12.02.2016 10:52

Íslenzkar eimskipamyndir.

 Árið 1931 efndi Tóbaksverslun ríkisins til markaðsátaks og auglýsti að þeir sem keyptu pakka af bresku sígarettunum Commander fengju í kaupbæti mynd af íslensku skipi í boði Eimskipafélags Íslands. Alls voru 50 myndir gefnar út af þessu tilefni. Aftan á hverri mynd eru prentaðar upplýsingar um viðkomandi skip, útgerð þess og útgerðarstað. Myndirnar eru að sjálfsögðu sögulegur fjársjóður.


Gullfoss l. LCDM / TFGA. Smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1915. Smíðanr: 124. 1.414 brl. 1.200 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið var hertekið af Þjóðverjum, 9 apríl 1940. Gullfoss fannst svo í Kiel í maí 1945, þá mjög ílla farið. Selt til Færeyja árið 1946, hét þar Tjaldur og svo seinna Gamla Tjaldur. Rifinn í brotajárn í Hamborg árið 1953.


Goðafoss ll. LDCQ / TFMA. Smíðaður hjá Svendborg Skibsværft A/S Svendborg / Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1921. Smíðanr: 28 / 254. 1.542 brl. 1.100 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skrokkur skipsins var smíðaður í Svendborg en skipið var klárað hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn. Þess vegna eru tvö smíðanúmer á skipinu. Goðafossi var sökkt út af Garðskaga, 10 nóvember 1944 af þýska kafbátnum U-300. 43 fórust en 19 var bjargað við erfiðar aðstæður.

 
Lagarfoss l. LBHC / TFLA. Smíðaður hjá Nylands Verksted Kristjaníu í Noregi árið 1904. Smíðanr: 146. 1.211 brl. 700 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið var smíðað fyrir Hans Kier & Co í Drammen í Noregi og hét fyrst Profit. Kemst í eigu Eimskips í febrúar 1917 og fær nafnið Lagarfoss. Skipið var selt til Danmerkur árið 1949 og hafði þá verið í eigu Eimskipafélagsins í 32 ár, lengst allra skipa þess.


Það var hægt að fá möppur undir myndirnar í þessum bleika lit og einnig í bláum. Hvort það hafi verið fleiri litir veit ég ekki, en betra er að hafa þær í svona möppu upp á varðveðslu þeirra að gera. Ég vil geta þess að þegar ég byrjaði að safna þessum myndum, þá tók það mig innan við eitt ár að ná þeim öllum saman. Ennþá virðist mikið vera til af þessum ágætu myndum, eða mætti segja frekar fjársjóði.
                                                                             
                                                                         (C) Myndir: Úr myndasafni mínu.

 

Flettingar í dag: 787
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194562
Samtals gestir: 83786
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:32:45