14.08.2016 10:27
S. t. Goth FD 52.
Leifar af breska togaranum Goth fundnar eftir 49 ár
STAÐFESTING hefur fengist á því að reykháfurinn sem Helga RE fékk í troll síðastliðinn laugardag og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, er af togaranum Goth frá Fleetwood sem fórst árið 1948 með 21 manns áhöfn. Hannes Þ. Hafstein, fyrrverandi forstjóri Slysavarnafélags Íslands, hafði getið sér til um að reykháfurinn væri af Goth vegna áletrunar á honum.Bretinn Michael Thompson, sem rannsakað hefur sögu breskrar togaraútgerðar og veiðar við Ísland, segir að skrásetningarnúmerið H- 211 sem sást á reykháfnum sé það sem Goth bar áður en hann var seldur frá borginni Hull til Fleetwood árið 1946. Hluti af máluðu skrásetningarnúmeri hefur einnig varðveist á reykháfnum og má þar greina bókstafina F og D. Skrásetningarnúmer Goth í Fleetwood var FD-52.
Þegar blaðamaður Morgunblaðsins hafði samband við Thompson í gær kannaðist hann strax við skráningarnúmerið því hann er einmitt þessa dagana að kanna heimildir um Goth og fleiri togara sem smíðaðir voru í sömu skipasmíðastöð.
Goth var smíðaður árið 1925 og gerður út frá Hull fram yfir stríð. Árið 1939 var skipinu breytt í tundurduflaslæðara og því hlutverki þjónaði hann fram til stríðsloka.Í desember 1946 var skipið selt frá Hull til útgerðarfyrirtækisins Wire Stream Trawlers of Fleetwood í bænum Fleetwood á norðvesturströnd Englands í héraðinu Lancashire. Nafn togarans hélst óbreytt þrátt fyrir eigendaskiptin.
Ætlaði að leita skjóls nær landi
Um miðjan desember 1948 fréttist af Goth vestur á Aðalvík. Síðastur til að heyra frá togaranum var skipstjóri á öðrum togara, Lincoln City frá Grimsby. Það var hinn 16. desember. W. Elliott, skipstjóri á Goth, sagðist þá ætla að leita skjóls nær landi. Allt virtist þá vera með felldu um borð. Eftir þetta fréttist ekkert af Goth.
Þess má geta að Viðar Benediktsson, skipstjóri á Helgu RE, sem fann reykháfinn, er fæddur 14. desember 1948 á Hólmavík. Ljósmóðirin sem tók á móti honum átti í nokkrum erfiðleikum með að komast til móður hans vegna ofviðrisins sem þá geisaði. Líklegt er að Goth hafi farist skömmu síðar.
Skipuleg leit að togaranum hófst í byrjun janúar. Fram kemur í Morgunblaðinu 7. janúar 1949 að deginum áður hafi Geysir, flugvél Loftleiða, flogið könnunarflug yfir svæðinu í tvo og hálfan tíma. Katalínuflugbátur frá Flugfélagi Íslands leitaði meðfram strandlengju Aðalvíkur og meðfram víkum á Ströndunum. Einnig var ráðgert að senda báta til leitar meðfram strandlengju Aðalvíkur og lengra ef þörf þætti á. Hvorki fannst tangur né tetur af togaranum þá né síðar.
Helga RE var á veiðum á 343 faðma dýpi þegar reykháfurinn fannst, en Hannes Þ. Hafstein hefur getið sér þess til að Goth hafi sokkið á grynnra vatni en færst til síðar. Togarinn liggur í halla norðnorðvestur af Halanum.
Goth var 394 tonna togari knúinn kolum. Hann var 147 fet á lengd. Skipstjórinn í síðustu ferðinni, W. Elliott, var 36 ára gamall en flestir áhafnarmeðlimir voru á þrítugsaldri. Yngstur var sextán ára gamall háseti og loftskeytamaðurinn var 19 ára.
Michael Thompson segir að enn eimi nokkuð eftir af andúð gagnvart Íslendingum í bænum, hún sé þó á undanhaldi.
Vikublaðið Fleetwood Weekly News frétti í gær af fundi reykháfsins af Goth. Ritstjóri blaðsins sagðist ætla að hafa ítarlega umfjöllun um fundinn, enda væru margir ættingjar manna, sem fórust, búsettir í bænum.