11.03.2016 22:10

Íslenzkar eimskipamyndir ll.

Á þessu ári eru liðin ein 85 ár frá því að eimskipamyndirnar voru gefnar út en það var árið 1931. Þær voru í sígarettupökkum sem nefndust Commander og voru gefnar út af Tóbaksverslun Íslands h/f í samstarfi við Westminster Tobacco Co Ltd í London.


Brúarfoss l. LCKM / TFUA. Smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1927. Smíðanr: 181. 1.579 brl. 1.000 ha. B&W gufuvél. Eimskipafélag Íslands lét smíða frystiskip hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1927 og hlaut það nafnið Brúarfoss og var fyrsta Íslenska sérsmíðaða frystiskipið og olli smíði hans kaflaskiptum í útflutningi á landbúnaðarvörum. Áhöfnin á Brúarfossi bjargaði á stríðsárunum skipbrotsmönnum á tveimur skipum sem hafði verið sökkt. Þann 22 maí 1941 bjargaði hún 34 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Rothermere þar sem þeir voru að hrekjast um í björgunarbát undan suðurodda Grænlands. Ári síðar, 4 nóvember 1942, bjargaði hún svo 44 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Daleby sem sökkt var af Þýskum kafbát. 11 apríl 1948 strandaði Brúarfoss í Húnaflóa og fór viðgerð á skipinu fram í Leith í Skotlandi. Var vélum skipsins þá breytt frá kolakyndingu í olíukyndingu. Brúarfoss var seldur 10 júní 1957, Freezer Shipping Line Inc í Líberíu, hét Freezer Queen. Skipið var selt Jose A Naveira í Líberíu, hét Reina Del Frio. Árið 1960 var skipið skráð í Argentínu, sami eigandi. Árið 1964 skemmdist skipið af eldi er það var statt á Rosario fljótinu í Argentínu og var því lagt þar. Eftir brunann lá það í níu ár og var loks rifið árið 1973. Brúarfoss var síðasta olíukynta gufuskipið í eigu Eimskipafélags Íslands.


Selfoss l. LCFM / TFEB. Smíðaður hjá Porsgrund Mekanik Verksted í Porsgrund í Noregi árið 1914 fyrir A/S D/S Jyden ( J Villemoes ) í Esbjerg í Danmörku og fékk nafnið Villemoes. Smíðanr: 72. 775 brl. 550 ha. gufuvél. Ríkissjóður Íslands keypti skipið í maí 1917 og var nafni skipsins haldið óbreyttu. Eimskipafélagi Íslands var falinn rekstur skipsins og var það haft í millilandasiglingum, en hafði einnig viðkomu í innanlandshöfnum. Auk þess var það  um tíma í leigusiglingum vestan hafs. Eftir að flutningar á olíu höfust með tankskipum hér við land árið 1928 hafði ríkissjóður ekki lengur þörf fyrir Villemoes, en hann hafði annast flutninga á olíu í tunnum til innanlandshafna. H/f Eimskipafélag Íslands keypti þá skipið og fékk það nafnið Selfoss l. Selfoss var í förum milli Íslands og Evrópulanda, en hóf Ameríkusiglingar á árum seinni heimstyrjaldarinnar. Selfoss var í tveggja mánaða leigu hjá Bandaríkjamönnum árið 1943 og þá í siglingum við vesturströnd Grænlands. Í stríðslok hóf skipið aftur Evrópusiglingar. Hinn 19. desember 1950 lenti Selfoss í árekstri við danska skipið Skjold, sem var í eigu DFDS, á Schelde-fljóti þegar skipið var nýlagt af stað frá Antwerpen til Íslands. Talsverðar skemmdir urðu á skipinu sem snéri aftur inn til Antwerpen þar sem viðgerð fór fram á því. Árið 1956 var Selfoss seldur til niðurrifs í Belgíu og afhentur þar 9. febrúar sama ár. Selfoss var síðasta kolakynta gufuskipið í eigu Eimskipafélagsins. 

Dettifoss l. LCKR / TFDA. Smíðaður hjá Frederikshavn Værft & Flydedok A/S í Frederikshavn í Danmörku árið 1930. Smíðanr: 190. 1.564 brl. 1.500 ha. B&W gufuvél. Var skipinu einkum ætlað til vöruflutninga milli Hamborgar, Hull og Íslands. Árið 1936 voru gerðir sölusamningar við Englendinga um kaup á freðfiski. Þar sem Brúarfoss l var þá eina frystiskipið í eigu félagsins varð úr að Fiskimálanefnd veitti Eimskipafélaginu styrk til að láta breyta lestarrími í Dettifossi að hluta í frystirými. Dettifoss var í siglingum milli Íslands og Evrópu fram að heimstyrjöldinni síðari, en hóf þá Ameríkusiglingar. Undir lok styrjaldarinnar tók hann að hafa viðkomu í Englandi á ný. Í mars 1932 bjargaði áhöfn Dettifoss skipshöfn þýska togarans Lubeck sem hafði strandað á skeri í Herdísarvík. Var áhöfn heiðruð af Hindenburg forseta Þýskalands fyrir björgunina. Í desember 1938 bjargaði áhöfnin svo þremur mönnum af fiskiskipinu Rafni EA er það sökk á leið frá Þingeyri til Reykjavíkur. 21. febrúar 1945 sökkti þýski kafbáturinn U-1064, undir stjórn K-H.Schneidewind, Dettifossi með tundurskeyti. Var skipið þá statt í Írlandshafi um 30 sjómílur SA af Dublin og fórust tólf skipverjar og þrír farþegar. Var skipið á leið frá Belfast til Reykjavíkur í skipalest UR-155 og var Dettifoss eina skipið sem kafbáturinn U-1064 sökkti í stríðinu.
                                                                              Heimildir: H/f Eimskipafélag Íslands í 100 ár.
                                                                              (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.


Flettingar í dag: 213
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 434
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 1075025
Samtals gestir: 77562
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 13:00:16