12.03.2023 10:41

753. Sigurvon ÍS 304.

Vélbáturinn Sigurvon ÍS 304 var smíðaður í Danmörku árið 1906 og þá trúlega í Frederikssund. 4 brl. með 4 ha. Alpha vél. 8,24 x 2,52 x 1,02 m. Sigurvon var fjórði vélbáturinn sem keyptur var til Suðureyrar í Súgandafirði. Eigendur hans voru Guðmundur Sigurðsson í Bæ, Veturliði H Guðnason og Halldór Guðmundsson allir búsettir á Suðureyri, frá sama ári. Ekki hafði báturinn verið pantaður fyrir Súgfirðinga, heldur menn í Dýrafirði. Þá um vorið voru hinir væntanlegu eigendur á þilskipi sem fórst og mennirnir með því. Báturinn var því boðinn öðrum og varð til þess að Súgfirðingar fengu hann. Guðmundur í Bæ keypti bátinn hálfan, og Ibsen, sonur hans sem þá var 14 ára varð sameignarmaður föður síns. Veturliði og Halldór, sem báðir voru til heimilis á Suðureyri keyptu sinn fjórða partinn hvor. Árið 1915 slitu þeir félagar samvinnu og keyptu feðgarnir hlut þeirra. Ibsen Guðmundsson tók þá við formennsku á Sigurvon og réri henni í 40 ár, til ársins 1955. Þá brotnaði báturinn í stórviðri á firðinum. Var gert við hann, en Ibsen hætti þá formennsku. Eftir það var Kristján sonur hans formaður á Sigurvon í 5 ár. Hún var seld til Flateyrar skömmu síðar.
Sigurvon var eini báturinn sem eftir hálfa öld var til af þeim bátum, sem keyptir voru til Suðureyrar á fyrsta tug aldarinnar. Vitanlega var bátnum breytt á þessu tímabili að því leyti að hann var hækkaður á borð og yfirbyggður og skipt um vél, en súð bátsins mun að mestu leyti hafa verið hin sama, enda var báturinn framúrskarandi vel hirtur. Ibsen var sérstakur hirðumaður og alldrjúgur aflamaður. Afkoma Sigurvonar í þau 50 ár, sem hún var í eigu þeirra feðga var mjög góð og mun það vera nokkuð sérstakt í íslenskri útgerðarsögu.
Ný vél var sett í bátinn 1947, 15 ha. Säffle vél. Árið 1962 var sett í hann 36 ha. Bukh vél. Sigurvon var gerð út af Einari Hafberg á Flateyri og jafnvel af fleirum þar í bæ. Báturinn sökk á Flateyri 25 maí árið 1972 í miklu óveðri og var ekki gerður meira út. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 maí sama ár.

Þilskipið sem talað er um hér að ofan sem fórst um vorið 1906 gæti hafa verið þilskipið eða réttara sagt jaktin Anna Soffía ÍS 132 sem Filippus Árnason skipstjóri á Ísafirði og Jón Gunnlaugsson kaupmaður í Eyrardal í Álftafirði áttu. Anna Soffía var smíðuð í Haderslev á Jótlandi í Danmörku árið 1859 og var 24 brl. Skipið fórst í mannskaðaveðrinu 26-28 apríl árið 1906 með allri áhöfn, 9 mönnum. 5 þeirra voru frá sama bænum, Hvammi í Dýrafirði. Þeir gætu hafa verið hinir upphaflegu kaupendur Sigurvonar.

Heimildir:
Súgfirðingabók. Byggðasaga og mannlíf. Gunnar M Magnúss 1977.
Íslenskt sjómannaalmanak 1973.
 

Sigurvon á siglingu á Súgandafirði.                                  Ljósmyndari óþekktur.



            Þrír Flateyrarbátar í lamasessi


Þrír Flateyrarbátar eru ennþá í lamasessi eftir ofviðrið sem geysaði á staðnum í maí síðastliðnum. Að sögn Emils Hjartarsonar fréttaritara blaðsins á Flateyri er talið að tveir bátanna séu alveg ónýtir, en einn megi gera upp með ærnum tilkostnaði. Alls skemmdust sex bátar meira og minna í óveðrinu, en þrem hefur tekist að koma á flot að nýju. Það er dýrt fyrir lítið byggðarlag eins og Flateyri að missa þrjá báta á einu bretti, og bátamissirinn hefur þýtt það að minni atvinna er í frystihúsinu en ella væri, þrátt fyrir að afli handfærabáta sé með mesta móti. Mikil atvinna er á Flateyri þrátt fyrir áföllin, og munar þar mestu um að unnið er að endurbótum á frystihúsinu og beinamjölsverksmiðjunni á staðnum. Nýr 200 tonna bátur er væntanlegur til Flateyrar á næstunni, Hafdís, keypt frá Neskaupstað. Þá er bátur í lengingu í Noregi. Í sumar er unnið að vegarlagningu í nágrenni Flateyrar, og þykir Flateyringum það ekki seinna vænna eftir að peningum hefur verið ausið í Djúpveginn ár eftir ár.

Alþýðublaðið. 30 júní 1972.

Flettingar í dag: 2412
Gestir í dag: 143
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744171
Samtals gestir: 56049
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 20:36:34