01.05.2023 13:10

2992. Baldvin Njálsson GK 400. TFBH.

Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 var smíðaður hjá Astilleros Armon Vigo S.A. í Vigo á Spáni árið 2021 fyrir Nesfisk ehf. í Garði. 2.879 Bt. 863 nettó. 4.077 ha. Wärtsila vél, 2.999 Kw. 66,30 x 16,00 x 3,91 m. Smíðanúmer V 128. Kom til landsins 30 nóvember sama ár. Sannarlega glæsilegt skip. Tók þessa mynd af honum þegar hann var að taka olíu í Örfirisey í morgun.
 

2992. Baldvin Njálsson GK 400 að taka olíu í Örfirisey.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
2992. Baldvin Njálsson GK 400 í reynslusiglingu á Spáni. (C) Skipasýn.
 
Efraþilfarið, togdekkið.                                      (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
Brú skipsins.                                                   (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
Millidekkið. Curio C 2011 flökunarvél á miðri mynd.  (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
Aðalvél skipsins, Wärtsila 4.077 ha, 2.999 Kw.  (C) Astilleros Armon Vigo S.A.
 
2992. Baldvin Njálsson GK 400 í Keflavíkurhöfn 30 nóvember 2021. (C) Þórhallur S Gjöveraa.

   Baldvin Njálsson GK 400 kominn heim

Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 kom til hafnar í Keflavík eftir hádegi á þriðjudag eftir að hafa þeytt skipslúðra og tekið einn góðan hring utan við Garðinn, þar sem höfuðstöðvar útgerðarfyrirtækisins Nesfisks eru. Nýr Baldvin Njálsson er smíðaður af Armon-skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni þar sem fulltrúar útgerðarinnar tóku við skipinu í síðustu viku. Skipið er 65,6 metrar að lengd og sextán metrar að breidd. Það er 2.879 brúttótonn. Lestin er 1.720 rúmmetrar. Aðalvélin af gerðinni Wartsila 6L32 með 2.990 kW og 80 tonna togspyrnu. Vélin er sex sílindra. Tvær ljósavélar frá Scania eru í skipinu. Annars vegar 596 kW D116 og hins vegar 109 með 168 kW. Wartsila SCV 100 gíra. Ein fjögurra blaða skrúfa er á skipinu sem er fimm metrar í þvermál. Við hönnun skipsins var skrúfan stækkuð um einn metra og vélin minnkuð úr átta sílindra í sex. Með því sparast mikil olía og þá var hægt að stytta vélarrúmið og stækka lestina.
Hámarksganghraði er fimmtán hnútar. Siglingatækin eru frá Sonar. Það var Skipasýn sem hannaði skipið í samstarfi við útgerðarfyrirtækið Nesfisk sem vildi fá ódýrt en öflugt vinnsluskip. Allt vindukerfi fyrir veiðarnar frá Iberisca, alls um 30 vindur og eru þar á meðal þrjár togvindur með 48 tonna togkraft. Tveir kranar frá Ferri eru á þilfari, annar er 60 tm en hinn 20 tm. Baldvin Njálsson GK er búinn afskastamiklu frystikerfi sem er ammoníakskerfi frá Kinarca með allt að 80 tonna frystigetu á sólarhring. Klaki hf. hefur annast millidekkið og setti upp fiskvinnslu og fiskidælu. Optimar annaðist frystilausnir og pökkun. Um borð er Optim-ICE BP 120 frá Kapp ehf. en kælibúnaður skipsins byggir á fljótandi ís sem leysir af hólmi hefðbundinn flöguís. Lestin er á tveimur hæðum og þar eru þjarkar sem vinna mest alla vinnuna. Afurðir eru flokkaðar á bretti með róbótum og svo er lyftari í lestum. Um borð í skipinu eru sex einstaklingskáetur og ellefu tveggja manna káetur. Skipið rúmar því tuttugu og átta manna áhöfn. Skipstjóri er Arnar Óskarsson og hann sigldi skipinu heim. Um borð á heimsiglingunni var einnig Þorbjörg Bergsdóttir, ein af eigendum útgerðarinnar. Hún hefur verið í daglegri stjórnun fyrirtækisins í áratugi en ætlaði að láta það verkefni að sækja nýja skipið vera eitt af sínum síðustu verkum og setjast brátt í helgan stein.

Víkurfréttir. 45 tbl. 1 desember 2021.

Flettingar í dag: 530
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742289
Samtals gestir: 55942
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 03:12:27