01.02.2016 09:33
220. Víkingur AK 100. TFJL.
Margt hefur á daga skipsins drifið síðan og mikinn afla hefur það flutt að landi. Margs konar veiðar hefur það stundað og breytingar hafa verið gerðar á skipinu í tímans rás en þó óverulegar á útliti og mun minni breytingar en á mörgum öðrum íslenskum fiskiskipum.
Smíðin og heimkoman.
Víkingur var smíðaður í Bremerhaven fyrir Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem var fyrsta almenningshlutafélagið á Akranesi og eitt af fyrstu almenningshlutafélögum landsins. Hlutaféð var 75.000 krónur og hluthafarnir 180 talsins. Skipinu var hleypt af stokkunum 5. maí þetta ár og Rannveig Böðvarsson, eiginkona Sturlaugs H. Böðvarssonar, gaf þá skipinu nafnið Víkingur en Sturlaugur var framkvæmdastjóri SFA þar til Valdimar Indriðason tók við.
Víkingi gefið nafn og honum síðan hleypt af stokkunum 5 maí 1960. Ljósm: óþekktur.
Sjómannablaðið Víkingur sagði svona frá komu togarans Víkings til Akraness árið 1960: "Togarinn Víkingur kom til Akraness þann 21. október s.l. Á hafnargarðinum hafði safnazt saman fjöldi manns, til þess að fagna komu skipsins. Akraborg var stödd við hafnargarðinn og blés ákaft.
Jón Árnason flutti ræðu af brúarvæng og á eftir honum
bæjarstjóri Akraness, Hálfdán Sveinsson. Síðast talaði sóknarpresturinn, sr.
Jón M. Guðjónsson, og blessaði áhöfnina og hið nýja skip. Á eftir var fólkinu
boðið að skoða skipið og var svo margt um manninn að þröngt var um borð.
Víkingur var smíðaður hjá AG Weber Werk. Hann er tæpar 1000
brúttólestir með þriggja hæða yfirbyggingu. Lestin er klædd aluminium, búin
kælitækjum og rúmar 500 lestir af ísfiski. Geymar eru fyrir lifur og slor.
Siglingar- og fiskileitartæki eru af fullkomnustu gerð. Vistarverur prýðilega
gerð, 2-3 manna káetur, auk þeirra, sem yfirmönnum eru ætlaðar.
Víkingur gekk á heimleiðinni til jafnaðar 14,5 sjómílur og
var 85½ klukkutíma frá Bremerhaven eða rúmlega 3½ sólarhring.
Víkingur AK kemur úr fyrstu veiðiferð sinni í nóv 1960. Ljósm: óþekktur.
Systurskipin fjögur.
Skipasmíðastöðin í Bremerhaven, sem smíðaði Víking, hafði áður smíðað fimm togara fyrir Íslendinga og þrír þeirra voru systurskip Víkings en það voru Sigurður, sem kom til landsins mánuði á undan Víkingi, Freyr og Maí. Sigurður var upphaflega skráður á Ísafirði, síðan í Reykjavík og síðustu árin í Vestmannaeyjum. Það skip hefur verið með svipaðan feril og Víkingur alla tíð, fyrst á togveiðum en síðan á nót. Hin skipin voru seld úr landi fljótlega og annað þeirra, Freyr, kom talsvert við sögu í þorskastríðunum hér við land undir nafninu Ross Revence.
Í nánari lýsingu á þessum skipum í sjómannablaðinu
Víkingi árið 1960 kom m.a. þetta fram:
"Aðalvélin er Werspoor-Dieselvél, 2300 hestöfl við 280 snúninga. Vélin er með skiptiskrúfu af "Escher Wyss" - gerð, er tengingin svokölluð "Wulkan Kupplung": Skiptiskrúfunni er hægt að stjórna frá stýrishúsi og einnig þaðan er hægt að taka skrúfuna úr sambandi við aðalvélina. Við hana er tengdur stór rafall og þarf ekki að nota hjálparvélar til rafmagnsframleiðslu, hvorki fyrir togvindu né fyrir ljósnet, þegar verið er á siglingu eða að veiðum. Hjálparvélar eru tvær 200 ha. Deutz með 120 Kw rafal og ein 70 ha. með 30Kw. rafal. Kælivélar eru tvær af Atlas-gerð. Stýrisvél er af Atlas-gerð. Rafmagnsvökvadrifin með tvöföldu kerfi. Togvindan er af Achgehles-gerð, rafmagnsdrifin, 280 ha., útbúin með lofthemlum og tvöföldu vírastýri.Íbúðir eru allar mjög vandaðar, mest fjögurra manna herbergi, en mörg eins og tveggja manna herbergi, einnig er sjúkraherbergi miðskips. Alls eru íbúðir fyrir 48 menn.
Víkingur AK 100 við bryggju á Reyðarfirði um 1980. (C) Mynd: Magnús Þór Hafsteinsson.
Björgunarbátur er fyrir 48 menn. Stendur hann undir vinduglu og getur einn maður hæglega komið honum fyrir borð. Sex gúmmíbjörgunarbátar eru fyrir 72 menn.
Skipið er útbúið með toggálgum beggja megin, eins og
venjulega er á íslenzkum togurum, en komið hefur fyrir á sérstökum túllum til
að auðvelda að taka inn bobbingana. Frammastrið er með rörstöngum en ekki
venjulegum vöntum. Afturmastrið er lítið og létt og komið fyrir ofan á
stýrishúsinu. Yfirbyggingin er þrjár hæðir. Ofan á stýrishúsinu beggja megin
eru smágálgar. Stefni skipsins er framhallandi perlulagað. Allur er frágangur
hinn vandaðasti og mjög fullkominn."
75 þúsund urðu 75 milljónir.
Samkvæmt heimildum kostaði Víkingur nýsmíðaður 41 milljón
króna. Þegar Sturlaugur H. Böðvarsson og fulltrúar útgerða Maí, Freys og
Sigurðar komu til Þýskalands að ganga frá smíðasamningi var Sturlaugur spurður
að því hve mikið hlutafé Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar væri. Sturlaugur
svaraði samviskusamlega að það væri 75.000 krónur enda hafði það ekkert verið
aukið eða uppfært í áratugi. Eitthvað misskildu Þjóðverjarnir þetta og töldu
það vera 75 milljónir. Um þetta var ekki rætt meira og ekki datt Akurnesingunum
í hug að leiðrétta þetta hjá þeim þýsku.
Víkingur við bryggju á Akranesi stuttu áður en hann var seldur í brotajárn. (C) Mynd: Skessuhorn.
Grænn, rauður og blár.
Víkingur AK 100 var lengi framan af grænn á lit eða á meðan
hann var í eigu Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness hf. SFA sem átti
Heimaskaga hf. að mestu frá 1971 var sameinað í Harald Böðvarsson hf. 1991. Þá
fékk Víkingur AK um tíma dökkbláan lit eftir að sá litur var innleiddur á skip
HB. Síðan urðu HB skipin rauð. Haustið 2002 gekk HB inn í sjávarútvegsstoð Hf.
Eimskipafélags Íslands sem varð sjálfstætt félag sem hlaut nafnið Brim hf. Þar
voru tvö önnur rótgróin og öflug sjávarútvegsfyrirtæki, Útgerðarfélag
Akureyringa og Skagstrendingur á Skagaströnd. Það varð síðan, við uppstokkun
Eimskips, að HB sameinaðist Granda hf. í janúar 2004. Nafni Granda hf. var þá
breytt í HB Granda hf.og síðustu árin hefur blár litur þess fyrirtækis prýtt
Víking AK 100.
Víkingur AK í Greena í Danmörku, en þangað var hann seldur í brotajárn í júlí 2014. Þetta er sennilega með síðustu myndum sem teknar voru af þessu mikla skipi með langa og farsæla sögu að baki. Ljósm: óþekktur.
HB Grandi hefur selt Víking AK-100 til
Danmerkur fyrir 2,1 milljónir danskra króna eða rúmar 43 milljónir íslenskra
króna. Víkingur AK er mikið og þekkt aflaskip sem hefur reynst eigendum þess
vel alla tíð. Skipið var smíðað í Þýskalandi árið 1960 og er því 54 ára.
Víkingur AK landaði síðast loðnu á vertíðinni 2013 en er í prýðilegu
ásigkomulagi miðað við aldur og fyrri störf. HB Grandi er nú að láta smíða
tvö ný uppsjávarveiðiskip og hyggst auk þess láta smíða þrjá ísfisktogara í
Tyrklandi. Því var við þessari ákvörðun búist, en engu að síður verða margir
sem munu sakna Víkings AK frá Akranesi enda skipið samofið útgerðarsögu
bæjarins í meira en hálfa öld.
Skessuhorn, 2 júlí 2014.
Heimild: Skessuhorn, 42 tbl. 2010.
Haraldur Bjarnason.