05.08.2016 09:20

E.s. Ingólfur. LBKF.

Ingólfur var smíðaður hjá Mjellem & Karlsen Verft í Björgvin í Noregi árið 1908 fyrir Gufubátsfélag Faxaflóa h/f í Reykjavík. Stál og tré, 126 brl. 150 ha. 2 þjöppu Compound gufuvél. Kom í fyrsta skipti til Reykjavíkur hinn 9 maí 1908 eftir átta daga heimferð frá Bergen. Ingólfur var fyrsta vélknúða farþega og flutningaskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og hafði íslenskan skipstjóra og íslenska skipshöfn. Ingólfur var í póstferðum í Faxaflóa milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness á árunum 1908 til 1918. Hann fór einnig stöku ferðir til Suðurnesja og vestur á Búðir á Snæfellsnesi. Skipstjóri á Ingólfi var alla tíð Sigurjón Pétur Jónsson, ættaður austan af Eyrarbakka. Ingólfur var seldur til Noregs árið 1919.


Gufubáturinn Ingólfur.                                          Ljósmynd: Magnús Ólafsson. Mynd í minni eigu.

Faxaflóabáturinn nýí, Ingólfur , leggur ekki á stað frá Norvegi hingað fyr en 1. maí. Hann byrjar ferðir sínar hér um flóann á að gizka um miðjan maí. Þarf að hafa tíma til að búa sig, þegar hér er kominn, afla sér vista o.s. frv.

Ísafold 29 apríl 1908.


Faxaflóabaturinn nýi, Ingólfur, hafnaði sig hér í morgun eftir 8 daga ferð frá Björgvin. Skipstjórinn heitir Sigurjón Pétur Jónsson, 27 ára gamall, ættaður af Eyrarbakka (bróðir Sigurðar Iæknis Jónss. í Khöfn); hann hefir átt heima í Stafangri 4 ár, kvæntur þarlendri stúlku og flytja þau sig nú hingað alkomin. Báturinn er nær 70 smálestir að stærð, tekur um 60 farþega í 2. farrými og nál. 40 í 1. farrými, hefir um 9 mílna hraða í vökunni, er smíðaður úr stáli, traustur mjög og vandaður í alla staði. Skipshöfnin hrepti vonzkuveður, blindbyl og rok á miðvikudag suður undan Ingólfshöfða, og gjörir hún mikið orð á því, hve báturinn hafi reynst prýðilega. Hann hefir kostað 66 þús. krónur.

Ísafold 9 maí 1908.


Faxaflóabáturinn nýi, Ingólfur, er nú tekinn við ferðunum um flóann. Fór til Keflavíkur daginn eftir að hann kom hingað og sótti á 4. hundrað manns, auk fullfermis af flutningi. Samtímis sótti Geraldine fólk og flutning suður fyrir Skaga, eins margt og hún tók. Þar með hætti hún áætlunarferðunum, en verður í flutningum áfram hins vegar og fer siðan að stunda fiskiveiðar. Hún hættir við góðan orðstir fyrir flýti og ferðavaskleik; hefir aldrei brugðið út af áætlun i allan vetur, hverju sem viðrað hefir, og hefir skipstjórinn, Jón Árnason, fengið á sig almenningsorð fyrir óvenjumikla atorku og áræði og þar með stilling og gætni, enda komið sér mætavel við ferðafólk fyrir lipurð og alúðlega nærgætni, hann og hans menn. Hann er og allra manna kunnugastur öllum leiðum hér um flóann, þvi mikill söknuður að honum frá þeim starfa. Bót í máli, að hinn nýi skipstjóri á Ingólfi fær og bezta orð hjá þeim, er hann þekkja. Ingólfur mikið sélegur bátur, vandaður að sjá að öllu smíði og haglega fyrir komið farþegarúmi í honum. Hann er dável hraðskreiður, 8 ½ -8 ¾  mílna ferð á vöku. Hann er hið fyrsta alislenzkt farþegagufuskip. Skipshöfn öll islenzk, nema vélstjóri (norskur).

Ísafold 13 maí 1908.


Flettingar í dag: 673
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 2965
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 1197413
Samtals gestir: 83838
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 04:18:58