02.12.2019 21:06

B. v. Sviði GK 7 fórst í Kolluál að talið er 2 desember árið 1941.

Botnvörpungurinn Sviði GK 7 frá Hafnarfirði fórst í Kolluál út af Snæfellsnesi að talið er, 2 desember árið 1941 með allri áhöfn, 25 mönnum. Sviði GK 7 var smíðaður hjá Ferguson Shipbuilders Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1918. 328 brl. 650 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét fyrst Nicholas Dean og var í eigu breska sjóhersins. Seldur til Frakklands árið 1923, hét þar Notre Dame de France og gerður þaðan út til ársins 1925. Seldur aftur til Englands, hét þar Willoughby í eigu Boston Deep Sea Fishing & Ice Co í Grimsby. Seldur árið 1928, Sviða h/f í Hafnarfirði,hét Sviði GK 7. Skipstjórinn á Venusi GK 519, Vilhjálmur Árnason, taldi að óveðrið sem þá gekk yfir, hafi ekki verið það slæmt að togarinn Sviði hafi ekki komist leiðar sinnar til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Það má kannski leiða að því líkum að Sviði hafi jafnvel farist að hernaðarvöldum.


B.v. Sviði GK 7 á toginu.                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.

               Nýr togari

Til Hafnarfjarðar kom á laugardagskvöldið togari, sem H.f. "Sviði" hefir keypt í Englandi. Heitir togarinn einnig "Sviði" og er 9 ára gamall, "systurskip" "Karlsefnis." Skipstjóri er Hafsteinn Bergþórsson. Hann og Gísli Jónsson skipaumsjónarmaður, fóru til Englands að taka við skipinu og fengu þeir miklar viðgerðir á því, án þess að kaupverð hækkaði. "Sviði" er hraðskreitt skip, fór á tæpum fjórum sólarhringum milli Fleetwood og Hafnarfjarðar. Hann verður gerður út hjá H.f. "Akurgerði" í Hafnarfirði og fer í fyrstu veiðiför sína í dag.

Morgunblaðið. 13 mars 1928.


B.v. Sviði GK 7 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Togarinn "Sviði" ferst með allri áhöfn

Þann 23. nóvember síðastliðinn fór togarinn "Sviði" úr Hafnarfirði á veiðar. Hélt hann á djúpmiðin úti fyrir Vestfjörðum. Var hann þar, ásamt fleiri skipum, þangað til mánudaginn 1. des., að hann lagði af stað heimleiðis eftir að hafa fengið fullfermi. Öndverðlega á þriðjudagsmorguninn hafði togarinn "Venus" samband við "Sviða", og var hann þá kominn suður undir Kolluál, en hann er um 10 sjómílur út af Öndverðanesi. Ekkert var að vanbúnaði um borð í "Sviða", svo að þess væri getið. Ekkert samband höfðu menn við hann eftir þetta, en það er talið fullvíst, að hann hafi farizt á þeim slóðum, er hann gaf síðast upp stöðu sína, en það var kl. 7.30. þriðjudagsmorguninn 2. desember. Að sögn Vilhjálms Árnasonar skipstjóra á "Venus", var veður allhvasst af suðri, en þó eigi svo, að togarar kæmust eigi leiðar sinnar. Sjór var hins vegar þungur mjög og marglyndur. Togarinn "Venus" lagðist á Skarðsvík á Snæfellsnesi kl. 2 e. h. á þriðjudaginn og lá þar til kl. 8 um kvöldið. Var veður þá tekið að batna svo, að hann lagði af stað suður til Hafnarfjarðar. Þegar þangað kom, var "Sviði" ókominn, og óttuðust menn þá þegar um afdrif hans. Svo skjótt sem verða mátti voru gerðar ráðstafanir til að leita að skipinu, en ekki bar það neinn árangur. Þá voru og gerðir út  leitarmenn beggja megin Breiðafjarðar. Þeir, sem fóru á ströndina að norðanverðu, fundu ýmislegt rekald í nánd við Saurbæ á Rauðasandi. Var þar meðal annars flak af björgunarbáti, lýsisföt og björgunarhringur merktur "Sviði" G. K. 7. Nokkru síðar fannst lík rekið í nánd við Sjöundá. Reyndist það að vera lík Júlíusar Hallgrímssonar, kyndara á "Sviða". Fleiri lík hafa ekki fundizt, þegar þetta er ritað, þrátt fyrir ítrekaða leit. Með "Sviða" fórust 25 menn, og láta þeir eftir sig 14 ekkjur og 46 börn. Af þessum mönnum voru 12 búsettir í Reykjavík, 11 í Hafnarfirði og tveir úti á landi. Miðvikudaginn 17. des. fór fram í Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði minningarathöfn um skipshöfnina á "Sviða", og þann sama dag voru til moldar bornar hinar jarðnesku leifar Júlíusar Hallgrímssonar.
Þessir menn fórust með "Sviða":
Úr Reykjavík:
Guðjón Guðmundsson, skipstjóri, Bárugötu 35. F. 27. sept. 1894. Kvæntur og átti 3 hörn, 17, 15 og 9 ára.
Þorbergur Friðriksson, I. stýrimaður, Bræðraborgarstíg 52. F. 10. des. 1899. Kvæntur og átti 4 börn, 8, 7, 5 og 2 ára.
Guðmundur Pálsson, I. vélstjóri, Lindargötu 36. F. 7. júní 1910. Kvæntur og átti 1 barn og stjúpbarn. Gunnar Klemensson, II. stýrimaður, Bergstaðastræti 6. F. 28. janúar 1916. Kvæntur og átti 1 barn. Erlendur Hallgrímsson, loftskeytamaður, Laugaveg 83. F. 18. nóv. 1911. Kvæntur, barnlaus.
Júlíus Á. Hallgrímsson, kyndari, Freyjugötu 27. F. 31. júlí 1900. Ókvæntur, en bjó með aldraðri móður sinni og fötluðum bróður.
Lárus Þ. Gíslason, kyndari, Óðinsgölu 17 A. F. 2. okt. 1909. Átti unnustu og tvö börn.
Bjarni Einarsson, háseti, Bergþórugötu 57. F. 5. júlí 1915. Ókvænlur, en sá fyrir aldraðri móður sinni. Bjarni Ingvarsson, háseti, Öldugötu 4. F. 11. okt. 1923. Hann var sonur Ingvars Ágústs skipstjóra á "Braga", er fórst við Fleetwood í fyrra vetur, og næst elztur af 5 börnum hans.
Guðmundur Halldórsson, háseti, Grettisgötu 57 A. F. 17. júlí 1904. Kvæntur og átti 4 börn, 10, 7, 5 og eins árs.
Guðmundur Þórhallsson, háseti, Karlagötu 15. F. 20. júni 1922.
Jón G. Björnsson, háseti, Tjarnargölu 47. F. 21. marz 1924.
Úr Hafnarfirði:
Lýður Magnússon, II. vélstjóri, Öldugötu 19. F. 24. maí 1898. Kvæntur og átti 1 barn.
Sigurður G. Sigurðsson, bátsmaður, Hörðuvöllum. F. 13. ágúst 1900. Kvæntur og átti 5 börn, þar af 3 upp komin.
Guðmundur Júlíusson, matsveinn, Selvogsgötu 5. F. 24. sept. 1892. Kvæntur og átti 5 börn, þar af 2 upp komin.
Bjarni E. Ísleifsson, háseti, Selvogsgötu 12. F. 10. okt. 1913. Kvæntur og átti 1 barn.
Egill Guðmundsson, háseti, Vörðustíg 9. F. 24. júní 1907. Kvæntur og átti 2 börn.
Gísli Ámundason, háseti, Nönnugötu 1. F. 14. nóv. 1889. Átti stjúpbarn.
Gottskálk Jónsson, háseti. Ókvæntur, en átti 1 barn.
Gunnar I. Hjörleifsson, háseti, Selvogsgötu 5. F. 7. ágúst 1892. Kvæntur og átti 6 hörn, þar af 3 upp komin.
Haraldur Þórðarson, háseti, Selvogsgötu 8. F. 11. marz 1897. Kvæntur og átti 6 börn, þar af 3 upp komin.
Jón G. Nordenskjöld, háseti. F. 9. sept. 1916. Átti unnustu.
Sigurgeir Sigurðsson, háseti. F. 18. júni 1896. Kvæntur og átti 2 börn, annað upp komið. Sigurgeir var bróðir Gísla bátsmanns.
Utan af landi:
Baldur Á. Jónsson, háseti, frá Akranesi. F. 28. des. 1914. Ókvæntur, en var fyrirvinna móður sinnar. Örnólfur Eiríksson, háseti, frá Felli í Mýrdal, 26 ára. Ókvæntur.
Togarinn "Sviði" var 328 rúmlestir brúttó, smíðaður í Skotlandi 1918. Hann var eign h.f. Sviða í Hafnarfirði.  

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1941.

 

Flettingar í dag: 810
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 724156
Samtals gestir: 53726
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 18:42:52