Blogghistorik: 2019 N/A Blog|Month_3

31.03.2019 10:59

B. v. Ingólfur Arnarson RE 153. LBMW. Blýantsteikning.

Botnvörpungurinn Ingólfur Arnarson RE 153 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912 fyrir Pétur J Thorsteinsson útgerðarmann og Fiskiveiðafélagið Hauk í Reykjavík. 306 brl. 520 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 540. Árið 1914-15 mun Fiskiveiðafélagið Haukur verið skráður eigandi. Skipið var selt franska flotanum árið 1917. Árið 1923 var skipið selt, S.A. P. Cheries Ostendaises í Belgíu, hét þar Nebris O 104. Selt 10 apríl 1924, Consolidated Steam Fishing & Co í Grimsby, hét Nebris GY 84. Nebris stundaði veiðar m.a. við Íslands og var þekktur landhelgisbrjótur og mun hafa verið tekinn nokkrum sinnum að ólöglegum veiðum. Togarinn mun hafa verið seldur í brotajárn árið 1936-37. Þessi blýantsteikning hér að neðan er eftir Elías Pálsson og sýnir þegar togarinn kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur hinn 19 október árið 1912.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 153.                                                       Blýantsteikning eftir Elías Pálsson.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 153 að landa síld á Akureyri.                               (C) Hallgrímur Einarsson.
 

         Nýjasti botnvörpungurinn

 

Botnvörpungurinn Ingólfur Arnarson RE, eign félagsins Haukur (Pétur J. Thorsteinsson og félagar), kom hingað í morgun. Skipstjóri er Pétur Bjarnason. Farþegar frá Englandi voru Pétur J. Thorsteinsson og Gunnar Egilsson.

Ísafold. 19 október 1912.

 

 

 

30.03.2019 21:27

512. Gæfa VE 9.

Mótorbáturinn Gæfa VE 9 var smíðuður í Djupvik í Svíþjóð árið 1934 fyrir Einar S Guðmundsson útgerðarmann í Keflavík. Hét fyrst Örninn GK 127. Eik og fura. 23 brl. 80 ha. June Munktell vél. Seldur 30 september 1940, Snorra Þorsteinssyni og Sigurþóri Guðfinnssyni í Keflavík, og Oddi Ólafssyni á Vífilsstöðum, Gullbryngusýslu, hét Bryngeir GK 127. Seldur 10 mars 1941, Ármanni Eiríkssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét þá Bryngeir NK 87. Seldur 4 mars 1944, Halldóri Lárussyni, Herbert Þórðarsyni og Gunnari Bjarnasyni í Neskaupstað, hét þá Freyja NK 87. Ný vél (1945) 115 ha. Caterpillar vél. Seldur 1 ágúst 1957, Óskari Gíslasyni og Einari Gíslasyni (Einar í Betel) í Vestmannaeyjum, hét Gæfa VE 9. Seldur 28 maí 1964, Sigurði Jónssyni í Keflavík, hét þá Gæfa KE 111. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 maí árið 1970.


Gæfa VE 9 upp í fjöru í Vestmannaeyjum.                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Bræðurnir Óskar og Einar Gíslasynir með sænska ferðamenn sér við hönd.     Ljósmyndari óþekktur.

                   M.b. Örninn

Nýr vélbátur, smíðaður í Svíþjóð, kom til Vestmannaeyja í dag. Er þetta 25 smálesta bátur, smíðaður í Djúpvík í Svíþjóð, með , 80-90 ha. June-Munktell vél og öðrum nýtísku útbúnaði vélbáta. Báturinn er smíðaður fyrir Einar Guðmundsson útgerðrarmann í Keflavík. Formaður á bátnum er hinn alkunni reykvíski sjógarpur, Þórarinn Guðmundsson skipstjóri, en með honum fóru til þess að sækja bátinn þrír menn úr Reykjavík og Vestmannaeyjum. Báturinn og vélin reyndist ágætlega í þessari fyrstu erfiðu ferð, en hann lenti í ofviðrum þeim hinum miklu, sem gengið hafa að undanförnu og valdið miklu tjóni, á siglingaleiðum til Íslands og hér við land. Þórarinn hefir lent i mörgum svaðilförum, og eins að þessu sinni, og ávalt farnast vel.

Vísir. 2 febrúar 1935.



29.03.2019 07:49

B. v. Draupnir RE 258. LCHD.

Botnvörpungurinn Draupnir RE 258 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1908. 284 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,13 x 6,87 x 3,64 m. Smíðanúmer 171. Hét fyrst Macfarlane H 997 og var smíðaður fyrir Neptune Steam Fishing Co Ltd í Hull. Var í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari, 1915-1919, hét þá HMT Macfarlane FY 1220. Seldur 1918-19, W. Allnut í Grimsby, hét Macfarlane GY 1119. Seldur 9 febrúar 1920, hf. Draupni í Vestmannaeyjum, hét Draupnir VE 230. Seldur árið 1925, hf. Draupni í Reykjavík, hét þá Draupnir RE 258. Draupnir var einn af þeim togurum sem lentu í Halaveðrinu mikla, 7-8 febrúar árið 1925 og var hætt kominn. Seldur 11 október 1932, Samvinnufélaginu Bjargi í Reykjavík, hét Geysir RE 258. ( Sjómannaalmanak frá 1933 segir hf. Njörð í Reykjavík eiganda skipsins). Togarinn strandaði við Tornes Point við norðanverðan Pentlandsfjörð í Orkneyjum, 19 nóvember árið 1933. Áhöfnin, 13 menn auk 2 farþega björguðust á land. Togarinn náðist út stuttu síðar en sökk er björgunarskip var með hann í togi á Pentlandsfirði.


B.v. Draupnir RE 258 í höfn í Aberdeen.                          Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

 

        Nýkeyptir botnvörpungar

Tveir nýkeyptir botnvörpungar bafa enn bætst við íslenska fiskiflotann. Annar heitir Draupnir og er skrásettur í Vestmannaeyjum. Hann kom hingað í fyrrakvöld. Skipstjóri er Guðmundur Sigurðsson (áður skipstjóri á Frances Hyde). Draupnir er sagður 12 ára gamall, stórt og mjög vandað skip. Hann kom með fullfermi af kolum.
Hinn botnvörpungurinn heitir Geir , og er sagður 6 ára gamall. Eigendur eru Fenger stórkaupmaður og fl. Skipstjóri Jón Jónasson. Geir er stórt skip og traust. Hann kom með kolafarm.

Vísir. 15 mars 1920.

 

         Togararnir í Halaveðrinu
                   "Draupnir"

Hann missti bátinn og bátspallinn að miklu leyti. Rúmum 30 lifrarfötum vörpuðu skipverjar í sjóinn til að Iægja hann. Skinstjóri, stýrimaður og bátsmaður stóðu 15 klukkustundir samfleytt á stjórnpalli, og var aldrei hægt að skifta um vaktir á þeim tíma, þótti óðsmannsæði, að fara á milli hásetaklefa og stjórnpalls. Á stjórnpalli stóðu þeir í mitti í sjó löngum stundum. Það er nokkuð til marks um verðurhæðina. að fyrst eftir að Draupnir ætlaði til hafnar, hleypti hann, án þess að vjelin væri í gangi, undan veðrinu, og fullyrðir einn af skipverjum við Morgunblaðið að þá hafi skipið gengið um 6 mílur. En svo var stórsjórinn mikill, að skipstjóri treysti skipinu ekki tii að þola þá sjóa, sem komu á skut þess, og snjeri því þess vegna upp í.

Morgunblaðið. 11 febrúar 1925.


B.v. Draupnir VE 230 á siglingu.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

 Botnvörpungurinn "Geysir" strandar

Botnvörpungurinn Geysir strandaði á Straumnesi í Orkneyjum, seint í gærkveldi, í dimmviðri og roki. Hjálparskip komu á vettvang og bjargaði nokkru fyrir miðnætti öllum skipverjum, nema skipstjóra og loftskeytamanni, er var bjargað nokkru síðar. Tveimur farþegum sem á skipinu voru, var einnig bjargað. Geysir var á leið hingað til lands.
Geysir hét áður Draupnir og er nú eign samvinnufélagsins "Bjargi," sem í eru skipstjórinn Alexander Jóhannesson og skipshöfnin.

Vísir. 20 nóvember 1933.
 

     "Geysir" sökk á Pentlandsfirði

Botnvörpungurinn Geysir sem strandaði um daginn við Orkneyjar, hefir náðst út, en sökk, er björgunarskip var með hann í eftirdragi á Pentlandsfirði. Strandmennirnir komu með Brúarfossi.

Austfirðingur. 2 desember 1933.

28.03.2019 08:50

540. Halldór Jónsson SH 217. TFLH.

Vélskipið Halldór Jónsson SH 217 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1961 fyrir Halldór Jónsson útgerðarmann í Ólafsvík. Eik. 96 brl. 400 ha. Mannheim vél. Frá 21 júlí 1966 var Stakkholt hf. í Ólafsvík eigandi skipsins. Skipið var endurmælt árið 1974 og mældist þá 92 brl. Ný vél (1974) 565 ha. Caterpillar vél. Selt 9 júní 1990, Haukafelli hf. á Höfn í Hornafirði, sama nafn og númer. Selt 30 október 1990, Emil Þór Ragnarssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt til Svíþjóðar og tekið af skrá 7 nóvember árið 1990.


540. Halldór Jónsson SH 217 á sundunum við Reykjavík. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


540. Halldór Jónsson SH 217. Líkan.  (C) Magnús Jónsson.  Úr safni Sæmundar Þórðarsonar.

           Nýr bátur til Ólafsvíkur

Ólafsvík, 10. júní.
Í dag kom hingað nýr bátur, eign Halldórs Jónssonar, útgerðarmanns, og Leifs sonar hans. Báturinn heitir Halldór Jónsson SH 217, var smíðaður á Akureyri í skipasmíðastöð KEA. Hann er 96 smálestir að stærð með 400-500 ha" Mannheim vél og í bátnum eru hin fullkomnustu siglingar og fiskileitartæki og frágangur allur á bátnum hinn vandaðasti. Þess má geta, að þetta er 5. báturinn sem KEA smíðar fyrir Ólafsvík. Halldór Jónsson, útgerðarmaður, er 56 ára gamall. Hann reri til fiskjar með föður sínum þegar á barnsaldri og hóf snemma formennsku, fyrst á árabát,síðan á trillubát og loks á þilfarsbát, sem hann keypti þá og gerði út með Kristjáni Þórðarsyni, stöðvarstjóra, sem nú er látinn fyrir nokkru. Hann keypti hluta Kristjáns í útgerðinni eftir nokkur ár, en gerði síðar út tvo báta í félagi við Guðlaug Guðmundsson, útgerðarmann hér í Ólafsvík.
Halldór hætti formennsku er synir hans urðu fulltíða og gerðust þeir formenn á bátum hans hver af öðrum, Jón Steinn, Kristmundur og Leifur, sem eru ötulir aflamenn. Halldór á nú fimm báta, þrjá nýja báta, sem allir eru smíðaðir fyrir hann á Akureyri og tvo eldri 36 tonna báta. Hann hefur annast svo um útgerð sína, að til fyrirmyndar má teljast, enda hefur aflasæld sona hans stutt mjög aðgengi hans. Við Ólsarar fögnum hinum nýja farkosti og óskum Halldóri og fjölskyldu hans til hamingju með hið nýja myndarlega skip.

Alþýðublaðið. 14 júní 1961.


27.03.2019 13:53

M.b. Bragi ÍS 415. / Djúpbáturinn Bragi.

Mótorbáturinn Bragi ÍS 415 var smíðaður í Bátasmíðastöð Elíasar Johansen í Álaskersvík í Þórshöfn í Færeyjum árið 1917. 47 brl. Vélarstærð og tegund óþekkt. Bátinn smíðaði Elías Johansen skipasmiður frá Rættará fyrir séra Ásgeir Ásgeirsson í Hvammi, Arngrím Fr. Bjarnason prentara, Odd Guðmundsson í Bolungarvík og Sigurð H. Þorsteinsson múrara á Ísafirði. Árið 1920 er Bragi kominn í eigu Landsbankans á Ísafirði. Seldur sama ár, hf. Djúpbátnum á Ísafirði, sama nafn en ekkert skráningarnúmer (það eru bara fiskiskip sem hafa skráningarnúmer). Báturinn strandaði undir Völlunum (Eyrarhlíð) í Ísafjarðardjúpi hinn 12 febrúar árið 1925. Bragi var þá á leið frá Langeyri til Ísafjarðar hlaðin saltfiskfarmi í eigu hf. Kveldúlfs í Reykjavík. Mannbjörg varð.


Bragi ÍS 415 í Reykjavíkurhöfn stuttu fyrir 1920. Báturinn er trúlega á síldveiðum, enda smíðaður sem slíkur í Færeyjum. Steinbryggjan til hægri.    (C) Magnús Ólafsson.

                    Ísafjörður

Þrír vélbátar hafa bætst við vélbátaflotann þessa dagana, eru tveir þeirra nýir.
Þórður Kakali nefnist annar nýju bátanna. Hann er um 34 smál. að stærð, með 66 hesta Tuxham-vél, útbúinn með raflýsingu og leitarljósi, mun enginn bátur hér hafa fengið það tæki fyrr. Báturinn er smíðaður hjá Andersensbræðrum í Friðrikssudi í Danmörku. Ólafur Sigurðsson, áður stýrimaður á Goðafossi, stýrði honum hingað til lands, en vélarmaður var Björn H. Guðmundsson héðan úr bænum. Eigendur bátsins eru þeir Karl Löve, séra. Magnús Jónsson og Sigurður Sigurðsson lögmaður.
Hinn báturinn nefnist Bragi og er smíðaður hjá Elíasi Johansen í Færeyjum. Er hann stærsti vélbáturinn sem hingað hefir komið, um 47 smálestir að stærð, vel lagaður og vandvirknisiega byggður, einhver laglegasti báturinn að útliti. Virðist af því mega marka, að þeir Færeyingar standa þeim dönsku ekki að baki í skipabyggingum. Bátinn eiga þeir séra Ásgeir í Hvammi, Arngrímur Fr. Bjarnason prentari, Oddur Guðmundsson í Bolungarvík og Sigurður Þorsteinsson múrari hér í bænum. Eiríkur Einarsson skipstjóri kom með bátinn frá Færeyjum. Hefir hann einnig haft umsjón með smíði hans.
Þriðji báturinn heitir Mercur, um 23 smálestir að stærð, með frekra 20 h. vél. Var póstbátur í Færeyjum, en keyptur þar fyrir Skúla Einarsson íshússtjóra.

Vestri. 14 júní 1917.


Djúpbáturinn Bragi við Kompaníbryggjuna á Ísafirði.                                      (C) Skúli Kr. Eiríksson.

             Vélbátur strandar

Djúpbáturinn Bragi frá Ísafirði strandaði í fyrrinótt á Arnarnesi við Skutulsfjörð, í niðdimmri þoku. Var hann að koma úr skemmtiför innan úr Reykjarfirði og voru farþegar á annað hundrað. Veður var gott og sjólaust. Allir komust heilu og höldnu í land. Báturinn náðist á flot í gær.

Vísir. 19 júlí 1922.


Álaskersvík í Þórshöfn. Bragi var smíðaður í stóru skemmunni til vinstri á myndinni.

                Bragi fer á land

Fyrra fimmtudag fór Bragi inn á Langeyri til að sækja saltfisk, seldan "Kveldúlfi". Veður var risjótt, kafald með köflum, fjallabjart á milli. Á heimleiðinni um kvöldið fór Bragi á land neðan undir Völlunum, þar í grend sm Vesta gamla festi sig um árið. Atvikum hagaði þannig: Ljós brann á vita, "lögg" flaut úti, kompás í lagi, kuldastormur, undirsjór þungur, alldimt él, háflóð og hraður gangur. Vesturland telur bátinn tryggðan fyrir 40 þúsund kr. og farminn að fullu.
Menn hjálpuðust allir.

Skutull. 20 febrúar 1925.

                  Vertíðarlok

Ekki þarf að gjöra ráð fyrir að Bragi komi á flot aftur. Hann mun hafa þokast það betur á land í síðasta stórstraumi að fullt og fast strand verður. Bragi þótti jafnan góður bátur og munu Djúpmenn sakna hans. Hann var í upphafi keyptur til Djúpferðanna fyrir nær því hálfu hærra verð en fært var, ef útgerðin átti að geta borið sig sæmilega. Að því leyti var fyrirtækið "í grænum sjó" frá upphafi. Er nú slíkur endahnútur á riðinn og má Landsbankinn vita hvað kostar. Ber það að tileinka stjórn og forsjá Jóns Auðuns.

Skutull. 27 febrúar 1925.


17.03.2019 08:31

M. b. Magni NK 68.

Mótorbáturinn Magni NK 68 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1935 fyrir Guðjón Eiríksson í Dagsbrún og fl. ( Berg Eiríksson, Ásgeir Bergsson og Tómas Jóhannesson ) í Neskaupstað. Eik og fura. 19 brl. 25 ha. Wichmann vél. Ný vél (1944) 108 ha. Buda vél. Magni fórst í róðri í Faxaflóa 9 febrúar árið 1946. 4 menn fórust en 1 manni var bjargað við illan leik um borð í vélbátinn Barðann TH 243 frá Húsavík.


Magni NK 68 við Sverrisbryggjuna sumarið 1937. Til vinstri sér í athafnasvæði Sigfúsar Sveinssonar og Sigfúsarbryggjuna úti á Neseyrinni. Hún var byggð árið 1915.  (C) Lára Ólafsdóttir.

   Norðfirðingar auka skipastól sinn

Í fyrradag kom hingað til Norðfjarðar frá Fredrikssund í Danmörku eftir vikuferð með viðkomu á Shetlandseyjum og Færeyjum mótorbáturinn Þráinn NK 70, tuttugu smálestir að stærð. Báturinn er smíðaður í Fredrikssund og hefir 50-60 hestafla Tuxhamvél. Skipstjóri á uppsiglingu var Bjarni Jónsson Fáskrúðsfirði, en eigandi bátsins er Ölver Guðmundsson útgerðarmaður. Einnig kom hingað til Norðfjarðar í gær frá Molde í Noregi, eftir þriggja sólarhringa ferð yfir hafið, og eins og hálfs sólarhrings töf í dimmviðri við Papey, mótorbáturinn Magni NK 68, stærð 18 tonn með 24-25 hestafla Wichmanns mótorvél. Hann er smíðaður í Molde og er eigandi hans Guðjón Eiríksson frá Dagsbrún og félagar. Báðir bátarnir eru raflýstir og ágætlega útbúnir og hefir Norðfirski flotinn þar með fengið álitlega viðbót.

Alþýðublaðið. 12 mars 1935.



Ytri bæjarbryggjan og þar upp af, Hafnarhúsið, nú safnahús Norðfirðinga. Bátarnir í fjörunni eru, Magni NK 68 nær og Þór NK 32. Grimsbytogari við bryggjuhausinn og aðrir bátar í flota Norðfirðinga liggja einnig við bryggjuna.      (C) Björn Björnsson. 


Magni NK 68 í bóli sínu neðan við Þórhól í Neskaupstað.                       (C) Salgerður Jónsdóttir.

  Mannskaðaveðrið 9 febrúar 1946

Síðastliðinn laugardag gerði aftaka veður á Suður og Vesturlandi. Flestir bátar voru þá á sjó og hrepptu hið versta sjóveður og komust margir við illan leik í land, eftir að hafa orðið fyrir línutapi og fengið áföll, Fjögurra báta er saknað. Af þeim er vitað með vissu um afdrif eins, m.b. Magna frá Norðfirði, en hann sást farast út af Garðskaga og líkur benda til um sömu afdrif annars, m.b. Geirs frá Sandgerði, þvi farið er að reka lóðabelgir og brak úr stýrishúsi hans á fjörunum skammt frá Sandgerði. Um afdrif hinna bátanna tveggja, sem saknað er, er ekki vitað, en þeirra hefir verið leitað af bátum og flugvélum árangurslaust. Þeir heita Max, frá Bolungarvík, og Alda, frá Seyðisfirði. Þá tók út tvo menn af vélbátnum Hákon Eyjólfsson, frá Garði. Alls er óttast um, að rúmlega tuttugu menn hafi farizt í ofviðri þessu.
Vélbáturinn Magni frá Norðfirði var gerður út frá Sandgerði. Hann fór í róður eins og allir hinir bátarnir, á föstudagskvöld. Var hann seint búinn að draga línuna, eins og fleiri bátar, og var á leiðinni til lands, er honum hvolfdi undan Garðskaga. Nærstaddur var þar báturinn Barði frá Húsavík og sá til afdrifa Magna og fór á Vettvang. Þegar þangað kom flaut brak á sjónum og hélt einn mannanna sér uppi á því og varð honum bjargað. Til annarra af skipshöfninni sást ekki. Sá, sem komst af, var vélamaðurinn. Áhöfnin var alls fimm menn. Frá hinum bátunum þremur, sem saknað er, hefir ekkert frétzt, þrátt fyrir mikla eftirgrennslan, en vegna veðurofsans síðari hluta laugardagsins, er talið ólíklegt, að nokkur þeirra sé ofansjávar, fyrst þeir eru ekki enn búnir að ná landi. Áhöfn hvers báts hefir verið fimm menn og hafa því farizt 21 maður i óveðrinu, svo vitað er um, 19 af bátunum fjórum, en auk þessa tók tvo menn út af vélbátnum Hákoni Eyjólfssyni frá Garði, sem ekki náðust aftur.
Vélbáturinn Geir frá KeflavíK réri þaðan á föstudagskvöldið og vissu menn það síðast til hans á laugardag, að hann var að draga lóðir sínar. Síðan hefir ekkert til hans spurzt, nema hvað farið er að reka úr honum skammt frá Sandgerði. Hefir rekið bjóð og lóðabelgi og einnig brak úr stýrishúsi og aftursigla. Líkur benda því til, að báturinn sé ekki lengur ofansjávar. Til vélbátsins Max frá Bolungarvík hefir ekkert spurzt síðan hann fór í róður á föstudagskvöld. Lóðir bátsins fundust á sunnudaginn um 10 sjómílur undan Deild. Þann dag leituðu sex bátar að Max í allgóðu veðri og góðu skyggni, en sú leit bar engin árangur. Fjórði báturinn, sem saknað er, er vélbáturinn Aldan frá Seyðisfirði, sem rær frá Hafnarfirði. Til hans hafði ekkert spurzt í gærdag. Margir bátar frá verstöðvum við Faxaflóa og vestanlandi komust við illan leik til hafnar og voru sumir hætt komnir. Allt lauslegt tók fyrir borð á mörgum bátum, rúður brotnuðu og einnig urðu nokkrar aðrar skemmdir á bátum vegna sjógangs. Lóðatap er mikið, fæstlr bátar gátu dregið allar lóðir sínar og nokkrir sáralítið af þeim. Vera má þó, að nokkuð af bátum finni lóðir sínar aftur, enda reru flestir bátar við Faxaflóa aftur á sunnudagskvöldið. Vélbáturinn Freyja hélt uppi björgunarstarfsemi á Faxaflóa ofviðrisdaginn í stað Sæbjargar og hjálpaði þremur bátum til hafnar, Bjarna Ólafssyni, Eini og Faxa. Þá fór linuveiðarinn Ólafur Bjarnason, sem var á Akranesi, er ofviðrið skall á, bát til hjálpar, sem var með bilaða vél og virtist mundi reka upp á Mýrar. Var það vélbáturinn Særún frá Siglufirði, en skipverjum tókst að koma vélinni í lag og náði báturinn þvi heilu og höldnu til lands hjálparlaust. Þrjá menn tók út af vélbátnum Ófeigi frá Vestmannaeyjum og náðust þeir allir inn aftur og má það teljast hraustlega gert í slíkum veðurofsa og sjógangi. Skipstjóri á Ófeigi er Angantýr Elíasson. Báturinn Hermóður af Akranesi varð fyrir vélbilun, er hann var að fara frá bryggju til legufæra sinna á laugardagskvöldið, og rak hann á land upp í kletta hjá Sólmundarhöfða við Langasand. Mannbjörg varð, en líklegt er talið, að báturinn hafi orðið fyrir verulegum skemmdum og muni ekki nást út, nema sjór kyrrist fljótlega.
Þeir sem fórust með Magna NK 68 voru:
Sigurður Samsonarson skipstjóri Neskaupstað.
Steingrímur Jónsson háseti Neskaupstað.
Halldór Sigurðsson háseti Neskaupstað.
Erlingur Þorgrímsson háseti Selnesi við Breiðdalsvík.
Skipverjinn sem bjargaðist hét Ríkharður Magnússon (Gæi í Baldurshaga) vélamaður Neskaupstað.

Tíminn. 12 febrúar 1946.


16.03.2019 17:47

B. v. Helgafell RE 280. TFZD.

Nýsköpunartogarinn Helgafell RE 280 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir samnefnt útgerðarfélag í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Helgafell var annar nýsköpunartogarinn sem kom til landsins, hinn 25 mars sama ár. Skipið var selt haustið 1952, Útgerðarfélagi Akureyringa hf., hét Sléttbakur EA 4. Togarinn var seldur til Spánar í brotajárn og tekinn af skrá 18 apríl árið 1974.


B.v. Helgafell RE 280 á Pollinum á Ísafirði.                                             (C) Sigurgeir B Halldórsson.

      B.v. Helgafell kemur næsta                             fimmtudag

Bv. Helgafell, annar Nýbyggingarráðstogarinn, sem fullgerður er, fór í reynsluför á þriðjudag. Visir átti í gær tal við Skúla Thorarensen útgerðarmann og fékk hjá honum þær upplýsingar um Helgafell, að hann hefði reynzt í alla staði vel. Í fyrradag var hann svo tekinn í slipp til eftirlits og botnmálunar. Gert er ráð fyrir því, að skipið fari frá Hull á morgun og komi ef til vill við í Aberdeen á heimleiðinni. Má þá búast við því hingað á fimmtudag.
B.v. Egill rauði, eign Neskaupstaðar, mun verða tilbúinn um næstu mánaðamót.

Vísir. 14 mars 1947.


B.v. Helgafell RE 280 sennilega á leið í siglingu með fullfermi.                      Ljósmyndari óþekktur.

 Annar nýsköpunartogarinn kominn

Togarinn Helgafell, RE 280, sem er annar nýsköpunartogarinn, kom hingað til Reykjavíkur í gærmorgun, eftir fjögra sólarhringa siglingu frá Hull. Eigandi Helgafells er samnefnt hlutafjelag hjer í bæ. Helgafell er byggður eftir sömu teikningum og b.v Ingólfur Arnarson. Á leiðinni frá Englandi hrepti skipið slæmt veður og náði veðurhæðin 9 vindstigum. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, skýrði svo frá, að skipið hefði farið vel í sjó, enda þó að sjólag hafi verið slæmt. Skipið var með 160 smálestir af sementi, og með eldsneytisforða var það á hleðslumerkjum fyrir vöruflutninga. Strax í gær hófst vinna við að setja lýsisvinsluvjelar í skipið og að búa það undir fyrstu veiðiför sína. Búist er við að togarinn fari á veiðar fyrir hátíðar.
Eins og fyrr segir er skipstjóri Helgafells Þórður Hjörleifsson. Fyrsti stýrimaður er Pjetur Guðmundsson og yfirvjelstjóri er óskar Valdimarsson.

Morgunblaðið. 26 mars 1947.


B.v. Helgafell RE 280 við bryggju í Reykjavík. Strandferðaskipið Esja ber yfir togarann. 



194. Sléttbakur EA 4 við bryggju á Akureyri.                                                    (C) Davíð Hauksson.

         Eigendaskipti á togurum

Togarinn Helgafell, sem var eign samnefnds félags í Reykjavik, en framkvæmdastjóri þess var Skúli Thorarensen, var seldur til Akureyrar, og er Útgerðarfélag Akureyrar kaupandinn. Skipið heitir nú Sléttbakur og hefur einkennisstafina EA 4. Útgerðarfélag Akureyrar á þar með orðið fjóra togara, og á enginn einn aðili fleiri togara hér á landi nema Bæjarútgerð Reykjavíkur. Frá Akureyri eru því gerðir út fimm togarar, og er það einungis einum togara færra en í Hafnarfirði. Togarinn Helgafell var seldur fyrir kr. 5.500.000.00. Greiðsluskilmálar eru þessir:
Við undirskrift samningsins greiddust 500 þús kr. Upphæð þá tók Útgerðarfélag Akureyrar að láni hjá Samvinnutryggingum, til 4 ára, og fer fyrsta afborgun fram í sept. næsta ár. Þá er 500 þús. kr. víxill til sex mánaða til fyrri eigenda. Þá er skuldabréf til 10 ára til fyrri eigenda að upphæð kr. 3.084.667,30, yfirtekin skuld við stofnlánadeild sjávarútvegsins kr. 1.322.000,00 og loks yfirtekin skuld við ríkissjóð kr. 93.132,80. Skipið var afhent hinum nýju kaupendum 8. september, en þá var það tilbúið á veiðar. Skipstjóri á því er Finnur Daníelsson, sem verið hefur 1. stýrimaður á Kaldbak.

Tímaritið Ægir. 9-10 tbl. 1 september 1953.


15.03.2019 16:49

B. v. Hvalfell RE 282. TFLC.

Nýsköpunartogarinn Hvalfell RE 282 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947 fyrir hf. Mjölni í Reykjavík. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Selt 24 febrúar 1961, Síldar & fiskimjölsverksmiðjunni í Reykjavík. Skipið var selt í brotajárn til Belgíu og tekið af skrá 2 júlí árið 1969. Það var varðskipið Óðinn sem dró Hvalfellið ásamt tveimur öðrum togurum til Belgíu, þeir voru Geir RE 241 og Askur RE 33.


B.v. Hvalfell RE 282 að koma til hafnar með fullfermi.                                    (C) Björn M Arnórsson.

    Nýbyggingartogarinn "Hvalfell"                           kom í gær

Í gærmorgun kom nýr togari til landsins frá Bretlandi; nefnist hann "Hvalfell" og er eign útgerðarfélagsins Helgafells h.f., en það félag hefur áður fengið einn nýbyggingartogara, "Helgafell. Nýbyggingartogarinn Hvalfell er smíðaður í Beverley.

Alþýðublaðið. 3 október 1947.


B.v. Hvalfell RE 282 með mikinn afla á dekki.                                          Ljósmynd í minni eigu.


Togararnir Geir RE 241, Askur RE 33 og Hvalfell RE 282 bíða örlaga sinna.   (C) Tryggvi Sigurðsson.

       Þrír hverfa - enginn kemur

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, leggja enn þrír af velþekktum nýsköpunartogurum upp í hinztu ferð sína frá Íslandi. Í raun er hér um mikla hryggðarmynd að roða, sem sýnir mjög Ijóst, hversu skammsýnir og litlir stjórnendur við erum. Við þessi mjög sterku skip voru miklar vonir tengdar. Og fjármunir, sem aflað var í síðustu heimsstyrjöld lagðir fram til kaupa á þeim, svo tryggja motti landsmönnum góð lífskjör. Skip þessi báru mikinn afla á land og afköstuðu meira en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Með rangri stjórnarstefnu í sjávarútvegsmálum var rekstrargrundvöllur togaranna eyðilagður og áróðri dreift út um það, að þessi atvinnutoki væru ómagar á þjóðinni. Árangurinn af þessu varð sá, að fjöldi góðra manna með dýrmæta reynslu flúði í land burt frá skipunum. Í þeirra stað varð að notast að mestu við viðvaninga sem gerði afkomumöguleikana enn verri og endaði hjá mörgu útgerðarfélaginu með algjörri uppgjöf. Enn eigum við 20 togara, sem haldið er úti, og þrátt fyrir lélegan rekstrargrundvöll sýna skipin svo augljósa glætu til sæmilegra afkomumöguleika, að augu manna eru nú að opnast fyrir því, hve togararnir í raun eru mikill búhnykkur í okkar litla þjóðfélagi.
Hvað sem öllum vangaveltum líður um fjármálin, þá er nanðsynlegt að efla togaraflotann og nýta betur en gert var við nýsköpunartogarana síðustu 15 árin. Togarar þeir, sem hér kveðja voru allir á sínum tíma mikil afla- og happaskip. Þau verða mörgum lengi hugstæð, en skipin, sem nú hverfa eru "Geir," "Hvalfell" og "Askur."

Sjómannablaðið Víkingur. 7-8 tbl. 1 ágúst 1969.


13.03.2019 19:49

M. s. Esja TFSA.

Strandferðaskipið Esja ll var smíðuð í Álaborg í Danmörku árið 1939 fyrir Skipaútgerð ríkisins. 1.347 brl. 2 x 1.250 ha. Polar díesel vélar, Nýjar vélar (1951) 2 x 1.250 ha. Polar díesel vélar. Skipið var selt til Bahamaeyja og tekið af íslenskri skipaskrá 17 september árið 1969. Hét þar Lucaya. Selt til Líberíu árið 1973, hét þar Ventura Beach, síðan Nwakuso og síðast aftur Ventura Beach. Skipið sökk á Mesuradofljóti í Monroviu 28 júlí árið 1979.

Heimild: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


45. Esja ll.                                                                                                     Ljósmynd í minni eigu.

     Strandferðaskipinu nýja verður               hleypt af stokkunum í dag

Í dag verður hinu nýja skipi Skipaútgerðar ríkisins hleypt af stokkunum í Álaborg, og er búist við að það verði um hádegið, en allt fer það eftir því, hvernig á flóði stendur í Limafirði, en þar eru sjávarföll óregluleg. Ingiriður krnóprinsessa skírir skipið og er ákveðið að það skuli heita "Esja", eins og strandferðaskipið, sem selt var úr landi, og verða stafir þess skips notaðir á hið nýja. Mikill mannfjöldi verður viðstaddur, er skipinu verður hleypt af stokkunum. Ber þar fyrst að telja krónprinshjónin, og föruneyti þeirra, Svein Björnsson sendiherra, Jón Krabbe sendisveitarráð og Jón Sveinbjörnsson konungsritara, bæarstjóra Álaborgar og fjölda íslendinga, sem búsettir eru í Danmörku, en allir þessir gestir munu hafa komið til Álaborgar í morgun. Samkvæmt dönskum blöðum, sem hingað hafa borist, verður skipinu hleypt af stokkunum um hádegisbilið, en hinsvegar verður athöfninni útvarpað kl. 18.15 s.d. Um fyrirkomulag þessarar athafnar er þetta í stuttu máli að segja:
Fyrir framan skipið hefir verið setttur upphækkaður pallur og hefir hann og skipið verið skreytt með íslenskum og dönskum fánum. Milli pallsins og skipsstefnisins hangir kampavínsflaska í silkisnúru. Sveinn Björnsson sendiherra flytur fyrst ávarp, en því næst leiðir forstjóri skipasmíðastöðvarinnar krónprinsessuna upp á pall þann, sem að ofan getur. Flytur krónprinsessan þar stutt ávarp, óskar skipinu gæfu og gengis og góðrar ferðar um höfin og klippir því næst silkisnúrunni í sundur. Fellur þá kampavínsflaskan á bóg skipsins og brotnar þannig, að kampavínið freyðir um stefnið. Samtímis þrýstir krónprinsessan á hnapp og rennur þá skipið af stað, en um leið falla flöggin af stefni skipsins og nafn þess kemur í ljós. Síðan verður skipið dregið að bryggju og haldið áfram smíði þess. Hið nýja skip er 1.200 smálestir að stærð. Í því verða tvær PolarDiesel aðal-vélar, 1.100 hestöfl hvor. Verður það með tveimur skrúfum og er það fyrsta farþegaskip, sem þannig er byggt fyrir okkur. Lengd skipsins er 226 fet milli stafna, breidd 35.6 fet og dýpt 20.6 fet. Að framfarinni skírnarathöfninni verður gestunum boðið til miðdegisverðar að hótel Phönix í Álaborg.

Vísir. 8 júlí 1939.


Strandferðaskipið Esja á Norðfirði.                                                                      (C) Björn Björnsson.


Fyrirkomulagsteikning af Esju ll.

               Nýja »Esja« komin

Föstudaginn 22. september kl. 11 f. h. lagði nýja "Esja" að landi í Reykjavík. Eins og kunnugt er, er þetta skip smíðað í stað gömlu "Esju", er seld var til Chile og er nú notuð þar sem járnbrautarferja. Hin fyrsta ferð skipsins gekk ágætlega og reyndist skipið vel í alla staði, af þeirri kynningu, sem skipsmenn höfðu af því. Skipið er smíðað í skipasmíðastöðinni í Áiaborg og kostar um 1, ½  milljón danskar krónur. Þúsundir manna voru á hafnarbakkanum til að taka á móti "Esju", er hún kom, og hafði mikill fjöldi þess beðið allan morguninn, því að ferð skipsins seinkaði dálitið vegna þoku. BJaðamönnum var boðið um borð í skipið og skoðuðu þeir það hátt og lágt undir handleiðslu Pálma Loftssonar framkvæmdarstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Skýrði Pálmi ásamt skipstjóra og öðrum yfirmönnum skipsins, hvernig öllu er þar fyrir komið. Skipið er hið glæsilegasta og eftir skyndiskoðun verður ekki annað sagt en að þar gæti smekks og hagsýni í flestu. Er allt sniðið eftir kröfum tímans, svo sem við mátti koma, og má því tvímælalaust telja "Esju" fremsta farþegaskipið í íslenska flotanum.
Ásgeir Sigurðsson er skipstjóri á nýju "Esju" og öll skipshöfnin er svo að segja sú sama og var á þeirri eldri.

Tímaritið Ægir. 9 tbl. September 1939.



10.03.2019 08:16

Jón Finnsson GK 506.

Mótorbáturinn Jón Finnsson GK 506 var smíðaður í Skipasmíðastöð Daníels Þorsteinssonar í Reykjavík árið 1939 fyrir Jóhannes Jónsson útgerðarmann á Gauksstöðum í Garði. Eik. 27 brl. 50 ha. Wichmann vél. Árið 1945 voru Jóhannes Jónsson og Þorsteinn Jóhannesson eigendur bátsins. Ný vél (1946) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 2 október 1947, Óskari Kristjánssyni á Suðureyri, hét Súgfirðingur ÍS 506. Seldur 6 október 1953, Grímúlfi Andréssyni og Jóhannesi Kristjánssyni í Stykkishólmi, hét Hafdís SH 7. Seldur 1955, Erlingi Viggóssyni skipstjóra á Rifi, sama nafn og númer. Báturinn fékk á sig brotsjó þegar hann var að veiðum út af Breiðafirði 9 mars árið 1956. Varð Hafdís stjórnlaus eftir áfallið. Áhöfninni, 6 mönnum, var bjargað um borð í togarann Hallveigu Fróðadóttur RE 203 úr Reykjavík á síðustu stundu. Hafdís rak síðan upp í Látrabjarg og brotnaði í spón þar.


Jón Finnsson GK 506 á leið inn Siglufjörð til löndunar.                              Ljósmyndari óþekktur

                Nýr mótorbátur

Nýlega var hleypt af stokkunum á skipabyggingarstöð Daníels Þorsteinssonar nýjum bát, "Jóni Finnssyni". Hann er 27 smálestir, með 100 hesta Wickmann vél, og mun kosta um 53 þúsund krónur. Bátinn tefur látið smíða Jóhannes á Gauksstöðum í Garði, og fer brátt á síldveiðar með reknet í Faxaflóa.

Þjóðviljinn. 26 ágúst 1939.


Áhöfnin á Hafdísi SH 7 við komuna til Reykjavíkur.                               (C) Morgunblaðið.

 Togari bjargaði öllum mönnunum                      af Rifsbátnum

Um klukkan hálf fimm í gær kom togarinn Hallveig Fróðadóttir hingað til Reykjavíkur af veiðum. Á leið til hafnar fór togarinn til hjálpar hinum nauðstadda vélbát frá Rifshöfn, Hafdísi. Skipsmenn á bátnum yfirgáfu hann í stórsjó og komust upp í togarann, sem lagði að bátnum, sem hrakti stjórnlaus í stórsjó.
Tíðindamaður Mbl. átti stutt samtal við skipbrotsmenn um borð í togaranum í gærdag. Þeir höfðu farið í róður á miðvikudagskvöldið. Óveðrið skall á þá síðdegis á fimmtudaginn og var stórsjór kominn skömmu síðar. Báturinn var á heimleið, er á hann kom heljarólag og færði hann að mestu í kaf. Í þessu ólagi skolaði öllu lauslegu af þilfari, og veiðarfærin fóru í skrúfu bátsins með þeim afleiðingum, að hann varð stjórnlaus.
Veðrið hélzt óbreytt allt kvöldið og nóttina. Komu þá margir hnútar á bátinn. Ekki kom þó leki að honum, að því er skipverjar töldu, en sjór komst niður í lúkar og víðar. Skipverjar gátu ekkert aðhafzt til þess að bjarga bátnum, og var mesta furða hve hann varðist í þeim óskaplega stórsjó, sem var, sagði einn mannanna. Klukkustundirnar voru lengi að líða þessa nótt. Bátinn hrakti óðfluga undan veðri og sjó, en framundan var Barðaströndin. Óttuðust skipverjar að svo kynni að fara, að bátinn bæri þar fyrr upp, en hjálp bærist. Um klukkan 11 í fyrrakvöld var Bæjarútgerðartogarinn Hallveig Fróðadóttir á leið til Reykjavíkur, þegar skipstjórinn var beðinn um að fara bátnum til aðstoðar, af talstöðinni á Hellissandi.
Nýsköpunartogarinn klauf stórsjóana og sigldi með eins mikilli ferð og hægt var Hafdísi til aðstoðar. Og um klukkan 4 um nóttina var togarinn kominn að hinum nauðstadda báti. Létu yfirmenn á togaranum hann lóna hægt upp að bátnum og mynda þannig skjól fyrir hann. Í tveim slíkum atrennum stukku skipsmenn allir af bátnum upp í togarann, nema einn, annar tveggja Færeyinganna, sem á bátnum voru. Einhverra orsaka vegna var sem hann treysti sér ekki að stökkva upp í togarann. Einn hásetanna á togaranum, sundmaður góður og þrek menni, Guðmundur Einarsson að nafni, fór þá úr sjóstakknum og eftir að bundin hafði verið utan um hann lína, og togarinn enn látinn nálgast bátinn, stökk hann yfir í hann, greip manninn, og það skipti engum togum, að Guðmundur eins og rétti manninn yfir í togarann og kom sjálfur á eftir, án þess að blotna verulega. Rómuðu yfirmenn togarans mjög dugnað Guðmundar og karlmennsku hans.
Skipbrotsmenn af Hafdísi voru allir ómeiddir að heita mátti, einn hafði tognað lítilsháttar. Skipstjórinn á bátnum, Erlingur Viggósson, Sandi, mun hafa talið vonlítið eða vonlaust að bjarga bátnum eins og veðri var háttað, og ekki talið forsvaranlegt að hafa menn sína í bátnum og því var ákveðið að yfirgeta hann. Það er talið nokkurn veginn öruggt, að hann hafi borið á land á Barðaströndinni og brotnað þar því að mjög nákvæm leit varðskips í gærdag varð árangurslaus.
Um leið og skipbrotsmennirnir gengu af skipsfjöl, báðu þeir Mbl. að færa yfirmönnum og  skipsmönnum öllum á Hallveigu Fróðadóttur þakkir sínar. Á vélbátnum Hafdísi, sem einu sinni hét Jón Finnsson og var þá úr Garðinum, voru þessir menn auk Erlings skipstjóra:
Feðgarnir Friðþjófur Guðmundsson og Sævar Friðþjófsson frá Rifi,
Sigurður Þórðarson, Rifi, og svo tveir ungir Færeyingar, Gustav og Tari frá Þórshöfn.

Morgunblaðið. 10 mars 1956.


09.03.2019 08:03

953. Gullfinnur NK 78.

Vélbáturinn Gullfinnur NK 78 var smíðaður í Neskaupstað af Lindberg Þorsteinssyni árið 1964 fyrir Sigurð Hinriksson útgerðarmann í Neskaupstað. Eik og fura. 11 brl. 132 ha. Perkins vél. Báturinn var smíðaður upp úr gömlum hringnótabáti í gömlu íshúsunum sem Sigfúsarverslunin átti áður fyrr. Seldur 1972, Ragnari Sigurðssyni hafnarstjóra í Neskaupstað. Seldur 1974, Rafni Einarssyni útgerðarmanni og fl. í Neskaupstað. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 16 desember árið 1975. Gullfinnur lá í mörg ár á fjörukambinum sunnan við slippinn upp við Þórsskúrinn og sennilega endað fyrir rest á áramótabrennu Norðfirðinga um árið 1980.


953. Gullfinnur NK 78.                                                                       (C) Guðmundur Sveinsson.

              Gullfinnur NK 78

Síðastliðinn föstudag, 15. maí, var hleypt af stokkunumi nýjum 11 lesta báti hér í Neskaupstað. Tíðindamaður Austurlands skoðaði bátinn og átti tal við eigandann, Sigurð Hinriksson, útvegsmann. Báturinn heitir Gullfinnur og hefur einkennisstafina NK 78. Hann er smíðaður upp úr hringnótarbát, þiljaður og frambyggður. Báturinn er búinn 125 hestafla Perkins-vél, enskri, og mun ganga 9-10 mílur. Smíði bátsins hefur staðið yfir i 15 mánuði, frá því að byrjað var, en í fyrra sumar var ekkert unnið við hana.
Yfirsmiður var Lindberg Þorsteinsson. Gullfinnur er vel búinn ýmsu því, er til hagræðingar má teljast. Stýrishúsið er mjög rúmgott, og "lúkar" er fyrir fjóra menn. Hann verður hitaður upp með kælivatni frá vélinni, en olíukynding verður til eldunar. Þá er í bátnum Simrad-dýptarmælir. Stýrisútbúnaður er öðruvísi en tíðkazt hefur. Frá stýrisvélinni gengur öxull aftur eftir kjalsoginu og í bílsnekkju aftur í stafni. Stýrið sjálft er gamalt bílstýri. Fiskikassar á þilfari eru að mestu úr aluminíum og leika á hjörum, er það uppfinning Sigurðar. Það nýmæli verður og, að aftarlega á þilfar kemur lyftikrani. Honum er ætlað að slöngva inn dragnót og ennfremur á að nota hann við uppskipun úr lest.
Sigurður lét þess getið, að báturinn væri byggður með tilliti til þess, að á honum gæti stundað fámenn áhöfn. Tveir menn geta t. d. stundað á honum dragnót. Frambyggingin er líka gerð með tilliti til þess, að betra þilfarsrými fáist og aukin vinnuhagræðing. Kostnaðarverð kvaðst Sigurður ekki geta sagt nákvæmlega að svo stöddu, en báturinn er virtur á milli sjö og átta hundruð þúsund. Og sem ég er að stíga upp á bryggjuna aftur sé ég við borðstokkinn miðskips stjórnborðsmegin, hvar er sívalningur einn torkennilegur, u. þ. b. einn meter á hæð, og snýst hann, ef komið er við hann. Hann er gerður úr steypujárnsteinum, lokaður í báða enda með síldartunnubotnum. Ég spyr Sigurð, hvaða tæki þetta sé, og segir hann, að þetta áhald sé til þess, að einn maður geti veitt með tveim færum í einu. Er þetta einnig uppfinning Sigurðar.
Sigurður Hinriksson á annan bát minni, Fóstra, er hann lét smíða sér hér og smíðaði einnig sjálfur. Hugkvæmni hans og útsjónarsemi koma að góðum notum við útbúnað báta hans, endi leggur hann mikla alúð við útgerð sína. 

Austurland. 22 maí 1964.
Birgir Stefánsson.


08.03.2019 06:51

855. Dagný SF 61.

Vélbáturinn Dagný SF 61 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1942 fyrir Jón Sigurpálsson og Sigvalda Þorleifsson á Ólafsfirði. Hét þá Egill EA 727. 27,29 brl. 125 ha. Hesselman Red wing vél. Ný vél (1945) 100 ha. June Munktell vél. Báturinn hét Egill ÓF 27 frá árinu 1947, sömu eigendur. Seldur 17 febrúar 1952, Guðmundi Jenssyni og Hauki Sigtryggssyni í Ólafsvík, hét þá Egill SH 10. Ný vél (1956) 240 ha. GM vél. Seldur 16 júní 1958, Jóhanni H Jóhannssyni í Grímsey, hét Björg EA 112. 7 apríl 1960, flytur eigandinn til Vestmannaeyja, heitir báturinn þá Björg VE 22. Seldur 14 mars 1961, Hilmari B Jónssyni á Borgarfirði eystra, hét Tindaröst NS 55. Seldur 24 júlí 1964, Haraldi Jónssyni og Vilhjálmi Antoníussyni á Höfn í Hornafirði, fékk nafnið Dagný SF 61. Seldur í febrúar 1969, Sverri Kristjánssyni í Stykkishólmi. Báturinn fórst út af Garðskaga 7 mars árið 1969 með allri áhöfn, 3 mönnum í óveðri sem gerði við suðvestanvert landið. Var Dagný þá á leið frá Hornafirði til Reykjavíkur og átti eftir um 3 klukkustunda siglingu þangað.
Annar bátur fórst einnig í óveðri þessu, það var Fagranes ÞH 123, 17 tonna bátur með 3 mönnum. Valdimar Eyjólfsson útgerðarmaður á Akranesi var þá nýlega búinn að kaupa hann frá Þórshöfn.

Meira en ári eftir slysið fannst gúmmíbátur frá Dagnýju rekinn undan Sjávarhólum á Kjalarnesi. Lá báturinn að mestu grafinn í sjávarkambinn og greinilega búinn að vera þarna í langan tíma. Við rannsókn á honum kom í ljós að hann hafi ekki getað blásið sig út og engin ummerki um að menn hafi komist í hann. Var álitið líklegast að báturinn hafi flotið upp eftir að Dagný sökk.

Þetta sjóslys er mér skylt því stýrimaðurinn á Dagnýju, Gunnar Þórbergur Þórðarson, fæddur í Hergilsey á Breiðafirði 10 maí 1942 var móðurbróðir minn. Blessuð sé minning hans og skipsfélaga hans.


Tindaröst NS 55, síðar Dagný SF 61 í Reykjavíkurhöfn árið 1962.       (C) Sverrir Aðalsteinsson.

   Sex mannna saknað á 2 bátum Brak úr öðrum rekið við Garðskaga

Sex manna er saknað á tveimur bátum, Fagranesi ÞH 123 frá Akranesi og Dagnýju SF-61, sem keyptur var til Stykkishólms og var á leið þangað . Mennirnir eru úr Stykkishólmi, af Akranesi og úr Reykjavík. Síðast heyrðist í Fagranesi kl. 7 í fyrrakvöld, þegar báturinn átti eftir 20 mínútna siglingu til Akraness. Dagný sendi skeyti kl. 6 síðdegis, er báturinn var staddur út af Garðskaga og kvaðst verða í Reykjavík upp úr kl. 9. Ekki gátu skipverjar þess að neitt væri að, en veður var mjög vont, kafaldsbylur og geysileg ísing. Fagranes gat sent en heyrði ekki í öðrum bátum. Í gærmorgun fann björgunarsveitin Eldey úr Höfnum bjarghring af Fagranesi og einnig lóðabelg merktan AK 22 og að auki krókstjaka og hurðarbrot, allt rekið á fjöru vestan Hrafnkelshamra á innanverðum Garðskaga . Annað hafði ekki frétzt af bátunum eða til mannanna í gær, er blaðið fór í prentun , en víðtæk leit stóð yfir úr lofti, á sjó og á landi.
Fagranes er 17 tonna bátur. Sagði útgerðarmaðurinn, Valdimar Eyjólfsson á Akranesi, að hann hefði keypt hann fyrir þremur vikum frá Þórshöfn og hefði þetta verið 6. róðurinn frá Akranesi. Á Fagranesi eru 3 menn:
Einar Guðmundsson á Akranesi,
Sigurður Stefánsson úr Hafnarfirði,
Þorlákur Grímsson, brottfluttur Akurnesingur. Sagði Valdimar, að á Fagranesi hefði verið 6 manna gúmbátur með neyðartalstöð og mjög góðum útbúnaði.
Dagný er 27 lesta bátur, hét áður Tindaröst. Sverrir Kristjánsson var að kaupa bátinn frá Hornafirði og mennirnir þrír fóru að sækja hann þangað. Þeir eru:
Hreinn Pétursson, Stykkishólmi;
Jón Sigurðsson, Stykkishólmi, ættaður frá Djúpavogi;
Gunnar Þórðarson, Reykjavík, ættaður úr Hergilsey á Breiðafirði.
Sagði Sverrir, að hann hefði farið austur áður en hann keypti bátinn, hefði verið á honum fullkomin skoðun, ekkert að honum að finna og allur björgunarútbúnaður um borð. Síðasta skeytið, sem Dagný sendi á fötstudagskvöld var til útgerðarmannsins, sem beið bátsins í Reykjavík. Þar sagði, að báturinn yrði kominn inn upp úr kl. 9 og allt væri í lagi. Veður var mjög slæmt síðdegis á föstudag, skall þá á norðaustan hvassviðri með svartabyl og ísþoku og hlóðst mjög á bátana. Í gær var orðið bjart á þessum slóðum, en samt slæmt í sjó og ísþoka, svo hætt var við ísingu á bátunum. Strax á föstudagskvöld var hafin víðtæk og skipuleg leit að bátunum. Fóru strax út 15 bátar og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins við Faxaflóa voru allar kallaðar út. Í gær leituðu svo þrjár flugvélar, þyrla flaug með ströndinni, flugvélarnar Sif og Vorið úti yfir hafi. 20-30 bátar frá ýmsum höfnum voru að leita, aðallega utan Reykjaness, í rekstefnu frá þeim stöðum sem bátarnir voru síðast. Og leitarflokkar frá Slysavarnafélaginu leituðu alla ströndina við innanverðan Faxaflóa. Er blaðið fór í prentun hafði ekkert frekar frétzt af bátum eða mönnum.

Morgunblaðið. 9 mars 1969.


Egill EA 727 í smíðum hjá KEA á Oddeyrartanganum á Akureyri sumarið 1942.(C) Hafþór Hreiðarsson.

         Skipulegri leit hætt að                              bátunum tveim

Skipulegri leit hefur nú verið hætt að bátunum tveimur, Dagnýju frá Stykkishólmi og Fagranesi frá Akranesi, en þrír menn voru á hvorum bát. Bátanna hefur verið saknað frá því aðfaranótt laugardagsins, og ekkert til þeirra spurzt. Brak hefur fundizt, og komið í ljós við athugun að það er úr Fagranesi. Enda þótt skipulegri leit hafi nú verið hætt, verður áfram haldið að ganga á fjörur. Víðtæk leit fór fram að þessum tveimur bátum um helgina, bæði úr lofti og á landi. Leitarflokkar gengu með strandlengjunni við sunnanverðan Faxaflóa á laugardag, og flugvélarnar Sif og TF-Vorið leituðu á haf út, en þyrlan flaug tvær ferðir yfir ströndinni. Klukkan átta á sunnudag var strax farið að ganga á fjörur á ný, og þær gengnar allt suður á Reykjanes, og þyrlan leitaði margsinnis með strandlengjunni. Komu síðustu leitarflokkar inn um kl. 6 á sunnudagskvöld. Sem fyrr segir hafa leitarflokkar fundið nokkuð af braki rekið á land, og hefur komið í ljós að það er allt úr Fagranesi. Ekkert hefur enn fundizt úr Dagnýju enda fór hún miklu vestar fyrir Garðskaga, að því er talið er.

Morgunblaðið. 11 mars 1969.


Skipverjarnir á Dagnýju SF 61.                                    (C) Sjómannablaðið Víkingur.

Þar mætast Hólmarar í hljóðri sorg

Laugardaginn 8. marz sl. mun mörgum Stykkishólmsbúum minnisstæður. Fregnin um að leit væri hafin að m.b. Dagný flaug um bæinn og óhug setti að fólki. Það vissi að á þessum bát voru 3 ungir og hraustir sjómenn, menn sem að allra dómi áttu eftir að verða staðnum til styrktar, ef þeim entist heilsa og líf. Þeir höfðu óspart gefið slíkt til kynna. Vonin um að þeir myndu á lífi og báturinn ofansjávar fjaraði smám saman út og það var ekki langt liðið á vikuna þegar vissan var fengin, en á annan veg en bæjarbúar höfðu vonað.
Bát þennan hafði Sverrir Kristjánsson nýlega keypt frá Hornafirði til atvinnubóta í Stykkishólmi. Hann var á leið í heimahöfn til að hefja sjóróðra. Sverrir hafði ásamt hinum ungu mönnum unnið vel og dyggilega að þessari atvinnubót staðarins og allt virtist blasa blessunarlega við. Það er ekki lengi að skipast veður í lofti. Það vita sjómennirnir bezt. Þeir skilja kannski einna greinilegast fallvaltleik hlutanna. í dag er hinna duglegu sjómanna sem fórust með m.b. Dagný minnzt í Stykkishólmskirkju. Þar mætast Hólmarar í hljóðri sorg og votta ástvinum samúð sína.
HREINN PÉTURSSON var fæddur 1. júní 1946, sonur hjónanna Vilborgar Lárusdóttur og Péturs Jónssonar. Hann var því rúmra 22ja ára er hann lézt . Snemma fór hann á sjóinn. Þar haslaði hann sér völl og var liðtækur maður . Ætlaði sér stundum ekki af, enda gekk hann að verki einhuga . Hann var kvæntur Sæbjörgu Guðbjartsdóttur og áttu þau tvo syni. Þau bjuggu í Stykkishólmi.
JÓN SIGURÐSSON var Austfirðingur , en kom hingað vestur árið 1964 , þá til sjóróðra , Hann var fæddur 7. apríl 1947 og því rúmlega 21 árs að aldri . Foreldrar hans voru Árný Reimarsdóttir og Sigurður Albertsson . Hann lætur eftir sig unnustu , Júlíönu Gestsdóttur og eitt barn. Þau höfðu nýlega komið sér upp snyrtilegu heimili í Stykkishólmi og allt virtist blasa við á hinn ákjósanlegasta veg.
GUNNAR ÞÓRÐARSON var Breiðfirðingur . Foreldrar hans voru Þorbjörg Sigurðardóttir og Þórður Benjamínsson, sem lengst af bjuggu í Hergilsey. Þau eiga nú um sárt að binda. En eldur minninganna  vakir. Við þann eld verma ástvinir sér, geyma minningar um vaska sjómenn. Þeir voru á heimleið til að draga björg í bú. Annar máttur sneri þeim heim. Það koma mörg spurningarmerki í hugann, en hvað um það. Trúin segir heilög höndin hnýtir aftur slitinn þráð og við trúum því að handleiðsla drottins sé það eina sem verulegt gildi hefir í lífinu. Í þeirri trú eru þessir góðu drengir kvaddir. Sálmurinn segir:
Ég er á langferð um lífsins haf og löngum breytinga kenni, mér stefnu frelsarinn góði gaf ég glaður fer eftir henni. Blessuð sé minning hinna vösku sjómanna.

Sjómannablaðið Víkingur. Mars 1969.


Vélbáturinn Egill EA 727.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

   Tveir bátar frá Skipasmíðastöð                   K. E. A. Iáta úr höfn

Tveir nýjir bátar, smíðaðir í skipasmíðastöð KEA á Oddeyrartanga bjuggu sig til að halda á brott héðan úr höfninni á miðvikudagsmorgun. Stærri báturinn heitir "Egill" og er eign útgerðarmannanna Jóns Sigurpálssonar og Sigvalda Þorsteinssonar í Ólafsfirði. Báturinn er 27 smálestir að stærð, knúinn 100-125 hestafla Hesselman-dieselvél. Eigendurnir hyggjast að halda bátnum út til þorsk- og síldveiða frá Ólafsfirði. "Mér líst ágætlega á bátinn", sagði Jón Sigurpálsson, er vér fundum hann að máli um borð á miðvikudagsmorguninn. "Mér sýnist hann vera vandaður í hvívetna og geri mér hinar beztu vonir um hann".

Dagur. 16 október 1942.




03.03.2019 10:01

M. b. Drífa SU 392 í smíðum á Skála í Færeyjum.

 

 

Mótorbáturinn Drífa SU 392 var smíðaður á Skála (Kongshavn ?) í Færeyjum árið 1917 fyrir Jón Sveinsson útgerðarmann, Magnús Hávarðsson og Sigurður Jónsson á Nesi í Norðfirði. Eik. 29 brl. 36 ha. Alpha vél. 17,14 x 4,30 x 2,44 m. Seldur árið 1919, Konráð Hjálmarssyni útgerðar og kaupmanni á Nesi. Árið 1929 heitir báturinn Drífa NK 13. Ný vél (1929-30) 40 ha. Wichmann vél. Seldur 1931, Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Var báturinn hafður í förum á milli fjarða eystra til að safna saman beinum til vinnslu í verksmiðjunni. Fyrir kom að Drífa væri send til hafna á Norðurlandi eftir hráefni. Seldur 20 september 1936, Magnúsi Pálssyni og Anton Lundberg í Neskaupstað. Drífa var endurbyggð og lengd í Neskaupstað árið 1938, mældist þá 38 brl. Einnig var sett í bátinn ný vél, 50 ha. Wichmann vél. Seldur 26 janúar 1940, Faxa h/f í Reykjavík, hét Drífa RE 42. Seldur 18 september 1950, Jóni Þórarinssyni í Reykjavík. Ný vél (1950) 132 ha. Kelvin vél. Báturinn strandaði við Hafnir á Reykjanesi 6 febrúar 1953. Slysavarnadeildin Eldey í Höfnum bjargaði áhöfninni, 6 mönnum á land en Drífa eyðilagðist á strandstað.

Hér fyrir neðan er frásögn Magnúsar Hávarðssonar eins eigenda Drífu þegar hann fór til Færeyja til að fylgjast með smíði bátsins. Fróðleg frásögn.

 

Drífa SU 392 í smíðum á Skála í Færeyjum sumarið 1917.                             www. wagaskip.dk

 

 

 

     Færeyjaför árið 1917

Haustið 1916 fór Jón Sveinsson til Færeyja. Ferðin var til þess gerð að fá smíðaðan bát, um 30 smálestir að stærð. Honum tókst að ná samningi um smíði bátsins og átti hann að vera tilbúinn í marz-apríl 1917. Hér segir af því, er Magnús Hávarðsson fór til Færeyja að líta eftir smíði Drífu, kynnum hans af Færeyjum og Færeyingum og loks heimferðinni til Íslands á nýsmíðuðum bátnum með nýrri vél, en siglandi, af því 4 lítrar voru allt sem fékkst af olíu.
Þriðji maður með okkur Jóni var Sigurður Jónsson, og átti hann að vera formaður. Til þess að sjá um að báturinn yrð tilbúinn á tilsettum tíma, töldum við heppilegt að maður færi út og hefði eftirlit með verkinu og ýtti eftir, ef þörf væri. Var ákveðið að ég tækist þessa ferð á hendur. En að komast til Færeyja var ekki auðvelt, því samgöngur voru ekki miklar á þessum árum, stríðsárunum. Snemma í febrúar fréttum við að ferð mundi verða frá Færeyjum til Seyðisfjarðar að sækja síld. Var þá brugðið við að koma mér til Seyðisfjarðar og var ég kominn norður daginn áður en Smyrillinn kom, en það var strandferðabátur, sem gekk milli eyjanna.


Drífa SU 392 fullsmíðuð á Skála í júlí árið 1917.                                  Ljósmyndari óþekktur.  

Strax og skipið kom fór ég um borð, hitti skipstjóra og bað um far til Færeyja. Kvað hann það sjálfsagt, ef vegabréf mitt væri í lagi, en enga ábyrgð kvaðst hann taka á þessu ferðalagi mínu. Um klukkan 10 að kvöldi, að mig minnir 8. febrúar vorum við komnir suður fyrir Dalatanga og var stefnan þaðan sett til Færeyja. Suðvestan gola var, heldur mótdræg. Þegar ég kom upp næsta morgun, er vindur svipaður að styrkleika, en hafði gengið til vesturs. Var þá búið að setja upp segl á báðar siglur og mátti heita góður gangur á Smyrli. Seglin voru þríhyrnur á báðum möstrum og fokka. Er svo siglt allan þann dag og bar ekkert til tíðinda. Að morgni þess 10. febrúar vildu Færsarnir fara að sjá land, en það vildi ekki sýna sig. Skyggni var ekki vel gott. Líklega hefur klukkan verið um 10 þegar ég kom upp í brú til þeirra, sem þar voru. Þeir horfðu alltaf framundan, en miklu minna til hliðar. Ekki var ég búinn að vera þarna lengi, þegar mér sýndist ég sjá land nokkuð mikið á stjórnborða og hef orð á því. Skipstjóri beinir nú sjónauka til þess staðar, sem ég benti og horfir nokkur augnablik, en segir svo: "Je, te er tyiligt land". Eru nú segl tekin niður og stefnu breytt í sem næst suðvestur og erum við komnir í Karlseyjarfjörð klukkan 12 og höfðum þá verið 38 stundir frá Dalatanga.


Gömul mynd frá Þórshöfn í Færeyjum.                                          (C) Börge Bildsöe Hansen.  

Til Þórshafnar var komið á tíunda tímanum um kvöldið. Fljótlega komst ég í land án nokkurra spurninga eða lögregluskoðunar. En nú var að fá sig inni. Ég hitti íslending þarna á bryggjunni og fór hann með mig að veitingahúsi því, sem hann bjó í, en þar reyndist ómögulegt að koma mér fyrir. Þar var maður staddur, sem kvaðst skyldi fara með mér. Hús það, er við komum að, var nefnt Borgarstofa. Konan, sem þar bjó, hafði matsölu og kvaðst geta hýst mig að minnsta kosti yfir nóttina, hvað sem síðar yrði. Fékk ég svo þarna herbergi og fæði meðan ég var í Þórshöfn. Um morguninn 11. febrúar var það mitt fyrsta verk að leita uppi íslendinginn sem ég hitti á bryggjunni og gekk það greiðlega. Hann hét Eiríkur Einarsson og var frá Ísafirði í sömu erindum og ég. Báturinn sem hann var að líta eftir, var smíðaður í Þórshöfn. Hann var kominn nokkuð á veg og átti að vera til í marz. Eiríkur var orðinn nokkuð kunnugur í Þórshöfn og hafði verið þar á sama tíma og Jón haustið áður. Var svo haldið á fund þess manns, sem samninginn gerði, Jens Andreassen að nafni, til að fá upplýsingar um hvað verkinu liði. Kvað hann það lítið mundi ganga á meðan verið væri að koma skútunum út, en nokkuð væri það á veg komið og væri bezt að ég færi norður, til að athuga hvað búið væri, mjólkurbátur færi daglega þessa leið.


Smyrill 1 í Klaksvík.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.
  
Næsta dag (ég hirði ekki um að tilfæra mánaðardag úr þessu), fór ég svo til Skálafjarðar, en þar var báturinn smíðaður, og fékk ég Eirík til að koma með mér. Þegar þangað kom leizt mér svo á, að báturinn mundi ekki vera tilbúinn á umsömdum tíma. Grindin var öll komin og þrjár umferðir að ofan. Tvær skútur stóðu á brautinni og var önnur botnlaus. Ég hafði tal af yfirsmiðnum. Sagði hann það algjörlega útilokað, að nokkuð væri hægt að vinna við bátinn fyrr en skúturnar væru komnar út. Við fengum kaffi hjá honum. Meðan við sátum yfir því fór ég að tala um gistingu, því ekki var hægt að komast til baka fyrr en daginn eftir. Sjálfur kvaðst hann ekki geta hýst okkur, það væru veikindi hjá sér og mér skildist, að heimilisástæður væru mjög erfiðar hjá honum. En hann bauðst til að senda í þessi fáu hús, sem þarna voru, til að athuga um gistingu. Við vorum svo að rölta þarna fram undir kvöld, en þá kemur yfirsmiðurinn til okkar og segir, að þetta ætli að ganga illa, alls staðar sé neitað um gistingu. En hann kvaðst hafa sent mann að Ytri-Skálum, um 20 mínútna gang þaðan. Ef ekki tækist að fá okkur inni þar, vissi hann ekki hvað til ráða væri. Í þessu byggðarlagi var fátæklegt fólk. Vorum við að gizka á, að það mundi halda okkur svo mikla höfðingja, að það gæti ekki tekið á móti okkur á viðeigandi hátt, hefur sjálfsagt litið svo til okkar, þegar við vorum að ganga þarna fram og aftur í frökkunum, með hatta og glæsibringu og Eiríkur þar á ofan með staf.


Brim við boða í Færeyjum.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

Þegar farið var að dimma kom sendimaðurinn frá Ytri-Skálum með þau skilaboð, að okkur væri velkomin gisting, ef við gætum sofið í sama rúmi, og tókum við því með þökkum. Gisti ég svo ætíð þarna, þegar ég var á ferð og eins eftir að ég kom norður og fór að vinna við bátinn. Þarna var vel hýst, fjögur herbergi, reykstofa eða eldhús, svefnstofa með fjórum lokrekkjum, matstofa eða borðstofa og svo gestastofa. Þar var eitt rúm, snyrtilega um búið. Öll voru þessi herbergi hvert við endann á öðru með timburþil á einn veg, en torf og grjótveggir á þrjá vegu. Það leit út fyrir, að maðurinn, sem þarna bjó, væri vel stæður. Hann var háaldraður orðinn, allt að því karlægur. Þegar sláttur skyldi byrja, en ekki má bera ljá í jörð fyrr en um Ólafsmessu, ætlaði hann að fara að slá, en gat það ekki og varð frá að hverfa. Þegar ég kom um kvöldið, sá ég hvað hann tók það nærri sér að vera orðinn svona mikill ræfill. Hann sagðist hafa slegið sjálfur mest allt árið áður, þetta hefði sér farið aftur á einu ári. Það var nú reyndar ekkert barnagaman að slá það gras, sem er úr sér vaxið og fúið í rót. Hann hafði tvær kýr og nokkrar kindur.
Það var að ýmsu leyti skemmtilegt í Þórshöfn. Aðal skemmtistaðurinn var klúbburinn svokallaði. Það var stórt hús, líklega það stærsta í bænum þá.


Risinn og Kerlingin. Tveir drangar yst á flóanum milli Austureyjar og Straumeyjar við Eiðiskoll. Til er færeysk þjóðsaga um þessa dranga.                            Ljósmyndari óþekktur.  

Það stóð á fallegum stað og bar mikið á því. Það var tvílyft með kjallara og rishæð. Í öðrum enda kjallarans var knattborðssalur með tveim borðum. Á aðalhæð var stór salur og var hann þannig gerður, að gólfið í honum var einum metra lægra en aðalgólfið. Við endann á honum var annar salur minni, sem notaður var fyrir leiksvið og þegar dansað var. Þá sátu bæði dansendur og áhorfendur við hressingu í honum. Svo mátti loka honum með draghurð, sem var eins og harmonikubelgur. Á efri hæð voru smáherbergi, sem menn gátu setið við spil og rabbað saman. Einn þjónn var þarna, enda ekki annað veitt en áfengi og vindlar á stríðsárunum. Í þennan klúbb gátu allir komizt, en ekki máttu þeir brjóta þær reglur, sem þar voru settar. Eiríkur var orðinn meðlimur þegar ég kom, og vildi hann að ég gerði eins og var ég því ekki fráhverfur. Til þess að komast í klúbbinn þurfti að fá einn af klúbbfélögunum til að bera mann upp og stjórnin að samþykkja, sem oftast var gert, en milligöngumaðurinn varð að bera ábyrgð á að maðurinn væri klúbbhæfur. Eiríkur þekkti mann, sem Sigmundur hét. Hann var járnsmiður og hefur senniiega mælt með Eiríki. Hann kom mér í klúbbinn. Vorum við þessir þrír svo oftast saman og spiluðum Lombre, en værum við fjórir var spiluð vist, en ávallt voru notaðir aurar. Allan þann tíma, sem ég var í Þórshöfn, sá ég aldrei ofurölva mann í "klúbbanum", eins og Færeyingar kölluðu húsið. Ég kynntist manni í "klúbbanum", sem hét Karl Fosse: Hann var bakarameistari og átti brauðgerðarhúsið sjálfur. Hann var mér oft hjálplegur með brauð. Það var skömmtun á matvörum og mjög knappur skammtur af kornvörum. Fékk ég oft vænan brauðskammt hjá honum, sérstaklega eftir að ég fór að vinna fyrir norðan. Í maí fór ég norður að Skálum til að vinna, en oftast fór ég til Þórshafnar um helgar að sækja mér ýmislegt, sérstaklega brauð.


Mikil náttúrufegurð er í Færeyjum.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

Einn sunnudag í júlí var ég staddur í "klúbbanum" og vorum við að spila. Þá heyrðist eins og þungur niður í fjarska. Færsarnir leggja að sér hendur og hlusta. Gnýrinn færist nær. Segir þá einn: "Te er grindaboð". Allir spretta á fætur og hraða sér út og fylgdist ég með. Mér er í minni hvað sú hljóðalda var sterk. Það var eins og jörðin titraði. Það var líka eðlilegt að hljóðið væri sterkt, þar sem hver einasti maður, karl og kona og börnin líka, hrópuðu sama orðið: "grindaboð". Karlmennirnir fóru niður að höfn til bátanna. Þangað fór ég ekki. Þess í stað fór ég út á skans, sem kallaður er Þaðan var gott útsýni. Bátarnir fóru út fyrir tangann. Á þeim flestum voru 12 menn, 10 undir árum, einn við stýri og einn í stafni. Það hef ég séð fallegast róið á einum þessara báta. Og alltaf var hrópað "grindaboð", en svo voru þeir óheppnir, að grindin var komin undir land og snúin við, þegar fyrstu bátarnir komu að henni. Sögðu menn að eftir það væri nær ómögulegt að snúa henni við. Þeir eltu hvalina austur fyrir Nolsey og komu ekki heim fyrr en um kvöldið. Í marz fór ég til Kvívíkur að hitta kunningja minn, Kristján Magnússon. Hann var í mörg ár hér á Norðfirði hjá Þorkeli og fleirum. Eftir að ég fór að búa kom hann oftast einu sinni á sumri inn eftir til mín og fékk þá vanalega einhverjar góðgerðir. Sagði hann þá, að ef ég kæmi til Færeyja, yrði ég að heimsækja sig og því fór ég þessa ferð.


Nesþorp í Norðfirði árið 1911-12.                                   Jón J. Dahlmann.   Póstkort í minni eigu.  

Mig minnir að fjörðurinn héti Kollafjörður. Fór ég þangað með mjólkurbátnum og var í fylgd með pósti og öðrum manni, sem var á sjómannaskóla og hafði fæði í Borgarstofu eins og ég. Þegar til Kollafjarðar kom, urðum við að fara á hestum postulanna 3-3 1/2  tíma ferð yfir heiðina. Hún var mjög lág, hreint ekki yfir 200 m yfir sjávarmáli. Það var lítið í fangið og vissi maður varla, að farið var á móti halla. Þessi fjallvegur var mjög líkur Fagradal. Þegar kom Kvívíkurmegin, er lítill klettahjalli. Kristján var á sjó þegar við komum til Kvívíkur. Ég fór heim til hans. Þegar Kristján kom um kvöldið var hann undrandi að sjá mig þarna. Ekki fór hann á sjó þá daga, sem ég dvaldi þarna.
Kvívík er fremur viðkunnanlegur staður í litlu dalverpi, en hrjóstrugt landslag. Ræktaða landið var allt girt með grjótgarði frá sjó til sjávar. Við sjóinn er klettótt strönd og brimasamt í sunnan suðvestan átt. Ég var í þrjá daga í Kvívík, öll kvöldin í heimboðum hjá Færeyingum, sem verið höfðu á Norðfirði. Daginn, sem ég fór, var stillt og bjart veður. Ég varð að leggja af stað kl. 5 til að vera viss um að ná í mjólkurbátinn. Hann átti að vera í Kollafirði um tíuleytið. Kristján fór með mér alla leið. Hann vildi ekki skilja við mig fyrr en ég væri kominn til Kollafjarðar.


Norðfjörður árið 1918. Húsið Bakki vinstra megin, síðan Ekra. Athafnasvæði Sigfúsar Sveinssonar í víkinni hægramegin. Lúðvíkshúsið lengst til hægri.  (C) Björn Björnsson.

Þar kvaddi ég hann í hinzta sinn. Hann var einn þeirra beztu og tryggustu manna, sem ég hef kynnzt um ævina. Snemma í maí fór ég til Skálafjarðar til að vinna við bátinn, sem nefndur hafði verið Drífa. Átti þá að fara að smíða af fullum krafti. Þá var eitt skip í brautinni, mátti heita botnslaust og stefnislaust. Átta menn voru settir til að vinna við bátinn. Tveir unnu saman, en einn var yfir vinnunni. Hét sá Pétur, dugnaðarmaður og sterkur vel. Einn þeirra, sem vann við skútuna, bróðir Péturs, Páll að nafni, var yfir þrjár álnir á hæð og þreknari, en sæmilegt var manni af þeirri stærð. Hann var seinn í hreyfingum og jötunn að burðum. Einn morgun voru þeir, sem unnu við skútuna, að koma eikarblökk inn í smíðahúsið og voru þeir allir við það verk. Blökkin átti að fara í stefnið á skútunni. Þeim gekk illa, þótt margir væru, eins og oft vill verða, þegar menn geta ekki orðið vel samtaka. Blökkin var 20 fet á lengd, tvö fet í grennri enda, 2,8 í sverari enda og 14 tommu þykk, rennandi blaut. Þegar þeir höfðu komið henni fyrir á búkkum þannig að tvö fet á hvorum enda stóðu fram af þeim, settust þeir niður og slíkt hið sama gerðum við, sem unnum við Drífu. Var þá farið að spjalla um blökkina, þyngd hennar og fleira. Segir þá Páll, að tveir muni taka hana upp. Við sögðum allir "korta noy", en Páll vildi ekki gefa sig og segir: "Peter kom og lat okkur royna". "Noy", segir Pétur, jeg dúga ykki". Páll stendur upp og segist skuli taka gildari endann. Stendur Pétur þá upp líka og segir: "Jeg dúgar ykki, men jeg kann prufa". Ganga þeir svo að blökkinni. Handföng voru slegin í hliðar hennar fyrir böndin, sem notuð voru til að draga hana. Þeir löguðu handföngin eins og þeim hentaði bezt. Búkkarnir voru um fet á hæð, svo hægt var að koma við miklu bolmagni við átökin. Þegar þeir höfðu komið sér fyrir eins og þeim líkaði bezt, beygja þeir sig lítið, leggja hendur á handföngin og rétta sig upp með blökkina og virtist mér Páll taka auðveldar upp sinn enda, þó mikið þyngri væri. Þótti þetta vel gert. Í matartímanum kom ég á undan öllum öðrum í smíðahúsið og mældi blökkina og hef ég hér að framan getið stærðar hennar. Ég hafði gaman af að reyna hvað ég gæti, gekk að grennri endanum og gat lyft honum, en þess ber að geta, að tvö fet af blökkinni stóðu út af hinum megin og hjálpaði það auðvitað til. En gildari endann gat ég ekki hreyft.


Drífa NK 13 við bryggju á Norðfirði.                                                            (C) Guðgeir Jónsson.

Tveir menn áttu dráttarbrautina og voru þeir allt að því hatursmenn. Ástæðan var sú, að annar þeirra, Möller, keypti dráttarbrautina í Noregi og seldi hinum, Jens Andreassen, helminginn í henni, en sá helmingur kostaði bróðurpartinn af því, sem öll brautin kostaði upphaflega. Komst svo Andreassen að því síðar, að hann var féflettur og bar það á Möller, en þá var brautin komin upp fyrir nokkru og þeir búnir að starfrækja hana í nokkur ár. Bauðst Möller til að kaupa brautina aftur, en hinn hafnaði því. Þeir höfðu skrifstofumann, sem var milligöngumaður þeirra, en annars réði yfirsmiðurinn mestu við brautina. Eigendurnir voru þarna í sumarleyfi, en aldrei saman. Þeir áttu þarna hús, sem þeir bjuggu í, þegar þeir dvöldu þar. Í júní kom Jens norður og dvaldi þar í tvær vikur. Einn morgun kom hann í smíðahúsið og var ósköp niðurdreginn að sjá og stynur við. Það var sýnilegt, að hann hafði eitthvað á samvizkunni. Þegar hann er kominn inn á mitt gólf, segir hann: "Ring tíðindi" og klökknar við. Allir setjast hljóðir. Þegar hann hefur jafnað sig, bætir hann við: Týskir undirvassbátar reinsa Föroyabanka við okkar skip". Dauðaþögn ríkti um stund, enginn sagði orð, allir biðu frétta. Þá um morguninn kom fyrsti báturinn til Suðureyjar með alla áhöfn einnar skútunnar, sem sökkt var, en mig minnir að þær hafi verið níu. Þrír kafbátar voru þarna að verki. Voru foringjar þeirra misjafnir. Einn þeirra var sérstaklega annálaður. Hann sagði, að langt væri síðan þeir hefðu fengið skipun um að sökkva skútunum, en sér hafi aldrei þótt nægilega gott veður fyrr en þennan dag. Ekki fórst einn einasti maður af öllum skútunum, þótt litlu munaði með áhöfn einnar. Þeir voru 17, en höfðu lítinn bát, sem tók þá tæplega alla.


Færeyskar skútur á Norðfirði stuttu fyrir 1920.                                       Ljósmyndari óþekktur.

En kafbátsforinginn sagði, að þeir, sem ekki kæmust í bátinn, gætu farið með skútunni. Var báturinn svo hlaðinn og valtur, að þeir máttu sig varla hreyfa. Þokuslæðingur var undir landi og náði þessi bátur til skútu, sem var á útleið, og sneri hún hið bráðasta við. Þetta sumar var mjög mikill fiskur á bankanum, en hætt var að sækja þangað eftir þetta.
Snemma í ágúst var smíði Drífu það langt komin, að ég fór til Þórshafnar að annast undirbúning heimsiglingar. Ég þurfti að fá skipstjóra og einn háseta. Ég fór til Jens Andreassen að fá hann í lið með mér, og gerði hann það sem hann gat til að greiða fyrir mér. Ómögulegt reyndist að fá menn í Þórshöfn. Símaði ég þá til Kvívíkur til Kristjáns og bað hann um hjálp. Tókst honum að fá skipstjóra og háseta í Vestmannahafn og áttu þeir að vera komnir til Þórshafnar um 15. ágúst. Þeir voru hásetar á skútu, sem átti að fara í veiðiferð til Íslands og koma til Seyðisfjarðar að taka síld. Var búizt við að Drífa mundi verða um líkt leyti á Norðfirði. Þegar ég hafði komið þessu í kring, fór ég aftur norður. Drífu var hleypt af stokkunum 10. ágúst. Vann ég svo með öðrum manni að ná grjóti í kjölfestu. Hafði ég það svo mikið, að lestin var nærri full. Tóm var Drífa gífurlega há á vatni. Til Þórshafnar er ég kominn með bátinn 14. ágúst. Sama dag komu Færeyingarnir og hjálpuðu þeir til að koma um borð vistum og vatni. Brauð var af skornum skammti, en þó fengum við það sæmilega útílátið, enda hjálpaði Fosse, blessaður karlinn. Dálítið fengum við af saltkjöti og fleski. Aðeins 4 lítra fékk ég af olíu. Skútan var tilbúin til brottferðar 16. ágúst.


Norðfjörður árið 1924. Mikill fjöldi franskra og færeyskra kúttera á firðinum.   (C) Björn Björnsson.  

Ég hirði ekki um að rekja snúninga mína milli yfirvalda í Þórshöfn. Síðast varð ég að fara til brezka ræðismannsins og gefa vottorð undir eiðstilboð um að ekkert væri í skútunní annað en grjót og matur handa áhöfn. Þann 19. ágúst átti Smyrill að fara til Klakksvíkur. Fór ég á skrifstofu útgerðarinnar og bað um að Smyrill mætti draga skútuna þangað. Þeir vísuðu mér til skipstjóra. Kvað hann það sjálfsagt fyrir greiðslu, sem væri 75 krónur. Klukkan 12 þann 19. ágúst er lagt af stað frá Þórshöfn. Daginn eftir er legið í Klakksvík í stillilogni. Um hádegi á mánudag er komin gola af norðvestri. Vindurinn liggur beint inn Karlseyjarfjörðinn, en það sund er nokkuð breitt og ágætt að fara eftir því, ef þarf að krusa. Þannig stóð á sjó, að vesturfall var að byrja, og nú var ekki eftir neinu að bíða. Akkerið er komið upp og seglum komið fyrir. Þarna innst á firðinum var komin talsverð gola, svo okkur gekk ágætlega út á miðjan fjörð, en þá fór golan að minnka og þá fóru erfiðleikarnir að gera vart við sig. Ég ætla að geta þess hér, að eitt sinn er við Jens Andreassen vorum að rabba saman, gat hann þess, að ég ætti að negla fyrir skrúfuopið. Ég mundi fá að reyna það, ef þyrfti að krusa, að vont yrði að venda, ef þetta yrði ekki gert. Sagðist hann hafa reynslu fyrir því. En af því ég vissi, að erfitt mundi að ná fjölunum frá hér heima, hafði ég ráð þetta að engu. Við höfðum bakborðsvind og var komin dálítil alda inn fjörðinn. Þegar við vorum hæfilega nálægt norðurströnd skyldi venda, en Drífa neitaði vendingu, og við aðra tilraun fór á sömu leið, en þriðja tilraun heppnaðist.


Dalatangi.Sér fyrir Húsgafla inn í Mjóafjörð. Þar næst sér í Norðfjarðarnípu, þá Norðfjörð, Hellisfjarðarnes og Hellisfjörð. Þá kemur Viðfjarðarnes og Viðfjörður og Barðsnes. (C) Náttúruvísindastofnun Íslands.  

Er svo haldið suður undir og gekk vel að venda á stjórn. Er svo haldið norður undir aftur og byrjað að reyna að venda fyrir norðan miðjan fjörð. Þær tilraunir mistókust þrisvar. Fórum við Hinrik, en svo hét færeyski hásetinn, þá í bátinn og rerum með og tókst þá vending. Var svo siglt eins nálægt suðurlandinu og hægt var, en samt var það ekki nægilegt til að ná út fyrir norðurtangann, og varð því enn að venda á bakborða. Þegar komið var norður á miðjan fjörð, var enn byrjað að reyna vendingu, en vindur var þá orðinn lítill og fékkst því ekki næg ferð á skútuna. Fórum við Hinrik þá enn í bátinn og rerum sem við gátum, en ekkert dugði, við færðumst æ nær norðurlandinu. Þannig hagaði til við ströndina, að strandberg var á nokkuð löngum kafla og var svo djúpt við bergið, að kvikan braut ekki, heldur seig upp og niður með því, en yst við tangann var fles og nokkurra faðma sund fyrir ofan hana. Út með þessu bergi lónaði Drífa, þó oft liti svo út, sem hún mundi lenda í bergið, en mesta hættan var í því fólgin, að við kæmumst ekki fyrir flesina. Ef skútan félli frá vendingu eða tilraun til vendingar, var hún komin í strand, en rétt innan við flesina fellur hún frá og er þá aftur byrjað að reyna og við róum eins og við getum. Þegar við komum á móts við flesjarhornið kom kvika undir skútuna, sem þá var komin beint í vind og kippti í dráttartaugina. Við vorum með báðar árar í sjó, en báturinn kipptist svo hart aftur á bak, að við höfðum ekki orku til að halda á móti, en gerðum þó það sem við gátum. Hvort það var af þessu átaki, að hún féll frá þessari kviku, veit ég ekki, en hún hjó í næstu kviku og féll þá niður á stjórnborða, en þá var hún komin út fyrir flesjarhornið og sloppin út á rúmsjó.


Norðfjörður árið 1919. Norðfjarðarkirkja og Bakki neðar. Á milli Kirkju og Bakka er sennilega mótorbáturinn Freyr SU 413, nýsmíðaður þetta ár á Akureyri. Var í eigu Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns og útgerðarmanns á Nesi. Togari, trúlega enskur, liggur við Sigfúsarbryggjuna sem smíðuð var fjórum árum áður.            Ljósmyndari óþekktur.  

Fórum við Hinrik þá um borð og lögðumst fyrir uppgefnir og hvíldumst til klukkan 12. Þegar við komum aftur upp var logn og blíða. Allan þriðjudaginn og til miðvikudagskvölds rákum við norður með eyjunum í blæjalogni, en alltaf var reynt að láta stefna í norður, því suður með vildum við ekki láta reka. Um hádegisbilið á þriðjudag kom hvalvaða mjög nærri okkur. Hún kom að sunnan, en hafði ekki stefnu til Færeyja. Nokkra fiska drógum við meðan við vorum á grunnu vatni, en brátt var svo djúpt, að við hættum allir veiðitilraunum. Það var sárt að vera á vélskipi, en geta ekki hreyft vél til að komast leiðar sinnar, en vera háðir duttlungum vindanna.
Um klukkan átta á miðvikudagskvöld dró þokubakka upp í austri-norðaustri og jafnframt kom andvari af sömu átt. Var hann í fyrstu svo lítill, að segl rétt stóðu. Fer þá Ólafur, skipstjórinn, að athuga stefnuna til Íslands og sýndist honum hún vera norðvestur hálfur norður þaðan sem við vorum og á Dalatanga. Er svo siglt af stað, þó vindur væri lítill. Við höfðum bátinn í uglum, en mér þótti vissara að taka hann úr uglunum og batt hann rækilega við nálabekkinn við framvantinn og yfir að mastrinu stjórnborðsmeginn og létum við hann liggja á hliðinni svo ekki stæði í honum sjór, ef ágjöf yrði. Ég bjóst við, að ef við fengjum kviku að ráði, mundi báturinn slást niður og gæti þá farið svo að við misstum hann. Þegar klukkan er orðin 10 um kvöldið var komið bezta leiði og bjóst Ólafur við að gangurinn væri þá orðinn 5 mílur, en ekki var skriðmælir dreginn að til athugunar. Um klukkan 12 kom ég upp og tók við stýri. Vindinn var alltaf að herða og klukkan 2 er kominn stormur það sterkur, að ég óttast að klíferbóman þoli ekki átökin, en það voru engin stög á henni. Mér virtist vindurinn hafa gengið til norðurs.


Norðfjörður á árunum 1920-25.                                                                          (C) Björn Björnsson.

Dettur mér þá í hug smákver, sem Þorsteinn Adamsson hafði lánað mér fyrir mörgum árum. Það hét: "Um vinda" og voru í því teikningar af vindsveipum, er sýndu hvernig vindurinn hreyfðist í hring um miðju hvers vindsveips og ávallt móti sólu. Bjóst ég því við, að ef þessi vindur héldist, mundi hann ganga til norðurs þegar kæmi nær Íslandi. Tók ég þá fyrir, að stefna hærra en Ólafur hafði skipað fyrir um og stýrði í norður-norðvestur, eða hálfu öðru striki hærra. Læt ég svo slag standa. Um fjögur leytið að morgni fimmtudags þess 24. ágúst, lítur Ólafur upp, en fer niður aftur til að fara í hlífðarföt, en kemur svo upp og aftur í til mín og segir að þetta sé bakk stormur. " Það mun vera", segi ég og spyr hvort hann haldi að reiðinn þoli hann eigi. Hann segir, að allt sé nýtt og megi til að halda. Ég svara: "Jæja, þá verðum við að sigla, því aldrei fáum við betri vind yfir hafið, en við skulum létta á reiðanum og skútunni með því að taka stóra klíferinn frá og setja upp" stormklífer í staðinn". Samþykkir Ólafur þetta, fer fram á, kallar Hinrik upp og gera þeir þetta. Munaði miklu hve skútan bar sig betur á eftir, því satt að segja var siglingin orðin svakaleg, en mikið hjálpaði, að sjór var lítill. Þegar við vorum búnir að skipta um segl, komu þeir til mín, Hinrik allt að því grátandi, og kvað þetta ófært veður. Nú er siglt allan fimmtudaginn. Eitthvað gátum við hitað handa okkur. Sjór tók nú að verða órólegri og um kvöldið fórum við allir aftur í til að vera til taks ef eitthvað þyrfti að gera á dekki. Það var gengið úr stýrishúsi niður í "hyttuna", eins og Færsarnir kölluðu það. Föstudagsmorgunn 25. ágúst var stormurinn orðinn það mikill, að varla var siglandi og fyrir hádegi kom okkur saman um að leggja til, enda þá lágrok yfir allt og vindur genginn það til norðurs, að stefnan var, þó haldið væri að vindi sem hægt var, tæplega norðvestur. Voru nú forsegl tekin frá og skutsegl strekkt á vant, en stórsegl látin standa á beitivind.


Barðsneshorn, í daglegu tali kallað Norðfjarðarhorn. Til vinstri sér í Gerpi.       (C) Björn Björnsson.

Eru það þau mestu umskipti, sem ég þekki á sjó. Það var eins og við værum komnir á heiðatjörn. Það hvein í reiða og kjölvatnið kom undan hliðinni og olli því, að engin kvika kom nærri okkur. Ólafur dró nú inn skriðmæli og athugaði hvað við værum langt frá landi, eða réttara sagt hvað margar mílur við værum búnir að sigla. Samkvæmt mælinum áttum við ófarnar 20 mílur að Dalatanga. Þegar búið var að ganga frá öllu, fór ég fram í til að kveikja upp eld og hita eitthvað handa okkur. Gekk mér það eitthvað treglega, en gat þó náð upp eldi eftir nokkurn tíma, læt pönnu á eldavélina og brýt egg, sem ég ætla að brasa. Kemur þá Hinrik í lúkarsopið og hrópar til mín að koma upp til að þekkja landið. Ég þýt upp og lít til lands og sé, að við erum um miðja Sandvíkina, en svo dimmt er af roki og móðu, að Hornið sást ekki, en Gerpirinn sást vel. Ég gizkaði á, að við værum það grunnt, að Miðfjall væri við Horn. Stekk ég þá aftur á og segi hvar við séum. Er nú tekið til segla og stagvent, sem gekk ágætlega þegar vent var á stjórnborða. Mér fannst skútan fara eitthvað verr undir eftir að við vorum farnir að sigla bakborðsvind, en það getur hafa stafað af því, að báturinn var nú til hlés, og kvikur, sem brutu yfir, lentu oft í bátnum og fossuðu ekki eins fljótt út um lensportið. Þær voru oft nokkuð stórar, kvikurnar, sem brutu yfir á þessum bóg.
Við siglum nú í klukkustund og vendum þá. Ætlaði það að ganga illa, en tókst þó vonum betur. Ef það hefði ekki tekizt, hefðum við ekki þorað að kúvenda, nema þá að taka niður stórseglið, því annars áttum við á hættu að setja af skútunni mastrið, þegar seglið hefði slegið yfir í því roki, sem þá var. Er svo siglt upp aftur, en mér brá þegar við sáum land næst. Það var Seley, sem ég sá á bakborða. Suðurfallið var svona hart. Er nú vent aftur út um og siglt út.


Séð inn Norðfjarðarflóa. Næst er Barðsnes, til hægri er Norðfjarðarnípan og Norðfjörður. Síðan er Hellisfjarðarnes, Hellisfjörður og Viðfjarðarnes og minni Viðfjarðar.

Er nú farið að athuga hvenær norðurfallið komi. Eftir því sem okkur reiknaðist til, átti það að byrja klukkan 8, en af því myrkur fór í hönd og stormur var á, töldum við bezt að sigla út það lengi, að við kæmum upp undir land aftur um það bil, er norðurfall tæki á laugardagsmorgun. Er svo slagur látinn standa, en svakalegt var að líta til stjórnborða og yfir þilfar. Það voru oft ljótar kvikur, sem brutu þá á Drífu og yfir hana. Undir lágnætti fór að draga úr veðrinu. Enginn okkar fór fram í þessa nótt. Við vorum allir í stýrishúsinu, til að vera tilbúnir, ef eitthvað brygði út af, enda ekki gott að fara á milli. Ég fór þá að hugleiða hvernig hefði farið fyrir okkur, ef við hefðum siglt lengur, og sömuleiðis hvað skriðmælirinn sagði minna en rétt var. Hélt skipstjóri, að hann hefði mælt of lítið fyrsta kvöldið, meðan vindurinn var svo lítill, og svo að straumur hefði valdið einhverju, og loks, að mælirinn, sem var alveg nýr, hefði verið eitthvað stirður. Ef við hefðum siglt lengur, hefðum við komið undir land óviðbúnir, og ekki víst að við hefðum komið þar að, sem heppilegast hefði verið, hefðum sennilega komið öðru hvoru megin Dalatanga.
Við höfum sjálfsagt verið búnir að reka hálfa aðra klukkustund, þegar land sást og ekki of áætlað, að við hefðum rekið þá vegalengd í hröðu suðurfalli og því roki, sem þá var, á þeim tíma. Ef við hefðum komið fyrir sunnan Dalatanga, veit ég ekki hvað hefði verið réttast, eins og á stóð, en sennilega hefðum við lagt í að sigla inn, en hvernig það hefði farið, ef rokið hefði staðið út fjörðinn fyrir innan Uxavogstanga, er hætt við að við hefðum lent í einhverjum erfiðleikum við vendingar og svo að ná botnhaldi með legufærunum. Að vísu höfðum við tvö akkeri, annað 200 pund, og hitt 250 pund, en með stærra akkerinu voru aðeins tveir liðir eða 30 faðmar, en því minna þrír liðir.


Í víkinni innan við Neseyrina um miðja síðustu öld. Sverrisbryggjan í forgrunni.(C) Björn Björnsson.  

 

Drífa NK 13 í Reykjavíkurhöfn á hernámsdaginn 10 maí 1940 að ferja breska hermenn úr herskipum sem lágu á ytri höfninni til lands. Ljósmyndari óþekktur.



Það er því eins og æðri öfl hafi þarna verið að verki, bæði með skriðmælirinn og að við skyldum hætta að sigla á þessum tíma. Fyrir lágnætti fór að draga úr storminum. Klukkan 1 var vent til lands og klukkan 3 hafði dregið það úr vindi, að við tókum stormklýfi frá og settum þann stóra fyrir. Klukkan 9 á laugardagsmorgun erum við komnir upp undir land og erum sem næst Vogatanga. Er svo siglt í stuttum bógum. Fyrir Horn erum við komnir klukkan 12 og er þá vindur ekki meiri en það, að bezta leiði var. Þá tók Hinrik gleði sína og fór að hreinsa fram í, enda ekki vanþörf. Ég var búinn að segja, að ég hafði kveikt upp eld, sett pönnu á eldavélina og egg þar á, en ekki hirt meira um þau í óðagotinu, sem var á öllum þegar land sást. Hinrik gekk rösklega til verks og var búinn að þrífa til áður en við komum til hafnar. Er svo þessi ferðasaga ekki lengri. En skútan, sem þeir Ólafur og Hinrik ætluðu að vera á, fór frá Vestmannahavn sama dag og við fórum frá Þórshöfn og átti að koma upp á Seyðisfjörð. Það fyrsta, sem Ólafur gerði, eftir að við komum til Norðfjarðar, var að síma til Seyðisfjarðar og spyrjast fyrir um skútuna. Var hún þá ekki komin og líður svo sunnudagur, mánudagur og þriðjudagur, að ekkert fréttist af henni og var Ólafur farinn að óttast, að hún kæmi ekki. En um hádegisbilið á miðvikudag fréttist að hún sé komin, og er þá brugðið við að koma þeim Ólafi og Hinriki til Seyðisfjarðar. Þegar þeir á skútunni fengu storminn á miðvikudagskvöld, sigldu þeir fram yfir lágnætti, en lögðu þá til og létu reka þar til á laugardag að vind fór að lægja. Þegar Ólafur sagði, að við hefðum siglt "í heilu", eins og hann orðaði það, þótti skútuskipstjóra við óforskammaðir, að sigla yfir í þeim stormi, sem á hefði verið þessa daga.

Sjómannablaðið Víkingur. 4 tbl. 1 apríl 1964
Frásögn Magnúsar Hávarðssonar.


Vélbáturinn Drífa RE 42.                                                                                Ljósmyndari óþekktur.

 

         Drífa RE strandaði í nótt                            mannbjörg varð

Vélbáturinn Drífa, RE-42, strandaði í nótt skammt fyrir sunnan Kalmanstjörn á Reykjanesi, en skipverjum var bjargað á land heilum á húfi. Samkvæmt upplýsingum, er Vísir fékk hjá skrifstofu SVFÍ.
strandaði báturinn kl. 2.50 í nótt á skeri skammt sunnan Kalmanstjarnar. Veður var þá gott, vestanátt, en talsvert brim við ströndina. Það var vb. Svanur, RE 88 sem tilkynnti um strandið, en í fyrstu var óljóst, hvar það hefði orðið, og voru slysavarnasveitir víða á Reykjanesi til taks, en um 20 mínútum síðar fékkst örugg vitneskja um strandstaðinn, og brá slysavarnadeildin Eldey í Höfnum þegar við og kom á strandstaðinn undir stjórn formanns síns, Vilhjálms Magnússonar. Var þegar hafizt handa um björgun, og tókst hún mjög greiðlega, en skipverjum, 6 að tölu, var bjargað í land á björgunarstól. Sýndi deildin mikið snarræði við þetta tækifæri, Segja sjónarvottar, að ekki hafi mátt tæpara standa. Báturinn strandaði á fjöru, en brátt tók að falla að, og hvoldi honum á skerinu skömmu eftir að síð- asti skipverjinn komst í land. V.b. Drífa, RE-42, er 38 brúttólestir að stærð, smíðaður í Kongshavn 1917, en endursmíðaður árið 1938. Eigandi hans er Jón Þórarinsson hér í bæ. Skipstjóri á Drífu er Kristinn Maríasson. Talið er sennilegt, að báturinn sé ónýtur með öllu, en ókunnugt er um orsakir strandsins.

Vísir. 6 febrúar 1953.

02.03.2019 19:03

732. Reynir VE 15. TFIQ.

Vélbáturinn Reynir VE 15 var smíðaður í Ekenas í Svíþjóð árið 1946 fyrir bræðurna Pál og Júlíus Ingibergssyni í Vestmannaeyjum. Eik. 53 brl. 170 ha. Polar vél. Ný vél (1952) 150 ha. Hundested vél. Seldur 21 desember 1957, Mar hf í Reykjavík, hét Reynir RE 220. Ný vél (1958) 240 ha. G.M. vél. Seldur 15 nóvember 1959, Sæmundi Ólafssyni á Bíldudal, hét þá Reynir BA 66. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 september árið 1967.


Reynir VE 15 kominn í heimahöfn í fyrsta sinn hinn 19 júlí árið 1946.               Mynd úr safni mínu.


732. Reynir BA 66.                                                      (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

       Nýr Svíþjóðarbátur til Eyja

Frá frjettaritara vorum í Vestmannaeyjum, laugardag.
Í gær kom hingað nýr vjelbátur, sem smíðaður hafði verið á vegum ríkisstjórnarinnar í Kalmar í Svíþjóð. Bátur þessi er 55 smál., að stærð, með 170 hestafla Atlas diesel vjel og búinn öllum nýustu öryggistækjum, svo sem dýptarmæli, miðunarstöð og talstöð. Hámarks ganghraði er áætlaður 9 sjómílur. Báturinn er byggður úr eik og er allur frágangur hinn vandaðasti og handbragð allt hið smekklegasta. Hvílupláss er fyrir 16 menn. Hann reyndist mjög vel á leiðinni hingað og var fimm og hálfan sólarhring frá Gautaborg. Hann er alveg tilbúinn á síldveiðar og fer norður í kvöld. Eigendur hans eru bræðurnir Júlíus og Páll Ingibergssynir frá Hjálmhóli og hefur báturinn verið nefndur Reynir.

Morgunblaðið. 24 júlí 1946.


01.03.2019 10:32

1833. Málmey SK 1. TFMS.

Frystitogarinn Málmey SK 1 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk í Flekkefjord í Noregi árið 1987 fyrir Sjólastöðina hf í Reykjavík. Hét áður Sjóli HF 1. 883 brl. 2.990 ha. Wartsiila vél, 2.200 Kw. Smíðanúmer 140. Skipið var gert út frá Hafnarfirði. Frá 11 júní 1993 er Sjólaskip hf í Hafnarfirði skráður eigandi, sama nafn og númer. Selt 11 október 1994, Djúphafi hf í Hafnarfirði (Skagfirðingur hf á Sauðárkróki var aðaleigandi í Djúphafi hf), fékk nafnið Málmey SK 1. Skipinu var breytt í ísfisktogara haustið 2014. Málmey SK 1 er gert út af Fisk Seafood hf á Sauðárkróki í dag.


1833. Málmey SK 1 í heimahöfn.                                                                             Mynd úr Ægi.

          Sauðkrækingar kaupa                      frystitogarann Sjóla HF-1 

Einn best hannaði frystitogari íslenska flotans, Sjóli HF- 1, hefur verið seldur til Djúphafs hf. í Hafnarfirði, en Skagfirðingur hf. á Sauðárkróki er aðaleigandi þess. Sjóli HF er 883 brl. að stærð, smíðaður í Flekkefjord í Noregi 1987 fyrir Sjólaskip hf. í Hafnarfirði, en aðaleigandi þess er Jón Guðmundsson. Skipið er keypt með 300 þorskígilda kvóta, en það var með 1.325 þorskígildiskvóta í byrjun fiskveiðiársins. Sjólaskip hf. eiga einnig Harald Kristjánsson HF 2, sem er sömu stærðar og Sjóli, smíðaður 1988. Hann er með 1.411 þorskígildiskvóta. Kaupverð verður ekki uppgefið fyrr en eftir stjórnarfund hjá Skagfirðingi hf. síðar í mánuðinum. Einar Svansson, framkvæmdastjóri Skagfirðings hf., segir kaupin á Sjóla vera einn af þeim valmöguleikum sem hafi verið uppi á borðinu sl. tvö ár, en málin hafi hins vegar skyndilega þróast nokkuð hratt að undanförnu en þessi kaup hafi verið einn af bestu kostunum. Jón Guðmundsson segir að eina af aðalástæðum þess að Sjóli sé seldur þá að á skipinu hefðu hvílt óhagstæð lán og ekki hafi verið hægt að endurfjármagna það á ásættanlegan hátt, það hafi verið of dýrt. "Það eru engin vandamál, engin lán í vanskilum, en við erum ánægðir með að skipið lendir hjá góðum kaupendum sem hafa möguleika á betri fjármögnun en núverandi lán eru til mjög skamms tíma. Bæði skipin hafa verið í toppviðhaldi, fyrirframviðhaldi," sagði Jón Guðmundsson. Sjóli hefur aðallega verið á úthafskarfaveiðum og karfaveiðum innan lögsögu og ennfremur hefur hann verið á veiðum í Smugunni. Stefnt er að óbreyttum veiðum, a.m.k. fyrst um sinn. Ekki verður skipt um nafn á skipinu fyrr en í byrjun næsta árs. "Kosturinn við þessi kaup er sá að ekki þarf að úrelda á móti kaupunum því það er með veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og tekjurnar af þessu skipi eru hrein viðbót hjá fyrirtækinu. Sami skipstjóri, Guðmundur Kjalar Jónson, verður með skipið, og verður áhöfninni boðin vinna áfram. Því fylgir enginn krafa um búsetu á Sauðárkróki enda félagið með heimilisfestu í Hafnarfirði," sagði Einar Svansson.

Dagur. 11 október 1994.


1833. Málmey SK 1 á útleið frá Sauðárkróki.                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

     Tímamót með breytingum á               Málmey SK 1 á Sauðárkróki
     Ofurkældur afli en enginn ís

Togarinn Málmey SK 1, sem er í eigu FISK Seafood hf. á Sauðárkróki, er þessa dagana í fyrstu veiðiferðum eftir að skipinu var breytt úr frystitogara í ísfiskskip. Í þessu tilfelli þarf þó að gera fyrirvara við hugtakið ísfiskskip því Málmey er fyrsti togarinn í flotanum útbúinn þannig að ekki þarf að nota ís til kælingar aflans, líkt og almennt hefur verið gert hingað til. Togarinn er búinn nýju vinnslu- og kælikerfi frá systurfyrirtækjunum Skaganum hf. á Akranesi og 3x Technology á Ísafirði en afli skipsins er kældur í mínus eina gráðu áður en hann fer í lest. Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans og 3X, segir komið að tækniframförum í bolfiskvinnslu hér á landi á borð við þær sem gengið hafi yfir í uppsjávarvinnslunni á liðnum árum. Ofurkæling úti á sjó skapi tækifæri á öllum sviðum landvinnslunnar.
Segja má að fyrirtækin leggi í þessu verkefni saman tvær af sínum lausnum; annars vegar ofurkælingartæknina sem Skaginn hf. hefur unnið með í flakavinnslu á undanförnum árum og hins vegar Rotex blóðgunar- og kælitanka fyrir fiskiskip sem 3X Technology á Ísafirði hefur þróað.


Á millidekkinu. Hér byrjar kæling fisksins.                                                                 Mynd úr Ægi.

Ferillinn um borð í Málmey SK 1 er þannig að eftir að afli kemur úr móttöku er hann slægður á hefðbundinn hátt, að því frátöldu að öll lifur fer í sérstakan kæliferil og þaðan í lest. Sama á við um hrogn á meðan á hrygningartíma stendur. Að lokinni slægingu fer hver fiskur í sérstaka þvottameðhöndlun og þaðan inn á færiband þar sem myndgreiningarbúnaður tekur mynd af hverjum fiski fyrir sig og greinir bæði tegund og þyngd. Á vinnsluþilfarinu eru þrír Rotex-tankar, hver um sig 14 metrar að lengd. Í hverjum tanki er stór snigill, eða skrúfa, sem snýst rólega og myndar hvert bil á sniglinum hólf sem í fara 300 kg. af fiski. Í tönkunum er blanda af sjó og saltupplausn og er hverjum tank skipt í þrjá hluta þannig að fyrsti hlutinn, sem tekur við aflanum eftir myndgreiningu, er blóðgunarhólf og í gegnum það fer aflinn á 15 mínútum. Þaðan færist fiskurinn áfram með skrúfunni yfir í kælingarhólf þar sem aflinn er kældur niður í 30 mínútur og í síðasta hluta tanksins fer aflinn í gegnum upplausn sem er mínus 4 gráður. Það er hin eiginlega ofurkæling sem tekur 15 mínútur en að henni lokinni er fiskurinn kominn í mínus 1-1,2 gráður. Þessi ferill aflans í gegnum hvern tank tekur því eina klukkustund og á enda tanksins er færiband sem tekur við fiskinum og skilar á rennur niður í lest þar sem lestarmenn taka við honum og raða í kör. Hægt er að hafa í senn allt að 10 tonn af afla í tönkunum þremur, ef á þarf að halda.
Kæling lestarinnar miðar að því að halda hráefninu stöðugu allt til loka veiðiferðar í því hitastigi sem það er í þegar fiskurinn kemur úr ofurkælingunni. Eins og áður segir er magnið 300 kg. í hverjum skammti sem á þennan hátt fer í gegnum allan ferilinn og er þetta hæfilegur skammtur fyrir 460 lítra körin sem notuð eru í lestinni. Myndgreiningarbúnaðurinn sem áður er nefndur er einn af lykilþáttum í kerfinu. Hann greinir hvern fisk, bæði tegund og þyngd og út frá þeim upplýsingum eru gefnar skipanir í stjórnbúnaði kerfisins sem stýrir því inn á hvaða tank hver fiskur á að fara og í hvaða hólf. Tegundir veljast þannig saman, sem og stærðir, og loks stýrir þessi búnaður því að í hvert hólf veljist alltaf rétt magn, þ.e. 300 kg. Búnaðurinn vistar á þennan hátt mynd af hverjum fiski fyrir sig og þar sem hvert kar í lest hefur sitt númer er hægt að sækja upplýsingar úr vinnslunni um borð, ef einhverra hluta vegna þarf á slíku að halda.


Í Rolex tönkunum er blanda af sjó og saltpækli og búnaður stýrir kælingunni.          Mynd úr Ægi.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans og 3X Technology, segir aðalatriðin með nýja kerfinu í Málmey SK 1 að auka vinnsluhraða og hráefnisgæði. Með ofurkælingunni í vinnsluferlinu sé vökvinn í fiskinum sjálfum nýttur til fulls. "Fiskur er auðvitað að stórum hluta vatn og við erum í þessu ferli að hagnýta okkur það til kælingar. Svokölluð fasaskipti eru þegar vökvi þykknar í fast form og í fiski hefst þetta ferli í mínus 0,9 gráðum. Með því að þykkja vökvann í fiskinum á þann hátt sem við gerum þá búum við okkur til ákveðið kæliafl sem kemur í staðinn fyrir ísinn sem hefðbundið er að nota," segir Ingólfur en segja má að í lestinni í Málmey SK 1 sé unnið á hefðbundinn hátt í frágangi afla í ísfisktogara, að því undanskildu að enginn ís er settur milli laga í körin. Aðeins þarf að raða fiskinum í hvert kar. Aðspurður segir Ingólfur að form hvers skips ráði því hvort hægt sé að koma fyrir heildarkerfi á borð við það sem er í Málmey SK 1 en best sé að útfæra kerfið samhliða hönnun á nýjum fiskiskipum, líkt og ætlunin er að gera í fyrirhugaðri nýsmíði FISK Seafood og í þremur skipum HB Granda. Eins og fram kemur annars staðar í blaðinu hefur nú þegar verið samið um útfærslu kerfa frá Skaganum hf. og 3X Technology í ísfisktogara HB Granda. "Í öllu okkar þróunarstarfi erum við að sækjast eftir betri fiski og að lengja geymsluþol. Allar rannsóknir sýna bætta nýtingu í flökun með því að bæta meðhöndlun og kælingu strax eftir að fiskurinn er slægður um borð. Næsta skref í þróunarferlinu hjá okkur er að fækka göllum í flökun og roðdrætti í vinnslunni sjálfri. Þar er að finna lykilinn að framtíðar tækni í landvinnslu á bolfiski. Í þessum þáttum skilur á milli tæknilegrar stöðu bolfiskvinnslu og uppsjávarvinnslu í dag. Í bolfiskvinnslunni þurfa öll flök að fara í gegnum snyrtilínur en takmark okkar er að þróa tækni sem skilar þeim árangri að sem hæst hlutfall af flökum geti farið beint úr flökunarvél inn í vatnsskurð þar sem beingarður er skorinn í burtu og flökin hlutuð niður eins og við á í hverri vinnslu fyrir sig."


Þrír 14 metra langir tankar eru á vinnsluþilfari Málmeyjar. Í gegn um þá fer aflinn og er smátt og smátt kældur niður í mínus 1-1,2 gráður. Í þessum enda tankanna er svokölluð ofurkæling og úr henni fer fiskurinn í 300 kg skömmtum í rennuna fyrir miðri mynd og niður í lest.      Mynd úr Ægi.

Ingólfur segir að í sjávarútvegi á Íslandi sé mikill áhugi á þessari tækniþróun og þau fyrirtæki sem bæði eru í uppsjávarvinnslu og bolfiskvinnslu hafi fundið fyrir því hversu miklum ávinningi tæknin í uppsjávarvinnslunni hafi skilað á síðustu árum. "Í uppsjávarvinnslunni hefur störfum vissulega fækkað frá því sem áður var en þau eru á hinn bóginn betur launuð. Okkar framtíðarsýn hjá Skaganum og 3X Technology er þess vegna að leggja áherslu á roðflettingu og flökun sem getur skilað bolfiskvinnslunni á sömu braut í framþróun og orðið hefur í uppsjávarvinnslunni. Innan okkar fyrirtækja höfum við allt til þess; flökunarvél, roðdráttarvél og þróun á vatnsskurðarbúnaði en forsendurnar sem við vinnum eftir eru þessi árangur sem við höfum náð í ofurkælingunni á hráefninu. Við horfum á þetta sem eitt heildarferli og ætlum að horfa á hvert og eitt skref í ferlinu, allt frá móttöku til pökkunar," segir Ingólfur og bætir við að miklir tæknilegir möguleikar hafi opnast þegar Skaginn hf. og 3X Technology urðu systurfyrirtæki. Í kjölfarið á breyttu eignarhaldi þess síðarnefnda hafi verið unnt að leggja saman víðtæka tækniþekkingu innan fyrirtækjanna og lausnir sem þau hafi þegar þróað. Því til viðbótar hafi fyrirtækin fengið styrki til þróunarstarfs sem gangi til rannsóknarfyrirtækjanna Matís og Iceprotein á Sauðárkróki sem unnið hafi þýðingarmiklar upplýsingar um áhrif ofurkælingar á hráefni strax á fyrsta vinnslustigi. "FISK Seafood steig mjög mikilvægt skref með því að semja við okkur um breytingarnar á Málmey og láta reyna á þá möguleika sem rannsóknirnar hafa sýnt okkur. Málmey SK verður ekki ísfiskskip í þeirri merkingu sem við höfum hingað til notað heldur væri nær að tala um rannsóknarskip á fyrstu mánuðunum því rannsóknarfyrirtækin munu fylgja verkefninu eftir. Ég er alveg sannfærður um að við eigum eftir að sjá í þessu verkefni í Málmey árangur sem lyftir þekkingu í fiskvinnslu hér á landi á annað stig og markar nýtt skeið í bolfiskvinnslu. En svona lagað gerist ekki nema til séu fyrirtæki eins og FISK Seafood sem hafa kjark, þor og getu til að breyta og tileinka sér tæknilegar nýjungar," segir Ingólfur Árnason.

Tímaritið Ægir. 1 janúar 2015.


1833. Sjóli HF 1.                                                                                          (C) Tryggvi Sigurðsson.

                     Sjóli HF 1

Nýr skuttogari, M/S Sjóli HF 1, bættist við fiskiskipastól landsmanna 21. september s.l, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Sjóli HF er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 140 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h.f. í Reykjavík. Sjóli HF er þrettándi skuttogarinn sem umrædd stöð smíðar fyrir Íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk fyrir Slippstöðina. Skrokkar allra þessara skuttogara eru smíðaðir hjá Kvina Verft í Noregi, sem annast hefur þann þátt smíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Rúm fjögur ár eru síðan stöðin afhenti Gullver NS, sem var sá 12. í röðinni. Þess má geta, að á síldarárunum 1962 til 1967 smíðaði stöðin 11 fiskiskip (nótaveiðiskip) fyrir Íslendinga, auk þess sem eitt fiskiskip smíðað hjá umræddri stöð var keypt til landsins árið 1980. Sjóli HF er því 25. fiskiskipið í eigu íslendinga frá þessari stöð. Hinn nýi Sjóli kemur í stað samnefnds skuttogara (Sjóli HF 18) sem var í eigu sömu útgerðar, og keyptur 11 ára gamall til landsins (kom í mars 1982). Sjóli HF er breiðasta fiskiskip flotans (12.60 m) og í hópi skrokkstærstu fiskiskipanna hérlendis. Skipið er með búnað til fullvinnslu afla, umfangsmeiri en áður hefur verið settur í nýsmíði fyrir Íslendinga. Þá telst það til nýjunga í nýbyggðu fiskiskipi fyrir hérlenda aðila, að allir klefar eru búnir snyrtingu (salerni og baði).
Sjóli HF er í eigu Sjólastöðvarinnar h.f. í Hafnarfirði. Skipstjóri á skipinu er Þráinn Kristinsson og yfirvélstjóri Ásgeir Guðnason. Framkvæmdastjóri útgerðar er Haraldur jónsson.
Mesta lengd 56.42 m.
Lengdmilli lóðlína (VL=5.20 m) 54.17 m.
Lengd milli lóðlína (kverk) 51.91 m.
Breidd (mótuð) 12.60 m.
Dýpt að efra þilfari 7.70 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.20 m.
Djúprista (hönnunar) 5.20 m.
Eiginþyngd 1.437 tonn.
Særými (djúprista 5.20 m) 2.064 tonn.
Burðargera (djúprista 5.20 m) 627 tonn.
Lestarými 702 m3.
Meltugeymar 91.5 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 181.4 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 40.7 m3.
Set- og daggeymar 16.3 m3.
Ferskvatnsgeymar 149.8 m3.
Andveltigeymir 139.5 m3.
Ganghraði um 15 sjómílur.
Rúmlestatala 883 brl.
Skipaskrárnúmer 1833.

Tímaritið Ægir. 1 nóvember 1987.


  • 1
Antal sidvisningar idag: 281
Antal unika besökare idag: 20
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075661
Antal unika besökare totalt: 77621
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:36:39