05.12.2015 09:11

Líkön af Nýsköpunartogurunum. V.

Fylkir RE 161. TFCD. Smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Fylki h/f í Reykjavík. 677 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn sökk um 25 sjómílur norður af Straumnesi,14 nóvember 1956. Tundurdufl kom í veiðarfæri skipsins og sprakk við síðu þess með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin,32 menn komst í annan björgunarbát skipsins og var bjargað þaðan um borð í togarann Hafliða SI 2 frá Siglufirði.


Togarinn Fylkir RE 161. TFCD.                                                          (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

 Í gærmorgun,14 nóvember fórst togarinn Fylkir frá Reykjavík um 25 sjómílur úti í hafi norður af Straumnesi, eftir að feikna sprenging hafði orðið undir síðu skipsins, sem stafað hefur af því að virkt tundurdufl hefur komið í vörpu skipsins, sem skipverjar voru þá að taka inn. Eftir sprenginguna sökk togarinn á fáeinum mínútum, og komust skips menn allir í annan björgunarbátinn, en togarinn Hafliði bjargaði skipbrotsmönnum úr bátnum, öllum ómeiddum utan einn, sem farið hafði úr axlarlið, en annar sem farið hafði í sjóinn hafði sopið nokkuð af sjó. Skipbrotsmenn eru væntanlegir til Reykjavíkur í fyrramálið (fimmtudag). Það var um klukkan 7,20 sem þessi atburður gerðist. Þá var enn dimmt, sjór þungur, en Fylkir hafði verið úti alls um átta daga, en úthaldið orðið tafsamt vegna storma. Á þessum slóðum voru i gærdag 10-11 vindstig og stórsjór. Skipverjar voru að taka inn belginn á vörpunni (hífa í stertinn eins og sjómenn kalla það), er mikil sprenging varð undir skipinu, sem orsakaðist af því að tundurdufl hafði lent i belgnum. Um leið og hin mikla sprenging varð valt Fylkir yfir á bakborða. Átti það sinn þátt í því telja skipsmenn, að tjónið af sprengingunni varð minna en ella. Við sprenginguna gekk allt meira og minna úr skorðum. Ljósavélin stöðvaðist, loftnetin slitnuðu niður, þungar hurðir í skipinu fóru af hjörum og skipverjar sem voru í kojum köstuðust fram á gólf.

 
Afturskip togarans.                                                                                       (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

 Þegar þetta gerðist var skipstjórinn á togaranum, Auðunn Auðunsson, einn kunnasti maður í hópi togaraskipstjóra, sofandi i skipstjóraklefanum. Felmtri sló á skipverja sem von var og þeir áttuðu sig ekki á þvi i fyrstu hvað eiginlega hafði borið að höndum. Skipstjórinn þaut strax niður í vélarúm, þar sem vélstjórarnir voru að koma ljósavélinni í gang á ný. þar var enginn sjór. Leki hafði komið í fisklest, er komið hafði gat á skipið við sprenginguna. Í fyrstu gerðu skipsmenn sér nokkrar vonir um að ekki væri gatið meira en það, að hægt væri með öllum dælum skipsins að hafa við þeim leka. En svo ágerðist lekinn fljótlega og tók skipið þá að síga mjög fljótt, svo að aðeins fáar mínútur liðu, þar til Fylkir, þetta happaskip, hvarf í djúpið, en skipsmönnum hafði tekizt að koma fleka á flot og stjórnborðsbátnum. Voru mennirnir á flekanum fáir og þar aðeins skamma stund, því þeir voru teknir yfir í björgunarbátinn. Voru þá komnir í hann 32 menn og var hann þá orðinn mjög siginn.  Sjór var þungur. Strax og sprengingin varð sendi loftskeytamaðurinn, Jörundur Sveinsson, út neyðarskeyti og skotið var upp neyðarflugeldum og svifblysum. Það var haldið áfram að skjóta þeim þegar komið var út í björgunarbátinn. Skipbrotsmenn í bátnum vissu hins vegar ekki hvort skip sem var í nokkurri fjarlægð,  en þeir sáu ljós Þess í myrkrinu , myndu hafa heyrt neyðarkallið, því loftnetið slitnaði og sendirinn því nær óvirkur. Sem fyrr segir hafði Fylkir verið í þessari veiðiför átta daga. Sagði skipstjórinn, að aðeins á þessari stundu, alla þessa átta daga, hefði veðrið verið svo hagstætt að hægt hafi verið að koma björgunarbát niður, óskemmdum. Hina dagana alla hafi verið ófært veður.


Stjórnpallur togarans.                                                                                   (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Þegar loftskeytamaðurinn sendi út neyðarkallið, var loftskeytamaðurinn á Siglufjarðartogaranum Hafliða SI 2 á varðbergi í klefa sínum. Heyrði hann eitt kall frá skipinu og hann sá líka neyðarflugeldana. Skipstjórinn á togaranum, Alfreð Jónsson, sem eins og þeir á Fylki var að veiðum, lét strax taka vörpuna inn og hélt Fylkismönnum til hjálpar. Á leiðinni sáu þeir frá Hafliða, hvar skotið var upp blysum frá björgunarbátnum og auðveldaði og hraðaði það björgun þeirra, því Hafliði gat siglt með fullri ferð alla leið og þurfti ekki að tefja við að leita bátsins í myrkrinu. Skipverjar af Fylki höfðu verið um hálfa klukkustund í bátnum er Hafliði kom á vettvang. Einn skipverjanna, Ólafur Halldórsson frá Hafnarfirði, hafði farið úr axlarlið, en Gunnar Eiríksson frá Vestmannaeyjum hafði fallið í sjóinn og sopið nokkuð af sjó.  Þessir menn voru fluttir í sjúkrahúsið hér er togarinn Hafliði kom hingað inn til ísafjarðar klukkan 1,30 í dag með áhöfn Fylkis. Hér höfðu þeir nokkurra klst. viðdvöl og var þá boðið til kaffidrykkju í Uppsölum af Útgerðarfélaginu ísfirðingi h.f.  Í kvöld héldu þeir áleiðis til Reykjavíkur með skipi og eru væntanlegir þangað árdegis í dag. Þeir sem fluttir voru í sjúkrahúsið koma þó ekki með hópnum. Togarinn Fylkir var 677 tonna skip. Aðalsteinn heitinn Pálsson keypti það til landsins fyrir samnefnt hlutafélag og var hann sjálfur með togarann fyrstu árin, en síðan tók Auðunn Auðunsson við, en hann er einn hinna miklu sægarpa, sona Auðuns Sæmundssonar, sem sjálfur var bræðslumaður á Fylki og lenti í þessum mannraunum með syni sínum og skipsfélögum. Tvisvar hefur Fylkir bjargað nauðstöddum skipum; var það togarinn Gylfi frá Patreksfirði í annað skiptið, er eldur kom upp í skipinu, en þá dró Fylkir togarann hingað inn til Reykjavíkur brennandi. í hitt skiptið var það erlent vöruflutningaskip sem var í nauðum statt í stórviðri úti fyrir suðurströnd landsins. Togarinn Fylkir er þriðji nýsköpunartogarinn, sem ferst. Hann var löngum eitt af aflasælustu skipum flotans.



Framskipið og bakkinn.                                                                    (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Skipshöfnin á Fylki sem komst af  Samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Einarssyni, forstöðumanni skrifstofu lögskráningar skipshafna, voru þessir menn á Fylki í þessari síðustu veiðiferð skipsins: Auðunn Auðunsson, skipstjóri, Gunnar Hjálmarsson, 1. stýrim., Lundi við Nýbýlaveg. Valdimar Einarsson, 2. stýrim., Nesvegi 66. Viggó Gíslason, 1. vélstjóri, Mávahlíð 24. Guðmundur í. Bjarnason, 2. vélstjóri, Kvisthaga 21. Þórður Hannesson, 3. vélstjóri, Hverfisgötu 96. Jörundur Sveinsson, loftskeytam., Litla-Landi, Mosfellssveit. Þorbjörn Þorbjörnsson, bátsm., Birkimel 6A. Emil Pálsson, 1. matsveinn, Vestmannaeyjum. Karl Jóhannsson, 2. matsveinn, Akurgerði 8. Einar Steingrímsson, kyndari, Reykjahlíð 10. Auðunn Sæmundsson, bræðslumaður, Miklubraut 62. Magnús G. Jóhannsson, netam., Akranesi. Rafn Kristjánsson, netamaður, Lækjargötu 12. Steingrímur Elíasson, netamaður. Stað, Seltjarnarnesi. Jóhannes H. Jónsson, Höfðaborg 39. Magnús Jónasson, háseti, Skipasundi 13. Ólafur Halldórsson, háseti, Eskihlíð 12B. Guðmundur Guðlaugsson, háseti, Tálknafirði. Hafsteinn Gunnarsson, háseti, Höfðaborg 41. Árni Konráðsson, háseti, Bergþórugötu 41. Þór G. Jónsson, háseti, Víðimel 49. Ari Jóhannesson, háseti, Vesturgötu 55. Kristmundur Þorsteinsson, háseti, Flókagötu 18. Gunnar Eiríksson, háseti, Vestmannaeyjum. Guðjón Sigmundsson, háseti, skála við Faxaskjól. Ragnar Zophóníasson, háseti, Mávahlíð 9. Ásgeir Þorsteinsson, háseti, Borgarholtsbraut 30A, Kópav. Friðþjófur Strandberg, háseti, Rvík. Heimilisfang ókunnugt. Indriði Indriðason, háseti, Hverfisgötu 98A. Njáll Guðmundsson, háseti, Skipasundi 3. Benedikt Kristinsson, háseti, Hjallavegi 10.

                                                                           Heimildir; morgunblaðið 15 nóv 1956.

                                                                                         Íslensk skip.

Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57