10.03.2019 08:16

Jón Finnsson GK 506.

Mótorbáturinn Jón Finnsson GK 506 var smíðaður í Skipasmíðastöð Daníels Þorsteinssonar í Reykjavík árið 1939 fyrir Jóhannes Jónsson útgerðarmann á Gauksstöðum í Garði. Eik. 27 brl. 50 ha. Wichmann vél. Árið 1945 voru Jóhannes Jónsson og Þorsteinn Jóhannesson eigendur bátsins. Ný vél (1946) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 2 október 1947, Óskari Kristjánssyni á Suðureyri, hét Súgfirðingur ÍS 506. Seldur 6 október 1953, Grímúlfi Andréssyni og Jóhannesi Kristjánssyni í Stykkishólmi, hét Hafdís SH 7. Seldur 1955, Erlingi Viggóssyni skipstjóra á Rifi, sama nafn og númer. Báturinn fékk á sig brotsjó þegar hann var að veiðum út af Breiðafirði 9 mars árið 1956. Varð Hafdís stjórnlaus eftir áfallið. Áhöfninni, 6 mönnum, var bjargað um borð í togarann Hallveigu Fróðadóttur RE 203 úr Reykjavík á síðustu stundu. Hafdís rak síðan upp í Látrabjarg og brotnaði í spón þar.


Jón Finnsson GK 506 á leið inn Siglufjörð til löndunar.                              Ljósmyndari óþekktur

                Nýr mótorbátur

Nýlega var hleypt af stokkunum á skipabyggingarstöð Daníels Þorsteinssonar nýjum bát, "Jóni Finnssyni". Hann er 27 smálestir, með 100 hesta Wickmann vél, og mun kosta um 53 þúsund krónur. Bátinn tefur látið smíða Jóhannes á Gauksstöðum í Garði, og fer brátt á síldveiðar með reknet í Faxaflóa.

Þjóðviljinn. 26 ágúst 1939.


Áhöfnin á Hafdísi SH 7 við komuna til Reykjavíkur.                               (C) Morgunblaðið.

 Togari bjargaði öllum mönnunum                      af Rifsbátnum

Um klukkan hálf fimm í gær kom togarinn Hallveig Fróðadóttir hingað til Reykjavíkur af veiðum. Á leið til hafnar fór togarinn til hjálpar hinum nauðstadda vélbát frá Rifshöfn, Hafdísi. Skipsmenn á bátnum yfirgáfu hann í stórsjó og komust upp í togarann, sem lagði að bátnum, sem hrakti stjórnlaus í stórsjó.
Tíðindamaður Mbl. átti stutt samtal við skipbrotsmenn um borð í togaranum í gærdag. Þeir höfðu farið í róður á miðvikudagskvöldið. Óveðrið skall á þá síðdegis á fimmtudaginn og var stórsjór kominn skömmu síðar. Báturinn var á heimleið, er á hann kom heljarólag og færði hann að mestu í kaf. Í þessu ólagi skolaði öllu lauslegu af þilfari, og veiðarfærin fóru í skrúfu bátsins með þeim afleiðingum, að hann varð stjórnlaus.
Veðrið hélzt óbreytt allt kvöldið og nóttina. Komu þá margir hnútar á bátinn. Ekki kom þó leki að honum, að því er skipverjar töldu, en sjór komst niður í lúkar og víðar. Skipverjar gátu ekkert aðhafzt til þess að bjarga bátnum, og var mesta furða hve hann varðist í þeim óskaplega stórsjó, sem var, sagði einn mannanna. Klukkustundirnar voru lengi að líða þessa nótt. Bátinn hrakti óðfluga undan veðri og sjó, en framundan var Barðaströndin. Óttuðust skipverjar að svo kynni að fara, að bátinn bæri þar fyrr upp, en hjálp bærist. Um klukkan 11 í fyrrakvöld var Bæjarútgerðartogarinn Hallveig Fróðadóttir á leið til Reykjavíkur, þegar skipstjórinn var beðinn um að fara bátnum til aðstoðar, af talstöðinni á Hellissandi.
Nýsköpunartogarinn klauf stórsjóana og sigldi með eins mikilli ferð og hægt var Hafdísi til aðstoðar. Og um klukkan 4 um nóttina var togarinn kominn að hinum nauðstadda báti. Létu yfirmenn á togaranum hann lóna hægt upp að bátnum og mynda þannig skjól fyrir hann. Í tveim slíkum atrennum stukku skipsmenn allir af bátnum upp í togarann, nema einn, annar tveggja Færeyinganna, sem á bátnum voru. Einhverra orsaka vegna var sem hann treysti sér ekki að stökkva upp í togarann. Einn hásetanna á togaranum, sundmaður góður og þrek menni, Guðmundur Einarsson að nafni, fór þá úr sjóstakknum og eftir að bundin hafði verið utan um hann lína, og togarinn enn látinn nálgast bátinn, stökk hann yfir í hann, greip manninn, og það skipti engum togum, að Guðmundur eins og rétti manninn yfir í togarann og kom sjálfur á eftir, án þess að blotna verulega. Rómuðu yfirmenn togarans mjög dugnað Guðmundar og karlmennsku hans.
Skipbrotsmenn af Hafdísi voru allir ómeiddir að heita mátti, einn hafði tognað lítilsháttar. Skipstjórinn á bátnum, Erlingur Viggósson, Sandi, mun hafa talið vonlítið eða vonlaust að bjarga bátnum eins og veðri var háttað, og ekki talið forsvaranlegt að hafa menn sína í bátnum og því var ákveðið að yfirgeta hann. Það er talið nokkurn veginn öruggt, að hann hafi borið á land á Barðaströndinni og brotnað þar því að mjög nákvæm leit varðskips í gærdag varð árangurslaus.
Um leið og skipbrotsmennirnir gengu af skipsfjöl, báðu þeir Mbl. að færa yfirmönnum og  skipsmönnum öllum á Hallveigu Fróðadóttur þakkir sínar. Á vélbátnum Hafdísi, sem einu sinni hét Jón Finnsson og var þá úr Garðinum, voru þessir menn auk Erlings skipstjóra:
Feðgarnir Friðþjófur Guðmundsson og Sævar Friðþjófsson frá Rifi,
Sigurður Þórðarson, Rifi, og svo tveir ungir Færeyingar, Gustav og Tari frá Þórshöfn.

Morgunblaðið. 10 mars 1956.


Flettingar í dag: 530
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 726120
Samtals gestir: 53855
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 05:53:56