14.09.2016 10:57
2173. Arnar HU 1. TFAM.
Tekið verður á móti hinum nýja frystitogara Skagstrendings
hf. á Skagaströnd á Þorláksmessu. Togarinn er smíðaður í Bergen í Noregi og mun
fara í æfingaferð milli jóla og nýárs. Að sögn Sveins Ingólfssonar
framkvæmdastjóra Skagstrendings hf. kemur nýi togarinn líklega til
Skagastrandar 22. des. nk. Formleg móttökuathöfn verður á Þorláksmessu að
lokinni árlegri skötuveislu sem Skagstrendingur hf. býður bæjarbúum upp á að
venju. Skipið verður til sýnis almenningi milli kl. 14 og 17 á Þorláksmessu og
kl. 13-15 á annan í jólum. Það fer fyrstu ferðina milli jóla og nýárs, í
æfingaskyni. Búið er að ráða áhöfn að sögn Sveins. Skipið er 66 m að lengd og
kemur beint úr smiðju í Bergen til íslands. Sveinn vildi ekki tjá sig um verðið
og sagði það ekki vera endanlegt ennþá. Hins vegar kvaðst hann hafa heyrt menn
leika sér með tölur opinberlega, frá 800 og upp í 1500 milljónir. Hann sagðist
hvorki játa þeim tölum né neita. Ekki vildi hann heldur staðfesta væntanlegt
nafn skipsins, en kvað það opinbert leyndarmál að nafnið yrði Arnar HU-1.
Skipinu verður gefið nafn 18. des. nk. í Bergen. Hvort rekstur þess eigi eftir
að bera sig sagðist Sveinn ekki þora að segja um. "Þegar við sömdum um skipið
þá höfðum við rekstraráætlun sem sýndi fram á að við gætum þetta vel. Hins
vegar hefur dregið svo mikið úr afla upp á síðkastið að ef hann helst jafn
lítill og verið hefur síðustu sex mánuði þá munum við reka þetta skip með tapi
að óbreyttu. En auðvitað munum við leita allra leiða til að svo verði ekki,
sagði Sveinn.
Dagur 10 desember 1992.