Blogghistorik: 2023 Länk

31.05.2023 15:06

B.v. Þór RE 171. LBCG.

Botnvörpungurinn Þór RE 171 var smíðaður hjá Wilton´s Machinefabriek en Scheepwerk í Rotterdam í Hollandi árið 1904 fyrir Van de Stoomvisserij Maatschappij Mercurius í IJmuiden í Hollandi. Hét þá  Donald IJM 103. 265 brl. 375 ha. 3 þennslu gufuvél. 40,28 x 6,63 x 4,06 m. Selt í mars 1916, Defensor h.f. í Reykjavík, fékk þá nafnið Þór RE 171. Seldur 26 ágúst 1917, franska sjóhernum, fékk þá nafnið Orang-Outang. Var í þjónustu sjóhersins sem hjálparskip eða tundurduflaslæðari frá Bordeaux í Frakklandi. Seldur 21 október 1919, André Ledun í Fécamp í Frakklandi, hét þá Vimy F 611. Árið 1930 var eigandi togarans A & H. Ledun í Fécamp og skipstjóri var þá J. Bénard. Hertekinn af Þjóðverjum 21 ágúst 1940 og var í þjónustu þeirra sem HS99. 1 júní 1942 er togarinn í þjónustu 15 flotadeildar þýska sjóhersins sem V 1521. Frá 15 nóvember 1943 er hann í þjónustu 3 flotadeildar þýska sjóhersins sem M 3855. Togarinn eyðilagðist í loftárás bandamanna skammt frá Le Havre í Frakklandi 14 júní árið 1944, meðan á innrásinni í Normandí stóð.
Þór var staðinn að miklu smygli á áfengi vorið 1917 og var það umtalsvert magn. Togarinn kom við á Seyðisfirði eftir söluferð erlendis og var þar sett töluvert magn áfengis í land. Einnig kom hann við á Akureyri og losaði áfengi þar og að síðustu var megninu af góssinu skipað upp í Viðey. Einhver málaferli urðu af þessu smygli og nokkrir skipverjar voru dæmdir til að greiða sektir. Algert áfengisbann var þá í landinu frá árinu 1915 og mun það hafa staðið í ein tuttugu ár.

Aðrar heimildir herma að togarinn hafi verið seldur til Frankrike í Frakklandi eftir þjónustu sína fyrir franska sjóherinn árið 1920, bar sama nafn þar (Orang-Outang). Ennfremur segir að það hafi verið gert út frá La Rochelle og Dieppe í Frakklandi og borið nafnið Vimy og hafi verið svo selt André Ledun í Fécamp árið 1925 og fengið þá nafnið Vimy F 611. Alveg sjálfsagt að hafa allar heimildir með hvort sem þær eru nákvæmar eða ekki. Þetta eru samt heimildir sem vert er að skoða.

Donald IJM 103 var einn þeirra níu Hollensku togara sem gerðir voru út frá Hafnarfirði á vertíðinni 1914, þá sagður á vegum Ronald de Boer útgerðarmanns í Ijmuiden í Hollandi.

Hinn 11 mars árið 1916 komu til Reykjavíkur tveir togarar, er keyptir voru frá Hollandi og hétu þeir Þorsteinn Ingólfsson RE 170 og Þór RE 171. Áður hef ég fjallað um Þorstein Ingólfsson og eigendur hans (23 apríl 2023). Þór var eign nokkurra manna sem stóðu að félaginu Defensor í Reykjavík, er stofnað var árið áður (1915). Matthías Þórðarson frá Móum var einn af stofnendum félagsins og segir hann frá því í endurminningum sínum. Félagið var þannig til komið, að Matthías og nokkrir menn með honum keyptu flakið af Frönsku kolabarkskipinu sem E. Chouillou kaupmaður í Reykjavík átti, sem rekið hafði á land við Sjávarborg í Reykjavík í október árið 1913. Létu þeir rífa skipið, en það hafði heitið Defensor, og notuðu fé, er þeir fengu fyrir málm og annað úr því, til þess að reisa fiskverkunarstöð við Rauðará. Nefndu þeir hana Defensor eftir skipinu. Eigendur Þórs voru, Matthías Þórðarson fiskifélagsráðunautur, Magnús Magnússon skipstjóri, Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson skipstjóri, allir í Alliance, Jóel Jónsson skipstjóri, Bernharð Petersen kaupmaður og Geo. Copland kaupmaður. Áttu þeir hálft skipið. Hinn helminginn áttu Ásgeir Pétursson og Rögnvaldur Snorrason útgerðarmenn og síldarsaltendur á Akureyri. Þeir áttu skipið til 26 ágúst árið 1917, en þá var það selt til Frakklands. Magnús Magnússon skrifaði bréf fyrir hönd þeirra félaga um togarasöluna, og er Defensors ekki getið þar.

Heimildir: Saga íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                   Birgir Þórisson.
                   Arie Van Der Veer í Hollandi.
                   Jack Daussy í Hollandi.

Botnvörpungurinn Þór RE 171 við legufæri sín á Reykjavíkurhöfn. Mynd á gömlu póstkorti.




                                               Defensor

Fiskiveiðafélag hér í bænum, hafði látið smíða sér botnvörpung í Þýskalandi, (Gylfi RE 235), en þegar hann var fullgerður lagði þýska stjórnin hald á skipið og fengu eigendur það ekki afhent, þó að þeir væru búnir að borga það að fullu. Þýska stjórnin þykist þurfa skipsins með, en borgar eigendum leigu af því, 150 til 200 mörk á dag, svo að þeir sleppa þó nokkurn veginn skaðlausir. Defensor hefir nú keypt 12 ára gamlan botnvörpung í Hollandi. Er það gott skip og talið í fyrsta flokki, en verðið var eins og á nýju skipi fyrir ófriðinn.

Vísir. 3 febrúar 1916.
 

Togarar við bryggju, sennilega á Svalbarðseyri í Eyjafirði árið 1916. Til vinstri er Jón forseti RE 108, fyrsti togari sem smíðaður var fyrir Íslendinga hjá Scott and Sons í Glasgow í Skotlandi árið 1907. Til hægri er Þór RE 171.  (C) Karl Nielsen.




                    Botnvörpungar frá Hollandi

Tveir botnvörpungar komu til bæjarins í nótt, báðir nýkeyptir frá Hollandi. Eru það Fiskiveiðafélögin Haukur og Defensor sem þá eiga. Heita þeir Þorsteinn Ingólfsson og Þór.

Vísir. 11 mars 1916.
 

Togarinn Vimy. Á þessari mynd er það óvíst hvort hann hafi verið gerður út frá Fécamp eða frá La Rochelle eða Dieppe. Takið eftir að það er búið að fella frammastrið niður. Það mun hafa verið gert vegna netaveiða togarans. Einnig mun hafa verið búið að setja á hann hvalbak einhverntímann eftir að hann fór héðan og mun hann hafa verið tekinn líka því það hentaði betur á netaveiðunum. (C) Jack Daussy.
 
Vimy F 611 frá Fécamp.                                      (C) Jack Daussy.


             „Þór“ og áfengissmyglið


Botnvörpungurinn »Þór« kom snemma í f. mán. frá Kaupmannahöfn. Hann kom fyrst til Seyðisfjarðar. Heyrst hefur að hann hafi sett þar eitthvað í land af áfengi. Hann kom síðan til Akureyrar. Þar seldi brytinn 200 flöskur af áfengi, samkv. hans eigin játningu fyrir rétti hér í Rvík. Þegar hingað kom þá fór hann inn undir Kirkjusand og þaðan fór skipstjórinn, Jóel, um borð í hann. Hrómundur nokkur hafði verið skipstjóri á honum til og frá útlöndum. Lögreglan hafði fengið vitneskju um aðfarirnar á Akureyri og þess vegna ætlaði hún að ná í hann þegar hingað kæmi. Lögregluþjónn var sendur inn á Kirkjusand og ætlaði með Jóel um borð í skipið, en Jóel hratt honum frá og fór við svo búið. Sagt er, að Jóel hafi boðist til að greiða 200 kr. sekt fyrir tiltækið. Þór fór svo á burt, en morguninn eftir fréttist að hann væri kominn inn í Viðey. Eftir nokkrar athuganir fanst mikið af áfengi í Viðey, sem ólöglega hafði verið flutt inn úr Þór og einnig fanst nokkuð, sem sett hafði verið í land í Gufunesi. Skipstjórinn (Hrómundur) játaði, að þetta áfengi hefði flutt verið í land úr »Þór«. Málið mun enn þá ekki fullrannsakað og bíður betri tíma hvað úrslitin áhrærir.

Templar. 4 apríl 1917.
 

Togarinn Donald IJM 103 á siglingu. Hollendingurinn Arie Van Der Veer fékk þessa mynd frá ættingjum eins af skipstjórum Donald í Ástralíu. Arie skrifaði lengi um sögu togara frá Hollandi í blaðið, Ijmuider Courant og birtist þessi mynd ásamt grein um togarann í því blaði 30 júní 1978. (C) Arie Van Der Veer.




                                            Höfnin

President og Libra, botnvörpungar frá Grimsby, komu til að fá sér kol. Donald, hollenzkur botnvörpungur, seldi hér afla sinn. Earl Hereford kom af veiðum með ágætan afla.

Morgunblaðið. 4 maí 1914.

28.05.2023 14:26

B.v. Ýmir GK 448. LCDP / TFKC.

Botnvörpungurinn Ýmir GK 448 var smíðaður hjá George Seebeck A.G. Schiffswerft Maschinenfabrik und Trockendocks í Geestemünde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ými í Hafnarfirði. 269 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 40,35 x 7,12 x 3,27 m. Smíðanúmer 356. Skipið var selt í ágúst 1928, Þórði Flygenring í Hafnarfirði, hét hjá honum Eldey GK 448. Skipið var selt í nóvember 1928, Fiskiveiðahlutafélaginu Kára í Viðey, hét Þorgeir skorargeir GK 448. Eftir að Kárafélagið í Viðey fór í þrot haustið 1931, eignaðist Útvegsbankinn allar eignir félagsins, þ.m.t. togarann Þorgeir skorargeir GK. Seldur 27 október 1932, Sameignarfélaginu Kópi í Reykjavík, hét þá Kópur RE 33. Vorið 1936 var Útvegsbanki Íslands eigandi. Frá mars á sama ári hét togarinn Þorfinnur  RE 33. Bankinn leigði hann næstu árin, t.d. Ingvari Guðjónssyni síldarútgerðarmanni á Akureyri og jafnvel Skúla Pálssyni (kenndur við Laxalón). Seldur 1940, Hlutafélaginu Aski (Þórður og Tryggvi Ólafssynir) í Reykjavík.  Þegar h/f Askur í Reykjavík kaupir togarann Skutul ÍS 451 af h/f Val á Ísafirði, 20 mars 1942, taka Ísfirðingarnir togarann Þorfinn RE 33 upp í kaupin. Seldur sama ár Magnúsi Andréssyni útgerðarmanni í Reykjavík. Magnús selur togarann 22 nóvember árið 1945, p/f Tór í Þórshöfn í Færeyjum, fékk nafnið Tórfinnur TN 78. Seldur 26 júlí 1950, p/f Steyrur á Stykkinum, hét þá Bakur VN 327. Frá 12 mars 1954 er togarinn í eigu Edvardi Skaalum maskinmeistara sem keypti hann á uppboði. Seldur 6 apríl 1954, Leivi Lützen landsréttarlögmanni í Þórshöfn. Seldur 23 október 1954, Jákup Jensen á Tröðni. Seldur 4 ágúst 1955, Gunnari Hansen heildsala í Þórshöfn, sama nafn og númer. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og tekinn af Færeyskri skipaskrá 8 febrúar árið 1956.


Togaraútgerð með nýjum skipum og að fullu samkeppnisfær við það sem gerðist best annars staðar, hófst í Hafnarfirði árið 1915. Þá komu til bæjarins tveir nýir togarar sem smíðaðir voru í Þýskalandi. Hétu þeir Víðir og Ýmir, eign samnefndra hlutafélaga þar í bæ. Þetta voru fyrstu togararnir, auk Ránar RE 54, sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Þýskalandi. Fiskiveiðahlutafélagið Ýmir var stofnað 24 febrúar árið 1914 í Hafnarfirði. Stjórnina skipuðu þeir Ágúst Flygenring útgerðar og kaupmaður, Olgeir Friðgeirsson kaupmaður og Hjalti Jónsson skipstjóri (Eldeyjar-Hjalti). Holger Debell forstjóri Hins íslenska steinolíuhlutafélags var annar aðalhvatamaður að stofnun félagsins ásamt Ágústi Flygenring.

Heimildir:
Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
Birgir Þórisson.
Saga Eldeyjar-Hjalta. Guðmundur G Hagalín. 1974.
 

B.v. Ýmir GK 448 að veiðum í Jökuldýpi.            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.




                     Botnvörpungurinn „Ýmir“


»Ýmir« hinn nýi botnvörpungur Hafnfirðinga, kom í nótt eftir 7 daga ferð frá Kaupmannahöfn Hann er smíðaður í Þýskalandi, og fór norður með Noregsströndum, allt að Álasundi. Um borð voru 7 farþegar.

Vísir. 6 júní 1915.
 

B.v. Ýmir GK 448 á siglingu. Þeir gátu reykt mikið þessir kolatogarar. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

Ýmir GK 448. Málverk.                                                       (C) Elston Hull.

 

                 Tundurdufl springur í vörpu b.v. Þorfinns
   Enginn skipverja slasaðist, en skipið laskaðist töluvert

 

Síðastliðinn laugardag vildi það til að togarinn Þorfinnur fékk tundurdufl í vörpuna. Þegar farið var að taka inn vörpuna sprakk tundurduflið rétt hjá skipinu. Við sprenginguna beyglaðist stjórnborðshlið skipsins allmjög, vindan brotnaði, ljósavélin stöðvaðist, dýptarmælir og loftskeytatæki urðu ónothæf. Enginn skipverja slasaðist og má telja það dæmafáa heppni. Auk þeira skemmda sem þegar er getið munu allmörg bönd bafa brotnað eða laskazt í skipinu en enginn leki kom að því. Þorfmnur var á leið til Halamiða og kastaði vörpunni á 115 faðma dýpi út af Ísafjarðardjúpi, þegar hann fékk tundurduflið í vörpuna. Lagði togarinn þegar af stað hingað til Reykjavíkur. Þjóðviljinn hafði í gær tal af Magnúsi Andréssyni útgerðarmanni og kvað hann þess myndi verða langt að bíða að togarinn gæti farið aftur á veiðar. Sýnir þessi atburður glöggt þær hættur sem enn eru á sjónum umhverfis landið.

Þjóðviljinn. 5 júní 1945.
 

B.v. Kópur RE 33.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Þorfinnur RE 33 á siglingu.                               Ljósmyndari óþekktur.
 
Tórfinnur TN 78 í slippnum í Þórshöfn í Færeyjum.  (C) Óli Ólsen.

           Skipastóll landsins í árslok 1945
 

 Af farþegaskipunum eru 3 gufuskip, Brúarfoss, Lagarfoss og Súðin, en 3 eru mótorskip, Esja, Laxfoss og Fagranes. Vöruflutningaskipin eru, Fjallfoss, Reykjafoss, Selfoss og Hermóður (gufuskip) og Skeljungur, Baldur frá Stykkishólmi og Nonni frá Reykjarfirði (mótorskip). Varðskipin eru Ægir og Óðinn (mótorskip). Björgunarskipið er Sæbjörg og dráttarskipið er Magni, eign Reykjavíkurkaupstaðar. Frá næsta hausti á undan hefur skipum fækkað um 2, en lestatalan lækkað um 822 lestir. Mótorskipum hefur fjölgað um 3 og lestatala þeirra hækkað um 1252 lestir. Síðastliðið ár voru strikuð út af skipaskránni 19 mótorskip (þar af 8 rifin eða talin ónýt, 6 farizt alveg, 4 strandað og 1 selt úr landi). Hafa þá bætzt við 22 mótorskip. Gufuskipunum hefur fækkað um 5 og lestatala þeirra lækkað um 2074 lestir. Gufuskip þau, sem fallið hafa burtu, eru: Farþegaskipið Dettifoss, sem fórst við Írland í janúar í fyrra, botnvörpungurinn Þorfinnur, sem seldur var til Færeyja á árinu, línuveiðarinn Fjölnir, sem fórst við Skotland í apríl í fyrra, og lv. Málmey og Sæfari, sem breytt var í mótorskip á árinu.

Hagtíðindi. 2 tbl. 1 febrúar 1946.

01.05.2023 13:10

2992. Baldvin Njálsson GK 400. TFBH.

Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 var smíðaður hjá Astilleros Armon Vigo S.A. í Vigo á Spáni árið 2021 fyrir Nesfisk ehf. í Garði. 2.879 Bt. 863 nettó. 4.077 ha. Wärtsila vél, 2.999 Kw. 66,30 x 16,00 x 3,91 m. Smíðanúmer V 128. Kom til landsins 30 nóvember sama ár. Sannarlega glæsilegt skip. Tók þessa mynd af honum þegar hann var að taka olíu í Örfirisey í morgun.
 

2992. Baldvin Njálsson GK 400 að taka olíu í Örfirisey.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
2992. Baldvin Njálsson GK 400 í reynslusiglingu á Spáni. (C) Skipasýn.
 
Efraþilfarið, togdekkið.                                      (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
Brú skipsins.                                                   (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
Millidekkið. Curio C 2011 flökunarvél á miðri mynd.  (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
Aðalvél skipsins, Wärtsila 4.077 ha, 2.999 Kw.  (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
2992. Baldvin Njálsson GK 400 í Keflavíkurhöfn 30 nóvember 2021. (C) Þórhallur S Gjöveraa.

   Baldvin Njálsson GK 400 kominn heim

Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 kom til hafnar í Keflavík eftir hádegi á þriðjudag eftir að hafa þeytt skipslúðra og tekið einn góðan hring utan við Garðinn, þar sem höfuðstöðvar útgerðarfyrirtækisins Nesfisks eru. Nýr Baldvin Njálsson er smíðaður af Armon-skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni þar sem fulltrúar útgerðarinnar tóku við skipinu í síðustu viku. Skipið er 65,6 metrar að lengd og sextán metrar að breidd. Það er 2.879 brúttótonn. Lestin er 1.720 rúmmetrar. Aðalvélin af gerðinni Wartsila 6L32 með 2.990 kW og 80 tonna togspyrnu. Vélin er sex sílindra. Tvær ljósavélar frá Scania eru í skipinu. Annars vegar 596 kW D116 og hins vegar 109 með 168 kW. Wartsila SCV 100 gíra. Ein fjögurra blaða skrúfa er á skipinu sem er fimm metrar í þvermál. Við hönnun skipsins var skrúfan stækkuð um einn metra og vélin minnkuð úr átta sílindra í sex. Með því sparast mikil olía og þá var hægt að stytta vélarrúmið og stækka lestina.
Hámarksganghraði er fimmtán hnútar. Siglingatækin eru frá Sonar. Það var Skipasýn sem hannaði skipið í samstarfi við útgerðarfyrirtækið Nesfisk sem vildi fá ódýrt en öflugt vinnsluskip. Allt vindukerfi fyrir veiðarnar frá Iberisca, alls um 30 vindur og eru þar á meðal þrjár togvindur með 48 tonna togkraft. Tveir kranar frá Ferri eru á þilfari, annar er 60 tm en hinn 20 tm. Baldvin Njálsson GK er búinn afskastamiklu frystikerfi sem er ammoníakskerfi frá Kinarca með allt að 80 tonna frystigetu á sólarhring. Klaki hf. hefur annast millidekkið og setti upp fiskvinnslu og fiskidælu. Optimar annaðist frystilausnir og pökkun. Um borð er Optim-ICE BP 120 frá Kapp ehf. en kælibúnaður skipsins byggir á fljótandi ís sem leysir af hólmi hefðbundinn flöguís. Lestin er á tveimur hæðum og þar eru þjarkar sem vinna mest alla vinnuna. Afurðir eru flokkaðar á bretti með róbótum og svo er lyftari í lestum. Um borð í skipinu eru sex einstaklingskáetur og ellefu tveggja manna káetur. Skipið rúmar því tuttugu og átta manna áhöfn. Skipstjóri er Arnar Óskarsson og hann sigldi skipinu heim. Um borð á heimsiglingunni var einnig Þorbjörg Bergsdóttir, ein af eigendum útgerðarinnar. Hún hefur verið í daglegri stjórnun fyrirtækisins í áratugi en ætlaði að láta það verkefni að sækja nýja skipið vera eitt af sínum síðustu verkum og setjast brátt í helgan stein.

Víkurfréttir. 45 tbl. 1 desember 2021.

  • 1
Antal sidvisningar idag: 281
Antal unika besökare idag: 20
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075661
Antal unika besökare totalt: 77621
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:36:39