14.04.2024 06:53
722. Pálmi EA 21.
Vélbáturinn Pálmi EA 21 var byggður í Slippstöðinni h.f. á Akureyri árið 1963 eftir teikningu Þorsteins Þorsteinssonar skipasmíðameistara fyrir Gunnlaug Sigurðsson Árskógshreppi, Georg Vigfússon Litla Árskógi, Valves Kárason og Stefán Snælaugsson á Árskógssandi. Eik. 17,26 brl. 5 nettó. 100 ha. Volvo Penta vél. 13,19 x 3,95 x 1,56 m. Skipaskrárnúmer 722. Eigendur frá 26 ágúst 1968 voru Ólafur Tryggvason og Jónatan Sveinsson í Reykjavík og Sigurður Hreiðarsson í Kópavogi, hét þá Stapi RE 69. Frá 31 október 1969 eru eigendur bátsins Jónatan Sveinsson í Reykjavík, Haraldur Kjartansson, Bragi Eyjólfsson og Adolf L Sveinsson á Ólafsfirði, sama nafn og númer. Frá 9 september 1970 er Matvælaiðjan h.f. á Bíldudal eigandi, hét þá Stapi BA 17. Frá 1 mars er Niðursuðuverksmiðjan h.f. á Ísafirði eigandi, fékk þá nafnið Eiríkur Finnsson ÍS 26, Frá 25 janúar 1980 mun hann hafa borið skráningarnúmerið ÍS 260. Báturinn fórst í Ísafjarðardjúpi og með honum áhöfnin, tveir menn, í miklu suðvestan fárviðri er gekk yfir Vestfirði 25 febrúar árið 1980. Tveir aðrir bátar fórust í veðri þessu, Gullfaxi ÍS 594, með tveimur mönnum á Ísafjarðardjúpi og Vísir BA 44 með tveimur mönnum inn á Arnarfirði. Voru bátarnir þá á rækjuveiðum.
Flakið af Eiríki Finnssyni fannst skammt norður af Vigur og liggur á um 36 faðma dýpi. Gullfaxi liggur þar einnig skammt frá á 50 faðma dýpi.
Pálmi EA 21 á siglingu við Hrísey á Eyjafirði um 1966. Ljósmyndari óþekktur. |
Nýi báturinn Pálmi
Þegar vélbáturinn Pálmi frá Litla-Árskógssandi sökk við ásiglingu Heklu fyrir ári síðan, en það var 9 tonna bátur, tóku eigendur hans að hugsa fyrir nýjum báti. Og nú er hann í þann veginn að taka við hlutverki nafna síns. Hann er byggður í Slippstöðinni hf. á Akureyri og er nú 18 tonn, vandaður og fullkomnari en sá fyrri. Eigendur hins nýja Pálma eru Georg Vigfússon, Gunnlaugur Sigurðsson, Valves Kárason og Stefán Snælaugsson, sem verður formaður á bátnum.
Íslendingur. 9 apríl 1963.
Pálmi EA 21 upp í fjöru til botnhreinsunar á Borgarfirði eystra 1967-68. (C) Sverrir Aðalsteinsson. |
Þriggja rækjubáta með sex mönnum saknað
Óttast er um afdrif þriggja rækjubáta, tveggja frá Ísafirði og eins frá Bíldudal. Tveir skipverjar eru á hverjum báti. Í gærkvöldi fannst gúmbátur af einum bátanna við Skarð á Snæfjallaströnd og stíuborð fundust við Auðkúlu í Arnarfirði, sem talið er að séu af Bíldudalsbátnum. Bátarnir, sem saknað er eru Vísir BA 44,16 tonna eikarbátur frá Bíldudal. Gullfaxi ÍS 594, 19 tonna eikarbátur frá Ísafirði, og Eirikur Finnsson ÍS 26. 17 tonna eikarbátur frá Ísafirði.
Rækjubátar réru frá Ísafirði í sæmilegu veðri í gærmorgun og fóru bátarnir, sem saknað er frá Ísafirði, til veiða í innanverðu Djúpi. Upp úr hádegi var skollið á aftakaveður af suðvestri. Um klukkan 15 voru bátarnir 'beðnir um að tilkynna sig og þá kom í ljós, að tveggja báta, Gullfaxa og Eiríks Finnssonar, var saknað. Síðast er vitað um Gullfaxa út af Arnarnesi á leið til Ísafjarðar, og um Eirík Finnsson þar sem hann var að hífa innan við Ögurhólma skömmu eftir hádegi, en hafði ekki leitað vars. Þrír línubátar frá Ísafirði fóru til aðstoðar og leitar fyrir klukkan 3 í gærdag og björgunarsveitarmenn frá Súðavík, Ísafirði, Hnífsdal og Bolungavík voru tilbúnir.
Línubáturinn Guðný fór með átta björgunarsveitarmenn og kom þeim í land á Sandeyri á Snæfjallaströnd við erfiðar aðstæður. Þeir munu ganga ströndina í dag og bændur á Snæfjallaströnd byrjuðu leit á landi þegar síðdegis í gær og menn frá Unaðsdal fundu í gærkvöldi gúmbát, sem talinn er vera úr Eiríki Finnssyni, við Skarð á Snæfjallaströnd. í dag verður leitað á sjó, landi og úr lofti ef veður leyfir. Fyrrnefndar björgunarsveitir munu hafa aðstöðu í húsi SVFÍ í Bolungarvík, en í gær tóku auk fyrrnefndra aðila þátt í leitinni starfsmenn Slysavarnafélagsins í Reykjavík, Landhelgisgæzlu og ísafjarðarradíós. Upp úr hádegi var farið að óttast um rækjubátinn Vísi frá Bíldudal, Frigg BA var þá inni á Bíldudal og var strax beðinn um að fara og svipast um eftir bátnum.
Þá var varðskipi, sem var miðsvæðis út af Vestfjörðum, snúið við og stefnt í Arnarfjörð. Það hafði áður verið beðið um aðstoð vegna Ísafjarðarbátanna, en snúið við þar sem færri skip voru til leitar í Arnarfirði. Vísir hafði verið að hífa fyrir innan Gíslasker þegar síðast fréttist, en bátarnir Vísir og Pílot BA 6 höfðu haft samband sín á milli. Varðskipið fór inn fyrir Gíslasker, inn á Dynjandisvog og Borgarfjörð, en sá ekki neinn bát. Hins vegar fannst ómerktur rækjukassi og lestarborð út af bænum Auðkúlu. Bændur á Auðkúlu fundu síðan í gærkvöldi grámáluð stíuborð með rauðum röndum, sem talið var að væru frá Vísi. Björgunarsveitarmenn fara með varðskipi í dag og taka land á Rafnseyri til þess að leita fjörur við norðanverðan Arnarfjörð.
Morgunblaðið. 26 febrúar 1980.
Sjómennirnir sex sem fórust með rækjubátunum þremur. Ljósmyndir úr Morgunblaðinu.
|
Vestfjarðafárviðrið
Sjómennirnir taldir af
Sjómennirnir sex af vestfirsku rækjubátunum þremur sem saknað var á mánudag eru nú taldir af og er formlegri leit hætt í ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Flugvél frá flugfélaginu Örnum flaug leitarflug í gær án árangurs, en næstu daga verður gengið á fjörur eftir því sem astæður leyfa. Vitað er um flökin af Gullfaxa og Eiríki Finnssyni á 50 og 36 faðma dýpi skammt norður af Vigur og brak hefur fundist úr Vísi.
Með Gullfaxa fórust bræðurnir Ólafur S. Össurarson og Valdimar Þ. Össurarson Ísafirði. Ólafur var 48 ára gamall, kvæntur og þriggja barna faðir. Valdimar var 40 ára, kvæntur og átti 4 syni.
Með Vísi fórust Pétur Valgarð Jóhannsson og Hjálmar Einarsson frá Bíldudal. Pétur var 44 ára, kvæntur og fimm barna faðir.
Hjálmar var 30 ára, kvæntur og fjögurra barna faðir, en hann átti einnig stjúpbarn.
Með Eiríki Finnssyni fórust Haukur Böðvarsson og Daníel Jóhannsson frá Ísafirði. Haukur var 31 árs og ókvæntur, en Daníel var 35 ára, kvæntur og tveggja barna faðir.
19 börn urðu föðurlaus þegar þessir þrír bátar fórust.
Morgunblaðið. 28 febrúar 1980.