09.02.2016 14:00

Kútter Sigga.

Kútter Sigga var smíðuð í Danmörku árið 1900. Var með 10 ha. hjálparvél af Dan gerð. Kútterinn var gerður út til handfæraveiða á sumrin, en sigldi annars með vörur. Sigga var gerð út frá Norðfirði fyrstu tvö árin en eigandi hennar, Sveinn Sigfússon kaupmaður á Nesi fluttist til Hafnarfjarðar árið 1902 og gerði skipið út þaðan um skeið. Árið 1904 selur Sveinn kútterinn til Duus-verslunar í Reykjavík og fékk hann nafnið Ingvar hjá þeim.

Kútter Sigga í Kaupmannahöfn.   Mynd úr bókinni, Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu. Útg. 1983.

 Ingvar fórst í ofsaveðri þann 7 apríl árið 1906, skammt undan landi í Viðey ( Hjallaskeri ) með allri áhöfn, 20 mönnum ( sumar heimildir segja 19 ) Slys þetta er talið eitt hörmulegasta sjóslys við Íslandsstrendur, enda urðu margir Reykvíkingar sjónarvottar að slysinu án þess að nokkur gæti komið áhöfninni til bjargar. Í þessu sama óveðri strönduðu einnig tvö þilskip við Mýrar og fórust þar með allri áhöfn, þannig að alls fórust 68 menn með þessum þremur skipum.

Kútter Ingvar að farast á Hjallaskeri við Viðey. Myndin er á kápu Xll bindis þrautgóðra á raunastund og er eftir Pétur Halldórsson.

Í óveðrinu sem tók nokkra daga tók einnig tvo aðra sjómenn út af skipum sínum, svo alls fórust 70 sjómenn þennan örlagaríka dag. Dagurinn eftir slysið var pálmasunnudagur, sem var lýst sem all dauflegum, og var öll páskavikan í Reykjavík sannkölluð sorgarvika. Skipstjóri á Ingvari var Tyrfingur Magnússon og stýrimaður var Júlíus Arason.

Minningarræða yfir áhöfninni af Ingvari sem haldin var í Dómkirkjunni í Reykjavík 20 apríl 1906 af séra Ólafi Ólafssyni Fríkirkjupresti.

Kútter Sophie Wheatly RE 50 er fórst við Mýrar með allri áhöfn 7 apríl 1906. Skip þetta var upphaflega smíðað sem trúboðaskip árið 1887, en var síðar keypt til Íslands af þeim Jafet Ólafssyni sem var skipstjóri á skipinu og fórst með því, Thor Jensen og Guðlaugi Torfasyni.  
Flettingar í dag: 787
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194562
Samtals gestir: 83786
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:32:45