Blogghistorik: 2022 Länk

26.05.2022 17:04

3013. Sólborg RE 27. TFIT.

Frystitogarinn Sólborg RE 27 var smíðaður hjá Langsten Slip & Båtbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1988. 2.707 bt. 812 nettó. 4.079 ha. Wärtsilä Vasa 8R 32 D. 3.000 Kw. 75,90 x 13,00 x 8,32 m. Smíðanúmer 132. Hét fyrst Tasermiut GR 6-395 og var smíðaður fyrir Grönlands Hjemmestyres Trawlervirksomhed í Nuuk í Grænlandi. Frá árinu 1991 er Royal Greenland í Nuuk í Grænlandi eigandi skipsins. Seldur í júní 2009, Nataaqnaq Fisheries Inc. Í St. John´s á Nýfundnalandi, hét þar Labrador Storm (hugsanlega Grænlenskir eigendur). Seldur 16 júlí 2014, Arctic Prime Fisheries í Nuuk í Grænlandi, fær sitt fyrra nafn, Tasermiut GR 6-395. Togarinn var svo seldur í ágúst 2021, Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf, fékk þá nafnið Sólborg RE 27 og er hann gerður út sem frystitogari frá Reykjavík í dag. Sannarlega fallegt skip.
 

3013. Sólborg RE 27 við bryggju í Örfirisey.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Tasermiut GR-395 við Grandagarð.       (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Labrador Storm.                                                            (C) Dean Porter.

         Grænlenskur togari verður ný Sólborg


Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur hf. (ÚR) hef­ur fest kaup á frysti­tog­ar­an­um Tasermiut sem var áður í eigu Arctic Prime Fis­heries á Græn­landi. Arctic Prime fis­heries er að hluta til í eigu Brims og ÚR sem eiga hvor sinn 16,5 pró­sent hlut­inn í græn­lensku út­gerðinni.
Skipið sem legið hef­ur und­an­farna daga við bryggju á Grand­an­um hef­ur fengið nýtt nafn og heit­ir nú Sól­borg RE-27.
ÚR hef­ur áður gert út tvö skip með þessu nafni með góðum ár­angri, nú síðast línu- og neta­bát sem smíðaður var í Kar­sten­sens Skibsværft í Ska­gen í Dan­mörku árið 1988, en hafði verið lagt í nokk­urn tíma. Hún var sömu­leiðis græn­lenskt fiski­skip áður en hún kom til Íslands. Nýja Sól­borg er 75,9 metr­ar að lengd og um 2.550 brútt­ót­onn. Skipið var byggt í Nor­egi árið 1988 fyr­ir Græn­land og er í efsta ísklassa sem fiski­skip eru byggð fyr­ir. „Þetta er nán­ast ís­brjót­ur“, seg­ir Run­ólf­ur V. Guðmunds­son­ar, fram­kvæmda­stjóri ÚR, í sam­tali við 200 míl­ur um skipið.
„Þetta er gríðarlega öfl­ugt og gott skip sem get­ur siglt í al­veg eins meters þykk­um ís leik­andi,“ seg­ir Run­ólf­ur. Að sögn Run­ólfs er stefnt að því að fara fljót­lega í breyt­ing­ar og end­ur­nýj­un á vinnslu­dekki. Til stend­ur að setja upp full­kom­inn vinnslu­búnað til að fram­leiða fyrsta flokks afurðir fyr­ir er­lenda markaði. Spurður hvort fyr­ir liggi hvers kon­ar búnað á að kaupa um borð í skipið seg­ir Run­ólf­ur svo ekki vera. „Það er núna í skoðun hjá okk­ur,“ seg­ir Run­ólf­ur.
Hann seg­ir fjár­fest­ingu ÚR við kaup á skip­inu og búnaði í það verða um þrjá millj­arða þegar upp verður staðið. Sól­borg sækir afla­heim­ild­ir í Bar­ents­haf og mun helst veiða ufsa og karfa. „Við erum að auka rekst­ur­inn. Við eig­um afla­heim­ild­ir fyr­ir annað skip og ætl­um að nýta þær bet­ur,“ aðspurður hver þörf­in væri fyr­ir nýju öfl­ugu skipi inn­an rekst­urs ÚR. „Ný áhöfn verður um borð í Sól­borg, í raun allt nýir menn sem við erum að ráða. 24 í hvorri áhöfn og tvær áhafn­ir sem róa svo alls verða 48 manns með at­vinnu af skip­inu. Svo að það er gert ráð fyr­ir að menn rói einn og einn,“ seg­ir Run­ólf­ur. Hann seg­ist gríðarlega spennt­ur fyr­ir kom­andi tím­um og fyr­ir að koma nýju skipi á sjó.„Þetta er stórt og öfl­ug skip og mun gera góða hluti,“ seg­ir Run­ólf­ur.
Ráðnir hafa verið tveir skip­stjór­ar á skipið; Óli Grét­ar Skarp­héðins­son og Jón Frí­mann Eíríks­son. Óli Grét­ar sem er 43 ára verður skip­stjóri í fyrstu veiðiferð skips­ins. Óli Grét­ar er fædd­ur og upp­al­inn Ólafs­firðing­ur. Í dag er hann bú­sett­ur á Eskif­irð. Óli byrjaði á sjó 1997 og þá á Kleif­a­bergi og var þar þangað til um haustið 2007 þegar hann fór í land til að læra raf­virkj­un. Óli Grét­ar sneri al­farið aft­ur á Kleif­a­bergið í árs­byrj­un 2011, stuttu seinna skráði Óli sig í nám í skip­stjórn sem hann lauk með glæsi­leg­um ár­angri. Óli Grét­ar hef­ur síðan 2018 verið yf­ir­stýri­maður á skip­um ÚR.
Jón Frí­mann Ei­ríks­son sem er 45 ára er fædd­ur og upp­al­inn Ak­ur­nes­ing­ur en er í dag bú­sett­ur í Borg­ar­nesi. Jón Frí­mann hóf sjó­mennsk­una 1994 á skip­um Har­ald­ar Böðvars­son­ar og Co ehf. og hann fór í stýri­manna­skól­ann 1997 til 1999. Jón Frí­man var stýri­maður og af­leys­ing­ar­skip­stjóri hjá Guðmundi Runófs­syni hf. frá 2000 og til 2016. Jón Frí­man hóf störf hjá Brimi 2016 til að fara á ný­smíðina Ak­ur­ey AK þar sem hann var stýri­maður og af­leys­ing­ar­skip­stjóri. Gamla Sól­borg, sem ekki hef­ur verið á veiðum í nokk­urn tíma, hef­ur verið af­skráð í ís­lenskri skipa­skrá og er á sölu. Gert er ráð fyr­ir að skipið sigli úr höfn í sinn fyrsta túr und­ir nýj­um eig­anda í dag.

Morgunblaðið / 200 mílur. 5 ágúst 2021.

 

                                          

 

22.05.2022 09:21

B.v. Surprise GK 4. TFRD.

Nýsköpunartogarinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði. 661 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,17 x 4,55 m. Smíðanúmer 204. Kom til landsins hinn 28 október sama ár. Togarinn strandaði á Landeyjasandi 5 september árið 1968. Áhöfninni, 29 mönnum, var bjargað á land af björgunarsveitum úr Landeyjum og frá Hvolsvelli. Nokkrar tilraunir voru gerðar til að ná togaranum út en þær reyndust árangurslausar. Örlög Surprise urðu eins og hjá fjölda annara skipa sem strandað hafa við suðurströnd landsins, að hverfa í sandsins djúp.
 

B.v. Surprise GK 4 á útleið frá Hafnarfirði.          (C) Snorri Snorrason.
 
B.v. Surprise GK 4 á strandstað á Landeyjasandi.        (C) Ottó Eyfjörð.

 

                Surprise frá Hafnarfirði strandar við Landeyjasand

Í birtingu í gærmorgun strandaði togarinn Surprise GK-4 frá Hafnarfirði á Landeyjarsandi. Áhöfn togarans, 28 manns, bjargaðist öll í land á skömmum tíma, en enn er óvíst um björgun skipsins. Vindur var 6—8 stig og nokkurt brim, er strandið varð, og góð aðstaða til björgunar áhafnarinnar og var hún komin til Hafnarfjarðar um hádegi í gær.
Þjóðviljinn hafði í gær tal af Sófusi Hallfdánarsyni bátsmanni á Surprise og sagðist honum svo frá:  Við fórum frá Hafnarfirði á laugardag og höfðum verið að fiska í þrjá daga á Reykianesgrunni og færðum okkur þá austur með landinu, þar sem veðrið var betra og betri veiðihorfur. Við vorum því flestir sofandi um borð og stímvaktin ein uppi, og vaknaði ég um kl. .5.30 við það að togarínn tók niðri. Þá voru 6—8 vindstig og ekki meira brim en vanalega er á þessum slóðum. Ég sá strax að við vorum ekki í beinni lífshættu, en vitaskuld vorum við samt í hættu og lífbátarnir voru strax hafðir til taks, en þeir voru ekki settir út. Loftskeytamaðurinn sendi út neyðarskeyti og björgunarsveitir voru fljótt komnar á vettvang. Við höfðum ekki gefið upp rétta staðarákvörðun og björgunarsveitin fór austar en áttaði sig hvar við vorum þegar við sendum upp neyðarblysin. Þetta voru björgunarsveitir frá Vestur-Landeyjum og Hvolsvelli og voru þeir komnir á strandstað með 17 jeppa. Við vonum 28 um borð og fóru 24 okkar í land á hálfri klukkustund og vöknaði enginn í fæturna, enda var hátt af hvalbaknum, og stutt í land. Allir skipverjar voru mjög rólegir og samtaka svo að björguinin gekk prýðisvel getur maður sagt.
Skipstjóri, stýrimenn og vélstjórar voru eftir um borð til að átta sig á aðstæðum til björgunar skipsins, en þeir voru þó komnir í land á níunda tímanum, en eru enn fyrir austan á strandstað meðan björgunartilraunir standa yfir.
Við hinir komum til Hafnarfjarðar á hádegi. Ef ekki versnar í sjónum hef ég góða trú á að takist að bjarga skipinu og mun varðskip vera væntanlegt til hjálpar. Um orsakir slyssins vil ég ekkert segja og kemur það væntanlega fram við sjópróf, sagði Sófus Hálfdánarson, bátsmaður á Surprise. Ólafur Sigurðsson, loftskeytamaður á Surprise, sagði að hann vildi vekja sérstaka athygli á hve björgunarsveitirnar á Hvolsvelli og í Landeyjum hefðu verið fljótar á vettvang og liprar í öllum afskiptum af þeim skipbrotsmönnum, og hefðu þeir skipverjar notið góðrar aðhlynningar á Hvoflsvelli áður en þeir héldu suður strax fyrir hádegi í gær. Það er áreiðanlega brýn þörf á betri aðvörunarmerkjum þarna á sandinum við suðurströndina, sagði Ólaflur, og sést ströndin alls ekki í radar. Meðan tækin voru að hitna leit ég út og sýndust hin strjálu strá á sandhólunum sem ólgandi sjór og var erfitt að greina þar á milli.

Þjóðviljinn. 6 september 1968.

 

                                         

                   

15.05.2022 14:12

B.v. Fylkir RE 161 að landa afla sínum á Akranesi.

Á þessari ljósmynd, sem er sennilega tekin snemma árs árið 1951, er Fylkir líklega að landa karfa til vinnslu til fiskvinnsluhúsanna á Akranesi. Úranus RE 343 og Neptúnus RE 361, togarar Tryggva Ófeigssonar, lönduðu töluverðum afla þar, að mestu leyti karfa og svo náttúrulega Bjarni Ólafsson AK 67, togari Bæjarútgerðar Akraness. Um þetta leyti voru menn farnir að líta öðrum augum á karfann, að það mætti nýta hann í annað en að moka honum upp til bræðslu. Fylkir var sannarlega fallegt skip en örlög hans urðu frekar dapurleg.
Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir útgerðarfélagið Fylki h/f í Reykjavík. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 784. Skipinu var hleypt af stokkunum 13 október árið 1947 og var síðan fleytt niður til Hull þar sem vélum og katli var komið fyrir og skipið klárað. Fylkir var afhentur eigendum sínum hinn 13 febrúar árið 1948, eða fyrir rétt rúmum 74 árum. Togarinn sökk í Þverálnum um 33 sjómílur norður af Straumnesi 14 nóvember árið 1956. Tundurdufl kom í veiðarfæri skipsins og sprakk við síðu þess með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 32 menn, komst við illan leik í annan björgunarbátinn. Þeim var síðan fljótlega bjargað um borð í togarann Hafliða SI 2 frá Siglufirði sem hélt með skipbrotsmennina til hafnar á Ísafirði. Nokkrir skipverjar meiddust við sprenginguna en enginn lífshættulega, en 2 skipverjar voru lagðir inn á sjúkrahúsið á Ísafirði. Það má teljast kraftaverki líkast að ekki fór verr og manntjón orðið.
Ein af betri frásögnum sem ég hef lesið um þetta slys er rituð af Sveini Sæmundssyni og birtist hún í tímaritinu Vikunni í desember árið 1972. Heimildarmaður Sveins var að mestu Auðunn skipstjóri.

B.v. Fylkir RE 161 að landa afla sínum í Akraneshöfn. Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Fylkir RE 161 við komuna til Reykjavíkur í febrúar 1948. (C) Guðni Þórðarson.

 

10 nýsköpunartogarinn kominn til Reykjavíkur


Tíundi nýsköpunartogarinn, sem gerður verður út hjeðan frá Reykjavík, kom hingað á sunnudaginn. Er þetta togarinn Fylkir RE 161, eign samnefnds hlutafjelags hjer í bænum, sem einnig á togarann Belgaum. Aðalsteinn Pálsson er skipstjóri á Fylki og fyrsti stýrimaður Ragnar Guðmundsson og fyrsti vjelstjóri Viggó Gíslason. Hjer í Reykjavík verða sett bræðslutæki í Fylki og er gert ráð fyrir að það taki allt að vikutíma, en síðan fer togarinn á veiðar.
Aðalsteinn Pálsson var áður skipstjóri á Belgaum, en nú tekur þar við skipstjórn Páll Sigfússon.

Morgunblaðið. 24 febrúar 1948.

01.05.2022 15:43

B.v. Gylfi RE 235. LCGQ / TFUC.

Botnvörpungurinn Gylfi RE 235 var smíðaður hjá A/G Seebeck í Geestemunde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir h/f Defensor (Magnús Magnússon skipstjóri og fl.) í Reykjavík. 336 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 46,44 x 7,66 x 3,29 m. Smíðanúmer 357. Skipið var tekið í þjónustu þýska flotans við smíðalok árið 1915 og var ekki skilað til eigenda sinna fyrr en í júlímánuði árið 1919. Ný vél (1929) 720 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í febrúar 1932, Ólafi Jóhannessyni & Co. h/f á Patreksfirði, hét Gylfi BA 77. 8 ágúst 1942 var skráður eigandi Hlutafélagið Gylfi á Patreksfirði. Seldur 30 janúar 1947, P/f Stjörnunni í Vestmanna í Færeyjum, fékk nafnið Gullfinnur VN 313. Togarinn var á veiðum við A-Grænland í marsmánuði árið 1960 er skrúfa hans skemmdist í ís og var honum þá lagt við stjóra út af Angmagsalik. Það var svo aðfaranótt 20 mars að mikill ís safnaðist að togaranum þar sem hann lá, varð þess valdandi að hann sökk. Áhöfn togarans var farin heim áður með togaranum Venusi VA 51 frá Sandavogi í Færeyjum. Togarinn var tekin af færeyskri skipaskrá 10 maí árið 1960.

Heimild frá Færeyjum:
Glottar úr trolarasögunni. Óli Ólsen 2019.

B.v. Gylfi RE 235 á veiðum.                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


 

          "Gylfi" Nýi botnvörpungurinn

Það var stórt skarð, er höggvið var í fiskiflotann íslenzka, er helmingur allra botnvörpuskipanna var seldur til útlanda, illu heilli. Munu allir, sem nokkurn skilning hafa á nauðsyn þess, að atvinnuvegir þjóðarinnar haldist í horfi og dafni, óska þess, að eigi verði þeirrar stundar langt að bíða, að skarðið það verði fyllt. Og því er það, að manni finnst góður gestur kominn að landi í hvert sinn sem nýr botnvörpungur íslenzkur kemur hingað. Síðan fór að hægjast um í heiminum og heljartök styrjaldarinnar að linast, hafa komið hingað þrír botnvörpungar. "Vínland'' kom fyrst, frá Hollandi. Þá kom hinn vandaði botnvörpungur "Egill Skallagrímsson", sem brezka flotastjórnin hafði haft í víking og kallað "Iceland,,.
Egill var smíðaður með nokkru öðru móti en aðrir botuvörpungar, og sniðinn eftir því sem eigendur hans álitu bezt henta hér við land. Hafa þeir áreiðanlega verið heppnir í vali sínu, því Egill reyndist hið ágætasta skip og fylgdu honum úr hlaði óskorin lofsyrði brezku flotastjórnarinnar, er hann var afhentur eigendunum. Þriðji botnvörpungurinn kom í nótt. Heitir hann "Gylfi" og er eign Magnúsar Magnússonar forstjóra o. fl. en skipstjórinn er Jóel Jónsson.
Langur hefir aðdragandinn orðið að því að fá skipið. Um smíði á því var samið í júnímánuði 1914 við skipasmíðastöð Schiebecks í Geestemunde. En svo kom ófriðurinn og tók stjórnin skipið þegar í sína þjónustu og hefir haldið því síðan. Þjóðverjar gáfu "Ými", »Víði" og "Rán" laus árið 1915 en »Gylfi" fékkst ekki. Er það senniega af því að hann var stærstur skipanna. Þýzka stjórnin hefir haft skipið í sinni þjónustu öll ófriðarárin en leigu hefir hún þó goldið eftir það. Fyrsta febrúar síðastliðinn fóru þeir, Magnús Magnússon og Jóel skipstjóri utan til að fá skipið. Hafa þeir verið í ferðinni rétt hálft ár. Jóel alltaf í Þýzkalandi en Magnús til skiftis í Þýzkalandi og Kaupmannahöfn og gekk eigi greiðlega að fá skipið afhent.
Um síðir fékkst þó viðurkenning þýzku stjórnarinnar fyrir því að skipið væri íslenzk eign og kol gátu þeir herjað út handa  skipinu svo að það kæmist til Esbjerg. Kostaði það miklar málalengingar og fyrirhöfn að fá skipið afhent, m. a. þurftu þeir að fara til Berlín. Magnús rómar mjög hjálpsemi og dugnað Jóns Krabbe  skrifstofustjóra og Jóns Sveinbjörnssonar í málinu.
"Gylfi" er lengstur íslenzku botnvörpunganna, 150 fet á lengd, en áður var sá lengsti 140 fet. Breiddin er 25 fet. Skipið er 350 smálestir brúttó. Vélin hefir 550 hestöfl en auka má upp í ca. 750. Skipið er vel byggt og vandað og búið öllum nýtízku tækjum. Segir Magnús að því hafi verið haldið furðu vel við, og sé að öllu leyti óskemmt eftir skylduvinnuna í Þýzkalandi. Málning hafi að vísu verið ófáanleg, en tjara verið notuð í staðinn til að verja ryði, og blönduð ýmsum efnum. Ómögulegt telur Magnús að fá botnvörpuskip byggð í Þýzkalandi nú. Þjóðverjar hafa svo margt að vinna fyrir sjálfa sig að þeir komast ekki yfir það. Og svo hvílir á þeim mikil skipasmíðakvöð fyrir Breta. "Gylfi" var fimm sólarhringa hingað frá Esbjerg.

Morgunblaðið. 2 ágúst 1919.

B.v. Gylfi RE 235 á siglingu.                                    Ein af sígarettumyndunum.


 

    Togarinn Gylfi seldur til Patreksfjarðar
 

Ólafur Jóhannesson, konsúll á Patreksfirði, hefir keypt togarann Gylfa af h/f. Defensor (Magnúsi Magnússyni). Gylfi er nú í Englandi, en fer í eign Ólafs, þegar hann kemur.

Alþýðublaðið. 24 febrúar 1932.

B.v. Gylfi BA 77 á veiðum á stríðsárunum.             Mynd úr safni mínu.
 
Togarinn Gullfinnur VN 313 á leið inn "Stíggið" til Vestmanna. Ljósmyndari óþekktur.
 
Trolarinn Gullfinnur VN 313.                                 Ljósmyndari óþekktur.

       Stærsti togari flotans kemur í dag


Stærsti togari íslenska flotans, er væntanlegur til Reykjavíkur í dag. Eigandi hans er hlutafjelagið Gylfi, Vatnseyri við Patreksfjörð. Togarinn er keyptur í Englandi og kemur hingað frá Grimsby, en þaðan lagði skipið af stað á föstudag. Honum hefir verið gefið nafnið Gylfi BA 77, en það hjet togari sem fjelagið hefir nýlega selt til Færeyja. Gylfi er 188 fet á lengd og 28,5 fet á breidd. Dýptin er 15 fet. Hann er af svonefndri ,.Sun light-gerð" byggður árið 1937. Togarinn er eimknúinn og búinn lágþrýsti túrbínu og er því fyrsta íslenska skipið sem þannig er útbúið. H.f. Gylfi hefir fest kaup á systurskipi í Englandi og mun því verða siglt hingað í byrjun næsta mánaðar. Jóhannes Pjetursson, sem áður var skipstjóri á gamla Gylfa, kemur með hið nýja skip. Gamli Gylfi hefir verið seldur til Vestmanna í Færeyjum og hefir hann fyrir nokkru síðan verið afhentur hinum nýju eigendum, sem er hlutafjelag þar á staðnum.

Morgunblaðið. 11 febrúar 1947.

         

 

  • 1
Antal sidvisningar idag: 378
Antal unika besökare idag: 26
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075758
Antal unika besökare totalt: 77627
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:57:47