30.09.2016 07:19

151. María Júlía. TFLB.

Björgunar og varðskipið María Júlía var smíðuð hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1950. Smíðanúmer 793. Eik 138 brl. 470 ha. Petters díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 25 mars árið 1950. Skipið var selt 15 febrúar árið 1969, Skildi h/f á Patreksfirði, hét María Júlía BA 36. Skipið var endurmælt árið 1969, mældist þá 105 brl. Ný vél (1972) 580 ha. Cummings díesel vél. Árið 1975 fór fram stórviðgerð á skipinu, var endurmælt og mældist þá 108 brl. 21 maí árið 1982 var skráður eigandi, Vaskur h/f á Tálknafirði. Selt 23 janúar árið 1985, Þórsbergi h/f á Tálknafirði. María Júlía var tekin af Íslenskri skipaskrá 31 október árið 2014.

 
Björgunar og varðskipið María Júlía.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
María Júlía. Líkan Gríms Karlssonar.                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
María Júlía BA 36 við bryggju í Bolungarvík.                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 29 júlí 2007.
 
María Júlía BA 36 í höfn á Ísafirði árið 2013.                                                                      (C) bb.is

                   María Júlía leigð

Árið 1950 leigði Landhelgisgæsla Íslands Maríu Júlíu af Slysavarnarfélagi Íslands. Hún var smíðuð í Frederikssund í Danmörku það ár og var ætluð til landhelgisgæslu, björgunarstarfa, bátagæslu, fiski og hafrannsókna. Skipið var í notkun Landhelgisgæslunnar í 19 ár og var að lokum selt til Patreksfjarðar árið 1969 og breytt í fiskiskip.
Heimild; LHG.

          María Júlía til Húsavíkur?

Byggðasafn Vestfjarða hefur sent fyrirspurn til Norðursiglingar á Húsavík um að fyrirtækið taki við Maríu Júlíu BA og geri skipið upp. Að sögn Jóns Sigurpálssonar, forstöðumanns Byggðasafnsins, er málið á umræðustigi. "Hugmyndin er þá að Norðursigling eignist skipið og geri það upp," segir Jón sem telur fullreynt að það verði gert upp á vegum Vestfirðinga. María Júlía er fyrsta björgunarskúta Vestfirðinga og á sér glæsta sögu sem slík, en ekki síður úr landhelgisstríðinu 1958 sem einn af varðbátunum í baráttu um yfirráð Íslendinga yfir fiskinum í sjónum í kringum landið. Byggðasafnið á Maríu Júlíu ásamt Minjasafni Egils Ólafssonar á Hnjóti.
 María Júlía hefur legið Ísafjarðarhöfn um árabil og Jón segir að starfsmenn safnsins hafi verulegar áhyggjur af henni í höfninni og að safnið treysti sér ekki til að bera ábyrgð á henni. Viðgerð á skipinu myndi kosta verulegt fé, eitthvað upp undir 200 milljónir króna að sögn Jóns. "Ef hún fær þá umönnun sem hún á skilið, þá skiptir ekki máli hvar það verður gert, en vissulega hefði ég kosið hún yrði áfram á Vestfjörðum," segir Jón.
 María Júlía er nátengd sögu Vestfjarða. Það hafði lengi verið baráttumál sjómanna, slysavarnafólks og fleiri á Vestfjörðum að fá björgunarskip fyrir þennan landshluta. Má segja að fyrstu krónurnar sem söfnuðust til smíða á skipi því sem í fyllingu tímans hlaut nafnið María Júlía, hafi verið á Patreksfirði. Það var þegar sr. Einar Sturlaugsson hvatti til söfnunar á björgunarskútu fyrir Vestfirði í guðþjónustu í Patrekskirkju árið 1933.
 Þetta var upphafið, en það var ekki fyrr en 17 árum síðar að draumur sr. Einars varð að veruleika. Í Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1950 segir svo um jómfrúarsiglingu Maríu Júlíu til Vestfjarða: "Á Vestfjörðum var skipinu fagnað á hverri höfn og því búin hin prýðilegasta móttaka. Með í för vestur var forseti Slysavarnarfélagsins og fulltrúar slysavarnardeildanna á Vestfjörðum. Er skipið fór fram hjá Bjargtöngum afhenti Þórður Jónsson frá Hvallátrum forseta Slysavarnarfélagsins kr. 1000,00 gjöf í minningarsjóð um Gest Jónsson bróður hans frá foreldrum Gests, systkinum og öðrum vandamönnum, en tilgangur sjóðsins skyldi vera að verðlauna skipverja á "Maríu Júlíu" fyrir björgunarafrek".
 
Fleiri Vestfirðingar lögðu fram mikið fé til skipsins, en stærst var þó gjöf hjónanna Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundar Br. Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði, sem árið 1937 gáfu mestallar eigur sínar í björgunarskútusjóð. Það þótti því vel við hæfi, þegar skipið var loks komið til landsins, að nefna það eftir Maríu Júlíu. 

bb.is 29 apríl 2016.

Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1192960
Samtals gestir: 83716
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 10:37:34