06.09.2016 09:23

95. Herðubreið. TFQA.

Strandferðaskipið Herðubreið var smíðað í Greenock í Skotlandi árið 1947 fyrir Skipaútgerð ríkisins. 366 brl. 650 ha. Mirrlees díesel vél. Herðubreið var í strandferðum við Ísland og flutti póst, vörur og farþega. Skipið var selt 25 maí 1971, Norðurverk h/f á Ósum á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. Heimahöfn skipsins var þá í Hindisvík á Vatnsnesi. Skipið var selt til Panama 25 ágúst árið 1971, hét þar Elenore l. Selt til niðurrifs árið 1978.

 
Herðubreið á Norðfirði.                                                                                Ljósm: Björn Björnsson.

           Óánægja meðal Austfirðinga

            Herðubreið ekki sú samgöngubót sem vonast var eftir

Lúðvík Jósepsson þingmaður Austfirðinga flutti þingsályktunartillögu þess efnis að bæta samgöngur í fjórðungnum, og hljóðar hún svo,;

Mikil óánægja hefur jafnan verið ríkjandi á Austurlandi yfir því, að ferðum Herðubreiðar er þannig hagað, að ekki er nálægt þvi eins mikil samgöngubót að ferðum skipsins og ætla mætti og verið gæti. Snemma á Alþingi því, er nú situr, flutti Lúðvík Jósepsson þingsályktunartillögu þá, sem hér fer á eftir ásamt greinargerð. Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórina að hlutast til um, að strandferðaskipið Herðubreið verði látið koma við á öllum Austfjarðahöfnum í báðum leiðum um Austfirði. Greinargerð Á fundi Fjórðungsþings Austfirðinga að Egilsstöðum 10.-11. Sept, síðastliðinn var gerð svohljóðandi samþykkt, Fjórðungsþing Austfirðinga ítrekar fyrri óskir sínar um, að strandferðaskipið Herðubreið komi við á öllum Austfjarðahöfnum í báðum leiðum um Austfirði". Eins og þessi samþykkt Fjórð- ungsþingsins ber með sér, hafa Austfirðingar nokkrum sinnum óskað eftir þvi, að Herðubreið yrði látin koma við á öllum Austfjarðahöfnum í báðunn leiðum, í stað þess, sem verið hefur, að koma aðeins við á nokkrum höfnum og það í annarri leiðinni. Mikil óánægja hefur verið á Austfjörðum með ferðatilhögun Herðubreiðar, en þrátt fyrir ótal samþykktir og tilmæli til Skipaútgerðar ríkisins hefur ekki fengizt breyting á áætlunarfyrirkomulagi skipsins. 5. febr. 1953 samþykkti Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja svo fyrir, að Herðubreið yrði eingöngu höfð í Austfjarðaferðum, og var það í fullu samræmi við það, sem ráðgert hafði verið, þegar skipið upphaflega var keypt. Herðubreið átti að verða Austfjarðaskip, enda var samþykkt, að Austfjarðabátur, sem áður gekk aðallega að vetrinum á milli Austfjarðahafna, yrði lagður niður sem strandferðabátur, þegar Herðubreið yrði tekin í notkun. Eitt aðalverkefni Austfjarðabátsins var að halda uppi samgöngum milli Austfjarðahafna innbyrðis og þá sérstaklega reglubundnum ferðum milli útgerðarbæjanna á Austfjörðum og Hornafjarðar, sem var aðalvetrarvertíðarstaður Austfirðinga. Eins og áætlun Herðubreiðar hefur verið, hefur hún ekki getað haldið uppi , samgöngum milli Austfjarðahafna. Verkefni hennar hefur einvörðungu verið að flytja vörur frá Reykjavík á einstakar hafnir eystra. Af því, að skipið hefur ekki komið við á öllum höfnum eystra í báðum leiðum, hefur m. a. það leitt, að engar skipaferðir hafa verið milli útgerðarbæjanna á Austfjörðum og Hornafjarðar. Þannig hefur ekki verið hægt að fara með áælunarskipi allan veturinn á milli Neskaupstaðar og Hornafjarðar, og er auðsætt mál, hve óhentugt slíkt er fyrir Norðfirðinga, sem vetrarvertíð stunda á Hornafirði. Alþingi hefur áður hlutazt til um, að Herðubreið yrði eingöngu notuð sem Austfjarðaskip, og nú virðist jafnnauðsynlegt og þá, að Alþingi hlutist til um, að skipið verði rekið í samræmi við óskir og hagsmuni Austfirðinga.

Austurland. 11 nóvember 1955.


 

Flettingar í dag: 2257
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1196032
Samtals gestir: 83800
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 18:44:54