Blogghistorik: 2019 N/A Blog|Month_12

31.12.2019 16:10

Skip í Reykjavíkurhöfn yfir hátíðirnar.

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi árið 2020 færa okkur öllum gæfu. Hafið það ávallt sem allra best.Kærar kveðjur til ykkar allra.

Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð, Helga María AK 16 og Akurey AK 10 í Örfirisey.
(C) Þórhallur S Gjöveraa. 23 desember 2018.


29.12.2019 16:26

206. Svanur ÍS 214. TFLZ.

Vélskipið Svanur ÍS 214 var smíðaður í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1960 fyrir Álftfirðing hf í Súðavík. 101 brl. 400 ha. MWM vél. Skipið fórst í róðri um 18 sjómílur út af Deild 29 janúar árið 1969. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Það var síðan vélskipið Sólrún ÍS 399 frá Bolungarvík sem fann gúmbátinn og voru skipverjar þá búnir að vera í honum í um 4 klukkutíma. Þeim var síðan bjargað um borð í varðskipið Þór sem hélt með þá inn til Ísafjarðar.


206. Svanur ÍS 214.                                                                               (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                      Nýtt skip

Ísafirði, 23. des. Í gærkvöldi kom nýr bátur til Súðavíkur. Hann er 101 lest að stærð , af sömu gerð og hin A-þýzku skip, sem komið hafa til landsins. Eigandi er Álftfirðingur h.f., en framkvæmdastjóri er Halldór Magnússon oddviti í Súðavík. Skipstjóri á leiðinni heim var Birgir Benjamínsson, en Kjartan Karlsson verður skipstjóri á fleyinu. - Skipið heitir Svanur, ÍS 214.

Tíminn. 24 desember 1960.


206. Svanur ÍS 214.                                                                              (C) Hafsteinn Jóhannsson.

 Fengum á okkur brotsjó, þvert á bátinn framantil
  sagði skipstjórinn á Svani ÍS 214 í viðtali við Mbl.,

           en báturinn sökk í vonzkuveðri í
                gærdag út af Vestfjörðum

Vélbáturinn Svanur ÍS 214 frá Súðavík fórst í róðri út af Deild í gærdag. Áhöfnin, 6 menn, komst í gúmbjörgunarbát og var bjargað eftir fjögurra tíma umfangsmikla leit. Hið versta veður var, hörkufrost, og gekk á með éljum. Sólrún frá Bolungarvík fann gúmbátinn en varðskipið Þór tók skipbrotsmenn um borð og kom með þá til Ísafjarðar um miðnætti.
Ísafirði í nótt:
Varðskipið Þór kom hingað til Ísafjarðar kl. tíu mínútur gengin í eitt með skipbrotsmennina af Svani frá Súðavík og átti Morgunblaðið þá strax tal við Örnólf Grétar Hálfdánarson, sem var skipstjóri á Svaninum. "Við fengum á okkur brotsjó um tvöleytið í dag og vorum þá líklega um 17 mílur NV af Deild á leið í land. Við vorum búnir að lóna rólega í um það bil klukkutíma og vorum að enda við að draga. Skyndilega reið hart brot yfir, þvert á bátinn framantil, ég get ekki lýst því nákvæmlega, því að rétt þá stundina var ég aftur í bestikki. Báturinn skall beint á hliðina og það drapst á vélinni eins og skot og sennilega hefur sjór farið niður um reykháfinn. Báturinn rétti sig aldrei eftir þetta og það hafa varla liðið meira en tíu mínútur þangað til allt sökk. Við gátum komizt upp á stýrishúsið og náð út gúmbátnum, en hann festist á rekkverkinu og skarst og rifnaði bæði þakið og efra flotholtið. Einn okkar komst með naumindum fram að hvalbak og gat náð í hinn gúmbátinn, sem var hjá skælettinu. Ég hljóp út úr bestikkinu, tók neyðartalstöðina með mér og kom henni upp á stýrishúsið en áður var ég búinn að reyna að setja talstöðina í gang, en ekkert ljós kviknaði á henni.
Við komumst strax frá bátnum á skemmda gúmbátnum og blésum þá þann heila út og skriðum allir yfir í hann. Við byrjuðum strax að kalla og það var víst varðskipið sem fyrst heyrði til okkar, en síðan náðum við sambandi við Sólrúnu og gátum talað við hana nokkrum sinnum, áður en loftnetsstöngin brotnaði fyrir einhver mistök. Eftir það gátum við lítið gert annað en að fylgjast með því sem var að gerast á svæðinu. Þegar við komum í bátinn voru austan 10 vindstig og töluvert mikið frost, jú okkur var nokkuð kalt, en við vorum allir sæmilega vel klæddir, allir í ullarfötum um borð og sömuleiðis gátum við náð í ullarföt, sem Kvennadeild Slysavarnafélagsins í Súðavík hafði gefið í bátinn og hjálpaði það okkur mikið, meðan við vorum í gúmbátnum. Við reyndum að halda á okkur hita eftir beztu getu, og sluppum nokkuð vel, þó að stýrimanninn hafi kalið lítilsháttar á hendi. Eins tognaði matsveinninn aðeins á öxl, þegar hann fór út í gúmbátinn.


Áhöfnin á Svaninum. Frá v; Örnólfur Grétar Hálfdánarson skipstjóri. Brynjólfur Bjarnason stýrimaður. Þórður Sigurðsson matsveinn. Jón Ragnarsson vélstjóri. Jóhann Alexandersson 2 vélstjóri og Kjartan Ragnarsson háseti.     Mynd úr Morgunblaðinu frá 30 jan 1969.

Við heyrðum alltaf í leitarskipunum og þegar þau voru farin að nálgast okkur gátum við látið heyra í okkur aftur. Það var Sólrún, sem fann okkur og eftir því, sem þeir segja mér hér um borð höfum við þá verið á stað 24 mílur í Rit og 17 mílur í Barða og þá sennilega rekið 8-9 mílur því sem næst í vestur frá staðnum þar sem báturinn sökk.
Við vorum vongóðir um björgun og misstum aldrei trú á því að okkur yrði bjargað, ekki sízt eftir að við heyrðum að leitarskipin hefðu fundið belgi og baujur og hinn gúmbátinn og þá vorum við vissir um að allt væri í lagi. Ég tel alveg tvímælalaust að það hafi fyrst og fremst bjargað lífi okkar að við höfðum þessa neyðartalstöð í gúmbátnum.
Ég vil fyrir hönd okkar skipsfélaganna þakka öllum sem tóku þátt í leitinni og veittu aðstoð og sérstaklega þakka ég varðskipsmönnum og Þresti Sigtryggssyni skipherra fyrir frábært skipulag á leitinni og prýðilega góðar móttökur þegar við komum hér um borð. Eins vil ég þakka Hálfdáni Einarssyni skipstjóra á Sólrúnu og hans mönnum, en Sólrún fann okkur fyrst og beið hjá okkur þar til varðskipið kom og bjargaði okkur um borð. Já, ég fer á sjóinn aftur, eins fljótt og ég mögulega kemst og vil helzt geta farið þegar næst verður róið, ef ég fæ pláss og sama er að segja um okkur félaganna alla. Mbl ræddi einnig við Börk Ákason, sem er útgerðarstjóri fyrir Svaninn. "Ég er því fegnastur að mannbjörg skyldi verða. Þetta hefur að sjálfsögðu verið mikið áfall fyrir atvinnulíf okkar í Súðavík og er nú aðeins eftir einn 107 tonna bátur, Valur, sem gerður er út á línu frá Súðavík. Á bátunum og við frystihúsið hafa að undanförnu 60 manns haft atvinnu. Við eigum 200 tonna stálbát í smíðum hér á Ísafirði og verður hann trúlega tilbúinn í endaðan febrúar. Ég vil biðja blaðið að flytja innilegar þakkir til þeirra, sem lögðu sig fram við leitina og stuðluðu á annan hátt að þessari giftusamlegu björgun mannanna."

Morgunblaðið. 30 janúar 1969.


198. Sólrún ÍS 399, smíðuð í Stralsund í A-Þýskalandi árið 1959 249 brl. Hét áður Bjarnarey NS 7.

        Sáu skyndilega ljósið í toppi               gúmbátsins rétt við borðstokkinn                               á Sólrúnu

Vélbáturinn Sólrún, sem fann skipverja af Svani, kom til Bolungarvíkur í gærkvöld og ræddi fréttaritari Mbl. þar við skipstjórann, Hálfdán Einarsson. Fer frásögn hans hér á eftir, svo og símtal við Hálfdán Örnólfsson, föður Örnólfs Grétars skipstjóra á Svani. Vélbáturinn Sólrún, sem fyrst náði sambandi við skipverja á Svani og fann síðar gúmbjörgunarbátinn, kom til Bolungarvíkur um kl. 11 í gærkvöld, illa ísaður eins og aðrir bátar, sem voru á þessum slóðum. Hversu mikil ísingin var má marka af því, að stög, sem eru um tomma að gildleika voru orðin um eitt fet að gildleika. Fréttaritari Mbl. í Bolungarvík hafði tal af Hálfdáni Einarssyni skipstjóra á Sólrúnu, þegar báturinn kom að bryggju. Hálfdán sagði að þeir hefðu verið að veiðum um 2 mílur norður af staðnum, þar sem Svanur sökk (15-18 mílur NNV af Deild). Heyrðu þeir á Sólrúnu fyrstir í talstöð gúmbjörgunarbátsins og fóru strax að leita að honum. Sagði Hálfdán að leitarskilyrði hefðu verið afleit, hvassviðri, mikill sjór, hörkufrost og gekk á með éljum. Það var svo skuggsýnt, sagði Hálfdán, að við vorum að hugsa um að biðja þá í gúmbátnum um að skjóta upp blysum til þess að við gætum frekar fundið þá. Talstöðin í gúmbátnum, var farin að dofna, en skyndilega heyrðum við mjög skýrt í talstöðinni og fórum þá að svipast um í kringum okkur. Sáuna við þá ljósið á toppi gúmbjörgunarbátsins rétt við borðstokkinn á Sólrúnu. Þá var klukkan 18.10, og vorum við þá 19 mílur frá Deild og 23 mílur frá Rit. Taldi Hálfdán að skipverjar í gúmbátnum hafi ekki orðið varir við Sólrúnu strax. Sagði Hálfdán að Sólrúnarmenn hefðu strax kallað í varðskipið, sem var í grenndinni, þar sem þeir töldu að um borð í því væri betri aðstaða til að taka á móti skipbrotsmönnum.
Sagði Hálfdán að þeir um borð í Sólrúnu hefðu ekkert vitað um líðan skipbrotsmannanna í gúmbátnum, enda ekki getað haft samband við þá. Liðu 20-25 mínútur frá því skipverjar á Sólrúnu sáu gúmbjörgunarbátinn, þar til skipbrotsmenn voru komnir um borð í varðskipið. Hélt Sólrún sig hjá gúmbátnum á meðan. Fréttaritari Mbl. sagði að Hálfdán og aðrir skipstjórar í Bolungarvík, sem hann hafði hitt, hefðu borið mikið lof á skipverja þann af Svani, sem hafði með talstöðina að gera í gúmbátnum, fyrir leikni hans og kunnáttu.

Morgunblaðið. 30 janúar 1969.                                  


28.12.2019 18:25

B. v. Bjarni riddari GK 1. TFHD.

Nýsköpunartogarinn Bjarni riddari GK 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947. 657.brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 1324. Eigandi var Akurgerði h/f í Hafnarfirði frá 3 september sama ár. Hann kom fyrst til heimahafnar í Hafnarfirði hinn 6 september árið 1947, fyrsti nýsköpunartogarinn sem þangað kom. Hann var einn af 8 nýsköpunartogurum sem voru smíðaðir í Selby fyrir okkur íslendinga. Hann átti sér systurskip í þeim flota, Júlí GK 21, báðir með hærri reykháf en hinir, en annars smíðaðir eftir sömu teikningu. Það má til gamans geta þess að útgerðin sótti ekki bara nafn skipsins til Bjarna"riddara"Sívertsen Dannebrogs manns 1763-1833, heldur líka nafn útgerðarinnar, Akurgerði, en það nafn ber hús hans sem hann byggði í Hafnarfirði á árunum 1803-1805 og því 215 ára gamalt. Togarinn var seldur í ágúst 1964, N.D. Lagoutis & Sons í Pyreus í Grikklandi. Var það Stofnlánadeild sjávarútvegsins sem seldi þeim togarann á 925 þús. íslenskar krónur. Fékk nafnið Nicholas og það var sett í hann frystitæki og lestar gerðar að frystilestum. Var í ferðum milli Kanaríeyja og Grikklands með frystar sjávarafurðir. Endalok hans urðu að stranda við Villa Cisnero í Vestur-Sahara og eyðileggjast. Held að það hafi verið árið 1978, en ekki viss.


B.v. Bjarni riddari GK 1 á toginu.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Bjarni riddari GK 1 við komuna til Hafnarfjarðar.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 "Bjarni riddari" kom s. l. laugardag

Fyrsti nýsköpunartogari Hafnfirðinga kom hingað til lands s. I. laugardagsmorgun. Var það togarinn "Bjarni riddari-GK 1". Hann er eign útgerðarfélagsins Akurgerði, en eigendur þess eru hinir sömu og eiga Haukanes og Óla Garða. Framkvæmdastjóri félagsins er Ásgeir Stefánsson. Nýsköpunartogarinn Bjarni riddari er skírður eftir Bjarna Sívertsen. Hann bjó lengi í Hafnarfirði, að Akurgerði, en það hús er ennþá til, 150 ára gamalt. Í ráði er að reisa Bjarna Sívertsen minnisvarða í Hafnarfirði og hafa félagar Magna lagt fram álitlega fjárupphæð í því skyni. Ráðgert er að "Bjarni riddari" fari til veiða eftir um það bil 10 daga. Unnið er að niðursetningu lýsistækja í hann og- verður því verki væntanlega lokið á þeim tíma. Skipstjóri á togaranum er Baldvin Halldórsson.

Vísir. 8 september 1947.


B.v. Bjarni riddari GK 1 leggst að bryggju í heimahöfn.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

  Bjarni riddari seldur til Grikklands 

Gengið hefur verið frá samningum um sölu Hafnarfjarðartogarans Bjarna riddara til Gríkkland. Það er fyrirtækið N.D. Lagoutis & Sons í Pyreus, sem kaupir skipið af Stofnlánadeild sjávarútvegsins, og var fulltrúi þess hér staddur fyrir nokkrum dögum til að undirbúa kaup skipsins. Hefur fyrirtækið fengið um tveggja vikna frest til að greiða kaupverðið, sem er um 925 þús. ísl. krónur. Guðmundur Valgrímsson, sem haft hefur milligöngu um sölu togarans ,sagði blaðinu í gær, að hinir grísku kaupendur hyggðust breyta togaranum og setja í hann, djúpfrystitæki og hraðfrystilestar til fiskflutninga frá Kanaríeyjum .Taka þeir við honum í því ástandi, sem hann er í nú, en togarinn hefur legið undanfarin þrjú ár og þarf að lagfæra margt um borð áður en hann verður tilbúinn til siglingar suður á bóginn. Koma hingað grískir menn til að vinna við togarann og njóta Þeir aðstoðar íslenzkra aðila til að gera hann siglingafæran. Ef vel gengur, á að sigla togaranum til Pyreus eftir þrjár vikur. Bjarni riddari er einn af nýsköpunartogurunum og var í eigu Akurgerðis h.f. í Hafnarfirði. Hann var sleginn Stofnlánadeild sjávarútvegsins fyrir rúmlega 300 þúsundir króna á uppboði í júní sl. Er Bjarni riddari annar Hafnarfjarðartogarinn sem seldur er grískum kaupendum.

Morgunblaðið. 18 ágúst 1964.


Nicholas ex Bjarni riddari GK 1 í Grikklandi.                                                   Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Bjarni riddari GK 1 á frímerki frá árinu 2010.                                         (C) Frímerki í minni eigu.


Líkan Hermanns Guðmundssonar af Bjarna riddara GK 1.                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.

        Hrein lífsnautn að sjá þessi                           skip verða til

Ótrúlega mikil vinna liggur að baki allri módelsmíði, en sérstaklega þeirri smíði þar sem módelsmiðurinn handsmíðar hvern einasta hlut og eftir því sem módelið er minna er handavinnan þeim mun erfiðari. Á sýningu í Hafnarborg í Hafnarfirði þar sem haldið var upp á 80 ára afmæli Hafnarfjarðarhafnar með yfirgripsmikilli og fallegri sýningu í glæsilegu húsi, voru 3 skipslíkön eftir Hermann Guðmundsson í Hafnarfirði, fyrrverandi alþingismann og verkalýðsleiðtoga. Þessi þrjú líkön hefur Hermann smíðað á nokkrum áratugum í ígripum. Á elsta líkaninu byrjaði hann 1946, en það yngsta lauk hann við skömmu fyrir jól. Auk þessara þriggja skipslíkana, sem eru einstök listasmíð og tvö þeirra aðeins um 30 sm löng, þá hefur Hermann einnig smíðað víkingaskip, útfært eftir hans eigin hugmynd. Morgunblaðið ræddi við Hermann um módelsmíði hans.
Ég byrjaði þessa áráttu með því að leggja í að smíða Bjarna riddara áður en hann kom til landsins árið 1947, og reyndar var enginn nýsköpunartogaranna kominn til landsins. Bjarni riddari var fyrsti nýsköpunartogarinn sem kom til Hafnarfjarðar, en sá fyrsti sem kom til landsins var Ingólfur Arnarson og mér var boðið að skoða hann sem þáverandi alþingismanni. Ég sá þá að mörgu þurfti að breyta í módelinu frá því sem ég hafði gert og gerði það. Síðar seldi ég líkanið eigendum Bjarna riddara, en þegar Bjarni riddari var seldur úr landi til Grikklands árið 1964, þá afhentu eigendur Bjarna mér líkanið og sögðu að ég mætti hafa það svo lengi sem ég tórði. Það er nú geymt á Sjóminjasafninu. Bjarni riddari var notaður til farþega- og vöruflutninga í Grikklandi og af honum veit ég ekki meir, en þar hlaut hann nafnið Nicklas.

Morgunblaðið. 19 febrúar 1989.

26.12.2019 18:39

L. v. Papey GK 8. LCJS.

Línuveiðarinn Papey GK 8 var smíðaður í Dordrecht ? í Hollandi árið 1913. 107 brl. 220 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét áður Kakali ÍS 425 og var í eigu hf Kakala (Proppé bræðra og fl.) á Þingeyri í Dýrafirði frá árinu 1920 og keyptu þeir skipið frá Þýskalandi. Hét þar Hans. Kakali var gerður út af hf Dofra á Siglufirði árið 1926. Selt 21 desember 1927, Hlutafélaginu Val í Hafnarfirði, hét þá Papey GK 8. Í júlí 1932 var skipið komið í eigu Útvegsbanka Íslands. Skipið lenti í árekstri um 2,5 sjómílur VNV af Engey við þýska flutningaskipið Brigitte Sturm frá Hamborg 20 febrúar árið 1933. 9 skipverjar fórust, en 8 skipverjum var bjargað um borð í árekstrarskipið sem fór með þá til Reykjavíkur. Papey sökk á 3 mínútum, enda nær því klofið í tvennt eftir áreksturinn. Flak skipsins liggur þarna vestur af Engey á 35 metra dýpi. Papey var þá ennþá í eigu Útvegsbankans en Guðmundur Magnússon skipstjóri hafði tekið skipið á leigu eitthvað áður en slysið varð.


Línuveiðarinn Papey GK 8.                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Nýtt skip

Hingað kom í gærmorgun nýtt skip, Sem félag íslenskra manna hefir keypt í Þýzkalandi, m. a. Bræðurnir Proppé, Karl Löve, sem er skipstjóri þess, o. fl. Skipið, sem fengið hefir nafnið "Kakali" er smíðað árið 1914, er 90 feta langt og 20 feta breitt, kvað vera kolaspart mjög. Var það 12 daga á leiðinni frá Cuxhaven, ætlaði að koma við í Esbjerg og taka þar tvo íslenzka farþega, þá Magnús Thorberg og Jóhann P. Jónsson framkvæmdastjóra, en náði ekki sambandi við land þrátt fyrir þriggja stunda bið fyrir utan höfnina í Esbjerg. Mun verkfall þar hafa valdið því. Skipi þessu er ætlað að stunda síldveiðar, vera í flutningum og ef til vill fara á línuveiðar ef hentugt þykir. Hefir það ágætan útbúnað til þessa.

Morgunblaðið. 12 maí 1920.


Línuveiðarinn Papey GK 8.                                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Þegar línuveiðarinn "Papey" sökk

Mánudaginn 20. febrúar lagði línuveiðarinn Papey út frá Reykjavík til fiskveiða. Er komið var um 2 sjómílur út fyrir Engey rakst Papey á þýzka flutningaskipið Birgitte Sturm, er var á leið til Reykjavíkur og kom frá Stykkishólmi.
Áreksturinn var svo harður, að stefni Birgitte Sturm stóð langt inn í línuveiðarann, er sökk á þrem mínútum. Öll skipshöfn línuveiðarans var á þiljum er slysið skeði, 17 að tölu, nema vélstjóri, sem var neðan þilja. Aðeins átta af áhöfninni komust af. Níu drukknuðu, vegna þess að skipið sökk svo skyndilega. Hugo Arp, skipstjóri á Birgitte Sturm segir svo frá atvikum í sjórétti:
Birgitte Sturm fór frá Stykkishólmi á mánudagsmorgun. Ferðin gekk vel og segir ekki af ferðum skipsins fyrr en á mánudagskvöld 20. febrúar, er skipið átti eftir skammt ófarið til Reykjavíkur. Sér þá skipstjóri hvítt ljós er ber lágt yfir sjávarflöt. Áleit hann að þetta væri vinnuljós á fiskiskipi. Það var kl. 19,40, sem skipstjóri kom auga á ljós þetta.
Seinna sá skipstjóri, að þessi Ijós voru tvö, er hann hafði athugað þau í sjónauka. Taldi hann öruggt, að þau mundi vera bæði á sama skipinu, en að hann sá nú að þau voru tvö, áleit hann stafa af því, að afstaða skipanna hefði breytzt við siglingu Birgitte Sturm. Önnur ljós sá hann ekki á skipinu og segist hann því hafa ályktað, að þetta væri fiskiskip, sem lægi kyrrt. Birgitte Sturm hélt nú áfram ferð sínni með 10 sjómílna hraða á klukkustund og lét skipstjóri sér ekki til hugar koma, að nokkur hætta væri á ferðum. Bilið milli Birgitte Sturm og fiskiskipsins, sem var Papey, var á að gizka 2- 300 metrar. Papey var 2 ½ strik á stjórnborða við Birgitte Sturm. Þetta þótti skipstjóra helzt til lítið bil, svo að hann vék skipi sínu ½  strik í viðbót á bakborða. Taldi hann, að með því móti fjarlægðist hann fiskiskipið meir, er hann taldi sem áður er sagt, að væri kyrrt. En rétt í sama bili og hann víkur Birgitte Sturm þessa ½  gráðu til bakborða sér hann, og stýrimaður hans, sem með honum var á stjórnpalli, að allt í einu kemur í ljós rautt ljós á fiskiskipinu, og um leið kemur hann auga á ljós í siglutré.
Verður honum nú ljós, að skipið stefnir beint í veg fyrir Birgitte Sturm. Þar sem skipstjóri hafði verið að enda við að víkja skipi sínu á bakborða, gat hann ekki snúið því til stjórnborða nóg til að komast aftur fyrir Papey. Gefur hann því merki með eimflautunni um að hann beygi á bakborða með því að blása snöggt tvisvar sinnum. En þegar honum verður ljóst, að árekstur milli skipanna er óumflýjanlegur, setur hann vélina á fulla ferð afturábak, og tilkynnti það í eimpípunni með þremur stuttum blástrum. En í sama mund rakst stefni flutningaskipsins í síðu Papeyjar, aftan til við miðju, og gekk stefnið eins og áður er sagt langt inn í skipið. Þegar þetta skeði var klukkan 20,14. Nú setti Birgitte Sturm fulla ferð áfram til þess að halda stefninu fast að hinu sökkvandi skipi, svo að skipverjum gæti tekizt að bjargast úr línuveiðaranum. En þrátt fyrir þetta sökk Papey tveim mínútum síðar. Frásögn stýrimanns á Papey, Halldórs Magnússonar, var á þessa leið.
Kl. 8,15 síðdegis var komið út fyrir Engey. Stefnan var N að V. Var þá stýrimaður á stjórnpalli ásamt skipstjóra. Sást þá skip koma framundan til bakborða. Kl. 8,30 var skipið komið mjög nálægt og gaf til kynna, að það snéri á bakborða. Var þá merki gefið frá Papey, að beygt væri á stjórnborða, annað var ógerlegt. Svaraði þá flutningaskipið með fullri ferð afturábak, og eftir fá augnablik skall það á miðri Papey bakborðsmegin og skar hana inn undir miðju. Sökk hún á liðlega tveim mínútum. Þegar bersýnilegt var, að árekstur yrði ekki umflúinn, var hrópað til skipverja, sem allir voru ofanþilja nema einn, og þeir beðnir að vera viðbúnir, og voru sumir á leiðinni og sumir komnir að bátunum, þegar stefni Birgitte Sturm skarst inn í byrðing Papeyjar. Var nú hafizt handa um að losa bátana, en Papey var sokkin áður en tími hafði unnizt til þess. Eins og áður er sagt björguðust 8 menn af áhöfn Papeyjar, sem voru 17 menn, með þeim hætti, að 4 menn náðu höndum á akkeri Birgitte Sturm og héngu þar. Einn maður synti að skipinu og þrír menn, björguðust upp í bát, sem flutningaskipið hafði sett á flot. Bátar frá flutningaskipinu leituðu lengi á slysstaðnum eftir mönnum, þegar Papey var sokkin, og björgunarhringir með ljósum flutu á sjónum. En árangurslaust með öllu. Brigitte Sturm fór með mennina, sem björguðust inn til Reykjavíkur. Þeir sem fórust voru:
Jón Oddsson, 1. vélstjóri, átti heima í Hafnarfirði, 32 ára, lætur eftir sig konu og 3 börn.
Bjarni Magnússon, úr Hafnarfirði, 40 ára gamall, ógiftur. 
Björn Jónsson, úr Hafnarfirði (ættaður úr Norður-Múlasýslu) 43 ára, giftur. Lætur eftir sig 3 börn.
Eiríkur Magnússon, úr Hafnarfirði, 25 ára, vann fyrir gamalli móður. 
Cecil Sigurbjörnsson, úr Grundarfirði, 37 ára. Lætur eftir sig konu og 5- 6 börn í ómegð.
Jóhann Kristjánsson, úr Grundarfirði, 41 árs.
Ólafur Jónsson, frá Dalvík, 20 ára.
Þórður Kárason, úr Reykjavík, 24 ára gamall.
Þórður Guðmundsson, Vesturgötu 22, Reykjavik, 42 ára. Var giftur. Lætur eftir sig 2 ung börn.
Þessir björguðust:
Guðmundur Magnússon, skipstjóri, Hallveigarstíg 9, Reykjavík.
Halldór Magnússon, stýrimaður, úr Hafnarfirði.
Bjarni Marteinsson, II. vélstjóri, úr Hafnarfirði.
Helgi Halldórsson, matsveinn, Skólavörðustíg 12, Reykjavík.
Bjarni Árnason, úr Stykkishólmi.
Jónmundur Einarsson, úr Grundarfirði.
Guðmundur Jóhann Guðmundsson, úr Hafnarfirði og
Gunnar Sigurðsson, úr Hafnarfirði.
Línuveiðarinn Papey GK 8 var smíðaður í Hollandi árið 1913 og var 107 smálestir.

Nýtt S.O.S. 1 febrúar 1959.
Þrautgóðir á raunastund. 1 bindi.






24.12.2019 20:55

Frá Reykjanesi.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þökk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu.

Hafið það ávallt sem allra best yfir hátíðirnar  

Bestu jólakveðjur til ykkar.



Gömul mynd á póstkorti frá Reykjanesi.
Aðfangadagur 24 desember 2019.

 

21.12.2019 08:04

167. Pétur Sigurðsson RE 331. TFYX.

Vélskipið Pétur Sigurðsson RE 331 var smíðaður í Sagvag í Noregi árið 1960 fyrir Sigurð Pétursson útgerðarmann í Reykjavík. 140 brl. 350 ha. Wichmann vél. Selt 7 júní 1968, Guðmundi Runólfssyni og Birni Ásgeirssyni í Grundarfirði, hét Ásgeir Kristjánsson SH 235. Selt 22 janúar 1974, Þorvaldi Ottóssyni í Reykjavík, hét þá Hafnarnes RE 300. Endurmælt árið 1974, mældist þá 119 brl. Selt 13 ágúst 1979, Hleiðru hf í Hafnarfirði, hét Sigurjón Arnlaugsson HF 210. Ný vél (1983) 700 ha. Cummins vél, 534 Kw. Selt í brotajárn og tekið af skrá 12 júlí árið 1990. Skipinu var síðan sökkt við Þerney á Kollafirði og notað til æfinga fyrir kafara að ég held örugglega.


167. Pétur Sigurðsson RE 331.                              (C) Snorri Snorrason.   Úr safni Atla Michelsen.

            Nýtt 170 lesta stálskip

Dalvík, 27. júlí. 
Nýtt skip kom hingað í dag frá Noregi. Heitir það Pétur Sigurðsson og er eigandi þess Sigurður Pétursson, útgerðarmaður í Reykjavík. Hingað kom skipið til að búast til síldveiða og tók hér nót og önnur tæki um borð. Skipið er byggt; í Sagvág í Noregi, stálskip, 170 lestir. Er það búið öllum fullkomnustu tækjum til siglinga og fiskileitar. Í skipinu er 300 hestafla Wickmann vél og ganghraði þess var rúmar 10 mílur að jafnaði á heimleið. Skipstjóri er Jón Sæmundsson.

Tíminn. 31 júlí 1960.


Pétur Sigurðsson RE með risa síldarkast á síðunni. Búinn að fylla sig og Sigurvon RE 133 er að háfa og fjær bíður Náttfari ÞH 60 eftir að komast að.   Ljósmyndari óþekktur.


Eins og sést á myndinni er Pétur með fullfermi og vel það og Sigurvon RE 133 að háfa og er langt komin með að fylla sig.        Ljósmyndari óþekktur.

     Flotinn í síld á tveimur stöðum                        langt úti í hafi

Síðdegis í gær voru síldveiðiskipin í síld um 135 mílur SSA af Gerpi og voru 9 skip lögð af stað í landi með allt upp í 2500 mál í gærkvöldi. Sjórinn svona langt úti er mun hlýrri en nær landi og það talin ástæðan. Einnig höfðu Norðmenn verið komnir í síld djúpt NA af Langanesi síðdegis í gær og fengið allt upp í 2O00 mál og í gærkvöldi voru nokkur íslenzk skip komin einnig á þær slóðir og byrjuðu að kasta, Þórður Jónasson, Snæfell og Ásbjörn. Voru síldarfréttirnar því miklu betri í gærkvöldi en verið hefur um langan tíma. En langt er í síldina, orðið styðst af syðri miðunum til Færeyja, 90 mílur til Myggenes í Færeyjum. Síldin á nyrðri staðnum var sögð stór og feit. En sú sem veiddist SA af Gerpi blönduð, smá og stór millisíld, en stærri síldin mögur, svo hún verður varla söltuð.
Pétur Sigurðsson RE var lagður af stað í land með fullfermi af syðra veiðisvæðinu í gærkvöldi. Hafði skipið fengið svo stórt kast, að það hafði ekki rúm fyrir það sem var í nótinni og þurfti að fá flutningaskip til að háfa afganginn upp úr henni. Önnur skip, sem kunnugt var að væri á leið inn af þessu veiðisvæði, eru: Oddgeir með 3250 mál, Æskan með 450 mál, Björn Jónsson 800 mál Heimir 500 mál, Reykjaborg 1100, Sigurður Bjarnason 300, Sæfaxi II 1000 og Gunnar 500. Sum skip voru á leið til Eskifjarðar ,en það var í gær brætt með fullum afköstum, enda komu 7000 mál þangað í fyrradag. Önnur voru á leið á aðrar Austfjarðarhafnir og flutningaskip eru fyrir austan. Ágætt veður er á síldarmiðunum.

Morgunblaðið. 9 júlí 1965.


18.12.2019 11:30

Árásin á togarann Arinbjörn hersir RE 1 22 desember árið 1940.

Í byrjun seinni heimstyrjaldar jukust siglingar íslenskra togara með ísfisk til Bretlands til mikilla muna. Bresk hernaðaryfirvöld tóku þá yfir flesta togara breta og mörg önnur skip í þjónustu sína til hernaðarnota. Við þetta hækkaði fiskverð mikið í Bretlandi og þar af leiðandi, batnaði mikið afkoma togaraútgerðarinnar hér heima. Nánast undantekningalaust var siglt með aflann til Bretlands og einnig til Þýskalands til að byrja með. Löndunarhafnirnar voru Hull og Grimsby á austurströndinni fyrsta árið eða svo. Þegar líða fór á stríðið og kafbátahernaður þjóðverja jókst á hafinu og eirði engum skipum, þó að um skip hlutlausrar þjóðar væri um að ræða. Þá var ákveðið að togararnir sigldu um Írlandshaf og lönduðu afla sínum í Fleetwood á vesturströndinni, því á þessari siglingaleið væri minni hætta á kafbátum þjóðverja. En ekki leið á löngu að íslensku togararnir urðu hvergi óhultir á leið sinni yfir hafið og mörgum þeirra var sökkt og aðrir stórskemmdir eftir, svo ég tali nú ekki um allt manntjónið sem var mikil blóðtaka fyrir okkar litlu þjóð. Það var togarinn Skutull ÍS 451 frá Ísafirði sem fyrstur varð fyrir árás, er þýsk sprenguflugvél réðst á hann að morgni 2 mars árið 1940. Var hann þá á heimleið úr söluferð. Varpaði flugvélin sprengjum á hann sem ekki hæfðu og lét síðan vélbyssuskothríðina dynja á togaranum. Enginn meiddist við þessa aðför vélarinnar. Togarinn Arinbjörn hersir RE 1 seldi afla sinn í Fleetwood hinn 20 desember 1940, og fékkst gott verð fyrir hann. Á heimleiðinni, 22 desember, þegar hann var staddur um 12 sjómílur norðvestur af Mull of Cantyre í Skotlandi, gerði þýsk sprengjuflugvél af Heinkel 111 árás á togarann, varpaði sprengjum að honum og lét vélbyssuskothríðina dynja á honum. Særðust þar 5 skipverjar.

Greinin hér að neðan er skrifuð af Agnari Guðmundssyni sem þá var 1 stýrimaður á Arinbirni hersi. Hún birtist í Víkingnum í janúar árið 1941.

Arinbjörn hersir RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir breska flotann, hét hjá þeim John Pasco. 321 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Kveldúlfur í Reykjavík frá árinu 1924. Skipið var selt 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, skipið hét Faxi RE 17. Selt 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.


        Árásin á "Arinbjörn hersir"  

Víkingurinn hefir náð tali af Agnari Guðmundssyni, er var 1. stýrimaður á Arinbirni hersi, þegar hin ægilega loftárás var gerð á hann af þýzkri sprengjuflugvél þann 22. des. s. l. 14 sprengjum var varpað á skipið og vélbyssukúlum rigndi yfir skipverja meðan þeir voru að reyna að komast í lífbátana. Agnari segist svo frá:
Sunnudagsmorguninn þann 22. des. s. l., er Arinbjörn hersir var staddur á 53° 23' N. br. og 5° 05' V. lgd., eða um 12 sjómílum NV af Mull of Cantyre, heyrðum við til flugvélar, sem okkur þótti nú engin nýlunda, því urg þeirra er orðið svo hversdagslegt, einkum í námunda við Englandsstrendur. Og það er nú svo, að vanalegast er ekki verið að reikna út, hvort þessari eða hinni flugvélinni búi illt í huga við viðkomandi. Í þessu tilfelli skeði það, sem alltaf má búast við. Flugvélin, sem var ,,Heinkel" 111, long distance twinengine bomber, flaug niður undir masturtoppa skipsins, og lét sprengju falla, er féll bakborðsmegin við skipið og orsakaði óhemju loftþrýsting. Skipið lék á reiðiskjálfi, líkt og því hefði verið siglt með fullri ferð upp í stórgrýti. Eitt og annað gekk úr skorðum, ljós slokknuðu, og leki kom þegar að skipinu. Þegar svona stendur á, má enginn vera að því að íhuga hvaða geigvænlegu augnablik eru að líða, allir hafa nóg að gera við að koma fyrir sig þeim öryggistækjum, sem skipinu fylgja og hægt er að notfæra sér.


B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á toginu.                                                              Guðbjartur Ásgeirsson.  

Okkar fyrsta verk var að slaka bakborðsbátnum, sem var útsleginn, og meðan við vorum að slaka bátnum, flaug flugvélin yfir okkur og reyndi með vélbyssu sinni að hæfa mennina, sem voru að slaka, um leið og hún lét aðra sprengju falla. Þegar báturinn var kominn í sjóinn og komnir í hann 8 menn, flaug flugvélin yfir í þriðja sinn og lét nú skothríðina dynja á skipinu og bátnum og sleppti nú tveimur sprengjum, sem þó hvorugar hittu skipið. Við þessa skothríð særðust allmikið 5 af þeim, sem í bátnum voru, og einn á þilfarinu. Ennfremur skemmdist báturinn það mikið, að hann flaut aðeins á öftustu loftkössunum. Eftir að við vorum komnir frá skipinu á lífbátnum, sem var illa sjófær, gerði flugvélin 3 árásir á það. Alls lét hún 14 sprengjur falla, en engin hæfði skipið, en svo nærri féllu þær, að skipið kastaðist og liðaðist til, eins og það væri í brimróti upp í skerjagarði. Það var sýnilegt strax, að flugmennirnir beindu skothríðinni aðallega að skipverjum, auk þess, sem þeir skutu á stjórnpallinn og hæfðu báða áttavitana og dýptarmælirinn, sem allt varð ónothæft. Þegar flugvélin var komin úr augsýn, var róið að skipinu og bundið um sár hinna særðu. Ljós voru lagfærð, og er loftskeytamaðurinn hafði komið sínum tækjum til að starfa, var sent út A. A. A., sem er sent í stað S. O.S., þegar flugvél gerir árás á skip. Samband náðist við G. P. K. radio og síðar við björgunarskipið "Superman", sem svo kom til okkar 1 ½ tíma eftir að árásin byrjaði. Hinir særðu voru strax látnir um borð í "Superman". Síðan var athugað, hvort hægt mundi vera að fylgja honum eftir til hafnar, en það reyndist ógerlegt vegna margvislegrar bilunar. Að draga Arinbjörn taldi skipstjórinn á "Superman" að myndi hefta för skipsins of mikið, þar eð hinir særðu þurftu skjótrar læknishjálpar við, og með því, að veður fór versnandi, mikill sjór kominn í skipið og enginn nothæfur lífbátur, var Arinbjörn yfirgefinn og "Superman" hélt til Campbeltown með fullri ferð. Frá "Superman" var sent skeyti og annar dráttarbátur beðinn að fara á vettvang og reyna að ná Arinbirni hersi og draga hann til hafnar. Um borð í ,,Superman" var okkur sagt, að flugvélin hefði fyrst kastað á þá tveimur sprengjum, er hæfðu hvorugar, en þeir hröktu hana á brott með skothríð úr loftvarnabyssum sínum.


B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á siglingu.                                                             Guðbjartur Ásgeirsson.  

Til Campbeltown var komið seinni part sunnudagsins og voru þá hinir særðu, þeir: Jón Kristjánsson, Guðmundur Helgason, Guðjón Eyjólfsson, Ólafur Ingvarsson og Guðmundur Ólafsson fluttir á spítala. Marinó Jónsson var látinn fylgja okkur og um meiðsli hans búið í gistihúsinu.
Við biðum þarna í 7 daga og leið öllum eftir atvikum vel. Egill Skallagrímsson kom og tók okkur, þá sem ferðafærir voru og flutti til Londonderry, en þangað hafði verið farið með Arinbjörn.
Hjá honum fengum við líka tvo menn að láni, þá Jón Ólafsson og Ragnar Karlsson. B.v. "Gyllir", sem einnig kom til Londonderry, lét okkur hafa bát í stað okkar tveggja, sem báðir voru ónýtir. Eftir lauslega skoðun var skipið afhent skipstjóranum fyrir hönd eiganda, af viðkomandi "Naval Officer in Charge". Það var ljótt umhorfs um borð í Arinbirni, þegar við komum þangað. Allt var á tjá og tundri, og svo, að vart er hægt að lýsa með orðum einum. Við skoðunina kom einnig í ljós, að öll matvæli, siglingatæki eins og t. d. 2 sjónaukar, loflvog og vegmælir ásamt öðru lauslegu var horfið. Innsiglið var rofið og þaðan horfið það sem þar fyrirfannst, ennfremur allur fatnaður skipverja og vörur þær, sem beir höfðu keypt í Englandi. Eftir að búið var að standsetja það, sem nauðsynlega þurfti til heimferðarinnar, og leyfi fengið til heimferðar, var haldið á stað. Veður var hið ákjósanlegasta og komið var til Reykjavíkur þann 12. janúar síðdegis eftir rúma 3 sólarhringa ferð.
Nú er frásögn Agnars lokið, af mestu loftárásinni, sem gerð hefir verið á íslenzkt skip. En hverjir verða næst fyrir þessu, og hvenig fer þá? Íslenzku skipin standa öll varnarlaus gagnvart þessum loftvörgum. Þeir geta í rólegheitum leikið sér að bráð sinni, eins og köttur að mús. Einasta vörnin gegn þessu er loftvarnabyssan, sem vera ætti um borð í hverju einasta skipi, sem til Englands siglir.  

Sjómannablaðið Víkingur. 1 tbl. janúar 1941.


16.12.2019 16:48

Breski togarinn Ross Cleveland H 61 við bryggju í Neskaupstað.

Erlendir togarar hafa lengi leitað hafnar hér á landi og þá af margvíslegum ástæðum, eitthvað bilað, veikir skipverjar eða leitað hafnar vegna óveðurs og margt fleira sjálfsagt. Eitt sinn kom breskur togari til Neskaupstaðar að losa sig við mann, en sá maður hafði einstaka hæfileika að dáleiða fólk. Þegar keyrði um þverbak ákvað skipstjórinn að leita hafnar með manninn, enda var hann þá búinn að dáleiða flest alla áhöfnina svo að ekki var hægt að stunda veiðar lengur. En hvað um það, þá skrifaði Magni Kristjánsson skipstjóri í Neskaupstað góða grein um þennan atburð í Sjómannadagsblaði Neskaupstaðar hér á árum áður. Heimildarmaður hans var Óskar Björnsson í Brennu, sögumaður góður. En myndin hér að neðan sýnir tvo breska togara við bryggju í Neskaupstað. Annar þeirra, liggur við bryggjuna er togarinn Ross Cleveland H 61. Þessi togari er vel þekktur hér á landi. Örlög hans urðu dapurleg í meira lagi. Ofurþungi íss og hafrót hvolfdu togaranum á Ísafjarðardjúpi hinn 5 febrúar árið 1968 í miklu óveðri sem gekk þá yfir vestanvert landið og var líkt við Halaveðrið mikla í febrúar árið 1925. Einnig fórst í þessu veðri vélskipið Heiðrún ll ÍS 12 með allri áhöfn, 6 mönnum og togarinn Notts County GY 643 strandaði undir Snæfjallaströnd og þar fórst einn maður. Átján menn fórust með Ross Cleveland, en einn maður, Harry Eddom, 1 stýrimaður, bjargaðist og er það kraftaverki líkast. Ekki ætla ég að reka þessa sögu, enda er hún flestum kunn eins dapurleg og hún er.


Togarinn Ross Cleveland H 61 og annar til við bryggju í Neskaupstað.        (C) Tryggvi Ólafsson.


St. Ross Cleveland H 61 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 659 brl. 900 ha. vél. Smíðanúmer 215. Hét fyrst Cape Cleveland H 61 og var í eigu Hudson Brothers Trawler Ltd í Hull. Fékk svo nafnið Ross Cleveland H 61 árið 1965. Var þá í eigu Ross Group-Hudson Brothers Trawlers Ltd í Hull. Togarinn fórst á Ísafjarðardjúpi 5 febrúar árið 1968. Átján skipverjar fórust en einn skipverji bjargaðist á ævintýralegan hátt.

     Tíu erlendir togarar bilaðir hér
       Tveir skemmdust af brotsjó

Mikið var um bilaða erlenda togara í höfnum á Íslandi um helgina. Fimm lágu í Neskaupstað, þar af tveir sem höfðu fengið á sig brotsjó og skemmzt. Tveir brezkir togarar leituðu hafnar á Akureyri og þrír í Reykjavík, og fengu viðgerð.
Fréttaritarinn á Norðfirði símaði: Neskaupstað, 15. febr.
Á laugardag kom hingað brezki togarinn Peter Scott. Hafði hann fengið á sig brotsjó, er hann var á leið frá Englandi til Íslands. Brotnuðu margar rúður í brú skipsins. Einnig brotnaði hurð og radar skemmdist eitthvað. Ekki var hinn margfrægi Robert Taylor með í þessari ferð. Hefur verið gert við skemmdirnar hér og fer togarinn út á veiðar í dag. Á sunnudag kom svo annar brezkur togari. Hafði sá einnig fengið á sig brotsjó og hafði skemmzt ýmislegt á þilfari togarans. Fór viðgerð fram í gær. Seinna á sunnudag komu svo 3 aðrir togarar hingað, einn þýzkur með veikan mann, en hinir brezkir með bilaðan radar. Alls voru því fimm erlendir togarar hér í gær, og kemur það ekki oft fyrir, en algengt er að 2-3 togarar liggi hér í einu. Eru nú allir farnir út á veiðar.
Akureyri, 15. Febrúar:
Tveir brezkir togarar leituðu hafnar hér í gær til viðgerðar. Fyrr kom Peter Cheyney með lekan ketil, en nú hefur verið gert við hann til fulls. Nokkru eftir hádegi kom svo Langella frá Hull. Hafði komið leki að netalest um 1 metra neðan við sjólínu. Ekki er enn fullráðið hvernig gert verður við hann, en e.t.v. verður togaranum rennt á land og látið fjara undan honum, þegar viðgerð fer fram. Brezki togarinn Satur kom með bilaða skrúfu til Reykjavíkur og fór í slipp. Hull City kom á sunnudag með bilun á stýrisvél og Aston Villa með einhverja smábilun.

Morgunblaðið. 16 febrúar 1965.


12.12.2019 21:53

B. v. Ingólfur Arnarson RE 201 í smíðum í Englandi.

Fyrsta Nýsköpunartogarnum Ingólfi Arnarsyni RE 201 var hleypt af stokkunum í Selby á Englandi hinn 18 maí árið 1946. Var togaranum gefið nafn við þetta tækifæri og var það eiginkona Jóns Axels Péturssonar borgarfulltrúa, Ástríður Einarsdóttir, sem það gerði. Útgerð Ingólfs var alla tíð farsæl. Nýsköpunartogararnir voru miklu stærri og betur búin skip en gömlu kolatogararnir sem flestir voru smíðaðir í Englandi á árunum eftir 1920. Þessi nýju skip voru afkastamikil, langt um meira en gömlu togararnir. Þeir höfðu olíukynntar gufuvélar í stað kolanna. Þessi nýju skip fiskuðu mikið, enda var sóknin á miðin mikil og hörð. Flestir voru þessir togarar góð sjóskip, en mörg þeirra þóttu blaut í meira lagi, meira en önnur. Ég hef það eftir föður mínum að Egill rauði hafi verið gott sjóskip í flesta staði og ekki tekið mikið inn á sig. Koma Nýsköpunartogaranna til landsins markaði mikil tímamót í atvinnusögu landsins, heimstyrjöldin ný afstaðin og það má segja að mörlandinn hafi endanlega skriðið þá út úr moldarkofunum og meðtekið nýja tíma og það sem mest um vert, ný atvinnutækifæri.


Nýsköpunartogarinn Ingólfur Arnarson RE 201 fyrir framan verksmiðju Charles D Holmes í Hull, sem smíðuðu vélina og ketilinn í togarann.         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Ingólfi Arnarsyni RE 201 hleypt af stokkunum 18 maí 1946.


Útlitsteikning af Ingólfi Arnarsyni RE 201.                                                        Teiknari óþekktur.

      Fyrsta nýja togaranum hleypt
         af stokkunum á Englandi

Á laugardaginn var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Selby á Englandi, fyrsta togaranum, sem þar er smíðaður á vegum íslenzku ríkisstjórnarinnar. Á togari þessi að fara til Reykjavíkur, og verður fyrsti togarinn, sem til landsins kemur af þeim 30, sem samið hefur verið um smíði á í Bretlandi. Meðal þeirra, sem viðstaddir voru þá athöfn er togaranum var hleypt af stokkunum, var Jón Axel Pétursson bæjarfulltrúi og kona hans frú Ástríður Einarsdóttir, og skírði hún togarann; hlaut hann nafnið "Ingólfur Arnarson". Jón Axel fór utan nýlega í erindum ríkisstjórnarinnar og fór kona hans með honum þeirra erinda að gefa hinum nýja togara nafn. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að gefa einstaklingum og félögum kost á því að ganga inn í kaupsamninga um togara þá, er bærinn fær, að undanskyldum tveimur beirra.

Alþýðublaðið. 21 maí 1946.



06.12.2019 19:01

272. Álftanes GK 51. TFMO.

Vélskipið Álftanes GK 51 var smíðað í Furstenberg í Austur-Þýskalandi árið 1957. 75. brl. 280 ha. Mannheim vél. Eigandi var Íshús Hafnarfjarðar hf. frá nóvember sama ár. Smíðað eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar. Selt 31 janúar 1966, Karli Símonarsyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Þórkatli Árnasyni í Grindavík. Skipið fórst 12 apríl árið 1976 út af Hópsnesi við Grindavík. 2 menn fórust en 6 mönnum var bjargað um borð í Hrafn Sveinbjarnarson ll GK 10 á síðustu stundu.


272. Álftanes GK 51 á landleið með síldarfarm.  (C) Snorri Snorrason.      Úr safni Atla Michelsen.

         Nýr bátur til Hafnarfjarðar

Um síðast liðna helgi bættist nýr bátur í vélbátaflota Hafnfirðinga. Er það báturinn Álftanes, en eigandi hans er Ingólfur Flygenring framkvæmdastjóri Hinn nýi bátur er smíðaður í Furstenberg í Austur-Þýzkalandi og er af sömu gerð og vélbátarnir Húni frá Skagaströnd og Kambaröst frá Stöðvarfirði, en þeir eru báðið nýkomnir til landsins. Álfanesið er 75 smálestir, smíðað eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar. Er báturinn mjög vel byggður og hinn heppilegasti til þeirra veiða ,er honum eru ætlaðar. Vistarverur skipverja eru rúmgóðar og eru þær hitaðar upp með rafmagni. Þá er báturinn búinn dýptarmæli og talstöð, en hún var sett í hann í Kaupmannahöfn. Ganghraði bátsins reyndist 10 sjómílur í reynsluför.
Álftanesið hreppti slæmt veður á heimleiðinni, en reyndist í alla staði hið bezta sjóskip. Var það 6 ½ sólarhring frá Kaupmannahöfn til Hafnarfjarðar. Það voru hafnfirzkir sjómenn, sem sigldu Álftanesinu heim. Voru það þeir Guðmundur Ársæll Guðmundsson skipstjóri, Sigurður Þórðarson stýrimaður, Kristján Sigurðsson 1. vélstjóri, Þorkell Kristmundsson 2. vélstjóri og Bjarni Sumarliðason matsveinn. Álftanesið mun nú til að byrja með hefja reknetaveiðar héðan frá Hafnarfirði.

Hamar. 12 tbl. 21 október 1957.


Fyrirkomulagsteikning af skipi smíðuðu í Furstenberg 1957.       (C) HRB.


   Tveir menn fórust með Álftanesi
             út af Hópsnesi í gær
            sex mönnum bjargað

Vélbáturinn Álftanes GK-51 frá Grindavík fórst um kl. 16 í gær 2.7 mílur suðaustur af Hópsnesi. Tveir af átta manna áhöfn bátsins fórust, Karl Símonarson skipstjóri og Óttar Reynisson stýrimaður. Hrafn Sveinbjarnarson ll GK-10 frá Grindavík bjargaði skipverjunum sex. Voru fjórir þeirra á kjöl Álftaness, en tveir héldu sér í rekhald á sjónum. Álftanesið sökk aðeins 3-4 mínútum eftir að síðasti maðurinn var kominn um borð í Hrafn Sveinbjarnarson. Skipstjðri á Hrafni Sveinbjarnarsyni ll er Pétur Guðjónsson. Skipverjar á Álftanesi segja, að báturinn hafi lagst skyndilega á hliðina og ekki náð að rétta sig við aftur. Hafi honum hvolft á nokkrum sekúndum. Talið er að Karl skipstjóri hafi aldrei komist út úr brúnni, en Óttar stýrimaður drukknaði er hann var að synda í sjónum rétt hjá flakinu. Þegar óhappið átti sér stað var veður af SV, 4-5 vindstig. Þegar Álftanesinu hvoldi var Hrafn Sveinbjarnarson aðeins ½ sjómílu á eftir því og segja skipverjar beggja skipanna, að enginn hefði komist lífs af, ef ekki hefði verið svona skammt á milli skipa. Slysavarnafélagi Íslands barst tilkynning um slysið um kl. 16 í gær. Þá voru nokkrir bátar að koma á slysstaðinn til að taka við leit af Hrafni Sveinbjarnarsyni, og munu ein 6-8 skip hafa leitað mannanna tveggja án árangurs fram í myrkur í gær. Þá var einnig haft samband við Varnarliðið, sem sendi þyrlu til leitar. Menn úr björgunarsveitinni í Grindavík gengu síðan fjörur á Hópsnesi í gær en þangað hafði rekið brak úr bátnum.
Álftanesið var byggt í Furstenberg í A-Þýzkalandi árið 1957. Það var 75 lestir að stærð og eigandi þess var Sæborg h.f. í Grindavík. Það var systurskip Hafrúnar frá Eyrarbakka, sem fórst á svipuðum slóðum fyrir röskum mánuði.

Morgunblaðið. 13 apríl 1976.


Vélskipið Álftanes GK 51 í Hafnarfjarðarhöfn.                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

      "Héldum að þetta væri okkar                        síðasta stund"

"Við héldum allir að þetta væri okkar síðasta stund, því allt gerðist á nokkrum sekúndum. Og ef Hrafn Sveinbjarnarson ll hefði ekki verið rétt á eftir okkur værum við ekki hér til að segja frá þessu," sögðu Magnús Ólafsson, Ísleifur Haraldsson og Gunnar Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið í gær, en þeir björguðust ásamt þrem öðrum skipsfélögum sínum þegar Álftanesi GK 51 hvolfdi skyndilega og sökk skammt suðaustur af Hópsnesi í gær. Þeir félagar sögðu, að Álftanesið hefði verið á leið í land úr róðri og slysið hefði átt sér stað þegar báturinn var staddur um 3 sjómílur SA af Hópsnesi. "Við vitum ekki gjörla hvað gerðist, en ólag lagði bátinn á stjórnborðshliðina og á örfáum sekúndum valt hann yfir á kjölinn." ,,Það voru fjórir aftur í og fjórir frammi," sagði Ísleifur. "Við reyndum allir að koma okkur út þegar báturinn lagðist á hliðina, þ.e. þeir sem á annað borð komust út. Við komumst fjórir á kjölinn, en tveir lentu í sjónum. Skyndilega skaut upp belg og tveir okkar ætluðu að synda að honum og halda sér í hann. Magnús var annar þeirra, en hann sneri fljótlega við þegar hann sá hvað belginn rak hratt frá Hann gat synt að bátnum aftur og ég henti til hans stakknum mínum til að draga hann upp á kjölinn. Ég verð að játa, að ég hef aldrei tekið eins mikið á um ævina og við að draga Magnús upp á kjölinn til mín. Hinn maðurinn, sem synti í átt að belgnum var Óttar stýrimaður Hann sneri seinna við, reyndi að synda í átt að bátnum og átti hann ekki nema 3- 4 metra ófárna að bátnum, þegar honum fataðist sundið og hann sökk." Skipbrotsmennirnir á Álftanesinu vissu að Hrafn Sveinbjarnarson var skammt frá þegar óhappið átti sér stað. Þeir sögðu, að þegar báturinn hefði átt skammt ófarið að þeim, hefðu skipverjar þar sett út gúmmíbát, en hann hefði slitnað frá Hrafni og rekið burtu skammt frá Álftanesinu. "Sem betur fer lagði enginn okkar í það að synda í átt að gúmmíbátnum, þó svo að fjarlægðin hafi ekki verið nema um 20 metrar, við hefðum ekki orkað það og sjórinn hefði einnig haldið okkur niðri. Við héngum á kjölnum, allt þar til að skipverjar á Hrafni gátu kastað til okkar björgunarhring, sem þeir síðan drógu okkur á að skipshlið. Við höfðum allir á tilfinningunni að þetta væri okkar síðasta og við værum að fara yfir í annan heim.
Gunnar var einn þeirra manna, sem var frammi í lúkar. Hann var sofandi ásamt öðrum manni þegar Álftanesið fór á hliðina "Ég vaknaði við það að báturinn var alveg að leggjast á hliðina og tveir okkar voru þegar að leggja af stað upp stigann. Ég rauk fram úr, en þegar ég kom að stiganum kom sjórinn á móti mér með gífurlegum þunga. Mér tókst þó að brjótast upp stigann með herkjum og þegar ég kom upp á lunninguna bakborðsmegin fór hún í kaf Reynir H. Hauksson var á eftir mér upp. Hann átti við meiri vanda að stríða en ég og meiddist lítillega á leiðinni, en honum skaut upp skömmu eftir að bátnum hvolfdi alveg. Náði hann þá í fleka úr úrgreiðsluborði og gat haldið sér við það, þangað til hann var dreginn um borð í Hrafn." Þremenningarnir sögðu, að það erfiðasta við að halda sér á kjölnum hefði verið að aldan gekk yfir þá. Þeir hefðu sopið nokkurn sjó og það sem verra var, olía hafði blandast sjónum og leið þeim mun verr af þeim ástæðum. Kuldinn hefði ekki verið það versta fyrr en þeir komu um borð í Hrafn Sveinbjarnarson. Þeir Ísleifur og Magnús sögðust hafa bjargað hvor öðrum í þessu volki. Fyrst hefði Gunnar dregið Magnús upp úr sjónum þegar hann sneri frá belgnum, er hann ætlaði að ná í, og síðar hefði Ísleifur verið kominn að því að detta út af kjölnum, en þá hefði Magnús kastað sér á lappirnar á honum og komið í veg fyrir að hann félli í sjóinn. "Ég var ákveðinn í að ná belgnum," sagði Magnús "En fljótlega áttaði ég mig á að það væri tilgangslaust að reyna það og sneri því við og komst með naumindum að bátnum. Stýrimaðurinn synti hinsvegar lengra og komst aldrei til baka." Þeir sögðu, að engum bjarghringjum né björgunarhringjum hefði skotið upp frá bátnum, aðeins hefði komið ein stíufjöl, fleki úr úrgreiðsluborði og lestarlúga
Það væri nauðsynlegt að búa skipin þannig, að einhverju skyti upp frá þeim, hvernig sem þau sykkju. Ísleifur, sem var aftur í þegar ólagið kom á bátinn, sagði að þegar það hefði komið hefði verið slegið af ferðinni fyrst, en síðan sett á fulla ferð og beygt í stjór Það hefði ekki dugað til og báturinn haldið áfram að leggjast og verið kominn á kaf í sjó áður en nokkur hefði vitað af "Það var hreinasta mildi að þremur af fjórum sem í brúnni voru skyldi takast að komast út og ekki síður að nokkur skyldi komast upp úr lúkarnum. Og við værum ekki hér, ef Hrafn Sveinbjarnarson hefði ekki verið rétt á eftir okkur. Enginn okkar hefur áður verið svona nálægt því að yfirgefa þennan heim og viljum við nota tækifærið til að þakka skipstjóra og áhöfn Hrafns Sveinbjarnarsonar ll fyrir það snarræði sem þeir sýndu er þeir björguðu okkur Það er ekkert launungarmál að við eigum þeim líf okkar að launa." Að lokum voru þeir spurðir hvort þeir hygðust fara á sjóinn aftur. "Já, við förum á sjóinn strax eftir páska. Við höfum ekki efni á að taka okkur frí. "Við vorum staddir um 3 mílur SA- frá Hópsnesi um kl. 15.30 í gær og þá sá ég og annar vélstjóri, sem var hjá mér í brúnni, hvar Álftanesið lagðist allt í einu á hliðina, undan kviku, og sáum við að stjórnborðsgangurinn fylltist.
Það skipti engum togum að skipið fór yfir á kjölinn," sagði Pétur Guðjónsson, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni ll, þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Pétur sagði, að Álftanesið hefði verið um það bil ½  sjómílu á undan Hrafni og veður hefði alls ekki verið slæmt á þessum slóðum, 4- 5 vindstig og nokkur kvika "Þegar ég sá hvað hafði komið fyrir ræsti ég strax út allan mannskapinn, en flestir voru í koju. Við vorum komnir á staðinn, þar sem mennirnir héngu á kjölnum eða voru í sjónum eftir 2- 4 mínútur. Fyrst lagði ég að mönnunum tveim sem voru í sjónum Fyrst náðum við inn Ólafi Jóhannessyni matsveini sem hékk á fleka úr úrgreiðsluborði og síðan fullorðnum manni, sem lá á grúfu ofan á lestarlúgu og var meðvitundarlaus er hann kom um borð til okkar. Tveir skipverjar hófu strax lífgunartilraunir á honum og komst hann fljótt til meðvitundar." Þá sagði Pétur að þeir hefðu ætlað að láta gúmmíbát reka upp að flaki Álftaness, en hann hefði slitnað frá og rekið burt skammt frá Álftanesinu. "Þegar hér var komið ákvað ég að keyra með kinnunginn upp að Álftanesinu. Það tókst og tókst að henda bjarghring til skipbrotsmanna. Þrír þeirra voru síðan dregnir á honum yfir að síðunni á Hrafni og tókst strax að ná þeim um borð. Einn skipbrotsmanna var eftir á kili og stökk hann í sjóinn. Við gátum kastað til hans bjarghring og náði hann honum með naumindum. "Þetta mátti ekki tæpara standa, sagði Pétur, "Álftanesið sökk 3- 4 mínútum eftir að mennirnir komu um borð til okkar." Hann sagði að lokum, að Álftanesið hefði verið nýbúið að tilkynna komutíma til Grindavíkur er það lagðist á hliðina og átti að vera í höfn kl 16. Hrafn Sveinbjarnarson hélt síðan með skipbrotsmennina til hafnar, en aðrir bátar hófu leit að þeim, sem ekki fundust, án árangurs.
Við vorum allt í einu kallaðir upp á þilfar og þegar við komum þangað sáum við hvar Álftanesið var með kjölinn upp í loftið," sögðu þeir Ragnar Gunnarsson og Einar Jóhannesson skipverjar á Hrafni Sveinbjarnasyni ll. "Við náðum öðrum manninum um borð strax, en sá lá á lestarlúgu. Hinn flaut á grúfu ofan á fleka. Við ætluðum að ná honum með því að kippa í hann með haka, en það mistókst og vorum við næstum því búnir að missa manninn frá okkur, er við náðum að setja fiskisting í stakkinn hans og draga hann að okkur. Hann var orðinn helblár þegar hann kom um borð, en stýrimaðurinn og háseti hófu lífgunartilraunir, sem báru fljótt árangur. Þá var Hrafni Sveinbjarnarsyni siglt upp að Álftanesinu í þeirri von að mennirnir gætu stokkið yfir til okkar, en það reyndist ófært. Það er aðeins hægt í biómyndum. Þá hentum við hring til mannanna og bundu þeir sig við hann og við drógum þá yfir til okkar. Sá fjórði var eftir. Stökk hann í sjóinn, en var svo aðframkominn að hann gat vart synt. Þegar hann náði í björgunarhring sem við köstuðum til hans, vorum við að hugsa um að stinga okkur til hans." Einar og Ragnar sögðu, að skipbrotsmenn hefðu strax verið drifnir niður í klefa, þar sem skipt var um föt á þeim og síðan var þeim gefin heit súpa. Við það hresstust þeir mjög fljótt. Þeir sögðu að björgunaraðgerðirnar hefðu vart staðið lengur en í 10 mínútur.

Morgunblaðið. 13 apríl 1976.




04.12.2019 13:30

Rafnkell GK 510. TFJL.

Vélskipið Rafnkell GK 510 var smíðaður í Furstenberg í Austur-Þýskalandi árið 1957 fyrir Guðmund Jónsson útgerðarmann á Rafnkelsstöðum í Garði. 75 brl. 280 ha. Mannheim vél. Smíðað eftir teikningum Hjálmars R Bárðarssonar. Skipið fórst í róðri út af Garðskaga 4 janúar árið 1960 með allri áhöfn, 6 mönnum.


Rafnkell GK 510.                                                                                              Ljósmyndari óþekktur.

      Nýr 75 lesta stálbátur kom til
        Sandgerðis í gærmorgun

Nýr 75 lesta stálbátur kom til Sandgerðis í gærmorgun. Kom hann frá Austur-Þýskalandi og hlaut nafnið Rafnkell GK-510. Eigandi bátsins er Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður á Rafnkellsstöðum í Garði en hann á fyrir bátana Víði II. og Mumma. Rafnkell var fimm og hálfan sólarhring á leiðinni frá Austur-Þýzkalandi til Sandgerðis og fór að jafnaði níu sjómílur og fékk vont veður á leiðinni. Í reynsluför sigldi Rafnkell 10 ½  sjómílu. Skipstjóri á bátnum verður Garðar Guðmundsson, sonur eigandans en með honum heim voru þeir Eggert Gíslason skipstjóri, Vilhjálmur Ásmundsson 1. vélstjóri, Kristján Guðmundsson annar vélstjóri og Magnús Berentsson þriðji vélstjóri. Ferðin gekk vel þrátt fyrir vont veður. Báturinn lítur vel út og verður gerður út frá Garði. Hann hefur 280 hestafla vél.

Alþýðublaðið. 23 október 1957.


Fyrirkomulagsteikning af 75 lesta skipi smíðuðu í Furstenberg 1957.    (C) HRB.

               Hörmulegt sjóslys

Sá hörmulegi atburður gerðist í byrjun þessa árs, að vélskipið Rafnkell, G K 510 frá Garði, sem fór í sinn fyrsta vertíðarróður frá Sandgerði aðfaranótt mánudagsins 4. janúar, fórst með allri áhöfn, 6 vöskum og þrautreyndum sjómönnum. Rafnkell mun hafa lagt af stað í róðurinn kl. 2, ásamt 6 bátum öðrum, en þar sem veður var mjög hvasst og illt þessa nótt, sneru 4 bátanna aftur, en hinir 3 héldu áfram út á miðin og byrjuðu að leggja línur sínar. Bátarnir frá Sandgerði, sem á miðin komust auk Rafnkels, voru þeir Mummi og Víðir II. Allir frá sama útgerðarmanni, Guðmundi Jónssyni á Rafnkelsstöðum í Garði. Klukkan 5 á mánudagsmorguninn hafði skipstjórinn á Víði II., Eggert Gíslason, talsamband við Rafnkel. Var þá allt með eðlilegum hætti á skipinu. Skipstjórinn á Mumma , Sigurður Bjarnason, sá einnig til bátsins nokkru síðar, en hann mun hafa verið sá síðasti, sem til bátsins sá. Þegar Rafnkell var ekki kominn að á eðlilegum tíma, var tekið að óttast um bátinn og var strax á mánudagskvöld hafin leit að honum af Sandgerðisbátum. Leitinni var síðan haldið áfram næstu daga. Var leitað á landi, sjó og úr lofti, en öll leit var án árangurs. Hins vegar hefir brak úr bátnum og eitthvað af veiðarfærum fundizt rekið á fjörur. Rafnkell var tveggja ára gamall austurþýzkur stálbátur, 75 tonn að stærð. Mennirnir sem fórust með skipinu voru:
Jón Garðar Guðmundsson skipstjóri, 41 árs að aldri. Hann lætur eftir sig konu, Ásu Eyjólfsdóttur, og 9 börn á aldrinum 4-17 ára. Garðar var dugmikill og vinsæll skipstjóri, sonur hjónanna á Rafnkelsstöðum, Guðmundar og Guðrúnar ]ónsdóttur.
Björn Antonsson stýrimaður, Skipasundi 31 Reykjavík, þrítugur að aldri, ættaður frá Fáskrúðsfirði. Lætur eftir sig konu, Guðrúnu Mikkelsen, og 2 dætur, 5 og 2 ára.
Vilhjálmur Ásmundsson 1. vélstjóri, til heimilis Suðurgötu 6, Sandgerði, 33 ára. Hann lætur eftir sig konu, Gróu Axelsdóttur, og 4 börn.
Magnús Berentsson matsveinn, til heimilis að Krókskoti, Sandgerði, 42 ára, ókvæntur. Bjó hjá öldruðum foreldrum sínum, þeim Kristínu Þorsteinsdóttur og Berent Magnússyni.
Jón Björgvin Sveinsson háseti, til heimilis að Uppsalavegi 4, Sandgerði, 36 ára. Hann lætur eftir sig unnustu, Unni Lárusdóttur og 2 börn, móður átti hann á lífi, Kristínu Guðmundsdóttur, sem var á heimili hans.
Ólafur Guðmundsson háseti, 36 ára, til heimilis að Arnarbæli, Miðneshreppi. Hann var fyrirvinna aldraðra foreldra sinna, Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðmundar Eyjólfssonar.
Minningarguðsþjónusta um hina látnu sjómenn fór fram í Útskálakirkju sunnudaginn 17. janúar að viðstöddu fjölmenni. Sóknarpresturinn, sr. Guðmundur Guðmundsson, flutti minningarræðuna. Faxi vottar aðstandendum hinna horfnu sjómanna innilega hluttekningu, vegna hins sviplega fráfalls þeirra. Drottinn blessi minninguna um þá og veiti ástvinum þeirra þrek til að bera sinn þunga harm.

Faxi. 1 tbl. 1 janúar 1960.


Rafnkell GK 510 á leið til löndunar sumarið 1959. Var þá á síldveiðum fyrir norðan land. 

             Neyðarkall ekki sent

Neyðarkall var aldrei sent frá Rafnkeli sem gæti þýtt að bátnum hefði hvolft svo snögglega að enginn tími hefði gefist til að komast í talstöð. Almennt var ekki mikið rætt um hinn hörmulega atburð manna á meðal í Sandgerði. Sumum þótti sennilegt að brotsjór hefði fært hann á kaf á svipstundu en aðrir töldu slysstaðinn vera þar nálægt, sem vitaskipið Hermóður fórst árið áður. Aðrir töldu ýmislegt benda til þess, að hann hafi verið kominn nær Sandgerði, er ólagið sökkti bátnum. Öllum bar hinsvegar saman um, að á Rafnkeli hafi verið úrvalsáhöfn, þaulvanir sjósóknarar, sem þekkt hafi vel til allra aðstæðna á þessum slóðum. Garðar Guðmundsson frá Rafnkelsstöðum, var búinn að vera formaður á bátum föður síns, Guðmundar útgerðarmanns til fjölda ára. Blöðin birtu minningargreinar um hina látnu en ekki var grennslast fyrir um orsakir þessa hörmulega sjóslyss enda ekki hægt um vik þar sem það eina sem fannst af bátnum var lítilsháttar brak á fjörum.
Á árunum 1957 til 1967 var fjöldi stálfiskiskipa smíðaður í Austur Þýskalandi fyrir Íslendinga, allir eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar, skipaskoðunarstjóra ríkisins og síðar siglingarmálastjóra. Þessir bátar voru gerðir út frá flestum sjávarbyggðum landsins og reyndust misjafnlega en flestir þóttu þó góð sjóskip. Fyrstu fimm bátarnir, 75 tonna stálbátarnir og systurskipin sem smíðaðir voru samkvæmt teikningum Hjálmars árið 1957 í Furstenberg í A-Þýskalandi voru Rafnkell, Hafrún ÁR-28 (fyrst Húni HU-1, síðar Ólafur II. KE-149), Álftanes GK-51, Guðmundur á Sveinseyri BA-35 og Kambaröst SU-220. Á árunum 1960-1977 fórust þrír þessara fyrstu austur-þýsku báta undir svipuðum kringumstæðum og með svo sviplegum hætti að ekki gafst tími til að senda frá þeim neyðarkall. Á annan tuga sjómanna lét lífið í þessum sjóslysum og menn greinir á um það enn í dag hvað það hafi verið í smíði skipanna sem valdið hafi þessum slysum.

Faxi. 3 tbl. 1 desember 2013.


02.12.2019 21:06

B. v. Sviði GK 7 fórst í Kolluál að talið er 2 desember árið 1941.

Botnvörpungurinn Sviði GK 7 frá Hafnarfirði fórst í Kolluál út af Snæfellsnesi að talið er, 2 desember árið 1941 með allri áhöfn, 25 mönnum. Sviði GK 7 var smíðaður hjá Ferguson Shipbuilders Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1918. 328 brl. 650 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét fyrst Nicholas Dean og var í eigu breska sjóhersins. Seldur til Frakklands árið 1923, hét þar Notre Dame de France og gerður þaðan út til ársins 1925. Seldur aftur til Englands, hét þar Willoughby í eigu Boston Deep Sea Fishing & Ice Co í Grimsby. Seldur árið 1928, Sviða h/f í Hafnarfirði,hét Sviði GK 7. Skipstjórinn á Venusi GK 519, Vilhjálmur Árnason, taldi að óveðrið sem þá gekk yfir, hafi ekki verið það slæmt að togarinn Sviði hafi ekki komist leiðar sinnar til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Það má kannski leiða að því líkum að Sviði hafi jafnvel farist að hernaðarvöldum.


B.v. Sviði GK 7 á toginu.                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.

               Nýr togari

Til Hafnarfjarðar kom á laugardagskvöldið togari, sem H.f. "Sviði" hefir keypt í Englandi. Heitir togarinn einnig "Sviði" og er 9 ára gamall, "systurskip" "Karlsefnis." Skipstjóri er Hafsteinn Bergþórsson. Hann og Gísli Jónsson skipaumsjónarmaður, fóru til Englands að taka við skipinu og fengu þeir miklar viðgerðir á því, án þess að kaupverð hækkaði. "Sviði" er hraðskreitt skip, fór á tæpum fjórum sólarhringum milli Fleetwood og Hafnarfjarðar. Hann verður gerður út hjá H.f. "Akurgerði" í Hafnarfirði og fer í fyrstu veiðiför sína í dag.

Morgunblaðið. 13 mars 1928.


B.v. Sviði GK 7 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Togarinn "Sviði" ferst með allri áhöfn

Þann 23. nóvember síðastliðinn fór togarinn "Sviði" úr Hafnarfirði á veiðar. Hélt hann á djúpmiðin úti fyrir Vestfjörðum. Var hann þar, ásamt fleiri skipum, þangað til mánudaginn 1. des., að hann lagði af stað heimleiðis eftir að hafa fengið fullfermi. Öndverðlega á þriðjudagsmorguninn hafði togarinn "Venus" samband við "Sviða", og var hann þá kominn suður undir Kolluál, en hann er um 10 sjómílur út af Öndverðanesi. Ekkert var að vanbúnaði um borð í "Sviða", svo að þess væri getið. Ekkert samband höfðu menn við hann eftir þetta, en það er talið fullvíst, að hann hafi farizt á þeim slóðum, er hann gaf síðast upp stöðu sína, en það var kl. 7.30. þriðjudagsmorguninn 2. desember. Að sögn Vilhjálms Árnasonar skipstjóra á "Venus", var veður allhvasst af suðri, en þó eigi svo, að togarar kæmust eigi leiðar sinnar. Sjór var hins vegar þungur mjög og marglyndur. Togarinn "Venus" lagðist á Skarðsvík á Snæfellsnesi kl. 2 e. h. á þriðjudaginn og lá þar til kl. 8 um kvöldið. Var veður þá tekið að batna svo, að hann lagði af stað suður til Hafnarfjarðar. Þegar þangað kom, var "Sviði" ókominn, og óttuðust menn þá þegar um afdrif hans. Svo skjótt sem verða mátti voru gerðar ráðstafanir til að leita að skipinu, en ekki bar það neinn árangur. Þá voru og gerðir út  leitarmenn beggja megin Breiðafjarðar. Þeir, sem fóru á ströndina að norðanverðu, fundu ýmislegt rekald í nánd við Saurbæ á Rauðasandi. Var þar meðal annars flak af björgunarbáti, lýsisföt og björgunarhringur merktur "Sviði" G. K. 7. Nokkru síðar fannst lík rekið í nánd við Sjöundá. Reyndist það að vera lík Júlíusar Hallgrímssonar, kyndara á "Sviða". Fleiri lík hafa ekki fundizt, þegar þetta er ritað, þrátt fyrir ítrekaða leit. Með "Sviða" fórust 25 menn, og láta þeir eftir sig 14 ekkjur og 46 börn. Af þessum mönnum voru 12 búsettir í Reykjavík, 11 í Hafnarfirði og tveir úti á landi. Miðvikudaginn 17. des. fór fram í Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði minningarathöfn um skipshöfnina á "Sviða", og þann sama dag voru til moldar bornar hinar jarðnesku leifar Júlíusar Hallgrímssonar.
Þessir menn fórust með "Sviða":
Úr Reykjavík:
Guðjón Guðmundsson, skipstjóri, Bárugötu 35. F. 27. sept. 1894. Kvæntur og átti 3 hörn, 17, 15 og 9 ára.
Þorbergur Friðriksson, I. stýrimaður, Bræðraborgarstíg 52. F. 10. des. 1899. Kvæntur og átti 4 börn, 8, 7, 5 og 2 ára.
Guðmundur Pálsson, I. vélstjóri, Lindargötu 36. F. 7. júní 1910. Kvæntur og átti 1 barn og stjúpbarn. Gunnar Klemensson, II. stýrimaður, Bergstaðastræti 6. F. 28. janúar 1916. Kvæntur og átti 1 barn. Erlendur Hallgrímsson, loftskeytamaður, Laugaveg 83. F. 18. nóv. 1911. Kvæntur, barnlaus.
Júlíus Á. Hallgrímsson, kyndari, Freyjugötu 27. F. 31. júlí 1900. Ókvæntur, en bjó með aldraðri móður sinni og fötluðum bróður.
Lárus Þ. Gíslason, kyndari, Óðinsgölu 17 A. F. 2. okt. 1909. Átti unnustu og tvö börn.
Bjarni Einarsson, háseti, Bergþórugötu 57. F. 5. júlí 1915. Ókvænlur, en sá fyrir aldraðri móður sinni. Bjarni Ingvarsson, háseti, Öldugötu 4. F. 11. okt. 1923. Hann var sonur Ingvars Ágústs skipstjóra á "Braga", er fórst við Fleetwood í fyrra vetur, og næst elztur af 5 börnum hans.
Guðmundur Halldórsson, háseti, Grettisgötu 57 A. F. 17. júlí 1904. Kvæntur og átti 4 börn, 10, 7, 5 og eins árs.
Guðmundur Þórhallsson, háseti, Karlagötu 15. F. 20. júni 1922.
Jón G. Björnsson, háseti, Tjarnargölu 47. F. 21. marz 1924.
Úr Hafnarfirði:
Lýður Magnússon, II. vélstjóri, Öldugötu 19. F. 24. maí 1898. Kvæntur og átti 1 barn.
Sigurður G. Sigurðsson, bátsmaður, Hörðuvöllum. F. 13. ágúst 1900. Kvæntur og átti 5 börn, þar af 3 upp komin.
Guðmundur Júlíusson, matsveinn, Selvogsgötu 5. F. 24. sept. 1892. Kvæntur og átti 5 börn, þar af 2 upp komin.
Bjarni E. Ísleifsson, háseti, Selvogsgötu 12. F. 10. okt. 1913. Kvæntur og átti 1 barn.
Egill Guðmundsson, háseti, Vörðustíg 9. F. 24. júní 1907. Kvæntur og átti 2 börn.
Gísli Ámundason, háseti, Nönnugötu 1. F. 14. nóv. 1889. Átti stjúpbarn.
Gottskálk Jónsson, háseti. Ókvæntur, en átti 1 barn.
Gunnar I. Hjörleifsson, háseti, Selvogsgötu 5. F. 7. ágúst 1892. Kvæntur og átti 6 hörn, þar af 3 upp komin.
Haraldur Þórðarson, háseti, Selvogsgötu 8. F. 11. marz 1897. Kvæntur og átti 6 börn, þar af 3 upp komin.
Jón G. Nordenskjöld, háseti. F. 9. sept. 1916. Átti unnustu.
Sigurgeir Sigurðsson, háseti. F. 18. júni 1896. Kvæntur og átti 2 börn, annað upp komið. Sigurgeir var bróðir Gísla bátsmanns.
Utan af landi:
Baldur Á. Jónsson, háseti, frá Akranesi. F. 28. des. 1914. Ókvæntur, en var fyrirvinna móður sinnar. Örnólfur Eiríksson, háseti, frá Felli í Mýrdal, 26 ára. Ókvæntur.
Togarinn "Sviði" var 328 rúmlestir brúttó, smíðaður í Skotlandi 1918. Hann var eign h.f. Sviða í Hafnarfirði.  

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1941.

 

02.12.2019 11:14

606. Ísleifur ll VE 36. TFUN.

Vélbáturinn Ísleifur ll VE 36 var smíðaður hjá Carl Andersen´s Skibs & Baadebyggeri í Faaborg í Danmörku árið 1949 fyrir Villy Enevoldsen í Esbjerg, hét fyrst Karin Hjördis E 636. 58,50 brl. 148 ha. Alpha vél. Seldur 13 október 1953, Ársæli Sveinssyni og sonum hans, Lárusi Ársælssyni og Sveini Ársælssyni í Vestmannaeyjum, fékk þá nafnið Ísleifur ll VE 36. Ný vél (1963) 310 ha. Alpha vél. Seldur 2 maí 1972, Kristjáni Óskarssyni og Arnóri Valdimarssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Emma VE 219. Ný vél (1977) 425 ha. Caterpillar vél, 313 Kw. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 26 september árið 1986.

Það má geta þess að það voru skipverjar á Ísleifi ll VE 36 sem voru fyrstu sjónarvottar að neðansjávar eldgosi suðvestur af Heimaey að morgni 14 nóvember árið 1963. Hér að neðan er grein úr Tímanum frá þessu atviki.


606. Ísleifur ll VE 36 í upphaflegu útliti.                   (C) Snorri Snorrason.   Úr safni Atla Michelsen.

                 3 bátar til Eyja

Í þessum yfirstandani mánuði hefur orðið veruleg aukning á bátaflota Eyjabúa. Fyrst í mánuðinum kom hingað 60 tonna bátur eign Ársæls Sveinssonar og sona hans. Var báturinn, sem heitir ísleifur II, keyptur frá Danmörku og er 3 ára gamall með 180-200 hestafla vél. Emil Andersen var skipstjóri á bátnum til landsins, en Sigfús Guðmundsson mun verða skipstjóri á honum í vetur.
SI. miðvikudag kom vélbáturinn Júlía (áður Sandfell) hingað, en bátinn hefur Emil Andersen skipstjóri keypt. Júlía er um 53 smálestir að stærð, smíðuð í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum. Í bátnum er 240 hestafla dieselvél.
Karl Ólafsson, Gísli Sigurðsson o. fl. hafa keypt hingað vélbátinn Faxa (áður Friðrik Jónsson), sem er smíðaður hér í Eyjum og var gerður út héðan fyrir nokkrum árum. Báturinn kom í gær heim til Eyja. Miklar vonir eru bundnar við hverja nýja fleytu, sem bætist við flotann og er þess að vænta að þessir fyrrnefndu bátar verði happadrjúgir og fengsælir til heilla fyrir byggðarlagið.

Fylkir. 39 tbl. 27 nóvember 1953.


606. Ísleifur ll VE 36 á togveiðum. Kominn þarna með nýtt stýrishús.      (C) Tryggvi Sigurðsson.


606. Emma VE 219.                                                                                  (C) Tryggvi Sigurðsson.

           Fengu eldgos upp með                              borðstokknum

Það var farið að birta af degi og hafflöturinn var sléttur og friðsæll eins langt og sá frá mótorbátnum Ísleifi II frá Vestmannaeyjum, þar sem skipverjar biðu hjá línunni um níu sjómílur suðvestur af Vestmannaeyjum, klukkan rúmlega sjö í gærmorgun. Einn háseta var á baujuvakt og vissi ekki annað tíðinda úr djúpunum en það, að þar mundi þorskurinn væntanlega vera byrjaður að gæða sér á beitunni á línunni, sem þeir höfðu verið að leggja. En viti menn. Allt í einu rís svartur mökkur hljóðlaust upp úr hafinu, skammt frá bátnum og ber óhugnanlega við himin í grárri dagsskímunni. Þetta voru meiri stórmerki en búast mátti við á venjulegum fiskimiðum. Í fyrstu trúir hásetinn ekki síðnum eigin augum, heldur starir á fyrirbærið, sem hnyklast þarna upp í loftið. Síðan gerir hann félögum sínum viðvart. Þeir koma allir upp á þilfar, og þeim dettur í hug, að kannske sé skip að brenna þarna hjá þeim. Skipstjórinn, Guðmar Tómasson lætur það verða sitt fyrsta verk að kalla í talstöðina og spyrja eftir því hjá Vestmannaeyjaradíó, hvort þeir þar hefðu orðið varir við kall frá skipi í nauðum. Hann fékk þau svör, að ekkert slíkt kall hefði borizt og allt væri með kyrrum kjörum á hafinu í kringum hann. Á meðan Guðmar var að kalla á Vestmannaeyjar lét hann þoka báti sínum nær mekkinum. Það birtir óðum yfir hafinu og nú fer að sjást betur hvers konar mökkur er þarna á ferðinni. Víst er um það, að frá þessum mekki kallar engin rödd í Vestmannaeyjaradíó. Þegar þeir voru komnir í hálfrar mílu fjarlægð frá svörtum mekkinum, sem steig með boðaföllum upp úr lognsævinu, sáu þeir, að hér var sjaldgæft náttúruundur á ferð, eldgos á hafsbotni, sem þeir höfðu orðið vitni að fyrstir manna og séð stíga úr hafinu. Þeim þótti eðlilega ekki fært að nálgast hamfarirnar meir og sneru því frá, og héldu aftur til baujunnar, sem var í mílu fjarlægð frá gosinu. Menn í suðlægari löndum hefðu áreiðanlega siglt beint til lands til að tilkynna tíðindin, jafnvel farið með hrópum, en skipverjum á Ísleifi, fór eins og öðrum mönnum á þessu landi sem hafa búið við eldfjöllin við túngarðinn, að þeir byrjuðu að draga línu sína með kraumandi sjóinn skammt undan og vikur- og gufumökkinn yfir sér. Og þeir héldu áfram að draga línu sína þarna í skugga eldgossins fram eftir degi, meðan jarðfræðingar og blaðamenn klufu himininn yfir þeim í flugvélum til að rannsaka þetta náttúrufyrirbæri.
Og um hádegi í gær, þegar Tíminn náði tali af Guðmari Tómassyni, skipstjóra á Ísleifi, var ekki meiri asinn á þeim en það, að þeir voru enn að draga línu sína og voru komnir aðeins þrjár mílur frá eldgosinu. Hann sagði, að gosið hefði komið af fullum krafti þegar í byrjun og væri mökkurinn ýmist dökkur eða ljós. Þeir heyrðu engar drunur en hann sagði að nokkur ólga væri í sjónum nær eldstöðvunum og þar væri nokkur öldugangur. Sextíu til sjötíu faðmar væru í botn á gosstaðnum, en botninn á þessu svæði væri hraunhella. Hann sagði ennfremur, að ekki yrði séð á dýptarmæli bátsins, að botninn hefði breytt sér nokkuð frá því sem hann hefði verið, á því svæði sem hann hefði dregið línuna. Guðmar sagði að lokum, að hann byggist ekki við að koma að landi fyrr en þeir væru búnir að draga, eða um klukkan 5. Aðrir bátar en Ísleifur II. voru ekki á þessum slóðum og því engir aðrir sjónarvottar að upphafi eldgossins. Liggur við að segja megi að þeir hafi fengið gosið upp undir bátinn, en þeir hefðu þó altént orðið að róa heim frá línunni, hefði hún verið lögð yfir sjálfan gíginn, hvað sem annars verður um æðruleysi þeirra sagt.

Tíminn. 15 nóvember 1963.


  • 1
Antal sidvisningar idag: 378
Antal unika besökare idag: 26
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075758
Antal unika besökare totalt: 77627
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:57:47