24.05.2016 10:21

E.s. Magni l. Dráttar og Hafnsöguskip. TFHB.

Magni var smíðaður hjá Reiherstieg Schiffwerft í Hamborg árið 1920. Hét fyrst Minna Schupp, 110,5 brl. 325 ha. 2 þjöppu gufuvél. Eigandi var Hafnarnefnd Reykjavíkur frá 18 júní árið 1928. Kom fyrst til heimahafnar 7 júlí það ár. Magni var talinn ónýtur árið 1955 en skrokkur hans var lengi notaður sem flotbryggja fyrir hafnsögubáta Reykjavíkurhafnar.


Magni l á Reykjavíkurhöfn stuttu eftir komu hans til landsins.                              Ljósmyndari óþekktur.


Magni l stuttu áður en hann var tekin úr notkun.                                             Ljósm: Hannes Pálsson.


E.s. Minna Schupp í slipp í Hamborg vorið 1928.                                               Ljósmyndari óþekktur.

Grípum hér aðeins niður í frásögn Geirs Sigurðssonar skipstjóra um kaupin á Magna, en hann var einn þeirra sem fór til Þýskalands vorið 1928 þeirra erinda að fá dráttarskip fyrir Reykjavíkurhöfn,;

Það var snemma á árinu 1928, að hafnarnefnd Reykjavíkur ákvað að festa kaup á dráttarbát handa Reykjavíkurhöfn. Áður hafði verið notast við mótorbáta, sem að vísu voru góðir, svo langt sem þeir náðu, en gátu ekki með nokkru móti annað hlutverki sínu lengur, ekki síst eftir að skipakomur tóku stórlega að aukast til Reykjavíkur og skipin jafnan að stækka, sem hingað komu. Mótorbátarnir voru of afllitlir og gátu því ekki veitt þá aðstoð, sem nauðsynlegt var, einkum ef einhver vindur var, en hér er sjaldnast logn eins og alkunna er.
Svo var ráð fyrir gert, að báturinn ætti að vera byggður sem ísbrjótur, og svo stór, að nota mætti skipið í smá björgunarleiðangra í nágrenni Reykjavíkur. Þórarni Kristjánssyni hafnarstjóra, þeim mæta manni, höfðu borist mörg tilboð í slíka dráttarbáta, og fól hafnarnefnd honum og mér að velja úr þeim og gera tillögu um kaup á bátnum. Er skemmst af að segja, að við fórum utan í maímánuði 1928, og festum kaup á ísstyrktum dráttar- og björgunarbáti, e.s. "Minna Schupp" frá Hamborg. Kom báturinn hingað til Reykjavíkur 7.júlí.
Báturinn, sem hlaut nafnið "Magni", var smíðaður hjá Reiherstieg Schiffwerft í Hamborg árið 1920, 26,6 metra langur, 6 metra breiður og 110,5 brúttólestir að stærð. Skrokkurinn var gerður úr 13 mm. Plötum að framan, aftur að vélarrúmi, og 10 mm. Plötum þar fyrir aftan. Vélin var 325 hestöfl.
Koma "Magna" til Reykjavíkur var merkisatburður í sögu hafnarinnar og bæjarins, og var nú sýnt, að Reykjavík var í alvöru að slíta barnsskónum sem nútíma hafnarborg.

Endurminningar Geirs Sigurðssonar skipstjóra. Bls.102-103. Setberg 1955.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30