draupnir SI 62

Axel Jóhannsson hefir fengið nýjan vjelbát frá Danmörku, 17 smálestir með 50 hk. Tuxham vjel. Hann kostaði um 30 þús. kr.

Siglfirðingur. 13 maí 1931.

       M.b. Draupnir Í.S. 322 ferst

Föstudagskvöldið 12. febrúar fór v/b Draupnir frá Súðavík í fiskiróður og fórst með allri áhöfn. Lagði hann lóðir sínar 18-20 sjómílur undan Deild. Laugardaginn 13. febrúar gerði ofsaveður og urðu flestir bátar fyrir miklu veiðarfæratjóni og sumir svo þungum áföllum, að lán má heita að eigi hlauzt stórfelldara manntjón að. v/b Hjördís frá Ísafirði átti lóðir sínar nærri v/b Draupnir og var Draupnir að draga, er Hjördís hélt til lands. Eftir það hefir ekkert spurst til bátsins. Skipshöfn bátsins voru eftirtaldir menn, sem drukknað hafa allir á bezta aldursskeiði:
Guðmundur Hjálmarsson, skipstjóri, 28 ára, átti heimili í Súðavík. Eftirlifandi ekkja hans er Elísabet Sigurðardóttir, Péturssonar, Níelssonar frá Hnífsdal, og eitt barn þriggja ára. Foreldrar Guðmundar eru: Hjálmar Hjálmarsson fyrr bóndi í Hlíð í Álftafirði og kona hans María Rósinkransdóttir, bæði nú búsett á Ísafirði.
Einar Kristjánsson, vélstjóri, átti heimili í Árnesi í Súðavík, 36 ára. Eftirlifandi ekkja hans er Kristín Þórðardóttir og 3 börn á aldrinum 1-5 ára.
Janus Valdimarsson, 31 árs, átti heimili í Tröð í Álftafirði, var ógiftur og barnlaus en fyrirvinna aldraðrar móður sinnar, Sigríðar Albertsdóttur í Tröð.
Rögnvaldur Sveinbjörnsson frá Uppsölum í Seyðisfirði, 22 ára, ógiftur, sonur hjónanna Sveinbjarnar Rögnvaldssonar bónda og Kristínar Hálfdánardóttur á Uppsölum.
Sigurbjörn Guðmundsson frá Hrafnabjörgum í Laugardal í Ögurhreppi, 31 árs, ógiftur. Foreldrar hans látnir, en 5 systkini hans lifa hann.
Þrátt fyrir hið versta veður gerðu eftirlitsskipið Richard og allir stærstu fiskibátarnir frá Ísafirði, tveir bátar h/f Hugins og 4 bátar Samvinnufélagsins, mikla leit að m/b Draupnir. Hófst leitin jafn skjótt og unnt var og lauk ekki fyrr en á mánudaginn 15. febr. Að tilhlutun Slysavarnafélagsins tók einnig flugvél þátt í leitinni. En öll leitin varð þó árangurslaus um nokkra vitneskju um afdrif m/b Draupnis, sem líklegast er að farist hafi af þungum áföllum á heimleið sinni. Álftfirðingar hafa á seinustu 20 árum ekki farið varhluta af slíkum raunum. Á því tímabili hafa þeir misst 4 fiskibáta sína með samtals 17 mönnum. 1922 Tjald með 3 mönnum, 1930 Sæbjörn með 5 mönnum, 1938 Högna með fjórum mönnum og nú síðast Draupni með 5 mönnum. Er það mikið manntjón og eigna svo fámennu byggðarlagi að eiga á eigi lengri tíma á bak að sjá jafn stórum hóp úrvalsmanna sinna, flestra á bezta aldurskeiði, og fjórum skipum. Þrátt fyrir þessi þungu áföll hefir þó sjávarútgerð Áftfirðinga á þessu tímabii sízt orðið eftirbátur annara nágrannabyggðarlaga að framförum og góðum vexti.
M/b Draupnir var eign h/f Andvara í Súðavík, keyptur frá Siglufirði haustið 1940, traustur og góður vélbátur, 16 smál. að stærð, eikarbyggður í Danmörku haustið 1931.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1943.



Flettingar í dag: 484
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719211
Samtals gestir: 53449
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 11:04:35