28.05.2016 10:25
Geir. Björgunarskip. NRBT / OXVC.
Björgunarskipið "Geir" var sérstaklega smíðað til
björgunar og viðgerðar við strendur Íslands, og var það eitthvert vandaðasta
björgunarskip, sem þá var til í heiminum. Skipið var smíðað í Gestemunde í
Þýzkalandi árið 1909, og hafði það öll hin fullkomnustu björgunartæki, sem þá
var völ á, þar á meðal margar mótordrifnar dælur bæði 3t., 4t., 6t. og 8t. og
vanalegar 26t. dælur. Einnig voru gufudælur 6 og 8 t. og sérstakur flytjanlegur
gufuketill var einnig á skipinu. öllum þessum dælum fylgdu fyrnin öll af
slöngum, en í vélarúmi skipsins voru svokallaðar fastadælur, sem ekki voru
flytjanlegar, þar á meðal 4 t. stimpildælur til eldvarna (Þrýstidælur). Þar var
einnig stærsta dæla skipsins, 15 t. dæla, sem sogaði að sér með 5-6 t. slöngum.
Geir var einnig útbúinn með sérstaklega sterku ankerisspili og rammgerum
lyftitækjum, en við björgunarstarfið var bæði notað vélaafl skipsins, ankerin
og hið sterka spil, svo og öll sjómennskukunnátta til hins ýtrasta. Voru
notaðar margskonar talíur til gufuspilanna. Í vélarrúmi skipsins var eitt hið
fullkomnasta viðgerðaverkstæði, og þar á meðal fyrstu þrýstiloftsverkfæri, er
til landsins komu. Þegar um björgun skipa var að ræða, var unnið nótt og dag,
og voru allir til aðstoðar, þar sem helzt þurfti í það og það skiptið, og var
maður þá, eins og skiljanlegt er, til aðstoðar við öll þessi margvíslegu tæki,
og var auðvitað mikið að læra og margvíslegar nýjungar að sjá fyrst í stað. Öll
þessi áhöld voru reynd vikulega og vel við haldið, svo og öllu skipinu, enda
þótti "Geir" hin mesta bæjarprýði".
Sjómannablaðið Víkingur. 7-8 tbl. 1951. Viðtal við Ársæl
Jónasson kafara sem var um tíma á Geir.