22.04.2016 10:35
E.s. Villemoes. NSMP / LCFM / TFEB.
Villemoes var smíðað hjá Porsgrund Mekaniks Verksted í Porsgrund í Noregi árið 1914 fyrir A/S D/S Jyden ( J
Villemoes ) í Esbjerg í Danmörku og fékk nafnið Villemoes. Smíðanr: 72. 775
brl. 550 ha. gufuvél. Ríkissjóður Íslands keypti skipið í maí 1917 og var nafni
skipsins haldið óbreyttu. Eimskipafélagi Íslands var falinn rekstur skipsins og
var það haft í millilandasiglingum, en hafði einnig viðkomu í innanlandshöfnum.
Auk þess var það um tíma í leigusiglingum vestan hafs. Eftir að
flutningar á olíu hófust með tankskipum hér við land árið 1928 hafði
ríkissjóður ekki lengur þörf fyrir Villemoes, en hann hafði annast flutninga á
olíu í tunnum til innanlandshafna. H/f Eimskipafélag Íslands keypti þá skipið
og fékk það nafnið Selfoss l. Selfoss var í förum milli Íslands og Evrópulanda,
en hóf Ameríkusiglingar á árum seinni heimstyrjaldarinnar. Selfoss var í
tveggja mánaða leigu hjá Bandaríkjamönnum árið 1943 og þá í siglingum við
vesturströnd Grænlands. Í stríðslok hóf skipið aftur Evrópusiglingar. Hinn 19.
desember 1950 lenti Selfoss í árekstri við danska skipið Skjold, sem var í eigu
DFDS, á Schelde-fljóti þegar skipið var nýlagt af stað frá Antwerpen til
Íslands. Talsverðar skemmdir urðu á skipinu sem snéri aftur inn til Antwerpen
þar sem viðgerð fór fram á því. Árið 1956 var Selfoss seldur til niðurrifs í
Belgíu og afhentur þar 9. febrúar sama ár. Selfoss var síðasta kolakynta
gufuskipið í eigu Eimskipafélagsins.
E.s. Villemoes. Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk