29.12.2019 16:26

206. Svanur ÍS 214. TFLZ.

Vélskipið Svanur ÍS 214 var smíðaður í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1960 fyrir Álftfirðing hf í Súðavík. 101 brl. 400 ha. MWM vél. Skipið fórst í róðri um 18 sjómílur út af Deild 29 janúar árið 1969. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Það var síðan vélskipið Sólrún ÍS 399 frá Bolungarvík sem fann gúmbátinn og voru skipverjar þá búnir að vera í honum í um 4 klukkutíma. Þeim var síðan bjargað um borð í varðskipið Þór sem hélt með þá inn til Ísafjarðar.


206. Svanur ÍS 214.                                                                               (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                      Nýtt skip

Ísafirði, 23. des. Í gærkvöldi kom nýr bátur til Súðavíkur. Hann er 101 lest að stærð , af sömu gerð og hin A-þýzku skip, sem komið hafa til landsins. Eigandi er Álftfirðingur h.f., en framkvæmdastjóri er Halldór Magnússon oddviti í Súðavík. Skipstjóri á leiðinni heim var Birgir Benjamínsson, en Kjartan Karlsson verður skipstjóri á fleyinu. - Skipið heitir Svanur, ÍS 214.

Tíminn. 24 desember 1960.


206. Svanur ÍS 214.                                                                              (C) Hafsteinn Jóhannsson.

 Fengum á okkur brotsjó, þvert á bátinn framantil
  sagði skipstjórinn á Svani ÍS 214 í viðtali við Mbl.,

           en báturinn sökk í vonzkuveðri í
                gærdag út af Vestfjörðum

Vélbáturinn Svanur ÍS 214 frá Súðavík fórst í róðri út af Deild í gærdag. Áhöfnin, 6 menn, komst í gúmbjörgunarbát og var bjargað eftir fjögurra tíma umfangsmikla leit. Hið versta veður var, hörkufrost, og gekk á með éljum. Sólrún frá Bolungarvík fann gúmbátinn en varðskipið Þór tók skipbrotsmenn um borð og kom með þá til Ísafjarðar um miðnætti.
Ísafirði í nótt:
Varðskipið Þór kom hingað til Ísafjarðar kl. tíu mínútur gengin í eitt með skipbrotsmennina af Svani frá Súðavík og átti Morgunblaðið þá strax tal við Örnólf Grétar Hálfdánarson, sem var skipstjóri á Svaninum. "Við fengum á okkur brotsjó um tvöleytið í dag og vorum þá líklega um 17 mílur NV af Deild á leið í land. Við vorum búnir að lóna rólega í um það bil klukkutíma og vorum að enda við að draga. Skyndilega reið hart brot yfir, þvert á bátinn framantil, ég get ekki lýst því nákvæmlega, því að rétt þá stundina var ég aftur í bestikki. Báturinn skall beint á hliðina og það drapst á vélinni eins og skot og sennilega hefur sjór farið niður um reykháfinn. Báturinn rétti sig aldrei eftir þetta og það hafa varla liðið meira en tíu mínútur þangað til allt sökk. Við gátum komizt upp á stýrishúsið og náð út gúmbátnum, en hann festist á rekkverkinu og skarst og rifnaði bæði þakið og efra flotholtið. Einn okkar komst með naumindum fram að hvalbak og gat náð í hinn gúmbátinn, sem var hjá skælettinu. Ég hljóp út úr bestikkinu, tók neyðartalstöðina með mér og kom henni upp á stýrishúsið en áður var ég búinn að reyna að setja talstöðina í gang, en ekkert ljós kviknaði á henni.
Við komumst strax frá bátnum á skemmda gúmbátnum og blésum þá þann heila út og skriðum allir yfir í hann. Við byrjuðum strax að kalla og það var víst varðskipið sem fyrst heyrði til okkar, en síðan náðum við sambandi við Sólrúnu og gátum talað við hana nokkrum sinnum, áður en loftnetsstöngin brotnaði fyrir einhver mistök. Eftir það gátum við lítið gert annað en að fylgjast með því sem var að gerast á svæðinu. Þegar við komum í bátinn voru austan 10 vindstig og töluvert mikið frost, jú okkur var nokkuð kalt, en við vorum allir sæmilega vel klæddir, allir í ullarfötum um borð og sömuleiðis gátum við náð í ullarföt, sem Kvennadeild Slysavarnafélagsins í Súðavík hafði gefið í bátinn og hjálpaði það okkur mikið, meðan við vorum í gúmbátnum. Við reyndum að halda á okkur hita eftir beztu getu, og sluppum nokkuð vel, þó að stýrimanninn hafi kalið lítilsháttar á hendi. Eins tognaði matsveinninn aðeins á öxl, þegar hann fór út í gúmbátinn.


Áhöfnin á Svaninum. Frá v; Örnólfur Grétar Hálfdánarson skipstjóri. Brynjólfur Bjarnason stýrimaður. Þórður Sigurðsson matsveinn. Jón Ragnarsson vélstjóri. Jóhann Alexandersson 2 vélstjóri og Kjartan Ragnarsson háseti.     Mynd úr Morgunblaðinu frá 30 jan 1969.

Við heyrðum alltaf í leitarskipunum og þegar þau voru farin að nálgast okkur gátum við látið heyra í okkur aftur. Það var Sólrún, sem fann okkur og eftir því, sem þeir segja mér hér um borð höfum við þá verið á stað 24 mílur í Rit og 17 mílur í Barða og þá sennilega rekið 8-9 mílur því sem næst í vestur frá staðnum þar sem báturinn sökk.
Við vorum vongóðir um björgun og misstum aldrei trú á því að okkur yrði bjargað, ekki sízt eftir að við heyrðum að leitarskipin hefðu fundið belgi og baujur og hinn gúmbátinn og þá vorum við vissir um að allt væri í lagi. Ég tel alveg tvímælalaust að það hafi fyrst og fremst bjargað lífi okkar að við höfðum þessa neyðartalstöð í gúmbátnum.
Ég vil fyrir hönd okkar skipsfélaganna þakka öllum sem tóku þátt í leitinni og veittu aðstoð og sérstaklega þakka ég varðskipsmönnum og Þresti Sigtryggssyni skipherra fyrir frábært skipulag á leitinni og prýðilega góðar móttökur þegar við komum hér um borð. Eins vil ég þakka Hálfdáni Einarssyni skipstjóra á Sólrúnu og hans mönnum, en Sólrún fann okkur fyrst og beið hjá okkur þar til varðskipið kom og bjargaði okkur um borð. Já, ég fer á sjóinn aftur, eins fljótt og ég mögulega kemst og vil helzt geta farið þegar næst verður róið, ef ég fæ pláss og sama er að segja um okkur félaganna alla. Mbl ræddi einnig við Börk Ákason, sem er útgerðarstjóri fyrir Svaninn. "Ég er því fegnastur að mannbjörg skyldi verða. Þetta hefur að sjálfsögðu verið mikið áfall fyrir atvinnulíf okkar í Súðavík og er nú aðeins eftir einn 107 tonna bátur, Valur, sem gerður er út á línu frá Súðavík. Á bátunum og við frystihúsið hafa að undanförnu 60 manns haft atvinnu. Við eigum 200 tonna stálbát í smíðum hér á Ísafirði og verður hann trúlega tilbúinn í endaðan febrúar. Ég vil biðja blaðið að flytja innilegar þakkir til þeirra, sem lögðu sig fram við leitina og stuðluðu á annan hátt að þessari giftusamlegu björgun mannanna."

Morgunblaðið. 30 janúar 1969.


198. Sólrún ÍS 399, smíðuð í Stralsund í A-Þýskalandi árið 1959 249 brl. Hét áður Bjarnarey NS 7.

        Sáu skyndilega ljósið í toppi               gúmbátsins rétt við borðstokkinn                               á Sólrúnu

Vélbáturinn Sólrún, sem fann skipverja af Svani, kom til Bolungarvíkur í gærkvöld og ræddi fréttaritari Mbl. þar við skipstjórann, Hálfdán Einarsson. Fer frásögn hans hér á eftir, svo og símtal við Hálfdán Örnólfsson, föður Örnólfs Grétars skipstjóra á Svani. Vélbáturinn Sólrún, sem fyrst náði sambandi við skipverja á Svani og fann síðar gúmbjörgunarbátinn, kom til Bolungarvíkur um kl. 11 í gærkvöld, illa ísaður eins og aðrir bátar, sem voru á þessum slóðum. Hversu mikil ísingin var má marka af því, að stög, sem eru um tomma að gildleika voru orðin um eitt fet að gildleika. Fréttaritari Mbl. í Bolungarvík hafði tal af Hálfdáni Einarssyni skipstjóra á Sólrúnu, þegar báturinn kom að bryggju. Hálfdán sagði að þeir hefðu verið að veiðum um 2 mílur norður af staðnum, þar sem Svanur sökk (15-18 mílur NNV af Deild). Heyrðu þeir á Sólrúnu fyrstir í talstöð gúmbjörgunarbátsins og fóru strax að leita að honum. Sagði Hálfdán að leitarskilyrði hefðu verið afleit, hvassviðri, mikill sjór, hörkufrost og gekk á með éljum. Það var svo skuggsýnt, sagði Hálfdán, að við vorum að hugsa um að biðja þá í gúmbátnum um að skjóta upp blysum til þess að við gætum frekar fundið þá. Talstöðin í gúmbátnum, var farin að dofna, en skyndilega heyrðum við mjög skýrt í talstöðinni og fórum þá að svipast um í kringum okkur. Sáuna við þá ljósið á toppi gúmbjörgunarbátsins rétt við borðstokkinn á Sólrúnu. Þá var klukkan 18.10, og vorum við þá 19 mílur frá Deild og 23 mílur frá Rit. Taldi Hálfdán að skipverjar í gúmbátnum hafi ekki orðið varir við Sólrúnu strax. Sagði Hálfdán að Sólrúnarmenn hefðu strax kallað í varðskipið, sem var í grenndinni, þar sem þeir töldu að um borð í því væri betri aðstaða til að taka á móti skipbrotsmönnum.
Sagði Hálfdán að þeir um borð í Sólrúnu hefðu ekkert vitað um líðan skipbrotsmannanna í gúmbátnum, enda ekki getað haft samband við þá. Liðu 20-25 mínútur frá því skipverjar á Sólrúnu sáu gúmbjörgunarbátinn, þar til skipbrotsmenn voru komnir um borð í varðskipið. Hélt Sólrún sig hjá gúmbátnum á meðan. Fréttaritari Mbl. sagði að Hálfdán og aðrir skipstjórar í Bolungarvík, sem hann hafði hitt, hefðu borið mikið lof á skipverja þann af Svani, sem hafði með talstöðina að gera í gúmbátnum, fyrir leikni hans og kunnáttu.

Morgunblaðið. 30 janúar 1969.                                  


Flettingar í dag: 808
Gestir í dag: 133
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 726398
Samtals gestir: 53954
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:58:43