Blogghistorik: 2019 N/A Blog|Month_11

27.11.2019 12:09

Þórkatla GK 97. TFXO.

Vélbáturinn Þórkatla GK 97 var smíðaður í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 67 brl. 180 ha. Skandia vél. Eigandi var Einar G Sigurðsson útgerðarmaður í Keflavík frá júlímánuði 1946, hét þá Hulda GK 97. Hét upphaflega Vastenvag. Hinn 26 febrúar 1947 varð það slys að Einar, eigandi bátsins og skipstjóri, féll útbyrðis og drukknaði. Seldur 2 júlí 1947, Tangabátunum hf í Vestmannaeyjum, hét þá Þorgeir goði VE 34. Seldur 4 janúar 1957, Hraðfrystihúsi Þórkötlustaða hf í Grindavík, hét þá Þórkatla GK 97. Báturinn strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur 27 nóvember árið 1959. Áhöfnin, 8 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbáti til lands heilir á húfi. Þórkatla eyðilagðist á strandstað.


Þórkatla GK 97 á leið til Siglufjarðar.                                                             (C) Snorri Snorrason. 

           Enn eitt slysið

Mótorbáturinn Hulda frá Keflavík hefur stundað netjafiskirí á þessari vertíð. Miðvikudaginn 26. febrúar var hún í slíkri veiðiför. Gott veður var og sjólaust. Klukkan um hálf eitt á hádegi höfðu skipverjar vitjað um eina trossu og voru á leið að annari. Einar G. Sigurðsson, eigandi og formaður bátsins kallaði á einn af hásetum sínum og bað hann að taka við stýri af sér, því keyrslutíminn skyldi notaður til matar. Einar gekk aftur í káetu og þaðan út á þilfarið. En er matsveininn fór að lengja eftir honum í matinn fór hann að litast um eftir honum. Hann fór að engu óðslega því að hann mun helst hafa haldið að Einar hafi hallað sér einhversstaðar til hvíldar. En brátt fóru menn að örvænta um hann og leituðu nú skipverjar allir og á öllum hugsanlegum stöðum en fundu hvergi Einar., eða neitt, sem leitt gæti grun að hvarfi hans.
Telja þeir líklegast að hann hafi viljað huga að einhverju og sennilega fengið aðsvif og fallið þannig fyrir borð. Á síðastliðnu sumri keypti Einar bát þennan frá Svíþjóð og hóf aftur formennsku eftir nokkurra ára hlé. Hafði hann áður verið formaður í fjölda mörg ár og verið fengsæll mjög. Einar var af öllum, sem hann þekktu bezt, mjög vel látinn, ákaflega hjálpsamur og drengur hinn bezti, enda munu margir telja sig í þakkarskuld við hann. Hann lætur eftir sig konu, dóttur og tvo syni.

Faxi. 1 mars 1947.


Þorgeir goði VE 34 í sínu upprunalega útliti, "Blaðra".                                    (C) Tryggvi Sigurðsson.

              Fórst í fimmta róðri
     Áhöfnin komst í gúmmíbátinn

Um miðnætti í fyrrinótt fórst Grindavíkurbáturinn Þórkatla undir innsiglingarvitanum inn til Grindavíkur. Átta menn voru á bátnum og björguðu þeir sér allir á gúmmíbjörgunarbáti. Telja skipsmenn með öllu óvíst, að svo giftusamlega hefði tekizt, ef þeir hefðu ekki komizt í gúmmíbátinn. Á þessum sömu slóðum og Þórkatla fórst, varð skipstapi og manntjón fyrir sjö árum. Vélbáturinn Þórkatla var nær 70 tonna vélbátur. Hefur Erling Kristjánsson í Grindavík, ungur og dugandi sjómaður, verið formaður á bátnum í 3 ár. Var Þórkatla í fimmta síldarróðri sínum er óhappið vildi til. Báturinn var kominn svo nærri Innsiglingunni í Grindavíkurhöfn að þeir sem í brúnni voru, höfðu verið að skima eftir svonefndum ,,Djúpsundsmerkjum", er báturinn tók niðri á boða. Talsverð ylgja var og brim. Í stuttu samtali sem Mbl. átti í gær við Erling formann Kristjánsson á heimili hans í Grindavík, sagði hann, að ástæðan fyrir óhappinu hafi verið sú að báturinn hafi verið kominn nokkuð af venjulegri siglingaleið, verið of grunnt. Hafi hann strax eftir að báturinn tók fyrst niðri, en þá hafði formaðurinn verið að fá sér kaffisopa, séð að báturinn var kominn á hættusvæði, þar sem brimið braut á boðum og skerjum allt í kring. Árangurslaust var reynt að bakka bátnum út úr brotunum. Eins og komið var þá var aðeins um eitt að gera. Reyna að bjarga mönnunum.
Því kvaðst Erling hafa tekið þá ákvörðun, að hleypa upp að ströndinni undir vitanum, klöngrast yfir sker og boða. Hvað eftir annað tók báturinn niðri, en formanninum tókst að koma bátnum yfir boðana, og inn að stórgrýttri ströndinni, inn í bás, þar sem heitir Hópslátur, en þar fyrir ofan er Grindavíkurvitinn. Á meðan á þessu gekk, sem allt tók aðeins nokkrar mínútur, höfðu skipsmenn allir sýnt mikla ró og stillingu. Hver gekk að sínu verki, sem Erling formaður sagði fyrir um. Þannig var gúmmíbjörgunarbáturinn strax leystur frá, kallað út neyðarkall, og er báturinn var kominn inn í fyrrnefndan bás, var allt til reiðu fyrir skipsmenn að yfirgefa bátinn, sem var tekinn að sökkva því botninn hafði brotnað mjög. Allir skipsmenn nema matsveininn höfðu verið uppi í brú eða á þilfari við að ganga frá afla og veiðafærum. Matsveininn einn var kominn niður. Fyrst fóru í gúmmíbátinn 3 skipverjanna. Höfðu þeir með sér línu úr hinum sökkvandi báti. Er þeir komu í fjöruna og höfðu skriðið út úr bátnum í brimgarðinum, drógu skipsfélagar þeirra úti í bátnum, gúmmíbátinn til sín. Þar voru þeir sem eftir voru, fimm talsins, til taks að fara í bátinn. Erling formaður hafði verið inni í brúnni, og skaut þaðan neyðarrakettu upp. Rétt í sama mund sökk báturinn svo að aftan að brúin fylltist af sjó, og flaut Erling þá út um einn brúarglugga en náði fljótt fótfestu á þilfari, og fór að gúmmíbátnum. Rétt á eftir, að hann sem formaður hafði síðastur manna yfirgefið hinn strandaða bát, stóð aðeins bátstefnið upp úr. Báturinn hvarf þeim sjónum í næsta broti en það fleytti mönnunum upp að ströndinni. Eftir það sást báturinn ekki, utan þess að um háfjöru í gærmorgun, hafði annað mastrið sézt. MiIIi 30-50 metrar voru frá bátnum og upp í fjöruna og gekk sú ferð greiðlega. Voru skipbrotsmennirnir lagðir af stað gangandi og komnir fram hjá Grindavíkurvita, á hinum þrönga slóða gegnum hraunið, er björgunarleiðangurinn frá Grindavík kom á móti þeim. Og um leið og kona formannsins bar tíðindamanni og Ijósmyndara Mbl. rjúkandi kaffi, sagðist hún ekkert hafa vitað um hversu komið var, fyrr en Erling kom heim allur holdvotur. Til allrar hamingju sagði hún og setti frá sér bollabakkann.
Á bátnum voru auk Erlings Kristjánssonar formanns: Eyþór Magnússon stýrimaður frá Selfossi. Hann var í brú er báturinn strandaði. Vélstjóri var Sigurður Pálsson frá Reykjavík, annar vélstjóri Ingólfur Júlíusson, Grindavík, matsveinn Þorvaldur Ottóson Reykjavík, Pétur Kristófersson Arnarfirði, Ragnar Magnússon Grindavík og Finnbogi Sigurðsson Hafnarfirði voru allir hásetar.

Morgunblaðið. 29 nóvember 1959.


22.11.2019 10:16

1050. Eldborg GK 13. TFKB.

Vélskipið Eldborg GK 13 var smíðað hjá Slippstöðinni hf á Akureyri árið 1967 fyrir Eldborg hf (Gunnar Hermannsson skipstjóra og Þórður Helgason) í Hafnarfirði. 415 brl. 980 ha. MAN díesel vél. Eldborgin var stærsta stálskip sem smíðað hafði verið hér á landi til þess tíma, og jafnframt það fyrsta sem smíðað var með tvö þilför. Selt í desember 1978, Einari Guðfinnssyni hf í Bolungarvík, hét þá Hafrún ÍS 400. Skipið strandaði utarlega undir Stigahlíð í Ísafjarðardjúpi 2 mars árið 1983. Áhöfnin, 11 menn, björguðu sér sjálfir upp í fjöru, en þyrla landhelgisgæslunnar, TF-Rán (fórst í nóvember sama ár í Jökulfjörðum með allri áhöfn, 4 mönnum) og önnur sem var Frönsk, bjargaði síðan mönnunum og flutti þá til síns heima á Ísafirði og í Bolungarvík. Skipið eyðilagðist fljótlega á strandstað.


1050. Eldborg GK 13 á loðnuveiðum.                                                  (C) Sigurður Bergþórsson.

          Hægt að hafa heilt síldarplan                                    undir þiljum 

 segir Gunnar Hermannsson skipstjóri                        á Eldborgu

Eldborg, stærsta stálskip, sem smíðað hefur verið hér á landi, kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar í Hafnarfirði í gær. Skip þetta er smíðað hjá Slippstöðinni á Akureyri og var hleypt af stokkunum 22. Júlí  í sumar. Aðaleigendur þess, Gunnar Hermannsson skipstjóri og Þórður Helgason 1. vélstjóri, sýndu blaðamönnum og öðrum gestum skipið í gær, en þar er margt nýjunga. Sagði Gunnar skipstjóri, að skipið gæti stundað allan venjulegan veiðiskap, hvort heldur væri síldveiðar, togveiðar, línu eða netaveiðar. Skipið er með tvöföldu dekki og er vinnupláss undir þiljum á neðra dekkinu, þar sem hægt er að hafa heilt síldarplan ef svo ber undir að því er Gunnar sagði. Kælikerfi er í undirlest skipsins, en hún er fjórskipt, þannig að minni hreyfing verður á aflanum í lestinni en ella. Skipið kostar um 28 milljónir með öllum tækjum og mun það vera sambærilegt verð, miðað við skipasmíðastöövar á Norðurlöndum, enda sagði Gunnar, að hann mundi ekki leita annað, ef hann þyrfti að láta smíða annað skip, og rómaði mjög allan frágang. Meðal tækja skipsins er nýtt amerískt fiskileitartæki, sem  ekki mun hafa verið reynt hér áður, nema ef til vill í einu skipi. Það er eins konar neðansjávarradar, SS 200 Zona, en það gefur radarmynd af sjónum allt umhverfis skipið og dregur um 1000 metra (3200 fet). Tæki þetta á að gefa heildarmynd af síldartorfunum, eða fiskitorfum í nálægð skipsins, en Astiktækin sýna ekki nema lítinn geira af sjónum umhverfis. Nú er verið að byrja að framleiða tæki af þessari gerð, sem eru mun langdrægari og telja margir að slík tæki verði leitartæki framtíðarinnar. Eldborg er að sjálfsögðu búin hliðarskrúfum, eins og flest nýjustu síldarskipin, síldardælu og sérstökum löndunartækjum til pess að landa úr lestum skipsins.
Eldborg er 415 lestir samkvæmt nýju mælingareglunum, ganghraði skipsins var 12,4 mílur í reynsluför. Það mun halda á síldarmiðin nú um helgina.

Vísir. 15 september 1967.


1050. Eldborg GK 13 með fullfermi af loðnu á Eskifirði.                         (C) Vilberg Guðnason.


1050. Eldborg GK 13 með fullfermi af loðnu á leið inn til Eskifjarðar.             (C) Vilberg Guðnason.

Stærsta skip, sem smíðað er hérlendis

 Eldborg GK 13 hleypur af stokkunum
           í Slippstöðinni á Akureyri

Akureyri, 22. júlí.
Gífurlegur fjöldi áhugasamra og eftirvæntingarfullra Akureyringa fyllti hið stóra skipasmíðahús Slippstöðvarinnar hf. í kvöld til þess að verða viðstaddur hina langþráðu og hátíðlegu stund, þegar stærsta stálskip, sem smíðað hefir verið innan lands til þessa, rynni í sjó fram. Grámálað skipið með hvíta yfirbyggingu og gulan reykháf, beið þess tignarlegt og æruverðugt á stokkunum með bláar blæjur bundnar yfir nafn og númer að fá að snerta saltar sævaröldur í fyrsta sinn, prýtt fánum og skrautveifum stafna á milli. Menn skynjuðu glöggt, að upp var runninn mikill sigurdagur í sögu íslenzkra skipasmíða og þá um leið iðnaðarsögu Akureyrar, og fylgdust því með því af nokkru stolti, sem fram fór. Upphaflega var ákveðið, að athöfnin hæfist kl. 21, en vegna þess að háflóð kom seinna en búizt hafði verið við, var henni frestað til kl. 22.30. Þá gengu upp á pallinn, sem reistur hafði verið framan við skipsstefnið, Skafti Áskelsson forstjóri Slippstöðvarinnar, Hallgrímur fulltrúi, sonur hans, ásamt frúm sínum, Þorsteinn Þorsteinsson skipasmíðameistari, yfirsmiður skipsins, ásamt væntanlegum eigendum skipsins, stjórnarmönnum Eldborgar hf. í Hafnarfirði, Gunnari Hermannssyni, Þórði Helgasyni og Sverri Hermannssyni ásamt skylduliði þeirra. Alls voru viðstaddir 13 manns úr fjölskyldu Gunnars, sem verður skipstjóri á hinu nýja skipi.


Eldborg GK 13 í smíðum hjá Slippstöðinni á Akureyri 1967.     (C) HRB.

Fyrst tók til máls Skafti Áskelsson, þakkaði öllum, sem lagt hefðu hönd á plóginn við smíði þessa skips á einn eða annan hátt, og lýsti trausti sínu á akureyrskum iðnaðarmönnum og handaverkum þeirra, sem hann kvað fyllilega standast samanburð við hið bezta í nálægum löndum. Hann vonaði, að brátt yrðu íslenzkar skipasmíðastöðvar einnig samkeppnisfærar við erlendar um verðlag.
Því næst lýsti skipaskoðunarstjóri mælingu skipsins. Samkværnt nýjum alþjóðlegum mælingareglum, sem gengu í gildi fyrir Ísland hinn 1. maí s.l., er það 415 brúttó rúmlestir, en samkvæmt eldri reglum hefði það verið talið 557 rúmlestir brúttó. Lengdin er 44.25 m, breidd 8,6 m og dýpt 6,5 m. Að lokum árnaði hann skipinu allra heilla og vonaði, að það yrði happafleyta. Nú gekk fram Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, dóttir Gunnars Hermannssonar, klædd íslenzkum búningi, gaf skipinu nafn og óskaði því heilla og hamingju, um leið og hún lét kampavínsflösku brotna á stefni þess. Meðan kampavínið freyddi um bóginn, féllu blæjurnar af nafni og númeri skipsins og við blasti ELDBORG GK-13. Í sömu andrá komst skipið á hreyfingu, rann hratt og rösklega út úr skipasmíðahúsinu og flaut nú á smáýfðum sjónum fram undan Oddeyri með blaktandi fánum. Um leið gullu við fagnaðarhróp mannfjöldans.
Vélskipið Búðaklettur beið fyrir framan og dró hið nýja og glæsta far upp að bryggju í bátakvínni framan við Slippstöðina.


Eldborg GK sjósett hinn 22 júlí. Það er vélskipið Búðaklettur sem er með Eldborgina á síðunni og kom henni síðan að bryggju.               (C) HRB.
  
Heillaóskir bárust frá Jóhanni Hafstein, iðnaðarmálaráðherra, og Eggert G. Þorsteinssyni, sjávarútvegsmálaráðherra. Kjölur að Eldborgu var lagður snemma í desember 1966, og hefir hún verið smíðuð eftir reglum þýzka Lloyds, flokkunarfélagsins og Skipaskoðunar ríkisins. Hún hefir tvö heil þilför, aðalþilfar og 2. þilfar. Tvær lestar eru undir 2. þilfari, og er þeim skipt að endilöngu með vatnsþéttu þili. Ein lest er milli þilfara og íslest í framskipi. Vélbúnaður er allur af fullkomnustu gerð. MAN-dísel aðalvél framleiðir 990 hestöfl við 375 snúninga á mínútu. Við aðalvélina er tengdur úrtaksgír og öxulrafall. Skiptiskrúfa er frá norska fyrirtækinu Hjelset. Ljósavélar framleiða 220 volta riðstraum til hjálpartækja og ljósa. Tvær Ulstein-hliðarskiúfur eru í fram og afturskipi, 100 hestöfl hvor. Skipið verður útbúið til síldveiða og hefir nýtízku háþrýstivökva snurpu- og nótarvindu ásamt síldardælu. Nótarrennur eru tvær, þar af önnur aftast í niðurfærðum nótarkassa. Íbúðir eru allar í afturskipi, 7 tveggja manna klefar og 3 eins manns, auk eldhúss, borðsalar (með sjónvarpi) og snyrtingar. Aftan stýrishúss á aðalþilfari er kortaklefi og hvíldarherbergi skipstjóra. Stjórn aðalvélar og hjáJpartækja er öll framkvæmanleg úr stýrishúsi, og þar eru öll fullkomnustu siglinga- og fiskileitartæki, sem völ er á. Hjálmar R. Bárðarson gerði línuteikningu af skipinu, en allar aðrar teikningar eru gerðar í Slippstöðinni. Eldborg verður afhent eigendum fullbúið um miðjan ágústmánuð

Morgunblaðið. 25 júlí 1967.


1050. Hafrún ÍS 400 á landleið.                                                                   (C) Jón Páll Ásgeirsson.

        Nýtt skip til Bolungarvíkur

Bolungarvík, 9. jan.
Síðdegis í gær kom hingað til Bolungarvíkur rúmlega 400 lesta nótaskip sem Einar Guðfinnsson hf. hefur keypt frá Hafnarfirði. Skipið, sem áður hét Eldborg, hefur hlotið nafnið Hafrún og ber einkennisstafina ÍS 400. Skipið fer væntanlega til loðnuveiða í kvöld. Skipstjóri verður Benedikt Ágústsson og 1. vélstjóri Eiríkur Bergsson. Rækjuveiði hófst á Ísafjarðardjúpi í dag og virðist afli rækjubáta vera sæmilegur.

Morgunblaðið. 10 janúar 1979.
Hafrún ÍS á strandstað undir Stigahlíðinni.                                               (C) Morgunblaðið / RAX.


Flak Hafrúnar ÍS í urðinni undir Stigahlíðinni.                                       (C) Sveinbjörn Guðmundsson.


Flak Hafrúnar ÍS í fjörunnu undir Stigahlíðinni í sept 1988.                   (C) Gísli Aðalsteinn Jónasson.

        11 skipverjar björguðust á                 strandstað við Ísafjarðardjúp   

Liðlega fjögurhundruð tonna fiskiskip, Hafrún ÍS 400, strandaði í gær á landleið við utanverða Stigahlíð við Ísafjarðardjúp, nálægt Deildarhorni. 11 menn voru á skipinu og björguðust þeir allir í land, en nokkru síðar tóku tvær björgunarþyrlur skipbrotsmennina um borð, þyrla Landhelgisgæzlunnar og önnur franska björgunarþyrlan sem er nú hér á landi við störf. Þungur sjór var og dimmviðri þegar skipið strandaði, en þarna er mjög grýtt strönd. Skipið strandaði um kl. 14.30, en allir skipverjar voru komnir í land kl. 4. Hálfri klukkustund síðar voru björgunarþyrlurnar komnar á vettvang og gekk greiðlega að hífa skipbrotsmennina um borð, en ekki var unnt að lenda í stórgrýttri fjörunni undir snarbrallri fjallshlíð. Fluttu þyrlurnar skipbrotsmennina til sinna heimahaga á Ísafirði og í Bolungarvík, en þyrla Landhelgisgæzlunnar sótti einnig 10 manna björgunarflokk frá Bolungarvík sem var kominn langleiðina á strandstað þegar þyrlan sótti þá. Hafrún strandaði uppi í harða landi, en þegar skipstjórarnir yfírgáfu skipið var mikill sjór kominn í það. Hugað verður að björgunaraðgerðum í dag. Morgunblaðið ræddi við þrjá skipbrotsmenn í gær og fer viðtalið við Bjarna Þór Sverrisson háseta hér á eftir:
"Þetta er þriðja strandið sem ég lendi í, en ég hef aldrei áður þurft að yfirgefa skip," sagði Bjarni Þór Sverrisson háseti í samtali við Morgunblaðið á heimili sínu á Ísafirði síðdegis í gær, skömmu eftir að hann kom af strandstað með frönsku þyrlunni. "Við vorum búnir að sigla dágóða stund, eftir að skipstjórinn hafði sagt okkur að ekki yrðu dregnar nema þessar þrjár trossur sem búið var að draga, þar sem fréttst hafði af mjög vondu veðri á þeim slóðum sem hinar trossurnar voru," sagði Bjarni Þór, "þegar allt í einu var slegið af og byrjað að bakka, spurði einhver hvort að við værum komnir til Bolungarvíkur, en ég sagði að það gæti ekki verið, við værum ábyggilega að keyra einhversstaðar upp í fjöru. Um leið byrjuðu skruðningarnir og skipið var strandað. Þegar skipstjórarnir höfðu kallað okkur alla saman var óskað eftir tveimur sjálfboðaliðum til að fara í land á gúmmíbjörgunarbáti til að undirbúa að koma öðrum skipverjum í land. Róbert stýrimaður gaf sig strax fram og ég sagðist vera tilbúinn að fara með honum," sagði Bjarni Þór. "Síðan var sett taug milli gúmmíbátsins og Hafrúnar og við fórum í bátinn, en ætluðum aldrei að komast frá skipinu vegna straums og vinds. En eftir 15-20 mínútna barning komumst við !oks að landi og þá orðnir rennandi blautir, en 30-40 metrar voru þá á milli skips og lands. Við komum síðan fyrir líflínu í landi og síðan var tildráttartaug fest í gúmmíbátinn og menn dregnir þrír í einu í land. Þegar allir voru komnir í land og menn fóru í ullarföt sem skipstjórarnir komu með í land, var ég orðinn svo dofinn á fótunum og tilfinningalaus að ég fann ekkert til, en skipsfélagar mínir nudduðu á mér fæturna og þegar það dugði ekki tók einn skipsfélagi minn sig til og tróð löppunum á mér inn á bringu á sér og þá fyrst fór ég að fá tilfinningu í fæturna aftur. Það var erfitt að labba í fjörunni, sleipt og stórgrýtt og því gott að fá þyrlurnar. Ég var rétt að setjast á einhvern gúmmíhring sem hékk neðan úr þyrlunni, með sjópokann undir hendinni, þegar ég var allt í einu hífður upp í þyrluna. Auðvitað eru allir hálf smeykir þegar svona hendir, en allir voru rólegir og þess vegna gekk þetta vel. Ég vil að lokum koma á framfæri þakklæti til allra þeirra að svo giftusamlega tókst til."

Morgunblaðið. 3 mars 1983.






 

20.11.2019 17:36

Siglufjörður og síldin.

Það má með sanni segja að Siglufjörður hafi verið okkar "Klondyke" á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Sannarlega mikill gullgrafarabragur þar þegar mest lét. Ólíkt þeim í Alaska sem mokuðu eftir Gulli landsins, þá mokuðu íslendingar upp "silfri" hafsins eins og enginn væri morgundagurinn. Síldarævintýrin á síðustu öld hafa haft mikinn ævintýraljóma í huga íslensku þjóðarinnar æ síðan og enginn maður talinn með mönnum nema hann hafi einhverntímann farið á síld. Þeir urðu margir moldríkir af síldinni, enda var oft sungið og kveðið norður á Ströndum "Af síldinni öll erum orðin rík á Ingólfsfirði og Djúpavík", en síldin var og er ólíkinda fiskur. Stundum óð hún um allan sjó í svo miklum torfum að menn höfðu sjaldan eða aldrei séð annað eins, og þess á milli lét hún sig hverfa og sást þá jafnvel ekki arða af henni meir. En þegar öllu er á botninn hvolt, held ég að sjómennirnir, síldarstúlkurnar og þeir sem unnu í síldarbræðslunum hugsi til alls þrældómsins sem óhjákvæmilega fylgdi þessum tímum og margir hverjir tapað heilsunni í glímunni við "silfur" hafsins, hvort sem var á landi eða legi.


Siglufjörður á fjórða áratugnum.                                                          (C) Vigfús Sigurgeirsson.


     Siglufjörður og síldin

Síldveiðarnar eru orðnar mikilsverður þáttur í lífi Íslendinga. Síldarmiðin við Norðurland eru auðug náma, sem eigi aðeins íslendingar heldur og aðrar þjóðir, og þá fyrst og fremst Norðmenn ausa af, svo og Danir, Finnlendingar, Svíar, Þjóðverjar og Lettlendingar. Þó að ýmsar síldveiðistöðvar og merkar sjeu á Norður og Vesturlandi er það þó einn staður öðrum fremur, sem öllum dettur í hug, þegar minst er á síld og það er Siglufjörður. Þar er miðstöð allra síldveiða við Ísland og þar kemur mestur afli á land. Siglufjörður og síld eru tvö óaðskiljanleg hugtök. Það voru Norðmenn, sem fyrstir byrjuðu á síldveiðum hjer við land og þykjast hafa kent íslendingum að veiða síld. Þeir óðu hjer uppi sem innlendir væru og nutu allra sömu hlunninda og landsbúar lengi vel. Og svo þegar landinn fór að rumska og sýna Norðmanninum, hver ætti húsbóndarjettinn í íslenskum höfnum, brugðust hinir illa við. Þegar Íslendingar settu lög um, að eigi mættu aðrir veiða síld og verka innan landhelgi en Íslendingar sjálfir, þótti Norðmönnum þetta fúlmenska, svo vanir voru þeir orðnir gestrisninni. Og margskonar þófi hafa Íslendingar átt í við þá síðan og flóknir viðskiftasamningar við Norðmenn sprottið upp af síldinni. Nú veiða Norðmenn utan landhelgi og verka síldina þar og senda hana beint til útlanda og selja sem "Prima Íslandssíld". Þetta hefir þrengt svo markaðinn á saltsíld fyrir íslendingum sjálfum, að til nýrra ráða þurfti að taka og stofna til verksmiðjuiðnaðar. Meginhluti þeirrar síldar, sem íslenskar hendur afla nú, fer "í bræðslu" sem kallað er. Það er unnið fóðurmjöl og lýsi úr síldinni. Siglufjörður hlýtur að vera einkennilegur bær.


Það var nóg að gera á síldarplönunum.                                                (C) Vigfús Sigurgeirsson.

Þar er allt með kyrrum kjörum frá því á haustin og fram í júní, en þá fer fólkið að streyma í bæinn í hundruðum og þúsundum og höfnin fyllist af skipum. Þótti þar oft slarkfengið á vertíðinni forðum, meðan Norðmenn óðu þar uppi í algerðu lagaleysi og þóttust hafa heimild til að haga sjer eins og þeim þóknaðist. Þá spurðust oft um land allt orustur, sem háðar voru þar á kvöldin, þegar landlegur voru, þar voru dansleikir í öllum húsakynnum sem leyfðu, og þeir sem hvergi fengu húsaskjól dönsuðu á bryggjunum. Þar var nóg rúmið. Og oft var þar líka nóg af áfengi. Ef orðinu hallaði milli manna undir þeim kringumstæðum, spunnust áflog af. Fyrst milli tveggja og svo þurftu fleiri að koma til og skakka leikinn, svo að oft varð stór óflogahundahópurinn að lokum, alveg eins og í rjettunum, þegar hundarnir bitust. Lögreglulið var ekki til, þess megnugt að skakka leikinn, og sögðu slæmar tungur, að lögregluþjónninn hypjaði sig á burt, þegar áflogin byrjuðu. Sögurnar frá Siglufirði í þá daga voru ekki ósvipaðar sögunum, sem maður heyrir vestan frá námubæjunum í Klondyke og sem svo oft eru sýndar á kvikmyndum. Og eflaust hefði mátt taka skemmtilega og "drastiska" kvikmynd af hinu forna Siglufjarðarlífi, ef sögurnar hafa verið sannar. En nú er allt með öðrum svip. Nú er lífið komið í fastari skorður og nú þykir það viðburður, ef heyrist að handalögmál gerist á Siglufirði, nema þá milli kommúnista og "borgaranna", en slík handalögmál eru ekki ótíðari annarsstaðar hreyfingunni veldur fyrst og fremst áhugi bæjarbúa sjálfra fyrir því að reka af sjer óspektirnar, aukin löggæsla, minna brennivín, en umfram allt það, að nú eru útlendingar miklu sjaldsjeðari gestir á Siglufirði en áður var, meðan útlendu skipin lögðu þar upp afla sínum.


Síldarstúlkurnar salta í hverja tunnuna eftir aðra.                                   (C) Vigfús Sigurgeirsson.
  
Siglufjörður er að verða fyrirmyndarbær, með fallegu skipulagi, bær sem er einstakur í sinni röð á Íslandi, fyrir allar bryggjurnar og "plönin", sem síldin krefst. Í júnímánuði fara skipin íslensku að búast á síldveiðar og koma norður á síldveiðistöðvarnar í júnílok eða fyrst í júlí. Er þá oftast veitt í bræðslu fyrstu vikurnar, ýmist vegna þess að síldin þykir ekki söltunarhæf vegna megurðar eða vegna þess að áta er í henni, svo að ekki má salta hana nema magadregna. En 20.-25. Júlí hefst söltunin fyrir alvöru. Þá eru öll skip komin á síldveiðar og er það ekki smáræðisfloti. Í sumar stunduðu þannig síldveiðar 8 togarar, 31 gufubátur og 63 vjelbátar. Voru togararnir úr Reykjavík og Hafnarfirði, gufubátarnir flestir úr Reykjavík, Hafnarfirði og af Akranesi, en vjelbátarnir frá Vestmannaeyjum, Faxaflóa og af Ísafirði og úr Eyjafirði aðallega. Telja má, að á hverjum vjelbát sjeu 16-17 menn, á gufubátunum 18-20 og á togurunum 20-22. Við veiði síldarinnar hafa því fengist um 1800 manns á síðastliðnu sumri. Hvað er það, sem hefir gert Siglufjörð sjerstaklega að miðstöð síldveiðanna? munu ókunnugir spyrja. Aðal síldarmiðin eru frá Horni til Langaness og enda má telja síldarmiðin allt frá Ísafjarðardjúpi og austur til Bakkafjarðar. Á þessu svæði er Siglufjörður miðsvæðis og þaðan er því hentugt að sækja hvort heldur vill austur eða vestur, þangað sem síldinni þóknast að vera í það skiftið. Því að hún hefir enga prentaða ferðaáætlun og er ýmist í austri eða vestri. Gamlir menn og reyndir telja síldargöngurnar þrjár og koma þær allar að vestan.


Síldin brædd dag og nótt.                                                               (C) Þorsteinn Jósepsson.
  
En svo geta þær horfið á miðri leið, eða breytt áætlun, eftir því hvernig átan, sem síldin er á hnotskóg eftir, hagar sjer, en mestu veldur þó veðráttan um síldaraflann. Þegar veður er hagstætt má oftast nær finna næga síld einhversstaðar, vestur í Húnaflóa, út af Skaga og á Skagafirði, út af Eyjafirði eða austur við Sljettu eða Langanes. Skipin koma flest inn á kvöldin og fara út seinnipart nætur. Það er með síldina eins og laxinn, að hún veiðist verst um hádaginn en best í ljósaskiftunum, en svo mislangt er að sækja hana, að eigi geta skipin áætlað sjer ákveðinn tíma til að komast þangað sem veiðin er. Um sjálfa veiðina og veiðiaðferðina mætti skrifa langt mál, en hjer er ekki rúm til að rekja annað en það, sem viðkemur síldinni eftir að hún er komin að landi og verður þó að fara mjög fljótt yfir sögu.
Flest skipin selja ákveðinn hluta afla síns til söltunar, en mestan hlutann í bræðslu. Leggur þá skipið fyrst að söltunarplássinu er það kemur inn og skipar þar upp því  nýjasta af aflanum. Venjulega þykir síldin ekki söltunarhæf, ef hún er meira en 8 tíma gömul úr sjónum. Þegar því er lokið flytur skipið sig að verksmiðjubryggjunum og þar er svo afgangnum skipað upp. Á söltunarplássin er síldinni skipað upp í körfum og stömpum, og er þeim ekið upp að söltunarkössunum á kerrum og tæmdir þar, eða tæmt úr körfunum beint í kerrurnar.

 Síldinni landað úr bát á Siglufirði.                                                     Vigfús Sigurgeirsson.
 
Annars vegar við kassana standa söltunarstúlkurnar viðbúnar að taka við síldinni með stamp og salttrog og klippur sínar og má þar sjá snör handtök, er þær grípa síldina, kverka hana og velta upp úr saltinu og þá eru handbrögðin eigi síðri þegar stúlkurnar raða síldinni í tunnurnar; hvert síldarlagið fyllist á augnabliki, saltlagi er skvett ofan á og svo koll af kolli þangað til tunnan er orðin full. Nú á síðustu árum er farið að verka mikið af síldinni sem matjessíld, er hún linsaltaðri en venjuleg saltsíld. Í saltsíldartunnuna mun fara um 25 kg. af salti (grófu salti), en í matjessíldartunnu ca. 16 kg. af fíngerðu salti. Verksmiðjusíldinni er skipað upp með krana, sem gengur fram og aftur með málin, milli skips og bryggju. Við síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði getur eitt skip landað um 100 málum á klukkutíma. Það væri freistandi að segja nokkuð frá ferðalagi síldarinnar frá því að hún skilur við skipsfjöl og þangað til hún er orðin að mjeli og lýsi, en margan mun furða á því, að ekki líður nema klukkutími frá því að hún fer úr geymsluþrónni inn í verksmiðjuna og þangað til mjelið er komið í sekkinn. Lýsið tekur nokkru lengri tíma að fullverka. Síldin er afhent verksmiðjunum eftir vikt og er þá talið, að málið, eða 1 ½  hektoliter sje 135 kg. Hver kynstur af síld verksmiðjurnar geti malað og pressað yfir alla vertiðina má ráða af því, að ríkisverksmiðjan á Siglufirði getur brætt 2300 mál á dag, Dr. Pauls-verksmiðjan (rekin af ríkinu) 1400 mál, Goos-verksmiðjan 900 mál, verksmiðjan á Raufarhöfn 6-700 mál, Krossanes 2300 mál, verksmiðjan á Sólbakka 1000, á Hesteyri 1330 mál og á Dagverðareyri 1150 mál.


Síldin kverkuð og síðan söltuð í tunnurnar.                                                 Ljósmyndari óþekktur.
  
Alls geta verksmiðjurnar þannið brætt um 11.000 mál á dag, og þar sem gera má ráð fyrir, að um 400 síldar fari í málið, geta þessar verksmiðjur allar malað um 4 ½  milljón síldar á hverjum degi. Úr hverju máli síldar er gert ráð fyrir að fáist 20-22 kg. af mjöli, en 18-20 kg. af lýsi. Á síðastliðinni vertíð fóru alls í bræðslu 686.726 hektólítrar af síld, og svarar það til þess að síldarmjölsframleiðslan í ár verði um 10 þúsund smálestir og lýsisframleiðslan yfir 9.500 smálestir. Þá voru saltaðar alls 216,760 tunnur, þar af saltsíld nær 88.000 tunnur, linsöltuð síld (matjes) rúmar 71.000 tunnur, kryddsíld 31.455 tunnur, og sykursöltuð síld 31.455 tunnur og sjerverkaðar 14.280 tunnur. Má ætla, að allt að 40 miljón síldar hafi verið saltaðar í sumar, ef miðað er við að þrjár síldar fari í kílógrammið, en síldarinnihald tunnu er talið 90 kg. Af tölum þeim, sem nefndar hafa verið hjer að framan má ráða hvílík ógrynni síldar eru drepin hjer við land á hverju ári. En þó er hjer alls eigi allt upp talið. Það er ekkert smáræði heldur sem útlendingarnir drepa af síld hjer við land á hverju ári. Í sumar er talið, að Norðmenn hafi saltað hjer við land 130-140 þúsund tunnur, auk þess að þeir lögðu upp mikið af bræðslusíld til  Krossanesverksmiðjunnar, en hún bræddi rúm 126.000 mál.


Tómar síldartunnur á Siglufirði.                                                       (C) Vigfús Sigurgeirsson.
  
Lettlendingar munu hafa veitt um 12.000 tunnur, Svíar um 30.000 tunnur, hinn danski leiðangur A. Godtfredsen um 5.000 tunnur, Þjóðverjar um 5.000 tunnur og Finnlendingar um 40.000 tunnur. En ekki virðist vera neitt lát á síldinni. Þessi merkilegi fiskur sækir ár eftir ár á sömu miðin. Menn hafa ekki vitað "hvaðan hann kemur eða hvert hann fer" fremur en vindurinn. En allir sjá, að það er mikilsvert atriði fyrir íslenska atvinnu, að kynnast nokkru nánar högun síldarinnar og nú á síðari árum er unnið að rannsóknum á þessu máli, af íslendinga hálfu einkum af Árna Friðrikssyni fiskifræðingi. Síldin er orðin mikilsvert þjóðhagsatriði fyrir íslendinga. Þó að marga hafi klæjað undan skellunum, sem þeir hafa fengið undan þessum silfurgljáandi fallega fiski, hlýtur að fara svo, að síldarútgerðin verði öruggur atvinnuvegur í framtíðinni. Og áhættan við þennan útveg hefir stórum minkað við það, að farið var að takmarka söltun á sildinni og bræða mikinn hluta hennar.

Fálkinn. 7 árg. 13 október 1934. 

18.11.2019 17:46

B. v. Snorri Sturluson RE 134. LCDB.

Botnvörpungurinn Snorri Sturluson RE 134 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd South Bridge Road í Hull á Englandi árið 1900 fyrir Humber Steam Trawling Co Ltd í Hull, hét þá Pointer H 513. 228 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. 125 ft. á lengd, 22 ft. á breidd og djúprista 12 ft. P.J. Thorsteinsson & Co hf (Milljónafélagið) í Reykjavík og í Kaupmannahöfn keyptu skipið í Hull í júnímánuði árið 1907. Skipið var selt í mars 1914, Hlutafélaginu Snorra Sturlusyni í Kaupmannahöfn. Keypt aftur til landsins 24 apríl 1915 og var þá í eigu Thors Jensen útgerðar og kaupmanns í Reykjavík. Togarinn var svo seldur til Englands aftur árið 1919-20.

Hún er athyglisverð frásögnin eftir Guðmund Björnsson landlækni, sem birtist í Lögréttu sumarið 1910 sem kallast "Sumarnótt á Sviði" Þar fór landlæknir í stutta sjóferð á Snorra Sturlusyni og þar var þá skipstjóri Björn Ólafsson í Mýrarhúsum. Þar kemur orðið "togari" fyrst fram. Hún er hér fyrir neðan á síðunni. 

"Nafnið "Milljónafélagið" sem almannarómur gaf hlutafélaginu vegna ákvæðisins í félagslögunum um að hlutafé þess væri 1 milljón króna. Það var aldrei sannefni og þaðan af síður hitt, sem ófróður ímyndaði sér, að félagið hefði slíka upphæð til ráðstöfunar í reiðufé. Stærstu hluthafarnir, P.J. Thorsteinsson og Thor Jensen höfðu lagt fram miklar eignir, Aage Möller fékk hlutabréf fyrir "goodwill", þ.e. viðskiptasambönd, sem hann lagði fram víða í Evrópu, en hélt þó áfram að heimta umboðslaun af fisksölum til Spánar til fyrirtækis síns, A.T Möllers & Co í Kaupmannahöfn. Hlutabréf til annarra en stofnefnda seldust dræmt, og reiðufé félagsins var því frá upphafi lítið. Til rekstursins varð það því að treysta lánstrausti sínu fyrst og fremst hjá bönkunum í Kaupmannahöfn"

Heimild: Ævisaga Thors Jensen. Framkvæmdaár. Valtýr Stefánsson 1955.


B.v. Snorri Sturluson RE 134 á ytri höfninni í Reykjavík.                                (C) Magnús Ólafsson.
 

            B.v. Snorri Sturluson

Nýjan botnvörpung hefir P. J. Thorsteinssonsfélagið eignast nýlega frá Englandi, ekki nýsmíðaðan þó, heldur 7 ára, á stærð við Marz. Skipstjóri er Guðbjartur Jóakim Bjarnason og skipshöfn öll íslenzk, nema vélstjórar (enskir). Skipið hefir verið skírt Snorri Sturluson. Það lagði á stað héðan í gær til veiða.

Ísafold. 22 júní 1907.


B.v. Snorri Sturluson RE 134 á Reykjavíkurhöfn.                               Mynd á póstkorti í minni eigu.


Hafskipabryggja "Milljónafélagsins" í Viðey. Fyrir miðri mynd er kútter Björn Ólafsson GK 21. Kaupskip og togari við bryggjuhausinn.       (C) Magnús Ólafsson.

 

        Sumarnótt á Sviði  

Sumarið 1910 birtist í Lögréttu frásaga eftir Guðmund Björnsson, landlækni, sem hann kallaði "Sumarnótt á Sviði". Þar lýsir hann vel og skemmtilega veiðiför með íslenzkum togara út í Faxaflóa. Er þar brugðið upp góðum myndum frá togaraútgerðinni, eins og hún var hér fyrstu árin. Þegar grein þessi var rituð, skorti íslenzk orð yfir marga þá hluti, sem notaðir voru við togveiðar á botnvörpuskipum, og sjást þess nokkur merki á greininni, að landlæknir hefur leitað hentugra orða íslenzkra, í stað hinna erlendu heita. Fullvist mun það vera, að í þessari ferð myndaði Guðmundur Björnsson orðið togari, en það hefur rutt sér til rúms og útrýmt orðunum trollari og botnvörpungur, sem áður voru notuð. - Grein Guðmundar Björnssonar fer hér á eftir, lítið eitt stytt.

Ef litið er til hafs að kvöldi dags ofan frá Skólavörðu, má sjá mikinn skipaflota úti á miðjum Faxaflóa og reykjarmökk yfir hverri fleytu, því að allt eru þetta eimskip. Það eru "trollararnir". Orðið er komið úr ensku, en enska orðið úr frönsku. - Orðin botnvörpuskip og botnvörpungar hafa ekki náð fótfestu í mæltu máli; þau eru of löng. En sjómenn hafa sjálfir fundið orð, sem vel á við; þeir segja: að toga; "þarna er einn að toga", "við togum venjulega tvo eða þrjá tíma í senn", segja þeir. Orðið er ágætt, merkingin söm og í enska orðinu trawl. Við ættum því að segja togari, en ekki trolari, toga í stað trola og tog eða tognet í stað trawl. Þessi skip eru að ýmsu leyti frábrugðin öðrum fiskiskipum. Vinnan er ekki hættulaus. Menn slasast oft. Þeir kenna oftast járnreipunum um slysin. Það eru reipin, sem liggja út af skipinu og teyma netið. Þegar skipið tekur í þessa tauma af öllu afli, má nærri geta, að ekki muni holt að verða fyrir þeim; þeir skella þá oft fingur af mönnum. Eru þau sár því líkust sem þau væru eftir axarhögg. Þess konar meiðsli hef ég oft séð, líka beinbrot og hold marið frá beinum. Ekki alls fyrir löngu bar það við á enskum togara, að annar nettaumurinn kippti mann í sundur, af fót og mjöðm öðru megin, svo að maðurinn dó samstundis. Mér hefur því leikið hugur á að sjá þessa veiðiaðferð, vita, hvort ekki mundi gerlegt að komast hjá þessari meiðslahættu.


Hafskipabryggjan í Viðey. Togarinn sem liggur við bryggjuhausinn er sennilega Snorri Sturluson RE 134. Þetta var eina bryggjan við Faxaflóann og jafnvel víðar sem mátti teljast bryggja fyrir hafskip. Hún var um 80 m. á lengd, 6 á breidd og bryggjuhausinn var um 30 metrar, en var lengdur síðar. Hún var byggð sumarið 1907.
  
Um þetta leyti árs eru íslenzku togararnir við veiðar á nóttum, en liggja í höfn á daginn. Fyrir skömmu fór ég út á einum þeirra næturlangt. Þá gaf mér á að líta. Togarar eru borðlágir. Lyfting er miðskipa. í henni er íbúð formanna aftast, þá gangvél skipsins, en fremst, fyrir framan rykberann, stendur stýrisklefi upp úr lyftingunni, með gluggum á alla vegu. Þar er stýrishjólið og þar er skipstjóri jafnan, þegar skipið er á ferð. Niðri á þilfarinu, rétt fyrir framan lyftinguna, er stórvindan. Henni snýr gufuvél. Á vinduásnum sitja tvær feiknastórar spólur, um þær er vafið járntaumunum, sínum á hvora spóluna. Taumarnir ganga af spólunum fram eftir miðju þilfarinu, kringum tvo uppstandara úr járni nálægt framstafni og þaðan aftur á við og út á borðstokk, sinn í hvorn hlera. Eru tveir hlerar á hvort borð og hanga utanborðs þegar skipið er búið að veiða, annar fram á, hinn aftur á skipinu. En tognetin liggja þá innanborðs og jafnan tvö til taks, sitt hvoru megin, milli lyftingar og borðstokka. Hvert net er í laginu eins og heljarstór botnlangi. Nær opið milli hleranna og er áfast við þá. Þegar toga skal, hangir það nú fyrst á munnvikum sínum, sem fest eru sitt við hvorn hlerann; þá eru taumarnir settir gegnum  kengi á borðstokknum og festir í hlerana, þeim síðan hleypt niður í sjóinn 10 faðma; því næst er skipið skrúfað áfram og gefnir út taumarnir af vinduspólunum, meira eða minna eftir dýpi. Heldur nú skipið leiðar sinnar; dregst netið eftir botninum; er hlerunum svo hagað, að þeir standa á ská í vatninu og gapa móti straumnum þegar skipið gengur; spyrnir straumurinn þeim út til hliðanna; opnast þá netið og strengist efri vör þess beint milli hleranna; en neðri vörin er miklu lengri; hún slapir niður og lepur það sem fyrir verður á sjávarbotninum. Á þilfarinu framanverðu eru fetháar stíur, ferhyrnar, 5 eða fleiri. Niður í þær er fiskinum hleypt úr netinu, þegar það er innbyrt. Þegar taka á upp netið, er skipið stöðvað og snúið svo, að netið verði á kulborða. Þá er vindunni hleypt á stað og vindur hún taumana upp á spólurnar þar til hlerarnir koma upp á hástokkinn, annar fram á, hinn aftur á. Þeir eru í kjaftvikum netsins, eins og áður er getið.


Saltfiski landað úr togara á Hafskipabryggjunni í Viðey.                          (C) Magnús Ólafsson.
  
Er nú tekið í neðri vör netmunnsins, sem nær er borðstokknum, og hún dregin upp á borðstokkinn og því næst efri vörin. Ef Iítið er í netinu af fiski, er það togað inn yfir borðstokkinn mestallt; hrökklast þá fiskurinn niður í pokabotn, er þá brugðið taug utan um pokann, eins og fyrirbandi, fyrir ofan veiðina, sú taug fest í sigludragreipi og pokaendinn dreginn upp svo hátt, að hann sveiflast inn á þilfarið og hangir þar í lausu lofti. Er þá losað um bönd í pokabotninum, svo að op verður, og veiðinni hleypt niður í stíurnar á þilfarinu. Ef mikið er í voðinni, t. d. mikið á annað þúsund af vænum þorski, verður að toga upp veiðina í tvennu lagi; er þá skipið skrúfað ögn aftur á bak; leggst þá netlanginn fram með skipshliðinni; er bandinu brugðið um hann miðjan, veiðin helminguð, pokabotninn innbyrtur, opnaður, tæmdur, lokað aftur, fleygt út til að taka í sig það sem eftir var, og það svo innbyrt á sama hátt. Þá segja togarar, að þeir hafi fengið "tvo poka". Þegar bezt lætur, fá þeir 3 eða 4 poka í einum drætti.

Sumarnótt á Sviði.
Lengjast skuggar, lækkar sól,
leggjum út á Svið;
óþarft er að gefa
þeim gula næturfrið.
Köstum voð, tökum tak,
togum út við hraun;
aldrei bregðast aflamönnum erfiðislaun.


Fullt dekk af fiski og nokkrir pokar eftir ennþá við síðuna.                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Sólin var komin í miðaftansstað; veðrið var fagurt og blítt, sunnan andvari, glitaðar gárur á sjónum, en blámóða á fjöllum. Margir bátar flutu við bryggjuna og var þar margt um manninn, sumir að vinna, aðrir að spjalla og spjátra sig. Við einn bátinn stóðu tveir menn, kyrrir og þögulir. Þangað stefndi ég göngu minni. "Eruð þið Snorrungar?" Þeir brostu, kinkuðu kolli og bentu mér niður í bátinn, hlupu undir árar og réru knálega út á miðja höfnina að togara sem þar lá og bar nafnið Snorri Sturluson. Þangað var ferðinni heitið. Skipstjórinn var góður vinur minn, ungur maður, Björn að nafni Ólafsson frá Mýrarhúsum. Hann hafði boðið mér að koma með sér eina nótt út á Svið og sjá, hvernig þeir færu að toga þann gula upp úr sjónum, hann og Snorri. Mér var vísað til hans upp í stýrisklefann, fremst í lyftingunni. Snorri var ferðbúinn. Hlerarnir héngu utanborðs, tveir á hvort borð, fram á og aftur á, eins og feiknastórir skildir, en netin lágu samanbrotin fram með hástokkunum milli framhlera og afturhlera, sitt hvorum megin við lyftinguna, og voru á að líta eins og gamlar, ryðgaðar hringabrynjur. Reykjarstrókurinn stóð í háa loft upp úr reykberanum. Hásetar stóðu hljóðir á þilfari. Mér var sem stæði ég á herskipi og ætti að leggja til orustu. "Akkerið upp!" sagði skipstjóri - hann sagði það skýrt og skorinort, en æpti ekki, eins og skipstjórum er títt á útlendum skipum. Óðar en hann hafði sleppt orðinu, tók að ymja í vindunni, og fyrr en mig varði var akkerið komið upp. Þá þreif skipstjóri í vélsveifina og sendi bendingu niður í skipið til vélstjórans. Kvað þegar við strokkhljóð úr vélinni og buslugangur undan bakstafni. Snorri skrúfaði sig á stað, fyrst í hægðum sínum, en innan stundar af öllu afli, út úr höfninni, út sundin.


Flattur fiskur í stæðum á dekki í tonnatali.                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Hásetar hurfu af þilfari, gengu til hvíldar. Einn varð eftir í stýrisklefanum og stýrði eftir fyrirsögn skipstjórans. Mér varð fyrir að spyrja um ætt Snorra og uppruna. Hann er 10 vetra og enskur að uppruna; áttu hann fyrst enskir menn; bar hann þá enskt nafn; ekki veit ég, hvort hann hét Georg, Andrés eða Patrekur; en það er kunnugt, að hann var þá mesti ólánsbelgur, fékk aldrei seiði úr sjó; er það trú sjómanna, ef skip fiskar illa í fyrstu, þá verði það aldrei heppið. "Hann er mátulegur handa Mörlandanum", hugsaði Jón Boli, og varð guðsfeginn að geta selt þennan togara, sem ekkert gat togað úr sjónum. Viðeyingar (P. Thorsteinsson & Co.) keyptu hann og höfðu út hingað; var hann nú kristnaður á íslenzku og kallaður Snorri Sturluson. Var svo að sjá í fyrstu, sem hinar ensku spárir mundu rætast, og byrðingurinn gera nafninu skömm. Þá var forustan fengin í hendur Birni Ólafssyni, og síðan hefur Snorri aflað á við þá togara, sem frægastir eru. Björn var áður formaður á seglskipi, alkunnur dugnaðarmaður. Varð hér sú raunin á, að íslenzkur dugnaður mátti sín meir en enskar hrakspár og Mörlandinn hamingjudrýgri en Jón Boli. Ég hef sannar sögur af því, að engir enskir togarar afla eins vel og íslenzku togararnir, þeir, sem nú kveður mest að. Við vorum komnir út fyrir Akurey. Í vesturátt, undir sól að sjá, kom ég auga á skiparöð; þau voru um tuttugu að tölu, öll með þríhyrnu á aftursiglunni, allt togarar, sumir íslenzkir, aðrir enskir, en þó flestir franskir í þetta sinn. Á sumum var farið að rjúka, en margir voru ekki farnir að hita á kötlunum. "Það er ekki til neins að toga, um þetta leyti árs, fyrr en eftir náttmál", sagði Björn mér. Okkur bar fljótt að. "Hvar eru nú landhelgismörkin ?" spurði ég. "Nú eru þau bak við okkur", svaraði skipstjórinn. Rétt á eftir gekk hann að flautulegg, sem lá úr stýrisklefanum niður til hásetanna, og blés í legginn. Það nam engum togum; í einni svipan stóðu hásetar albúnir á þilfarinu. Þeir höfðu legið í öllum fötunum. Skipið var stöðvað. "Netið út á bakborða". Hásetar þustu til, röðuðu sér með borðstokknum og ruddu netpokabákninu útbyrðis. Nú hékk þessi heljar botnlangi niður í sjóinn með ginið upp og munnvikin áföst við hlerana; járntaumarnir af stórvindunni voru nú hespaðir við borðstokkinn og festir í hlerana, en milli þeirra er mjög stórt bil. Var nú vindan losuð og hlerunum hleypt niður 10 faðma. Því næst var skipinu hleypt á stað og gefnir út taumarnir, svo tugum faðma skifti. "Nú togum við", sagði skipstjórinn. "Hvar erum við?" "Við erum á Sandhala", sagði hann, "og hér er kveikjulegt í kvöld". Það kalla sjómenn kveikjulegt, ef mikið er af fugli, einkum svartfugli. Þar er síli og fiskvon. Veslings sílið. Fugl bítur að ofan, en fiskur að neðan.


Karlinn í "hólnum" fylgist með mönnum sínum bæta druslurnar.          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Fuglinn sá ég, en engan sandhala; hann tók ég trúanlegan. Ég veit að Sviðið er geysistórt fiskimið í miðjum flóanum; þar þekkja sjómennirnir okkar hvern blett, allt miðað við landsýn, og vita hvernig botninn er á hverjum stað og hafa ótal örnefni. Hraun er í botninum út allan flóa að sunnanverðu við Sviðið. Togarar verða að varast hraunið, til þess að rífa ekki netin. Nú er oft mestur fiskur út við hraunbrúnirnar. Vandinn er að þekkja þær og þræða með þeim. Snorri togar og togar. Hásetar eru engir uppi. Nú eru öll hin skipin farin að toga. Sólin er sezt; vindinn lægir; nú tekur að dimma í lofti; allt hljóðnar; það líður að lágnætti. En skipstjórinn vakir. Hann horfir til lands, sívakandi, síhugsandi, og heldur skipinu í einlægar bugður og króka. Hásetar taka hvíld, en hann vinnur. Hann er veiðimaðurinn. Undir honum er það komið, kunnugleik hans, árvekni og hyggindum, hvað vel gengur. Þetta hringsól villir um mig hvað eftir annað, svo að ég tapa áttum. Nú sé ég dufl, og á því rifrildi af frönskum fána. þess konar dufl hafði ég séð á Sandhalanum. "Við erum þó ekki komnir á Sandhalann aftur?", spurði ég. "Það er rétt til getið", sagði skipstjórinn, ,,og nú er bezt að sjá hvað komið er". Nú var kallað á háseta og netið innbyrt. Og veiðin? Allmikið af sundurtættum þorskhausum og tveir hálfdauðir steinbítar í pokahorninu, það var öll veiðin eftir þriggja tíma tog. Henni var óðar mokað aftur í sjóinn. "Það er ekki öll nótt úti enn", sagði Björn, hleypti Snorra á sprett góðan spöl vestur á bóginn og kastaði þar aftur út. Ég hefi aldrei heyrt að læknar séu til bölvunar á sjó, eins og prestarnir, en nú fór mig að gruna margt. "Nú fer ég og legg mig, meðan þið eruð að toga", sagði ég við skipstjóra. "Ég ætla að vita, hvort mig dreymir ekki fyrir einhverju öðru en úldnum þorskhausum". Svo fór ég niður og lagðist fyrir og bað fallega sjómannsbæn:

Mardöll á miði
í myrkbláum sal,
seiddu nú að Sviði
sækinda val;
láttu fara í friði
fengsælan hal.


Fullt dekk af fiski. Myndin er tekin um borð í Garðari GK 25.            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Síðan sofnaði ég. Mig dreymdi að allir þorskhausarnir væru orðnir að stórum fallegum skipum, krökt af þeim á flóanum, brunandi út og inn, og öll með íslenzka veifu við efsta hún. Og margt dreymdi mig fleira, sem ég segi engum frá. Loks hrökk ég upp við hrikt í vindunni. Hamingjan góða; skyldu déskotans"þorskhausarnir vera að ráðast til uppgöngu aftur. Ég þaut á fætur og upp á þilfar. Vindan másaði og vatt utan um sig járntaumunum. Innan skamms komu hlerarnir upp á borðstokkinn, annar fram á, hinn aftur á. Milli þeirra sá í opið á netpokanum. Var nú losað frá fremra hleranum band, sem þaðan gengur í neðri vör netmunnsins, þá sem slapir og lepur af botninum þegar togað er, og liggur nær skipshliðinni, þegar upp er dregið. En hvað er þetta? Allt í einu bólar á löngum dröngul, afar gildum, eins og einhverjum heljar botnlanga, beint út úr skipshliðinni. Það var ekki missýning. Þetta var netpokinn, fullur af gulhvítum stórþorskum. Nú er komin afturelding og aftur líf. Ritur og mávar komu í loftinu úr öllum áttum og 3 togarar sinn úr hverri áttinni á sjónum, til að bera sig eftir björginni. Snorrungar fylktu sér með borðstokknum, tylft manna, til að draga inn netið. Þegar útlendir menn eru margir um eitt átak, æpa þeir jafnan um leið og þeir taka á. Þessir þögðu. Þeir þrifu í möskvana allir í senn, krepptu hnefana og tóku tak, allir í einu, upp aftur og aftur, sem einn maður, alveg hljóðalaust. Þegar netopið var komið vel inn fyrir borðstokkinn, var skipið skrúfað ögn aftur á bak, svo að netlanginn lagðist fram með hliðinni. Var nú brugðið bandi um hann, nær botni en opi, og pokabotninn dreginn upp á skipið með sigludragreipinu og í honum hér um bil helmingur aflans. Þá var losað band, gert op á pokabotninn og hleypt úr honum, lokað aftur, kastað út, til að taka á móti því sem eftir var í langanum, og það svo innbyrt á sama hátt. Þessu var brátt lokið, vörpunni aftur kastað út, tómri, skipið sett á stað, gefnir út taumarnir og farið að toga. Nú áttu hásetarnir nóg að vinna. Þarna lá hátt á annað þúsund af stórþorski í stíunum á þilfarinu, sumir dauðir, flestir í fjörbrotunum. Sumir hásetanna fóru til og skáru á kverkina á hverjum fiski, til þess að úr þeim rynni blóðið. Aðrir tóku við og skáru af hausana og fleygðu í sjóinn. Allir hömuðust. Enginn mælti orð frá munni. Svo voru borð reist og farið að gera að, þvo fiskinn og fleygja honum niður í lestina, til tveggja háseta, sem tóku við og söltuðu. Mér varð starsýnt á þessi vinnubrögð; ég gáði á klukkuna og sá einn mann fletja þrjá stórþorska á einni mínútu.


Pokinn tekinn inn og tæmdur.                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Öllu innvolsi var fleygt í sjóinn, nema lifrinni. Hana fá skipverjar í kaupbæti. Sá kaupbætir getur numið 2-4 kr. á mann á sólarhring, þegar vel veiðist. "Hvaðan af Sviðinu kom okkur þessi fengur?" spurði ég skipstjórann. "Ég kastaði á Kambsleiru", svaraði hann, "togaði vestur Lága Múlann, snéri um Háa Múlann og aftur inn í Kambsleiru". Ég var litlu nær. "Hvað hefur Snorri fengið mest í einu togi?" "5000 mest, það voru 4 pokar". "En hvað hefur komið mest á sólarhring?" "11 ½  þúsund fengum við einu sinni". 5000 þúsund í einum drætti mun vera eins dæmi meðal togara. Ég undraðist ákefð og verklægni hásetanna. "Góðir menn, ágætir menn", sagði skipstjóri, "geta vakað og unnið svo dægrum skiftir, án þess að guggna". Eftir stutta stund var allur fiskurinn kominn í salt, 1600 af vænsta þorski. Í næsta togi fengum við 100 í viðbót. Var nú netinu kastað í fjórða sinn og togað góða stund. , Við íslendingar erum undarlega skapi farnir. Það er sagt um marga unga menn til forna, að þeir voru efnilegir í bernsku, en lögðust svo í öskustó og höfðust ekkert að fram undir fullorðins aldur, og þóttu til einskis nýtir; en oft fór svo um síðir, að þeir risu úr öskustónni og urðu afbragð annara manna. íslenzka þjóðin var efnileg í bernsku. Síðan hefur hún legið í öskustó. Nú er hún að rísa á fætur og hrista af sér larfana. Hún er enn ung. Hún getur enn orðið afbragð annara þjóða. Það er mín trú, að þetta muni rætast. Ef enginn trúir því, rætist það aldrei. Það er sagt, að Mörlandinn sé skussi og kunni ekki að vinna. Ég hef það eftir sannorðum manni, að einu sinni fyrir skömmu voru 10 menn að moka upp úr hússtæði í Reykjavík. "Ég sá til þeirra út um glugga", sagði hann, "og tímum saman voru aldrei nema tvær skóflur á lofti í einu, hinir voru að spjalla og taka í nefið". Annar kunningi minn segist hafa setið að gamni sínu og horft á trésmið, sem var að leggja undirgólf milli bita í nýreistu húsi. "Hann var fulla klukkustund að negla 4 stuttar fjalir, 4 nagla í hverja fjöl; þetta var við alfaraveg; hann var síkjaftandi við þá, sem um götuna gengu". Þessir menn eru ekki risnir upp úr öskustónni. Þó er nú margur kominn á legg, og það verð ég að segja, að ég hef hvorki utan lands né innan séð fríðari og röskari verkamannasveit, en skipshöfnina á Snorra Sturlusyni. Á því skipi er enginn útlendur maður. Það er sagt um Þorbjörn Kólku landnámsmann, að hann hafi róið einn á steinnökkva frá Hafnabúðum á Skaga og róið lengra en allir aðrir. Hann hafði til að beita á öngli sínum "Fóhorn og flyðrugarnir, mannaket í miðjum bug og mús á oddi", segir gömul þjóðsaga í Húnavatnssýslu. Hann var afburðamaður, en einrænn og ekki orðmargur; og því líkir voru margir ættfeður okkar Íslendinga. Því líkir eru margir íslendingar enn í dag, ef þeir hafa sig upp úr öskustónni.


Dekkið "smúlað", sennilega á landleið. Takið eftir vara toggálganum sem bundinn er við s.b. toggálgann. 
(C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Bátstjórinn á Snorra minnti mig á Þorbjörn Kólku. Ég þekki hann ekki og veit ekki hvað hann heitir, en íslenzki ættarsvipurinn leyndi sér ekki. Hann var í hærra meðallagi, þrekinn mjög, rjóður og búlduleitur, íbygginn og alvörugefinn, gætti verka sinna og gáði ekki annars. Skipstjóri sagði, að sá maður stæðist hverja raun. Nú hrökk ég upp úr hugsunum mínum, heyrði rymja í vindunni. Þegar ég kom upp, var verið að innbyrða netið í fjórða sinn, og var ekkert í því nema fáeinir nýir þorskhausar, "líklega þeir sem við köstuðum út í nótt", sagði skipstjóri. Það var komið fram yfir miðjan morgun, og Snorri snéri nú til lands. Þennan morgun var sumar á sjó og landi, sunnanvindur hægur og hlýr, og sól í austri, en skýflókar á lofti, svo að skugga bar víðast á láglendið og var sem sæi á myrkan skóg með björtum rjóðrum.
Landsýnin af Sviði er ein hin fegursta við Íslands strendur. Ef litið er inn flóann, má sjá á vinstri hönd "þrjú fjöll há og dali í öllum", eins og segir í Kjalnesingasögu. Það er Skarðsheiði, Akrafjall og Esjan. Til hægri handar sér í Reykjanesfjallgarðinn. En beint fram undan getur að líta nes og eyjar, og þar upp af hæðótt láglendi, víðáttumikið, og bak við það Hengilinn. Þess gætir ekki af sjónum, að landið er hrjóstrugt. Togararnir okkar eru að verða þjóðinni til stórsóma með dugnaði sínum. Ef þið trúið mér ekki, þá farið og gistið hjá þeim eina sumarnótt úti á Sviði.  

Sjómannablaðið Víkingur. 11-12 tbl. 1 desember 1947.

17.11.2019 12:25

B. v. Leifur heppni RE 146. LCHW.

Botnvörpungurinn Leifur heppni RE 146 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Firmað Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar, Reykjavíkur þann 8 apríl sama ár. 324 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 136 x 23,3 x 10,7 ft. Smíðanúmer 734. Skipstjóri á Leifi heppna var Gísli Magnús Oddsson og var hann einn af eigendum hans. Togarinn fórst út af Vestfjörðum ásamt Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104, í Halaveðrinu mikla, 7 eða 8 febrúar árið 1925 með allri áhöfn, 33 mönnum. Ein hörmulegustu sjóslys við Íslandsstrendur fyrr og síðar.

Það var í enduðum maí árið 2016 að togarinn Sturlaugur H Böðvarsson AK var að veiðum á Halamiðum, að upp kom í veiðarfærum hans hlutar af flaki skips. Það er best að gefa skipstjóranum á Sturlaugi H Böðvarssyni AK 10, Eiríki Jónssyni orðið, en þetta er hluti af grein sem birtist í Sjómannadagsblaðinu 2021; 

. "Við vorum að fara í land og maður vissi svona nokkurn veginn hvað þetta var og fannst ómögulegt að fara að henda þessu," segir hann. Þar fyrir utan hafi verið svolítið merkilegt að fá þetta upp. Skipið var á þorskveiðum rétt sunnan við Halann. "Við vorum að draga þarna 31. maí 2016 þegar við festum," segir Eiríkur eftir að hafa ráðfært sig við dagbókina sem hann hélt upp á úr Sturlaugi, en árið eftir var skipið aflagt. "Við vissum að það var eitthvað þarna, en það vissi enginn nákvæmlega hvað." Trollið var hins vegar pikkfast og af því að þetta var á grunnu vatni segir Eiríkur að úr hafi orðið að þeir skæru frá og skildu það eftir. Skipið hélt svo veiðunum áfram en kom aftur daginn eftir.
 "Þá fórum við að slæða og fengum þetta allt upp og svo trollið líka í kjölfarið. En þetta var heljarmagn, einhverjir tuttugu metrar af lunningu, boxalok og partur úr dekki." Vel gekk líka að ná trollinu þegar krækt var í það. "Við fundum það þarna rétt vestan við. Sennilega höfum við bara krækt gröndurunum í flakið því þegar við settum í trollið var það alveg laust." Grandararnir voru langir og trollið aldrei alveg í flakinu. "Eina vitið var að gera þetta svona. Annars hefði endað með að maður hefði slitið þetta allt aftan úr, eða hlera eða einhvern fjandann. Þá var þó skárra að skilja trollið eftir. En við náðum því aftur og það var nokkuð heillegt þegar það kom upp." Skipið hélt svo í land 2. júní og landaði á Ísafirði næsta dag. "Þannig að við vorum með þetta á dekkinu í tvo daga." Á Ísafirði voru hlutarnir úr flakinu hífðir upp á bryggju og Byggðasafn Ísafjarðar tók þá til handargagns. "Ekki kom annað til greina en að þetta væri annaðhvort úr Leifi heppna eða Field Marshal Robertson. Það mátti ráða bæði út af staðsetningunni og svo aldrinum á þessu flaki. Þetta er allt hnoðað og boltað saman, en ekki soðið eins og ef skipið hefði verið yngra. Það var ljóst að þetta væri mjög gamalt."
Það var svo út af öðru óskyldu máli sem Eiríkur var í sambandi við Egil Þórðarson loftskeytamann og í samtali þeirra kom fram að Egill væri að grúska í Halaveðrinu. "Og ég fór þá að segja honum frá þessu flaki sem við hefðum fengið upp og teldum að væri annaðhvort af Leifi heppna eða Field Marshal Robertson." Ekki er hins vegar hægt að slá nokkru föstu um hvoru flakinu þeir festu í. "En núna vitum við að minnsta kosti nákvæmlega hvar bæði flökin eru." Og út frá gögnunum um leitina sem fram fór af skipunum segir Eiríkur að sjá megi að siglt hafi verið nánast beint yfir staðinn þar sem þau lágu og lengst suður í haf. Halaveðrið var mannskaðaveður sem olli tjóni víða um land og lenti fjöldi báta og skipa í vandræðum. Veðurspár voru ekki eins og gerist í dag og veður hafði verið gott áður en brast á með ósköpunum. Skörp hitaskil á milli Íslands og Grænlands urðu til þess að lægðin dýpkaði og dýpkaði og telur Eiríkur að skipin hafi ekki mátt sín mikils í veðrinu. "Þetta voru engin úthafsskip og máttu ekki við miklu. Robertson var smíðaður sem tundurduflaslæðari sem breytt var í togara. Og út af kolaplássi sem fór fram í lestina fór allur aflinn svo framarlega í skipin að þau voru alveg á nösunum. Þetta voru ekki stór skip, 45 metra löng og rúmir sjö metrar á breidd og mjög lág á sjónum." Á milli flakanna eru um það bil fjórar til fimm mílur, segir Eiríkur. "En eitt er svolítið skrítið, því eins lengi og ég er búinn að vera á togara þá var alltaf þarna í vesturkantinum á Djúpálnum flak merkt sem Leifur heppni. Nú er búið að staðfesta að það er bara þvæla. Þar er ekki neitt neitt, bara einhver festa." 



B.v. Leifur heppni RE 146 með trollið á síðunni.                                     Ljósmyndari óþekktur.

 Nýr botnvörpungur "Leifur heppni"

Í fyrradag kom hingað frá Englandi nýtt botnvörpuskip, eitt enn í viðbót við þau sem komin eru í vetur. Skip þetta heitir "Leifur heppni" og er eign þeirra Geirs Thorsteinsson og Th. Thorsteinsson. Er það smíðað í Selby hjá Cochrane & Sons, sömu skipasmíðastöðinni er smíðað hefir hina þrjá nýju botnvörpunga Kveldúlfsfélagsins.
Skip þetta er 140 fet á lengd og á að vera af líkri gerð og "Egill Skallagrímsson", að flestu leyti. Var því lofað í ágústmánuði í sumar sem leið, en smíðin hefir tafist af ýmsum orsökum, meðal annars tafðist skipssmíðin í fjóra mánuði vegna verkfalls stálsteypumanna. Skipstjóri hinns nýja botnvörpungs verður Gísli Oddsson og hefir hann dvalið í Englandi undanfarna mánuði og beðið skipsins.

Morgunblaðið. 10 apríl 1920.


B.v. Leifur heppni RE 146 á toginu.                                                                     (C) Snorri Snorrason.


B.v. Leifur heppni RE 146 á leið í slipp í erlendri höfn.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Leifur heppni RE 146 á toginu.                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson. ?

             Veðrið mikla

Það brast á íslenzka flotann, sem þá var vestur á »Hala«, um hádegi á laugardaginn 7. febrúar. Varð það með svo skjótri svipan, að slíks munu ekki þekkjast dæmi, enda umhverfðist sjórinn í einu vetfangi, og ekki var hægt að ráða við neitt. Hið síðasta, sem menn vita um þá »Leif heppna« og »Robertson«, er það, að þeir voru skammt hvor frá öðrum, þegar veðrið skall á, en skip þau, er næst þeim voru, misstu brátt sjónar á þeim. Veðrið hélzt óbreytt í hálfan annan sólarhring, en þá tók því heldur að slota. »Leifur heppni« var með talsverðan afla, en um hitt skipið vita menn síður, hvort það hafði veitt nokkuð að ráði.
Á »Leifi heppna« voru þessir 33 menn:
Gísli M. Oddsson, skipstjóri, Skólavörðustíg 3 B.
Ingólfur Helgason, 1. stýrimaður, Hafnarflrði.
Ásgeir Þórðarson, 2. stýrimaður, Bergstaðastræti 37.
Valdemar Árnason, 1. vélstjóri, Hverfisgötu 16.
Jón Halberg Einarsson, 2. vélstjóri, Njálsgötu 39 B.
Magnús Brynjólfsson, loftskeytamaður, Lindargötu 14.
Jón Cornelius Pétursson, bátsmaður, Vesturgötu 25 B.
Ólafur Jónsson, matsveinn, Laugavegi 38.
Sigmundur Jónsson, háseti, Laugavegi 27.
Stefán Magnússon, háseti, Njálsgötu 32 B.
Jón Guðmundsson, háseti, Frakkastíg 23.
Ólafur Gíslason, háseti, Hverfisgötu 32.
Þorbjörn Sæmundsson, háseti, Bergþórugötu 4.
Oddur Rósmundsson, háseti, Bergþórugötu 7.
Ólafur Brynjólfsson, háseti, Lindargötu 14. (bróðir Magnúsar loftskeytamanns)
Jónas Guðmundsson, háseti, Akranesi.
Sveinbjörn Elíasson, háseti, Bolungarvík.
Sigurður Guðmundsson, háseti, Önundarfirði.
Sigurjón Jónsson, háseti, Bergstaðastræti 30 B.
Helgi Andrésson, háseti, Mjóstræti 4.
Jón Sigmundsson, háseti, Laugaveg 50.
Jón Hálfdanarson, háseti, Hafnarstræti 18.
Randver Ásbjörnsson, háseti, Rauðarárstíg 9.
Jón Jónsson, háseti, Austurstræti 11.
Sigurður Lárusson, háseti, Bröttugötu 6.
Sigurður Jónsson, háseti, Miðstræti 8 B.
Sigurður Albert Jóhannesson, háseti, Hávallagötu 16.
Sveinn Stefánsson, háseti, Miðhús í Garði.
Þorlákur Einarsson, háseti, Rúfeyjum, Breiðafirði.
Jón Sigurðsson, háseti, Sveinseyri, Dýrafirði.
Ólafur Þorleifsson, kyndari, Vatnsstíg 4.
Björgvin Kr. Friðsteinsson, kyndari, Laufásvegi 27.
Jón Stefánsson, Sauðagerði C.
Af skipshöfninni á »Leifi heppna* voru 12 menn kvæntir og láta eftir sig 31 barn. Helgi Andrésson var faðir 1. stýrimanns. Hann var gamall þilskipsformaður að vestan. Fyrir mörgum árum hvolfdi undir honum hákarlaskipi; velti skipið sér um kjöl og reisti sig aftur á hinn bóginn, og missti Helgi engan mann. Mun slíkt einsdæmi hér á landi og þótt víðar sé leitað. Magnús Brynjólfsson og Ólafur Brynjólfsson voru bræður. Ólafur Gíslason var bróðir Guðmundar G. Hagalíns skálds. Flestir af þessum mönnum voru á bezta aldri.
»Leifur heppni« var smíðaður í Selby hjá Cochrane & Son, er smíðað hefir marga hinna íslenzku botnvörpunga. Skipið var 140 feta langt og 24 feta breitt, og var að rúmmáli 333 smál.

Dagblað. 1 árgangur 32 tbl. 10 mars 1925.


13.11.2019 17:46

2963. Harðbakur EA 3. TFCV.

Harðbakur EA 3 var smíðaður hjá Skipasmíðastöðinni Vard-Aukra í Noregi árið 2018 fyrir Útgerðarfélag Akureyringa hf á Akureyri. 611 bt. 2x 500 ha. Yanmar 6EY17W hvor, 294 Kw hvor. Skip frá Akureyri hafa borið þetta nafn frá lokum seinna stríðs og ávallt fylgt því gæfa og gifta. Óska áhöfn og útgerð til hamingju með þetta nýja skip. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér nokkrar myndir af skipinu við komuna til heimahafnar í síðustu viku.


2963. Harðbakur EA 3 TFCV við bryggju á Akureyri.


2963. Harðbakur EA 3.


2963. Harðbakur EA 3 á Pollinum á Akureyri.

     Nýr Harðbakur sjósettur í Noregi

Nýr togari Útgerðarfélags Akureyringa, sem hefur verið í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Vard-Aukra í Noregi, var sjósettur í dag. Nýji togarinn mun hljóta nafnið Harðbakur og fær skrásetningarnúmerið EA 3. Þetta nafn og númer hafa togarar ÚA áður farsællega borið. Samningur um smíðina var undirritaður í lok nóvember árið 2017. Skipið er hannað af Vard samsteypunni í Noregi í samvinnu við eigendur og er eitt af sjö skipum sem fjórar íslenskar útgerðir tóku sig saman um að láta smíða.
Skipin eru 28,95 metra löng og 12 metrar á breidd og eru smíðuð samkvæmt íslenskum reglum og kröfum flokkunarfélagsins  DNV GL. Áætluð afhending togarans frá Vard-Aukra er um miðjan október og siglir skipið þá til heimahafnar. Þar tekur Slippurinn Akureyri við því og settur verður um borð vinnslubúnaður, sem þar verður smíðaður. Áætlað er að Harðabakur hefji veiðar í byrjun nýs árs. Þetta kemur fram á heimasíðu Samherja.

Vikudagur.is 2 ágúst 2019.


2963. Harðbakur EA 3 á Pollinum.


2963. Harðbakur EA 3.


2963. Harðbakur EA 3.


2963. Harðbakur EA 3.


2963. Harðbakur EA 3 leggst við bryggju.


2963. Harðbakur EA 3 lagstur við bryggju á Akureyri.              (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

     Harðbakur siglir til Akureyrar.

Harðbakur EA 3, hinn nýji togari Útgerðarfélags Akureyringa, hefur verið afhentur eigendum sínum  í Noregi. Í kjölfarið á uppgjöri við Vard-Aukra skipasmíðastöðina var íslenski fáninn dreginn að húni og gert var ráð fyrir að skipið sigli af stað til heimahafnar sl þriðjudag. Áætlað er að siglingin heim taki um þrjá og hálfan sólarhring. Skipstjóri á Harðbak er Hjörtur Valsson og yfirvélstjóri er Friðrik Karlsson. Slippurinn á Akureyri tekur við skipinu þegar heim er komið og settur verður vinnslubúnaður um borð. Stefnt er að Harðabakur hefji veiðar í byrjun nýs árs, segir á vef Samherja. 

Vikudagur.is 7 nóvember 2019.





 


10.11.2019 16:11

797. Straumnes ÍS 240. TFNK.

Vélskipið Straumnes ÍS 240 var smíðað í VEB Volkswerft Ernst Thalmann í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1959 fyrir útgerðarfélagið Kögur hf á Ísafirði. 94 brl. 400 ha. Mannheim vél. Selt 15 júlí 1976, Guðna Sturlaugssyni í Þorlákshöfn, hét Jón Sturlaugsson ÁR 7. Skipið var endurmælt árið 1976 og mældist þá 91 brl. Seldur 6 desember 1977, Þór hf á Eskifirði, hét þá Vöttur SU 37. Frá árinu 1978 hét skipið Vöttur SU 3. Selt 19 september 1980, Hermanni B Haraldssyni á Djúpavogi, hét þá Flóki SU 18. Selt 2 janúar 1982, Kögurvík sf á Hofsósi, hét Richard SK 77. Selt 24 september 1982, Stórhóli sf á Dalvík, hét þá Sænes EA 26. Frá 25 nóvember 1985 hét skipið Sænes EA 75. Selt til Svíþjóðar og tekið af skrá 25 september árið 1987.


797. Straumnes ÍS 240.                                       (C) Snorri Snorrason.   Úr safni Atla Michelsen.


Straumnes ÍS 240 að landa síld, veit ekki hvar.                                         Ljhósmyndari óþekktur.

      Þrír glæsilegir vélbátar að Djúpi
   Tveir til Ísafjarðar og einn til Hnífsdals

Ísafirði, 28. des.
Þrír bátar komu til hafnar hér á Ísafirði nú um hátíðarnar, þar af eiga tveir heimahöfn hér og einn í Hnífsdal. Tveir bátanna komu hingað á Þorláksmessukvöld og höfðu þeir haft samflot alla Ieiðina. Voru það "Straumnes" og "Mímir." Þetta eru 93 lesta stálbátar, nákvæmlega eins að stærð og útliti. Báðir eru smíðaðir í Brandenburg skipasmíðastöðinni í A-Þýzkalandi, en það er borg alllangt uppi í landi. Þaðan var bátunum fleytt niður til Stralsund og síðan var þeim siglt til Kaupmannahafnar. Straumnes" verður gert út frá Ísafirði en "Mímir" frá Hnífsdal. ,,Straumnes" er eign "Kögurs" h.f. og er formaður félagsins Matthías Bjarnason hér á Ísafirði. Páll Pálsson skipstjóri sigldi Straumnesi til landsins en skipstjóri verður Haukur Helgason ungur maður héðan úr bænum. "Mímir er eign hlutafélagsins í Hnífsdal og er Ingimundur Finnbjörnsson framkvæmdastjóri þess. Guðmundur Ingimarsson sigldi bátnum til landsins, en skipstjóri verður Karl Sigurðsson í Hnífsdal. Ganghraði bátanna er rúmlega 10 mílur og tók ferðin frá Kaupmannahöfn tæpa sex sólarhringa. Reyndust bátarnir vel. Þeir eru búnir öllum nýjustu siglinga- og fiskileitartækjum og munu hefja róðra næstu daga.
Þriðji báturinn sem hér um ræðir kom hingað í fyrradag. Er nafn hans "Guðbjörg". Báturinn er byggður í Niendorf Ostsee í V-Þýzkalandi. Er þetta 76 smálesta bátur smíðaður úr eik. Hann er eign h.f. Hrönn á Ísafirði og er framkvæmdastjóri þess félags Guðmundur Guðmundsson skipstjóri hér í bæ. Sigldi hann bátnum til landsins og gekk ferðin vel og reyndist báturinn ágætlega. Hann er búinn nýjustu siglingatækjum af Simrad-gerð. Ásgeir Guðbjartsson verður skipstjóri á þessum nýja báti og mun hann fara fyrsta róðurinn nú í kvöld.

Morgunblaðið. 29 desember 1959.


Líkan af HRB 46 smíðuðum í Brandenburg.                                               (C) HRB.


Fyrirkomulagsteikning af HRB 46.


797. Sænes EA 75.                                                                    (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

    100 tonna skip í stað Sæness

Rán hf. á Dalvík hefur samið við sænska skipasmíðastöð um smíði á 100 tonna skipi fyrir fyrirtækið. Rán gerir nú út tvo gamla báta, Sænes og Sæljón og mun Sænes ganga upp í kaupverð á hinu nýja skipi en það er um 67 milljónir. Sænesið fæst metið á um 16 milljónir. Samningarnir voru gerðir með fyrirvara um að lán fengist úr Fiskveiðasjóði. Lánið fékkst og er það 60 % af kaupverði. Skip þetta var í smíðum fyrir annað fyrirtæki þegar Rán hf. gekk inn í kaupin. Skipið átti upphaflega að vera búið til togveiða eingöngu en verður nú búið til netaveiða og línuveiða að auki. Auk þess mun skipið stunda djúprækjuveiðar.
Að sögn Gunnþórs Sveinbjörnssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins á að afhendaskipið 20. júní. Það er 20 tonnum stærra en Sænes og yfirbyggt þannig að með tilkomu þess aukast möguleikar til lengri veiðitúra auk þess sem það er talið mun afkastameira við rækjuveiðarnar. Lest hins nýja skips verður einangruð eins og frystilest en fyrst um sinn verður það þó ekki búið frystitækjum. Í skipinu er 900 ha. vél og tvö sjálfstæð 10 tonna spil.

Dagur. 9 febrúar 1987.



07.11.2019 20:19

B. v. Ágúst GK 2.

Nýsköpunartogarinn Ágúst GK 2 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. Hét fyrst Elliðaey VE 10 og var í eigu Bæjarútgerðar Vestmannaeyja h/f í Vestmannaeyjum. 664 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 717. Kom fyrst til heimahafnar hinn 8 september sama ár. Togarinn var seldur 7 október árið 1953, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f í Hafnarfirði, fékk nafnið Ágúst GK 2. Togaranum var lagt árið 1964 og var svo seldur sama ár, Minas Stakhakis og Vasilies Manousos (Lindos Meffan Atlantiki Fishing) á Krít. Fékk nafnið X Filas (Sverðfiskurinn). Skipið var lengt um 12 metra og einnig var sett 1.750 ha. Díesel vél í skipið. Ekki veit ég um afdrif skipsins, en allar upplýsingar eru vel þegnar.

Heimild:
Upplýsingar um X Filas.
Tryggvi Sigurðsson.


B.v. Ágúst GK 2. á útleið frá Hafnarfirði.                                                              Ljósmyndari óþekktur.

    Bæjarútgerð Hafnarfjarðar kaupir                           togarann Elliðaey

   Kaupverðið er 5,3 milljónir króna 

Á aukafundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem haldinn var kl. 1.30 s. l. föstudag, voru samþykktir bráðabirgðasamningar þeir, sem gerðir voru fyrir nokkru um kaup á togaranum Elliðaey. Kaupverðið er kr. 5,5 milljónir, en frá því dragast kr. 200 þúsund, sem Bæjarútgerð Vestmannaeyja tekur þátt í standsetningu skipsins. Raunverulegt kaupverð skipsins, í því ástandi, sem það nú er í, er því kr. 5,3 milljónir.
Að undanförnu hafa staðið yfir samningar á milli Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Bæjarútgerðar Vestmannaeyja, um sölu á togaranum Elliðaey til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Var gengið frá bráðabirgðasamningi í því efni 20. sept. s. l. í Vestmannaeyjum og mættu þar fyrir hönd Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar þeir Stefán Jónsson, Ásgeir G. Stefánsson og Gunnlaugur Guðmundsson, einnig var Guðmundur Gissurarson með í förinni. Vestmannaeyingar höfðu rétt til að ganga inn á samninga þá, sem gerðfc1 voru til 1. okt., en skipið var flutt til Reykjavíkur til botnskoðunar. "Þar sem Vestmahnaeyingar höfðu ekki neytt forkaupsréttar síns fyrir tilskilinn tíma, var ekki annað eftir en að ganga frá kaupunum á áðurgerðum samningsgrundvelli og var því haldinn fundur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þar sem einróma var samþykkt að togarinn skyldi keyptur og var jafnframt samþykkt heimild til handa bæjarstjóra að undirrita samningana. Eins og áður er sagt, er togarinn keyptur í því ástandi, sem hann er nú í og þarf talsvert mikið að gera við hann og það nokkru meira en sem muni nema þeim kr. 200 þús., sem Bæjarútgerð Vestmannaeyja tekur þátt í standsetningarkostnaði. Það má því búast við að skipið fari yfir 5,5 millj. kr., þegar það verður tilbúið til veiða. Við þessi togarakaup er mjög lítil útborgun eða um ½  milljón kr. og ætlar Útvegsbankinn að lána Bæjarútgerðinni það fé. Einnig er von til að bankinn láni fé til að standsetja skipið. Hér er því að langmestu leyti um yfirfærslu skulda að ræða og eru sumar þeirra mjög hagstæðar eins og t. d. stofnlán o. fl. Bæjarbúar fagna því að fá fleiri atvinnutæki í bæinn og vonandi fylgir gæfa og gott gengi hinu nýja skipi Bæjarútgerðarinnar, svo að það megi verða til eflingar og blessunar atvinnulífinu í bænum.  

Hamar. 18 tbl. 4 október 1953.


B.v. Ágúst GK 2 með trollið á síðunni.                                        (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Ágúst GK 2 með trollið á síðunni.                                                    (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Útlitsteikning af b.v. Elliðaey VE 10 / Ágúst GK 2. Ég á þessa teikningu á pappír og hún er 2,40 cm. á lengdina og 1,10 ´cm. á hæðina.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Elliðaey VE 10, síðar Ágúst GK 2. Myndin er nú ekki nákvæm, allt of margir gluggar í brú togarans, en þetta er mjög góð mynd.                 (C) George Wiseman.

   "Ágúst" seldur fyrir 1,4 milljónir                               króna

Togarinn Ágúst, eign Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, hefur verið seldur til Grikklands fyrir 12 þúsund sterlingspund, eða rúmar 1,4 milljónir íslenzkra króna. Bráðabirgðasamningar hafa þegar verið undirritaðir milli útgerðarinnar og kaupendanna, Minas Stahakis og Vasilies Manousos, en þeir eru frá Pireus á Krít. Samkvæmt samningnum skal togarinn afhentur hinum nýju eigendum innan mánaðar frá því að öll nauðsynleg leyfi hafa fengizt fyrir sölunni. Þessir sömu Grikkir hafa einnig gert kauptilboð í togarann Sólborgu og nemur það 14 þúsund pundum. Endanlegt svar hefur enn ekki fengizt við því tilboði. Grikkirnir eru nú að leita fyrir sér með að ráða íslenzka sjómenn til að sigla Ágústi til Grikklands. Ágúst var áður eign Vestmannaeyinga og hét þá Elliðaey.

Morgunblaðið. 13 september 1964.







06.11.2019 12:49

Loftskeytaklefinn og fleira úr b. v. Röðli GK 518.

Það má nú ennþá finna ýmislegt úr gömlu Nýsköpunartogurunum hér á landi. Ég rakst á loftskeytaklefann úr Hafnarfjarðartogaranum Röðli GK 518 á Byggðasafninu í Hafnarfirði um daginn. Það hefði verið betra að eiga einn slíkan togara á safni og hafa allt á sama stað, en því er ekki að fara hér. Vissulega ber að fagna því sem til er enn úr þessum gömlu togurum.
B.v. Röðull GK 518 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir útgerðarfélagið Venus í Hafnarfirði. 680 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Hann var fyrsti Nýsköpunartogarinn sem smíðaður var með bátapall. Röðull var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Beverley, en af stærri gerðinni, hinir voru:

Fylkir RE 161. 677 brl.
Garðar Þorsteinsson GK 3. 677 brl.
Jón forseti RE 108. 675 brl. og
Skúli Magnússon RE 202. 677 brl.

Af minni gerðinnu voru:

Akurey RE 95. 655 brl.
Geir RE 241. 655 brl.
Goðanes NK 105. 655 br.
Hvalfell RE 282. 655 brl. og
Ísborg ÍS 250. 655 brl.

Röðull GK 518 var seldur í brotajárn til Englands og tekinn af íslenskri skipaskrá 6 desember árið 1974.


Nýsköpunartogarinn Röðull GK 518 við komuna til heimahafnar hinn 24 mars árið 1948.  (C) G. Á. 

Loftskeytaklefinn úr Röðli GK.

Loftskeytaklefinn úr Röðli GK.

Kortaborðið.

 
Kaffivél úr Röðli GK.


Björgunarhringur af Röðli GK.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 20 október 2019.

04.11.2019 20:34

B. v. Íslendingur RE 120. LBKC / TFQL.

Íslendingur RE 120 stundaði síldveiðar sumarið 1925 og gerði það eflaust nokkuð vel. En um haustið var skipinu siglt suður til Reykjavíkur og komið fyrir í bóli á Eiðisvíkinni. Svo var það að menn tóku eftir því hinn 10 desember árið 1925 að skipið var horfið. Þegar betur var að gáð sáu menn að Íslendingur var sokkin. Björgunarskipið Geir gerði nokkrar tilraunir að ná honum upp, en það tókst ekki. Það var svo ekki fyrr en einum 17 árum seinna (1942) að gert var eitthvað í því að ná Íslending upp og það hafðist að lokum. Ástand skrokks skipsins var það gott að ákveðið var að gera það upp. Íslendingur RE 120 var smíðaður í Hull á Englandi árið 1893 og var byggt úr járni, hét áður Osprey. 146 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi þess var Elías Stefánsson og mun hann hafa keypt skipið í Englandi árið 1908. Þegar skipinu var náð upp var það dregið á land í Eiðisvíkinni. Skipið var gert upp, sett í það 500 ha. Fairbanks-Morse díesel vél. Íslendingur var gerður upp að öllu leiti og því verki var ekki lokið fyrr en vorið 1943. Nýju eigendurnir voru hf. Díeseltogarar (Stephan Stephenssen framkvæmdastjóri, Sveinbjörn Einarsson skipstjóri og Ágúst Ingvarsson vélstjóri).Hét þá Íslendingur RE 73. Skipið var selt 18 mái 1949, Bjarna Sigurðssyni og Kristjáni Guðlaugssyni í Reykjavík og Ingibjörgu Pétursdóttur á Reykjum í Mosfellssveit og Þorvaldi Stephenssen í Saurvogi í Færeyjum. Íslendingur var talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 febrúar árið 1961. Ég held að flakið af honum hafi verið lengi upp í fjöru í Kleppsvíkinni og sennilega verið á endanum verið rifið.

Það eru ekki mörg skipin hér á landi með þessa sögu eins og Íslendingur, lá á mararbotni í ein 17 ár áður honum var náð upp og var þá skrokkurinn í það góðu standi að ástæða þótti til að að gera skipið upp. Skipið var gert út til ársins 1960 og var þá talið ónýtt.


Íslendingur RE 120 á siglingu.                                                               Ljósmyndari óþekktur.

           "Íslendingur" sokkinn

Botnvörpuskipið Íslendingur sökk á Eiðisvík í fyrrinótt. Hann hefir legið þar mannlaus í vetrarlagi að undanförnu, og varð ekki séð í fyrradag, að hann væri farinn að þyngjast af sjó. Vita menn ekki, hvernig leki hefir komið að honum svo skyndilega.

Vísir. 11 desember 1925.


Íslendingur RE 120 kominn á land eftir 17 ár á hafsbotni.                         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Íslendingur RE 73 eftir endurbygginguna.                                               Mynd úr Víkingnum.


Íslendingur RE 73 upp í fjöru í Kleppsvíkinni í júní árið 1966.                       Ljósmyndari óþekktur.


Íslendingur RE 73 í fjörunni í Kleppsvíkinni.                                                   (C) Tryggvi Sigurðsson. 

           B.v. Íslendingur RE 73   

Nýlega er lokið algjörri endurbyggingu og breytingu á togaranum Íslendingi RE 73. B.v. Íslendingur er byggður úr járni í Hull í Englandi árið 1893 og hét þá Osprey, en var keyptur hingað til lands árið 1908 af Elíasi Stefánssyni útgerðarmanni í Reykjavík. Hinn 9. des. árið 1926, er skipið lá í vetrarlægi á Eiðsvík við Reykjavík, kom af ókunnum orsökum skyndilega leki að skipinu svo að það sökk. Lá skipið þar í 15 ár, eða til ársins 1942, er rannsókn á flakinu leiddi í Ijós, að bolur skipsins var ekki meira skemmdur en svo, að það var álitið svara kostnað að bjarga því og endurbyggja. Tókst björgunin vel, en af ýmsum ástæðum gekk viðgerðin seint og var ekki lokið fyrr en í marz-mánuði í ár. Eigandi skipsins er nú h.f. Dieseltogarar í Reykjavík, en að því félagi standa m. a. þeir Stephan Stephensen framkvæmdastjóri, Sveinbjörn Einarsson skipstjóri og Ágúst Ingvarsson vélstjóri. Að björgun og endursmíði skipsins unnu ýmsar af vélsmiðjunum og skipasmíðastöðvunum í Reykjavík, en aðallega Ágúst Ingvarsson vélstjóri að allri járnsmíði og vélaniðursetningu. Einnig vélsmiðjan Bjarg og Sigurður Einarsson og Loftur vélsmiðir. Sömuleiðis Vélsmiðjan Héðinn. Trésmíði framkvæmdi skipasmíðastöð Magnúsar Guðmundssonar, en meirihlutann af trésmíðinni framkvæmdu þeir Hákon Einarsson og Haraldur Guðmundsson skipasmíðameistarar. En yfirumsjón og framkvæmd alla hafa þó haft tveir af eigendum þess, nefnilega þeir Sveinbjörn og Ágúst, sem þar hafa leyst mikið verk af hendi. Að umbyggingunni lokinni reyndust aðalmál skipsins:
Lengd 31.09 m.
Breidd 6.25 m.
Dýpt 2.92 m.
Stærð brúttó 146.11 rúmlestir.
Stærð undir þilfari 138.14 rúmlestir.
Stærð nettó 66.20 rúmlestir.
Við breytinguna hafði skipið stækkað um 3.47 rúmlestir brúttó. Aðalvél skipsins er Fairbanks-Morse Dieselvél (amerísk), 500 hestöfl, í beinu sambandi við skrúfuna. Mesti snúningshraði 400 á mínútu. Eyðir þá 0.38 lbs. á hestafl á tíma. Olíugeymar rúma 21 tonn. Hjálparvélar eru tvær: Önnur 77 hestafla Greyhound fyrir togvindu, og hin 20 hestafla R. A. Lister fyrir ljós, hita, eldun. Fremst í skipinu er "lúkar" með lokrekkjum fyrir 10 manns, og aftast "káeta" með 4 rekkjum, en úr henni er gengið í tvö herbergi, sitt hvoru megin, og er annað þeirra fyrir stýrimann, en hitt fyrir 1. vélstjóra. Aftast í reisninni, yfir káetu, er eldhúsið, og er þar rafmagnseldavél, smíðuð af h.f. Rafha í Hafnarfirði. Fremst á reisninni er herbergi skipstjóra. Allar vistarverur eru klæddar Masonite, útbúnar fataskápum m. a, raflýstar og með rafmagnshitun. Fremst á reisninni er stýrishús og fyrir aftan það lítill leiðarreikningsklefi, en innangengt úr honum niður í herbergi skipstjóra. Í leiðarreikningsklefanum er komið fyrir, auk venjulegra leiðartækja, Hugh's sjálfritandi bergmálsdýptarmæli, svo og talsendi og viðtæki landsímans, en í stýrishúsi vökvastýri af gerðinni Steen & Kaufmann, Eimshorn. Svo má segja að skipið sé allt saman endurnýjað, tréverk allt nýtt. Bolur skipsins allur hnoðaður upp. Mikið sett í skipið af nýjum böndum, settur á skipið bakki, yfirbygging öll ný og sett í það Dieselvélar, svo og allt skipið smíðað að nýju að innan.

Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1943.



  • 1
Antal sidvisningar idag: 210
Antal unika besökare idag: 16
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075590
Antal unika besökare totalt: 77617
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:15:33