Blogghistorik: 2020 Mer >>

28.06.2020 13:36

B. v. Menja GK 2. LCJP.

Botnvörpungurinn Menja GK 2 var smíðaður í Hamborg í Þýskalandi árið 1920 fyrir Grótta hf (Hjalti Jónsson) í Hafnarfirði. 296 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,76 x 7,34 x 3,80 m. Skipið sökk á Halamiðum í blíðskaparveðri hinn 9 júní árið 1928. Áhöfninni var bjargað um borð í breska togarann Imperialist H 143 frá Hull.

Það einkennilega við þetta sjóslys er að aðfaranótt 9 júní er Hallgrímur Matthíasson loftskeytamaður á vakt í loftskeytastöðinni í Reykjavík. Heyrir hann þá greinilega neyðarkall frá skipi, en nafn sendandans svo óskýrt að hann heyrir það ekki. Hallgrímur skráir niður tímann þegar skeytið berst. Klukkan er þá 2,47. Síðan sendir hann út fyrirspurn um það hver hafi sent neyðarmerki. Þá fær hann svar frá togaranum Imperialist H 143 sem er á Halamiðum:
"Menja er að sökkva. Erum skammt frá henni. Förum þangað strax" Hallgrímur er þess fullviss að neyðarskeytið hafi verið frá Menju. Síðar upplýstist það svo að loftskeytastöð togarans var biluð þegar hann sökk, og skeytið gat því ekki verið þaðan komið. Aldrei upplýstist hvaðan umrætt neyðarmerki kom. Var hér kannski um að ræða eitt þeirra atvika sem aldrei verður hægt að skýra ?

Heimild: Þrautgóðir á raunastund. 1 bindi.


B.v. Menja GK 2 á veiðum.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

                    Nýr togari

Síðastliðið laugardagskvöld kom hingað nýr togari frá Þýzkalandi. Er hanu eign hf. Grótti og heitir Menja. Togarinn er smíðaður í Hamborg og hefir Hjalti Jónsson framkvæmdastjóri dvalið þar undanfarna mánuði til þess að líta eftir smíðinni. Kom hann með skipinu. Menja er 135 feta löng, vélin hefir 560 hestöfl. Skipið er mjög vandað í alla staði. Fór það frá Hamborg á laugardaginn fyrir páska og var þannig rétta viku á leiðinni. Skipstjóri er Karl Guðmundsson.

Morgunblaðið. 5 apríl 1921.


B.v. Menja GK 2 öslar yfir úfinn sæ.                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

  Hellyerstogarinn Imperialist H 143 frá Hull sem bjargaði áhöfn Menju GK. ImperialistHellyers Bros Ltd í Hull. 488 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 457. Tryggvi Ófeigsson skipstjóri og útgerðarmaður í Hafnarfirði og síðar í Reykjavík var skipstjóri á þessu skipi í nokkur ár, þá ungur að árum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

             Menja GK 2 sekkur í                     blíðskaparveðri á Halamiðum

Það sló flemtri á menn, er þeir fréttu að "Menja" væri sokkin. "Það er naumast okkur helzt á togurunum," sögðu sumir og auðheyrt var, að skelfingar "Forsetaslyssins vöknuðu upp í huga þeirra. En menn vildu ekki trúa því" að "Menja" hefði sokkið, án þess að árekstur hefði orðið. Töldu sumir fullvíst, að annaðhvort hefði skip siglt á hana eða hún lent á hafísjaka. Kl. 7 í gærmorgun kom togarinn "Surprise" með skipshöfnina af "Menju" til Hafnarfjarðar, bg í gærdag hitti Alþbl. að máli tvo af skipshöfninni. Sögðu þeir söguna á sömu leið báðir.  "Menja" fór héðan út á þriðjudagskvöldið var. Fór hún norður að Reykjarfjarðarál og var þar fyrst að veiðum. Síðan var haldið suður á Hala og var þar fjöldi togara að veiðum, 45 sjómílur undan landi. Síðari hluta föstudagsins var stinningsgola, en hægði með kvöldinu.
Um nóttina var hægviðri, en þó var allmikil alda. Hafði aflast dável, og mun hafa látið nærri, að "Menja" hafi haft um 20 tn. lifrar á föstudagskvöldið. Kl. 2 um nóttina tók kyndari eftir því, að sjór fór að koma í vélarrúmið. Streymdi hann allört upp, og fór kyndarinn því inn til yfirvélmeistarans og sagði honum tíðindin. Vélmeistari vildi í fyrstu vart trúa, en fór þó niður í vélarrúmið. Var þá sjórinn þar í ökla. Nú var skipstjóra gert aðvart.
Var þegar tekið að dæla og varpan dregin upp. En dælurnar höfðu ekki við. Sjórinn jókst í skipinu, og ómögulegt reyndist að komast að lekastaðnum. Neyðarfáni var dreginn upp, eimpípan blés og þeir af skipshöfninni, er sváfu, voru vaktir. Bátar voru settir út, og tók það alllangan tíma. Kl. um 31/2 kom togarinn "Imperialist" og fór öll skipshöfnin af "Menju" yfir í hann. Skömmu seinna bar að "Surprise", og kvaðst skipstjóri vera á leið heim. Fór þá "Menju" skipshöfnin yfir í "Surprise". En kL 4 og 40 mínútur seig "Menja" í djúpið. "Surprise" lagði af stað heimleiðis kl. 10 f. h. á laugardag, og eins og sagt hefir verið, kom hann til Hafnarfjarðar kl. 7 í gærmorgun. Skipverjar á "Menju" héldu lífi og limum, en mistu allan sinn farangur.
Á þinginu í vetur kom íhaldið í veg fyrir það, að fram næði að ganga lög um skyldu útgerðarmanna til að tryggja föt og farangur skipverja, þó að svo sé ákveðið í sjólögum margra annara þjóða, að útgerðinni beri að greiða skipshöfnum tjón á fötum og farangri, er þeir verða skipreika. "Menja" sökk án þess að hún ræki sig á önnur skip ,sker eða ís. Ís var ekki einu sinni. nokkurs staðar sjáanlegur. Fólk er slegið ótta, sem vonlegt er. Hverjir verða næstir, og hvernig fer þá? Verða skip í nálægð, og er víst að veður verði sæmilegt, svo að tiltök verði að fara í bátana? Svo spyrja menn. "Menja" var smíðuð í Hamborg árið 1920. Hún var 296 br. smálestir að stærð. Félagið "Grótti" átti hana. Skipstjóri var Kolbeinn Þorsteinsson. Framkvæmdarstjóri "Grótta" er Hjalti Jónsson. Skipið var vátryggt hjá "Trolle & Rothe", og er vátryggingarupphæðin um 400 þús. krónur.

Alþýðublaðið. 11 júní 1928.



28.06.2020 09:12

M. s. Drangajökull sökk á Pentlandsfirði.

Í dag eru liðin 60 ár frá því að flutningaskip Jökla hf, Drangajökull, sökk á Pentlandsfirði í ágætis veðri. Orsakir slyssins eru enn á huldu, en skipið fékk skyndilega á sig mikla slagsíðu. 19 skipverjar voru um borð. Flutningaskipið Drangajökull var smíðaður hjá Kalmarvarf í Kalmar í Svíþjóð árið 1947. 621 brl. 720 ha. Nohab vél. Hét fyrst Foldin og var smíðuð fyrir Skipafélagið Fold hf í Reykjavík. Selt 16 ágúst 1952, Jöklum hf í Reykjavík, fékk nafnið Drangajökull. Skipið sökk í Pentlandsfirði á milli Orkneyja og Skotlands 28 júní árið 1960. Áhöfnin, 19 manns, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og stuttu síðar var þeim bjargað um borð í skoska togarann Mount Eden A 152 frá Aberdeen í Skotlandi sem hélt með skipbrotsmenn inn til Aberdeen.


E.s. Drangajökull.                                                            (C) Ólafur Ragnarsson.

              Kæliskipið Foldin

Þann 17. nóvember síðastliðinn kom hingað til lands nýtt kæliskip, sem heitir Foldin. Skip þetta er smíðað í Kalmarvárv í Svíþjóð. Samningar um smíði þess voru gerðir í ársbyrjun 1945. Það er 625 rúmlestir brúttó og tekur til flutnings 500-550 smálestir af flökum. Aðalvélin er 720 hestafla Noabvél. Lestað gengur skipið 11,5 mílu. Í reynsluför fór það 12,5 mílu. Hjálparvélar eru þrjár, tvær 16 hestafla og ein 130 ha. Þegar skipið er á siglingu, eru Ijós og frystivélar drifnar af 20 k\v rafal, sem aðalvélin rekur. Pressur eru af Stalgerð. Í lestunum er hægt að halda 18° frosti við 25° utanborðshita. Skip þetta virðist að öllu hið vandaðasta og sérstaklega eru mannaíbúðir allar og allt fyrirkomulag viðvíkjandi áhöfninni með ágætum. Yfirmenn á Foldinni eru: Ingólfur Möller, skipstjóri, Steinar Kristjánsson 1. stýrimaður og Guðmundur Hjaltason 2. stýrimaður. Fyrsti vélstjóri er Jón Örn Ingvarsson. Foldin er eign Skipafélagsins Foldin, en stjórn þess skipa: Baldvin Einarsson, Óskar Normann og Geir Zoéga.

Ægir. 11 og 12 tbl. 1 nóvember 1947.


E.s. Foldin í slippnum í Reykjavík.                                                                    (C) Pétur Thomsen.

  Drangajökull sökk í Pentlandsfirði

  Skozkur togari bjargaði áhöfninni

Morgunblaðinu barst í gærkvöldi svohljóðandi einkaskeyti frá fréttaritara sínum í Færeyjum: DRANGAJÖKULL, sem var staddur í Pentlandsfirði sendi út neyðarskeyti kl. 19,39 svohljóðandi: Turning over portside (Er að hvolfa á bakborða). Svo heyrðist ekki meira til hans. En kl. 20 kallaði skoski togarinn Mount Eden frá Aberdeen til Wickradíó, og skýrði loftskeytamaður hans svo frá að togarinn hefði bjargað öllum sem á Drangajökli voru, samtals 19 manns. Hann er nú á leið til Aberdeen. Togarinn kom að Drangajökli þegar hann var að velta á hliðina. Fór hann alveg yfir um og stóð botninn upp nokkra stund, en svo sökk skipið stuttu síðar.
Samkvæmt þeim fréttum, er Morgunblaðið gat aflað sér í gærkvöldi, var DrangjökuII á heimleið frá Ósló, Amsterdam og fleiri Evrópuhöfnum, fullhlaðinn kartöflum og öðrum varningi, og með dráttarvélar á dekki.
Skipstjóri var Haukur Guðmundsson, Nökkvavogi 31 í Reykjavík, og voru kona hans og barn með í ferðinni. Haukur er reyndur sjómaður og hefur um langt skeið verið fyrsti stýrimaður á skipinu, en þetta var hans fyrsta ferð sem skipstjóri. Aðrir skipverjar voru:
Georg Franklínsson, I. stýrimaður, Hverfisgötu 102. Finnbogi Kjeld, II. stýrimaður, Ytri-Njarðvík. Helgi Þorkelsson, 1. vélstjóri, Kleifarvegi 5. Sveinbjörn Erlingsson, II. vélstjóri, Efstasundi 63. Tryggvi Oddsson, III. vélstjóri, Skúlagötu 56. Bjarni Sigurðsson, loftskeytamaður, Njarðargötu 31. Árni Jónsson, bryti, Víðihvammi í Kópavogi. Haraldur Helgason, matsveinn, Ásgarði 123. Þórður Geirsson, bátsmaður, Bólstaðahlíð 33. Gunnar Bjarnason, háseti, Neskaupstað. Guðjón Erlendsson, háseti, Ásgarði 39. Ævar Þorgeirsson, háseti, Birkimel 8B. Gylfi Pálsson, háseti, Innri-Njarðvík. Þorlákur Skaptason, háseti, Tómasarhaga 44. Karl Jónsson, smyrjari, Tómasarhaga 57. Vilhjálmur Vilhjálmsson, messadrengur, Mávahlíð 42.
Drangjökull var 621 smálest að Stærð, byggður í Svíþjóð 1948 og talinn gott sjóskip. Yfirbygging var í skutrúmi, og þar voru íbúðir skipverja, eldhús, stjórnklefi, loftskeytaklefi og vélarúm.

Morgunblaðið. 29 júní 1960.


Drangajökull við bryggju í Reykjavík.                                        (C) Ólafur Ragnarsson.


Skorski togarinn Mount Eden A 152 frá Aberdeen sen bjargaði áhöfninni af flutningaskipinu Drangajökli á Pentlandsfirði hinn 28 júní árið 1960.    Mynd úr safni mínu.

      Drangajökull sökk á 20 mín

     Fólkið fór allt í gúmmíbátana

Ekki er vitað neitt frekar af hvaða orsökum skipið Drangajökull fórst svo skyndilega í Pentlandsfirði, milli Skotlands og Orkneyja, í fyrradag. Skipbrotsmennirnir komu til Aberdeen í gær, en svo virðist að þeir vilji ekkert segja um orsakirnar fyrr en við sjópróf. Þeir eru væntanlegir heim með flugvél Flugfélagsins á föstudag. Sjópróf fara fram í Reykjavík en ekki er enn afráðið hvort þau geta hafist þegar á laugardaginn. Það er lauslega áætlað að tjónið í skiptapa þessum, bæði skip og farmur, nemi a.m.k. 20 milljónum króna. Mbl. bárust í gær nokkru nánari fregnir af þessu sviplega atviki frá fréttamanni í Aberdeen. Það var skozki togarinn Mount Eden, 293 tonn sem bjargaði skipshöfninni á Drangajökli og kom hann með skipbrotsmenn til Aberdeen árdegis í gær, miðvikudag, Mount Eden var að koma úr tólf daga veiðiför á Færeyjamiðum og var að sigla með aflann til Aberdeen. John Snelling skipstjóri á skozka togaranum segir, að hann hafi verið um 5 mílur frá Drangajökli, þegar hann varð þess vísari að þetta íslenzka skip var í nauðum statt. Þetta gerðist þar sem Pentlandsfjörður er mjóstur undan vitanum á Stromaeyju og er þar 40 faðma dýpi. Sjö vindstig voru á norðan.
Þegar Mount Eden kom að Drangajökli var hann enn á floti, en hafði hvolft. Skipsmenn höfðu allir komizt í gúmmíbjörgunarbátana. Allir voru ómeiddir og glaðir yfir björguninni, sem barst þeim svo fljótt. Flestir voru þurrir, nema fjórir eða fimm þeir síðustu sem yfirgefið höfðu skipið, þeir höfðu stokkið í sjóinn en komizt upp í gúmmíbátana. Yngsti skipbrotsmaðurinn var Gunnar fjögurra ára sonur skipstjóra. Utan um hann hafði verið vafið til hita, hollenzkum fána, en fáni þessi hafði verið þrifinn í fáti upp úr fánakistu skipsins, þegar fólkið varð svo skyndilega að yfirgefa það. Drangajökull sökk niður að aftan og hvarf í hafið skömmu eftir að fólkið var komið um borð í Mount Eden. Einn skipverjanna á skozka togaranum, hásetinn John Warman sagði við fréttamanninn: "Þessi björgun var Guðs mildi". Hann bætti því við að Pentlandsfjörður væri alræmdur fyrir hringiður, straum og úfinn sjó. Skipbrotsmennirnir búa nú á sjómannaheimilinu í Aberdeen. Þegar fréttamaðurinn kom þangað var Gunnar litli sá fyrsti sem kom á móti honum. Hann var á hlaupum fram og aftur á rósrauðum inniskóm og hafði verið að borða morgunmat, cornflakes og mjólkurglas. Loftskeytamaðurinn á Drangajökli, Bjarni Sigurðsson sem er 31 árs upplýsti, að skipið hefði sokkið á 20 mínútum. Hann kvaðst hafa verið mjög glaður yfir því að togarinn kom svo skjótt til hjálpar eftir að neyðarkall hafði verið sent út.
Drangajökull var að koma frá Vestur Evrópulöndum með ýmsan varning. Hafði hann tekið varning í Noregi, Hollandi, Belgíu og Englandi. Síðasta viðkomuhöfn hafði verið London. Farmurinn var m. a. kartöflur, þurrkaðir ávextir, margskonar stykkjavara og dráttarvélar á dekki. Skipið var vátryggt hjá Tryggingamiðstöðinni en varningurinn hjá ýmsum félögum. Í upptalningunni yfir skipsmenn í blaðinu í gær vantaði einn, en hann er Vilhjálmur Vilhjálmsson Mávahlíð 42, sem er 14 ára drengur. Var hann skráður sem messadrengur en mun fremur hafa verið í skemmtiferð með skipinu.

Morgunblaðið. 30 júní 1960.

21.06.2020 11:23

V. b. Muninn NK 74.

Vélbáturinn Muninn NK 74 var smíðaður í Oddaverkstæðinu á Fáskrúðsfirði árið 1930 fyrir Vilhjálm Björnsson útgerðarmann á Búðum í Fáskrúðsfirði. Hét fyrst Gammur SU 40.15 brl. 40 ha. Skandia vél. Seldur 1 september 1933, Jóni Benjamínssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét Gammur NK 59. Seldur 1938-39, Ármanni Magnússyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét þá Muninn NK 74. Sökk eftir árekstur við vélbátinn Fylki NK 46 frá Neskaupstað út af Glettinganesi 23 júlí árið 1940. Áhöfninni, 8 mönnum, var bjargað um borð í Fylki sem þegar hélt inn til Neskaupstaðar með skipbrotsmennina.


V.b. Muninn NK 74 á siglingu á Norðfirði.                                     (C) Þórður Jóhannsson.

              Síldarskip sekkur
                   Mannbjörg

Norðfirði, miðvikudag.
Vjelbátarnir Fylkir og Muninn rákust á út af Glettingarnesi í gær. Var Muninn að koma af síldveiðum. Var hann fullfermdur. Hann sökk eftir 3-4 mínútur. En mennirnir 8 sem voru á bátnum gátu stokkið yfir í Fylki. Um orsakir eða aðdragana að árekstrinum er ekki upplýst. Málið er í rannsókn. Fylki sakaði ekki og er hann kominn á veiðar.

Morgunblaðið. 25 júlí 1940.


21.06.2020 10:00

Smábátahöfnin á Akureyri fyrir margt löngu.

Þær eru margar fallegar trillurnar þarna í höfninni, sennilega á Oddeyrartanganum á Akureyri um miðja síðustu öld. Lengst til vinstri má sjá í 598. Kára EA 44, smíðaður í Skipasmíðastöð Gunnars Jónssonar á Akureyri árið 1929. Hann hét fyrst Kári Sölmundarson EA 454. 11,93 brl. með 38 ha. Tuxham vél. Þessi bátur var afhentur Þjóðminjasafninu til varðveislu árið 1988. Ætli hann hafi verið einn af þeim bátum sem brunnu á geymslusvæði safnsins í Kópavogi árið 1992-93 ? Svo má sjá þarna EA 158, sennilega 5392. Gunnar Helgason, smíðaður af Júlíusi Helgasyni í Hrísey árið 1948, 1,36 brl. Fiskhjallar og bátar á kambinum handan hafnarinnar og Kaldbakur snæviþakinn handan Eyjafjarðar í fjarska. Einstaklega falleg mynd.


Smábátahöfnin á Akureyri.                                          (C) Gunnlaugur P Kristinsson. Gamalt póstkort.

14.06.2020 08:39

2861. Breki VE 61 í slippnum í Reykjavík.

Skuttogarinn Breki VE 61 var tekinn í slipp í Reykjavík fyrir stuttu síðan. Ég tók þessar myndir af togaranum á sjómannadaginn s.l. Sannarlega fallegt skip.
Breki VE 61 var smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2017 fyrir Vinnslustöðina hf í Vestmannaeyjum. 1.223 Bt. 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. Kom til heimahafnar sinnar, Vestmannaeyja hinn 6 maí 2018 eftir sex vikna siglingu frá Kína. Skipið er hannað af verkfræðistofunni Skipasýn í Reykjavík í samstarfi við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal. Breki VE er útbúinn til að geta togað með tvö troll eins og systurskipið Páll Pálsson ÍS 102. Skipin hafa einnig stærri skrúfur en áður hafa verið í skipum af þessari stærð og fæst mikill orkusparnaður við það.


2861. Breki VE 61 í slippnum í Reykjavík á sjómannadaginn s.l.




                                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7 júní 2020.




07.06.2020 10:44

E. s. Gullfoss. LCDM / TFGA.

Eimskipið Gullfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsvært í Kaupmannahöfn árið 1915. 1.414 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Gullfoss var fyrsta skip  h/f Eimskipafélags Íslands (Óskabarns þjóðarinnar) sem stofnað var, 17 janúar árið áður  Skipið var fyrsta millilanda og farþegaskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og var auk þess útbúið frystilest. Gullfoss varð innlyksa í Kaupmannahöfn þegar Þjóðverjar hernámu Danmörk, 9 apríl 1940 og var skipið í þjónustu þeirra allt til stríðsloka. Er bandamenn hertóku Kiel í maí árið 1945 fannst þá skipið þar, þá mjög illa farið, en það hafði verið notað sem spítalaskip. Selt 1945-46, Baldvin Einarssyni og Pétri Guðmundssyni í Reykjavík. Þeir komu skipinu til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem það var gert upp. Þeir seldu skipið árið 1947, P/F Skipafélag Föroyja, hét þar Tjaldur. Selt til niðurrifs árið 1953, Eisen & Metall K.G.- Lehr & Co í Hamborg í Þýskalandi og var rifið þar sama ár. 


E.s. Gullfoss.                                                                                        (C) Handel & söfart museet.dk

          Gullfoss kominn
      Borgin fagnar skipinu

Börnin vakna snemma þegar hátíð fer í hönd. Tilhlökkunin vekur þau fyrir allar aldir. Svo var það jafnan á "laufabrauðsdaginn" í sveitinni, enda er hann þar sem laufabrauð tíðkast, mesta hátíð barnanna, önnur en jólin. Við erum stundum börn þótt æskuskeiðið sé á enda runnið. Svo var það í gær. Maður vaknaði í sólarupprás og fór á fætur. Rúmletin gat ekki haldið manni í skefjum. Tilhlökkunin knúði mann á fætur og út á götuna. Því nú var sögulegur dagur í vændum, sá dagur, þegar Ísland átti að fagna fyrsta farþegaskipi sínu, fyrsta vorgróðri þeirrar vonar, er þjóðin hefir alið í brjósti um ótal mörg ár, að verða sjálfstæð. Sá bóndi er eigi talinn höldur góður, sem eigi á reipi til þess að binda í hey sitt. Sú þjóð, sem eigi er svo sjálfbjarga, að hún geti flutt að sér lífsnauðsynjar sínar, getur eigi talist með þjóðum, hvað þá heldur öndvegisþjóð. En það voru Íslendingar einu sinni. Hlutur þeirra var fyrir borð borinn, bæði af þeim sjálfum og öðrum, en kyngöfgin, sem með þjóðinni býr gat eigi þolað það um allar aldir. Því er nú margs þess freistað er djarft má teljast og engi örkvisaháttur. Svo er um Eimskipafélagið, en fyrsta skip þess kom í gær. Sem sagt, maður var snemma á ferli. Norðvestangustur næddi yfir borgina, en sólin reis í austri og boðaði ljós og yl yfir landið. Aldrei þessu vant var fólk á ferli hvar sem maður kom. Öllum varð þráin svo sterk að þeir gátu eigi sofið.


E.s. Gullfoss við komuna til Reykjavíkur. Til hægri er togarinn Íslendingur RE 120. (C) Þjóðminjasafn.
  
Gullfoss fer að koma! Eins og fyrr er sagt var svo til ætlast að Ingólfur færi á móti Gullfossi. En Ingólfur varð veðurteptur uppi í Borgarnesi. Þá fékk stjórn Eimskipafélagsins botnvörpunginn "Íslending" til þess að fara á móti skipinu. Hann átti að leggja af stað klukkan hálf átta og það gerði hann líka. Úti fyrir var allsnörp kvika og ekkert var til þess að hressa sig á. Hefði það verið auma lífið ef Elías hefði ekki gefið manni vindla. Nokkru utar eyjum mættum við Gullfossi. Íslendingurinn skreytti sjg fánum og Gullfoss var þegar skreyttur sömu prýði. Rétt áður en skipin mætast kallar Halldór Daníelsson, fyrverandi bæjarfógeti, að allir þeir, sem vilji hrópa húrra fyrir íslenzka skipinu, skuli ganga fram í stafn og urðu allir til þess. Kvað þá við nífalt fagnaðaróp, svo undir tók í fjöllum beggja vegna við landnám Ingólfs Arnarsonar. En er bergmál fagnaðarópsins dó út, kastaði íslendingurinn kveðju á Gullfoss og svaraði íslendingaskipið. Var nú snúið við og kom þá vélskipið "Hera" sem Garðar Gíslason á, og var hann þar sjálfur í stafni. "Hera" var svo fánum skreytt sem frekast var unnt og efst við sigluhúna blöktu tveir stórir íslenzkir fánar.


Gullfoss í Kaupmannahöfn á stríðsárunum.                                       Ljósmyndari óþekktur.
  
Hvar er "Danmark" ? Hvar er "Dannebrog" ? spurði hver annan og gláptu á Gullfoss. Hvar eru þjóðernismerkin, sem skip verða að hafa til þess að Þjóðverjar skjóti þau eigi í kaf ? Jú, við nánari athugun sáust merki eftir rauðar og hvítar randir niður við sjómál á skipinu. Dönsku þjóðernistáknin höfðu verið afmáð í Vestmanneyjum, en sjórinn hafði þvegið hið neðsta af, aðeins til þess að sýna, að þau hefðu verið þar einu sinni. Þá er að minnast á fánana á Gullfossi. Efst við sigluhúna blöktu einkennisfánar félagsins, blár kross (Þórshamar) á hvítum feldi og ýmsar skrautveifur teygðust niður að þilfari. Í afturstafni var Dannebrog póstfáni. Málað var yfir dönsku þjóðernistáknin á hliðum skipsins, svo sem fyrr er sagt, og skal þar ekki fleiri orðum að vikið. En í landi blöktu margir danskir fánar og var það skiljanlegt og fyrirgefanlegt af þeim er danskir eru þótt þeir veifi sinnar eigin þjóðar fána. En íslendingum, bornum og barnfæddum hér, er það eigi afsakanlegt að vilja heldur sýna lit annara þjóða en sinnar eigin. Þá var Th. Thorsteinsson betri. Eigi aðeins lét hann verzlanir sínar veifa íslenzkum fánum, heldur sendi hann einnig bát í móti Gullfossi og var þar veifað óteljandi íslenzkum fánum. Og milli siglutrjánna var sími strengdur og á honum miðjum fangamark verzlunarinnar, en beggja vegna íslenzkir fánar. Var það falleg kaupmannskveðja.


Gullfoss nær flaki er hann fannst í Kiel í stríðslok.                                          Ljósmyndari óþekktur.

Þegar Gullfoss kom inn á milli eyja fluttust farþegar Íslendingsins yfir í hann. Dreif þá jafnharðan að marga báta, stóra og smáa, sem vildu fagna skipinu og voru á flestum þeirra margir menn sem komnir voru til að skoða skipið. Og er það lagðist í hafnarmynninu dreif svo mikill fjöldi fólks um borð að naumast varð þverfótað á þiljum. Allir vildu fá að sjá "skipið sitt", enda var það heimilt. Hélst svo lengi dags að svo krökt var af fólki í skipinu sem fé í rétt þá er þéttast er. Og alltaf kvað við sama viðkvæðið: "En hvað skipið er fallegt" ! "En hvað það er traustlega byggt og snoturlega ! Óhóf ekkert en þægindi sem bezt má verða á slíkum skipum. Og margt fleira var sagt Gullfossi til verðugs lofs. Hvar sem í land var litið úði og grúði af fólki, sem komið var niður að sjónum til þess að fagna skipinu  Kvað þar við lúðrablástur, söngur og fagnaðaróp. Stóðu menn sem þéttast á hafnargörðum beggja megin, steinbryggjunni og Arnarhólstúni. Mátti engri tölu á þann manngrúa koma, en það sögðu þeir, er minnugir eru, að eigi hefði fleira fólk verið hér fram við höfnina þegar Friðrik 8. Danakonungur kom hingað, og verður þó eigi lengra jafnað. Dauf var koman inn á höfnina hefðu eigi bátarnir verið. Hér lágu mörg skip, flest dönsk, en ekkert þeirra fann hvöt hjá sér til þess að varpa kveðju á Gullfoss. "Vesta" og "Sterling" lágu á bakborða og þögðu. "Fálkinn" kvaddi skipið með fánanum á afturstafni en "spariflöggin" sparaði hann og hin dönsku skipin auðvitað líka.


Tjaldur ex Gullfoss l í Kaupmannahöfn.                                           (C) Handel & söfart museet.dk
  
Eina skipið, sem hér lá á höfn og hafði svo mikið við að varpa kveðju á Gullfoss, var franskur botnvörpungur og einn af fyrstu bátunum sem koma til móts við skipið sigldi undir frönsku flaggi og átti hann Chouillou kaupmaður. Þegar Gullfoss staðnæmdist inni á höfninni hélt ráðherra ræðu. Hann stóð á stjórnpalli, en manngrúinn fyrir neðan og hlýddi á. Hann mælti á þá Ieið að þetta væri íslendingum gleði- og gæfudagur. Íslenzka þjóðin fagnaði hér sínu eigin skipi, sem hún hefði eigi einungis lagt fé sitt í, heldur vonir sínar og framtíðarþrá. Sagði hann og, að íslenzka þjóðin færði á þessum degi stjórn Eimskipafélagsins hugheilustu þakkir sínar fyrir ósérplægni hennar og dugnað. Bað hann þess að allar góðar fylgjur yrðu þessu skipi hollar og leiddu það höfn úr höfn og frá hafi til hafs. Að endingu bað hann menn hrópa fagnaðaróp fyrir skipinu og komu þess og kvað þá við margfalt húrra.
Vér áttum tal við nokkra farþega á Gullfossi í gær. Luku þeir allir upp einum munni með það, að eigi hefðu þeir ferðast með skipi, er betra væri í sjó að leggja. Auk þess væru á skipinu ýms þægindi, er menn væru óvanir á þeim skipum, sem til Íslands sigla. Alla aðhlynningu kváðu þeir góða, enda eru veitingaþjónar gamalkunningjar íslendinga, flestir þeirra.

Morgunblaðið. 17 apríl 1915.


Eimskipið Gullfoss, fyrsta skip Eimskipafélags.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

             Gullfoss í                         Vestmannaeyjum

Vel fögnuðu Eyjamenn íslenzka skipinu. En sem við mátti búast varð koman þar eigi jafn hátíðleg sem hér. Geta skal þó þess, að Eyjabúar færðu skipinu skrautritað ljóð í gyltri umgerð, og er það fest á vegg í matsofu fyrsta farrýmis. Sigurður Sigurðsson hafði ort og er það svolátandi:

Heill og sæll úr hafi
heill þér fylgi jafna.
Vertu giftugjafi
gulls, í milli stafna,
sigldu sólarvegi
signdur drottins nafni,
ötult, djarft að eigi
undir nafni kafnir.

Morgunblaðið. 17 apríl 1915.

  • 1
Antal sidvisningar idag: 378
Antal unika besökare idag: 26
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075758
Antal unika besökare totalt: 77627
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:57:47