17.09.2016 09:38
66. Guðmundur Þórðarson RE 70. TFBD.
KRAFTBLÖKKIN
Kraftblökkinni var komið fyrir í bómu á
afturmastri skipsins og voru stjórntækin fyrir blökkina við mastrið. Bóma var
höfð tvo metra aftan við bakka og korkaendi nótarinnar bundinn fremst á hana,
þegar bundið var á síðu og háfað, en brjóstið lá í fellingum eftir henni að
síðunni og steinateinninn bundinn aftureftir skipinu. Nótin var síðan hífð inn
með kraftblökk, þar til að hægt var að háfa.
Fyrirkomulagið reyndist ekki vel, skipið dróst
inn í nótina með afturendann. Á tímabilinu frá 23. júní til 6. júlí var kastað
átta sinnum. Fékkst síld í flestum köstunum, en þó aldrei yfir 100 tunnur í
kasti.
Í þessum köstum komu í ljós töluverðir annmarkar
á þessu fyrirkomulagi. Staðsetningin á blökkinni var slæm og erfitt að þurrka
upp með henni.
Eftir þessi átta köst var gerð breyting.
Smíðaður var nótakassi á bátadekki og blökkin færð í fremri davíðuna
stjórnborðsmegin. Stjórntæki blakkarinnar voru færð að brúnni stjórnborðsmegin.
Einnig varð að grynna poka nótarinnar.
Við þessa endurbót var þrautin leyst og hafa
aðrir byggt á reynslu þeirri er þarna fékkst. Stærð nótarinnar var 230 faðmar
að lengd og 53 faðmar á dýpt, felling 40 til 50%. Kastað var 72 sinnum. Afli
var 13.250 mál & tunnur. Úthaldsdagar voru 77. M/b Guðmundur Þórðarson var
þriðja aflahæsta skipið á sumarsíldveiðunum 1959, þrátt fyrir tafirnar við
tilraunirnar. Með þessu afreki urðu þáttaskil í sögu síldveiðanna hér við land
og byggðu aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf á þeirri reynslu, sem
fékkst með tilrauninni á m/s Guðmundi Þórðarsyni. Skipstjóri var Haraldur
Ágústsson, stýrimaður Björn Ólafur Þorfinnsson, yfirvélstjóri var Sigurður
Gunnarsson, Brettingur.
Eigandi skipsins var Baldur Guðmundsson
útgerðarmaður í Reykjavík og kostaði hann tilraunina alfarið sjálfur.
Morgunblaðið 9 ágúst 1995.