08.03.2019 06:51

855. Dagný SF 61.

Vélbáturinn Dagný SF 61 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1942 fyrir Jón Sigurpálsson og Sigvalda Þorleifsson á Ólafsfirði. Hét þá Egill EA 727. 27,29 brl. 125 ha. Hesselman Red wing vél. Ný vél (1945) 100 ha. June Munktell vél. Báturinn hét Egill ÓF 27 frá árinu 1947, sömu eigendur. Seldur 17 febrúar 1952, Guðmundi Jenssyni og Hauki Sigtryggssyni í Ólafsvík, hét þá Egill SH 10. Ný vél (1956) 240 ha. GM vél. Seldur 16 júní 1958, Jóhanni H Jóhannssyni í Grímsey, hét Björg EA 112. 7 apríl 1960, flytur eigandinn til Vestmannaeyja, heitir báturinn þá Björg VE 22. Seldur 14 mars 1961, Hilmari B Jónssyni á Borgarfirði eystra, hét Tindaröst NS 55. Seldur 24 júlí 1964, Haraldi Jónssyni og Vilhjálmi Antoníussyni á Höfn í Hornafirði, fékk nafnið Dagný SF 61. Seldur í febrúar 1969, Sverri Kristjánssyni í Stykkishólmi. Báturinn fórst út af Garðskaga 7 mars árið 1969 með allri áhöfn, 3 mönnum í óveðri sem gerði við suðvestanvert landið. Var Dagný þá á leið frá Hornafirði til Reykjavíkur og átti eftir um 3 klukkustunda siglingu þangað.
Annar bátur fórst einnig í óveðri þessu, það var Fagranes ÞH 123, 17 tonna bátur með 3 mönnum. Valdimar Eyjólfsson útgerðarmaður á Akranesi var þá nýlega búinn að kaupa hann frá Þórshöfn.

Meira en ári eftir slysið fannst gúmmíbátur frá Dagnýju rekinn undan Sjávarhólum á Kjalarnesi. Lá báturinn að mestu grafinn í sjávarkambinn og greinilega búinn að vera þarna í langan tíma. Við rannsókn á honum kom í ljós að hann hafi ekki getað blásið sig út og engin ummerki um að menn hafi komist í hann. Var álitið líklegast að báturinn hafi flotið upp eftir að Dagný sökk.

Þetta sjóslys er mér skylt því stýrimaðurinn á Dagnýju, Gunnar Þórbergur Þórðarson, fæddur í Hergilsey á Breiðafirði 10 maí 1942 var móðurbróðir minn. Blessuð sé minning hans og skipsfélaga hans.


Tindaröst NS 55, síðar Dagný SF 61 í Reykjavíkurhöfn árið 1962.       (C) Sverrir Aðalsteinsson.

   Sex mannna saknað á 2 bátum Brak úr öðrum rekið við Garðskaga

Sex manna er saknað á tveimur bátum, Fagranesi ÞH 123 frá Akranesi og Dagnýju SF-61, sem keyptur var til Stykkishólms og var á leið þangað . Mennirnir eru úr Stykkishólmi, af Akranesi og úr Reykjavík. Síðast heyrðist í Fagranesi kl. 7 í fyrrakvöld, þegar báturinn átti eftir 20 mínútna siglingu til Akraness. Dagný sendi skeyti kl. 6 síðdegis, er báturinn var staddur út af Garðskaga og kvaðst verða í Reykjavík upp úr kl. 9. Ekki gátu skipverjar þess að neitt væri að, en veður var mjög vont, kafaldsbylur og geysileg ísing. Fagranes gat sent en heyrði ekki í öðrum bátum. Í gærmorgun fann björgunarsveitin Eldey úr Höfnum bjarghring af Fagranesi og einnig lóðabelg merktan AK 22 og að auki krókstjaka og hurðarbrot, allt rekið á fjöru vestan Hrafnkelshamra á innanverðum Garðskaga . Annað hafði ekki frétzt af bátunum eða til mannanna í gær, er blaðið fór í prentun , en víðtæk leit stóð yfir úr lofti, á sjó og á landi.
Fagranes er 17 tonna bátur. Sagði útgerðarmaðurinn, Valdimar Eyjólfsson á Akranesi, að hann hefði keypt hann fyrir þremur vikum frá Þórshöfn og hefði þetta verið 6. róðurinn frá Akranesi. Á Fagranesi eru 3 menn:
Einar Guðmundsson á Akranesi,
Sigurður Stefánsson úr Hafnarfirði,
Þorlákur Grímsson, brottfluttur Akurnesingur. Sagði Valdimar, að á Fagranesi hefði verið 6 manna gúmbátur með neyðartalstöð og mjög góðum útbúnaði.
Dagný er 27 lesta bátur, hét áður Tindaröst. Sverrir Kristjánsson var að kaupa bátinn frá Hornafirði og mennirnir þrír fóru að sækja hann þangað. Þeir eru:
Hreinn Pétursson, Stykkishólmi;
Jón Sigurðsson, Stykkishólmi, ættaður frá Djúpavogi;
Gunnar Þórðarson, Reykjavík, ættaður úr Hergilsey á Breiðafirði.
Sagði Sverrir, að hann hefði farið austur áður en hann keypti bátinn, hefði verið á honum fullkomin skoðun, ekkert að honum að finna og allur björgunarútbúnaður um borð. Síðasta skeytið, sem Dagný sendi á fötstudagskvöld var til útgerðarmannsins, sem beið bátsins í Reykjavík. Þar sagði, að báturinn yrði kominn inn upp úr kl. 9 og allt væri í lagi. Veður var mjög slæmt síðdegis á föstudag, skall þá á norðaustan hvassviðri með svartabyl og ísþoku og hlóðst mjög á bátana. Í gær var orðið bjart á þessum slóðum, en samt slæmt í sjó og ísþoka, svo hætt var við ísingu á bátunum. Strax á föstudagskvöld var hafin víðtæk og skipuleg leit að bátunum. Fóru strax út 15 bátar og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins við Faxaflóa voru allar kallaðar út. Í gær leituðu svo þrjár flugvélar, þyrla flaug með ströndinni, flugvélarnar Sif og Vorið úti yfir hafi. 20-30 bátar frá ýmsum höfnum voru að leita, aðallega utan Reykjaness, í rekstefnu frá þeim stöðum sem bátarnir voru síðast. Og leitarflokkar frá Slysavarnafélaginu leituðu alla ströndina við innanverðan Faxaflóa. Er blaðið fór í prentun hafði ekkert frekar frétzt af bátum eða mönnum.

Morgunblaðið. 9 mars 1969.


Egill EA 727 í smíðum hjá KEA á Oddeyrartanganum á Akureyri sumarið 1942.(C) Hafþór Hreiðarsson.

         Skipulegri leit hætt að                              bátunum tveim

Skipulegri leit hefur nú verið hætt að bátunum tveimur, Dagnýju frá Stykkishólmi og Fagranesi frá Akranesi, en þrír menn voru á hvorum bát. Bátanna hefur verið saknað frá því aðfaranótt laugardagsins, og ekkert til þeirra spurzt. Brak hefur fundizt, og komið í ljós við athugun að það er úr Fagranesi. Enda þótt skipulegri leit hafi nú verið hætt, verður áfram haldið að ganga á fjörur. Víðtæk leit fór fram að þessum tveimur bátum um helgina, bæði úr lofti og á landi. Leitarflokkar gengu með strandlengjunni við sunnanverðan Faxaflóa á laugardag, og flugvélarnar Sif og TF-Vorið leituðu á haf út, en þyrlan flaug tvær ferðir yfir ströndinni. Klukkan átta á sunnudag var strax farið að ganga á fjörur á ný, og þær gengnar allt suður á Reykjanes, og þyrlan leitaði margsinnis með strandlengjunni. Komu síðustu leitarflokkar inn um kl. 6 á sunnudagskvöld. Sem fyrr segir hafa leitarflokkar fundið nokkuð af braki rekið á land, og hefur komið í ljós að það er allt úr Fagranesi. Ekkert hefur enn fundizt úr Dagnýju enda fór hún miklu vestar fyrir Garðskaga, að því er talið er.

Morgunblaðið. 11 mars 1969.


Skipverjarnir á Dagnýju SF 61.                                    (C) Sjómannablaðið Víkingur.

Þar mætast Hólmarar í hljóðri sorg

Laugardaginn 8. marz sl. mun mörgum Stykkishólmsbúum minnisstæður. Fregnin um að leit væri hafin að m.b. Dagný flaug um bæinn og óhug setti að fólki. Það vissi að á þessum bát voru 3 ungir og hraustir sjómenn, menn sem að allra dómi áttu eftir að verða staðnum til styrktar, ef þeim entist heilsa og líf. Þeir höfðu óspart gefið slíkt til kynna. Vonin um að þeir myndu á lífi og báturinn ofansjávar fjaraði smám saman út og það var ekki langt liðið á vikuna þegar vissan var fengin, en á annan veg en bæjarbúar höfðu vonað.
Bát þennan hafði Sverrir Kristjánsson nýlega keypt frá Hornafirði til atvinnubóta í Stykkishólmi. Hann var á leið í heimahöfn til að hefja sjóróðra. Sverrir hafði ásamt hinum ungu mönnum unnið vel og dyggilega að þessari atvinnubót staðarins og allt virtist blasa blessunarlega við. Það er ekki lengi að skipast veður í lofti. Það vita sjómennirnir bezt. Þeir skilja kannski einna greinilegast fallvaltleik hlutanna. í dag er hinna duglegu sjómanna sem fórust með m.b. Dagný minnzt í Stykkishólmskirkju. Þar mætast Hólmarar í hljóðri sorg og votta ástvinum samúð sína.
HREINN PÉTURSSON var fæddur 1. júní 1946, sonur hjónanna Vilborgar Lárusdóttur og Péturs Jónssonar. Hann var því rúmra 22ja ára er hann lézt . Snemma fór hann á sjóinn. Þar haslaði hann sér völl og var liðtækur maður . Ætlaði sér stundum ekki af, enda gekk hann að verki einhuga . Hann var kvæntur Sæbjörgu Guðbjartsdóttur og áttu þau tvo syni. Þau bjuggu í Stykkishólmi.
JÓN SIGURÐSSON var Austfirðingur , en kom hingað vestur árið 1964 , þá til sjóróðra , Hann var fæddur 7. apríl 1947 og því rúmlega 21 árs að aldri . Foreldrar hans voru Árný Reimarsdóttir og Sigurður Albertsson . Hann lætur eftir sig unnustu , Júlíönu Gestsdóttur og eitt barn. Þau höfðu nýlega komið sér upp snyrtilegu heimili í Stykkishólmi og allt virtist blasa við á hinn ákjósanlegasta veg.
GUNNAR ÞÓRÐARSON var Breiðfirðingur . Foreldrar hans voru Þorbjörg Sigurðardóttir og Þórður Benjamínsson, sem lengst af bjuggu í Hergilsey. Þau eiga nú um sárt að binda. En eldur minninganna  vakir. Við þann eld verma ástvinir sér, geyma minningar um vaska sjómenn. Þeir voru á heimleið til að draga björg í bú. Annar máttur sneri þeim heim. Það koma mörg spurningarmerki í hugann, en hvað um það. Trúin segir heilög höndin hnýtir aftur slitinn þráð og við trúum því að handleiðsla drottins sé það eina sem verulegt gildi hefir í lífinu. Í þeirri trú eru þessir góðu drengir kvaddir. Sálmurinn segir:
Ég er á langferð um lífsins haf og löngum breytinga kenni, mér stefnu frelsarinn góði gaf ég glaður fer eftir henni. Blessuð sé minning hinna vösku sjómanna.

Sjómannablaðið Víkingur. Mars 1969.


Vélbáturinn Egill EA 727.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

   Tveir bátar frá Skipasmíðastöð                   K. E. A. Iáta úr höfn

Tveir nýjir bátar, smíðaðir í skipasmíðastöð KEA á Oddeyrartanga bjuggu sig til að halda á brott héðan úr höfninni á miðvikudagsmorgun. Stærri báturinn heitir "Egill" og er eign útgerðarmannanna Jóns Sigurpálssonar og Sigvalda Þorsteinssonar í Ólafsfirði. Báturinn er 27 smálestir að stærð, knúinn 100-125 hestafla Hesselman-dieselvél. Eigendurnir hyggjast að halda bátnum út til þorsk- og síldveiða frá Ólafsfirði. "Mér líst ágætlega á bátinn", sagði Jón Sigurpálsson, er vér fundum hann að máli um borð á miðvikudagsmorguninn. "Mér sýnist hann vera vandaður í hvívetna og geri mér hinar beztu vonir um hann".

Dagur. 16 október 1942.




Flettingar í dag: 505
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723170
Samtals gestir: 53662
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 16:14:43