24.09.2016 08:12
B. v. Skúli fógeti RE 144. LCHM.
Skúli fógeti strandar við Grindavík
Aðfaranótt mánudags laust eftir miðnætti strandaði togarinn
Skúli fógeti skamt vestan við Staðarhverfi í Grindavík, rjett austan við vík
þá, sem nefnd er Albogi. Veður var dimmt af hríð og suðaustan strekkingur.
Skipið var á heimleið frá Selvogsbanka. Skipið fylltist brátt af sjó, seig
niður að aftanverðu út af skerinu um 20 mínútum eftir að það strandaði. Þá voru
23 menn af skipshöfninni á hvalbaknum, 12 á stjórnpalli en tveir höfðu klifrað
upp í fremri reiðann. Skömmu eftir að togarinn seig niður, fóru ólög yfir
stjórnpallinn, svo þeir sem voru í fremri reiðanum sáu, að stýrishúsið fór við
og við alveg í kaf. Þrír skipverja komust af stjórnpallinum fram á hvalbakinn.
En sjór skolaði hinum brátt út. Slysavarnadeild Grindavíkur kom á strandstaðinn
í dögun, eftir nokkra leit að skipinu. Þá voru 22 menn á hvalbaknum, en tveir í
fremri reiðanum. Hafið úr flæðarmáli þá um 100 faðma. Með línubyssu tókst brátt
að koma taug út á hvalbakinn. Og björgun tókst greiðlega úr því.
Klukkan 40 min. yfir 12 á mánudagsnótt heyrði
loftskeytastöðin; hjer neyðarkall frá togaranum Skúla fógeta. Er stöðin hafði
fengið samband við togarann fékk hún að vita, að hann væri strandaður í
Grindavík, milli Járngerðarstaða og Staðarhverfis Sagt var, að stórt gat væri
komið á skipið. Jeljaveður var á, og lofttruflanir miklar. svo erfitt var um
það leyti að heyra loftskeyti. En eitthvað hafði dregið úr truflunum rjett í
þeim svifum, sem togarinn sendi neyðarkall sitt. Loftskeytastöðin sendi
samstundis út skeyti til veiðiskipa á Selvogsbanka um slys þetta, með tilmælum
um aðstoð. Það var togarinn Haukanes sem fyrstur varð til svars. Hann var að
veiðum á bánkanum. Hann fór þegar áleiðis til strandstaðarins. Loftskeytastöðin
gerði Slysavarnafjelaginu þegar aðvart. Reyndi Slysavarnafjelagið síðan að ná
talsambandi við Grindavík. En það tókst ekki.
Loftskeytastöðin sendir út talskeyti kl. 1.45 mín. á hverri
nóttu um veðurspá Veðurstofunnar. Með veðurskeytunum í þetta sinn sendi
Loftskeytastöðin út fregnina um strand Skúla fógeta. Stöðvarstjórinn í
Grindavík þurfti, vegna róðra, að vita um veðurspána að þessu sinni. Hann reis
því úr rekkju, opnaði útvarp sitt á tilteknum tíma og heyrði fregnina.
Nú er slysavarnadeildin í Grindavík kölluð saman og býr sig
til ferðar í skyndi, með björgunartæki sín, línubyssu, björgunarhringi og
annað. Formaður slysavarnadeildarinnar þar er Einar Einarsson í Krosshúsum.
Tækin tóku þeir með sjer á bíl.
Það mun hafa verið um kl. 3 um, nóttina sem björgunarliðið
lagði af stað úr Járngerðarstaðahverfinu.
En sakir dimmviðris og náttmyrkurs tókst ekki að finna togarann fyrri en
er fór að birta af degi, eða kl. að ganga sex um morguninn. Þá voru 22 menn á
hvalbaknum, en 2 í fremri reiðanum. Var nú skotið úr linubyssu út í hvalbak
togarans er upp úr stóð. Hitti skyttan hvalbakinn í öðru skoti. En línan sem
draga átti út í skipið festist á steini úti í flæðarmálinu, og tafði það
dálítið að björgun gæti byrjað. En eftir að byrjað var að draga mennina á land
af hvalbaknum gekk björgunin reiprennandi að kalla. Voru 20 komnir í land kl. 8
um morguninn. Tveir menn voru þá eftir á hvalbaknum. Var staðnæmst með
björgunina, því eigi þótt tiltækilegt að koma annari línu úr landi til þeirra
sem í reiðanum voru, heldur skyldi freista þess, að þeir kæmust úr reiðanum og
fram á hvalbakinn til þeirra sem þar voru. Þetta tókst, þegar nægilega mikið
var fallið út. Var þeim fjórum síðan bjargað í land í bjarghring, eins og
fjelögum þeirra, og var björgun þeirra lokið kl. 9. Jafnóðum og mennirnir komu
í land var þeim komið fyrir að Stað og í Móakoti. Þar beið þeirra hressing og
heit rúm. Haukanes kom á vettvang kl. að ganga 5. En enga björgnn var hægt að
framkvæma þaðan. Seinna komu þangað togarinn Geir og varðskipið Óðinn, en þá
hjelt Haukanes til Hafnarfjarðar.
Þessir
drukknuðu:
Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, til heimilis á Laufásveg
34, 31 árs. Var ekkjumaður. Lætur eftir sig 3 börn. Jakob Bjarnason 1.
vjelstjóri, fæddur 1888. Skólavörðustíg 23. Kvæntur. 5 börn. Elsta barnið,
Gunnar, drukknaði þarna með föður sínum. Hann var tvítugur. Ingvar Guðmundsson
2. vjelstj., Grettisgötu 45. Fæddur 1902. Ókvæntur. Sonur Guðm. Guðmundssonar
rennismiðs. Sigurður Sigurðsson bræðslumaður, Suðurpól 13. Fæddur 1877.
Kvæntur. Eitt barn í ómegð. Eðvarð Helgason háseti, sonur Helga Sigurðsson,
Arnargötu 10. Fæddur 1912.. Ókvæntur. Sigþór Júl. Jóhannsson háseti,
Vesturvallagötu 5. Fæddur 1901. Lætur eftir sig konu og 5 börn. Sigurður
Engilbert Magnússon háseti, sonur Magnúsar Þórðarsonar, Framnesveg 1 C.
Ókvæntur, 20 ára. Ásgeir Pjetursson háseti, sonur Pjeturs Marteinssonar.
Lindargötu 12 A. Fæddur 1906. Ókvæntur. Eðvarð Jónsson (frá Lambhól) matsveinn,
Bræðraborgarstíg 55- 30 ára. Lætur eftir sig konu og 2 böm. Guðmundur Stefánsson 2. matsveinn, Bergþórugötu 6. Fæddur
1915. Móðir hans, Ólína Hróbjartsdóttir, missti mann sinn frá 9 börnum, er Jón
forseti strandaði í Höfnum. Jón Kristjónsson kyndari. Skólavörðustíg 26. sonur
Kristjóns Jónssonar trjesmiðs. 20. ára, Ókvæntur. Markús Jónasson
loftskeytamaður. Vesturgötu 24. 26 ára ókvæntur.
Þessir björguðust:
Stefán Benediktsson 1. stýrim. Kristinn
Stefánsson 2. stýrim. Jón Magnússon, Njarðarg. 41. Matthías Jochumsson, Öldug.
17. Mikkel Guðmundsson Laugav. 27. Ingólfur Gíslason, Eystri Skála, Eyjafj.
Guðjón Marteinsson, Amtmannsstíg 4. Guðmundur Sigurðsson, Bókhlöðustíg 6. Arnór
Sigmundsson, Vitastíg 9. Ásmundur Jónsson, Hverfisg. 58. Halldór Magnússon, Hringbraut
190. Ragnar Marteinsson, Meiri-Tungu, Holtum. Sigursveinn Sveinsson. Fossi,
Mýrdal. Kristján Magnússon, Efri-Hömrum. Ísleifur Ólafsson, Grettisgötu 22.
Árni Þorsteinsson. Keflavík. Hallmann Sigurðsson, Lambhúsum, Garðahr. Hjalti
Jónsson. Lokastíg 19. Ingvar Guðmundsson, Þjóðólfshaga. Ólafur Marteinsson.
Árbæjarhjálegu. Magnús Þorvarðarson, Bragagötu 22. Lúðvík Vilhjálmsson,
Hverfisgötu 49. Sólberg Eiríksson, Hverfisg. 99. Sæmundur Auðunnsson Minni Vatnsleysu.
Togarinn Skúli fógeti var byggður fyrir Alliance í Beverley
í Englandi árið 1920. Hann var 348 brúttó tonn, hið vandaðasta skip. Þorsteinn
heitinn Þorsteinsson hafði verið skipstjóri á togaranum ein 5 ár, tók við
skipstjórn af bróður sínum, Gísla Þorsteinssyni, sem nú er skipstjóri á
Skeljung.
Skúli fógeti mun vera 10 eða 11. íslenski togarinn sem
farist hefir síðan Leifur heppni fórst í febrúar veðrinu mikla 1925.
Morgunblaðið 11 apríl 1933.