04.01.2016 20:38
Gerpir NK 106 við komuna til Neskaupstaðar 16 janúar 1957.
Togarinn Gerpir NK 106 við komuna til
Neskaupstaðar í fyrsta sinn. Norðfirðingar fögnuðu ákaft komu Gerpis með
veglegum hátíðarhöldum. Skólar gáfu frí, verslanir voru lokaðar og vinna féll
niður í bænum. Gerpir kom til Neskaupstaðar á hádegi, miðvikudaginn 16 jan
1957. Hann sigldi fánum skreyttur inn á höfnina, sigldi þar í einn hring og
heilsaði. Þar mætti hann togaranum Ingólfi Arnarsyni RE 201, fyrsta
Nýsköpunartogaranum sem komið hafði til landsins rétt tæpum tíu árum áður og
skiptust þeir á kveðjum. Mikill mannfjöldi hafði þá þegar safnast á innri
bæjarbryggjuna til þess að fagna hinu nýja skipi. Yfir hana hafði verið
strengdur borði með áletruninni; Velkominn Gerpir."Fánar voru við hún um
allan bæ, skólabörn gengu skrúðgöngu með fána frá barnaskólanum niður á bryggju
og var það mjög hátíðleg og fögur sjón. Lúðrasveit Neskaupstaðar lék nokkur
valinkunn lög og Söngkór Neskaupstaðar söng. Ræður fluttu margir við þetta
tækifæri, m.a. Bjarni Þórðarson bæjarstjóri og ávarpaði skipshöfnina og bauð
hana og skipið velkomið og árnaði þeim allra heilla, og sagði í lok ræðu
sinnar, megi gæfan fylgja togaranum Gerpi, skipstjóra hans og áhöfn allri. Mannfjöldinn
tók undir árnaðaróskir Bjarna bæjarstjóra með kröftugu, ferföldu húrrahrópi. Magnús
Gíslason var fyrsti skipstjóri á Gerpi, Birgir Sigurðsson 1 stýrimaður og
Guðmundur Jónsson 2 stýrimaður. 1 vélstjóri var Hjörtur Kristjánsson, Magnús
Hermannsson 2 vélstjóri, Herbert Benjamínsson bátsmaður og Ragnar Sigurðsson
var loftskeytamaður. Gerpir var smíðaður hjá A/G Weser-Werk í Bremerhaven í
V-Þýskalandi 1956. 804 brl. með 1470 ha. MAN díesel vél.
Togarinn Gerpir NK 106. Ljósm: Sigurjón Kristjánsson frá Neskaupstað.