26.12.2019 18:39

L. v. Papey GK 8. LCJS.

Línuveiðarinn Papey GK 8 var smíðaður í Dordrecht ? í Hollandi árið 1913. 107 brl. 220 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét áður Kakali ÍS 425 og var í eigu hf Kakala (Proppé bræðra og fl.) á Þingeyri í Dýrafirði frá árinu 1920 og keyptu þeir skipið frá Þýskalandi. Hét þar Hans. Kakali var gerður út af hf Dofra á Siglufirði árið 1926. Selt 21 desember 1927, Hlutafélaginu Val í Hafnarfirði, hét þá Papey GK 8. Í júlí 1932 var skipið komið í eigu Útvegsbanka Íslands. Skipið lenti í árekstri um 2,5 sjómílur VNV af Engey við þýska flutningaskipið Brigitte Sturm frá Hamborg 20 febrúar árið 1933. 9 skipverjar fórust, en 8 skipverjum var bjargað um borð í árekstrarskipið sem fór með þá til Reykjavíkur. Papey sökk á 3 mínútum, enda nær því klofið í tvennt eftir áreksturinn. Flak skipsins liggur þarna vestur af Engey á 35 metra dýpi. Papey var þá ennþá í eigu Útvegsbankans en Guðmundur Magnússon skipstjóri hafði tekið skipið á leigu eitthvað áður en slysið varð.


Línuveiðarinn Papey GK 8.                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Nýtt skip

Hingað kom í gærmorgun nýtt skip, Sem félag íslenskra manna hefir keypt í Þýzkalandi, m. a. Bræðurnir Proppé, Karl Löve, sem er skipstjóri þess, o. fl. Skipið, sem fengið hefir nafnið "Kakali" er smíðað árið 1914, er 90 feta langt og 20 feta breitt, kvað vera kolaspart mjög. Var það 12 daga á leiðinni frá Cuxhaven, ætlaði að koma við í Esbjerg og taka þar tvo íslenzka farþega, þá Magnús Thorberg og Jóhann P. Jónsson framkvæmdastjóra, en náði ekki sambandi við land þrátt fyrir þriggja stunda bið fyrir utan höfnina í Esbjerg. Mun verkfall þar hafa valdið því. Skipi þessu er ætlað að stunda síldveiðar, vera í flutningum og ef til vill fara á línuveiðar ef hentugt þykir. Hefir það ágætan útbúnað til þessa.

Morgunblaðið. 12 maí 1920.


Línuveiðarinn Papey GK 8.                                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Þegar línuveiðarinn "Papey" sökk

Mánudaginn 20. febrúar lagði línuveiðarinn Papey út frá Reykjavík til fiskveiða. Er komið var um 2 sjómílur út fyrir Engey rakst Papey á þýzka flutningaskipið Birgitte Sturm, er var á leið til Reykjavíkur og kom frá Stykkishólmi.
Áreksturinn var svo harður, að stefni Birgitte Sturm stóð langt inn í línuveiðarann, er sökk á þrem mínútum. Öll skipshöfn línuveiðarans var á þiljum er slysið skeði, 17 að tölu, nema vélstjóri, sem var neðan þilja. Aðeins átta af áhöfninni komust af. Níu drukknuðu, vegna þess að skipið sökk svo skyndilega. Hugo Arp, skipstjóri á Birgitte Sturm segir svo frá atvikum í sjórétti:
Birgitte Sturm fór frá Stykkishólmi á mánudagsmorgun. Ferðin gekk vel og segir ekki af ferðum skipsins fyrr en á mánudagskvöld 20. febrúar, er skipið átti eftir skammt ófarið til Reykjavíkur. Sér þá skipstjóri hvítt ljós er ber lágt yfir sjávarflöt. Áleit hann að þetta væri vinnuljós á fiskiskipi. Það var kl. 19,40, sem skipstjóri kom auga á ljós þetta.
Seinna sá skipstjóri, að þessi Ijós voru tvö, er hann hafði athugað þau í sjónauka. Taldi hann öruggt, að þau mundi vera bæði á sama skipinu, en að hann sá nú að þau voru tvö, áleit hann stafa af því, að afstaða skipanna hefði breytzt við siglingu Birgitte Sturm. Önnur ljós sá hann ekki á skipinu og segist hann því hafa ályktað, að þetta væri fiskiskip, sem lægi kyrrt. Birgitte Sturm hélt nú áfram ferð sínni með 10 sjómílna hraða á klukkustund og lét skipstjóri sér ekki til hugar koma, að nokkur hætta væri á ferðum. Bilið milli Birgitte Sturm og fiskiskipsins, sem var Papey, var á að gizka 2- 300 metrar. Papey var 2 ½ strik á stjórnborða við Birgitte Sturm. Þetta þótti skipstjóra helzt til lítið bil, svo að hann vék skipi sínu ½  strik í viðbót á bakborða. Taldi hann, að með því móti fjarlægðist hann fiskiskipið meir, er hann taldi sem áður er sagt, að væri kyrrt. En rétt í sama bili og hann víkur Birgitte Sturm þessa ½  gráðu til bakborða sér hann, og stýrimaður hans, sem með honum var á stjórnpalli, að allt í einu kemur í ljós rautt ljós á fiskiskipinu, og um leið kemur hann auga á ljós í siglutré.
Verður honum nú ljós, að skipið stefnir beint í veg fyrir Birgitte Sturm. Þar sem skipstjóri hafði verið að enda við að víkja skipi sínu á bakborða, gat hann ekki snúið því til stjórnborða nóg til að komast aftur fyrir Papey. Gefur hann því merki með eimflautunni um að hann beygi á bakborða með því að blása snöggt tvisvar sinnum. En þegar honum verður ljóst, að árekstur milli skipanna er óumflýjanlegur, setur hann vélina á fulla ferð afturábak, og tilkynnti það í eimpípunni með þremur stuttum blástrum. En í sama mund rakst stefni flutningaskipsins í síðu Papeyjar, aftan til við miðju, og gekk stefnið eins og áður er sagt langt inn í skipið. Þegar þetta skeði var klukkan 20,14. Nú setti Birgitte Sturm fulla ferð áfram til þess að halda stefninu fast að hinu sökkvandi skipi, svo að skipverjum gæti tekizt að bjargast úr línuveiðaranum. En þrátt fyrir þetta sökk Papey tveim mínútum síðar. Frásögn stýrimanns á Papey, Halldórs Magnússonar, var á þessa leið.
Kl. 8,15 síðdegis var komið út fyrir Engey. Stefnan var N að V. Var þá stýrimaður á stjórnpalli ásamt skipstjóra. Sást þá skip koma framundan til bakborða. Kl. 8,30 var skipið komið mjög nálægt og gaf til kynna, að það snéri á bakborða. Var þá merki gefið frá Papey, að beygt væri á stjórnborða, annað var ógerlegt. Svaraði þá flutningaskipið með fullri ferð afturábak, og eftir fá augnablik skall það á miðri Papey bakborðsmegin og skar hana inn undir miðju. Sökk hún á liðlega tveim mínútum. Þegar bersýnilegt var, að árekstur yrði ekki umflúinn, var hrópað til skipverja, sem allir voru ofanþilja nema einn, og þeir beðnir að vera viðbúnir, og voru sumir á leiðinni og sumir komnir að bátunum, þegar stefni Birgitte Sturm skarst inn í byrðing Papeyjar. Var nú hafizt handa um að losa bátana, en Papey var sokkin áður en tími hafði unnizt til þess. Eins og áður er sagt björguðust 8 menn af áhöfn Papeyjar, sem voru 17 menn, með þeim hætti, að 4 menn náðu höndum á akkeri Birgitte Sturm og héngu þar. Einn maður synti að skipinu og þrír menn, björguðust upp í bát, sem flutningaskipið hafði sett á flot. Bátar frá flutningaskipinu leituðu lengi á slysstaðnum eftir mönnum, þegar Papey var sokkin, og björgunarhringir með ljósum flutu á sjónum. En árangurslaust með öllu. Brigitte Sturm fór með mennina, sem björguðust inn til Reykjavíkur. Þeir sem fórust voru:
Jón Oddsson, 1. vélstjóri, átti heima í Hafnarfirði, 32 ára, lætur eftir sig konu og 3 börn.
Bjarni Magnússon, úr Hafnarfirði, 40 ára gamall, ógiftur. 
Björn Jónsson, úr Hafnarfirði (ættaður úr Norður-Múlasýslu) 43 ára, giftur. Lætur eftir sig 3 börn.
Eiríkur Magnússon, úr Hafnarfirði, 25 ára, vann fyrir gamalli móður. 
Cecil Sigurbjörnsson, úr Grundarfirði, 37 ára. Lætur eftir sig konu og 5- 6 börn í ómegð.
Jóhann Kristjánsson, úr Grundarfirði, 41 árs.
Ólafur Jónsson, frá Dalvík, 20 ára.
Þórður Kárason, úr Reykjavík, 24 ára gamall.
Þórður Guðmundsson, Vesturgötu 22, Reykjavik, 42 ára. Var giftur. Lætur eftir sig 2 ung börn.
Þessir björguðust:
Guðmundur Magnússon, skipstjóri, Hallveigarstíg 9, Reykjavík.
Halldór Magnússon, stýrimaður, úr Hafnarfirði.
Bjarni Marteinsson, II. vélstjóri, úr Hafnarfirði.
Helgi Halldórsson, matsveinn, Skólavörðustíg 12, Reykjavík.
Bjarni Árnason, úr Stykkishólmi.
Jónmundur Einarsson, úr Grundarfirði.
Guðmundur Jóhann Guðmundsson, úr Hafnarfirði og
Gunnar Sigurðsson, úr Hafnarfirði.
Línuveiðarinn Papey GK 8 var smíðaður í Hollandi árið 1913 og var 107 smálestir.

Nýtt S.O.S. 1 febrúar 1959.
Þrautgóðir á raunastund. 1 bindi.






Flettingar í dag: 231
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 697770
Samtals gestir: 52748
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 09:38:49