21.06.2016 08:49

Kútter Bergþóra RE 54. LBPM.

Bergþóra RE 54 var smíðuð í Englandi árið 1881. Eik 85 brl. Eigandi var Jón Jónsson í Melhúsum á Seltjarnarnesi frá 10 september árið 1897. Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ á Seltjarnarnesi eignast Bergþóru árið 1902 eða 1903. Hún var svo seld til Færeyja 16 febrúar árið 1914.


Kútter Bergþóra RE 54 á Reykjavíkurhöfn.                                                  Ljósm: Magnús Ólafsson.

Mánudaginn 5. September árið 1904 varð hrapallegt slys vestur á Patreksfirði. Þar var nýkomin inn á skipaleguna fiskiskútan Bergþóra frá Nýjabæ á Seltjarnarnesi, eign Guðmundar bónda Ólafssonar. Skipstjórinn, Sigurður Guðmundsson, fór í land og ætlaði að festa kaup á ís til beitugeymslu. Gekk það vel og fékk hann vilyrði um ísinn. Fór síðan um borð aftur til að sækja meiri mannafla, og kvaddi til ferðar með sér stýrimann og 8 háseta. Þegar kænan var að leggja af stað frá skipinu, báðu þrír af skipverjum þeim, sem eftir voru, um leyfi til að fara yfir í aðra fiskiskútu, Gunnvöru, er lagzt hafði örskammt í burtu. Var þeim veitt leyfið og stigu þeir út í skipsbátinn, sem þó var fullhlaðinn áður. Tók þegar að renna inn í hann sjór að afta, og sáu allir, að fyllast myndi. Ruddust þá einhverjir fram í ofboði, en við það stakkst kænan á endann og sökk með alla mennina, þrettán saman. Kom hún ekki upp fyrr en löngu síðar, né heldur mennirnnir. Skipstjóri á Gunnvöru lét þegar höggva bátinn þar úr tenglsum og hleypa niður. Jafnframt var kastað út köðlum og bjarghringum, því að slysið vildi til rétt hjá, og sáu Gunnvarar-menn það margir. En allt kom fyrir ekki. Mönnunum sást ekki skjóta upp, fyrr en eftir langan tíma, og voru þá allir drukknaðir.
Veður var hvasst nokkuð á norðan, en sjólaust þó inni á höfninni.
Líkin fundust öll nema eitt. Voru þau flutt til Reykjavíkur og jarðsungin þar, tólf saman.

Heimild: Skútuöldin lll bindi bls. 304-305.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30