29.05.2016 06:24

Rigmor. NTHK.

3 mastra skonnortan Rigmor var smíðuð úr járni hjá P.Ph. Stuhrs Maskin & Skibsbyggeri í Álaborg í Danmörku árið 1915 fyrir F.L. Knakkergaard í Nýköbing á Sjálandi í Danmörku, smíðanúmer 6. 161 brl. 80 ha. Goedkoop díesel vél. Hét fyrst A.H. Schade. Selt 12 maí Firmanu Wilhelm R. Maegaard í Óðinsvé í Danmörku, fær þá nafnið Rigmor. Selt 23 febrúar 1917, Konráð Hjálmarssyni kaupmanni og útgerðarmanni á Nesi í Norðfirði. Rigmor var í saltfiskflutningum frá Norðfirði til Ibiza á Spáni og kom jafnan fulllestað af salti og öðrum suðrænum vörum heim. Skipið lagði upp í sína síðustu ferð frá Norðfirði 28 september 1918. Það síðasta sem vitað var um ferðir þess að þann 14 janúar 1919 lagði það af stað frá Lissabon í Portúgal áleiðis til Norðfjarðar. Ekkert spurðist til ferða þess eftir þetta, en álitið var að það hefði jafnvel rekist á tundurdufl og farist. Áhöfnin, 7 menn fórust með Rigmor.

 
Rigmor á Norðfirði árið 1917. Ljósm: Björn Björnsson. Úr safni Þórðar M Þórðarsonar, birt með leyfi Finns Þórðarsonar sonar hans.
 

Árið 1917 þegar Konráð var staddur að vetrarlagi i Kaupmannahöfn, keypti hann þrímastraða mótor-skonnortu um 160 smálestir, sem hann ætlaði að hafa í flutningum á vörum frá Noregi, Svíþjóð og aðallega frá Kaupmannahöfn, þar sem hann hafði mest viðskiptin, en þá var heimsstyrjöldin komin og breytti hún þessu áformi hans þannig, að hann varð að nota hana til fiskflutninga til ítalíu og Spánar og til baka með saltfarma frá Ibiza. Sjálfur segir Konráð að skonnortan hafi verið of lítil í svona langferðir. Skonnortan, sem hét Rigmor, fór síðla árs 1918 til Miðjarðarhafslanda og á heimleið tók hún fullfermi af salti í Ibiza. Var siðan siglt til Lissabon í Portúgal, þar sem skipið lá hinn 1. desember 1918 og var eitt af þrem íslenzkum skipum, sem þá dró íslenzka fánann i fyrsta sinn að húni í erlendri höfn. Hélt Rigmor síðan af stað til Norðfjarðar, en frá því að skonnortan hélt út frá Lissabon hefur ekkert, til hennar spurst. Talið er að hún hafi rekist á tundurdufl.

Morgunblaðið 7 apríl 1977.

Mótorskonnortan Rigmor var í Gíbraltar 1. desember 1918, á fullveldisdaginn, og drógu skipverjar þar íslenska fánann að húni. Rigmor varð því fyrsta skipið til að sigla undir íslenskum fána á Miðjarðarhafi. Af þessu tilefni sendi áhöfnin heillaskeyti til Íslands og var þess getið í Morgunblaðinu 4. og 5. Rigmor var eign Konráðs Hjálmarssonar, kaupmanns og útgerðarmanns á Norðfirði. 25. nóvember hafði Ólafur skipstjóri fengið skeyti frá Konráð þar sem honum var tjáð að búið væri að opna venjulega siglingaleið til Færeyja eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri, en þaðan hafði skipið lagt af stað 28. september. Daginn eftir lagði Rigmor úr höfn í Barcelona á Spáni. Skipið tepptist í Gíbraltar í þrjár vikur, en á aðfangadagskvöld jóla var akkerum varpað í Lagosflóa í Portúgal þar sem áhöfnin beið af sér óveður. 14. janúar 1919 var báturinn í Lissabon í Portúgal og var lagt úr höfn þann dag. Þaðan sendi skipstjórinn síðustu bréfin, sem frá honum bárust, en frá Gíbraltar hafði hann sent konu sinni í Kaupmannahöfn dagbók frá ferðinni.

Ekki er vitað hvaða dag Rigmor fórst. Næstu daga eftir að siglt var frá Lissabon gekk á með ýmsu veðri, stormi og illviðri milli þess sem veðrið gekk niður. Hafi Rigmor staðið af sér veðrin í janúar gæti hún hafa farist í fárviðri, sem brast á 10. febrúar með miklum sjó suðvestur af Írlandi og Skotlandi.Þess má hins vegar geta að á siglingaleið skipsins frá Gíbraltar var á stríðsárunum 1914 til 1918 mikið um tundurdufl. Töldu margir að Rigmor hefði siglt á tundurdufl.
Lengi mun hafa verið vonað að skipið eða einhver úr áhöfn þess kæmi fram, en ekki verður séð í dagblöðum frá þessum tíma eða annars staðar að þess hafi verið getið hér á landi að Rigmor hafi farist með allri áhöfn.
Kristján konungur 10. afhjúpaði 29. maí 1928 minnismerki um danska sjómenn, sem taldir voru hafa farist af völdum stríðsins. Á stöpul minnismerkisins er, meðal annarra, greypt nafn Rigmor og nöfn þeirra, sem fórust með skipinu.
Þeir voru Ólafur Sigurðsson skipstjóri, sem búsettur var í Kaupmannahöfn, Ólafur Ólafsson stýrimaður, sem búsettur var í Vestmannaeyjum, Jóhann Jóhannsson vélamaður frá Mjóafirði, Karl Lárusson háseti, búsettur í Norðfirði, Þorsteinn Jóelsson matsveinn, búsettur í Reykjavík, Frímann Guðnason háseti, búsettur í Reykjavík og Guðjón Helgason háseti, búsettur í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið 3 júní 2000.

Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1646
Gestir í gær: 169
Samtals flettingar: 746242
Samtals gestir: 56271
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 03:08:54