06.08.2016 11:36

E.s. Ásgeir litli.

Gufubáturinn Ásgeir litli var smíðaður í Gautaborg í Svíþjóð, ókunnugt um smíðaár. 36 brl. 50 ha. gufuvél. Eigandi var Ásgeir G Ásgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður á Ísafirði frá árinu 1889. (Ásgeirsverslunin á Ísafirði). Hann var notaður áður sem fljótabátur í Þýskalandi. Ásgeir var fyrsta vélknúða kaupskip í eigu Íslendings og fyrsti póstbátur á Íslandi, en heimahöfn hans var alla tíð í Kaupmannahöfn. Kom fyrst til Ísafjarðar í júlímánuði árið 1890 eftir vetrardvöl í Færeyjum. Hóf hann fljótlega póstferðir um Ísafjarðardjúp og Jökulfirði og fór öðru hvoru norður í Aðalvík og Hornvík og vestur á firði. Auk póstferðanna var Ásgeir litli í vöruflutningum fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði til útibúanna. Hann aðstoðaði einnig seglskip út og inn sundin á Ísafirði. Árið 1910 hætti hann alveg póstferðum og sigldi eftir það eingöngu fyrir Ásgeirsverslun. Ásgeir litli hætti siglingum árið 1915. Stóð fyrst í stað í upp í slipp, sem gerður hafði verið fyrir hann til að standa í á vetrum (hann var yfirleitt ekki á ferðinni nema á sumrin). Síðan var hann settur upp í fjöru og notaður til íbúðar í nokkur ár og var að lokum rifinn þar.


Ásgeir litli á pollinum á Ísafirði.                                                                   Ljósm: Björn Pálsson.

  Hálfrar aldar afmæli íslenzkra gufuskipa. "Ásgeir litli" var fyrsta íslenzka gufuskipið.

 Ásgeir G. Ásgeirsson kaupmaður og etatsráð - varð til þess að eignast fyrsta íslenzka gufuskipið. Var það »Ásgeir litli,« sem allir eldri ísfirðingar kannast við, og sem smíðaður var til þess að fullnægja samgönguþörfinni um ísafjarðardjúp. Var »Ásgeir litli« svo langt á undan tímanum, þótt lítill væri, að hann var um langt skeið myndarlegasti og þægilegasti flóabáturinn hér á landi. Og stórum betri, miðað við fhitningaþörlina eins og hún var þá, en þeir farkostir sem nú eru tíðastir í Djúpferðum. 30. f. m. voru liðin rétt 50 ár síðan »Ásgeir litli« kom hingað til Ísafjarðar; kom hann 30. júní 1890 og hóf skömmu síðar Djúpferðir, og fór alls 14 áætlunarferðir það sumar, en auk þess aukaferðir í þágu verzlunarinnar, sem hafði fiskimóttöku víðsvegar í Djúpinu og sumstaðar fastar verzlanir, og auk þess á Suðureyri í Súgandafirði og Flateyri í Önundarfirði.

Styrkur til ferðanna var 3 þúsund krónur, og þótti mörgum mikill. Hélzt hann óbreyttur mörg ár, en hækkaði nokkuð síðar, einkum eftir að P. M. Bjarnarson annaðist Djúpferðirnar með gufubátnum Tóta. Djúpferðunum fór smáfjölgandi ár frá ári. Sáu menn skjótt þægindin við fastar áætlunarferðir. Fargjald frá ísafirði til Arngerðareyrar var kr. 2,50 og frá Ísafirði til Hesteyrar kr. 2,00. "Ásgeir litli" var ekkert stórskip, 17 rúmlestir netto, en hafði rúmgóða káetu með stoppuðum bekkjum. Heldur þólti hann hættuskip lítið hlaðinn; talinn hlunnvaltur, en aldrei henti neitt slys í hinum mörgu ferðum litla Ásgeirs, eins og hann var almennt kallaður. Má eflaust þakka það aðgætni skipstjóranna, en þeir voru tveir allan tímann, sem litli Ásgeir var í förum. Fyrst danskur maður, Bley. Kom hann með skipið hingað frá Danmörku, og stýrði honum í mörg ár. Sigldi hann til Danmerkur að haustinu, venjulegast með skipum Ásgeirsverzlunar. Fyrst með skonnortunni S. Louise og síðan með gufuskipinu »Stóra Ásgeir,« sem Ásgeirsverzlun keypti 1902. Þegar Bley hætti skipstjórn á Asgeiri litla tók við henni Ole Andreasen, norskur maður; kom hann hingað til Ásgeirsverzlunar sem seglmakari, og stundaði jafnan þá iðn að vetrinum. 50 ára afmæli Ásgeirs litla, sem brautryðjanda í starfrækslu íslenzkra gufuskipa á að vera lögeggjan til allra ísfirðinga um það, að fá sem allra fyrst farkost í Djúpferðirnar, sem sé ekki minna merkilegur og á undan tímanum en Ásgeir litli var á sínum tíma. Það er öllum Ijóst, að flutningaþörfin hefir margfaldast á síðustu árum, og hitt er þá líka jafn ljóst að þeirri þörf verður ekki forsvaranlega fullnægt með misjöfnum leiguskipum. Til þess að fá varanlegan og góðan farkost um Djúpið er því aðeins tvent fyrir hendi, annaðhvort að kaupa hentugt skip til ferðanna eða láta smíða nýtt skip.

Vesturland 13 júlí 1940.


Flettingar í dag: 609
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 2965
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 1197349
Samtals gestir: 83838
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 03:56:56