30.06.2016 10:50

Reykjavíkin. Tvísiglt skip með skonnortulagi.

Reykjavíkin var smíðuð í Danmörku árið 1872. Eik og fura 27,38 brl. Vélarlaus. Eigendur voru Geir Zoega kaupmaður í Reykjavík, Jón Þórðarson útvegsbóndi í Hlíðarhúsum í Reykjavík og Kristinn Magnússon óðalsbóndi og skipasmiður í Engey. Um árið 1885 keypti Geir Zoega hlut þeirra Jóns og Kristins í skipinu. Reykjavíkin fórst á Bollarifi á Faxaflóa um mánaðarmótin mars, apríl árið 1889 með allri áhöfn, 10 mönnum. Skipstjóri á Reykjavíkinni þá var Einar Sigurðsson frá Bræðraborg í Reykjavík, ættaður frá Vestmannaeyjum.


Reykjavíkin undir fullum seglum.                               Mynd eftir málverki Benedikts Gröndals frá 1876.


Árið 1865 varð harla merkilegt í ævi Geirs Zoega. Þá höguðu örlögin svo málum, að brotið var blað í sögu hans. Á því ári var lagður sá grunnur, sem þilskipaútgerðin við Faxaflóa reis upp af á næstu áratugum. 
Þeir félagar, Geir Zoega, Jón Þórðarson í Hlíðarhúsum og Kristinn Magnússon í Engey, gerðu sér þess ljósa grein þegar í upphafi, að ætti að fá úr því skorið til hlítar, hvort þilskipaútgerð frá Reykjavík gæti orðið arðbær atvinnurekstur, þyrfti að vera völ á nýju og góðu skipi til veiðanna. Tókst þeim að festa kaup á danskri skútu, er þeir álitu hentuga í þessu skyni. Að vísu var hún ekki alveg ný, hafði verið smíðuð í Middelfart í Danmörku árið 1861, en var talin góð og þægileg fleyta, 13,5 brl að stærð. Hún hét Fanny.


Fanny og Reykjavíkin á sundunum við Reykjavík.       Mynd af málverki Ólafs A Ólavsens kaupmanns.


Það má ætla að Geir og félagar hans hafi verið ánægðir með reikninga skips síns haustið 1872. Nú höfðu þeir hlotið sönnun þess að þilskipaútgerð frá Reykjavík gat borgað sig. Þeim hafði ekki glapist sýn, er þeir lögðu út í þetta ævintýri. Skúturnar voru án efa skip framtíðarinnar, og opnu kænurnar hlutu að þoka að meira og minna leyti fyrir þeim. Tóku nú eigendur Fannyar þá áhvörðun að bæta við öðru skipi fyrir næstu vertíð. Kærðu þeir sig ekkert um aflóga hró, en vildu helst spánýja skútu. 
Fyrir atbeina W. Fischers kaupmanns tókst þeim að klófesta nýsmíðað skip í Danmörku, og stærð þess mældist 27,38 brl. Skipi þessu sigldi til landsins L. Svendsen, hinn sami og stjórnað hafði Fanny tvö næstu árin á undan. Var það hinn 25 mars árið 1873 sem skútan kom til Reykjavíkur. Þetta var tvísiglt skip með skonnortulagi (með tvö siglutré). Hlaut það nafnið Reykjavíkin.

Heimildir: Skútuöldin lll bindi. Gils Guðmundsson. 1977.
Flettingar í dag: 433
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 437
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 1018539
Samtals gestir: 73258
Tölur uppfærðar: 18.10.2024 07:20:03