30.09.2016 07:19
151. María Júlía. TFLB.
Björgunar og varðskipið María Júlía var smíðuð hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1950. Smíðanúmer 793. Eik 138 brl. 470 ha. Petters díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 25 mars árið 1950. Skipið var selt 15 febrúar árið 1969, Skildi h/f á Patreksfirði, hét María Júlía BA 36. Skipið var endurmælt árið 1969, mældist þá 105 brl. Ný vél (1972) 580 ha. Cummings díesel vél. Árið 1975 fór fram stórviðgerð á skipinu, var endurmælt og mældist þá 108 brl. 21 maí árið 1982 var skráður eigandi, Vaskur h/f á Tálknafirði. Selt 23 janúar árið 1985, Þórsbergi h/f á Tálknafirði. María Júlía var tekin af Íslenskri skipaskrá 31 október árið 2014.
María Júlía leigð
María Júlía til Húsavíkur?
María Júlía hefur legið Ísafjarðarhöfn um árabil og Jón segir að starfsmenn safnsins hafi verulegar áhyggjur af henni í höfninni og að safnið treysti sér ekki til að bera ábyrgð á henni. Viðgerð á skipinu myndi kosta verulegt fé, eitthvað upp undir 200 milljónir króna að sögn Jóns. "Ef hún fær þá umönnun sem hún á skilið, þá skiptir ekki máli hvar það verður gert, en vissulega hefði ég kosið hún yrði áfram á Vestfjörðum," segir Jón. María Júlía er nátengd sögu Vestfjarða. Það hafði lengi verið baráttumál sjómanna, slysavarnafólks og fleiri á Vestfjörðum að fá björgunarskip fyrir þennan landshluta. Má segja að fyrstu krónurnar sem söfnuðust til smíða á skipi því sem í fyllingu tímans hlaut nafnið María Júlía, hafi verið á Patreksfirði. Það var þegar sr. Einar Sturlaugsson hvatti til söfnunar á björgunarskútu fyrir Vestfirði í guðþjónustu í Patrekskirkju árið 1933.
Þetta var upphafið, en það var ekki fyrr en 17 árum síðar að draumur sr. Einars varð að veruleika. Í Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1950 segir svo um jómfrúarsiglingu Maríu Júlíu til Vestfjarða: "Á Vestfjörðum var skipinu fagnað á hverri höfn og því búin hin prýðilegasta móttaka. Með í för vestur var forseti Slysavarnarfélagsins og fulltrúar slysavarnardeildanna á Vestfjörðum. Er skipið fór fram hjá Bjargtöngum afhenti Þórður Jónsson frá Hvallátrum forseta Slysavarnarfélagsins kr. 1000,00 gjöf í minningarsjóð um Gest Jónsson bróður hans frá foreldrum Gests, systkinum og öðrum vandamönnum, en tilgangur sjóðsins skyldi vera að verðlauna skipverja á "Maríu Júlíu" fyrir björgunarafrek".
Fleiri Vestfirðingar lögðu fram mikið fé til skipsins, en stærst var þó gjöf hjónanna Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundar Br. Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði, sem árið 1937 gáfu mestallar eigur sínar í björgunarskútusjóð. Það þótti því vel við hæfi, þegar skipið var loks komið til landsins, að nefna það eftir Maríu Júlíu.
bb.is 29 apríl 2016.