22.08.2016 08:46

S. t. Imperialist H 143.

Imperialist H 143 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir Hellyers Brothers Ltd í Hull. Skipið var sjósett 13 desember árið 1924 og svo afhent eigendum sínum 23 mars árið 1925. 488 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð ásamt katlinum hjá Amos & Smith í Hull. Smíðanúmer 457. Þann 19 nóvember árið 1931 tók Imperialist ásamt fleiri breskum togurum, þátt í björgun skipverjanna af Grimsbytogaranum Howe GY 177 sem strandaði á skerjum út af Bogevik á Bjarnarey. Þeir voru svo síðar heiðraðir af bretakonungi fyrir þetta björgunarafrek. Skipið var selt 15 október 1934, Newfoundland Trawling Co í St. Johns á Nýfundnalandi, sama nafn. Seldur árið 1938, L' Armement St. Perrals í St. Pierre á Nýfundnalandi, hét Administrateur de Bournat. Skipið var hertekið af bretum árið 1940 og tekið í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari, hét fyrst þar Alastor en fékk svo nafnið, HMT Bretwalda FY 266. Árið 1944 lendir skipið í árekstri við hollenskan kafbát á Clyde fljóti og varð fyrir miklum skemmdum. Skipið var gert upp og selt árið 1946, St. Andrews Steam Fishing Co Ltd í Hull, hét White Nile H 39. Skipið var selt 11 janúar 1947 til Póllands ( Polish Goverment Fleet ), einnig þekkt undir skammstöfuninni D.A.L.M.O.R, hét Jupiter GDY 121. Að lokum var skipið selt í brotajárn árið 1960 og rifið skömmu síðar.


Hellyerstogarinn Imperialist H 143.                                  Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Imperialist H 143 í höfninni í Hull.                                                                     (C) James Cullen.


Tryggvi Ófeigsson skipstjóri og síðar útgerðarmaður í Hafnarfirði og Reykjavík, tók við Imperialist nýsmíðuðum í Hull í mars árið 1925. Grípum hér niður í Tryggva sögu Ófeigssonar þegar hann fer utan til að taka við togaranum;

Seinni hluta janúar 1925 fór ég ásamt nokkrum manna minna út til að sækja Imperialist. Meðal þeirra, sem fóru með mér, voru Sigurður Bjarnason frá Móakoti á Vatnsleysuströnd, Einar frá Hjörskoti á Hvaleyri, Þorgrímur Sveinsson frá Gerðum, Guðmundur Guðmundsson frá Ófeigsfirði, Helgi Jóhannesson loftskeytamaður, Þórður Bjarnason og Sigtryggur Ólafsson, Eyfirðingur, sem fór seinna til Boston á togaranum Rán, sem gerður var þaðan út frá Íslandi um tíma í stríðslokin (1918-1919) Allt voru þetta úrvalstogaramenn.
Imperialist var stærsti togari í eigu Englendinga á þessum tíma, 460 tonn. Hann var 160 feta langur og 27 feta breiður, með 700 hestafla vél. Vandað hafði verið til smíðinnar, og margt var þar um borð frábrugðið því, sem var á öðrum togurum. Hann var fyrsti togarinn sem ég vissi til, með tveimur ljósavélum, og mannaíbúðir voru þar betri en í öðrum togurum, gluggar stærri, góður lúkar og káeta og rúmgóður borðsalur voru niðri í skipinu. Tvö skipstjórnarherbergi, hvort aftur af öðru undir brúnni, misstór, það fremra stærra, og úr því sást til beggja hliða og framundan. Minna herbergið var herbergi flaggskipstjórans. Stýrishúsið var stórt, á þess tíma mælikvarða, og aftur af því var stór loftskeytaklefi, þar sem minn ágæti loftskeytamaður, Helgi Jóhannesson hafði aðsetur sitt. Helgi var öll árin hjá mér á Imperialist, nema við Grænland, 1926, þá var hann veikur og loftskeytamaðurinn var enskur.
Imperialist var afburðamikið skip, óbilugur á framendann, en helst til blautur að aftan eins og mörg Beverleyskip, þar sem áhersla var lögð á toghæfnina.;

Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum þegar Þórarinn Olgeirsson hætti skipstjórn þar árið 1929.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30