23.09.2016 11:17
2410. Vilhelm Þorsteinsson EA 11. TFCM.
Nýtt
flaggskip fiskiskipaflotans
Fjölmenni fagnaði komu nýs fjölveiðiskips Samherja h/f,
Vilhelms Þorsteinssonar EA 11, er skipið kom til heimahafnar á Akureyri á
sunnudag. Þetta er í fyrsta skipti sem Akureyringar fagna komu nýs skips til
heimahafnar frá því Baldvin Þorsteinsson EA 10, frystitogari Samherja, kom til
Akureyrar árið 1992. Anna Kristjánsdóttir, ekkja Vilhelms Þorsteinssonar,
fyrrum framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Akureyringa og skipstjóra, gaf skipinu
nafn en séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri blessaði skipið.
Þá afhenti Jarle Gjerde, forstjóri Kleven Verft skipasmíðastöðvarinnar í
Noregi, Kristjáni Vilhelmssyni, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja og eins
af aðaleigendum fé- lagsins, skipið formlega til eignar.
Vilhelm Þorsteinsson EA er eitt stærsta og glæsilegasta skip
íslenska fiskiskipaflotans. Það er 79 metra langt, 16 metra breitt, og 5.520.
kílówatta aðalvél. Það er búið bæði til nóta og flottrollsveiða og um borð er
fullkominn búnaður til frystingar og vinnslu á bolfiski, síld, loðnu og
kolmunna. Frystigeta afla í vinnslu er um 120 tonn á sólarhring og burðargeta
afla til bræðslu um 2.500 tonn. Frystilestir skipsins rúma um 650 tonn af
frosnum afla og um 1.200 tonn af fiski í kælitönkum.Íbúðir eru fyrir 28 manna
áhöfn og aðbúnaður allur eins og best verður á kosið. Ganghraði skipsins er
18,2 sjómílur og togkraftur 90 tonn við fullt átak. Áætlaður heildarkostnaður við
nýsmíðina er um 1.500 milljónir króna. Frumhönnun skipsins var í höndum
starfsmanna Samherja og Skipatækni hf. en Teiknistofa Karls G. Þorleifssonar á
Akureyri annaðist hönnun á vinnsludekki ofl. Skipasmiðastöðin Stocznia Polnocna
í Gdansk í Póllandi annaðist smíði skrokksins og hófst verkið um mitt síðasta
ár. Þar var skipinu hleypt af stokkunum í mars sl. Kleven Verft AS í Ulsteinvik
í Noregi annaðist framhald smíðinnar. Skipstjórar nýja skipsins verða tveir,
þeir Arngrímur Brynjólfsson og Sturla Einarsson en þeir hafa báðir stýrt skipum
Samherja um langt árabil. Arngrímur var áður skipstjóri á Þorsteini EA og
Baldvin Þorsteinssyni EA en Sturla var síðast skipstjóri á Akureyrinni EA.
Áætlað er að skipið haldi í sina fyrstu veiðiferð í lok næstu viku.
Morgunblaðið 5 september 2000.